Ferill 60. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 302  —  60. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um vinnustöðvar ríkisins.


     1.      Hvað líður því verkefni Byggðastofnunar að kortleggja mögulegar vinnustöðvar ríkisins eins og henni var falið samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra á þingskjali 1319 á 148. löggjafarþingi (502. mál)?
    Byggðastofnun var falið að taka saman upplýsingar um húsnæði fyrir vinnustöðvar vegna starfa án staðsetningar, líkt og kom fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra. Byggðastofnun tók upplýsingarnar saman í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga og verða þær uppfærðar reglulega.
    Störf án staðsetningar er aðgerð í stefnumótandi byggðaáætlun og er jafnframt ein af áherslum í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Aðgerðinni er ætlað stuðla að því að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki ráðuneyta og stofnana þeirra. Þannig má fjölga störfum á landsbyggðinni og stækka það mengi sem stjórnendur á höfuðborgarsvæðinu hafa úr að velja við val á starfsfólki. Ráðuneytum og stofnunum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið falið að skilgreina hvaða störf geta verið án sérstakrar staðsetningar þannig að þau megi vinna hvar sem er á landinu.

     2.      Kæmi til greina að setja upp sambærilegar vinnustöðvar í ytri hverfum höfuðborgarsvæðisins þar sem starfsfólk stofnana gæti sinnt fjarvinnu nálægt heimili sínu?
    Slíkt væri ekki í samræmi við þær hugmyndir sem lágu til grundvallar verkefninu um störf án staðsetningar, þ.e. að fjölga störfum á landsbyggðinni, og því ólíklegt að það yrði gert í því samhengi. Ekkert kemur þó í veg fyrir að sveitarfélög og einstakar stofnanir ríkisins með starfsemi á höfuðborgarsvæðinu skipuleggi starfsemi sína þannig að komið verði upp starfsaðstöðu annars staðar en í meginstarfsstöð. Það gæti haft jákvæð áhrif á flæði umferðar á svæðinu og dregið úr kolefnisspori. Með þeirri reynslu sem hlotist hefur af fjarvinnu í kórónuveirufaraldrinum hefur það sannað sig að fólk getur tileinkað sér sveigjanlegra vinnuumhverfi með því að nýta þá tækni og innviði sem til staðar eru.