Ferill 121. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 122  —  121. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.


Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra að meta hvort og hvernig unnt sé að veita sveitarfélögum heimild til að innheimta umhverfisgjöld. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um málið á vorþingi 2021.

Greinargerð.

    Sambærilegar þingsályktunartillögur voru áður fluttar á 139., 140., 148., 149. og 150. löggjafarþingi (64. mál) en voru ekki afgreiddar.
    Víða um hinn vestræna heim hefur á undanförnum árum þeirri skoðun aukist fylgi að umhverfisvitund byrji í nærsamfélaginu. Slík samfélagsvitund sé nauðsynleg þar svo að hún megi verða að því afli sem fær samfélög til að breyta um stefnu í hinum mikilvæga málaflokki sem umhverfismál eru.
    Margar leiðir hafa verið farnar erlendis til að auka vitund fólks um umhverfisþætti. Þar má nefna flokkun sorps, takmarkanir á bílaumferð í miðborgum, bílastæðagjöld, mengunarskatta, gjöld sveitarfélaga á bílaeign og svo mætti lengi telja.
    Á Íslandi er þessi hugsun fremur skammt á veg komin enn sem komið er þrátt fyrir að miklar framfarir, t.d. við flokkun sorps, hafi orðið í mörgum sveitarfélögum á undanförnum árum. Gjaldtaka sveitarfélaga vegna bílaeignar þekkist hins vegar varla nema þá helst í formi bílastæðagjalda og óbeint í formi gatnagerðargjalda. Á hinn bóginn hefur sveitarfélögum ekki tekist að stemma stigu við einkabílanotkun og Ísland er meðal þeirra landa þar sem einkabílaeign er hvað mest á hvern íbúa. Almenningssamgöngur hafa að vissu leyti liðið fyrir þessa stefnu, sem og annar umhverfisvænn ferðamáti. Fyrir vikið eru nú á mjög mörgum íslenskum heimilum tveir eða fleiri bílar sem aftur krefst mikils kostnaðar hjá sveitarfélögunum, í gatnagerð, viðhaldi gatna, landnotkun og annarri mannvirkjagerð sem tengist einkabílnum. Loft- og hávaðamengun af völdum bíla er einnig ærin.
    Tilgangur tillögu þessarar er að skoðað verði hvort og hvernig hægt sé að veita sveitarfélögum heimild til að innheimta umhverfisgjöld. Þar yrði sérstaklega litið til þátta eins og gjalda vegna bílaeignar, notkunar á efnum (orkugjöfum, hreinsiefnum, spilliefnum o.s.frv.) sem hafa skaðleg áhrif á nærsamfélagið og starfsemi sem hefur neikvæð umhverfisáhrif.
    Sveitarfélögin bera ábyrgð á margvíslegri þjónustu við borgarana, sem oft tengist umhverfisþáttum og hönnun nærumhverfis. Landnotkun sem bílaeign krefst er til að mynda mun meiri eftir því sem bílar eru fleiri. Í raun var ómögulegt fyrir sveitarfélögin að bregðast við með gjaldtöku vegna þessa fram að því að umferðarlögum, nr. 50/1987, var breytt með lögum nr. 41/2017 og þeim veitt takmörkuð heimild til gjaldtöku vegna notkunar stöðureita. Enn eru slíkri gjaldtöku þó umtalsverð takmörk sett og hún skilyrðum háð. Áfram er kveðið á um þessa gjaldtökuheimild í nýjum umferðarlögum, nr. 77/2019, sem leystu af hólmi lög nr. 50/1987 og tóku gildi 1. janúar 2020.
    Stjórnvöld hafa sett sér markmið í baráttunni við loftslagsbreytingar og mörg sveitarfélög hafa sett sér stefnu um kolefnishlutleysi. Á hverjum tíma ber ráðherra umhverfis- og auðlindamála ábyrgð á framfylgd þeirrar stefnu. Því er mikilvægt að samráð milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra sé virkt í þessum efnum. Þannig má betur tryggja að markmið náist.
    Með heimild til álagningar umhverfisgjalda væru möguleikar sveitarfélaga til að bæta umhverfið og styrkja gjaldstofna sína í því skyni auknir. Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að ráðherra láti kanna möguleika til þessa í núverandi lagaumhverfi og skili Alþingi skýrslu um athugunina á vorþingi.