Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 362  —  322. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um opinberan stuðning við nýsköpun.

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með sveigjanlegu stuðningskerfi, sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila og áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni. Markmið laganna er einnig að skýra ábyrgð, einfalda verklag og forgangsraða opinberum stuðningi og þjónustu við atvinnulífið.

2. gr.

Stofnun einkahlutafélags.

    Ráðherra skal stofna einkahlutafélag um rekstur tækniseturs.
    Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu ríkissjóðs.

3. gr.

Tilgangur félagsins.

    Tilgangur félagsins er að annast rekstur rannsóknar- og tækniseturs á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina.
    Félagið skal vera óhagnaðardrifið og ekki greiða út arð til hluthafa.
    Félagið skal bjóða upp á tæknilega aðstöðu fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina, þar á meðal aðgang að aðstöðu og sérhæfðum tækjabúnaði.
    Félagið skal veita viðskiptavinum ráðgjöf og þjónustu og vera heimilt að taka þátt í rannsóknarverkefnum ef við á.
    Félagið skal hafa yfir að ráða sérhæfðu starfsfólki og vera heimilt að gera hvers konar samninga til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt.
    Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.

4. gr.

Forræði á hlutafé ríkisins.

    Sá ráðherra er fer með eignir ríkisins skal fara með hlut ríkisins í félaginu.

5. gr.

Stofnhlutafé.

    Ráðherra er heimilt að leggja til félagsins í formi stofnfjár tækjabúnað og annan nauðsynlegan búnað.

6. gr.

Stjórn félagsins.

    Stjórn félagsins skal skipuð þremur til fimm einstaklingum. Skal val þeirra staðfest á aðalfundi ár hvert.
    Fjöldi varamanna skal ákveðinn í samþykktum félagsins.

7. gr.

Frávik frá lögum um einkahlutafélög.

    Ákvæði laga um einkahlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum. Þó gilda ákvæði 2. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna ekki um félagið.
    Upplýsingalög gilda um starfsemi félagsins.

8. gr.

Samningar ríkisins við félagið.

    Ráðherra er heimilt að gera samninga við félagið um tiltekna þjónustu við frumkvöðla, háskóla og fyrirtæki í samræmi við markmið stjórnvalda og stefnumótun í nýsköpunarmálum á hverjum tíma.

9. gr.

Heimildir ráðherra.

    Ráðherra er heimilt að gera samninga við opinbera aðila eða einkaaðila um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar.

10. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. maí 2021.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007.

11. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um byggingarvörur, nr. 114/2014:
                  a.      Orðin „Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eða annars“ í 2. mgr. 12. gr. laganna falla brott.
                  b.      Orðin „Nýsköpunarmiðstöð Íslands“ í 14. gr. falla brott.
     2.      Lög um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987: Í stað orðanna „í samráði við Nýsköpunarmiðstöð Íslands“ í 1. málsl. 1. gr. laganna kemur: „skv. 3. gr.“.
     3.      Lög um mannvirki, nr. 160/2010:
                  a.      Við 5. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, er verða 8. og 14. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því:
                      8.      að annast rannsóknir, kynningu, fræðslu og gagnasöfnun í tengslum við byggingar- og mannvirkjarannsóknir,
                      14.      að annast umsýslu samkeppnissjóðs um byggingar- og mannvirkjarannsóknir, sbr. 54. gr. a.
                  b.      Á eftir 54. gr. laganna kemur ný grein, 54. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Samkeppnissjóður.

                      Samkeppnissjóður um byggingar- og mannvirkjarannsóknir er í eigu ríkisins og ber ríkið ábyrgð á skuldbindingum hans. Sjóðurinn heyrir undir ráðherra en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast stjórn og daglega umsýslu sjóðsins, þ.m.t. stjórnsýslu og úthlutun.
                      Hlutverk sjóðsins er að styrkja byggingarrannsóknir með áherslu á nýsköpun og samfélagslegar áskoranir á sviði mannvirkjagerðar hverju sinni.
                      Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um starfsemi sjóðsins í reglugerð, svo sem um úthlutunarreglur og fagráð.
                  c.      Við 60. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Nánari reglur um starfsemi samkeppnissjóðs um byggingar- og mannvirkjarannsóknir.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þrátt fyrir 2. mgr. 10. gr. skulu Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Tækniþróunarsjóður starfa til 1. maí 2021 í samræmi við lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007.

II.

    Embætti forstjóra og önnur störf hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands skulu lögð niður 1. maí 2021.

III.

    Við niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands fer um réttindi og skyldur starfsmanna eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Um biðlaunarétt sem kann að fylgja störfum einstakra starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands gilda ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

IV.

    Þrátt fyrir 10. gr. er ráðherra heimilt að stofna félag skv. 2. gr. við gildistöku laga þessara.
    Ráðherra er heimilt að ákveða að félag skv. 1. mgr. taki við verkefnum og tækjum Efnis-, líf- og orkutækni, tækjabúnaði Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og frumkvöðlastuðningi í hátækni eigi síðar en 1. maí 2021. Félagið getur jafnframt fyrir þann tíma yfirtekið hlut Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í gildandi samningum sem og aðrar skuldbindingar vegna rannsóknarverkefna stofnunarinnar.

V.

    Eignarhlutir Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum á grundvelli 7. gr. laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, færast til ríkissjóðs við gildistöku laga þessara og skal sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins fara með hlut ríkisins í slíkum félögum.
    Að öðru leyti færast eignir, réttindi og skyldur stofnunarinnar til ráðherra nýsköpunarmála við gildistöku laga þessara nema um annað sé kveðið í lögum þessum.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Markmið þessa frumvarps er að efla stuðning við nýsköpun í landinu með einföldu verklagi, skýrri ábyrgð og sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila. Áhersla er lögð á eflingu nýsköpunar á landsvísu, stuðning við nýsköpun á sviði hátækni og rannsóknir og fræðslu í byggingariðnaði. Leitast verður við að forgangsraða verkefnum, draga úr yfirbyggingu og auka sveigjanleika þannig að opinbert fé nýtist sem best til þeirra verkefna sem það er veitt í. Þessu markmiði skal náð með eftirfarandi aðgerðum:
     *      Stofnun tækniseturs í samstarfi við háskólasamfélagið. Tæknisetrið mun byggja á grunni Efnis-, líf- og orkutækni, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og hluta Frumkvöðlaseturs hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Lagt er upp með að félagið styðji við starfsemi frumkvöðla og fyrirtækja á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina og sé vettvangur fyrir rannsóknir og þróun á þessum sviðum.
     *      Settur verður á fót verkefnasjóður um nýsköpun á landsbyggðinni. Sjóðnum er ætlað að styðja við nýsköpunarverkefni í samvinnu við landshlutasamtök, atvinnulíf og þekkingarsamfélög á viðkomandi svæðum og auka þannig slagkraft nýsköpunarverkefna sem studd eru af byggðaáætlun, sóknaráætlunum landshlutanna og öðrum áhersluverkefnum svæðanna.
     *      Mótuð verður umgjörð um stafrænar smiðjur ( e. fab-labs) og nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     *      Rannsóknum, fræðslu, upplýsingamiðlun og gagnasöfnun á sviði mannvirkjamála verður haldið áfram á grunni Rannsóknastofu byggingariðnaðarins. Í samvinnu við félagsmálaráðuneyti verður unnið að flutningi verkefna til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
     *      Settur verður á fót samkeppnissjóður byggingarrannsókna í þeim tilgangi að efla rannsóknir í greininni. Sjóðurinn er samstarfsverkefni félags- og barnamálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en verður í umsýslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
     *      Unnið verður að því að prófanir á byggingarvörum verði framkvæmdar af faggildum aðilum í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur. Þær prófanir sem forsendur eru til að framkvæma á markaði verða látnar einkaaðilum eftir.
     *      Unnið verður að aukinni samþættingu og einföldun í opinberri þjónustu við atvinnulífið. Þetta á m.a. við um mælingaþjónustu og prófanir sem krefjast flókins tækjabúnaðar og gæðastjórnunarkerfis og annan stuðning við atvinnulíf og nýsköpun.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Nýsköpun kemur við sögu á öllum sviðum samfélagsins og hún er mikilvægur þáttur í verðmætasköpun og fyrir samfélagslega velferð þjóðarinnar. Nýsköpun er því ekki aðeins grundvöllur efnahagslegrar velgengni heldur lykillinn að úrlausn stærstu viðfangsefna komandi áratuga.
    Málefni nýsköpunar ganga þvert á málaflokka og breytast samhliða þróun samfélagsins. Á sama hátt þarf stuðningsumhverfi nýsköpunar að geta þróast í skilvirku samstarfi við hagaðila, í takt við þarfir samfélagsins hverju sinni.
    Alþjóðlegar kröfur um gæði og samræmi prófana og mælinga í þágu atvinnulífs og samfélags hafa aukist á síðustu árum, m.a. vegna skuldbindinga í þágu loftslagsmála og aukinnar áherslu á öryggismál í atvinnulífi. Jafnframt er vaxandi áhersla á straumlínulögun í rekstri stofnana og fyrirtækja, skýra ábyrgð á framkvæmd verkefna og einföldun regluverks. Auk opinberra stofnana hafa einkaaðilar í auknum mæli þróað innviði og gæðaferla til að geta boðið upp á þjónustumælingar og prófanir í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur.

2.1. Stuðningur við nýsköpun.
    Á Íslandi eru aðstæður fyrir nýsköpun að mörgu leyti góðar. Hlutfall sprotafyrirtækja og vaxtarfyrirtækja (e. high-growth enterprises) er hátt í evrópskum samanburði og aðstæður fyrir frumkvöðla að ýmsu leyti góðar. Hátt hlutfall starfsmanna í einkageiranum vinnur í þekkingarstörfum og opinber stuðningur við rannsóknir og þróun í fyrirtækjum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er svipaður og gengur og gerist í öðrum Evrópuríkjum. Hærra hlutfall fyrirtækja hér á landi er nýskapandi (e. innovative) en að jafnaði í ríkjum Evrópusambandsins og öflug fyrirtæki á sviði vísinda og tækni hafa komið fram á síðustu áratugum, sbr. stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2020–2022, bls. 13–14.
    Undanfarinn áratug hafa orðið miklar breytingar á umhverfi frumkvöðla og nýsköpunar hér á landi. Talsverð aukning hefur verið í opinberum stuðningi við nýsköpun og frumkvöðlastarf og má sem dæmi nefna lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, sem samþykkt voru á Alþingi árið 2009, en í þeim felst að fyrirtæki geta fengið endurgreiðslu eða frádrátt frá álögðum tekjuskatti vegna útlagðs kostnaðar við rannsóknar- og þróunarverkefni sín sem hlotið hafa staðfestingu Rannís. Markmið laganna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Mikill vöxtur hefur verið á þessu úrræði frá því að lögin tóku gildi. Á árinu 2019 nutu 166 fyrirtæki stuðnings sem nam 3,6 milljörðum kr. vegna rekstrarársins 2018 og fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2021–2025 kveður á um stóraukin framlög í þennan málaflokk. Samkeppnissjóðir á sviði nýsköpunar hafa verið efldir á síðustu árum og þar ber hæst Tækniþróunarsjóð sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Framlög í sjóðinn meira en tvöfölduðust á árunum 2014–2016 og nýir styrkjaflokkar bættust við, þar á meðal styrkjaflokkur undir heitinu Fræ sem hefur það markmið að styðja við hugmyndir og verkefni á frumstigi. Áætluð framlög í Tækniþróunarsjóð voru um 2,3 milljarðar kr. árið 2020 en í apríl sl. var auk þess samþykkt 700 millj. kr. aukafjármögnun í sjóðinn, sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19-heimsfaraldursins. Samfara auknum framlögum í sjóðinn á undanförnum árum hefur umfang sjóðsins einnig vaxið og umsóknum fjölgað. Árið 2019 var árangurshlutfall umsókna í Tækniþróunarsjóð 12% en árið 2020 hafa 15% umsókna fengið styrk og munar þar mestu um fjölgun styrkja í styrkjaflokknum Fræ. Í takt við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs hafa stjórnvöld boðað umtalsverða aukningu framlaga í sjóðinn á næstu árum í þeim tilgangi að auka hlutfall nýrra umsókna sem fá styrk hverju sinni.
    Einkaaðilar hafa enn fremur í auknum mæli látið til sín taka í stuðningskerfi nýsköpunar. Fram hafa komið nýir sjóðir sem sérhæfa sig í fjármögnun frumkvöðla- og sprotafyrirtækja og fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sprotafyrirtækjum hafa farið vaxandi á síðustu árum. Þá hafa ýmsir einkaaðilar og óhagnaðardrifin félög stutt við nýsköpun og þjálfun frumkvöðla í gegnum ýmis námskeið, hraðla, nýsköpunarkeppnir og fleiri viðburði. Námskeið um stofnun fyrirtækja og almenn ráðgjöf er aðgengilegri en áður og óformlegar leiðir til að sækja aðstoð hafa stórbatnað, m.a. með tilkomu rafrænnar samskiptatækni og auknu tengslaneti meðal frumkvöðla. Enn fremur veita einkaaðilar í vaxandi mæli aðstoð og ráðgjöf við styrkumsóknir, einkum í erlenda sjóði sem síðan hefur átt sinn þátt í góðu brautargengi íslenskra umsókna erlendis. Frumkvöðlasetur á vegum ýmissa aðila hafa komið fram á síðustu árum og klasasamstarf hefur farið vaxandi, ýmist á vegum einkaaðila eða í samstarfi við stjórnvöld. Þá reka einkaaðilar skrifstofurými, bæði með sérhæfingu fyrir ákveðnar atvinnugreinar og almenna skrifstofuleigu til frumkvöðla og sprotafyrirtækja.
    Í samtölum við frumkvöðla og sprotafyrirtæki sem og í ýmsum greiningum hafa komið fram óskir um einfaldara stuðningskerfi og samþættingu þeirrar þjónustu sem snýr að frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum. Þetta á við um bæði umsóknir í innlenda og erlenda sjóði, svo sem rannsóknarsjóði Evrópusambandsins sem eru mikilvægur bakhjarl fyrir nýsköpun og framgang fyrirtækja hér á landi. Stór hluti umsýslu sjóðanna er hjá Rannís en einnig koma fleiri opinberir aðilar að þeim verkefnum, svo sem ráðuneyti og stofnanir á þeirra vegum, þar á meðal Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Kallað hefur verið eftir einföldun á þessu stuðningsneti og aukinni samþættingu í dreifbýli og þéttbýli. Slíkar breytingar væru til einföldunar fyrir notendur, mundu leiða til minni umsýslukostnaðar og skýrari ábyrgðar fyrir þjónustuveitendur.

2.2. Stuðningur við uppbyggingu innviða og þekkingar á sviði hátækni.
    Stuðningur við sprota og frumkvöðla hér á landi hefur þróast jafnt og þétt, bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila, þar á meðal í gegnum frumkvöðlasetur, klasa og þekkingarsetur, en engu að síður er samkvæmt greiningum þörf fyrir aukinn stuðning við innviði og tæknilega aðstöðu á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina. Þróun vöru eða þjónustu á þessu sviði kallar gjarnan á margra ára rannsóknir og þróunarstarf, mikla sérþekkingu og aðkomu „þolinmóðs“ fjármagns. Því er mikilvægt að samnýta sem best þá aðstöðu og innviði sem eru til staðar hér á landi. Jafnframt þarf að sameina krafta um innleiðingu tækninýjunga og nýta vel þann mannauð sem hefur sérþekkingu á sviði hátækni til að nýta þau tækifæri og áskoranir sem felast í hröðum tæknibreytingum og öðrum samfélagslegum áskorunum. Samnýting af þessu tagi er eitt af meginmarkmiðum Innviðasjóðs og ábendingar um markaðsbrest og mikilvægi opinbers stuðnings við fyrirtæki í rannsóknum og hátækni hafa meðal annars komið fram í greiningu á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um samþætt og skilvirkt norrænt hagkerfi fyrir nýsköpun og grænan hagvöxt (sbr. Idar Kreutzer, An integrated and effective Nordic ecosystem for innovation and green growth, Norræna ráðherranefndin, 2018, bls. 23).

2.3. Stuðningur við nýsköpunarverkefni á landsbyggðinni.
    Nokkur umræða hefur verið um að landsbyggðin beri skarðan hlut frá borði þegar kemur að úthlutunum úr samkeppnissjóðum, svo sem Tækniþróunarsjóði. Í úttekt sem gerð var að beiðni Vísinda- og tækniráðs árið 2019 var kannað hvernig styrkir til rannsókna og nýsköpunar dreifðust eftir landsvæðum á tímabilinu 2014–2018 (sbr. Daða Má Kristófersson, Framlag til rannsókna og nýsköpunar eftir landshlutum 2014–2018 – framhaldsúttekt, 2019). Skoðaðir voru ýmsir opinberir samkeppnissjóðir en einnig endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar og bein framlög til háskóla. Í úttektinni kom fram að langflestir styrkir fóru til höfuðborgarsvæðisins, í samræmi við að flestar umsóknir voru frá því svæði. Árangurshlutfall umsókna var hins vegar breytilegt eftir svæðum og náðu tilteknir landshlutar betri árangri en höfuðborgarsvæðið. Vandinn virðist því fyrst og fremst liggja í því hversu fáar umsóknir stafa frá landsbyggðinni. Hið sama á við um endurgreiðslur til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar. Þótt hér sé um afmarkaða greiningu að ræða er hún til vitnis um að umsóknir í Tækniþróunarsjóð eða endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar hjá fyrirtækjum eru ekki alltaf ákjósanleg leið fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á landsbyggðinni, heldur þarf að horfa á stuðningsumhverfið í stærra samhengi og horfa þá meðal annars til þess hvernig auka megi menntun, færni og frumkvöðlastarf um land allt og draga fram sérstöðu og tækifæri hvers og eins landshluta. Atvinnuþróun á landsbyggðinni, ekki síst í ljósi heimsfaraldurs, kallar á nýjar áherslur í atvinnuuppbyggingu svæðanna, með aukinni áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarf byggt á þekkingu, mannauði og þeim tækifærum sem til staðar eru á svæðunum. Það er því tilefni til að efla frekar opinberan stuðning við nýsköpunarstarf á landsbyggðinni, í samræmi við núverandi áherslur og aðgerðir, svo sem í gegnum byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshlutanna og aðra innviði á svæðunum.

2.4. Stuðningur við atvinnulíf og aukin krafa um samræmi við alþjóðlegar kröfur.
    Hið opinbera sinnir ýmsum verkefnum sem snerta atvinnulífið beint, þar á meðal ýmsum rannsóknum, mælingum og prófunum sem nauðsynlegt er að vinna í samræmi við kröfur í lögum og reglugerðum sem margar hverjar fela í sér samræmingu við Evrópulöggjöf á viðkomandi málefnasviði. Dæmi um slík svið eru umhverfismælingar ýmsar, svo sem loftgæðamælingar, prófanir á byggingarvörum, sem og prófanir vegna mannvirkja. Í flestum tilvikum er um að ræða kröfur sem gerðar eru í samræmdri löggjöf sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn og gildir því hér á landi. Verkefnum sem þessum hefur verið sinnt af Nýsköpunarmiðstöð Íslands en á nokkrum sviðum hefur stofnunin markvisst dregið úr þjónustu, svo sem þegar mælingar og prófanir hafa verið í boði á markaði. Fleiri slíkum verkefnum stofnunarinnar væri hægt að sinna á markaði en þó er viðbúið að ákveðin þjónusta muni ekki vera sjálfbær á einkamarkaði í fyrirsjáanlegri framtíð. Því getur, í tilteknum tilvikum, aðkoma og stuðningur hins opinbera við atvinnulíf með mælingum, vottunum og prófunum verið nauðsynleg, a.m.k. um stundarsakir.
    Faggildingar í tengslum við prófanir, mælingar og rannsóknir hafa reynst mikilvægar á síðustu árum og þá sérstaklega í tengslum við upptöku nýaðferðatilskipana Evrópusambandsins í íslenskan rétt. Nýaðferðatilskipanir varða öryggi vara sem heimilt er að markaðssetja á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins og í tilskipununum koma fram lágmarkskröfur um öryggi, heilsu og umhverfi sem vörurnar þurfa að uppfylla. Um nákvæmari atriði tiltekinna vara er vísað til viðeigandi samræmdra evrópskra staðla sem einnig koma fram í íslenskum stöðlum sem innleiða evrópsku staðlana (ÍST EN). Meginreglan í nýaðferðatilskipunum er að framleiðendur vara bera ábyrgð á öryggi þeirra. Framleiðendur sem vilja markaðssetja vörur sínar á innri markaðnum þurfa því að sýna fram á að þær uppfylli kröfur sem fram koma í tilskipunum og viðeigandi samræmdum stöðlum. Það er gert með samræmismati og að því búnu er framleiðanda heimilt að merkja vöruna með CE-merki og markaðssetja hana á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Samræmismat fer fram með vottunum, skoðunum, prófunum og rannsóknum og skal það gert af faggiltum aðilum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur m.a. sinnt prófunum á byggingarvörum sem framleiddar eru hér á landi en þar sem prófunarstofa miðstöðvarinnar hefur ekki hlotið faggildingu hafa hennar ekki getað verið grundvöllur markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Um faggildingu gilda lög um faggildingu o.fl., nr. 24/2006. Skv. 1. tölul. 2. gr. laganna felur faggilding í sér formlega viðurkenningu þar til bærs stjórnvalds á því að aðili sé hæfur til þess að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat. Faggildingarsvið Hugverkastofu annast faggildingu samræmismatsaðila hér á landi fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og unnið er að því um þessar mundir að sviðið afli sér jafningjamats. Það mun gera að verkum að faggildingar þess verði alþjóðlega viðurkenndar. Öflugt umhverfi faggildingar er hluti af mikilvægum innviðum sem stjórnvöld bera ábyrgð á að séu til staðar fyrir atvinnulífið. Fyrirkomulag faggildingar tryggir að þeir sem vinna að rannsóknum, skoðunum, prófunum og mælingum séu hæfir til að vinna þau verkefni á faglegan og samræmdan hátt. Faggilding er viðvarandi verkefni þar sem faggiltir aðilar sæta reglulegum úttektum faggildingarstjórnvaldsins. Faggilding eykur þannig fagmennsku og öryggi í framangreindum verkefnum og samræmt verklag og mikilvægt er að fleiri aðilar hér á landi sæki sér faggildingu til að tryggja hæfi til mælinga og prófana. Má þar sérstaklega nefna rannsóknarstofur í heilbrigðisþjónustu og prófunar- og vottunarstofur ýmiss konar sem sinna verkefnum í tengslum við samræmismat.
    Auk mælinga og prófana er mikilvægt að til staðar sé öflug gagnaöflun, upplýsingamiðlun og fræðsla innan atvinnugreina, þar á meðal í byggingariðnaði. Þá þarf að styðja við öflugar rannsóknir og tækniþróun í greininni. Meðal fagaðila í byggingariðnaði hefur verið bent á að þrátt fyrir mikilvægi rannsókna og tækniþróunar á sviðinu hafi byggingarrannsóknir til þessa fengið lágt hlutfall við úthlutun úr stærri samkeppnissjóðum hérlendis, svo sem Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði. Rætt hefur verið um að eðli þeirra rannsókna fari að mörgu leyti illa saman við markmið og úthlutunarreglur sjóðanna. Byggingarrannsóknir eru í eðli sínu þverfaglegar og markmið þeirra oft og tíðum tengd samfélagslegum áskorunum og þjóðfélagslegum ábata til lengri tíma frekar en fjárhagslegum ávinningi til einstakra fyrirtækja. Byggingageirinn tekst á við margs konar áskoranir, svo sem rakaskemmdir og hátt kolefnisfótspor, en einnig eru mikil tækifæri í greininni til umbóta og nýsköpunar, svo sem á sviði umhverfisvænna bygginga. Því er mikilvægt að styðja við rannsóknir og fræðslu hér á landi og tryggja öfluga miðlun upplýsinga á þessu sviði.
    Í þjónustumælingum og öðrum opinberum stuðningi við atvinnulífið er mikilvægt að leitast við að straumlínulaga þjónustuna, stytta boðleiðir og einfalda ferla. Þá þarf að greina áhrif hins opinbera stuðnings með reglulegu millibili og meta hvar slíks stuðnings sé helst þörf í atvinnulífinu hverju sinni.

2.5. Aðdragandi og mótun Nýsköpunarstefnu.
    Árið 2015 kom út á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins aðgerðaáætlun í þágu frumkvöðla og sprotafyrirtækja undir titlinum „Frumkvæði & framfarir“. Í þeirri áætlun voru sett fram markmið um markvissari opinbera þjónustu til stuðnings frumkvöðlastarfi og nýsköpun, þar á meðal um bætta þjónustu og einföldun stoðkerfis fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Auk kortlagningar á þjónustuþáttum var áhersla lögð á markvissari samvinnu þeirra stofnana og sjóða sem sinna stuðningi við frumkvöðla og nýsköpun.
    Í stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2017–2019 (bls. 19) var bent á nauðsyn þess að leggja mat á stuðningskerfi atvinnulífs og stofnanaumhverfi. Markmiðið var að skoða hvernig auka mætti árangur og bæta samkeppnishæfni atvinnulífs svo að það yrði í takt við það sem best þekkist í nágrannalöndum okkar.
    Í stefnunni segir:
         „Standa þarf vörð um starfsumhverfi fyrir frumkvöðla, sprotafyrirtæki og nýsköpunarstarf á Íslandi og efla samkeppnishæfni þess. Mikilvægt er að stuðningur við frumkvöðla og sprotafyrirtæki verði markviss og árangursríkur. Boðið er upp á slíka þjónustu hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rannís, atvinnuþróunarfélögum og Íslandsstofu. Leggja þarf áherslu á markvissari samvinnu þeirra stofnana og sjóða sem sinna stuðningi við frumkvöðla og nýsköpun. Samræma þarf þessa starfsemi og huga að aukinni skilvirkni.
         Einfalda þarf starfsumhverfi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem stunda nýsköpun, bæta þarf aðgengi framúrskarandi nýsköpunarfyrirtækja að erlendum mörkuðum og styðja þau við alþjóðlega sókn. Bæta þarf íslenskt stoðkerfi frumkvöðla og nýsköpunar á grundvelli samanburðar við starfsumhverfi á Norðurlöndunum.“
    Í febrúar 2018 skipaði forsætisráðherra starfshóp um endurskoðun laga um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003, en starfshópinn skipuðu fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis undir formennsku fulltrúa forsætisráðuneytisins. Verkefnishópurinn skilaði skýrslu með tillögum til ríkisstjórnar og þar kemur m.a. fram að hagaðilar hafi í samtölum bent á að þjónusta við notendur, t.d. vísindamenn, frumkvöðla, sprotafyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki, væri brotakennd og nauðsynlegt að sníða hana betur að þeirra þörfum. Bent var á mikilvægi þess að tengja betur þjónustustofnanir eins og Rannís, sem hefur umsjón með sjóðum, og aðrar stofnanir á sviði rannsókna og nýsköpunar með þarfir notenda í huga. Í skýrslu verkefnishópsins var fjallað um áform um niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í núverandi mynd og færslu verkefna í nýjan farveg og nýtt rekstrarform sem hópurinn taldi geta leitt til aukinnar samþættingar og skilvirkari stuðnings við nýsköpun.
    Í Nýsköpunarheitum Viðskiptaráðs, sem kynnt voru í janúar 2019, var bent á að tækifæri væru til að hagræða nokkuð í rekstri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands þar sem hluti af starfi hennar væri að sinna sömu verkefnum og einkaaðilar í vistkerfi nýsköpunar hér á landi, einkum á sviði stoðþjónustu og fræðslu. Í nýsköpunarstefnu Samtaka iðnaðarins frá árinu 2019 var einnig kallað eftir einföldun á stuðningskerfi nýsköpunar og forgangsröðun fjármuna.
    Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var unnið að mótun heildstæðrar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem kynnt var í október 2019. Stefnumótunin var á forræði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en fór fram í víðtæku samstarfi stjórnvalda, atvinnulífs og vísinda- og menntasamfélags. Sérstök verkefnisstjórn hélt utan um stefnumótunarvinnuna auk stýrihóps sem skipaður var fulltrúum þingflokka sem eiga sæti á Alþingi, fulltrúum atvinnulífsins, háskólanna og Vísinda- og tækniráðs. Í nýsköpunarstefnunni er mörkuð sýn til ársins 2030 um nýsköpunarlandið Ísland sem samfélag þar sem hugarfar, fjármagn, markaðsaðgengi, umgjörð og mannauður styðji við nýsköpun sem grundvöll menningarlegra og efnahagslegra gæða. Í stefnunni komu einnig fram áherslur um að opinbert stuðningsumhverfi nýsköpunar þyrfti að vera skilvirkt og verkaskipting skýr. Eitt af leiðarljósum stefnunnar var að fjármagni yrði beint í rannsóknir og frumkvöðla frekar en umsýslu og yfirbyggingu og sett fram tillaga um að unnið væri að endurskoðun og stefnumótun um starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í þeim tilgangi að skilgreina hlutverk hennar og áherslur innan stuðningskerfis nýsköpunar. Frá útgáfu nýsköpunarstefnunnar hefur verið unnið að því að koma tillögum og áherslum hennar í framkvæmd, m.a. endurskoðun á starfsemi opinberra stofnana á sviði nýsköpunar.
    Í febrúar 2020 kynnti ráðherra áform um að Nýsköpunarmiðstöðin yrði lögð niður og þeim verkefnum stofnunarinnar sem haldið yrði áfram með yrði fundinn farvegur í nýju rekstrarformi. Í þeim tilgangi skipaði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra stýrihóp og þrjá starfshópa um tiltekin verkefni, þ.e. Rannsóknastofu byggingariðnaðarins, Nýsköpunargarða og Nýsköpun á landsvísu. Einnig fór fram greiningarvinna um framhald verkefna Efnagreiningar. Vinnuhóparnir hafa átt samráð við fjölda haghafa og unnið greiningarvinnu ásamt því að kortleggja framtíðarskipulag og staðsetningu verkefna. Niðurstöður vinnuhópanna eru leiðarljós þeirrar endurskipulagningar sem kynnt er í frumvarpi þessu.

2.6. Nýsköpunarmiðstöð.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands er sérstök stofnun sem heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og var sett á fót árið 2007 með lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007. Þá voru Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun Íslands sameinaðar í eina stofnun sem fékk enn fremur hlutverk á sviði stuðnings við frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki.
    Tilgangur með stofnun Nýsköpunarmiðstöðvarinnar á sínum tíma var að sameina aðkomu iðnaðarráðuneytisins þáverandi að tæknirannsóknum, nýsköpun og atvinnuþróun í eina stofnun í þeim tilgangi að samræma og efla sóknarkraft og tryggja hámarksárangur starfseminnar.
    Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hafði áður starfað á grundvelli laga um rannsóknir í þágu atvinnuvega, nr. 64/1965. Verkefni stofnunarinnar voru að stunda sjálfstæðar rannsóknir í byggingatækni, fylgjast með nýjungum í byggingariðnaði og laga þær að íslenskum staðháttum. Einnig skyldi stofnunin sinna hagnýtum jarðfræðirannsóknum, vatnsvirkjarannsóknum, miðlun upplýsinga um byggingarfræðileg efni, aðstoð við eftirlit með byggingarefnum og nauðsynlegri rannsóknarþjónustu í þeim greinum sem stofnunin starfaði við. Iðntæknistofnun Íslands hafði starfað frá árinu 1978 og sinnti fjölbreyttum verkefnum, svo sem stuðningi við nýsköpun og frumkvöðla, efnagreiningum og matvælarannsóknum ásamt umhverfisrannsóknum, prófunum ýmiss konar og ráðgjöf. Með sameiningu Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar varð til aðili sem hafði margvíslegu hlutverki að gegna í tæknirannsóknum og nýsköpun.

2.6.1. Starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands nú.
    Á grundvelli 2. gr. laga nr. 75/2007 er hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði í landinu með því að miðla þekkingu og veita stuðningsþjónustu fyrir frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og stunda tæknirannsóknir, þróun, greiningar, prófanir, mælingar og vottanir.
    Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna felur þjónusta Nýsköpunarmiðstöðvar við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki í sér að veita upplýsingar og leiðsögn er varðar stofnun og rekstur sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og veita í því samhengi fjölbreytta þjónustu og reka stuðningsverkefni sem hvetja til vöruþróunar, nýsköpunar, hagnýtingar hönnunar og mótunar viðskiptahugmynda. Skv. 2. mgr. 4. gr. laganna skal stofnunin sinna nánar tilgreindum verkefnum sem eru: að eiga frumkvæði að samstarfi þeirra opinberu aðila sem mynda stoðkerfi nýsköpunar fyrir atvinnulífið, móta sértæk stuðningsverkefni sem stuðla að bættum rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja og framgangi nýrra viðskiptahugmynda sem spretta af hugkvæmni einstaklinga eða rannsóknum og þróunarstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja, starfrækja frumkvöðlasetur, annast miðlun hvers konar hagnýtrar þekkingar um stofnun og rekstur fyrirtækja, auka veg hönnunar í íslensku efnahagslífi og vekja fyrirtæki til vitundar um mikilvægi hönnunar í nýsköpun og vexti, vera tengiliður við þá sem stunda grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir er leitt geta til nýsköpunar í atvinnulífinu, efla samstarf á milli rannsóknastofnana, háskóla, fyrirtækja, fjárfesta og atvinnuþróunarfélaga, miðla þekkingu um innlendar og erlendar tækninýjungar og aðgerðir sem auka framleiðni og annast samstarf við innlendar og erlendar stofnanir sem gegna sambærilegu hlutverki.
    Í 5. gr. laganna kemur fram að rannsóknastarfsemi á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar skuli starfrækt undir heitinu Íslenskar tæknirannsóknir. Verkefni þeirra er að sinna tæknirannsóknum sem leitt geta til aukinnar nýsköpunar, aukinnar framleiðni og betri samkeppnisstöðu atvinnulífsins, tækniþróun, tækniyfirfærslu og aðlögun tækni í nánu samstarfi við fyrirtæki og atvinnugreinar, hafa yfir að ráða aðstöðu og færni til að takast á við rannsóknir á nýjum fræðasviðum sem hafa eða munu hafa afgerandi áhrif á framþróun íslensks atvinnulífs og sinna ráðgjöf, mælingum, prófunum og vottunarstarfsemi. Innan Nýsköpunarmiðstöðvar hefur ekki verið starfrækt svið undir þessu nafni en starfsemin skiptist í fjögur meginsvið auk miðlægs stoðsviðs. Þessi svið eru Efnis-, líf og orkutækni, Rannsóknastofa byggingariðnaðarins, Efnagreiningar og Frumkvöðlar og fyrirtæki.
    Skv. 6. gr. laganna skal vera starfandi ráðgjafarnefnd við Nýsköpunarmiðstöð og hlutverk hennar er að vera ráðherra og forstjóra til ráðgjafar um fagleg málefni sem tengjast stefnumótun í tæknirannsóknum. Ráðgjafarnefndin hefur ekki verið virk undanfarin ár.
    Þá var í bráðabirgðaákvæði með lögunum lagt fyrir iðnaðarráðuneytið að stofna starfshóp sem ætlað var að endurskoða rekstrarform Nýsköpunarmiðstöðvar fyrir árslok 2009, sem varð hins vegar ekki raunin.

Núverandi skipurit Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2.6.1.1. Efnis-, líf og orkutækni.
    Starfsemi Efnis-, líf- og orkutækni samanstendur aðallega af tæknirannsóknum og þróun og rannsóknarstuðningi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á tæknisviði. Efnis-, líf- og orkutækni sinnir ýmsum verkefnum sem varða t.d. hringrásarhagkerfið, umhverfislausnir og fjórðu iðnbyltinguna. Sviðið tengir einnig aðila, ráðleggur um sjóði til að sækja styrki í, miðlar sérþekkingu og veitir ráðgjöf, aðstöðu og aðgang að tækjabúnaði í innlendum og erlendum samstarfsverkefnum. Starfsmenn sviðsins vinna jafnframt með ýmsum framleiðslu- og orkufyrirtækjum að verkefnum sem tengjast efnaferlum á iðnaðarskala, bættri orku- og hráefnanýtingu í iðnaði, heilbrigðistækni, líftækni, umhverfisrannsóknum, sjálfvirkni og orkutækni. Einnig er mikil áhersla lögð á hagnýtar rannsóknir, þróun og nýsköpun í efnistækni, svo sem rannsóknir á tæringu málma og tæringarvörnum, rannsóknir í örtækni, efnagreiningartækni og ljóstækni.
    Í gegnum Efnis-, líf- og orkutækni hefur Nýsköpunarmiðstöð tekið þátt í ýmsum rannsóknarverkefnum, bæði innlendum og erlendum, þar á meðal verkefnum sem studd eru af áætlunum Evrópusambandsins um rannsóknir og nýsköpun. Í því samstarfi skiptir miklu sú aðstaða, tækjabúnaður og sérþekking sem þar hefur verið til staðar.

2.6.1.2. Rannsóknastofa byggingariðnaðarins.
    Rannsóknastofa byggingariðnaðarins (hér eftir Rb) sinnir verkefnum á sviði húsbyggingartækni, steinsteyputækni, veg- og jarðtækni og einnig prófun og vottun byggingarframleiðslu.
    Í húsbyggingartækni hefur verið lögð áhersla á rannsóknir á burðarþoli og efnistækni byggingarefna en auk þess á ráðgjöf og útgáfu fræðsluefnis, svokölluð Rb-blöð sem innihalda tæknilegar upplýsingar varðandi viðhald, hönnun og byggingu mannvirkja og fræðslu um niðurstöður rannsókna hjá stofnuninni. Rannsóknirnar hafa m.a. beinst að efniseiginleikum og þróun umhverfisvænnar steypu og orsökum rakaskemmda í mannvirkjum. Nýsköpunarmiðstöðin hefur leitt samstarfshóp undir heitinu Betri byggingar og samstarf hefur verið við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík um stundakennslu og verklega þjálfun stúdenta.
    Prófunum og vottunum á byggingarvörum hefur verið sinnt á grundvelli laga um byggingarvörur, nr. 114/2014, sem heyra undir félagsmálaráðuneytið. Prófanir og vottanir tengjast mati á samræmi byggingarframleiðslu við kröfur byggingarreglugerðar og samhæfða evrópska staðla sem eru forsenda fyrir markaðssetningu byggingarvöru á innri markaði Evrópu. Rannsóknastofa byggingariðnaðarins er hins vegar ekki faggilt prófunarstofa og prófanir Nýsköpunarmiðstöðvarinnar geta því ekki nýst íslenskum fyrirtækjum til markaðssóknar á alþjóðlegum markaði. Á síðustu árum hefur Rb í vaxandi mæli dregið sig úr prófunum á byggingarvörum, að hluta til vegna þess að fleiri aðilar á markaði hafa sett upp gæðakerfi og tekið að sér prófanir. Enginn íslenskur aðili hefur þó verið tilkynntur til Evrópusambandsins sem slíkur samræmismatsaðili eða hlotið faggildingu fyrir prófanir á byggingarvörum.

2.6.1.3. Efnagreiningar.
    Efnagreiningar hafa sinnt margþættu hlutverki á sviði umhverfisefnafræðilegra og iðnefnafræðilegra verkefna í samstarfi við einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir, háskólasamfélag og sveitarfélög. Í flestum tilfellum er um þjónustuverkefni að ræða sem hafa m.a. falist í verkefnisstjórnun, efnagreiningum, ráðgjöf, úrvinnslu gagna, túlkun og skýrslugerð. Verkefnin hafa tengsl við mörg sérhæfð mælisvið, svo sem umhverfisvöktun, mengunarmælingar, vöktun á lífríki í hafi og vötnum auk tilfallandi mælinga af ýmsu tagi. Þá framkvæmir deildin mælingar á loftgæðum fyrir ýmsa aðila, m.a. í tengslum við alþjóðlega samvinnu um loftgæðamælingar sem heyra undir málefnasvið umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Stærstu kaupendur þjónustu Efnagreininga eru stóriðjufyrirtæki, svo sem álver, en einnig stofnanir á sviði landbúnaðar og loftslagsmála, auk einkafyrirtækja sem stunda rannsóknir. Þá hafa Efnagreiningar verið í samstarfi við sprotafyrirtæki á sviði efnafræði og eðlisfræði.
    Þjónustumælingar Efnagreininga byggjast á áralangri reynslu og sérfræðiþekkingu starfsmanna á sviðinu. Alþjóðleg gæðastjórnunarkerfi hafa ekki verið innleidd á sviðinu og ekki er til staðar faggilding fyrir prófanir eða mælingar. Á grundvelli svokallaðrar loftgæðatilskipunar, þ.e. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/EB um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu, ber EES-ríkjunum að starfrækja landsbundna tilvísunarrannsóknarstofu (e. national reference laboratory). Tilskipunin var innleidd hér á landi með lögum nr. 144/2013, um breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ísland hefur ekki formlega tilnefnt rannsóknarstofu fyrir þetta hlutverk en Efnagreiningar hafa sinnt því í samstarfi við Umhverfisstofnun.

2.6.1.4. Frumkvöðlar og fyrirtæki.
    Hluti af starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hefur falist í stuðningi við frumkvöðla og sprotafyrirtæki, m.a. í gegnum fræðslu og ráðgjöf, starfsaðstöðu og aðgang að sérfræðingum. Megináhersla sviðsins Frumkvöðlar og fyrirtæki er á frumkvöðla og þjónustu við þá, fræðslu, námskeiðahald og vinnustofur sem tengjast t.d. þróun viðskiptahugmynda og gerð viðskiptaáætlana. Þá er veitt aðstoð við þætti sem snúa að stofnun fyrirtækja og viðskiptaþróun ásamt því að unnið er að sérstökum verkefnum fyrir tiltekna hópa eða tiltekin svæði, svo sem verkefnið Frumkvæði á vegum Vinnumálastofnunar fyrir einstaklinga í atvinnuleit og umsýsla tiltekinna verkefna í aðgerðaáætlun byggðaáætlunar. Þá rekur Nýsköpunarmiðstöð sviðið frumkvöðlasetur sem býður upp á tengslanet og faglega ráðgjöf fyrir frumkvöðla og félög af ýmsu tagi. Frumkvöðlar og fyrirtæki veita jafnframt fyrirtækjum aðstoð, svo sem við markaðssetningu, fjármögnun og til að auka nýsköpunargetu sínu. Sviðið sinnir einnig nýsköpun og frumkvöðlamennt, svo sem nýsköpunar- og frumkvöðlafræðslu í grunnskólum og heldur nýsköpunarkeppni grunnskólanna í samvinnu við menntamálayfirvöld.
    Hlutverk sviðsins hefur einnig falist í opinberum stuðningi við nýsköpun og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni, m.a. með stafrænum smiðjum á landsvísu en rekstur þeirra er á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og heimamanna (sveitarfélaga og atvinnulífs) á grundvelli samninga þar um. Fjármögnun og rekstur stafrænu smiðjanna er með ýmsu móti og engin samræming og búa þær því við misjafnan kost. Mikilvægt er að rekstrargrundvöllur þeirra verði styrktur og hvor tveggja rekstrarleg og fagleg umgjörð fest í sessi.

2.6.2. Fjármál stofnunarinnar.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands er fjármögnuð annars vegar með beinum framlögum úr ríkissjóði og hins vegar með sértekjum. Í eftirfarandi töflu má sjá skiptingu tekna stofnunarinnar milli ríkisframlaga og sértekna árin 2018 og 2019. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 eru fjárheimildir stofnunarinnar 1.420,6 millj. kr. þar sem framlag ríkissjóðs nemur 704,8 millj. kr. og sértekjur 715,8 millj. kr.

Fjárheimildir Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands:

Fjárlög Sértekjur Framlag ríkisins
2018 790,9 millj. kr. 685,1 millj. kr.
2019 663,3 millj. kr. 714,2 millj. kr.
2020 715,8 millj. kr. 704,8 millj. kr.

    Ofangreindar sértekjur stofnunarinnar deilast á þau fjögur svið sem starfsemin skiptist í en hæstu sértekjurnar liggja hjá Efnis-, líf- og orkutækni og munar þar mestu um erlenda rannsóknarstyrki. Framlag ríkisins til Nýsköpunarmiðstöðvarinnar dreifist einnig á öll fjögur svið stofnunarinnar auk þess sem tæplega helmingur ríkisframlags, eða um 300 millj. kr., fór í kostnað við rekstur og markaðsmál miðað við rekstrarkostnað árið 2018.
    Eignir stofnunarinnar samanstanda aðallega af tækjum, áhöldum og búnaði og var sú eign metin á tæpar 66 millj. kr. í ársreikningi fyrir árið 2018. Í flestum tilfellum er um að ræða tækjabúnað sem er að fullu í eigu stofnunarinnar en einnig eru þar tæki sem keypt voru í samstarfi nokkurra aðila, til að mynda með styrk frá Innviðasjóði. Þá er eitthvað um það að kaupendur þjónustu eigi sjálfir tæki sem staðsett eru hjá stofnuninni og er þá um að ræða tækjabúnað sem nauðsynlegur er til að stofnunin geti þjónustað eigendur tækjanna.
    Nýsköpunarmiðstöð hefur eignast eignarhlut í félögum sem það hýsir, hefur hýst á einhverjum tímapunkti eða verið í samstarfi við. Eignarhald stofnunarinnar í sprotafyrirtækjum byggist á heimild í 7. gr. laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, og nam verðmæti eignarhluta stofnunarinnar 18,3 millj. kr. í árslok 2019. Eignarhald stofnunar eins og Nýsköpunarmiðstöðvar í sprotafyrirtækjum hefur verið gagnrýnt, m.a. á þeim grundvelli að slíkt eignarhald falli illa að almennu þjónustuhlutverki og stuðningi stofnunarinnar við sprotafyrirtæki og frumkvöðla og eins á þeim grundvelli að eignarhald stofnunarinnar fari ekki saman við hlutverk hennar sem umsýsluaðila vegna Enterprise Europe Network-verkefnisins.

2.6.3. Samantekt.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands er ekki stjórnvald í þeim skilningi að stofnunin taki stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli stjórnsýslulaga heldur er stofnunin fremur í þjónustuhlutverki.
    Eins og áður hefur komið fram varð stofnunin til með lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, með samruna Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins. Boðuð endurskoðun á rekstrarformi stofnunarinnar átti að fara fram fyrir árið 2009 en hefur ekki átt sér stað fyrr en á þessu ári. Þá kveða lögin á um að stofnunin skuli ekki vera í samkeppnisrekstri og að sérstaklega sé tekið tillit til þess við stefnumótun og verkefnaval. Ljóst er því að hið opinbera hefur lengi haft hug á endurskoðun stofnunarinnar en slíkar tillögur hafa einnig komið fram hjá hagaðilum.
    Eins og rakið er í kafla 2.1. hefur stuðningsumhverfi nýsköpunar breyst mikið á síðastliðnum áratug og fram hafa komið aðilar, hópar og fyrirtæki sem sinna stoðþjónustu svipaðri þeirri sem Nýsköpunarmiðstöðin hefur haldið úti.
    Sú starfsemi sem fram fer í húsnæði Nýsköpunarmiðstöðvar í Keldnaholti og varðar stuðning við frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki á sviði hátækni á betur heima í meiri nálægð og samlegð við háskólasamfélagið og rekstur slíkrar stuðningsþjónustu þarf jafnframt að byggjast á skýru eignarhaldi og ábyrgð. Þörf er fyrir gagnsæja ferla hvað varðar val á þeim frumkvöðlum og fyrirtækjum sem njóta slíks opinbers stuðnings og tímarammi stuðningsins þarf að vera afmarkaður.
    Þá má einnig nefna að ýmis verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar sem snúa að stuðningi við nýsköpun á landsbyggðinni mætti tengja við sóknaráætlanir landshluta og atvinnulíf og innviði á viðkomandi stöðum.
    Stofnunin sinnir ýmsum verkefnum við mælingar og prófanir fyrir atvinnulíf og opinbera aðila. Sumar þeirra þjónustumælinga og prófana kalla á flókinn tækjabúnað og sérhæfða þekkingu og mælingar þurfa að vera í samræmi við alþjóðlegar kröfur um gæðastjórnun og öryggi. Því er mikilvægt að horfa til aukinnar samþættingar á prófunarstarfsemi og mælingum, hvort sem er hjá opinberum aðilum eða einkaaðilum. Þannig verður ábyrgðin skýrari og bætt verklag næst í opinberri þjónustu við atvinnulíf og samfélag.
    Hluti húsnæðis stofnunarinnar er í slæmu ásigkomulagi og ekki hugsað til framtíðar sem svæði fyrir opinbera starfsemi en í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir verslunum og skrifstofuhúsnæði á svæðinu ásamt því að áform eru um uppbyggingu þekkingarþorps í Vatnsmýrinni.
    Að teknu tilliti til þess sem farið hefur verið yfir hér að framan, breyttra áherslna í stuðningi við nýsköpun og þarfa nýsköpunar- og sprotafyrirtækja og atvinnulífsins þykir rétt á þessum tímapunkti að endurskipuleggja og forgangsraða aðkomu ríkisins að nýsköpunarmálum og stuðningi við atvinnulífið. Það er niðurstaða ráðherra að hvorki sé hagkvæmt né í þágu nýsköpunarverkefna eða verkefna fyrir atvinnulífið að reka þau sem hluta af margþættri ríkisstofnun þegar önnur rekstrarform henta betur. Til að skapa meiri sveigjanleika í stuðningi við nýsköpun og möguleika á ólíkum útfærslum í takt við þarfir notenda þjónustunnar og atvinnulífsins er lagt til að ábyrgð verkefna og framkvæmd þeirra verði breytt og að Nýsköpunarstofnun verði lögð niður.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að það taki þegar gildi en komi til framkvæmda 1. maí 2021 og að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði lögð niður á sama tíma. 1. maí 2021.
    Nýsköpunarmiðstöðin hefur gegnum tíðina eignast eignarhluti í fyrirtækjum vegna samstarfs og samninga við frumkvöðla og sprotafyrirtæki. Unnið hefur verið að tilfærslu þessara eignarhluta en þeir eignarhlutir sem eftir standa munu verða skráðir sem eign ríkissjóðs og færðir til vörslu hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Þá er Nýsköpunarmiðstöð aðili að fjölmörgum samningum og hefur tekið á sig ýmsar skuldbindingar í starfsemi sinni. Að því leyti sem ekki er á annan veg kveðið í frumvarpi þessu mun ráðherra taka við samningsbundnum skyldum stofnunarinnar hafi samningsaðild ekki þegar verið flutt til samræmis við flutning verkefna, svo sem með flutningi verkefna til Rannís, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða annarra stofnana.

3.1. Tæknisetur á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina.
    Í greiningum á opinberum stuðningi við nýsköpun, bæði hérlendis og erlendis, hefur komið fram þörf fyrir opinberan stuðning við frumkvöðlastarf á sviði hátækni. Frumkvöðlar og sprotafyrirtæki á þessu sviði þurfa aðgang að sérhæfðum tækjabúnaði og aðstöðu sem er ekki á færi þeirra sjálfra að fjárfesta í, nema í samvinnu við fleiri aðila. Þá er mikilvægt að nýta vel þann mannauð sem felst í sérþekkingu á sviði hátækni hér á landi. Frumkvöðlasetur af þessu tagi hefur verið starfrækt hjá Nýsköpunarmiðstöðinni. Einnig hafa ýmis alþjóðleg samstarfsverkefni, þar á meðal verkefni studd af rammaáætlun Evrópusambandsins verið unnin í samstarfi við sérfræðinga stofnunarinnar og með aðgangi að tækjabúnaði og aðstöðu þar. Þessi starfsemi mun halda áfram undir breyttu rekstrarformi og áhersla lögð á aukið samstarf við háskólasamfélagið á landsvísu.
    Stofnað verður félag um rekstur tækniseturs í samstarfi við háskólasamfélagið. Tæknisetrið mun byggja á grunni Efnis-, líf- og orkutækni, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og þeim hluta Frumkvöðla og fyrirtækja sem snýr að frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum á sviði hátækni. Lagt er upp með að félagið geti tekið við hluta af samstarfsverkefnum og skuldbindingum Nýsköpunarmiðstöðvar, þar á meðal innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum, tækjabúnaði vegna rannsóknar- og prófunarstarfsemi Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og starfræki frumkvöðlasetur fyrir fyrirtæki á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina. Félagið verður óhagnaðardrifið einkahlutafélag alfarið í eigu ríkisins þar sem ríkið leggur fram hluta af tækjabúnaði og eignum Nýsköpunarmiðstöðvar sem stofnframlag. Með hlut ríkisins í félaginu fer fjármála- og efnahagsráðherra á grundvelli stefnu stjórnvalda um miðlæga eignaumsýslu ríkisins. Með stjórn félagsins munu fara fulltrúar háskólasamfélagsins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Lögð verður áhersla á að félagið geti þjónað bæði sjálfstæðum frumkvöðlum og rannsóknarstarfsemi allra háskóla á landinu. Um stofnun og rekstrarform félagsins er fjallað nánar í kafla 3.7.

3.2. Áhersla á stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni.
    Lögð verður áhersla á að efla og þétta stuðningsnet nýsköpunar á landsvísu á forsendum landshlutanna sjálfra og í náinni samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, atvinnulíf og menntakerfi á einstökum svæðum.
    Settur verði á fót verkefnasjóður fyrir nýsköpun í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga og sóknaráætlanir landshlutanna. Verkefnasjóðnum er ætlað að leggja grunn að öflugu vistkerfi fyrir nýsköpunarstarfsemi á landsbyggðinni og skapa aðstæður þannig að nærumhverfi og fyrirtæki sem byggjast á hugviti þrífist og vaxi um land allt. Þeim verkefnum sem sjóðurinn styrkir er ætlað að styðja við og auka slagkraft nýsköpunarverkefna sem studd eru af byggðaáætlun, sóknaráætlunum landshlutanna og öðrum áhersluverkefnum svæðanna. Við mat á umsóknum verður því m.a. horft til þess hvort þau verkefni sem sótt er um séu tengd sóknaráætlunum landshlutanna eða öðrum áhersluverkefnum á viðkomandi svæðum. Umsýsla umsókna í verkefnasjóð um nýsköpun á landsbyggðinni verður að hluta til í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem fyrirkomulagið störf án staðsetningar verður viðhaft. Auk verkefnasjóðs verður stutt við framtak aðila sem bjóða fram þjálfun, námskeið og vinnustofur á sviði nýsköpunar.
    Unnið er að sterkari umgjörð fyrir starfsemi stafrænna smiðja í samvinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnulífs. Til að tryggja starfsemi smiðjanna og auka sýnileika þess fjármagns sem til þeirra er varið munu þessir aðilar gera með sér samkomulag þar sem skilgreint er hlutverk hvers og eins aðila og hvað hann leggur til rekstursins. Auk þess verða sett mælanleg markmið um starfsemi smiðjanna. Þetta samkomulag mun byggjast á skýrri og sameiginlegri stefnumörkun um hlutverk og tilgang stafrænu smiðjanna. Fjárveitingar til hverrar og einnar smiðju munu í flestum tilfellum aukast þar sem fast fjárframlag atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis til þeirra verður hærra en framlag Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hefur verið. Stafrænu smiðjurnar munu hér eftir sem hingað til njóta faglegrar forystu frá FabLab-Íslandi sem er tengiliður við Fab Foundation við MIT. Þess verður vandlega gætt að innan þessa skýra ramma sé jafnframt sveigjanleiki sem gefur hverri smiðju svigrúm til að þróa starfsemi sína í takt við svæðisbundnar áherslur. Með samkomulaginu er samstarf stafrænna smiðja við t.d. þekkingarsetur og aðra svæðisbundna lykilaðila á sviði menntunarrannsókna, menningar og atvinnulífs á viðkomandi svæði jafnframt eflt. Þannig verða stafrænu smiðjurnar enn virkari þátttakendur í nýsköpunarumhverfinu og notendur þeirra líklegri til þátttöku í hvers kyns nýsköpunarverkefnum.

3.3. Önnur samstarfsverkefni um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.
    Í samræmi við áherslur nýsköpunarstefnu og menntastefnu verður áfram lögð áhersla á fræðslu og þjálfun í nýsköpun í skólakerfinu, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þannig munu samstarfsverkefni um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í grunn- og framhaldsskólum halda áfram, sem og nýsköpunarkeppni grunn- og framhaldsskólanna og ýmis önnur verkefni, í þeim tilgangi að efla nýsköpun meðal ungs fólks.
    Af öðrum þjónustu- og stuðningsverkefnum sem hafa verið undir hatti Nýsköpunarmiðstöðvar má nefna að áframhaldandi samstarf verður við Vinnumálastofnun um aðstoð við einstaklinga í atvinnuleit og framhald verkefnisins Nýsköpunarstyrks sem gengur út á að útvega einstaklingum á atvinnuleysisskrá atvinnutækifæri hjá nýsköpunarfyrirtækjum í tiltekinn tíma. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið verður áfram bakhjarl verkefna um samfélagslega nýsköpun, þar á meðal verkefnisins Snjallræði. Þá mun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti styðja áfram ýmis námskeið og frumkvöðlamenntun, svo sem verkefni sem byggjast á frumkvöðlamennt fyrir konur og stuðning við hraðla- og nýsköpunarkeppnir um land allt.
    Nýsköpunarmiðstöðin hefur rekið Enterprise Europe Network-verkefnið (EEN)síðustu ár en í því verkefni felst ráðgjöf og aðstoð vegna styrkumsókna í þennan styrkflokk Evrópusambandsins. Rannís heldur einnig úti skrifstofu um ráðgjöf og þjónustu við Evrópuumsóknir. Unnið er að því að umsýsla vegna EEN-styrkja flytjist til Rannís í lok þessa árs. Með þeirri sameiningu mun nást fram töluvert hagræði og samlegðaráhrif. Samhliða flutningi verkefnisins til Rannís verða gerðar breytingar á samningi Nýsköpunarmiðstöðvar við Executive Agency for Small and Medium-sized Enterprises (EASME) þannig að Rannís taki að sér hlutverk samræmingaraðila (e. Coordinator).

3.4. Rannsóknir, fræðsla, upplýsingamiðlun og prófanir í byggingariðnaði.
    Lögð er áhersla á að tryggja samfellu í rannsóknum og prófunum í byggingariðnaði á sama tíma og lagður er grundvöllur að nýsköpun og aðlögun greinarinnar að alþjóðlegum gæðakröfum. Aðstaða til rannsókna og prófana verður áfram til staðar í núverandi húsnæði Rannsóknastofu byggingariðnaðarins í Keldnaholti, undir hatti tækniseturs. Staðsetning aðstöðu og búnaðar mun tryggja aðgengi til rannsókna og kennslu í samvinnu við háskólasamfélagið. Þetta er í samræmi við markmið um að viðhalda öflugum rannsóknum og tækniþróun á sviðinu í takt við þróun á alþjóðavettvangi.
    Í þeim tilgangi að styðja frekar við rannsóknir í byggingariðnaði munu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og félags- og barnamálaráðherra setja á fót samkeppnissjóð um byggingar- og mannvirkjarannsóknir. Sjóðurinn verður fjármagnaður sameiginlega af ráðuneytunum og áherslur sjóðsins munu einkum snúa að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Sjóðurinn verður settur upp af félagsmálaráðuneytinu þar sem málefni mannvirkja falla undir málefnasvið þess en umsýsla sjóðsins verður hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Ávinningur af því að umsýsla samkeppnissjóðsins verði hjá stofnuninni er m.a. fólginn í því að hægt er að aðlaga umsóknarferli og úthlutunarreglur fyrir styrki úr rannsóknarsjóðnum að þörfum og eðli byggingariðnaðarins um leið og meira lífi er blásið í nýsköpunarglæður iðnaðarins. Þá verður niðurstöðum þeirra rannsókna sem hljóta styrki úr sjóðnum safnað saman á miðlægan stað innan stofnunarinnar en með því móti styrkir stofnunin hlutverk sitt sem eftirlitsstofnun í þjónustuhlutverki og er það einnig í takt við fyrirhuguð áform um hlutverk stofnunarinnar við kynningu, fræðslu og gagnasöfnun í tengslum við byggingar- og mannvirkjarannsóknir.
    Nánar verður kveðið á um skipulag sjóðsins, umsóknarferli og úthlutunarreglur í reglugerð sem félags- og barnamálaráðherra mun gefa út. Þá mun sérstakt fagráð byggingarrannsókna verða sett upp sem veita skal Húsnæðis- og mannvirkjastofnun umsögn um styrkumsóknir í sjóðinn. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og félags- og barnamálaráðherra munu eiga fulltrúa í fagráðinu ásamt háskólasamfélaginu og atvinnulífinu.
    Með sjóðnum er leitast við að opna opinbert styrkjaumhverfi fyrir fleiri aðila úr háskólasamfélagi og atvinnulífi og stuðla að auknu samstarfi við erlenda rannsóknaraðila.
    Áfram verður unnið að fræðslu og gagnasöfnun í tengslum við mannvirkjagerð, þar á meðal útgáfu svonefndra Rb-blaða. Í blöðunum er birtur fróðleikur um málefni sem snerta byggingariðnaðinn og fjallað er þar um niðurstöður rannsókna á sviðinu. Framhald þessarar starfsemi verður á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Með þeim flutningi gefst einnig tækifæri til aukinna samlegðaráhrifa í fræðslu og upplýsingamiðlun auk þess sem flutningur gagna frá Nýsköpunarmiðstöð til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar mun styrkja gagnagrunn stofnunarinnar á sviði mannvirkjamála.
    Einnig mun Byggingavettvangurinn, samráðsvettvangur hagaðila í bygginga- og mannvirkjagerð, setja fram tillögur að langtímaáætlun um fyrirkomulag rannsókna og þróunar í byggingariðnaði og mun kynna tillögur sínar í byrjun árs 2021.
    Hjá Rb fara fram prófanir á byggingarvörum og ýmsar mælingar og prófanir á sviði jarð- og vegtækni, húsbyggingartækni og steinsteyputækni. Þessi verkefni eru unnin ýmist fyrir opinbera aðila eins og Vegagerðina sem og fyrir ýmsa einkaaðila, svo sem steypustöðvar og byggingarverktaka. Þá þurfa framleiðendur byggingarvara að uppfylla kröfur samræmdra evrópskra staðla og vörur þeirra þarf enn fremur að sannprófa í samræmi við nefnda staðla á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 305/2011. Þrátt fyrir að hætta megi ákveðnum hluta prófana sem gerðar eru hjá Rb eru tilteknar prófanir hjá stofnuninni sem ekki eru framkvæmdar annars staðar og ekki er raunhæft að flytja til einkaaðila að svo stöddu. Því mun þeim prófunum hætt sem þegar bjóðast á einkamarkaði en haldið áfram að veita ákveðna þjónustu svo að samfella í framleiðslu byggingarvara verði tryggð á meðan unnið er að framtíðarlausn um prófanir í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur. Sá tækjabúnaður sem nauðsynlegur er til slíkra prófana mun færast til tækniseturs við stofnun félagsins en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun hafa umsjón með og veita prófunarþjónustuna tímabundið. Unnið verður að því í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu í samstarfi við atvinnulífið að prófanir þessar geti farið fram í faggiltu umhverfi á einkamarkaði í náinni framtíð.

3.5. Þjónustumælingar og prófanir fyrir opinbera aðila og atvinnulíf.
    Hjá Efnagreiningum Nýsköpunarmiðstöðvarinnar er margþætt starfsemi á sviði umhverfisefnafræði og iðnefnafræði og boðið upp á margs konar þjónustumælingar og prófanir á efni, svo sem vatni, lofti, gróðri, lífsýnum, jarðvegi og föstum efnum. Kaupendur þjónustunnar eru fyrirtæki og opinberir aðilar, þar á meðal stofnanir, sveitarfélög og háskólasamfélagið, en einnig eru frumkvöðlar og fyrirtæki í samstarfi við Efnagreiningar um rannsóknarverkefni. Þá hafa Efnagreiningar gegnt hlutverki á sviði lögbundinna loftgæðamælinga og þar hefur verið vísir að landsbundinni tilvísunarrannsóknarstofu í samræmi við loftgæðatilskipun Evrópusambandsins nr. 50/2008/EB. Alþjóðlegt gæðastjórnunarkerfi hefur ekki verið innleitt í starfsemina og faggilding er ekki til staðar.
    Með vísan til samlegðaráhrifa, tækjabúnaðar og sérþekkingar verður starfsemi Efnagreininga sameinuð annarri opinberri starfsemi á sviði efnamælinga í þeim tilgangi að ná fram samlegðaráhrifum í mælingum og prófunum, auknu hagræði í rekstri og hraðari innleiðingu gæðastjórnunarkerfa í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar . Lagt er upp með að starfsmönnum Efnagreiningar verði boðið starf á sameinaðri rannsóknarstofu.

3.6. Starfsmannamál við niðurlagningu stofnunar.
    Fastráðnir starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands voru í október sl. 69 talsins. 1. maí 2021 koma lög þessi til framkvæmda og verða öll störf hjá stofnuninni, eðli máls samkvæmt, lögð niður enda gert ráð fyrir brottfalli laganna sem eru grundvöllur tilvistar og starfsemi stofnunarinnar.
    Unnið er að því að bjóða hluta starfsmanna að flytja með verkefnum til annarra stofnana og fyrirtækja, svo sem til Rannís, Ríkiskaupa, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, eiga við um flutning starfsmanna til annarra opinberra aðila, sbr. fyrrgreint, en taka ekki til flutnings verkefna og starfsmanna til félaga einkaréttarlegs eðlis, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins. Þetta á við um starfsemi tækniseturs til dæmis.
    Hluti starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar á rétt til 12 mánaða biðlauna en um þann rétt er fjallað í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

3.7. Stofnun og rekstrarform tækniseturs.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir stofnun tækniseturs í formi óhagnaðardrifins einkahlutafélags í eigu ríkisins. Við undirbúning frumvarpsins var ítarlega farið yfir þá möguleika sem eru fyrir hendi hvað rekstrarform varðar. Forsenda þessara breytinga er sú að starfsemi tækni- og rannsóknarseturs eigi betur heima í félagaformi en innan stofnunar í eigu ríkisins.
    Í ríkisrekstri felst að unnið er eftir skýrum ramma þar sem valdheimildir liggja hjá ráðherra og forstjóra stofnunar í hans umboði. Ríkið ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum og rekstri og byggir rekstur stofnunar á forsendum gagnsæis og samfélagslegra markmiða. Flestar ríkisstofnanir eru fjármagnaðar með beinum framlögum frá ríkinu þó að nokkrar þeirra séu nær alfarið reknar fyrir sjálfsaflafé. Þá eru í rekstrinum hömlur á meðferð fjármuna og eignarhald stofnana er nær undantekningarlaust að fullu hjá ríkinu. Ástæða þess að rekstrarform ríkisstofnunar þótti ekki ákjósanlegt fyrir tækni- og rannsóknarsetur liggur að stórum hluta í takmörkuðum möguleikum til fjölbreyttrar aðkomu og stýringa ásamt því að sveigjanleiki er mikilvægur þáttur. Í samræmi við stefnumótun og þróun síðustu ára hefur samstarf við háskólastigið og rannsóknarstofnanir verið talið æ mikilvægara. Því var unnið út frá þeirri forsendu að rekstrarform tæknisetur yrði annað en form hefðbundins ríkisreksturs.
    Til greina kom að stofna tæknisetur í einu af eftirfarandi rekstrarformum: sjálfseignarstofnun, opinbert hlutafélag eða einkahlutafélag. Verður hér farið stuttlega yfir kosti og galla hvers forms og ástæðu þess að einkahlutafélagaformið varð fyrir valinu.
    Um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur er kveðið í lögum nr. 33/1999 og einkennist rekstrarform þetta af því að stofnunin á sig sjálf, ekki er um beina eigendur að ræða. Stofnfé og fjármunir sem renna til sjálfseignarstofnunar eru óafturkræfir og þeir skulu nýttir í ákveðnum tilgangi samkvæmt skipulagsskrá. Sjálfseignarstofnanir lúta sjálfstæðri og óháðri stjórn sem er ein bær til þess að taka ákvarðanir um rekstur og starfsemi stofnunarinnar. Þá er yfirleitt talið að stjórn sjálfseignarstofnunar þurfi að vera óháð stofnendum sínum svo að tryggja megi aðskilnað fjármuna stofnunarinnar frá eignum og fjármunum stofnenda. Við mat á rekstrarforminu sjálfseignarstofnun var það mat stjórnvalda að rekstrarformið væri þungt í vöfum og byði ekki upp á nægjanlegan sveigjanleika í starfsemi.
    Opinbert hlutafélag er einkaréttarlegt félagaform en um það er kveðið í lögum um hlutafélög, nr. 2/1995. Félagaformið er skilgreint sem félag þar sem hið opinbera á allt hlutafé í félaginu og aðeins slíkt félag hefur heimild til þess að teljast opinbert hlutafélag og hafa skammstöfunina ohf. Í opinberu hlutafélagi er ábyrgð ráðherra á ákvörðunum og gjörðum félagsins ekki jafnmikil og hjá hefðbundinni ríkisstofnun. Ráðherra getur þó beitt áhrifum sínum gagnvart opinberum hlutafélögum sem eigandi félagsins og í mörgum tilfellum sem kaupandi þjónustu (sbr. Arnar Þór Másson, Ríkið hf. Stjórnmál og stjórnsýsla, veftímarit, 2. tbl. 3. árg. 2007). Með stofnun opinbers hlutafélags næst meiri sveigjanleiki í starfsemi félagsins enda gilda lög um hlutafélög að mestu um það. Hins vegar er nauðsynlegt að ákvörðun um stofnun opinbers hlutafélags sé vel ígrunduð og hefur stefna ríkisins um nokkurra ára skeið verið sú að rekstrarform opinbers hlutafélags eigi aðallega að nota þegar um er að ræða rekstur og þjónustu sem varðar almannahag. Þar sem starfsemi tækniseturs fellur ekki í þann flokk þótti rekstrarform opinbers hlutafélags ekki koma til greina.
    Öflug nýsköpun kallar á virkt samstarf og samvinnu ólíkra aðila. Því varð niðurstaða greiningarinnar að einkahlutafélag væri heppilegasta rekstrarformið. Um einkahlutafélög gilda lög nr. 138/1994. Í slíku félagi geta eigendur verið einn eða fleiri og bera óbeina og takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Helstu kostir þess að reka tækni- og rannsóknarsetur í formi einkahlutafélags eru þeir að það er þrautreynt og fastmótað félagaform, stjórn félagsins, ber skýra ábyrgð og félagaformið getur tryggt aðkomu fleiri aðila að rekstrinum með stjórnarsetu. Þá er sveigjanleiki í rekstri meiri en hjá ríkisfyrirtæki til að nýta tækifæri sem gefast og aðlagast breytingum í umhverfinu.
    Frumvarpið felur í sér að ráðherra mun stofna einkahlutafélag. Ríkið mun leggja félaginu til stofnfé sem samanstendur af þeim tækjabúnaði sem nú tilheyrir Nýsköpunarmiðstöð, fyrst og fremst hjá starfssviðum Efnis-, líf- og orkutækni og Rb. Þar að auki mun ríkið gera þjónustusamninga við félagið um tiltekin verkefni. Félagið mun enn fremur hafa yfir að ráða tekjum fyrir veitta þjónustu og leigu á tækjum og aðstöðu. Þá er lagt upp með að félagið geti jafnframt haft tekjur af þátttöku í þjónustu- og rannsóknarverkefnum, innlendum sem erlendum. Gerð var athugun á því hvort einkahlutafélag í eigu ríkisins hefði möguleika á því að sækja sér rannsóknarstyrki hvort sem er innlenda styrki, norræna eða evrópska. Niðurstaða þeirrar athugunar leiddi í ljós að ekkert væri því til fyrirstöðu að tæknisetur sem væri óhagnaðardrifið félag í rannsóknarstarfsemi sækti um erlenda og innlenda styrki. Misjafnt er þó að hve miklu leyti félagið getur fjármagnað rannsóknarverkefni með slíkum styrkjum og hvaða kröfur styrkveitandi gerir í hverju og einu tilfelli. Unnið er út frá því að félagið geti óskað eftir að taka við skuldbindingum Nýsköpunarmiðstöðvar gagnvart þeim styrkjum sem þegar hafa verið veittir, að því gefnu að slíkt verði samþykkt af hálfu gagnaðila.
    Aðkoma háskólasamfélagsins verður stjórnunarleg en felst ekki í eignarhluta. Samþykktir félagsins, ásamt frumvarpi þessu, munu svo endurspegla þá kröfu ríkisins að félagið sé óhagnaðardrifið og að ekki verði greiddur arður úr félaginu.

3.8. Löggjöf sem frumvarp þetta hefur áhrif á.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, verði felld brott. Þar sem kveðið er á um starfsemi og tilvist Tækniþróunarsjóðs í nefndum lögum er einnig nauðsynlegt að samhliða frumvarpi þessu verði lagt fram frumvarp til sérlaga um Tækniþróunarsjóð.
    Þá felast í frumvarpinu einnig breytingar á öðrum lögum, svo sem lögum um byggingarvörur, nr. 114/2014, þar sem felld er brott tilvísun til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og breyting á lögum um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987, þar sem einnig er felld brott tilvísun til Nýsköpunarmiðstöðvar og nánar tilgreint hvernig Hagstofa Íslands skuli reikna vísitölu byggingarkostnaðar. Einnig felst í frumvarpinu breyting á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, þar sem mælt er fyrir um hlutverk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar varðandi rannsóknir, fræðslu og gagnasöfnun á sviði mannvirkjagerðar ásamt nýju ákvæði um samkeppnissjóð um rannsóknir í byggingariðnaði sem verður í umsjón og umsýslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá né við alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta hefur, eðli máls samkvæmt, veruleg áhrif á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, starfsemi hennar, starfsfólk og samstarfsaðila. Virkt samráð hefur farið fram milli ráðuneytisins og stjórnenda stofnunarinnar um töluvert skeið.
    Þá mun hluti af verkefnum stofnunarinnar færast til annarra stofnana svo sem Rannís og Húsnæðis- mannvirkjastofnunar eins og áður greinir og hefur mikið samráð átt sér stað til undirbúnings flutningnum.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands veitir frumkvöðlum, nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum og háskólasamfélaginu þjónustu ásamt því að þjónusta Umhverfisstofnun, Veðurstofuna, Landgræðsluna, Vegagerðina og fleiri aðila, bæði opinbera aðila og einkaaðila. Af þeim sökum hefur farið fram ítarlegt samráð við framangreinda aðila og þeir verið upplýstir um áformaðar breytingar.
    Þá hefur ráðuneytið átt í góðu samstarfi við önnur ráðuneyti um tilfærslu verkefna, eins og félagsmálaráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
    Enn fremur hefur átt sér stað samtal við háskólasamfélagið og ýmis samtök í atvinnulífinu, þar á meðal Samtök iðnaðarins, Byggingavettvang, Verkfræðingafélag Íslands. Einnig hefur samráð verið haft við verkfræðistofur, landshlutasamtök sveitarfélaga, fulltrúa stafrænna smiðja, klasasamtök og fleiri aðila.
    Ráðuneytið hefur jafnframt notið aðstoðar og ráðgjafar frá ráðgjafarfyrirtækinu Intellecta við vinnslu málsins.
    Frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-202/2020) á tímabilinu 28. september til 9. október sl. en ekki gafst færi á að birta áformaskjöl um frumvarp þetta í samráðsgátt eins og samþykkt ríkisstjórnar gerir ráð fyrir. Í samráðsgáttina bárust 45 umsagnir, bæði frá einstaklingum og lögaðilum. Þeir lögaðilar sem sendu umsögn eru: Byggðastofnun, Þekkingarnet Þingeyinga, Vísindafélag Íslendinga, Sveitarfélagið Skagafjörður, Háskóli Íslands, Textílmiðstöð Íslands og Þekkingarsetur á Blönduósi, Faggildingarráð, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Samband íslenskra sveitarfélaga, Vestmannaeyjabær og Skútustaðahreppur, Sveitarfélagið Hornafjörður, Samtök verslunar og þjónustu, Landsvirkjun, Framkvæmdasýsla ríkisins, Viðskiptaráð Íslands, Arkitektafélag Íslands, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins, Listaháskóli Íslands, Klak Innovit ehf., Byggingarvettvangur, Verfræðingafélag Íslands, Reykjavíkurborg og Samorka. Þá sendu 11 einstaklingar inn umsögn í eigin nafni.
    Þau sjónarmið sem fram komu í umsögnum vörðuðu að miklu leyti stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni, stuðningskerfi landshlutanna, mikilvægi byggingarrannsókna og samfellu í verkefnum sem Rb sinnir núna, mikilvægi orkurannsókna, félagaform það sem valið hafði verið fyrir tæknisetur og aukna áherslu á faggildingu.
    Einnig kom fram í umsögnum almenn gagnrýni á áform um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöðina og flytja verkefni stofnunarinnar annað. Fram kom til dæmis að eðlilegra hefði verið að setja af stað heildarendurskoðun á stofnuninni fremur en að leggja hana niður. Afleiðing niðurlagningar yrði minni stuðningur við nýsköpun á landinu öllu, á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu. Þá er bent á að styrkur Nýsköpunarmiðstöðvar felist í samlegðaráhrifum af þjónustu mismunandi deilda og að enginn annar aðili veiti þjónustu og stuðning á svo víðtæku sviði. Jafnframt er tímarammi frumvarpsins gagnrýndur og bent á að endurskipulagning stofnana þurfi lengri aðdraganda og betri ígrundun til þess að tryggja að ávinningur af aðgerðum verði meiri en mögulegur skaði af þeim. Rétt er að leggja áherslu á að endurskipulagning Nýsköpunarmiðstöðvar hafi verið aðkallandi um langt skeið ásamt því að í gildandi lögum hafi verið gert ráð fyrir slíkri endurskoðun fyrir árið 2009. Þá verður að telja að landslag nýsköpunar sé svo breytt frá því sem áður var að það réttlæti heildarendurskoðun sem felist í því að forgangsraða opinberum stuðningi með áherslu á verkefni fremur en margþætta ríkisstofnun. Þá er er talið að með þessari endurskipulagningu sé framtíð verkefna sem Nýsköpunarmiðstöð hefur sinnt tryggð þó að heimilisfesti þeirra muni koma til með að flytjast.
    Í umsögnum Byggðastofnunar, þekkingarsetra og ýmissa sveitarfélaga var bent á mikilvægi þess að styðja við nýsköpun og innviði hennar á landsbyggðinni. Jafnframt var bent á mikilvægi þess að tengja slíkan stuðning við landshlutasamtök og byggðaáætlun. Enn fremur komu fram áhyggjur af því að fyrirætlanir um stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni væru ekki nægilega vel skýrðar í greinargerð með frumvarpinu og að umfjöllun um þann stuðning væri ekki að finna í lagatextanum. Þessar athugasemdir voru teknar til greina og textinn í greinargerð lagfærður til að áformin yrðu skýrari. Hvað varðar beiðni um að lögfestar yrðu tilteknar aðgerðir eða hlutverk tiltekinna aðila var ekki talið tilefni til að bregðast við þeirri beiðni þar sem ekki er þörf á að kveða á um slík verkefni og hlutverk í lögum heldur er útfærslan á hendi ráðherra og lýtur stjórnunarheimildum hans. Þá var jafnframt í umsögnum bent á að skýrleika skorti hvað varðar aðkomu ríkisins og stuðning við stafrænar smiðjur og voru þær athugasemdir teknar til greina eftir því sem kostur var.
    Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og Framkvæmdasýsla ríkisins fögnuðu frumvarpinu og áformum þess ásamt Klak innovit. Faggildingarráð var einnig jákvætt í garð frumvarpsins og fagnaði áformum um að auka vægi faggildingar í íslensku atvinnulífi.
    Hvað varðar áform um stofnun svokallaðra nýsköpunargarða í formi einkahlutafélags í eigu ríkisins komu fram nokkrar athugasemdir um að heitið nýsköpunargarðar væri of víðtækt fyrir fyrirhugaða starfsemi félagsins. fallist er á þær athugasemdir og notast við vinnuheitið tæknisetur þar til félaginu hefur verið gefið formlegt nafn. Jafnframt komu fram nokkrar athugasemdir við að form félagsins skyldi vera einkaréttarlegt, þ.e. einkahlutafélag í fullri eigu ríkisins. Háskóli Íslands lýsti yfir áhyggjum af því að rekstrarkostnaður tækniseturs yrði töluvert hár og að ekki væri búið að tryggja að félagið gæti fjármagnað sig. Tengt því hafði Háskólinn einnig ábendingar varðandi möguleika slíks félags til þess að afla rannsóknarstyrkja, svo sem Evrópustyrkja. Farið hefur verið yfir umsögn Háskólans og er talið að við útfærslu á tæknisetri verði mögulegt að tryggja fjármögnun þess. Þá hefur einnig verið látið meta möguleika einkahlutafélags í eigu ríkisins til þess að afla sér styrkja hjá Evrópusambandinu. Niðurstaða þeirrar athugunar bendir til þess að slíkt sé mögulegt þó að réttilega geti styrkir til handa slíkum aðila sem ekki er opinber stofnun verið lægri en ella. Þá verður að telja að tæknisetur það sem stefnt er að muni ekki þurfa að tryggja sér rekstrarfé eingöngu með rannsóknarstyrkjum heldur verði hlutverk félagsins einnig að veita aðgang að tækjabúnaði, aðstöðu og ráðgjöf ásamt annarri þjónustu sem frumkvöðlar á sviði hátækni þurfa á að halda. Auk þess mun félagið fá árleg framlög úr ríkissjóði í gegnum þjónustusamninga. Almennar athugasemdir komu einnig fram um félagaformið frá öðrum umsagnaraðilum þar sem hvatt er til að halda verkefnum í formi ríkisstofnunar.
    Landsnet og Samorka benda í umsögnum sínum á mikilvægi orkurannsókna og nýsköpunar í orkugeiranum, sérstaklega á landsbyggðinni. Samorka telur mikilvægt að tryggt verði að sérhæfður tækjabúnaður sem rekinn hefur verið af Nýsköpunarmiðstöð haldist í rekstri og verði aðgengilegur fyrirtækjum í orku- og veitutengdum verkefnum. Jafnframt var kallað eftir frekara samstarfi við atvinnulífið um stofnun tækniseturs og bent á tækifæri sem felast í orku- og veitutengdri nýsköpun á sviði grænna lausna. Þessar ábendingar eru gagnlegar og munu koma til skoðunar við frekari útfærslu á t.d. starfsemi tækniseturs. Stefnt er að því að hjá tæknisetrinu verði einmitt hægt að tryggja áfram aðgang að mikilvægum tækjabúnaði.
    Þá gerðu þó nokkrir athugasemdir við að starfsemi Rannsóknastofu byggingariðnaðarins yrði skipt upp en ráðgert er að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun taki við fræðslu og upplýsingahlutverki, prófunum ýmsum verði að hluta til hætt en hluti þeirra haldi áfram tímabundið innan Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt því að rannsóknum verði beint í samkeppnissjóð þó að tryggt verði að þau rannsóknarverkefni sem þegar eru í gangi haldi áfram. Bent var á að á hjá flestum Norðurlandaþjóðunum séu starfandi stofnanir utan um verkefni sem nú liggja hjá Rb, svo sem SINTEF í Noregi. Þá voru efasemdir um að samkeppnissjóður um byggingarrannsóknir væri ákjósanlegur fyrir samfélagslegar rannsóknir eins og byggingarrannsóknir. Hætta væri á að úthlutað yrði frekar til styttri og minni verkefna en til stærri og kostnaðarsamari verkefna og efast var um að sjóðurinn mundi hafa nægilegt bolmagn til að standa undir slíkum rannsóknum. Þá komu fram áhyggjur af því hvernig fara mundi fyrir þeim rannsóknarverkefnum sem þegar eru í gangi hjá Rb. Boðuð endurskipulagning Rb mun leysast farsællega. Bæði félagsmálaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið telja að fræðsla og upplýsingagjöf, þar á meðal útgáfa Rb-blaða, eigi vel heima hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun enda er hlutverk stofnunarinnar nú víðtækara en fyrirrennara hennar. Þá hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tilkynnt að þær byggingarrannsóknir sem þegar eru í gangi hjá Nýsköpunarmiðstöðinni muni halda áfram hjá tæknisetrinu svo að tryggð verði samfella í starfseminni. Prófanir sem fram hafa farið hjá Rb, svo sem prófanir á byggingarefni og fyrir Vegagerðina, munu flestar halda áfram af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en hætt verður að sinna þeim prófunum sem þegar er sinnt á markaði. Þá verður unnið að því að skoða möguleika á stofnun sérstakrar faggiltrar prófunarstofu fyrir byggingarvörur og fleiri vörur. Í ljósi alls þessa er talið að endurskipulagning Rb þurfi ekki að valda vandkvæðum. Hvað varðar fjármagn í rannsóknarsjóð og bolmagn hans er það talið nægilega tryggt ásamt því að með umsýslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á sjóðunum verði tenging hans við samfélagslegar rannsóknir sterkari en ella.
    Þá kom fram í umsögnum mismunandi afstaða til sameiningar Efnagreininga og Matís ohf. þar sem efasemdir voru um samlegðaráhrif sameiningar, að hjá Matís væri nauðsynleg reynsla og þekking til að taka við verkefnum Efnagreininga ásamt því að talið var að ógagnsæi leiddi af félagaforminu opinberu hlutafélagi. Framhald þjónustumælinga hjá Efnagreiningum er nú skoðað í stærra samhengi og áhersla lögð á samþættingu þjónustumælinga á vegum hins opinbera í samræmi við alþjóðlegar kröfur.

6. Mat á áhrifum.
    Áhrifa frumvarps þessa gætir á mörgum sviðum enda er starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands afar fjölþætt og nær yfir breitt svið.
    Í frumvarpinu felst að lög um starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar falla brott og verkefni þau sem stofnunin sinnti verða færð annað.
     Áhrif á prófanir og mælingar.
    Nýsköpunarmiðstöðin hefur sinnt prófunum og mælingum á sviði efnagreininga fyrir opinbera aðila og einkaaðila í formi útseldrar þjónustu. Þjónusta þessi verður sameinuð öðrum opinberum aðila á sviði þjónustumælinga. Gert er ráð fyrir því að kaupendur muni margir leita til sameinaðrar rannsóknarstofu eftir þjónustunni en þó er mögulegt að aðilar leiti á einkamarkað. Ríkið mun beita sér fyrir að grundvöllur verði fyrir áframhaldandi mælingum sem mikilvægt er að framkvæma hér á landi og sérstaklega mælingum sem ekki standa að fullu undir sér fjárhagslega á markaði.
    Prófanir á byggingarvörum sem hafa farið fram hjá Rannsóknastofu byggingariðnaðarins innan Nýsköpunarmiðstöðvar hafa í auknum mæli færst til einkaaðila á opnum markaði og er ráðgert að Rb hætti að mestu slíkum prófunum en haldið verði áfram tímabundið að sinna þeim prófunum sem ekki er raunhæft að framkvæma á markaði. Þannig munu prófanir sem þessar færast enn meira til einkaaðila og hefur þessi breyting þá væntanlega áhrif á byggingariðnaðinn, verkfræðistofur og ýmsar prófunar- og vottunarstofur. Jafnframt verður unnið að því í samvinnu við félagsmálaráðuneyti og fulltrúa atvinnulífsins að kanna grundvöll fyrir faggildri prófunarstofu í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur.
     Áhrif á byggingarrannsóknir.
    Tryggt verður að þeim byggingarrannsóknum sem unnið er að hjá stofnuninni verði fram haldið, annars vegar innan tækniseturs og hins vegar innan háskólanna. Þá verður, eins og áður segir, settur á fót samkeppnissjóður um byggingarrannsóknir í samvinnu ráðuneytisins og félagsmálaráðuneytis. Lagt er upp með að fjármagn í samkeppnissjóð um byggingarrannsóknir leiði til aukinnar samvinnu og öflugri rannsókna á sviði byggingariðnaðar.
     Áhrif á frumkvöðla og sprotafyrirtæki.
    Frumvarpið mun hafa áhrif á frumkvöðla, sprotafyrirtæki og aðra aðila, til að mynda á landsbyggðinni, sem hafa nýtt sér þjónustu Nýsköpunarmiðstöðvar eða verið í samstarfi við stofnunina um framkvæmd verkefna. Þrátt fyrir að starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar leggist af munu stjórnvöld áfram tryggja stuðning og aðstoð við frumkvöðla og sprota og lögð verður sérstök áhersla á að breyting þessi hafi jákvæð áhrif á stuðning við nýsköpun á landsvísu og skili sér í aukinni skilvirkni og samvinnu innan stuðningskerfisins. Á höfuðborgarsvæðinu starfar fjöldi aðila sem veita frumkvöðlaaðstoð og -ráðgjöf. Slíkur stuðningur er minni á landsbyggðinni og því vilja stjórnvöld sérstaklega virkja og styðja við nýsköpunaraðstoð þar. Einnig mun stofnun tækniseturs og flutningur þess í Vatnsmýri stuðla að öflugra umhverfi fyrir hátæknifrumkvöðla á sviðinu.
     Áhrif á landsbyggðina og sveitarfélög.
    Unnið er að því að tengja stuðningsumhverfi nýsköpunar á landsbyggðinni betur sóknaráætlunum landshlutanna. Slík tenging getur eflt sóknaráætlanirnar og stutt við atvinnuþróun á landsbyggðinni með markvissari hætti en áður. Settur verður á fót verkefnasjóður fyrir nýsköpun í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga og sóknaráætlanir landshlutanna og hann tengdur við næstu byggðaáætlun. Þessi verkefnasjóður verður viðbót við þau verkefni og framlög sem nú eru til staðar á vegum sóknaráætlana landshlutanna.
     Áhrif á jafnrétti kynjanna.
    Frumvarpið hefur ekki bein áhrif á jafnrétti kynjanna. Niðurlagning stofnunar hefur þó töluverð áhrif á samfélagið, en fyrst og fremst á þá sem starfa hjá stofnuninni og eins þá sem njóta þjónustu eða aðstoðar stofnunarinnar. Starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar eru 69; 44 karlmenn og 25 konur. Við niðurlagningu stofnunarinnar munu störf hjá Nýsköpunarmiðstöðinni jafnframt verða lögð niður en þó nokkrum verkefnum mun haldið áfram hjá öðrum opinberum aðilum og stöðugildi munu fylgja þeim verkefnum. Ekki liggur ljóst fyrir á þessari stundu hver kynjaáhrifin verða af þeim stöðugildum sem munu fylgja verkefnum til annarra aðila. Viðskiptavinir Nýsköpunarmiðstöðvar hafa verið fyrirtæki og einstaklingar. Aðstoð við einstaklinga hefur að nokkru leyti snúið að frumkvöðlaaðstoð, svo sem handleiðslu og leiðsögn. Í tölum frá Nýsköpunarmiðstöðinni kemur fram að fleiri konur en karlar hafi fengið aðstoð hjá stofnuninni en á síðustu árum hafi munur milli kynja farið minnkandi en sveiflast þó nokkuð. Það er því ekki hægt að segja að lokun stofnunarinnar og flutningur verkefna og stuðnings hafi meiri áhrif á karla en konur. Að þessu sögðu hafa rannsóknir þó bent til þess að í stuðningi við nýsköpun á Norðurlöndunum sé kerfislægt misvægi konum í óhag, sem mikilvægt er að rannsaka betur (sbr. Female entrepreneurship in the Nordics, Nordic Innovation, www.nordicinnovation.org/2020/female-entrepreneurship-nordics-2020). Nýsköpunarmiðstöð hefur sinnt verkefnum sem sérstaklega hafa verið ætluð konum, t.d. Brautargengi en það er verkefni sem styður konur með viðskiptahugmynd. Þessu verkefni ásamt stuðningi við konur sem eru að stíga sín fyrstu skref sem frumkvöðlar verður fram haldið og mun ráðuneytið styðja slík verkefni beint. Flutningur verkefna Efnagreininga til annars opinbers aðila í þjónustumælingum hefur ekki í för með sér áhrif á jafnrétti, hvað þá breytingar á starfsemi Rannsóknastofu byggingariðnaðarins.
     Áhrif á stjórnsýslu.
    Til stendur að efla fagþekkingu á nýsköpun í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með fjölgun sérfræðinga og stuðla þannig að betri framfylgd nýsköpunarstefnu og þeirra samninga sem ráðuneytið gerir um framkvæmd nýsköpunarverkefna.
    Þá mun niðurlagning Nýsköpunarmiðstöðvar hafa áhrif á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem og Umhverfisstofnun sem þurfa að skipuleggja mælingar og prófanir sem krafist er á grundvelli löggjafar á málefnasviðinu út frá nýju stofnanafyrirkomulagi. Enn fremur mun niðurlagningin hafa áhrif á málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem Nýsköpunarmiðstöð hefur sinnt nýsköpunarfræðslu í skólum. Brugðist verður við þessum breytingum með flutningi verkefna til annarra stofnana, til tækniseturs og með samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið um nýsköpunarfræðslu.
     Áhrif á atvinnulíf og samfélag.
    Frumvarpið mælir fyrir um breytta nálgun á stuðningsumhverfi hins opinbera við nýsköpun, sprotafyrirtæki og frumkvöðla. Leitað verður aukins samstarf við háskóla og einkaaðila og nálægð við rannsóknarstofnanir verður betur nýtt en verið hefur. Þá er áhersla lögð á stuðning við nýsköpunarumhverfið á landsbyggðinni. Samþætting og einföldun opinbers stuðningskerfis við atvinnulífið mun jafnframt leiða af sér samfélagslegan ávinning, svo sem með því að hvetja einkamarkað til að taka við ýmsum verkefnum og enn fremur að færa ýmiss konar prófanir, mælingar og greiningar nær alþjóðlegum kröfum.
     Áhrif á ríkissjóð.
    Rammi Nýsköpunarmiðstöðvar samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 1.420,6 millj. kr., þar af er framlag ríkissjóðs 704,8 millj. kr. og sértekjur 715,8 millj. kr. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir að tekjur stofnunarinnar falli brott með samsvarandi útgjaldaáhrifum. Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkisins vegna annars vegar lokunar stofnunarinnar og verkefna hennar sem flytjast í annað form verði 655 millj. kr. á árinu 2021 þar sem tímabundinn lokunarkostnaður nemur 305 millj. kr. Gangi áformin eftir má því gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni um 305 millj. kr. frá og með árinu 2022. Fjárhagsáhrif þeirrar breyttu forgangsröðunar sem hér er lögð til verður þó að skoðast í heildarsamhengi stefnumörkunarinnar eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 og fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 þar sem gert er m.a. ráð fyrir verulega auknum framlögum til nýsköpunarmála. Er þannig gert ráð fyrir að framlög til málefnasviðs 7 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar aukist á árinu 2021 um tæplega 10 milljarða kr. frá fjárlögum fyrir árið 2020 og verði samtals 25,9 milljarðar kr. sem muni svo haldast svipuð árin þar á eftir.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þess muni rúmast innan útgjaldaramma viðkomandi málefnasviðs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í fjárlögum og fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025. Frá og með árinu 2022 er gert ráð fyrir að útgjöld muni lækka um 304 millj. kr. og að afkoma ríkissjóðs batni sem því nemur.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lýst markmiðum með lagasetningu þessari, þeirri framtíðarsýn sem býr að baki endurskipulagningu starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, stofnun tækniseturs og flutningi verkefna. Markmið breytinganna er að efla opinberan stuðning við nýsköpun þannig að hlutverk og aðkoma ríkisins verði vel afmörkuð og í sterkum tengslum við bæði háskólasamfélag og atvinnulíf ásamt því að leitast er við að styðja betur við nýsköpunarstarf á landsbyggðinni. Þá er markmið frumvarpsins enn fremur að skýra ábyrgð á tilteknum málefnum, svo sem málefnum mannvirkja ásamt því að forgangsraða opinberum stuðningi og þjónustu við atvinnulífið, m.a. með því að leggja áherslu á alþjóðlegar kröfur um gæði og faggildingu við prófanir og rannsóknir.

Um 2. gr.

    Með 1. mgr. er ráðherra gert að stofna einkahlutafélag sem hefur það að markmiði að starfrækja tækni- og rannsóknarsetur sem verður fyrst um sinn í núverandi húsnæði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Keldnaholti en síðar í Vatnsmýri í Reykjavík til þess að tryggja samlegð og samstarf við háskólasamfélagið. Um rekstrarform félagsins er nánar fjallað í 3. kafla.
    Íslenska ríkið verður eigandi alls hlutafjár félagsins.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er tilgangi félagsins lýst en hann er að annast rekstur tækni- og rannsóknarseturs á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina. Sýnt hefur verið fram á þörf fyrir aukinn stuðning við innviði og tæknilega aðstöðu á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina. Þróun vöru eða þjónustu á þessu sviði krefst gjarnan margra ára rannsókna og þróunarstarfs, mikillar sérþekkingar og aðkomu „þolinmóðs“ fjármagns. Því er mikilvægt að samnýta sem best þá aðstöðu og innviði sem eru til staðar hér á landi. Jafnframt þarf að sameina krafta um innleiðingu tækninýjunga og nýta vel þann mannauð sem hefur sérþekkingu á sviði hátækni til að nýta þau tækifæri og áskoranir sem felast í hröðum tæknibreytingum og öðrum samfélagslegum áskorunum.
    Félagið skal vera óhagnaðardrifið og skal ekki greiða hluthöfum sínum arð heldur nýta hagnað til þess að efla starfsemi og aðstöðu félagsins.
    Félaginu ber að bjóða upp á tæknilega aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki í nýsköpun, þar á meðal aðgang að tækjabúnaði og sérhæfðum starfsmönnum. Félaginu skal einnig vera heimilt að taka þátt í rannsóknarverkefnum ef við á og veita rannsóknaraðilum og sprotafyrirtækjum ráðgjöf og þjónustu.
    Félaginu verður heimilað að gera hvers konar samninga til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt.
    Í samþykktum félagsins skal tilgangi þess lýst nánar.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram að ráðherra sem fer með eignir ríkisins, þ.e. fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fari með hlut ríkisins í félaginu.

Um 5. gr.

    Samkvæmt greininni er ráðherra heimilt að leggja til félagsins í formi stofnhlutafjár eignarhluti Nýsköpunarmiðstöðvar í tækjabúnaði og öðrum nauðsynlegum búnaði en vegna verkefna félagsins er mikilvægt að félagið hafi þau tæki sem starfsemin krefst. Er hér um að ræða tækjabúnað svo sem rafeindasmásjá, röntgensneiðmyndatæki, ljóssmásjár o.fl., sbr. tækjalista stofnunarinnar. Í einhverjum tilfellum eru umrædd tæki í eigu Nýsköpunarmiðstöðvar ásamt öðrum, svo sem að hluta í eigu Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Ísor, Hafrannsóknastofnunar og Landbúnaðarháskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að félagið geti gert, eftir stofnun þess, samkomulag við ofangreinda aðila um vörslu tækjanna og aðgang viðkomandi að þeim.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um stjórn hins nýja félags, skipun og fjölda stjórnarmanna. Þrátt fyrir að kveðið sé á um að stjórnarmenn séu þrír til fimm við stofnun félagsins geta aðstæður í framtíðinni leitt til þess að ástæða verði talin til að breyta fjölda þeirra. Verður það gert með breytingum á samþykktum félagsins í samræmi við ákvæði laga um einkahlutafélög, svo lengi sem fjöldinn er innan áðurnefnds ramma.
    Stjórnin skal ávallt skipuð hæfum einstaklingum með fjölbreytta og haldgóða reynslu og/eða þekkingu sem hæfir félaginu og þjónar best hagsmunum þess. Einnig skal gæta að jöfnu kynjahlutfalli við tilnefningu í stjórn félagsins. Um hæfi, ráðningu framkvæmdastjóra og skyldu til að gæta hlutleysis við meðferð mála innan stjórnar vísast að öðru leyti til laga um einkahlutafélög.

Um 7. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 8. gr.

    Í greininni kemur fram að ráðherra nýsköpunarmála sé heimilt að gera samning við félagið í þeim tilgangi að það veiti tiltekna þjónustu eða vinni tiltekin verkefni. Slíkir samningar skulu taka mið af markmiðum og stefnumótun stjórnvalda á sviði nýsköpunar á hverjum tíma.

Um 9. gr.

    Í ákvæðinu er tilgreint að ráðherra sé heimilt að gera samninga við aðila, hvort sem er opinbera aðila eða einkaaðila, um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar. Hér er átt við að ráðherra nýsköpunarmála sé heimilt að gera samninga við aðila um ákveðin verkefni, svo sem stuðning við frumkvöðla og ýmis verkefni sem nú eru í vinnslu hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Stofnunin sinnir til að mynda verkefnum í samstarfi við Vinnumálastofnun og er bakhjarl verkefna eins og Brautargengis sem er stuðningur við konur með viðskiptahugmynd. Þessum verkefnum verður fram haldið með stuðningi ráðuneytisins og mun ráðherra því geta gert samkomulag um framkvæmd og umsýslu þeirra.

Um 10. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að lögin taki þegar gildi en komi hins vegar ekki til framkvæmda fyrr en 1. maí 2021.
    Þá er tilgreint að lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, falli úr gildi við gildistöku laganna. Með því fellur úr gildi lagagrundvöllur fyrir starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en starfsemin hefur byggst á ákvæðum þeirra laga, ásamt öðrum verkefnum sem falin hafa verið Nýsköpunarmiðstöð með annarri löggjöf eða á grundvelli samninga, svo sem við Umhverfisstofnun, Veðurstofuna, Vegagerðina og fleiri opinbera aðila.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun starfa fram til 1. maí 2021 en gert er ráð fyrir að starfsemi stofnunarinnar frá áramótum muni aðallega snúa að því að sinna þeim verkefnum sem eru nauðsynleg til að tryggja farsæla yfirfærslu verkefna, svo sem flutning samningshlutdeildar í rannsóknarstyrkjum. Þá mun hluti starfsmanna þegar hafa verið fluttur til annarra stofnana og starfsemi stofnunarinnar mun því einkennast af fyrirhugaðri lokun.
    Samhliða frumvarpi þessu flytur ráðherra einnig frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð en starfsemi hans byggist á II. kafla nefndra laga sem falla brott.

Um 11. gr.

    Við gildistöku laga þessara þarf að gera breytingar á öðrum lögum og eru þær breytingar taldar upp í greininni.
    Um er að ræða breytingar á lögum þar sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands eru falin tiltekin verkefni, svo sem í lögum um byggingarvörur þar sem tilgreint er að framleiðandi byggingarvöru eða viðurkenndur fulltrúi hans skuli afla staðfestingar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eða annars aðila sem ráðherra viðurkennir á nothæfi byggingarvöru. Þessi staðfesting sem stofnunin skal veita er hliðstæð mati tilkynnts aðila á nothæfi skv. 28. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 305/2011. Stofnunin hefur sinnt þessu hlutverki, þ.e. staðfest nothæfi byggingarvöru, og hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ekki tilnefnt annan aðila til þess verks. Gert er ráð fyrir að með niðurlagningu stofnunarinnar muni Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilnefna annan aðila til þess að fara með hlutverk þetta.
    Þá eru gerðar breytingar á ákvæðum laga um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987, þar sem segir að Hagstofa Íslands skuli reikna og birta vísitölu byggingarkostnaðar og að vísitalan skuli reist á þeim grunni sem Hagstofan ákveður í samráði við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Forsendur þess að kveðið var á um samráð við Nýsköpunarmiðstöðina og áður Rannsóknastofu byggingariðnaðarins við þessa ákvarðanatöku lágu í því að tryggja Hagstofu Íslands aðgengi að sérfræðiþekkingu í byggingariðnaði svo að tryggja mætti gæði byggingarvísitölu. Frá setningu laganna árið 1987 hefur eðli starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar breyst auk þess sem lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð hafa verið styrkt mikið. Nú hefur Hagstofan sjálf nægar heimildir til gagnaöflunar við útreikning vísitölunnar og aðkomu annarra er því ekki lengur þörf. Því er tilvísun til Nýsköpunarmiðstöðvar í 1. gr. laganna breytt.
    Jafnframt er mælt fyrir um breytingar á lögum um mannvirki, 160/2010, sem snúa að hlutverki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar varðandi rannsóknir, fræðslu og gagnasöfnun á sviði mannvirkjagerðar. Þannig er mælt fyrir um að stofnunin skuli annast kynningu, fræðslu og gagnasöfnun í tengslum við byggingar- og mannvirkjarannsóknir sem felst í því að stofnunin taki við útgáfu og umsjón með Rb-blöðunum svokölluðu. Þá er mælt fyrir um að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annist umsýslu samkeppnissjóðs um byggingar- og mannvirkjarannsóknir sem gert er ráð fyrir í nýju ákvæði. Sjóðurinn skal heyra undir ráðherra félagsmála og er hlutverk sjóðsins að styrkja og efla byggingarrannsóknir með áherslu á nýsköpun og samfélagslegar áskoranir á sviði mannvirkjagerðar hverju sinni.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að þrátt fyrir að lögin taki þegar gildi skuli Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Tækniþróunarsjóður starfa til 1. maí 2021 í samræmi við lög nr. 75/2007. Á þeim tímapunkti mun Nýsköpunarmiðstöð Íslands verða lögð niður og sérlög taka gildi um starfsemi Tækniþróunarsjóðs, sbr. frumvarp til laga þar um.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Í ákvæðinu felst að embætti forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar og öll störf hjá stofnuninni falla niður 1. maí 2021.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Í greininni er tilgreint að við niðurlagningu starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands fari um réttindi og skyldur starfsmanna stofnunarinnar eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Í því felst m.a. að starfsmenn halda launum í uppsagnarfresti sem og lífeyrisréttindum sínum.
    Þá kann hluti af starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar að eiga rétt til biðlauna ef starf þeirra er lagt niður, annars vegar á grundvelli 34. gr. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, eða á grundvelli 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lögin.
    Hafi starfsmenn ekki verið færðir til í starfi við gildistöku laga þessara, svo sem með tilfærslu verkefna til Rannís, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða annarra opinberra aðila, munu þeir fá afhent uppsagnarbréf. Þeir starfsmenn sem rétt eiga til biðlauna fá afhent niðurlagningarbréf og hefja þá töku biðlauna uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði laga til þess.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Kveðið er á um að ráðherra sé heimilt að stofna félag skv. 2. gr. laganna þrátt fyrir að þau komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. maí 2021. Með því getur félagið tekið til starfa og stjórn þess unnið að móttöku tækja, verkefna og samninga fram til 1. maí 2021. Einnig mun stjórn félagsins geta hafið vinnu við að ráða til félagsins starfsfólk sem hefur þekkingu á þeim tækjabúnaði sem félagið fær og þekkingu á þeim verkefnum sem félagið skal sinna.
    Jafnframt er ráðherra heimilt, þrátt fyrir ákvæði 10. gr., að fela rannsóknar- og tæknisetri að taka yfir skuldbindingar Nýsköpunarmiðstöðvar vegna rannsóknarverkefna. Er þar t.d. um að ræða samninga sem stofnunin hefur gert við samstarfsaðila um rannsóknir og styrkveitingar, þar á meðal samninga við Evrópusambandið um tiltekin rannsóknarverkefni og styrki vegna þeirra. Stefnt er að því að hið nýja félag muni þannig geta tekið við sem aðili samninganna sem hér um ræðir, að því gefnu að slík aðilaskipti séu samþykkt af viðkomandi gagnaðila og að yfirtaka sé metin ákjósanleg. Hér er um að ræða mikilvægan þátt í rekstri nýja félagsins en slíkir samningar mundu stuðla að rekstrargrundvelli starfseminnar. Þá er nauðsynlegt að tæknisetrið geti afla sér nýrra samstarfsverkefna, svo sem með því að bjóða upp á ráðgjöf, þjónustu og aðstöðu.
    Enn fremur getur ráðherra ákveðið að rannsóknar- og tæknisetur skv. 2. gr. skuli taka við hluta af verkefnum Nýsköpunarmiðstöðvar, þ.e. verkefnum Efnis-, líf- og orkutækni og tækjum ásamt tækjabúnaði Rannsóknastofu byggingariðnaðarins, eigi síðar en 1. maí 2021.

Um ákvæði til bráðabirgða V.

    Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur á starfstíma sínum eignast eignarhluta í fyrirtækjum á grundvelli 7. gr. laga nr. 75/2007. Unnið hefur verið að því síðustu mánuði að losa um þessa eignarhluta með sölu eða annarri ráðstöfun. Ákvæði þetta gerir ráð fyrir að þeir eignarhlutir sem eftir standa hjá stofnuninni við gildistöku laga þessara, verði frumvarpið samþykkt, verði í vörslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.