Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 299  —  194. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um aðgengi hreyfihamlaðra að sund- og baðstöðum.


     1.      Hvaða fyrirmæli í lögum og reglum gilda um aðgengi hreyfihamlaðra að sund- og baðstöðum og baðstöðum í náttúrunni? Hvernig er þeim fyrirmælum framfylgt?
    Aðgengi að mannvirkjum fellur undir lög nr. 160/2010, um mannvirki, sem eru á málefnasviði félagsmálaráðuneytis. Hollustuhættir, þar á meðal öryggismál þeim tengd, falla hins vegar undir málefnasvið umhverfis- og auðlindaráðherra. Reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum er sett á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Reglugerðin gildir m.a. um aðbúnað gesta og öryggi og gildir um alla sund- og baðstaði sem almenningur hefur aðgang að. Reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni er sett á grundvelli sömu laga. Markmið þeirrar reglugerðar er að stuðla að öryggi notenda og bættum hollustuháttum á baðstöðum í náttúrunni. Öryggisreglur um baðstaði í náttúrunni skulu taka mið af öryggisreglum reglugerðar nr. 814/2010 eins og við á hverju sinni. Í öryggishandbók um sund- og baðstaði 1 er fjallað sérstaklega um öryggi sundgesta, m.a. hreyfihamlaðra og aldraðra. Varðandi hreyfihamlað fólk er í öryggishandbókinni m.a. kveðið á um að mikilvægt sé að sund- og baðstaðir hafi lyftu sem hjálpartæki til þess að koma einstaklingi í laugina sem þarf slíkt hjálpartæki. Einnig er kveðið á um mikilvægi þess að allar gönguleiðir séu hindrunarlausar og að allar mikilvægar merkingar séu það stórar og skýrar að allir geti séð þær.
    Á sund- og baðstöðum skal, skv. 5. málsl. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 814/2010, sjá til þess að aðgengi fatlaðra sé samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum, þ.e. mannvirkjalögum og byggingareglugerð nr. 112/2012, sem eru eins og áður segir á málefnasviði félagsmálaráðuneytis. Heilbrigðisnefnd, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hefur eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum og reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni. Þá skulu sund- og baðstaðir og baðstaðir í náttúrunni, sem falla undir 1. og 2. flokk samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni, hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar og eru háðir eftirliti hennar.

     2.      Hvaða staðir teljast vera baðstaðir í náttúrunni?
    Í 3. gr. reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni er baðstaður í náttúrunni skilgreindur á eftirfarandi hátt: „Náttúrulaug, afþreyingarlaug eða baðströnd sem eru notuð til baða af almenningi og vatn er ómeðhöndlað af sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Til baðstaðar telst einnig búnings- og salernisaðstaða og önnur aðstaða fyrir baðgesti sé hún til staðar.“
                             

     3.      Hvaða staðir teljast til sund- og baðstaða?
    Í 2. gr. reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum eru sund- og baðstaðir skilgreindir á eftirfarandi hátt: „Hvers konar sundlaugar úti sem inni, setlaugar, iðjulaugar, kennslulaugar, varmalaugar, endurhæfingarlaugar, barnalaugar, busllaugar, köld ker, laugar á hótelum, sumardvalarstöðum og baðstofur.“

     4.      Er heimilt að veita undanþágur um aðgengi hreyfihamlaðra að sund- og baðstöðum eða baðstöðum í náttúrunni? Ef svo er, á hvaða grundvelli hvílir sú heimild?
    Vísað er til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar þar sem fram kemur að aðgengismál falla undir málefnasvið félagsmálaráðuneytis.

     5.      Í hversu mörgum tilfellum á síðastliðnum fimm árum hafa heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga gefið sund- og baðstöðum og baðstöðum í náttúrunni frest til úrbóta varðandi aðgengi hreyfihamlaðra? Hvernig er eftirliti Umhverfisstofnunar í því sambandi háttað gagnvart heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga?
    Eins og áður sagði heyra aðgengismál undir málefnasvið félagsmálaráðuneytis. Í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, nr. 814/2010, er vísað til þeirrar löggjafar þar sem segir að aðgengi fatlaðra á sund- og baðstöðum skuli vera í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.
    Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga virðist sem engin heilbrigðisnefnd hafi gert athugasemdir varðandi aðgengi hreyfihamlaðra. Hvað varðar hins vegar aðstöðu fyrir fólk með fötlun hafa athugasemdir t.d. lotið að því þegar hliðarslár vantar beggja vegna við salerni ætluð fólki með fötlun. Tiltekið var einnig að ef eitthvað annað í umhverfi sund- og baðstaða, sem og annars staðar, er hættulegt eða ábótavant m.t.t. þess sem hollustuháttareglugerð og í þessu tilviki reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum og reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni tekur til, sama hvort það beinist að fötluðum eða ófötluðum, eru gerðar kröfur um úrbætur. Ef um alvarlegar athugasemdir er að ræða eru gerðar tafarlausar kröfur um úrbætur en annars veittur hæfilegur frestur til úrbóta.
    Umhverfisstofnun er ekki með upplýsingar um fjölda tilfella þar sem veittur var frestur til úrbóta eða gerðar athugasemdir varðandi öryggismál tengdar fólki með fötlun enda eru sund- og baðstaðir sem og baðstaðir í náttúrunni háðir eftirliti heilbrigðisnefnda. Hvað varðar eftirlit Umhverfisstofnunar gagnvart heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga er mælt fyrir um eftirlit og samræmingu heilbrigðiseftirlits í 51. og 52. gr. laga nr. 7/1998. Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laganna annast Umhverfisstofnun eftirlit með framkvæmd laganna og er stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni er undir þau falla. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að í yfirumsjón felist samræming heilbrigðiseftirlits þannig að framkvæmdin sé með sama hætti á landinu öllu. Í 1. mgr. 52. gr. laganna er kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli vinna að samræmingu heilbrigðiseftirlits í landinu og koma á samvinnu þeirra er að málum þessum starfa og skuli í slíkum tilvikum sérstaklega gæta að hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt. Stofnunin á að hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúa og veita þá ráðgjöf og þjónustu varðandi heilbrigðiseftirlit sem hún getur og aðstæður krefjast. Þá er kveðið á um að stofnunin skuli vinna að samræmingu krafna sem gerðar eru til starfsemi á sviði heilbrigðiseftirlits og að því að slíkum kröfum sé fylgt. Til þess að stuðla sem best að þessu markmiði gefur stofnunin út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um framkvæmdina sem heilbrigðisnefndum ber að fylgja.
    
     6.      Er útgáfa starfsleyfa tengd aðgengi hreyfihamlaðra að sund- og baðstöðum og baðstöðum í náttúrunni?
    Vísað er til svars við 1. og 5. tölul. fyrirspurnarinnar. Aðgengismál eru á málefnasviði félagsmálaráðuneytis. Ekki er þó útilokað að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga láti sig að einhverju leyti varða aðgengismál við eftirlit með hollustuháttum í þeim tilvikum sem þau tengjast öryggismálum sem það hefur eftirlit með.


1     ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Hollustuhaettir/Sundstadir/%c3%96ryggishandb%c3%b3k%20f yrir%20sundsta%c3%b0i%202013%20-%20Copy%20(1).pdf