Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 375  —  323. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um fæðingar- og foreldraorlof.

Frá félags- og barnamálaráðherra.



I. KAFLI

Gildissvið, markmið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi taka til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eiga við um foreldra sem eru starfsmenn og/eða sjálfstætt starfandi.
    Lög þessi taka einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks.

2. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir við báða foreldra.
    Þá er lögum þessum ætlað að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

3. gr.

Fæðingar- og foreldraorlof.

    Fæðingar- og foreldraorlof er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem er yngra en átta ára og töku barns sem er yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Auk þess stofnast til fæðingarorlofs samkvæmt lögum þessum við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu.

4. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Fullt nám: 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem varir í a.m.k. sex mánuði og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
     2.      Samfellt starf: A.m.k. 25% starfshlutfall í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Enn fremur teljast til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a–e-lið 2. mgr. 22. gr.
     3.      Sjálfstætt starfandi: Foreldri sem starfar við eigin rekstur samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli, án tillits til félagsforms sé eignarhlutur þess í félaginu meiri en 25%, og foreldrinu er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Hið sama gildir um foreldri sem er maki foreldris skv. 1. málsl., og um foreldri sem er barn yngra en 18 ára inni það af hendi samfellt starf við rekstur foreldris síns og það foreldri fellur undir 1. málsl.
     4.      Starfsmaður: Foreldri sem vinnur launað starf í annarra þjónustu samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Hið sama gildir um foreldri skv. 3. tölul. sem starfar við eigin rekstur samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli í félagi sem það á 25% eða minni eignarhlut í. Þó á hugtakið starfsmaður í XI. kafla við um alla sem vinna launuð störf í annarra þjónustu.
     5.      Starfsmaður og sjálfstætt starfandi: Foreldri sem starfar samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli samanlagt í hverjum mánuði skal teljast starfsmaður skv. 4. tölul. hafi það starfað sem starfsmaður í 50% eða hærra starfshlutfalli en að öðrum kosti teljast sjálfstætt starfandi skv. 3. tölul.

II. KAFLI

Stjórnsýsla.

5. gr.

Yfirstjórn.

    Ráðherra fer með yfirstjórn fæðingar- og foreldraorlofsmála samkvæmt lögum þessum.

6. gr.

Fæðingarorlofssjóður.

    Fæðingarorlofssjóður skal annast greiðslur, sbr. V. kafla, til foreldra sem eiga rétt til greiðslna í fæðingarorlofi. Fæðingarstyrkur til foreldra skv. VIII. kafla og greiðslur skv. X. kafla greiðast úr ríkissjóði.
    Fæðingarorlofssjóður skal vera í vörslu Vinnumálastofnunar sem sér um reikningshald og daglega afgreiðslu sjóðsins og greiðslu fæðingarstyrks í umboði ráðherra.
    Fæðingarorlofssjóður skal fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, og með vöxtum af innstæðufé sjóðsins.
    Ráðherra skal gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar. Skal sjóðurinn árlega gera fjárhagsáætlun sem ráðherra leggur fyrir þann ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins við undirbúning fjárlaga.
    Reikningar Fæðingarorlofssjóðs skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun.
    Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.
    Vinnumálastofnun skal vinna skýrslu árlega um nýtingu réttinda samkvæmt lögum þessum.

7. gr.

Úrskurðarnefnd velferðarmála.

    Úrskurðarnefnd velferðarmála skal kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga þessara.
    Um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála skal fara samkvæmt ákvæðum laga um úrskurðarnefnd velferðarmála um málsmeðferð og almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.
    Vinnumálastofnun skal láta úrskurðarnefnd velferðarmála í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar sem nefndin telur þörf á að afla frá stofnuninni.
    Úrskurðir nefndarinnar um endurkröfu ofgreiðslna samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfir.
    Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Stjórnsýslukæra frestar þó aðför, sbr. 6. mgr. 41. gr., á grundvelli ákvörðunar Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða ofgreidds fæðingarstyrks.

III. KAFLI

Fæðingarorlof.

8. gr.

Réttur foreldra til fæðingarorlofs.

    Foreldrar eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þrátt fyrir framangreint er foreldri heimilt að framselja einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins.
    Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns. Þrátt fyrir að réttur foreldris til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns, sbr. 3. gr., er foreldri heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag, sem staðfestur skal með vottorði ljósmóður, og skal sá tími teljast hluti af sjálfstæðum rétti þess foreldris til fæðingarorlofs. Réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar barns fellur niður er barnið nær 24 mánaða aldri.
    Foreldri sem fætt hefur barn skal vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrsta hálfa mánuðinn eftir fæðingu barns. Skal sá tími teljast hluti af sjálfstæðum rétti þess foreldris til fæðingarorlofs og skal orlofið eigi hefjast síðar en við fæðingu barns. Sinni foreldri ekki skyldu sinni skv. 1. málsl. telst umræddur tími samt sem áður hluti af sjálfstæðum rétti foreldrisins til fæðingarorlofs.
    Við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur stofnast réttur til fæðingarorlofs þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Í þeim tilvikum þegar barnið kemur inn á heimilið og um er að ræða reynslutíma áður en til frumættleiðingar eða varanlegs fósturs getur komið er heimilt að miða við að réttur til fæðingarorlofs stofnist við upphaf þess tíma, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annars lands er heimilt að miða við að réttur til fæðingarorlofs stofnist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist frumættleitt. Réttur til fæðingarorlofs vegna frumættleiðingar eða varanlegs fósturs barns fellur niður 24 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.

9. gr.

Lenging, framsal eða tilfærsla á rétti foreldris til fæðingarorlofs.

    Þrátt fyrir 1. mgr. 8. gr. skal foreldri öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barn fæðist lifandi. Hið sama gildir um einhleypt foreldri sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur frumættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur.
    Foreldri sem fætt hefur barn skal öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði í þeim tilfellum þegar foreldrið er ekki fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt.
    Ef foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili og er af þeim völdum ófært um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess færist sá réttur til fæðingarorlofs, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 8. gr. og foreldri hefur ekki þegar nýtt sér, yfir til hins foreldrisins. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Lögreglustjóri eða dómstólar skulu staðfesta að foreldri muni sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili á fyrrgreindu tímabili. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem sætir nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
    Ef annað foreldrið andast áður en barn nær 24 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarorlofs, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 8. gr. og hið látna foreldri hefur ekki þegar nýtt sér, yfir til eftirlifandi foreldris. Á þetta við hvort sem hið látna foreldri hefur farið með forsjá barnsins, hefur farið sameiginlega með forsjá barnsins með eftirlifandi foreldrinu eða hefur ekki farið með forsjá barnsins við andlátið. Þegar um frumættleiðingu eða varanlegt fóstur er að ræða skal miða við 24 mánuði eftir að barn kom inn á heimilið. Við tilfærsluna verður réttur hins látna foreldris að þeim réttindum sem hið eftirlifandi foreldri hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs, sem það hefur ekki þegar nýtt sér, til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Heimilt er að veita undanþágu frá samþykki foreldris um framsal réttinda þegar foreldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss og skal þá Vinnumálastofnun meta hvort skilyrði fyrir framsali réttindanna séu uppfyllt. Ástand foreldris vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss sem leiðir til þess að foreldrið er ófært um að annast barnið á fyrrgreindu tímabili eða veita samþykki sitt um framsal réttinda sinna skal staðfest með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem er ófært vegna afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs, sem það hefur ekki þegar nýtt sér, til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Fangelsismálayfirvöld skulu staðfesta að foreldrið muni afplána refsivist á fyrrgreindu tímabili. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
    Ef foreldri á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks samkvæmt lögum þessum né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki skal hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði vegna fæðingar barns, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Ef foreldri á sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki getur hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði að frádregnum þeim rétti sem fyrrnefnda foreldrið á í öðru ríki vegna fæðingar barns, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur.
    Ef fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess eða á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þar sem foreldrið hefur ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla, er Vinnumálastofnun heimilt að færa rétt forsjárlausa foreldrisins til fæðingarorlofs, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 8. gr., og foreldrið hefur ekki þegar nýtt sér, yfir til forsjárforeldrisins, enda sæki forsjárforeldrið um tilfærsluna til Vinnumálastofnunar. Hið sama á við liggi fyrir niðurstaða lögmælts stjórnvalds eða dómstóla um að umgengni forsjárlausa foreldrisins skuli vera verulega takmörkuð, svo sem undir eftirliti. Vinnumálastofnun skal meta hvort skilyrði fyrir tilfærslu réttinda, sbr. framangreint, séu uppfyllt og er stofnuninni heimilt að óska eftir nauðsynlegum gögnum frá forsjárforeldrinu eða öðrum aðilum við matið. Við tilfærsluna verður réttur forsjárlausa foreldrisins að þeim réttindum sem forsjárforeldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um skilyrði fyrir tilfærslu réttinda.

10. gr.

Forsjá barns.

    Skilyrði fyrir því að foreldri geti nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs er að foreldri fari með forsjá barnsins eða fari sameiginlega með forsjá þess ásamt hinu foreldrinu þann tíma sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs.
    Þrátt fyrir 1. mgr. getur foreldri sem ekki fer með forsjá barns nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs þegar fyrir liggur samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof forsjárlausa foreldrisins stendur yfir. Hið sama gildir þegar fyrir liggur samningur milli forsjárlausa foreldrisins og forsjárforeldrisins, sem sýslumaður hefur staðfest, um umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem forsjárlausa foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs eða þegar fyrir liggur niðurstaða lögmælts stjórnvalds eða dómstóla um umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs.

11. gr.

Réttur til fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar eða fósturláts.

    Foreldrar eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sjálfstæðan rétt á fæðingarorlofi í allt að tvo mánuði hvort um sig frá þeim degi er fósturlátið á sér stað. Réttur til fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar eða fósturláts fellur niður 24 mánuðum eftir andvanafæðingu eða fósturlát.
    Tímalengd meðgöngu skv. 1. mgr. skal staðfest með vottorði sérfræðilæknis og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af vottorðinu. Hafi foreldrar ekki verið í hjúskap eða skráðri sambúð við andvanafæðingu eða fósturlát skv. 1. mgr. skulu á vottorðinu jafnframt koma fram upplýsingar um foreldra.

12. gr.

Tilkynning um fæðingarorlof.

    Þegar starfsmaður hyggst nýta sér rétt til fæðingarorlofs skal hann tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi átta vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Vilji starfsmaður breyta áður tilkynntum upphafsdegi fæðingarorlofs eða tilkynna um nýtt tímabil fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 8. gr., ber honum að tilkynna það vinnuveitanda þremur vikum fyrir hinn nýja fyrirhugaða upphafsdag fæðingarorlofs.
    Tilkynni starfsmaður fyrst um töku fæðingarorlofs eftir fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skal tilkynningin berast vinnuveitanda að lágmarki átta vikum áður en starfsmaðurinn hyggst nýta sér rétt til fæðingarorlofs og skal um tilhögun þess fara skv. 13. gr. Ef samkomulag næst ekki á milli starfsmanns og vinnuveitanda hefur starfsmaður ávallt rétt til að taka fæðingarorlof í einu lagi í kjölfar fæðingarorlofs hins foreldrisins eða ef barn veikist svo að nærvera foreldris er nauðsynleg. Í öðrum tilvikum getur vinnuveitandi frestað töku fæðingarorlofs starfsmanns, ef sérstakar aðstæður í rekstri fyrirtækis eða stofnunar gera slíkt nauðsynlegt, í að hámarki átta vikur en þó ekki lengur en svo að því verði lokið fyrir 24 mánaða aldur barns.
    Tilkynning um töku fæðingarorlofs skal vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg, og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Þá skal vinnuveitandi árita tilkynninguna með móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar. Vinnuveitandi getur krafist sönnunar á að foreldri fari með forsjá barnsins eða að fyrir liggi samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof forsjárlausa foreldrisins stendur yfir, sbr. 10. gr., telji hann þess þörf.

13. gr.

Tilhögun fæðingarorlofs.

    Starfsmaður skal eiga rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er starfsmanni með samkomulagi við vinnuveitanda heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs samkvæmt ákvæði þessu.
    Óski starfsmaður eftir að haga fæðingarorlofi skv. 2. mgr. en vinnuveitandi getur ekki komið til móts við óskir starfsmannsins skulu vinnuveitandinn og starfsmaðurinn komast að samkomulagi um aðra tilhögun fæðingarorlofsins innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar um töku fæðingarorlofs, sbr. 3. mgr. 12. gr. Skal það gert skriflega og ástæður fyrir breyttri tilhögun tilgreindar.
    Ef samkomulag næst ekki milli starfsmanns og vinnuveitanda um töku fæðingarorlofs starfsmannsins, sbr. 3. mgr., á starfsmaður ávallt rétt á að taka fæðingarorlof sitt í einu lagi frá þeim upphafsdegi sem starfsmaður ákveður.

14. gr.

Uppsöfnun og vernd réttinda.

    Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og atvinnuleysisbóta.

IV. KAFLI

Aukinn réttur til fæðingarorlofs.

15. gr.

Fjölburafæðingar.

    Foreldrar eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt sem fæðist lifandi eða fæðist andvana eftir 22 vikna meðgöngu.
    Foreldrar sem frumættleiða eða taka í varanlegt fóstur fleiri börn en eitt á sama tíma eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.

16. gr.

Öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.

    Ef öryggi og heilbrigði barnshafandi foreldris sem er starfsmaður skv. 4. tölul. 4. gr., foreldris sem hefur nýlega fætt barn eða foreldris sem er með barn á brjósti er í hættu samkvæmt sérstöku mati skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi foreldrisins með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma þess. Ef því verður ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skal vinnuveitandi fela foreldrinu önnur verkefni en að öðrum kosti veita því leyfi frá störfum þann tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi þess og heilbrigði og skal foreldrið eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma sem um ræðir, sbr. 3. mgr. Um framkvæmd þessa ákvæðis skal fara eftir nánari reglugerð sem ráðherra setur.
    Þær breytingar, sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma foreldris, sbr. 1. mgr., skulu hvorki hafa áhrif til lækkunar á launakjör þess hjá vinnuveitanda né á önnur starfstengd réttindi.
    Ef veita þarf barnshafandi foreldri leyfi frá störfum samkvæmt ákvæði þessu á það rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma sem um ræðir. Starfi barnshafandi foreldri hjá fleiri en einum vinnuveitanda á það rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í réttu hlutfalli vegna þess starfs sem því er veitt leyfi frá. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur niður réttur foreldris til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæði þessu.

17. gr.

Veikindi barnshafandi foreldris á meðgöngu.

    Sé barnshafandi foreldri nauðsynlegt af heilsufarsástæðum sem tengjast meðgöngunni að fá leyfi frá störfum eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 22. gr. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns að mati sérfræðilæknis skal foreldrið eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma sem um ræðir en þó aldrei lengur en í tvo mánuði. Með heilsufarsástæðum sem tengjast meðgöngunni er átt við sjúkdóma sem upp kunna að koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, tímabundna eða langvarandi sjúkdóma sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni sem og meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda hafi meðferðin í för með sér óvinnufærni. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma.
    Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1. mgr. með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast hefur foreldrið og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.
    Umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 1. mgr. skal fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar, eftir því sem við á. Í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær greiðslur féllu niður.

18. gr.

Veikindi foreldris í tengslum við fæðingu barns.

    Heimilt er að lengja fæðingarorlof foreldris sem fætt hefur barn um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda foreldrisins í tengslum við fæðinguna enda verði veikindin rakin til fæðingarinnar og foreldrið hafi af þeim völdum verið ófært um að annast barn sitt í fæðingarorlofi sínu að mati sérfræðilæknis.
    Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1. mgr. með vottorði sérfræðilæknis og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging fæðingarorlofs skv. 1. mgr. sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

19. gr.

Veikindi eða fötlun barns.

    Heimilt er að lengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði þegar barn þarf að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu eða ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika hjá barni eða alvarlega fötlun barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.
    Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1. mgr. með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast hefur barnið og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging fæðingarorlofs skv. 1. mgr. er nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

V. KAFLI

Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

20. gr.

Umsókn til Vinnumálastofnunar.

    Foreldri skal sækja um greiðslur í fæðingarorlofi til Vinnumálastofnunar sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Vilji foreldri hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag, sbr. 2. mgr. 8. gr., ber því að tilkynna það Vinnumálastofnun þremur vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag fæðingarorlofs.
    Umsóknin skal vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg, og skal fylgja henni afrit af tilkynningu um fæðingarorlof skv. 12. gr. sem foreldri hefur fengið áritaða hjá vinnuveitanda sínum þar sem fram kemur fyrirhugaður upphafsdagur, lengd og tilhögun fæðingarorlofs. Þegar foreldri er sjálfstætt starfandi skal það tekið fram í umsókninni og tilgreint um fyrirhugaðan upphafsdag, lengd og tilhögun fæðingarorlofs.
    Þegar foreldri getur ekki tekið fæðingarorlof á þeim tíma sem það tilkynnti Vinnumálastofnun um skv. 2. mgr. vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna ber foreldri að tilkynna Vinnumálastofnun um breytinguna á því formi sem stofnunin ákveður, svo sem rafrænt eða skriflega. Vinnuveitandi foreldris skal árita breytingu á tilhögun fæðingarorlofs foreldris.

21. gr.

Réttur foreldris til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

    Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur sem og frá þeim degi þegar andvanafæðing eða fósturlát á sér stað, sbr. 2. og 4. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 11. gr., og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 16. og 17. gr., skal þó miða við þann dag er foreldrið hefur töku fæðingarorlofs.
    Þegar foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila þess sem starfsmanns og/eða sjálfstætt starfandi í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu enda hafi störf foreldrisins veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum hlutaðeigandi ríkis um fæðingarorlof. Hafi foreldri hins vegar starfað á innlendum vinnumarkaði skemur en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meta hvort viðkomandi foreldri teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga þessara þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt er, tillit til starfstímabila foreldrisins í öðru aðildarríki að framangreindum samningum á ávinnslutímabilinu enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Skilyrði er að foreldri hafi hafið störf á innlendum vinnumarkaði innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru aðildarríki að framangreindum samningum. Foreldri skal láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru aðildarríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skv. 20. gr.

22. gr.

Þátttaka foreldris á innlendum vinnumarkaði.

    Þátttaka foreldris á innlendum vinnumarkaði skv. 21. gr. felur í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi eða launum er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein eða sem samkvæmt kjarasamningi telst fullt starf.
    Til þátttöku á innlendum vinnumarkaði telst enn fremur:
     a.      orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli,
     b.      sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
     c.      sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
     d.      sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
     e.      sá tími sem foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%.
    Vinnumálastofnun metur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr.
    Sjúkratryggingastofnunin metur á grundvelli laga um sjúkratryggingar og laga um slysatryggingar almannatrygginga hvort foreldri hefði átt rétt á sjúkra- eða slysadagpeningum hefði það sótt um þá fyrir þann tíma sem um er að ræða, sbr. c-lið 2. mgr.
    Tryggingastofnun ríkisins metur á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hvort foreldri hefði átt rétt á tekjutengdum greiðslum skv. III. kafla þeirra laga hefði það sótt um slíkar greiðslur fyrir þann tíma sem um er að ræða, sbr. e-lið 2. mgr.

23. gr.

Viðmiðunartímabil og útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

    Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna skv. 4. og 5. mgr. og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald skv. 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skal þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
    Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til sjálfstætt starfandi, sbr. 3. tölul. 4. gr., skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Að öðru leyti gilda ákvæði 1., 3. og 5. mgr. eins og við getur átt.
    Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris sem er bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr., skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af. Starfi viðkomandi foreldri sem starfsmaður skv. 4. tölul. 4. gr. í 50% eða hærra starfshlutfalli skal miða við viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. Að öðrum kosti skal miða við viðmiðunartímabil skv. 2. mgr. Að öðru leyti gilda ákvæði 1., 2., 4. og 5. mgr. eins og við getur átt.
    Til launa á innlendum vinnumarkaði skv. 1.–3. mgr. teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skal telja til launa þau tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði skv. a–e-lið 2. mgr. 22. gr. Auk þess skal telja til launa greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003. Þegar um er að ræða 100% greiðslur á viðmiðunartímabili, í tengslum við tilvik sem falla undir a–e-lið 2. mgr. 22. gr., sem foreldri átti rétt á skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við. Hafi foreldri hins vegar kosið að dreifa greiðslum, í tengslum við tilvik sem falla undir a–e-lið 2. mgr. 22. gr., hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræðir. Sama á við hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum, í tengslum við tilvik sem falla undir a–e-lið 2. mgr. 22. gr., hlutfallslega á lengri tíma enda þótt foreldri hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en sem nemur viðmiðunartekjum sem miða skal við samkvæmt framangreindu enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli greiðslna, í tengslum við tilvik sem falla undir a–e-lið 2. mgr. 22. gr., og meðaltals heildarlauna bættan samhliða greiðslunum. Þegar greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, koma til á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við.
    Útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skal byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Vinnumálastofnun skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 1.–3. mgr. Vinnumálastofnun ber að upplýsa umsækjanda um fyrirhugaða upplýsingaöflun í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.
    Skattyfirvöld skulu láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna án endurgjalds og á því formi sem óskað er.

24. gr.

Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

    Þrátt fyrir 1.–3. mgr. 23. gr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi aldrei nema hærri fjárhæð en 600.000 kr.
    Þegar foreldri á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 1. mgr. 21. gr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. skal foreldrið öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 3. mgr. í samræmi við starfshlutfall þess.
    Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris sem hefur verið í 25–49% starfi að meðaltali í hverjum almanaksmánuði á ávinnslutímabili skv. 21. og 22. gr. skal aldrei vera lægri en sem nemur 137.632 kr. á mánuði í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris þann almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. og 13. gr. Greiðsla til foreldris sem hefur verið í 50–100% starfi að meðaltali í hverjum almanaksmánuði á ávinnslutímabili skv. 21. og 22. gr. skal aldrei vera lægri en sem nemur 184.119 kr. á mánuði í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris þann almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. og 13. gr.
    Greiðslur í fæðingarorlofi skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Ekki er heimilt að greiða foreldri lengra aftur í tímann en þrjá almanaksmánuði á undan þeim almanaksmánuði sem umsókn um greiðslur skv. 20. gr. barst.
    Ef annað foreldrið nýtir hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs skv. 15. og/eða 19. gr. og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks skv. 34. og/eða 36. gr. sem því nemur.
    Meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 11,5% mótframlag. Foreldri er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð.

25. gr.

Skerðing á greiðslum.

    Réttur foreldris sem er starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.–5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi er bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs skv. III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skulu koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Tekjur foreldris sem er í fæðingarorlofi samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 2. mgr. 13. gr., sem eru í samræmi við meðaltal heildarlauna á viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. skulu ekki hafa áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrir sama tímabil. Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Er þá átt við tímabil sem hefst frá og með fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris innan tiltekins almanaksmánaðar og lýkur frá og með þeim degi sem foreldrið nýtir ekki lengur rétt sinn til fæðingarorlofs innan tiltekins almanaksmánaðar. Gildir hið sama hvort sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs að fullu eða samhliða minnkuðu starfshlutfalli á fyrrnefndu tímabili. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja má til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. lýkur og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skal tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert er við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris skv. 1.–3. mgr. 23. gr. Foreldri skal sýna fram á með skriflegum gögnum á hvaða grundvelli umræddar launabreytingar skv. 7. málsl. byggjast og er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggur fram í þessu sambandi. Hafi foreldri fengið óvenju háar greiðslur frá vinnuveitanda fyrir eða eftir fæðingarorlof eða meðan á fæðingarorlofi stendur miðað við tekjur á viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. þannig að ætla megi að þær hafi að hluta eða öllu leyti verið ætlaðar fyrir sama tímabil og það tímabil sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs skal Vinnumálastofnun óska eftir að viðkomandi foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum fyrir hvaða tímabil umræddar greiðslur hafa verið ætlaðar. Hið sama gildir um óvenju háar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris á tímabili þar sem foreldri hefur minnkað starfshlutfall sitt samhliða nýtingu réttar til fæðingarorlofs. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggur fram í þessu sambandi.
    Foreldri sem á rétt til fæðingarorlofs skv. III. og IV. kafla en uppfyllir ekki skilyrði 21. gr. á rétt á fæðingarstyrk skv. 26. eða 27. gr. eftir því sem við getur átt. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en sem nemur mismun fjárhæðar fæðingarstyrks og meðaltals heildarlauna foreldris skulu koma til frádráttar styrknum. Við útreikning á meðaltali heildarlauna samkvæmt þessari málsgrein skal miða við tvo almanaksmánuði fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð þegar barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða varanlegt fóstur. Að öðru leyti gildir ákvæði 1. mgr. eftir því sem við getur átt.

VI. KAFLI

Fæðingarstyrkur.

26. gr.

Réttur foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli til fæðingarstyrks.

    Foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þrátt fyrir framangreint er foreldri heimilt að framselja einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar barns stofnast við fæðingu barnsins og fellur niður er barnið nær 24 mánaða aldri.
    Við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur stofnast réttur til fæðingarstyrks þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Í þeim tilvikum þegar barnið kemur inn á heimilið og um er að ræða reynslutíma áður en til frumættleiðingar eða varanlegs fósturs getur komið er heimilt að miða við að réttur til fæðingarstyrks stofnist við upphaf þess tíma, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annars lands er heimilt að miða við að réttur til fæðingarstyrks stofnist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist frumættleitt. Réttur til fæðingarstyrks vegna frumættleiðingar eða varanlegs fósturs barns fellur niður 24 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.

27. gr.

Réttur foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks.

    Foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þrátt fyrir framangreint er foreldri heimilt að framselja einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs þá skólaönn sem barn fæðist. Réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar barns stofnast við fæðingu barnsins og fellur niður er barnið nær 24 mánaða aldri.
    Við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur stofnast réttur til fæðingarstyrks þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Í þeim tilvikum þegar barnið kemur inn á heimilið og um er að ræða reynslutíma áður en til frumættleiðingar eða varanlegs fósturs getur komið er heimilt að miða við að réttur til fæðingarstyrks stofnist við upphaf þess tíma, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annars lands er heimilt að miða við að réttur til fæðingarstyrks stofnist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist frumættleitt. Réttur til fæðingarstyrks vegna frumættleiðingar eða varanlegs fósturs barns fellur niður 24 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.

28. gr.

Undanþágur frá skilyrði um fullt nám.

    Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 27. gr. þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 21. gr., fram til þess að námið hófst.
    Enn fremur er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 27. gr. og hefur síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði.
    Heimilt er að greiða foreldri sem fætt hefur barn fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 27. gr. þó að það uppfylli ekki skilyrði um að hafa staðist kröfur um námsframvindu og/eða ástundun enda hafi það ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna sem tengjast meðgöngunni, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. Foreldri sem fætt hefur barn skal leggja fram vottorð þess sérfræðilæknis sem annast hefur það á meðgöngu því til staðfestingar og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Auk þess skal foreldrið leggja fram staðfestingu frá skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.
    Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 27. gr. þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka prófgráðu. Skal foreldri jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 1. mgr. 27. gr.

29. gr.

Lögheimilisskilyrði.

    Foreldri skal eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir þann tíma til að geta átt rétt á greiðslu fæðingarstyrks samkvæmt þessum lögum.
    Foreldrar sem fengið hafa dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða í fyrsta skipti samkvæmt lögum um útlendinga geta átt rétt á fæðingarstyrk samkvæmt lögum þessum þrátt fyrir að þeir hafi ekki átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur enda sé skemmri tími en tólf mánuðir liðnir frá veitingu dvalarleyfis og önnur skilyrði laga þessara séu uppfyllt.
    Heimilt er að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Hið sama gildir þegar foreldri hefur flutt lögheimili sitt tímabundið og stundar fjarnám við íslenskan skóla á þeim tíma enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning og fullnægir öðrum skilyrðum um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi.
    Hafi foreldri átt lögheimili hér á landi í a.m.k. einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns eða þann dag er barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetutímabila foreldris í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar þegar metið er hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 1. mgr. enda hafi foreldri verið tryggt á sama tíma í því ríki og ekki hefur liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis var lokið. Foreldri skal láta tilskilin vottorð um búsetutímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur skv. 37. gr.

30. gr.

Lenging, framsal og tilfærsla á rétti foreldris til fæðingarstyrks.

    Þrátt fyrir 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. skal foreldri öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu sem lýkur með að barn fæðist lifandi. Hið sama gildir um einhleypt foreldri sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur frumættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur.
    Foreldri sem fætt hefur barn skal öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði í þeim tilfellum þegar foreldrið er ekki fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt.
    Ef foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili og er af þeim völdum ófært um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess færist sá réttur til fæðingarstyrks, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 26. gr. eða 1. mgr. 27. gr., og foreldri hefur ekki þegar nýtt sér, yfir til hins foreldrisins. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Lögreglustjóri eða dómstólar skulu staðfesta að foreldri muni sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili á fyrrgreindu tímabili. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem sætir nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
    Ef annað foreldrið andast áður en barn nær 24 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarstyrks, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 26. gr. eða 1. mgr. 27. gr., og hið látna foreldri látni hefur ekki þegar nýtt sér, yfir til eftirlifandi foreldris. Á þetta við hvort sem hið látna foreldri hefur farið með forsjá barnsins, hefur farið sameiginlega með forsjá barnsins með eftirlifandi foreldrinu eða hefur ekki farið með forsjá barnsins við andlátið. Þegar um frumættleiðingu eða varanlegt fóstur er að ræða skal miða við 24 mánuði eftir að barn kom inn á heimilið. Við tilfærsluna verður réttur hins látna foreldris að þeim réttindum sem hið eftirlifandi foreldri hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarstyrks sem það hefur ekki þegar nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Heimilt er að veita undanþágu frá samþykki foreldris um framsal réttinda þegar foreldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss og skal þá Vinnumálastofnun meta hvort skilyrði fyrir framsali réttindanna séu uppfyllt. Ástand foreldris vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss sem leiðir til þess að foreldrið er ófært um að annast barnið á fyrrgreindu tímabili eða veita samþykki sitt um framsal réttinda sinna skal staðfest með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem er ófært vegna afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarstyrks, sem það hefur ekki þegar nýtt sér, til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Fangelsismálayfirvöld skulu staðfesta að foreldrið muni afplána refsivist á fyrrgreindu tímabili. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
    Ef foreldri á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks samkvæmt lögum þessum né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki skal hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði vegna fæðingar barns, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Ef foreldri á sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki getur hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði að frádregnum þeim rétti sem fyrrnefnda foreldrið á í öðru ríki vegna fæðingar barns, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur.
    Ef fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þar sem foreldrið hefur ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla, er Vinnumálastofnun heimilt að færa rétt forsjárlausa foreldrisins til fæðingarstyrks, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 26. gr. eða 1. mgr. 27. gr., og foreldrið hefur ekki þegar nýtt sér yfir til forsjárforeldrisins, enda sæki forsjárforeldrið um tilfærsluna til Vinnumálastofnunar. Hið sama á við liggi fyrir niðurstaða lögmælts stjórnvalds eða dómstóla um að umgengni forsjárlausa foreldrisins skuli vera verulega takmörkuð, svo sem undir eftirliti. Vinnumálastofnun skal meta hvort skilyrði fyrir tilfærslu réttinda, sbr. framangreint, séu uppfyllt og er stofnuninni heimilt að óska eftir nauðsynlegum gögnum frá forsjárforeldrinu eða öðrum aðilum við matið. Við tilfærsluna verður réttur forsjárlausa foreldrisins að þeim réttindum sem forsjárforeldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um skilyrði fyrir tilfærslu réttinda.

31. gr.

Forsjá barns.

    Skilyrði fyrir því að foreldri geti nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks er að foreldri fari sjálft með forsjá barnsins eða fari sameiginlega með forsjá þess ásamt hinu foreldrinu þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks til foreldrisins stendur yfir, sbr. þó 2. mgr.
    Þrátt fyrir 1. mgr. getur foreldri sem ekki fer með forsjá barns síns nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks þegar fyrir liggur samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem forsjárlausa foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarstyrks. Hið sama gildir þegar fyrir liggur samningur milli forsjárlausa foreldrisins og forsjárforeldrisins sem sýslumaður hefur staðfest um umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem forsjárlausa foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarstyrks eða þegar fyrir liggur niðurstaða lögmælts stjórnvalds eða dómstóla um umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarstyrks.

32. gr.

Réttur til fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar eða fósturláts.

    Foreldrar eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að tvo mánuði hvort um sig frá þeim degi er fósturlátið á sér stað. Réttur til fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar eða fósturláts fellur niður 24 mánuðum eftir andvanafæðingu eða fósturlát.
    Tímalengd meðgöngu skv. 1. mgr. skal staðfest með vottorði sérfræðilæknis og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Hafi foreldrar ekki verið í hjúskap eða skráðri sambúð við andvanafæðingu eða fósturlát skv. 1. mgr. skulu á vottorðinu jafnframt koma fram upplýsingar um foreldra.

33. gr.

Tilhögun fæðingarstyrks.

    Foreldri er heimilt að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks á fleiri en eitt tímabil, sbr. 2. mgr. 38. gr. Þó getur greiðslutímabilið skemmst varað hálfan mánuð í senn.

VII. KAFLI

Aukinn réttur til fæðingarstyrks.

34. gr.

Fjölburafæðingar.

    Foreldrar eiga sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt sem fæðist lifandi eða fæðist andvana eftir 22 vikna meðgöngu.
    Foreldrar sem frumættleiða eða taka í varanlegt fóstur fleiri börn en eitt á sama tíma eiga sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt.

35. gr.

Veikindi foreldris í tengslum við fæðingu barns.

    Heimilt er að lengja rétt foreldris sem fætt hefur barn til fæðingarstyrks um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda foreldrisins í tengslum við fæðingu barnsins enda verði veikindin rakin til fæðingarinnar og að foreldrið hafi af þeim völdum verið ófært um að annast barn sitt þann tíma sem fæðingarstyrkur var greiddur að mati sérfræðilæknis.
    Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á rétti foreldris til fæðingarstyrks, sbr. 1. mgr., með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast hefur foreldrið og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging á rétti foreldris til fæðingarstyrks sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

36. gr.

Veikindi eða fötlun barns.

    Heimilt er að lengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks um allt að sjö mánuði þegar barn þarf að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu eða ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika hjá barni eða alvarlega fötlun barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.
    Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á rétti foreldris til fæðingarstyrks, sbr. 1. mgr., með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast hefur barnið og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging á rétti foreldris til fæðingarstyrks sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

VIII. KAFLI

Greiðsla fæðingarstyrks.

37. gr.

Umsókn til Vinnumálastofnunar.

    Foreldri skal sækja um fæðingarstyrk til Vinnumálastofnunar þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. þó 20. gr.
    Umsóknin skal vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg, og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag greiðslu fæðingarstyrks til foreldris og lengd greiðslutímabils.

38. gr.

Greiðslur fæðingarstyrks.

    Fæðingarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli skal aldrei vera lægri en sem nemur 83.233 kr. á mánuði. Fæðingarstyrkur til foreldris í fullu námi skal aldrei vera lægri en sem nemur 190.747 kr. á mánuði.
    Greiðslur fæðingarstyrks til foreldris skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði, sbr. 33. gr., fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Heimilt er að greiða fæðingarstyrk fyrir fæðingarmánuð barns óháð því hvaða mánaðardag barn fæðist. Hafi barn verið frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur er heimilt að greiða fæðingarstyrk fyrir þann almanaksmánuð sem barn kom inn á heimilið eða þann almanaksmánuð sem ferð foreldra hefst til að sækja barn til annars lands óháð þeim mánaðardegi sem barn kom inn á heimilið eða ferðin hófst til að sækja barnið. Ekki er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk lengra aftur í tímann en þrjá almanaksmánuði á undan þeim almanaksmánuði sem umsókn um greiðslur skv. 1. mgr. 37. gr. barst.
    Ef annað foreldrið nýtir hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarstyrks skv. 34. og/eða 36. gr. og nýtur greiðslna fæðingarstyrks styttist greiðslutímabil úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs skv. 15. og/eða 19. gr. sem því nemur.

39. gr.

Skerðing á greiðslu fæðingarstyrks.

    Réttur foreldris til fæðingarstyrks er bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarstyrks skv. VI. eða VII. kafla. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris sem eru hærri en sem nemur helmingi þeirrar styrkfjárhæðar sem foreldri hefur fengið greidda skv. 38. gr. skulu koma til frádráttar styrknum. Að öðru leyti gildir ákvæði 1. mgr. 25. gr. eftir því sem við getur átt.

IX. KAFLI

Eftirlit, leiðrétting á greiðslum og endurmat réttinda.

40. gr.

Eftirlit.

    Vinnumálastofnun skal annast eftirlit með framkvæmd laga þessara, þ.m.t. með því hvort foreldri hafi fengið hærri greiðslur í fæðingarorlofi og fæðingarstyrk á grundvelli laganna en því bar samkvæmt ákvæðum laganna.
    Skattyfirvöld skulu láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits Vinnumálastofnunar með framkvæmd laga þessara enda hafi viðkomandi foreldri verið upplýst um slíka ráðstöfun.
    Vinnumálastofnun er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal þeirra sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg við framkvæmd eftirlits skv. 1. mgr.
    Að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara, m.a. til að tryggja að foreldrar fái ekki hærri greiðslur í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk en þeim ber samkvæmt ákvæðum laganna, er heimilt við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 3. mgr., að samkeyra upplýsingar Vinnumálastofnunar við upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá fyrir það tímabil sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks. Slíkar samkeyrslur skulu gerðar án þess að upplýsingar séu sendar á milli stofnana umfram það sem nauðsynlegt er til skoðunar á fyrir fram skilgreindu athugunarefni. Að öðru leyti fer um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Komi fram við eftirlit með lögum þessum að ætla megi að foreldri hafi fengið hærri greiðslur í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk á grundvelli laganna en því bar samkvæmt ákvæðum þeirra skal Vinnumálastofnun óska eftir að viðkomandi foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum að svo hafi ekki verið. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggur fram í þessu sambandi eftir því sem við á.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um framkvæmd eftirlits Vinnumálastofnunar samkvæmt ákvæði þessu.

41. gr.

Leiðrétting á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

    Hafi breytingar orðið á tekjuskattsálagningu foreldris vegna tekna sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru byggðar á, sbr. 5. mgr. 23. gr., skal Vinnumálastofnun leiðrétta greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til samræmis við álagningu skattyfirvalda.
    Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum laga þessara miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
    Heimilt er að skuldajafna ofgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða ofgreiddum fæðingarstyrk á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum um tekjuskatt. Ráðherra er fer með tekjuöflun ríkisins skal setja í reglugerð nánari reglur um skuldajöfnun og forgangsröð.
    Um innheimtu ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða ofgreidds fæðingarstyrks fer skv. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Ráðherra getur falið sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.
    Hafi foreldri fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda ber Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldris ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en hafi áður verið synjað um greiðslur eða reiknaðar lægri greiðslur. Þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falla vextir niður.
    Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða ofgreidds fæðingarstyrks skv. 2. mgr. eru aðfararhæfar.

42. gr.

Endurmat á rétti til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks.

    Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum laga þessara miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum og endurgreiðir Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem ofgreidd var ber Vinnumálastofnun að endurmeta hvort viðkomandi foreldri hafi fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks eða ekki og upplýsa foreldrið um niðurstöðu endurmatsins.

X. KAFLI

Skert aðgengi að fæðingarþjónustu.

43. gr.

Sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu.

    Sé barnshafandi foreldri, sbr. 1. gr., nauðsynlegt að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barns er heimilt að greiða foreldrinu sérstakan styrk í allt að 14 daga fyrir áætlaðan fæðingardag barns enda dvelji foreldri fjarri heimili sínu þá daga. Dvöl barnshafandi foreldris á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun telst ekki hluti af 14 daga tímabili skv. 1. málsl. Fæðist barn fyrir áætlaðan fæðingardag fellur réttur foreldris skv. 1. málsl. niður frá og með fæðingardegi barnsins.
    Fjárhæð styrks skal miðast við sömu reglur og gilda á hverjum tíma um dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands að því er varðar kostnað vegna gistingar, sbr. auglýsingu ferðakostnaðarnefndar og umburðarbréf nefndarinnar.
    Umsókn um styrk skv. 1. mgr. skal vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg, og skal fylgja umsókninni vottorð þess sérfræðilæknis sem annast hefur foreldrið þar sem fram kemur rökstuðningur viðkomandi sérfræðilæknis fyrir því að viðkomandi foreldri sé nauðsynlegt að hans mati að dvelja fjarri heimili sínu í tiltekinn tíma fyrir áætlaðan fæðingardag barns í tengslum við nauðsynlega fæðingarþjónustu vegna fæðingar barns. Skal Vinnumálastofnun berast frumrit af vottorðinu. Vinnumálastofnun skal leggja mat á rökstuðning sérfræðilæknis, sbr. 1. málsl., og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum lækni við matið.
    Greiðslur styrks skv. 1. mgr. skulu inntar af hendi eftir fæðingardag barns. Réttur til styrks skv. 1. mgr. fellur niður sex mánuðum eftir fæðingardag barns hafi umsókn, sbr. 3. mgr., ekki borist Vinnumálastofnun fyrir þann tíma.

XI. KAFLI

Foreldraorlof.

44. gr.

Réttur foreldra til töku foreldraorlofs.

    Foreldri skal eiga rétt á foreldraorlofi í fjóra mánuði til að annast barn sitt.
    Réttur til foreldraorlofs stofnast við fæðingu barns. Við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldri þarf að sækja barnið til annars lands getur foreldraorlof hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist frumættleitt.
    Réttur til foreldraorlofs fellur niður er barnið nær átta ára aldri. Hafi réttur til foreldraorlofs fallið niður ónýttur að hluta eða öllu leyti við átta ára aldur barns verður sá réttur virkur aftur komi til þess að barn greinist síðar með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, en áður en það verður fullra 18 ára.
    Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur.
    Foreldraorlofi fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði.

45. gr.

Tilhögun foreldraorlofs.

    Foreldri skal eiga rétt á að taka foreldraorlof í einu lagi.
    Með samkomulagi við vinnuveitanda er starfsmanni þó heimilt að haga foreldraorlofi með öðrum hætti, t.d. þannig að orlofið skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
    Vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs.
    Starfsmanni er óheimilt nema með sérstöku samþykki vinnuveitanda að taka lengra foreldraorlof en fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili.

46. gr.

Tilkynning um foreldraorlof.

    Starfsmaður öðlast rétt til foreldraorlofs eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda. Á það við hvort sem starfsmaðurinn hefur verið ráðinn tímabundið eða ótímabundið.
    Starfsmaður sem hyggst nýta sér rétt til foreldraorlofs skal tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi sex vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag orlofs. Tilkynning um töku foreldraorlofs skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Skal vinnuveitandi árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum og Vinnumálastofnun afrit hennar.
    Vinnuveitandi skal skrá töku foreldraorlofs þannig að starfsmaður geti fengið vottorð um fjölda tekinna foreldraorlofsdaga óski hann þess.

47. gr.

Frestun eða aðrar breytingar á tilhögun foreldraorlofs.

    Geti vinnuveitandi ekki fallist á óskir starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs skal hann að höfðu samráði við starfsmann tilkynna um aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar, sbr. 2. mgr. 46. gr. Skal það gert skriflega, ástæður þess tilgreindar og ef um frestun er að ræða skal tekið fram hve lengi frestunin varir.
    Frestun er eingöngu heimil þegar fyrir hendi eru sérstakar aðstæður í rekstri fyrirtækis/stofnunar sem gera slíkt nauðsynlegt, svo sem ef um er að ræða árstíðabundin störf, ef ekki tekst að finna hæfan staðgengil, ef umtalsverður hluti starfsmanna sækir um foreldraorlof á sama tíma eða viðkomandi starfsmaður gegnir lykilhlutverki í æðstu stjórn fyrirtækis eða stofnunar.
    Vinnuveitanda er aldrei heimilt að fresta foreldraorlofi lengur en í sex mánuði frá þeim tíma sem foreldraorlof átti að hefjast samkvæmt óskum starfsmanns nema með samþykki hans.
    Óheimilt er að fresta foreldraorlofi sem er í beinu framhaldi af fæðingarorlofi eða ef barn veikist svo að nærvera foreldris er nauðsynleg. Einnig er frestun óheimil hafi vinnuveitandi fallist á orlofstökuna eða liðinn er frestur skv. 1. mgr. án svars frá vinnuveitanda.
    Verði ákvörðun vinnuveitanda um frestun foreldraorlofs til þess að starfsmaður nær ekki að ljúka foreldraorlofi áður en barn hans nær átta ára aldri lengist sá tími sem heimilt er að taka foreldraorlof á til þess dags er barn nær níu ára aldri.

48. gr.

Vernd uppsafnaðra réttinda.

    Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs skulu haldast óbreytt til loka orlofsins. Við lok orlofsins skulu þessi réttindi gilda, sem og breytingar sem kunna að hafa orðið á grundvelli laga eða kjarasamninga.

XII. KAFLI

Sameiginleg ákvæði.

49. gr.

Réttur til starfs.

    Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda skal haldast óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi.
    Starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur til starfs síns að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.

50. gr.

Vernd gegn uppsögnum.

    Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum á grundvelli þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs skv. 12. eða 46. gr. eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir barnshafandi starfsmanns og starfsmanns sem nýlega hefur fætt barn.

51. gr.

Skaðabótaskylda.

    Brjóti vinnuveitandi gegn ákvæðum laga þessara varðar það skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum.

52. gr.

Brottfall réttinda foreldra.

    Réttur foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs fellur niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs. Sama gildir um rétt foreldra, sbr. 2. mgr. 1. gr., til greiðslu fæðingarstyrks.
    Í tilvikum skv. 1. mgr. skulu kynforeldrar eiga sameiginlegan rétt á tveggja mánaða fæðingarorlofi eftir fæðingu barns. Þá eiga kynforeldrar, sbr. 2. mgr. 1. gr., sameiginlega rétt á greiðslu fæðingarstyrks í tvo mánuði eftir fæðingu barns.
    Ef annað foreldrið á rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skv. V. kafla og nýtir hluta af sameiginlegum rétti foreldra skv. 2. mgr. styttist réttur hins foreldrisins til fæðingarstyrks skv. VIII. kafla sem því nemur eigi hitt foreldrið rétt á fæðingarstyrk. Að sama skapi styttist það tímabil sem foreldri á rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skv. V. kafla nýti hitt foreldrið rétt sinn til fæðingarstyrks á því tímabili sem foreldrar eiga sameiginlegan rétt skv. 2. mgr.

53. gr.

Ósamrýmanleg réttindi.

    Foreldri sem nýtur fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum með öðru barni.
    Foreldri sem nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks, greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða foreldraorlofs samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar eða endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem nýtur greiðslna sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem nýtur greiðslna samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum.
    Foreldri sem nýtur orlofslauna getur ekki nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum á sama tímabili og þær greiðslur eiga við um.
    Foreldri sem nýtur greiðslna vegna starfsloka, þ.m.t. orlofslauna, getur ekki nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum þessum á sama tímabili og þær greiðslur eiga við um. Fái foreldri greidd orlofslaun vegna starfsloka á sama tíma og foreldrið fær fæðingarstyrk eða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skal foreldri tilkynna Vinnumálastofnun um umrædd orlofslaun þegar í stað sem og fyrir hvaða tímabil orlofslaunin eru ætluð og er þá við það miðað að það verði fyrir lok næsta orlofsárs þar á eftir, sbr. lög um orlof. Á foreldri þá ekki rétt á fæðingarstyrk eða greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir sama tímabil og er þá litið svo á að fæðingarorlof foreldrisins frestist um þann tíma sé því ekki lokið og getur foreldrið sótt um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks því til samræmis. Þrátt fyrir 2. málsl. skal foreldri sem fætt hefur barn vera í fæðingarorlofi fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns, sbr. 3. mgr. 8. gr., og frestast fæðingarorlof foreldrisins þá eftir þann tíma. Að öðru leyti, svo sem hvað varðar aðrar greiðslur vegna starfsloka en orlofslaun, gildir 1. mgr. 25. gr. eftir því sem við getur átt.
    Greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur og fyrir sama tímabil koma til frádráttar greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði skv. V. kafla og greiðslu fæðingarstyrks skv. VIII. kafla.

54. gr.

Árleg endurskoðun fjárhæða.

    Fjárhæðir greiðslna til foreldris úr Fæðingarorlofssjóði skv. 1. og 3. mgr. 24. gr. og greiðslna fæðingarstyrks skv. 1. mgr. 38. gr. skulu koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er ráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðunum, sbr. 1. mgr., til hækkunar um hver áramót ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.
    Komi til breytinga á fjárhæðum á grundvelli 1. eða 2. mgr. skal ráðherra setja reglugerð þar sem fjárhæðunum er breytt.

55. gr.

Fjárnám óheimilt.

    Óheimilt er að gera fjárnám í greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk samkvæmt lögum þessum sem ekki hafa verið greiddar til foreldris. Þá er jafnframt óheimilt að taka greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda.

56. gr.

Milliríkjasamningar.

    Við framkvæmd laga þessara skal tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.

57. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, þ.m.t um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, svo sem um mat á starfshlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklinga, rétt þeirra sem gegna störfum á innlendum vinnumarkaði sem eru undanskilin greiðslu tryggingagjalds lögum samkvæmt, rétt þeirra sem hafa starfað í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig gerðir sem felldar hafa verið undir VI. viðauka samningsins, aðildarríkjum að Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar og hvaða greiðslna frá vinnuveitendum heimilt sé að taka tillit til við útreikninga skv. 1. mgr. 25. gr. Reglugerðarheimild ráðherra skv. 1. málsl. nær einnig til setningar reglugerðar þar sem nánar er kveðið á um skilyrði fyrir tilfærslu réttinda skv. 8. mgr. 9. gr. og 8. mgr. 30. gr.

58. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða í lögum þessum.

59. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um tryggingagjald, nr. 113/1990: 6. töluliður 9. gr. laganna orðast svo: Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs.
     2.      Lög um um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006: Orðin „og 6. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof“ í 2. málsl. 7. gr. laganna falla brott.
     3.      Lög um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007: 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Lög um fæðingar- og foreldraorlof, 16., 49. og 50. gr.
     4.      Lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995: Í stað orðanna „lögum nr. 95/2000“ í 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir 2. mgr. 58. gr. gilda lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2021. Hið sama á við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2021 og falla undir ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, sbr. 3. tölul. 59. gr. laga þessara.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er afurð vinnu sem hófst í september 2019 en þá skipaði félags- og barnamálaráðherra samstarfshóp til heildarendurskoðunar laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Formaður samstarfshópsins var skipaður án tilnefningar og var hann jafnframt fulltrúi félags- og barnamálaráðherra í hópnum en auk hans áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun. Hlutverk samstarfshópsins var að endurskoða lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, í heild sinni og vinna að frumvarpi að nýrri heildarlöggjöf í tilefni af því að árið 2020 eru tuttugu ár liðin frá gildistöku laganna.
    Fæðingarorlofskerfið er í stöðugri mótun með hliðsjón af samfélagslegum aðstæðum hverju sinni og því mikilvægt að löggjöfin sé endurskoðuð reglulega og endurspegli þannig þá þróun sem á sér stað í samfélaginu. Í sögulegu tilliti hefur fæðingarorlofskerfið jafnframt verið nátengt þeim breytingum sem orðið hafa á stöðu kynjanna á vinnumarkaði á þessari og síðustu öld. Samfélagsleg viðhorf gagnvart fæðingarorlofi hafa tekið miklum breytingum frá því að fyrstu ákvæðin um réttindi þess efnis komu inn í íslenska löggjöf með setningu laga um almannatryggingar árið 1946. Þau ákvæði náðu þó til að mynda einungis til kvenna sem unnu í verksmiðjum og vörðuðu einkum þau sjónarmið að vinnuveitenda væri óheimilt að láta mæður vinna fyrstu vikurnar eftir fæðingu barns. Með lögum nr. 97/1980 komu síðar inn réttindi til greiðslu fæðingarorlofs fyrir allar mæður á vinnumarkaði við töku fæðingarorlofs ásamt því að rétturinn til að snúa aftur til fyrra starfs var viðurkenndur. Þá var feðrum einnig með sömu lögum á vissan hátt veittur réttur til fæðingarorlofs þar sem móðir gat óskað sérstaklega eftir því að faðirinn gæti tekið síðasta mánuð fæðingarorlofsins. Þegar lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, voru samþykkt árið 2000 var um stefnumarkandi löggjöf að ræða þar sem fæðingarorlof var meðal annars lengt úr sex mánuðum í níu auk þess að feðrum var veittur sjálfstæður réttur til töku fæðingarorlofs. Með samþykkt laga nr. 95/2000 var lögfest að greiðslur til foreldra yrðu tekjutengdar ásamt því að fjármögnunarleiðum var breytt þannig að hluti tryggingagjalds sem atvinnurekendur inntu þegar af hendi fór í sérstakan Fæðingarorlofssjóð. Þá var eitt af markmiðum þeirrar lagasetningar að jafna rétt launþega til fæðingarorlofs óháð því hvort þeir störfuðu á almenna vinnumarkaðnum eða hinum opinbera.
    Frá gildistöku laga um fæðingar- og foreldraorlof hefur náðst góður árangur hvað varðar að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og innan heimilisins en ljóst er að breytingin á fæðingarorlofskerfinu árið 2000 á sinn þátt í þessari framþróun. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, kemur meðal annars fram að með „aukinni þátttöku kvenna á vinnumarkaði hafa komið fram breytt viðhorf til hlutverka og verkaskiptingar kvenna og karla í samfélaginu. Forsenda þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis er að þau skipti með sér umönnun barna sinna.“ Jafnframt er tekið fram að auknar kröfur hafi verið gerðar til þess að „móður og föður verði sköpuð sömu tækifæri til að sinna bæði fjölskyldu og starfi utan heimilis. Einn af þeim þáttum sem stuðla að samspili fjölskyldu- og atvinnulífs er sá að konur og karlar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs auk þess að eiga kost á sérstöku foreldraorlofi frá vinnu til að vera með börnum sínum. Var að því markmiði stefnt við gerð þessa frumvarps en jafnframt er þá verið að tryggja börnum samvistir við báða foreldra.“ Í þessu frumvarpi er einnig lagt upp með framangreind sjónarmið en jafnframt lögð áhersla á að bæta um betur. Engu að síður eru helstu áskoranir innan fæðingarorlofskerfisins nú að tryggja báðum foreldrum jafna möguleika á að annast barn sitt í fæðingarorlofi án þess að það hafi í för með sér verulega röskun á þátttöku hvors foreldris um sig á vinnumarkaði.
    Samstarfshópurinn um endurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof hefur fengið til sín á fundi fulltrúa ýmissa hagsmunahópa sem gert hafa grein fyrir afstöðu sinni til efnis frumvarpsins og má þar meðal annars nefna fulltrúa frá félagi einstæðra foreldra, félagi um foreldrajafnrétti, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofu, umboðsmanni barna, Tryggingastofnun ríkisins og fræðasamfélaginu. Þá hefur samstarfshópurinn byggt á vinnu sem hófst í desember 2014 þegar þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði starfshóp um framtíðarstefnu stjórnvalda í fæðingarorlofsmálum en starfshópurinn skilaði tillögum til ráðherra í mars 2016. Í tillögum starfshópsins kom meðal annars fram að „[m]eð lögum um fæðingar- og foreldraorlof var brotið blað hér á landi hvað varðar rétt foreldra til fæðingarorlofs en þar er meðal annars kveðið á um að foreldrar eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs hvort um sig. Við setningu laganna gætti góðrar samstöðu á Alþingi en frumvarp sem varð að lögunum var samþykkt án breytinga og mótatkvæðalaust á þinginu auk þess sem feður virðast hafa tekið lögunum fagnandi. Þannig sýna tölur frá árinu 2001 að hlutfall feðra, af umsóknum mæðra um fæðingarorlof, hafi verið 82,4% á því ári.“
    Í tillögunum kom einnig fram að mikilvægt væri að „leitað verði leiða til að auka líkur á að foreldrar sjái sér fært og að þeir sjái hag í að fullnýta rétt sinn til fæðingarorlofs þannig að markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof verði náð. Í því sambandi er sérstaklega horft til þess að feður nýti sér að fullu rétt sinn til fæðingarorlofs samkvæmt lögunum.
    Jafnframt er mikilvægt að auka hlut feðra hvað varðar nýtingu á sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs þannig að meira jafnræðis gæti milli mæðra og feðra í því sambandi en nú er. Þykir það nauðsynlegt í því skyni að styðja við jafnrétti kvenna og karla á vinnumarkaði auk þess sem það styður við framangreint markmið laganna um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að með fæðingarorlofinu sé meðal annars stefnt að því að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína.“
    Frumvarp þetta er því meðal annars lagt fram í því skyni að tryggja að lög um fæðingar- og foreldraorlof nái enn frekar markmiðum sínum þess efnis að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína og að gera báðum foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þá er frumvarpinu ætlað að gera lög um fæðingar- og foreldraorlof skýrari hvað varðar þau atriði sem vafi hefur leikið á um við túlkun og framkvæmd þeirra en gera verður ráð fyrir að þær breytingar séu til þess fallnar að auðvelda verðandi foreldrum að átta sig á rétti sínum til greiðslna í fæðingarorlofi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins er meðal annars að aðlaga fæðingarorlofskerfið þeirri miklu þróun sem hefur orðið í samfélaginu á síðastliðnum 20 árum, þar á meðal í jafnréttismálum og stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Eitt af meginverkefnum fyrrnefnds samstarfshóps var einnig að bregðast við fyrirliggjandi álitum frá umboðsmanni Alþingis, dómum sem kveðnir hafa verið upp af dómstólum landsins og úrskurðum úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála (nú úrskurðarnefndar velferðarmála) í því skyni að skýra betur ýmis atriði sem þótt hafa óskýr við framkvæmd laganna. Í samræmi við lög nr. 149/2019, um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, var eitt af verkefnum hópsins að finna leiðir til þess að foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar eigi rétt á tólf mánaða samanlögðu fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk og hvernig skiptingu þessa mánaða á milli foreldra skuli vera háttað. Þar sem um er að ræða ýmsar breytingar á gildandi lögum, bæði á formi og efni, er talið nauðsynlegt að frumvarp til nýrra heildarlaga verði lagt fram.
    Lagt er til að meginmarkmið gildandi laga um fæðingar- og foreldraorlof verði óbreytt, þ.e. annars vegar að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína og hins vegar að gera báðum foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Ein af áskorunum innan fæðingarorlofskerfisins er því að tryggja báðum foreldrum jafna möguleika á að annast barn sitt í fæðingarorlofi án þess að það hafi í för með sér verulega röskun á þátttöku hvors foreldris um sig á vinnumarkaði. Lenging á rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði er liður í því að minnka það bil sem er á milli fæðingarorlofsréttar foreldra og þangað til barni býðst dagvistun á leikskóla.
    Fyrri aðgerðir stjórnvalda hafa miðað að því að hækka hámarksgreiðslur til foreldra sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs í því skyni að auka möguleika þeirra, ekki síst feðra, til að fullnýta rétt sinn innan kerfisins. Í fjármálaáætlun 2020–2024 kemur meðal annars fram að eitt af þeim markmiðum sem hefur verið skilgreint sérstaklega fyrir málaflokkinn er að tryggja báðum foreldrum jafna möguleika á að annast barn sitt í fæðingarorlofi. Því þykir mikilvægt að lengja samanlagðan rétt foreldra til fæðingarorlofs til að tryggja báðum foreldrum möguleika á að annast barn sitt í fæðingarorlofi án þess að það hafi í för með sér verulega röskun á þátttöku hvors foreldris um sig á vinnumarkaði. Þegar litið er til reynslunnar sem og þeirra tölulegu upplýsinga sem fyrir liggja kemur hins vegar í ljós að réttur til fæðingarorlofs sem foreldrar geta skipt með sér hefur í langflestum tilvikum verið nýttur af mæðrum. Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði nýtir stærstur hluti feðra einungis sinn sjálfstæða rétt til fæðingarorlofs. Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði er því rík tilhneiging til þess að mæður nýti þann tíma fæðingarorlofs sem er sameiginlegur hjá foreldrum. Það er því mikilvægt samhliða frumvarpi þessu að áfram verði fylgst með þróun þess hvernig foreldrar skipta með sér fæðingarorlofstöku.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Sérstaklega er tekið mið af reynslu við framkvæmd laganna, vankantar sniðnir af auk þess sem leitast er við að hafa uppsetningu og efnisatriði aðgengileg. Þá hefur uppsetningu kafla og ákvæða verið breytt með það að markmiði að lögin verði aðgengilegri. Helstu nýmæli frumvarps þessa eru eftirfarandi:

3.1. Árleg skýrsla um nýtingu réttinda innan fæðingarorlofskerfisins.
    Lagt er til að Vinnumálastofnun vinni árlega skýrslu um nýtingu réttinda innan fæðingarorlofskerfisins. Gert ráð fyrir að skýrslurnar verði aðgengilegar á vef stofnunarinnar.

3.2. Lenging fæðingarorlofs og skipting þess á milli foreldra.
    Líkt og að framan greinir var samstarfshópnum falið samkvæmt lögum um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 149/2019, að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga þar sem kveðið yrði á um að foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar skuli eiga rétt á tólf mánaða samanlögðu fæðingarorlofi og um skiptingu þess milli foreldra sem og um lengingu á rétti til fæðingarstyrks í tólf mánuði. Í frumvarpi þessu er lagt til að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs annars vegar og fæðingarstyrks hins vegar lengist úr tíu mánuðum samkvæmt gildandi lögum í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Þá er lagt til að rétturinn skiptist þannig milli foreldra að sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verði sex mánuðir en að hvort foreldri um sig geti framselt einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins.
    Þessi tilhögun er að mati samstarfshópsins í samræmi við markmið laganna um að tryggja báðum foreldrum möguleika á að annast barn sitt án þess að það hafi í för með sér verulega röskun á þátttöku hvors um sig á vinnumarkaði. Þegar litið er til tölulegra upplýsinga sem fyrir liggja um töku fæðingarorlofs kemur í ljós að réttur til fæðingarorlofs sem foreldrar geta skipt með sér hefur í langflestum tilvikum verið nýttur af mæðrum. Nýtingartölur hvað varðar fæðingarorlofstöku sýna að stærstur hluti feðra nýtir einungis sinn sjálfstæða rétt en mæður sinn sjálfstæða rétt og sameiginlegu mánuðina sem hafa verið í gildandi löggjöf. Reynslan sýnir því ríka tilhneigingu til þess að mæður nýti þann tíma fæðingarorlofs sem er sameiginlegur milli foreldra. Í því skyni að ná umræddum markmiðum þykir því mikilvægt að sem minnstur hluti fæðingarorlofsréttar verði með þeim hætti að foreldrar geti skipt honum með sér. Í því sambandi má jafnframt nefna að reynsla annarra þjóða, svo sem Svíþjóðar og Noregs, sýnir að stefnur stjórnvalda sem miða að jafnrétti kynjanna hafa tvímælalaust áhrif á fæðingartíðni. Einnig má ætla að skipting fæðingarorlofs milli foreldra, þannig að sem minnst af réttinum sé með þeim hætti að foreldrar geti skipt honum með sér, sé mikilvægur þáttur í því að auka jafnrétti og hafi þar með jákvæð áhrif á fæðingartíðni. Í framangreindri skýrslu um tillögur starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum frá árinu 2016 kemur meðal annars fram varðandi þetta atriði „að óframseljanlegur réttur feðra til fæðingarorlofs styrki stöðu feðra gagnvart atvinnurekendum þegar kemur að nýtingu fæðingarorlofsréttar. Jafnframt má ætla að feðrum sé gert kleift að taka meiri þátt í umönnun barna sinna en ella ef skipting fæðingarorlofsréttar er sem jöfnust milli foreldra. Gera má ráð fyrir að slíkt fyrirkomulag ryðji jafnframt úr vegi eldri viðhorfum um að faðirinn beri alfarið eða meginábyrgð á efnahag heimilisins með tekjuöflun sinni. Niðurstöður rannsókna á íslenska fæðingarorlofskerfinu benda meðal annars til að feðrakvótinn svokallaði eða fæðingarorlofsréttur sem einungis feður geta nýtt sé rétt stefna til að ná fram markmiðum laganna um fæðingar- og foreldraorlof um að tryggja réttindi barna til samvista við báða foreldra og að gera þannig foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þá benda niðurstöður framangreindra rannsókna einnig til þess að hin íslenska samfélagslega tilraun, sem fólst í að tryggja í lögum um fæðingar- og foreldraorlof að foreldrar ættu sjálfstæðan fæðingarorlofsrétt hvort um sig, hafi reynst árangursrík leið til breytinga. Þær breytingar hafi meðal annars leitt til þess að ábyrgð vegna umönnunar barna er nú jafnari milli foreldra auk þess að hafa verið stórt skref í að ná fram jafnrétti kynjanna.“
    Á fundi samráðshópsins komu líkt og að framan greinir ýmsir gestir meðal annars frá fræðasamfélaginu, hagsmunahópum foreldra og stjórnvöldum og er þessi tilhögun á skiptingu fæðingarorlofs á milli foreldra í samræmi við þær upplýsingar sem hópurinn fékk frá þessum aðilum. Einkum eru það upplýsingar sem byggðar eru á rannsóknum á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, stöðu einstæðra foreldra í samfélaginu og tölulegum upplýsingum um nýtingu fæðingarorlofs. Kom þar meðal annars fram að á hverjum tíma eru um 25% barnafjölskyldna skráðar með eitt foreldri sem deilir lögheimili með börnum. Þá kom fram að einstæðir feður nýti frekar rétt sinn til töku fæðingarorlofs en feður í sambúð og jafnframt að einstæðir feður sem nýti rétt sinn til töku fæðingarorlofs taki jafnan þátt í umönnun barns eftir að fæðingarorlofi lýkur sem hafi margvísleg jákvæð áhrif á aðstæður barnsins til lengri tíma, meðal annars á hegðun, andlega líðan og félagslega stöðu. Þegar kemur að einstæðum foreldrum sýni því rannsóknir fram á mikilvægi þess að foreldrar sameinist um umönnun barnsins á fyrstu árum ævi þess og er sjálfstæður réttur til töku fæðingarorlofs skref í átt að því markmiði.
    Að teknu tilliti til hagsmuna fjölskyldna sem og jafnréttissjónarmiða á vinnumarkaði hefur samráðshópurinn lagt fram þá tillögu líkt og að framan greinir að skipting fæðingarorlofsréttar verði sem jöfnust á milli foreldra þannig að foreldrar geti nýtt sex mánuði hvort um sig en þó til að koma til móts við aðstæður fjölskyldna verði heimilt að framselja einn mánuð á milli foreldra sé þess óskað.

3.3. Sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu.
    Lagt er til að barnshafandi foreldri verði veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu í þeim tilvikum þegar það þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu, fyrir áætlaðan fæðingardag barns, í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins.

3.4. Greiðslutímabil fæðingarstyrks.
    Lagt er til að foreldri sé heimilt að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks á fleiri en eitt tímabil. Þó geti greiðslutímabilið skemmst varað hálfan mánuð í senn.

3.5. Aukinn réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks.
    Lagt er til að foreldri skuli öðlast rétt til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði ef hitt foreldrið á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks hér á landi né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki.
    Jafnframt er lagt til að ef fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur, þar sem foreldrið hefur ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla, verði Vinnumálastofnun heimilt að færa rétt forsjárlausa foreldrisins til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks yfir til forsjárforeldrisins, enda sæki forsjárforeldrið um tilfærsluna til Vinnumálastofnunar.

3.6. Tilfærsla á rétti til töku fæðingarorlofs/fæðingarstyrks í samræmi við barnalög og lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
    Það nýmæli er lagt til að foreldri sem fætt hefur barn skuli öðlast sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði þegar foreldrið er ekki fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt.
    Jafnframt er nýmæli að í þeim tilvikum þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu barns sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur skuli sá réttur, sem stofnast hefur til og foreldrið hefur ekki þegar nýtt sér, færast yfir til hins foreldrisins. Hér eru sambærileg sjónarmið talin eiga við og eiga við í gildandi lögum varðandi foreldri sem vegna sjúkdóms, afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar er ófært um að annast barn sitt á framangreindu tímabili.

3.7. Réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar og fósturláts.
    Í gildandi lögum er sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks þrír mánuðir vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu en ef um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sameiginlegan rétt í tvo mánuði. Með frumvarpi þessu er lagt til að í staðinn fyrir sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks ef um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu verði um tveggja mánaða sjálfstæðan rétt að ræða fyrir hvort foreldri um sig. Er það einkum lagt til með það að markmiði að jafna rétt foreldra í þessum aðstæðum.

3.8. Tilkynning um töku fæðingarorlofs og tilhögun þess.
    Samkvæmt gildandi lögum skal foreldri, að lágmarki átta vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns, tilkynna vinnuveitanda hyggist það nýta sér rétt sinn til töku fæðingarorlofs. Ætli foreldri að breyta fyrirhuguðum upphafsdegi fæðingarorlofs ber því að tilkynna vinnuveitanda um breytinguna þremur vikum fyrir hinn nýja fyrirhugaða upphafsdag fæðingarorlofs. Er það meginreglan sem verður áfram við lýði. Lögð er til sú nýja undantekningarregla að ef foreldri tilkynnir vinnuveitanda fyrst um töku fæðingarorlofs eftir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur þá sé þess freistað að starfsmaður og vinnuveitandi nái samkomulagi um upphaf og tilhögun þess fæðingarorlofs. Tilkynning eftir að barn er fætt gefur alla jafna vinnuveitanda skemmri tíma til að undirbúa fjarveru starfsmanns en þegar tilkynning kemur fram fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur þar sem t.d. vitneskja um þungun og hugmyndir um fæðingarorlofstíma eru yfirleitt ræddar nokkuð tímanlega. Þegar slík umræða fer ekki fram fyrir fæðingu barnsins, frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þá skapast ekki sama svigrúm til að undirbúa fjarveru starfsmannsins á fæðingarorlofstímabilinu. Lagt er því til að vinnuveitandi hafi í undantekningartilvikum heimild til að fresta töku fæðingarorlofs sem fyrst er tilkynnt eftir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku í varanlegs barns fósturs í allt að 8 vikur þegar fyrir hendi eru sérstakar aðstæður í rekstri fyrirtækis/stofnunar sem gera slíkt nauðsynlegt, og má þar vísa til sambærilegra ástæðna og koma fram í 47. gr. frumvarpsins um foreldraorlof. Vinnuveitanda er þó ekki heimilt að fresta töku fæðingarorlofs sem fyrst er tilkynnt eftir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur ef fæðingarorlofið er tilkynnt í einu lagi með a.m.k. 8 vikna fyrirvara og er í beinu framhaldi af fæðingarorlofi hins foreldrisins eða ef barn veikist þannig að nærvera foreldris sé nauðsynleg.

3.9. Yfirsýn yfir töku foreldraorlofs.
    Lagt er til að afriti tilkynningar um foreldraorlof verði skilað til Vinnumálastofnunar svo unnt sé að halda utan um nýtingu foreldra á rétti til foreldraorlofs. Í gildandi lögum hafa stjórnvöld enga yfirsýn yfir fjölda foreldra sem nýtir rétt sinn til töku foreldraorlofs en mikilvægt er að stjórnvöld hafi slíkar upplýsingar til að unnt verði að meta hver áhrif löggjafarinnar eru, m.a. á íslenskan vinnumarkað.

3.10. Annað.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til eru einkum formlegs eðlis, ásamt því að færð voru til ákvæði sem eru í reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði nr. 1218/2008, sem sett var á grundvelli laganna, inn í frumvarpið með það að markmiði að hafa öll réttindin tiltekin á sama stað. Jafnframt eru lagðar til orðalagsbreytingar frá gildandi lögum til frekari skýringa þar sem við á ásamt því að lagðar eru til breytingar til að koma til móts við álit umboðsmanns Alþingis, einkum með það að markmið að skýra nánar ákvæði er varða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og upplýsingaöflun í tengslum við eftirlit Vinnumálastofnunar.

3.11. Kaflar frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru 59 greinar í tólf köflum ásamt breytingum á lögum um tryggingagjald, lögum um greiðslur til foreldra langveikra barna eða alvarlega fatlaðra barna, lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda sem og lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Eru þar af leiðandi fleiri greinar og kaflar en í gildandi lögum sem samanstendur af 36 greinum í níu köflum. Kaflaskipting miðar að því að afmarka efnisþætti nánar, meðal annars með það að leiðarljósi að gera lögin skýrari og læsilegri. Í I. kafla er fjallað um gildissvið, markmið og orðskýringar. Í II. kafla er fjallað um stjórnsýslu. Í III. kafla er fjallað um hverjir eiga rétt til töku fæðingarorlofs, í IV. kafla um það í hvaða tilvikum aukinn réttur myndast til töku fæðingarorlofs og í V. kafla er fjallað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Sama uppbygging er síðan á köflum er varða fæðingarstyrki, þar sem VI. kafli fjallar um skilyrði þess að hljóta fæðingarstyrk, VII. kafli um aukinn rétt til fæðingarstyrks og VIII. kafli um greiðslur fæðingarstyrkja. Í IX. kafla er fjallað um eftirlit og leiðréttingu á greiðslum og endurmat réttinda en kaflinn er nýmæli frá gildandi lögum með það að markmiði að skýra nánar við hvaða aðstæður greiðslur til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði skerðast. Í X. kafla er fjallað um skert aðgengi að fæðingarþjónustu, í XI. kafla er fjallað um foreldraorlof og í XII. kafla er fjallað um ákvæði sem eiga jafnt við fæðingar- og foreldraorlof.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Að teknu tilliti til efnis frumvarps þessa er ekki talin ástæða til að meta sérstaklega samræmi þess við stjórnarskrá. Þá er ekki ástæða til að ætla að efni frumvarpsins gangi gegn alþjóðlegum skuldbindingum stjórnvalda.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu en byggist á vinnu samstarfshóps um endurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, þar sem áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun. Á starfstíma sínum fundaði starfshópurinn fimmtán sinnum en á einstaka fundi voru boðaðir ýmsir sérfræðingar sem veittu samstarfshópnum upplýsingar og ráðgjöf.
    Drög að frumvarpinu fóru í opið umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is í september 2020 (mál nr. S-195/2020) þar sem almenningi gafst kostur á að koma á framfæri athugasemdum við drögin. Auk þess voru samtök aðila vinnumarkaðarins og Vinnumálastofnun upplýst sérstaklega um að frumvarpið væri komið í framangreint umsagnarferli. Enn fremur voru áform um gerð frumvarpsins kynnt öðrum ráðuneytum.
    Í gegnum opna umsagnarferlið í samráðsgátt stjórnvalda bárust ráðuneytinu umsagnir frá 228 einstaklingum. Einnig bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Barnaheill – Save the Children, BSRB, Byggðastofnun, Embætti landlæknis, Félagi íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, félaginu Femínísk fjármál, Femínistafélagi Háskóla Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Félagi kvenna í atvinnulífinu, Geðverndarfélagi Íslands, Gleym mér ei styrktarfélagi, Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands, Ljósmæðrafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi ungra sjálfstæðismanna, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði Íslands, og Q – félagi hinsegin stúdenta.
    Meiri hluti umsagna beindust að rétti foreldra til fæðingarorlofs en í drögum að frumvarpi til fæðingar- og foreldraorlofs sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda var lagt til að foreldrar ættu sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur en að hvoru foreldri um sig væri heimilt að framselja einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Í meiri hluta umsagna komu fram ábendingar um mikilvægi þess að foreldrar hefðu meira svigrúm til að ákveða sjálfir hvernig skiptingu fæðingarorlofsins sín á milli. Jafnframt komu fram athugasemdir við fyrirhugaða styttingu á því tímabili sem foreldrar geta nýtt réttindi sín innan fæðingarorlofskerfisins en í drögum að frumvarpinu sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda var gert ráð fyrir að réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks vegna fæðingar barns félli niður er barnið næði 18 mánaða aldri í stað 24 mánaða aldri líkt og kveðið er á um í gildandi lögum.
    Þá lutu umsagnir að ýmsum fleiri atriðum, meðal annars hvað varðar réttindi einstæðra foreldra, foreldra sem búa fjarri fæðingarþjónustu, foreldra með kynhlutlausa skráningu, foreldra sem missa fóstur fyrir 18 vikna meðgöngu sem og hvað varðar aukinn rétt foreldra til fæðingarorlofs fyrir áætlaðan fæðingardag barns og greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi.
    Við lokafrágang frumvarpsins var farið yfir þær umsagnir sem bárust í samráðsgátt stjórnvalda og hefur frumvarpið tekið eftirfarandi breytingum eftir þá vinnu:
          Lagt er til að réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks vegna fæðingar barns falli niður er barnið nær 24 mánaða aldri.
          Lagt er til að réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks vegna frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur falli niður 24 mánuðum eftir að barnið kemur inn á heimili.
          Lagt er til að foreldri skuli öðlast rétt til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði ef hitt foreldrið á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks hér á landi né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki.
          Lagt er til að ef fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur, þar sem foreldrið hefur ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla, verði Vinnumálastofnun heimilt að færa rétt forsjárlausa foreldrisins til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks yfir til forsjárforeldrisins, enda sæki forsjárforeldrið um tilfærsluna til Vinnumálastofnunar.
          Lagt er til að barnshafandi foreldri verði veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu í þeim tilvikum þegar það þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu í tiltekinn tíma, fyrir áætlaðan fæðingardag, í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins.
          Lagt er til að foreldri sé heimilt að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks á fleiri en eitt tímabil. Þó getur greiðslutímabilið skemmst varað hálfan mánuð í senn.

6. Mat á áhrifum.
    Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur eftir gildistöku frumvarpsins. Vinnumálastofnun fer með framkvæmd laga um fæðingar- og foreldraorlof. Við mat á áhrifum frumvarpsins er meðal annars byggt á upplýsingum og gögnum frá Vinnumálastofnun sem annast umsýslu Fæðingarorlofssjóðs, þar með talið tölulegum upplýsingum um nýtingu foreldra á rétti þeirra til fæðingarorlofs.
    Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur reynslan hingað til verið sú að mæður hafa í ríkari mæli en feður nýtt sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Í frumvarpi þessu er lagt til að lagður verði af sameiginlegur réttur á milli foreldra vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2021 eða síðar en hins vegar að foreldrum verði heimilt að framselja einn mánuð til hins foreldrisins. Er því gert ráð fyrir að foreldrar geti verið lengur heima hjá ungum börnum sínum en áður hefur tíðkast en lögð hefur verið áhersla á mikilvægi þess að börn njóti samvista við báða foreldra sína á fyrstu mánuðum ævinnar. Enn fremur er gert ráð fyrir að foreldrar eigi sem jafnastan rétt til fæðingarorlofs sem ætla má að sé til þess fallið að tryggja sem jafnasta stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þá er frumvarpinu ætlað að uppfæra gildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof þannig að þau verði skýrari og aðgengilegri meðal annars hvað varðar þau atriði sem vafi hefur leikið á um við túlkun og framkvæmd þeirra en gera verður ráð fyrir að þær breytingar séu til þess fallnar að auðvelda verðandi foreldrum að átta sig á rétti sínum til greiðslna í fæðingarorlofi.
    Í fjármálaáætlun 2020–2024 er meðal annars gert ráð fyrir að aukning á útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs vegna þeirra breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem hér eru lagðar til hvað varðar lengingu á rétti foreldra til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks í tólf mánuði samanlagt rúmist innan fjárlaga komandi ára.
    Hér er jafnframt lagt til að foreldri sem fætt hefur barn skuli öðlast sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði þegar foreldrið er ekki fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt en gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þessa geti orðið á bilinu 55 til 87 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hefur síðastliðin fimm ár verið greiddur barnalífeyrir árlega vegna 35 til 55 nýfæddra barna sem ekki hafa verið feðruð. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun nemur meðalgreiðsla til mæðra í fæðingarorlofi um 264 þús. kr. á mánuði að meðtöldu mótframlagi í lífeyrissjóð.
    Enn fremur er lagt til að í þeim tilvikum þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu barns sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur skuli sá réttur þess innan fæðingarorlofskerfisins sem foreldrið hefur ekki þegar nýtt sér, færast yfir til hins foreldrisins. Er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þessa verði óverulegur.
    Einnig er lagt til að í þeim tilvikum þegar annað foreldrið á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks innan fæðingarorlofskerfisins né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki skuli hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu margir foreldrar það eru sem hvorki eiga rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks hér á landi né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki. Kostnaður vegna þessarar breytingar er þó talinn óverulegur.
    Þá er lagt til að í þeim tilvikum þegar fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þar sem foreldrið hefur ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla, sé Vinnumálastofnun heimilt að færa rétt forsjárlausa foreldrisins til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks yfir til forsjárforeldrisins. Á þetta við um mjög takmarkaðan hóp og kostnaður vegna þessara breytinga því talinn óverulegur.
    Loks eru lagðar til þær breytingar að í stað sameiginlegs réttar foreldra til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks ef um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu verði um tveggja mánaða sjálfstæðan rétt að ræða fyrir hvort foreldri um sig. Kostnaður vegna þessa er talinn óverulegur.
    Ljóst er að frumvarpið gerir ráð fyrir ýmsum nýjungum sem framkvæmdaraðili laganna þarf að bregðast við. Ber þar hæst rafrænt umsóknarferli, aukna tilfærslu réttinda milli foreldra, greiðslu sérstaks styrks til foreldris sem býr fjalli fæðingarþjónustu, skráningu foreldraorlofs og samantekt á nýtingu réttinda. Áætlaður kostnaður vegna breytinga á tölvukerfum Vinnumálastofnunar vegna þessa er um 20 millj. kr.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 1. gr. gildandi laga. Í 1. mgr. er lögð til breyting á orðalagi þannig að skýrar komi fram að foreldrar á innlendum vinnumarkaði geti verið starfsmenn og/eða sjálfstætt starfandi en ekki aðeins annað hvort. Þá er lögð til breyting á orðalagi 2. mgr. þannig að skýrt komi fram að fæðingarstyrkur á annars vegar við um foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og hins vegar um foreldra í fullu námi. Ekki er um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum en mikilvægt þykir að skýrt verði kveðið á um þetta í nýjum lögum. Orðalagsbreytingar í 1. gr. eiga ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna.
    Í 1. mgr. kemur fram að lögunum sé ætlað að taka til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Skilyrðið um þátttöku á innlendum vinnumarkaði er óbreytt frá gildandi lögum sem byggðu á fæðingarorlofslögum, nr. 57/1987. Í 2. gr. þeirra laga kom fram að: „[f]oreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fæðingarorlofi í allt að sex mánuði …“ Ákveðið var að falla frá búsetuskilyrðum í gildandi lögum og í staðinn gert nægjanlegt að foreldri starfi á íslenskum vinnumarkaði. Var það einkum gert með tilliti til aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá eru hugtökin „starfsmaður“, „sjálfstætt starfandi“ og „starfsmaður og sjálfstætt starfandi“ skilgreind í 4. gr. Rétt er að árétta að lögunum er ætlað að gilda áfram bæði um foreldra sem eru starfsmenn á opinberum og almennum vinnumarkaði líkt og verið hefur.
    Í 2. mgr. kemur fram að lögunum sé einnig ætlað að taka til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks. Þannig er kveðið á um skýr skil milli fæðingarorlofsgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi annars vegar og fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi hins vegar. Foreldrum utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldrum í fullu námi er áfram tryggður réttur til greiðslu fæðingarstyrks á sama hátt og í gildandi lögum.

Um 2. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 2. gr. gildandi laga. Í 2. mgr. er lögð til breyting á orðalagi frá gildandi lögum þannig að í stað þess að kveða á um að gera konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf verði talað um að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Orðalagsbreytingin er lögð til í samræmi við lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, og rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt en ekki er um efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum.
    Í 1. mgr. kemur fram það markmið að tryggja barni samvistir við báða foreldra en niðurstöður bæði innlendra og erlendra rannsókna hafa sýnt fram á mikilvægi umönnunarþátttöku beggja foreldra á fyrstu árum barns, m.a. með tilliti til framtíðarheilbrigðis, vellíðunar og jákvæðrar tengslamyndunar hjá börnum og foreldrum.
    Í 2. mgr. kemur fram það markmið að foreldrum verði gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf en niðurstöður bæði innlendra og erlendra rannsókna hafa sýnt fram á að ein forsenda þess að unnt sé að jafna atvinnuþátttöku og tækifæri foreldra á vinnumarkaði sé að þeir eigi jafnan rétt til að sinna fjölskyldunni. Er það því jafnframt tilgangur þessa frumvarps að jafna möguleika foreldra á að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi annars vegar og í fjölskyldulífi hins vegar. Þetta er meðal annars í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, en þar er meðal annars lögð áhersla á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þar er meðal annars kveðið á um að ráðstafanir atvinnurekenda skuli miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu vinnu og auðvelda foreldrum að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að foreldrar sem eru á vinnumarkaði eigi rétt til fæðingar- og foreldraorlofs sem er leyfi frá launuðum störfum. Ekki er um efnislega breytingum að ræða frá gildandi lögum sem byggðust að mestu á lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, hvað þetta varðar. Réttur til fæðingar- og foreldraorlofs nær ekki til námsmanna eða einstaklinga sem ekki eru virkir á vinnumarkaði en þeir geta hins vegar átt rétt á fæðingarstyrk, sbr. VI. kafla.
    Lögð er til sú breyting frá gildandi lögum að skýrt verði kveðið á um að réttur til fæðingarorlofs stofnist einnig við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Í gildandi lögum er ekki kveðið á um hvenær réttur foreldra til fæðingarorlofs stofnast í þessum tilvikum þrátt fyrir að kveðið sé á um rétt foreldra til fæðingarorlofs við þessar aðstæður. Er lagt til að úr því verði bætt en breytingin á ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna.
    Átta ára aldursmark barns vegna fæðingar- og foreldraorlofs foreldra í tengslum við varanlegt fóstur og frumættleiðingu barns er í samræmi við ákvæði tilskipunar ráðsins 2010/18/EB um framkvæmd endurskoðaðs rammasamnings um foreldraorlof sem Evrópusamtök atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE), Samtök evrópskra handverksmanna, lítil og meðalstór fyrirtæki (UEAPME), Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) hafa gert með sér en samningurinn var innleiddur með lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.
    Þá er viðmiðið um fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu í samræmi við gildandi lög og hið sama gildir um viðmiðið um andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu en það viðmið hefur tekið mið af skilgreiningu sjúkrahúsa og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Um 4. gr.

    Ákvæðið hefur að geyma skýringar á helstu hugtökum í frumvarpinu.
    Í 1. tölul. er lagt til að kveðið verði á um að með fullu námi sé meðal annars átt við 75–100% samfellt nám sem geti verið verklegt eða bóklegt. Við mat á því hvort skilyrði um 75–100% nám telst uppfyllt skal miðað við hvað telst fullt nám samkvæmt þeirri námsleið sem um ræðir hjá viðurkenndri menntastofnun. Í dæmaskyni má nefna að almennt teljast 30 ECTS einingar á önn vera 100% nám við háskóla og því teljast 22–30 ECTS einingar á önn fullt nám samkvæmt því sem hér er lagt til. Við framhaldsskóla teljast aftur á móti 30 framhaldsskólaeiningar (feiningar) á önn vera 100% nám og því teljast 22–30 feiningar á önn almennt fullt nám í skilningi frumvarpsins. Þá þarf námið að hafa verið við viðurkennda menntastofnun en með því er átt við að námið hafi verið hluti af og samþykkt sem námsleið hjá viðkomandi menntastofnun. Þá þarf námið að hafa varað í a.m.k. sex mánuði og er þá ekki heimilt að leggja saman meðaltal tveggja anna til að uppfylla kröfuna um fullt nám á einni önn heldur þurfa báðar annir að uppfylla kröfuna um fullt nám í a.m.k. sex mánuði.
    Í 2. tölul. er skilgreining á samfelldu starfi en til þess að foreldri teljist hafa verið í samfelldu starfi þarf starfið að hafa náð a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Hið sama gildir um þau tilvik sem talin eru upp í a–e-lið 2. mgr. 22. gr. en miða skal við hvort þau hafi tekið mið af a.m.k. 25% starfshlutfalli. Skilgreining á samfelldu starfi hefur verið í 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, en lagt er til að hún verði lögfest.
    Í 3. tölul. er skilgreining á sjálfstætt starfandi. Gert er ráð fyrir að til þess að teljast sjálfstætt starfandi þurfi foreldri að starfa við eigin rekstur, miðað við samfellt starf, í a.m.k. 25% starfshlutfalli, án tillits til félagsforms sé eignarhlutur þess í félaginu meira en 25%, í hverjum mánuði og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Samfellt starf er skilgreint í 2. tölul. ákvæðisins en eðli málsins samkvæmt á a-liður 2. mgr. 22. gr. ekki við um sjálfstætt starfandi. Þannig telst foreldri sem starfar í félagi sem það á meira en 25% eignarhlut í sjálfstætt starfandi en í gildandi lögum telst foreldri sem starfar við eigið félag, án tillits til félagsforms, sjálfstætt starfandi óháð eignarhlut þess í félaginu. Hér er gert ráð fyrir að eigi foreldri 25% eða minni eignarhlut í félaginu teljist það vera starfsmaður. Er því um breytingu að ræða frá gildandi lögum. Þá er það skilyrði að foreldri hafi staðið skil á tryggingagjaldi en samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, teljast gjaldskyldir allir þeir aðilar sem vinna við eigin atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi. Þá er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að kveðið verði sérstaklega á um að foreldri teljist sjálfstætt starfandi ef um er að ræða foreldri sem er maki sjálfstætt starfandi foreldris og foreldri sem er barn yngra en 18 ára sem vinnur samfellt starf við rekstur foreldris síns sem telst vera sjálfstætt starfandi foreldri. Breytingin á ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna þar sem framkvæmdin hefur verið í samræmi við lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, og lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Í 4. tölul. er lagt til að skýrt verði kveðið á um að foreldri sem starfar við eigin rekstur samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli í félagi sem það á 25% eða minni eignarhlut í skuli teljast starfsmaður. Í samræmi við það er lagt til í 3. tölul. að hafi foreldri átt meira en 25% eignarhlut í félaginu skuli það teljast sjálfstætt starfandi. Skilyrði um stærð eignarhlutar foreldris í félagi er nýmæli í frumvarpinu en það byggist á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, sbr. 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Í gildandi lögum hefur stærð eignarhlutar í félagi ekki skipt máli. Foreldri sem hefur starfað við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, hefur talist sjálfstætt starfandi jafnvel þótt eignarhlutur þess í félaginu hafi verið mjög lítill. Í 4. tölul. er skilgreining á starfsmanni en til þess að teljast starfsmaður samkvæmt frumvarpinu þarf foreldri að vinna launað starf í annarra þjónustu samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Samfellt starf er sem fyrr segir skilgreint í 2. tölul. Í samræmi við gildandi lög er þátttaka áfram takmörkuð við 25% starfshlutfall í ljósi tilgangs kerfisins. Þá skulu foreldrar sem starfa við rekstur í félagi sem þeir eiga 25% eða minni eignarhlut í teljast starfsmenn en í gildandi lögum hafa þeir talist sjálfstætt starfandi óháð eignarhlut þeirra í félaginu og er því um breytingu að ræða frá gildandi lögum hvað þetta atriði varðar.
    Þá er lagt til að skilgreining á foreldri sem er bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi sem kveðið er á um í 6. mgr. 13. gr. gildandi laga verði færð undir orðskýringar 4. gr. og verði að 5. tölul. Í 5 tölul. er skilgreining á starfsmanni og sjálfstætt starfandi. Dæmi eru um það að foreldrar starfi bæði sem starfsmenn í annarra þjónustu og sjálfstætt starfandi við eigin rekstur án tillits til félagsforms. Í slíkum tilvikum skal leggja saman störf foreldris við mat á því hvort það nái samanlagt a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum almanaksmánuði og getur því verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Samfellt starf er skilgreint í 2. tölul. en eðli málsins samkvæmt á a-liður 2. mgr. 22. gr. ekki við um sjálfstætt starfandi. Þá skal foreldri teljast starfsmaður skv. 4. tölul. hafi það starfað sem starfsmaður í 50% eða hærra starfshlutfalli á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 21. gr. en að öðrum kosti teljast sem sjálfstætt starfandi skv. 3. tölul. Er það í samræmi við gildandi lög.

Um 5. gr.

    Hér er kveðið á um að ráðherra málaflokksins fari með yfirstjórn þeirra mála sem fjallað er um í frumvarpinu. Greinin er samhljóða 3. gr. gildandi laga. Lög um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, kveða nánar á um yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra og að skipting stjórnarmálefna milli ráðuneyta fari eftir ákvæðum forsetaúrskurðar.

Um 6. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 4. gr. gildandi laga. Lögð er til sú breyting á 2. mgr. að skýrt verði kveðið á um að Vinnumálastofnun annist reikningshald og daglega afgreiðslu fæðingarstyrkja í umboði ráðherra en þannig hefur framkvæmdin verið samkvæmt gildandi lögum. Jafnframt er lögð til breyting á 5. mgr. þannig að hætt verði að birta reikninga Fæðingarorlofssjóðs ár hvert í Lögbirtingablaðinu. Þá er lagt til í 7. mgr., sem er ný málsgrein, að Vinnumálastofnun skuli vinna skýrslu árlega um nýtingu réttinda innan fæðingarorlofskerfisins.
    Í 1. mgr. kemur fram að Fæðingarorlofssjóður skuli annast greiðslur til foreldra sem réttinda njóta til greiðslu í fæðingarorlofi og fæðingarstyrkur til foreldra og greiðslur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu greiðist úr ríkissjóði.
    Í 2. mgr. kemur fram að Fæðingarorlofssjóður verði í vörslu Vinnumálastofnunar sem sjái um reikningshald og daglega afgreiðslu sjóðsins og fæðingarstyrks í umboði ráðherra.
    Í 3. mgr. er kveðið á um fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs. Fæðingarorlofssjóður skal fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins og eru ekki lagðar til breytingar hvað það varðar.
    Í 4. mgr. kemur fram að ráðherra skuli gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar. Þá er lagt til að sjóðurinn geri árlega fjárhagsáætlun sem ráðherra leggur fyrir þann ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins við undirbúning fjárlaga. Er tilgangurinn sá að áætluð verði fyrirsjáanleg útgjöld sjóðsins á næsta fjárhagsári með hliðsjón af þeim fjölda fæðinga sem varð á þremur síðastliðnum árum. Reikningsár Fæðingarorlofssjóðs er almanaksárið.
    Í 5. mgr. kemur fram að reikningar Fæðingarorlofssjóðs skuli endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun. Lagt er til að fallið verði frá birtingu reikninga Fæðingarorlofssjóðs í Lögbirtingablaðinu ár hvert. Er það lagt til þar sem ekki þykir þörf á slíkri birtingu auk þess sem ekki er gerð slík krafa um birtingu reikninga sambærilegra sjóða, svo sem Atvinnuleysistryggingasjóðs og Ábyrgðasjóðs launa.
    Í 6. mgr. kemur fram að kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.
    Í 7. mgr., sem er ný málsgrein, er lagt til að Vinnumálastofnun verði falið að vinna skýrslu árlega um nýtingu réttinda innan fæðingarorlofskerfisins.

Um 7. gr.

    Lagt er til að 5. og 6. gr. gildandi laga verði sameinaðar í eitt ákvæði um úrskurðarnefnd velferðarmála sem verði að 7. gr. Með lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála, nr. 85/2015, var úrskurðarnefnd velferðarmála komið á fót sem hefur frá gildistöku laganna haft það hlutverk að úrskurða um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli gildandi laga en áður var það hlutverk í höndum úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Við gildistöku laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, nr. 85/2015, urðu miklar breytingar á 5. og 6. gr. gildandi laga um fæðingar- og foreldraorlof þar sem ekki var lengur kveðið á um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála í lögum um fæðingar- og foreldraorlof heldur kveðið á um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála í framangreindum lögum.
    Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði um ágreiningsefni sem kunni að rísa á grundvelli laganna, verði frumvarp þetta óbreytt að lögum. Nefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum og eru úrskurðir nefndarinnar endanlegir á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til æðra stjórnvalds samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þetta fyrirkomulag kemur þó ekki í veg fyrir að aðili máls geti lagt ágreining sinn með venjulegum hætti fyrir aðila utan stjórnkerfis framkvæmdarvaldsins, þ.e. dómstóla eða umboðsmann Alþingis, sætti hann sig ekki við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.
    Í 2. mgr. kemur fram að um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni skuli fara samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála, nr. 85/2015, og almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.
    Í 3. mgr. er kveðið á um upplýsingaskyldu Vinnumálastofnunar í tengslum við gagnaöflun úrskurðarnefndarinnar og er sú skylda í samræmi við 6. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem kveðið er á um að stjórnvöldum sé skylt að láta úrskurðarnefnd velferðarmála í té öll gögn máls svo og þær upplýsingar og skýringar sem hún telur nauðsynlegar vegna úrlausnar máls.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála um endurkröfu ofgreiðslna séu aðfararhæfir. Er það gert til að einfalda innheimtu ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða ofgreidds fæðingarstyrks í því skyni að draga úr innheimtukostnaði sem fellur í hlut foreldris láti það hjá líða að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiðslu, sbr. framangreint.
    Í 5. mgr. kemur fram sú meginregla stjórnsýsluréttarins að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Hins vegar er sá varnagli sleginn að sé ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða ofgreidds fæðingarstyrks kærð til úrskurðarnefndarinnar er gert ráð fyrir að stjórnsýslukæran fresti aðför, sbr. 6. mgr. 41. gr., enda þykir ekki rétt að framfylgja réttaráhrifum slíkra ákvarðana, sem kærðar hafa verið til æðra setts stjórnvalds, með aðför áður en æðra setta stjórnvaldið hefur tekið endanlega ákvörðun innan stjórnsýslunnar.

Um 8. gr.

    Lagt er til að ákvæðið taki breytingum frá 8. gr. gildandi laga. Þannig er lagt til að 8. gr. gildandi laga verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði aðgengilegri en nú er. Í 8. gr. verði þannig kveðið á um réttindi foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingarorlofs við fæðingu, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Lögð er til sú breyting að í 1. mgr. verði kveðið á um lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs úr tíu mánuðum í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur eftir að frumvarpið verður að lögum. Í 58. gr. er gert ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum 1. janúar 2021 og að lögin eigi við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur þann dag eða síðar. Þannig er gert ráð fyrir að foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar eigi rétt á fæðingarorlofi í tólf mánuði samanlagt og að réttinum verði skipt jafnt milli foreldra, meðal annars í samræmi við markmið 2. gr. Þannig er gert ráð fyrir að hvort foreldri um sig muni eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í sex mánuði en foreldri verði samt sem áður heimilt að framselja einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Þá er í 3. mgr. lögð til orðalagsbreyting frá gildandi lögum þannig að kveðið verði á um að foreldri sem fætt hefur barn skuli vera í fæðingarorlofi fyrsta hálfa mánuðinn eftir fæðingu barns í stað tveggja vikna líkt og kveðið er á um í gildandi lögum sem og að skýrt komi fram að sá tími skuli teljast hluti af sjálfstæðum rétti foreldrisins sem um ræðir til fæðingarorlofs. Framkvæmdin hefur fram til þess verið með þessum hætti þrátt fyrir að ekki sé í gildandi lögum kveðið á um að fæðingarorlof þess foreldris sem fætt hefur barn fyrstu tvær vikurnar eftir barnsburð skuli teljast hluti af sjálfstæðum rétti foreldrisins til fæðingarorlofs. Hefur framkvæmdin byggst á því að í athugasemdum við 3. mgr. 8. gr. frumvarps sem varð að gildandi lögum kemur framangreind tilhögun skýrt fram. Breytingar á 3. mgr. eiga ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna heldur er þeim ætlað að skýra orðalag ákvæðisins betur hvað þetta varðar.
    Í 1. mgr. kemur fram að sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig til fæðingarorlofs skuli vera sex mánuðir. Þannig er lagt til að fallið verði frá því fyrirkomulagi sem er í gildandi lögum þess efnis að tiltekinn fjöldi mánaða sé sameiginlegur sem foreldrar geti skipt sín á milli eða annað þeirra tekið í heild. Er breytingin lögð til í samræmi við markmiðsákvæði frumvarpsins og er henni ætlað að styðja við það að markmiðum frumvarpsins verði náð. Tilgangur með breytingunum er meðal annars að hvetja báða foreldra til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi. Á sama tíma er breytingunni ætlað að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku og að jafna tækifæri foreldra á vinnumarkaði og gera báðum foreldrum auðveldara að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og einkalífi. Að svo stöddu þykir þó ekki rétt að hverfa alveg frá þeim sveigjanleika sem hefur verið til staðar í gildandi lögum enda geta komið upp aðstæður hjá foreldrum sem kalla á þann möguleika að annað hvort foreldrið geti framselt hinu foreldrinu hluta af sjálfstæðum rétti sínum til fæðingarorlofs án þess þó að slíkt framsal stefni markmiðum frumvarpsins í hættu. Er því lagt til að hvoru foreldri um sig verði heimilt að framselja allt að einn mánuð af sjálfstæðum rétti sem það á til fæðingarorlofs til hins foreldrisins. Ákveði til að mynda foreldri að framselja einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til fæðingarorlofs til hins foreldrisins styttist sjálfstæður réttur þess úr sex mánuðum í fimm mánuði og réttur hins foreldrisins lengist sem því nemur úr sex mánuðum í sjö mánuði. Lögð er áhersla á að í umsóknarferli foreldris til Vinnumálastofnunar skv. 20. gr. verði boðið upp á þann möguleika að framselja allt að einn mánuð af sjálfstæðum rétti foreldris samkvæmt ákvæðinu til hins foreldrisins. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að foreldrar taki fæðingarorlof sitt á sama tíma kjósi þeir það.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að réttur til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns og að hvoru foreldri um sig verði heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns samkvæmt hefðbundinni meðgöngulengd sem staðfestur skal með vottorði ljósmóður. Ákveði foreldri að hefja töku fæðingarorlofs fyrir áætlaðan fæðingardag barns er gert ráð fyrir að sá tími teljist hluti af sjálfstæðum rétti foreldrisins til fæðingarorlofs. Ástæða þess að gert er ráð fyrir að foreldrum verði heimilað að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns er einkum sú að upp kunna að koma aðstæður í tengslum við meðgönguna þar sem mikilvægt þykir að báðir foreldrar eigi þess kost að vera í fæðingarorlofi skömmu fyrir fæðinguna. Sem dæmi má nefna þegar barnshafandi foreldri þarf að dvelja fjarri heimili sínu síðustu dagana fyrir áætlaðan fæðingardag barns vegna þess að það getur ekki fætt barn sitt í heimabyggð sinni þar sem gert er ráð fyrir áhættufæðingu og kann þá að vera mikilvægt að hitt foreldrið geti fylgt því foreldri sem um ræðir.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að foreldri sem hefur nýlega fætt barn sé skylt að vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrsta hálfa mánuðinn eftir fæðingu og er sú tilhögun óbreytt frá gildandi lögum. Er í þessu sambandi við það miðað að fæðingarorlofið hefjist eigi síðar en við fæðingu barns. Ákvæðið byggist á 2. mgr. 8. gr. tilskipunar ráðsins 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega fætt börn eða hafa börn á brjósti. Þetta er þáttur í ráðstöfunum til verndar öryggi og heilbrigði starfsmanna en talið er að foreldrar sem nýlega hafa fætt börn þurfi að njóta hvíldar eftir fæðingu barns til að jafna sig líkamlega áður en störf eru hafin að nýju. Ákveði foreldri sem fætt hefur barn samt sem áður að taka ekki fæðingarorlof fyrsta hálfa mánuðinn eftir að hafa fætt barn styttist sjálfstæður réttur foreldrisins til fæðingarorlofs sem þeim tíma nemur.
    Þá er gert ráð fyrir að í 4. mgr. verði kveðið á um við hvaða tíma skuli miða upphaf fæðingarorlofs þegar um frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er að ræða. Þannig er lagt til að réttur til fæðingarorlofs geti stofnast við um þrjú mismunandi tímamörk og skal réttur til fæðingarorlofs falla niður 24 mánuðum eftir að barn kemur inn á heimilið. Réttur til fæðingarorlofs fellur þannig sjálfkrafa niður 24 mánuðum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur eða 24 mánuðum eftir að barn hefur komið inn á heimili og um hefur verið að ræða reynslutíma áður en til frumættleiðingar eða varanlegs fóstur getur komið.

Um 9. gr.

    Lagt er til að í 9. gr. verði kveðið á um öll þau tilvik sem leitt geta til lengingar, framsals eða tilfærslu á sjálfstæðum rétti foreldris til fæðingarorlofs skv. 1. mgr. 8. gr., umfram þann mánuð sem gert er ráð fyrir að foreldrar geti framselt til hins foreldrisins. Er það gert til að gera þessi tilvik aðgengilegri en verið hefur hingað til en þau hafa verið hluti af 8. gr. gildandi laga ásamt fleiri efnisatriðum sem þar koma fram. Þá er lagt til að í nýjum málsgreinum verði kveðið á um tiltekin tilvik þar sem annað foreldrið getur átt rétt á allt að tólf mánaða fæðingarorlofi. Þannig er lagt til í 2. mgr. að foreldri sem fætt hefur barn skuli öðlast sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði þegar foreldri er ekki fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt. Þá er lagt til í 3. mgr. að í þeim tilvikum þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu barns sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur skuli sá réttur, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 8. gr., og foreldrið hefur ekki þegar nýtt sér, færast yfir til hins foreldrisins. Í 7. mgr. er lagt til að í þeim tilvikum þegar annað foreldrið á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks innan fæðingarorlofskerfisins né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki skuli hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði. Í 8. mgr. er lagt til að í þeim tilvikum þegar fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þar sem foreldrið hefur ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds, svo sem sýslumanns, eða dómstóla. Loks er lagt til að 8. og 9. mgr. 8. gr. gildandi laga verði skipt upp í 4.–6. mgr. ákvæðisins til að gera efnisatriðin sem þar er kveðið á um aðgengilegri.
    Efnisatriði sem fram koma í 9. gr. eiga það sammerkt að ákveðinn ómöguleiki er á samvistum barns við báða foreldra í fæðingarorlofi eða barnið á einfaldlega aðeins eitt foreldri. Við þessar aðstæður þykir rétt að þau börn sem eiga í hlut eigi þannig möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og önnur börn. Lögð er áhersla á að þær aðstæður sem lýst er í ákvæðinu verði með þeim hætti að markmiðum frumvarpsins verði ekki stefnt í hættu.
    Í 1. mgr. er kveðið á um tilvik þar sem barn á sannarlega aðeins eitt foreldri við fæðingu, frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur og lagt til að í slíkum tilvikum öðlist foreldrið rétt til tólf mánaða fæðingarorlofs þar sem ekki hefur stofnast réttur til fæðingarorlofs fyrir tvo foreldra. Er þannig komið til móts við þau börn sem eiga aðeins eitt foreldri við fæðingu, frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og þau börn sem eiga tvo foreldra.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar foreldri sem fætt hefur barn er ekki fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu barnsins skuli foreldrið öðlast sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði. Er í því sambandi við það miðað að foreldri sé ekki fært um að feðra barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu barnsins, m.a. samkvæmt barnalögum, nr. 76/2003, fyrir sýslumanni eða dómara. Líkja má slíkum aðstæðum við aðstæður skv. 1. mgr. þar sem einungis eitt foreldri er til staðar og barninu því ómögulegt að fá notið samvista við föður sinn þar sem ekki er vitað hver hann er. Almennt er litið svo á að sé foreldri sem fætt hefur barn fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt skuli foreldrið gera það. Reynist foreldrið ekki fært um að uppfylla þá skyldu er hér komið til móts við þau börn sem í hlut eiga þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og þau börn sem eiga þess kost að fá notið samvista við báða foreldra. Við framkvæmd ákvæðisins skal gætt að því markmiði að barn fái notið samvista við báða foreldra og meginreglu 1. mgr. 8. gr. um skiptingu réttinda milli foreldra. Þá skal gætt að ákvæðum barnalaga, nr. 76/2003, sem mæla meðal annars fyrir um rétt barns til að þekkja báða foreldra sína og að móður sé skylt að feðra barn sitt þegar feðrunarreglur laganna eiga ekki við.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skuli sá réttur, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 8. gr., og foreldrið hefur ekki þegar nýtt sér, færast yfir til hins foreldrisins. Er miðað við að þetta eigi við um foreldra hvort sem þeir fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Getur verið um að ræða tilfærslu réttinda að hluta eða öllu leyti, enda kann foreldrið að hafa nýtt sér hluta af fæðingarorlofi sínu áður en kom til nálgunarbanns og/eða brottvísunar af heimili. Er í þessu sambandi miðað við að nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili geti meðal annars verið á grundvelli laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, sbr. 37. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Enn fremur er gert ráð fyrir að lögreglustjóri eða dómstólar staðfesti að foreldri sæti nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili fram til þess tíma að barn nær 24 mánaða aldri eða á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur. Er þannig komið til móts við þau börn sem þar eiga í hlut þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og önnur börn. Við tilfærslu réttinda er gert ráð fyrir að réttur þess foreldris sem sætir nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili verði að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér innan fæðingarorlofskerfisins.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar annað foreldrið andast eftir fæðingu barns og áður en barnið hefur náð 24 mánaða aldri skuli réttur til fæðingarorlofs, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 8. gr. og hið látna foreldri hefur ekki þegar nýtt sér, færast yfir til eftirlifandi foreldris. Gert er ráð fyrir að þegar um frumættleiðingu eða varanlegt fóstur barns er að ræða skuli miða við 24 mánuði eftir að barnið kom inn á heimilið. Er miðað við að þetta eigi við hvort sem hið látna foreldri hefur farið með forsjá barnsins, hefur farið sameiginlega með forsjá barnsins með eftirlifandi foreldrinu eða hefur ekki farið með forsjá barnsins við andlátið. Getur verið um að ræða tilfærslu réttinda að hluta eða öllu leyti, enda kann foreldrið sem andaðist að hafa nýtt sér hluta af fæðingarorlofi sínu áður en kom til andlátsins. Er þannig komið til móts við þau börn sem í hlut eiga þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og þau börn sem eiga tvo foreldra. Við tilfærslu réttinda er gert ráð fyrir að réttur þess foreldris sem andast verði að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér innan fæðingarorlofskerfisins.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar foreldri er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur sé foreldrinu heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs, sem það hefur ekki þegar nýtt sér, til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Er miðað við að þetta eigi við um foreldra hvort sem þeir fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Getur verið um að ræða framsal réttinda að hluta eða öllu leyti, enda kann foreldrið að hafa nýtt sér hluta af fæðingarorlofi sínu áður en sjúkdómur greinist eða slys verður eða það sér fram á að geta einungis nýtt sér hluta þess vegna fyrrgreindra aðstæðna. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að veita undanþágu frá samþykki foreldris um framsal réttinda þegar foreldri er ófært samkvæmt mati sérfræðilæknis um að veita samþykki sitt um framsal vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss. Ástand foreldris vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss sem leiðir til þess að foreldrið er ófært um að annast barnið á fyrrgreindu tímabili eða veita samþykki sitt um framsal réttinda sinna skal staðfest með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið og skal þá miðað við hvort foreldri er meðal annars ófært um að annast um frumþarfir barns síns á umræddu tímabili, svo sem að mata, þrífa og klæða barnið án aðstoðar. Er þannig komið til móts við þau börn sem í hlut eiga þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og þau börn sem eiga þess kost að fá notið samvista við báða foreldra. Skila skal frumriti vottorðsins undirrituðu til Vinnumálastofnunar og er því ekki nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Við tilfærslu réttinda er gert ráð fyrir að réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn verði að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér innan fæðingarorlofskerfisins.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar foreldri er ófært vegna afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur sé foreldrinu heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs sem það hefur ekki þegar nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Er miðað við að þetta eigi við um foreldra hvort sem þeir fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Getur verið um að ræða framsal réttinda að hluta eða öllu leyti, enda kann foreldrið að hafa nýtt sér hluta af rétti sínum til fæðingarorlofs áður en kom til afplánunar refsivistar. Enn fremur er gert ráð fyrir að fangelsismálayfirvöld staðfesti að foreldri afpláni refsivist á fyrrgreindu tímabili. Er þannig komið til móts við þau börn sem í hlut eiga þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og þau börn sem eiga þess kost að fá notið samvista við báða foreldra. Við tilfærslu réttinda er gert ráð fyrir að réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn verði að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér innan fæðingarorlofskerfisins.
    Í 7. mgr. er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar foreldri á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks innan fæðingarorlofskerfisins né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki skuli hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði vegna fæðingar barns, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Jafnframt er gert ráð fyrir að eigi foreldri sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki geti hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að tólf mánuði að frádregnum þeim rétti sem fyrrnefnda foreldrið á í öðru ríki vegna fæðingar barns, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Er því ekki gert ráð fyrir að ákvæði þetta eigi við í þeim tilvikum þegar foreldri á sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki að hluta eða öllu leyti.
    Í 8. mgr. er lagt til að í þeim tilvikum þegar fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þar sem foreldrið hefur ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds, svo sem sýslumanns, eða dómstóla, sé Vinnumálastofnun heimilt að færa rétt forsjárlausa foreldrisins til fæðingarorlofs, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 8. gr., og foreldrið hefur ekki þegar nýtt sér, yfir til forsjárforeldrisins, enda sæki forsjárforeldrið um tilfærsluna til Vinnumálastofnunar. Lagt er til að hið sama eigi við liggi fyrir niðurstaða lögmælts stjórnvalds eða dómstóla um að umgengi forsjárlausa foreldrisins við barnið skuli vera verulega takmörkuð en í því sambandi er meðal annars átt við að umgengi forsjárlausa foreldrisins skuli fara fram undir eftirliti. Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun skuli meta hvort skilyrði fyrir tilfærslu réttinda séu uppfyllt. Í því sambandi er gert ráð fyrir að stofnuninni verði heimilt að óska eftir nauðsynlegum gögnum frá forsjárforeldrinu eða öðrum aðilum við matið. Við tilfærslu réttinda er gert ráð fyrir að réttur forsjárlausa foreldrisins verði að þeim réttindum sem forsjárforeldrið hefur áunnið sér innan fæðingarorlofskerfisins. Er þannig gert ráð fyrir að einstætt foreldri, sem fer með fulla og óskipta forsjá og umönnun barns á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur, án aðkomu forsjárlausa foreldrisins samkvæmt niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla, geti átt möguleika á allt að tólf mánaða fæðingarorlofi. Þá kemur fram að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um skilyrði fyrir tilfærslu réttinda samkvæmt ákvæðinu.

Um 10. gr.

    Ákvæðið byggist á 5. og 6. mgr. 8. gr. gildandi laga. Lagt er til að orðalagi verði breytt til að gera ákvæðið skýrara en í gildandi lögum. Breytingarnar eiga ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna.
    Lagt er til að í 1. mgr. verði kveðið á um þá meginreglu að réttur foreldris til fæðingarorlofs verði bundinn við að foreldri fari sjálft með forsjá barnsins eða fari sameiginlega með forsjá þess ásamt hinu foreldrinu þann tíma sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Í þessu sambandi er litið til þess að mikilvægt þykir að gott samkomulag sé á milli foreldra og að skilningur sé á gildi sameiginlegra ákvarðana er varða barnið, einkum í ljósi þess hve barnið er ungt á þeim tíma sem foreldrar geta nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs og því verulega háð foreldrum sínum. Þessar forsendur eru meðal annars hafðar til hliðsjónar þegar samningur um sameiginlega forsjá er staðfestur hjá yfirvöldum auk þess sem litið er til hags og þarfa barnsins. Ekki er gert ráð fyrir að maki eða sambúðarmaki kynforeldris eigi rétt á fæðingarorlofi heldur er eingöngu átt við kynforeldra þegar um fæðingu barns er að ræða, frumættleiðanda barns eða fósturforeldri barns.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir undantekningu frá 1. mgr. þannig að foreldri sem ekki fer með forsjá barnsins geti samt sem áður nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs að því gefnu að fyrir liggi samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof forsjárlausa foreldrisins stendur yfir. Slíkt samþykki leiðir af inntaki forsjár samkvæmt barnalögum, nr. 76/2003, en forsjá barns felur í sér rétt og skyldu forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins. Þó ber foreldri, sem fer eitt með forsjá barns síns, að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema umgengni sé andstæð hag og þörfum barns að mati lögmælts stjórnvalds. Gert er ráð fyrir að hið sama gildi þegar fyrir liggur samningur milli forsjárlausa foreldrisins og forsjárforeldrisins, sem sýslumaður hefur staðfest, um umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem forsjárlausa foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs eða þegar fyrir liggur niðurstaða lögmælts stjórnvalds eða dómstóla um umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Í gildandi lögum er kveðið á um að forsjárlaust foreldri eigi rétt til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengi við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir. Í ljósi markmiðs frumvarpsins þess efnis að tryggja barni samvistir við báða foreldra þykir mikilvægt að kveðið verði á um að forsjárlaust foreldri geti einnig nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs ef fyrir liggur niðurstaða lögmælts stjórnvalds, svo sem sýslumanns, eða dómstóla um umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Er það jafnframt í samræmi við 46. gr. barnalaga, nr. 76/2003, þar sem kveðið er á um að barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, sé það ekki andstætt hagsmunum þess að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.

Um 11. gr.

    Ákvæðið byggist á 12. gr. gildandi laga. Lagt er til í 1. mgr. að réttur til fæðingarorlofs vegna fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu verði lengdur frá því sem nú er og honum breytt úr sameiginlegum rétti foreldra í sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig. Er þannig gert ráð fyrir að hvort foreldri um sig öðlist sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í tvo mánuði sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu í staðinn fyrir sameiginlegan rétt í tvo mánuði líkt og kveðið er á um í gildandi lögum. Reynslan hefur sýnt að foreldrar sem fætt hafa barn hafa nær eingöngu nýtt sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs við fósturlát og að hitt foreldrið hafi nánast ekkert nýtt af sameiginlegum rétti foreldra við þessar aðstæður. Þá hefur þótt vera of mikill munur á réttindum foreldra eftir því hvort um andvanafæðingu eða fósturlát hefur verið að ræða en meðgöngulengd í þessum tilvikum getur verið nánast sú sama. Gert er ráð fyrir að réttur til fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar eða fósturláts falli niður 24 mánuðum eftir andvanafæðingu eða fósturlát. Um breytingu er að ræða frá gildandi lögum þar sem kveðið er á um að rétturinn sé nýttur í beinu framhaldi af andvanafæðingu eða fósturláti og þá í þrjá mánuði þar á eftir í tilviki andvanafæðingar en í tvo mánuði þar á eftir í tilviki fósturláts. Loks er lagt til að skýrt verði kveðið á um í 2. mgr. að tímalengd meðgöngu skv. 1. mgr. skuli staðfest með vottorði sérfræðilæknis og að í vottorðinu skuli jafnframt koma fram upplýsingar um foreldra séu foreldrar ekki í hjúskap eða sambúð við andvanafæðingu eða fósturlát skv. 1. mgr. en um nýmæli er að ræða frá gildandi lögum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um rétt foreldra til fæðingarorlofs við andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Gert er ráð fyrir að í þessum tilvikum eigi tilkynningar- og umsóknarfrestir skv. 12. og 20. gr. ekki við. Lagt er til að foreldrar eigi hvort um sig sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í þrjá mánuði eftir andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu en í tvo mánuði hafi verið um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Er þessi tími hugsaður sem svigrúm fyrir foreldra til að jafna sig. Þá er gert ráð fyrir að foreldrar hafi 24 mánuði til að nýta réttinn frá þeim degi sem andvanafæðing eða fósturlát á sér stað. Um breytingu er að ræða frá gildandi lögum sem er talin samrýmast betur markmiðum ákvæðisins þess efnis að gefa foreldrum svigrúm til að jafna sig eftir andvanafæðingu eða fósturlát.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að tímalengd meðgöngu skv. 1. mgr. skuli staðfest með vottorði sérfræðilæknis en gert er ráð fyrir að frumriti vottorðsins sé skilað undirrituðu til Vinnumálastofnunar og er því ekki nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að hafi foreldrar ekki verið í hjúskap eða sambúð við andvanafæðingu eða fósturlát skv. 1. mgr. skuli í vottorði sérfræðilæknisins jafnframt koma fram upplýsingar um foreldra. Er ástæðan sú að í þessum tilvikum er foreldrastaða ekki skráð hjá Þjóðskrá Íslands og hefur því sú leið verið farin við framkvæmd laganna að staðfesta foreldrastöðu með vottorði sérfræðilæknis. Rétt þykir að lögfesta framkvæmdina.

Um 12. gr.

    Ákvæðið byggist á 9. gr. gildandi laga. Í frumvarpinu er lagt til að bæta við nýrri málsgrein, 2. mgr., þar sem kveðið verði á um hvernig tilkynningu til vinnuveitanda um fæðingarorlof skuli háttað berist tilkynningin eftir fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Þá er lögð til breyting á 3. mgr. 9. gr. gildandi laga að tilkynning til Vinnumálastofnunar um töku fæðingarorlofs geti einnig verið á rafrænu formi.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að starfsmaður skuli tilkynna vinnuveitanda eins fljótt og kostur er hvernig starfsmaðurinn hyggst nýta rétt sinn til fæðingarorlofs og í síðasta lagi átta vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Það er sú meginregla sem hefur verið við lýði í tíð gildandi laga og er foreldrum hvatning til að skipuleggja fæðingarorlof sitt áður en barn fæðist, er frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur. Þykir sá fyrirvari hæfilegur til þess að vinnuveitandi geti gert nauðsynlegar ráðstafanir, svo sem að ráða staðgengil eða þjálfa annan starfsmann til að sinna verkefnum viðkomandi starfsmanns meðan á orlofinu stendur enda hefur vitneskja vinnuveitanda um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs í langflestum tilfellum verið ljós nokkuð fyrir það tímabil, sérstaklega varðandi orlof sem tekið er strax í upphafi. Þó er gerð undanþága frá þessum tímafresti þegar barnshafandi foreldri óskar eftir að hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag. Styttist fresturinn þá í þrjár vikur. Ástæða undanþágunnar varðar öryggi og heilbrigði barnshafandi foreldris.
    Í gildandi lögum hefur ekki verið tekið fram hvernig skuli meðhöndla tilkynningar sem fyrst koma fram eftir að barn er fætt, frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur. Í 2. mgr. ákvæðisins er lagt til að starfsmaður sem hefur ekki tilkynnt til vinnuveitanda hvernig viðkomandi hyggst nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur, tilkynni vinnuveitanda með átta vikna fyrirvara ef viðkomandi starfsmaður hyggst nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs eftir fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegs fóstur. Í framkvæmd gildandi laga hafa komið upp tilvik, einkum í tilviki föður sem tilkynnir atvinnurekanda með skömmum fyrirvara eftir að barn er fætt, jafnvel meira en ári eftir fæðingu þess, að hann hyggist nýta sér t.d. þriggja mánaða fæðingarorlof. Með þessu fyrirkomulagi er því meðal annars verið að hvetja til samráðs starfsmanns og vinnuveitanda með sama fyrirvara og fyrir fæðingardag barns en jafnframt er markmiðið ákvæðisins að koma til móts við hagsmuni atvinnurekenda, þannig að viðkomandi atvinnurekandi geti aðlagað rekstur sinn fæðingarorlofstöku starfsmanns á sambærilegan hátt og skv. 1. mgr. ákvæðisins. Lagt er til að vinnuveitandi hafi í undantekningartilvikum heimild til að fresta töku fæðingarorlofs sem fyrst er tilkynnt eftir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur þegar fyrir hendi eru sérstakar aðstæður í rekstri fyrirtækis eða stofnunar sem gera slíkt nauðsynlegt, og má þar vísa til sambærilegra ástæðna og koma fram í 47. gr. um foreldraorlof. Vinnuveitanda er þó ekki heimilt að fresta töku fæðingarorlofs sem fyrst er tilkynnt eftir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur ef fæðingarorlofið er tilkynnt í einu lagi með a.m.k. átta vikna fyrirvara og er í beinu framhaldi af fæðingarorlofi hins foreldrisins eða ef barn veikist þannig að nærvera foreldris sé nauðsynleg.
    Í 3. mgr. er lagt til að fram komi á hvaða formi tilkynning foreldra til Fæðingarorlofssjóðs skuli vera og hvað skuli koma fram í tilkynningunni. Er því tekið fram í ákvæðinu að tilkynning skuli vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg og að þar skuli koma fram upphafsdagur, lengd og tilhögun orlofs. Einnig er tekið fram að vinnuveitandi skuli árita tilkynninguna með móttökudagsetningu og afhenda starfsmanni síðan afrit hennar. Þá er tekið fram að vinnuveitandi geti krafist sönnunar á að foreldri fari með forsjá barnsins eða að fyrir liggi samþykki þess foreldris sem fer með forsjána telji hann þess þörf. Er það mat vinnuveitanda hvort hann telur þörf á að krefjast slíkrar sönnunar
    Eðli málsins samkvæmt gilda ákvæði þessarar greinar ekki um tilkynningarfresti beri fæðingu að fyrir áætlaða töku fæðingarorlofs. Telst þá fæðingarorlof foreldris sem fæðir barn, sbr. 3. mgr. 8. gr., hafið eigi síðar en á fæðingardegi. Fyrirhugað fæðingarorlof þess foreldris sem ekki hefur fætt barn sem og fæðingarorlof foreldris sem fæðir barn t.d. tveimur vikum fyrir eða eftir áætlaðan fæðingardag, getur hliðrast til sem nemur þeim tíma sem barn fæðist fyrir tímann. Dæmi um þetta er að fæðist barn fjórum vikum fyrir tímann færist fyrirhugað fæðingarorlof fram um fjórar vikur. Sama á við ef barn fæðist eftir áætlaðan fæðingardag.

Um 13. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 10. gr. gildandi laga. Í 2. mgr. er lögð til sú orðalagsbreyting frá gildandi lögum að í stað þess að kveðið sé á um að aldrei megi taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn verði talað um hálfan mánuð í senn. Breytingin á ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna.
    Í 1. mgr. kemur fram að starfsmaður skuli eiga rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi. Er þá átt við að foreldri geti tekið þá mánuði sem það á rétt til skv. 8., 9. og 11. gr. og 15.–19. gr.
    Í 2. mgr. kemur fram að þrátt fyrir 1. mgr. sé starfsmanni heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil en eitt og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þessi sveigjanleiki er háður samkomulagi við vinnuveitanda sem skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs. Er með þessu fyrirkomulagi reynt að auðvelda útivinnandi foreldrum að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi annars vegar og fjölskyldulífi hins vegar. Enn fremur er þessum sveigjanleika ætlað að hvetja báða foreldra til að taka fæðingarorlof svo þeir verði virkir þátttakendur í uppeldi barna sinna frá fyrstu tíð. Þá gefur þessi sveigjanleiki aukna möguleika vilji foreldri síður hverfa frá störfum í langan tíma í einu en ætla má að það geti einnig verið hagur vinnuveitanda að starfsmaður sé ekki lengi frá vinnu í einu vegna fæðingarorlofs. Þrátt fyrir framangreint er lagt til að aldrei megi taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Hér er átt við að það fyrirkomulag sem foreldri kýs og vinnuveitandi samþykkir má aldrei standa yfir skemur en hálfan mánuð í einu.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að óski starfsmaður eftir að haga fæðingarorlofi skv. 2. mgr. en vinnuveitandi getur ekki komið til móts við óskir starfsmannsins skuli vinnuveitandinn og starfsmaðurinn komast að samkomulagi um aðra tilhögun fæðingarorlofsins innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar um töku fæðingarorlofs, sbr. 3. mgr. 12. gr. Skuli það gert skriflega og þær ástæður sem liggja að baki breyttri tilhögun tilgreindar.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að náist ekki samkomulag milli starfsmanns og vinnuveitanda um töku fæðingarorlofs starfsmanns eigi starfsmaðurinn ávallt rétt á að taka fæðingarorlof sitt í einu lagi skv. 1. mgr. frá þeim upphafsdegi sem starfsmaður ákveður.

Um 14. gr.

    Ákvæðið byggist á 14. gr. gildandi laga. Lagt er til að því ákvæði verði skipt upp með þeim hætti að 2. mgr. þess verði að 14. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu verði kveðið á um að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og atvinnuleysisbóta. Hér er ekki um tæmandi talningu að ræða þar sem síðar kann að verða samið um önnur réttindi en þau sem talin eru upp í ákvæðinu. Þá er gert ráð fyrir að 1. mgr. 14. gr. gildandi laga verði að 6. mgr. 24. gr. frumvarpsins þar sem kveðið verði á um greiðslu foreldris í lífeyrissjóð sem og mótframlag Fæðingarorlofssjóðs og heimild foreldris til greiðslu í séreignarsjóð þann tíma sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs.

Um 15. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 16. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. kemur fram að foreldrar eigi sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt sem fæðist lifandi eða fæðist andvana eftir 22 vikna meðgöngu. Skilyrði er því að a.m.k. eitt barn fæðist lifandi svo réttur stofnist til lengingar fæðingarorlofs samkvæmt ákvæðinu. Hafi bæði börnin eða öll fæðst andvana skapast ekki réttur til lengingar fæðingarorlofs samkvæmt ákvæði þessu heldur eingöngu sjálfstæður réttur foreldris til fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu skv. 11. gr.
    Í 2. mgr. kemur fram að foreldrar eigi sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt sem þeir hafa frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur á sama tíma.

Um 16. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 11. gr. gildandi laga. Lagt er til að kveðið verði með skýrum hætti á um í 1. mgr. að ákvæðið taki einvörðungu til barnshafandi foreldra sem eru starfsmenn skv. 4. mgr. 4. gr. en það hefur ekki þótt nægjanlega skýrt hingað til. Breytingin á ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna en ákvæðið byggir á tilskipun ráðsins 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega fætt börn eða hafa börn á brjósti. Þá er lögð til sú breyting í 3. mgr. að skýrt komi fram að starfi barnshafandi foreldri hjá fleiri en einum vinnuveitanda eigi það rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í réttu hlutfalli vegna þess starfs sem því er veitt leyfi frá. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag skuli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu falla niður frá þeim degi. Breytingin á ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna.
    Í 1. mgr. er kveðið á um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega fætt börn eða hafa börn á brjósti í samræmi við tilskipun 92/85/EBE. Kveðið er á um nánari útfærslu tilskipunarinnar í reglugerð nr. 931/2000, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega fætt barn eða hafa barn á brjósti. Er þar meðal annars kveðið á um sérstakt mat á eðli hugsanlegrar hættu fyrir starfsmenn og um aðgerðir í kjölfar þess. Er með þessu átt við störf sem á grundvelli matsins eru talin leiða til þess að öryggi og heilbrigði barnshafandi foreldris, foreldris sem nýlega hefur fætt barn eða hefur barn á brjósti er í hættu. Foreldri telst nýlega hafa fætt barn þegar barnið er 14 vikna eða yngra. Í reglugerðinni er fjallað nánar um hvernig standa skuli að ákvörðun um hvort nægilegt sé að breyta vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma eða hvort frekari aðgerða þurfi við. Er meðal annars kveðið á um heimild vinnuveitanda til að leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um breytta vinnutilhögun starfsmanns eða leyfi. Þá er Vinnumálastofnun og/eða hlutaðeigandi starfsmanni heimilt að óska eftir því við Vinnueftirlit ríkisins að það endurskoði ákvörðun vinnuveitanda.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að þær breytingar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma foreldris, sbr. 1. mgr., sem teljast nauðsynlegar skuli ekki hafa áhrif á launakjör þess til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Sömu réttindi skulu gilda fyrir foreldra sem hafa nýlega fætt barn eða hafa barn á brjósti, sbr. ákvæði tilskipunar 92/85/EBE.
    Í 3. mgr. kemur fram að ef nauðsynlegt sé að veita barnshafandi foreldri leyfi frá störfum svo sem mælt fyrir um í 1. mgr. skuli það eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði líkt og væri það í fæðingarorlofi. Heimildin til greiðslu skv. 3. mgr. er takmörkuð við barnshafandi foreldri. Ástæðan er sú að foreldri sem hefur nýlega fætt barn eða er með barn á brjósti á sjálfstæðan rétt samkvæmt frumvarpi þessu til fæðingarorlofs með greiðslum. Þó er vakin athygli á að jafnan er heimilt að veita foreldri sem er með barn á brjósti leyfi frá störfum skv. 1. mgr., í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi þess og heilbrigði verði ekki við komið að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma þess. Vari leyfið lengur en sá tími sem foreldrið á rétt til og ætlar að taka í fæðingarorlof gerir frumvarpið ekki ráð fyrir sérstökum greiðslum á þeim grundvelli. Þá kveður ákvæðið á um það að starfi barnshafandi foreldri hjá fleiri en einum vinnuveitanda skuli það eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í réttu hlutfalli vegna þess starfs sem því er veitt leyfi frá. Dæmi eru um það að barnshafandi foreldrar starfi hjá fleiri en einum vinnuveitanda og þurfi að leggja niður launað starf hjá einum þeirra samkvæmt ákvæði þessu en ekki hjá öðrum. Í þeim tilvikum myndi foreldrið því halda áfram að starfa hjá þeim vinnuveitanda þar sem öryggi og heilbrigði þess er ekki í hættu en leggja niður störf hjá þeim vinnuveitanda þar sem öryggi og heilbrigði þess er í hættu, með rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í réttu hlutfalli vegna þess starfs. Heimild til lengingar fæðingarorlofs og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæði þessu fellur niður við fæðingu barns.

Um 17. gr.

    Lagt er til að 17. gr. gildandi laga verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði aðgengilegri en nú er. Í 17. gr. frumvarpsins verði þannig kveðið á um veikindi barnshafandi foreldris. Lögð er til sú breyting að í 1. mgr. verði kveðið með skýrum hætti á um að heilsufarsástæður barnshafandi foreldris skuli tengjast meðgöngunni. Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um í ákvæðinu sjálfu hvað er átt við með heilsufarsástæðum en það er nú gert í athugasemdum við 17. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum og í 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
    Í 1. mgr. kemur fram að barnshafandi foreldri skuli eiga rétt á leyfi frá störfum eða hætta atvinnuleit ef það fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði það skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og væri þar með þátttakandi á innlendum vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 22. gr. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag teljist það nauðsynlegt af heilsufarsástæðum sem tengjast meðgöngunni. Með heilsufarsástæðum er þá eingöngu átt við þær sem tengjast meðgöngunni, þ.e. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, tímabundna eða langvarandi sjúkdóma sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni sem og meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni. Önnur veikindi barnshafandi foreldra veita ekki rétt til lengingar fæðingarorlofs. Þá skal réttur til lengingar fæðingarorlofs vera að hámarki tveir mánuðir. Réttindi til lengingar fæðingarorlofs falla niður beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns, enda skal hið hefðbundna fæðingarorlof hefjast eigi síðar en á fæðingardegi barns skv. 3. mgr. 8. gr.
    Í 2. mgr. kemur fram að rökstyðja skuli þörf á lengingu fæðingarorlofs með vottorði sérfræðilæknis. Með því er átt við að sérfræðilæknir rökstyðji þörf fyrir lengingu fæðingarorlofs með vísan til niðurstöðu læknisskoðunar og óvinnufærni skv. 1. mgr. Þá skal barnshafandi foreldri skila frumriti vottorðsins undirrituðu til Vinnumálastofnunar og er því ekki nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.
    Í 3. mgr. kemur fram að með umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 1. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar eftir því sem við á. Í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær greiðslur féllu niður. Er ástæðan sú að ekki getur komið til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæðinu nema greiðslur frá vinnuveitanda, þar með talið vegna veikindaréttar, eða greiðslur Vinnumálastofnunar hafi fallið niður meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.

Um 18. gr.

    Lagt er til að 17. gr. gildandi laga verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði aðgengilegri en nú er. Í 18. gr. frumvarpsins verði þannig kveðið á um veikindi foreldris í tengslum við fæðingu. Lögð er til sú breyting frá 3. mgr. 17. gr. gildandi laga um fæðingar- og foreldraorlof að í 1. mgr. 18. gr. verði kveðið á um að veikindi foreldris sem fætt hefur barn í tengslum við fæðingu verði að vera rakin til fæðingarinnar. Það atriði kemur nú fram í athugasemdum við 17. gr. frumvarps til gildandi laga og á breytingin því ekki að hafa áhrif á framkvæmd laganna.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimilt verði að lengja fæðingarorlof foreldris sem fætt hefur barn um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda þess sjálfs sem eru í tengslum við fæðinguna. Er við það miðað að veikindi foreldris sem fætt hefur barn verði rakin til fæðingarinnar og það hafi af þeim völdum verið ófært að annast um barn sitt í fæðingarorlofi sínu að mati sérfræðilæknis. Önnur veikindi foreldris sem fætt hefur barn veita ekki rétt til lengingar fæðingarorlofs. Réttur til lengingar fæðingarorlofs getur verið að hámarki tveir mánuðir.
    Í 2. mgr. kemur fram að rökstyðja skuli þörf á lengingu fæðingarorlofs með vottorði sérfræðilæknis. Með því er átt við að sérfræðilæknir rökstyðji þörf fyrir lengingu fæðingarorlofs með vísan til niðurstöðu læknisskoðunar og mati á því hvort veikindi foreldris sem fætt hefur barn verði rakin til fæðingarinnar og það hafi af þeim völdum verið ófært að annast um barn sitt í fæðingarorlofi sínu sbr. 1. mgr. Þá skal foreldri sem fætt hefur barn skila frumriti vottorðsins undirrituðu til Vinnumálastofnunar og er því ekki er nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Um 19. gr.

    Lagt er til að 17. gr. gildandi laga verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði aðgengilegri en nú er. Í 19. gr. frumvarpsins verði þannig kveðið á um veikindi barns eða fötlun. Ákvæðið er samhljóða 1. mgr. 17. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimilt verði að lengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika hjá barni eða alvarlega fötlun barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Ekki er gert ráð fyrir að litið verði til þess hvort barn þurfi að dvelja á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu þegar kemur til álita að lengja rétt foreldra til fæðingarstyrks vegna alvarlegs sjúkleika hjá barni eða alvarlegrar fötlunar barns. Í stað þess er gert ráð fyrir að eingöngu verði litið til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt er við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Hafi barn dvalist á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu þess og síðan útskrifast við góða heilsu er heimilt að lengja fæðingarorlof foreldra um þann tíma hafi sjúkrahúsdvölin varað lengur en sjö daga. Oft kemur alvarleg fötlun eða sjúkdómar, svo sem hjartagallar, ekki fram þegar við fæðingu en getur hins vegar komið fram á fyrstu dögunum í lífi barns. Þá skal miðað við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og er þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra sambærilega sjúkdóma, enda þótt veikindin geti verið þrálát. Þykir eðlilegt að líta til þeirra tilvika er eiga undir lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, þegar meta skal hvort einstök tilvik geta fallið undir ákvæði þetta enda stefnt að því að tryggja foreldrum þessara barna heildstæðan rétt að þessu leyti.
    Í 2. mgr. kemur fram að rökstyðja skuli þörf á lengingu á rétti foreldris til fæðingarorlofs með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast barnið. Með því er átt við að sérfræðilæknir rökstyðji þörf fyrir lengingu á rétti foreldris til fæðingarorlofs með vísan til niðurstöðu læknisskoðunar og mats á því hvort um alvarlegan sjúkleika hjá barni eða alvarlega fötlun barns sé að ræða sem krefst nánari umönnunar foreldris skv. 1. mgr. Þá skal foreldri skila frumriti vottorðsins undirrituðu til Vinnumálastofnunar og er því ekki nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging á rétti foreldris til fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Um 20. gr.

    Lagt er til að 15. gr. gildandi laga verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði aðgengilegri en nú er. Í 20. gr. frumvarpsins verði þannig kveðið á um umsókn foreldris um greiðslur í fæðingarorlofi til Vinnumálastofnunar en í 23. gr. þess verði kveðið á um atriði er snúa að útreikningi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Lagt er til að umsóknarferli til Vinnumálastofnunar verði einfaldað eins og kostur er og umsóknir og breytingar verði á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafrænar, en í gildandi lögum er kveðið á um að ferlið skuli vera skriflegt á þar til gerðum eyðublöðum.
    Í 1. mgr. kemur fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði skuli sækja um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til Vinnumálastofnunar sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Verður það að teljast hæfilegur tími fyrir Vinnumálastofnun að reikna út þær fjárhæðir sem foreldrið á rétt á úr sjóðnum meðan á fæðingarorlofi varir. Óski foreldri eftir að hefja greiðslur fyrir áætlaðan fæðingardag skv. 2. mgr. 8. gr. styttist tilkynningarfresturinn í þrjár vikur fyrir fyrirhugaðan upphafsdag fæðingarorlofs.
    Í 2. mgr. kemur fram að umsókn til Vinnumálastofnunar skuli vera á því formi sem stofnunin ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg, og með henni skuli fylgja afrit af tilkynningu til vinnuveitanda um fæðingarorlof skv. 12. gr. Er það gert til þess að einfalda umsóknarferlið eins og kostur er. Í tilkynningu foreldris skal tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag, lengd og tilhögun fæðingarorlofs. Ástæða þessa er sú að ljóst verður að vera frá upphafi hvernig þeirri skiptingu verður háttað til að auðvelda útreikninga, sem og að hafa eftirlit með því að ekki verði teknir fleiri dagar en foreldri á rétt til í fæðingarorlof. Jafnframt er ástæðan sú að skilyrði greiðslna er að foreldrar leggi niður launuð störf í fæðingarorlofi. Þá er krafist áritunar vinnuveitanda á tilkynninguna þar sem fram kemur áætlað tímabil sem starfsmaður mun vera í fæðingarorlofi.
    Í 3. mgr. kemur fram að þegar foreldri getur ekki tekið fæðingarorlof á þeim tíma er það hefur tilkynnt um til Vinnumálastofnun vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna beri foreldri að tilkynna Vinnumálastofnun um breytinguna á því formi sem stofnunin ákveður, svo sem rafrænt eða skriflega, enda er greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði ætlað að bæta í heild eða að hluta þann tekjumissi sem foreldri verður fyrir þegar það leggur niður launuð störf í fæðingarorlofi. Vinnumálastofnun verður því að hafa svigrúm til að stöðva greiðslur til foreldra muni þeir ekki leggja niður störf í fæðingarorlofi eins og áætlað var. Þá er lögð áhersla á að vinnuveitandi áriti breytingarnar á áður tilkynntu fæðingarorlofi sem foreldri tilkynnir Vinnumálastofnun um svo að ljóst sé að vinnuveitandi sé upplýstur um nýja tilhögun á fæðingarorlofi í samræmi við 13. gr.

Um 21. gr.

    Lagt er til að 13. gr. gildandi laga verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði aðgengilegri. Í 21. gr. frumvarpsins verði þannig kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Lagðar eru til orðalagsbreytingar og einföldun á 1. mgr. frá því sem er í 1. mgr. 13. gr. gildandi laga. Hið sama er lagt til að verði gert í 2. mgr. frá því sem er í 12. mgr. 13. gr. gildandi laga. Breytingarnar eiga ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna.
    Í 1. mgr. er kveðið á um sérstakt sex mánaða ávinnslutímabil réttinda sem foreldrar á innlendum vinnumarkaði verða að uppfylla til þess að eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur, sbr. 2. og 4. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 11. gr. Þannig getur verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum. Þegar foreldri hefur aftur á móti töku fæðingarorlofs fyrir þann tíma, sbr. 2. og 4. mgr. 8. gr. og 16. og 17. gr., skal þó miða við þann dag er er foreldrið hefur fæðingarorlof og getur þá verið um að ræða tímabil sem afmarkast ekki af heilum almanaksmánuðum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að túlka beri frumvarpið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig gerðir sem felldar hafa verið undir VI. viðauka samningsins á ávinnslutímabili réttinda skv. 1. mgr. Þar á meðal er reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, en samkvæmt reglugerðinni ber meðal annars að taka tillit til starfstíma foreldra á vinnumörkuðum í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins við mat á því hvort foreldri teljist eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skv. 1. mgr. 21. gr. Ákvæði reglugerðarinnar gilda milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, milli Norðurlandanna, þ.m.t. Færeyja og Grænlands, sbr. Norðurlandasamning um almannatryggingar og samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar, og gagnvart Sviss, sbr. stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Skilyrði er að foreldri hafi verið virkur þátttakandi á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Ástæða þessa er að lögin fjalla um réttindi foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingarorlofs og verður foreldri því sannanlega að hafa verið virkur þátttakandi á innlendum vinnumarkaði þegar til fæðingarorlofs stofnast, sbr. 8. gr., sbr. einnig 1. mgr. 2. gr., svo til álita geti komið að tekið verði tillit til starfstímabila þess í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í öðru Norðurlandaríki, í öðru EFTA-ríki eða í Færeyjum við mat á því hvort skilyrðum laganna fyrir greiðslum í fæðingarorlofi sé fullnægt. Hafi foreldri verið á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. áður en fæðingarorlof hefst skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila foreldris sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu á ávinnslutímabilinu enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Hafi foreldri hins vegar verið skemmri tíma en einn mánuð á innlendum vinnumarkaði skal Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki fyrir sig hvort foreldri teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi frumvarpsins þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt er, tillit til starfstímabila foreldris í öðru aðildarríki enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt til fæðingarorlofs samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Er þetta lagt til svo koma megi í veg fyrir misnotkun á fæðingarorlofskerfinu þar sem þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skemmri tíma en einn mánuð þykir skammur tími svo unnt sé að leiða sjálfkrafa rétt af þeim tíma til samlagningar starfstímabila og þar með til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í því sambandi er jafnframt litið til þess að sjóðurinn er fjármagnaður með tryggingagjaldi en ekki beint úr ríkissjóði. Enn fremur er lagt til það skilyrði að foreldri hafi hafið störf innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru samningsríki eða með öðrum orðum að tíu virkir dagar megi að hámarki líða milli tryggingatímabila þannig að ekki verði talið hafa komið rof í ávinnslutímabilið þegar foreldri flytur milli landa. Þykir það hæfilegur tími þegar tekið er tillit til þess að foreldri flytur búferlum milli landa en almennt er ekki gert ráð fyrir að rof komi inn í ávinnslutímabil foreldra skv. 1. mgr. 21. gr. Jafnframt er gert ráð fyrir að starfstímabil og þar með tryggingatímabil séu staðfest með þar til gerðum vottorðum sem tryggingastofnanir í þeim ríkjum sem flutt er frá gefa út á grundvelli hlutaðeigandi samnings. Leiði samlagning starfstímabila til þess að foreldri eigi rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skal þó einungis taka mið af meðaltali heildarlauna foreldris á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 23. og 24. gr.

Um 22. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 13. gr. a gildandi laga. Í 1. mgr. er lagt til að skýrar komi fram að foreldrar á innlendum vinnumarkaði geta verið starfsmenn, sjálfstætt starfandi eða bæði starfsmenn og sjálfstætt starfandi. Þá er lagt til í a-lið 2. mgr. að skýrt komi fram að liðurinn eigi einungis við um starfsmenn skv. 4. tölul. 4. gr. og starfsmaðurinn skuli hafa verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli á því tímabili sem hann var í orlofi eða leyfi þótt ólaunað hafi verið að hluta eða öllu leyti. Lagt er til að það sé skilyrði að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli á viðmiðunartíma þeirra greiðslna sem fjallað er um í b–e-lið 2. mgr. Þá er lagt til í b-lið 2. mgr. að atvinnuleitendur hafi tök á því að hætta atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og skuli sá tími þá teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði hafi ekki liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefst að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Þá er lagt til að orðinu sjúkradagpeningar verði bætt við c-lið 2. mgr. þegar verið er að tala um greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Breytingarnar eiga ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna.
    Í 1. mgr. kemur fram með hvaða hætti skuli meta starfshlutfall foreldra á innlendum vinnumarkaði sem eru starfsmenn, sjálfstætt starfandi eða bæði starfsmenn og sjálfstætt starfandi. Starfshlutfall foreldra kemur meðal annars til álita við framkvæmd þegar reynir á 1. mgr. 21. gr. um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og 3. mgr. 24. gr. um lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Sé um að ræða launað starf við gæslu barna í heimahúsi skal heilsdagsgæsla eins barns á mánuði nema fjórðungi úr fullu starfi eða 43 vinnustundir á mánuði, sbr. reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum. Foreldri skal leggja fram staðfestingu á starfsleyfi og tekjum. Þá skulu makar bænda sem ekki eru formlega skráðir sem aðilar að búrekstri og starfa heldur ekki utan búsins hafa ákveðna sérstöðu þar sem þeir eru hvorki skilgreindir sem starfsmenn hjá búinu né sjálfstætt starfandi atvinnurekendur. Vegna þessarar sérstöðu er nauðsynlegt að meðhöndla þá sérstaklega þar sem tekjuöflunarmöguleikum þeirra eru víða þröngar skorður settar. Verður því frá jafnréttissjónarmiði að meta vinnuframlag þeirra á búinu sem a.m.k. 50% starfshlutfall. Þessi sérstaða á hvorki við um þá maka sem vinna utan bús í 50% starfi eða hærra starfshlutfalli né heldur um þá sem eru formlegir aðilar að búrekstri.

Um 23. gr.

    Lagt er til að 13. og 15. gr. gildandi laga verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði aðgengilegri. Í 23. gr. frumvarpsins verði þannig kveðið á um viðmiðunartímabil og útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Breytingarnar eiga ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna.
    Með heildarlaunum í ákvæðinu er átt við hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og skiptir þá ekki máli hvort starfsmaður hafi verið að vinna hjá einum vinnuveitanda eða fleirum eða hvort hluti launa hans sé reiknað endurgjald sem tryggingagjald hefur verið greitt af. Til heildarlauna skal jafnframt telja þau tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði skv. a–e-lið 2. mgr. 22. gr. án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald hafi komið til. Hafi foreldri ekki haft tekjur þá almanaksmánuði skal engu að síður telja þá með við útreikning á meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabili. Með mánuðum er átt við almanaksmánuði og er þá miðað við samfellt tímabil sem stendur í tólf almanaksmánuði á undan fæðingarmánuði barns eða þeim almanaksmánuði þegar barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Með þessum hætti er jafnræðis gætt milli foreldra óháð því hvenær barn fæðist á árinu, er frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur. Þrátt fyrir að ákvæðið mæli fyrir um að greiðslur skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna geta þær þó aldrei farið niður fyrir tiltekna fjárhæð samkvæmt starfshlutfalli foreldris, sbr. 3. mgr. 24. gr., og aldrei orðið hærri en tiltekin fjárhæð skv. 1. mgr. 24. gr. Þá skal ekki tekið tillit til tekna sem foreldri hefur unnið til utan innlends vinnumarkaðar heldur einvörðungu á innlendum vinnumarkaði. Í þeim tilvikum þegar foreldri á rétt til fæðingarorlofs skv. 1. mgr. 21. gr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu skal það öðlast rétt til lágmarksgreiðslna, í samræmi við 2. og 3. mgr. 24. gr. Þó skal ávallt miða við fjóra mánuði að lágmarki við útreikning á meðaltali heildarlauna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um viðmiðunartímabil sjálfstætt starfandi, sbr. 3. tölul. 4. gr. Þar kemur fram að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Þá segir að 1., 3. og 5. mgr. 23. gr. gildi að öðru leyti eins og við getur átt. Með tekjuári er átt við almanaksár. Nokkur eðlismunur er talinn vera á starfstengdum aðstæðum starfsmanna annars vegar og sjálfstætt starfandi einstaklinga hins vegar en sjálfstætt starfandi einstaklingar geta haft meiri áhrif á tekjur sínar en starfsmenn sem starfa í annarra þjónustu. Þykir því mikilvægt að miða við sama tímabil og skattyfirvöld gera að því er sjálfstætt starfandi einstaklinga varðar með það fyrir augum að unnt sé að samkeyra kerfin þegar álagning skattyfirvalda liggur fyrir og tryggja þannig jafnvægi milli inn- og útstreymis Fæðingarorlofssjóðs. Til frekari skýringa á ákvæðinu vísast til skýringa við 1. mgr. eins og við getur átt.
    Í 3. mgr. er kveðið á um viðmiðunartímabil foreldris sem er bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Þar kemur fram að í þeim tilvikum skuli mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af. Starfi viðkomandi foreldri sem starfsmaður skv. 4. tölul. 4. gr. í 50% eða hærra starfshlutfalli skal miða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. Er þá miðað við starfshlutfall foreldris á ávinnslutímabili 1. mgr. 21. gr. Að öðrum kosti skal miða við viðmiðunartímabil skv. 2. mgr. Að öðru leyti gilda ákvæði 1., 2., 4. og 5. mgr. eins og við getur átt. Til frekari skýringa á ákvæðinu vísast eftir atvikum til skýringa við 1. og 2. mgr.
    Í 4. mgr. er kveðið nánar á um hvað skuli telja til launa á innlendum vinnumarkaði við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldra skv. 1.–3. mgr. Þá kemur fram í ákvæðinu að þegar um er að ræða greiðslur skv. a–e-lið 2. mgr. 22. gr. og greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, skuli taka miða af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræðir. Hið sama gildir þótt foreldri hafi kosið að dreifa greiðslunum hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, enda þótt foreldri hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Hafi því tímabili sem foreldri á rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum verið lokið skal engu að síður miða við viðmiðunartekjur hans sem nýttar voru fyrir tekjutengda tímabilið. Ekki er átt við styrki sem foreldri kann að hafa fengið úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða sjúkrasjóðum stéttarfélaga á tímabilinu heldur eingöngu þær greiðslur sem ætlað er að koma í stað launa. Þá skal aldrei miða við hærri fjárhæðir en nemur viðmiðunartekjum foreldra sem lagðar voru til grundvallar greiðslunum á umræddu tímabili sem þessar greiðslur komu til enda þótt foreldri hafi fengið bættan mismun viðmiðunartekna og greiðslnanna sjálfra samhliða greiðslunum. Ástæðan er sú að ekki er ætlunin að tiltekinn hluti teknanna verði metinn tvisvar inn í útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þessu til skýringar má nefna dæmi um foreldri sem hefur í fyrra fæðingarorlofi fengið 80% af viðmiðunartekjum og fengið viðbætur frá vinnuveitanda sem nemur þeim 20% sem á vantaði milli viðmiðunartekna og fæðingarorlofsgreiðslna. Þegar foreldrið fer síðan aftur í fæðingarorlof er tekið mið af fyrri viðmiðunartekjum fyrir þá mánuði sem það var í fæðingarorlofi og lenda innan viðmiðunartímabilsins og því óeðlilegt að taka jafnframt tillit til viðbótanna frá vinnuveitanda. Þá er áfram lögð áhersla á að ekki skuli taka tillit til tekna sem foreldri hefur unnið til utan innlends vinnumarkaðar.
    Í 5. mgr. kemur fram að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þannig skal einungis greitt úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli skattframtala, staðgreiðsluskrár og tryggingagjaldsskrár skattyfirvalda enda talið mikilvægt að einungis þær tekjur foreldris sem gefnar hafa verið upp til skattyfirvalda og tryggingagjald verið greitt af komi til útreiknings á greiðslum foreldris úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. einnig tekjur foreldris skv. 2. og 3. málsl. 4. mgr. Við útreikninginn skulu tekjur foreldris þannig tilheyra þeim mánuði sem þær voru skattlagðar og greitt af þeim tryggingagjald enda hafi verið unnið fyrir þeim í þeim mánuði. Hið sama skal gilda hefði átt að skattleggja og greiða af þeim tryggingagjald í mánuðinum, hefðu þær verið inntar af hendi á réttum tíma, en þær verið skattlagðar og greitt af þeim tryggingagjald í öðrum mánuði. Árstíðabundnar tekjur foreldris samkvæmt kjarasamningum eins og persónuuppbætur skulu koma til útreiknings í þeim mánuði sem þær voru inntar af hendi. Tekjur foreldris vegna orlofslauna samkvæmt lögum um orlof, nr. 30/1987, skulu koma til útreiknings á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi í þeim mánuði sem þær voru skattlagðar og greitt af þeim tryggingagjald. Vinnumálastofnun skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 1.–3. mgr. Upplýsingaöflunin er háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, til að mynda rafrænt. Er það gert svo að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu upplýsinga gagnvart hlutaðeigandi einstaklingum.
    Í 6. mgr. kemur fram að skattyfirvöld skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd frumvarpsins án endurgjalds og á því formi sem óskað er, í ljósi þess að Vinnumálastofnun byggir útreikninga á greiðslum og eftirlit á upplýsingum úr skrám skattyfirvalda.

Um 24. gr.

    Lagt er til að þeim atriðum er varða fyrirkomulag á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði verði safnað saman undir eitt ákvæði sem verði að 24. gr. Í 3. mgr. er lögð til sú breyting að skýrt komi fram að þær greiðslufjárhæðir sem þar er kveðið á um skuli greiða í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris þann almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir. Sama breyting er lögð til á 4. mgr. Þessar breytingar eiga ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna. Þá er lögð til sú breyting á 4. mgr. að þar verði skýrt kveðið á um að ekki sé heimilt að greiða foreldri lengra aftur í tímann en þrjá almanaksmánuði á undan þeim almanaksmánuði sem umsókn um greiðslur skv. 20. gr. barst. Ástæða breytingarinnar er sú að gildandi lög kveða á um að greitt sé eftir á fyrir undanfarandi mánuð í fæðingarorlofi og hefur því ekki verið heimilt að greiða lengra aftur í tímann þegar umsókn hefur borist of seint. Breytingin leiðir því til aukins svigrúms fyrir Fæðingarorlofssjóð að greiða lengra aftur í tímann en þó ekki lengra en þrjá almanaksmánuði frá því að umsókn barst.
    Í 1. mgr. er kveðið skýrt á um að þrátt fyrir 1.–3. mgr. 23. gr. skuli mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi aldrei vera hærri fjárhæð en sem nemur tiltekinni fjárhæð. Kveðið skal nánar á um fjárhæðir í reglugerð, sbr. 54. gr., og skulu breytingar á greiðslum miðast við það ár sem barn fæðist, er frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur. Þannig er ekki gert ráð fyrir að breytingar á greiðslum hverju sinni eigi við um alla foreldra sem nýta sér réttindi innan kerfisins heldur eingöngu foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur eftir ákveðna dagsetningu eða með öðrum orðum eftir að breytingarnar taka gildi.
    Í 2. mgr. kemur fram að þegar foreldri á rétt á greiðslum skv. 21. gr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. skuli það öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 3. mgr. í samræmi við starfshlutfall þess. Á þetta t.d. við um foreldra sem hafa starfað erlendis á viðmiðunartímabili 1.–3. mgr. 23. gr. en hafa síðan hafið störf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns og öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 1. mgr. 21. gr., sbr. einnig 2. mgr. sömu greinar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að greiðslur til foreldris í 25–49% starfi og foreldris í 50–100% starfi skuli aldrei nema lægri fjárhæð en nemur tiltekinni fjárhæð. Kveðið skal nánar á um fjárhæðir í reglugerð og skulu þær fylgja því ári sem barn er fætt, frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur. Tilgangur með því að tryggja foreldrum í fæðingarorlofi lágmarksgreiðslur meðan á fæðingarorlofi stendur er að styðja við tekjulága foreldra og börn þeirra í þeim aðstæðum.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að Fæðingarorlofssjóður greiði foreldri sem verið hefur í fæðingarorlofi eftir á fyrir undanfarandi almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Fæðingarorlofssjóði er þó heimilt að framkvæma greiðslur síðasta virkan dag þess almanaksmánaðar eða hluta úr almanaksmánuði sem foreldri var í fæðingarorlofi. Þá er Fæðingarorlofssjóði heimilt að greiða foreldri sem verið hefur í fæðingarorlofi þrjá almanaksmánuði aftur í tímann frá því að umsókn skv. 20. gr. barst.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að ef annað foreldrið nýtir hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs skv. 15. og/eða 19. gr. og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks skv. 34. og/eða 36. gr. sem því nemur.
    Í 6. mgr. er kveðið á um áframhaldandi uppsöfnun lífeyrisréttinda meðan á fæðingarorlofi stendur. Þannig greiði foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslum í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 11,5%. Foreldri er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð en Fæðingarorlofssjóður greiðir ekki framlag á móti. Heimilt er að semja um auknar greiðslur í kjarasamningum.

Um 25. gr.

    Í gildandi lögum er kveðið á um skerðingarákvæði laganna í 10. og 11. mgr. 13. gr., leiðréttingar á greiðslum og viðurlög í 2. mgr. 15. gr. a, eftirlit í 15. gr. b, sektir í 31. gr. a og ósamrýmanleg réttindi í 33. gr. Við framkvæmd skerðingarákvæðanna hefur meðal annars komið upp túlkunarvandi sem birtist í fjölmörgum úrskurðum þáverandi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála og álitum umboðsmanns Alþingis, til að mynda í málum nr. 7022/2012, 7775/2013 og 7790/2013. Þá hefur verið talin ástæða til að skýra nánar heimildir Vinnumálastofnunar til eftirlits, leiðréttinga á greiðslum, viðurlaga, endurmats réttinda og ósamrýmanlegra réttinda, sbr. 53. gr. frumvarpsins. Er því lagt til að þessi ákvæði verði skoðuð með heildstæðum hætti í því skyni að gera þau eins skýr og ótvíræð og kostur er. Þannig er lagt til að kveðið verði á um skerðingarákvæði í 25. og 39. gr. Kveðið verði á um eftirlit, leiðréttingar á greiðslum, viðurlög og endurmat réttinda í IX. kafla í 40.–42. gr. Sektarákvæði 31. gr. a gildandi laga verði fellt á brott og loks verði kveðið á um ósamrýmanleg réttindi í 53. gr.
    Í 1. mgr. er kveðið með skýrum hætti á um það að réttur foreldris, sbr. 3.–5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs skv. III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Hafi foreldri ekki lagt niður launuð störf á því tímabili sem það ákvað að nýta til fæðingarorlofs skulu einungis þær greiðslur frá vinnuveitanda sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald, fyrir sama tímabil, koma til skerðingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði séu þær hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 4. mgr. 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr. Þannig er gert ráð fyrir því að foreldri geti fengið þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta greiddan frá vinnuveitanda samhliða fæðingarorlofi. Þá skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris sem tilheyra ekki því tímabili sem foreldri er í fæðingarorlofi ekki koma til skerðingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Loks er áfram gert ráð fyrir því að heimilt verði að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris.
    Í samræmi við framangreint er tekið mið af því að foreldri geti hafið fæðingarorlof á fæðingardegi barns eða síðar og heimild foreldra til að hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Þannig er gert ráð fyrir að foreldrar geti hafið fæðingarorlof á tilteknum degi, svo sem fæðingardegi barns, sem getur verið annar dagur en fyrsti dagur almanaksmánaðar. Þannig gerir frumvarpið ráð fyrir að foreldrar geti verið í fæðingarorlofi hluta úr almanaksmánuði, svo sem frá 20. janúar til 15. apríl. Sé um 100% fæðingarorlof að ræða í framangreindu dæmi er litið svo á að foreldri sé í fæðingarorlofi frá og með 20. janúar og að greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði hefjist við það tímamark en fram að því hafi foreldri gegnt starfi sínu á vinnustað og eigi þar með rétt á launum fyrir störf sín fyrir tímabilið fyrir 20. janúar. Á sama hátt er litið svo á að foreldrið sé í 100% fæðingarorlofi fram til 15. apríl en gegni síðan starfi sínu eftir það tímamark. Ljóst er að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eiga eingöngu að bæta þann tekjumissi sem foreldrar verða fyrir er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri bættan tekjumissinn, sem Fæðingarorlofssjóði er ætlað að bæta, frá vinnuveitanda þykir eðlilegt að þær greiðslur komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Er því eins og áður segir miðað við að greiðslur sem eru hærri en sem nemur mismun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris á mánuði á viðmiðunartímabili komi til frádráttar fæðingarorlofsgreiðslum. Er þar með tekið tillit til þess að vinnuveitandi geti bætt starfsmanni sínum upp þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóður bætir ekki. Er því við það miðað í frumvarpinu að foreldrar geti hagað störfum sínum líkt og þeir kjósa utan þess tíma er þeir eru skráðir í fæðingarorlof án þess að það hafi áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Þannig á það ekki að koma að sök, í tengslum við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabil þar sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs, þótt foreldri hafi unnið fleiri yfirvinnutíma en á viðmiðunartímabili eða tekið að sér aukavaktir rétt fyrir töku fæðingarorlofs enda oftast eðlilegar ástæður sem liggja þar að baki, svo sem vinna við stór verkefni eða breytt vaktafyrirkomulag. Í því sambandi skiptir það jafnframt ekki máli þótt vinnan hafi farið fram innan sama almanaksmánaðar og fæðingarorlof hófst svo lengi sem vinnan fór fram áður en orlofið hófst.
    Með framangreindu er undirstrikað mikilvægi þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið eigi ekki að standa að baki því að foreldrar nýti rétt sinn til fæðingarorlofs heldur sé það samvera foreldra og barna á tilteknu tímabili sem stefnt sé að. Í því sambandi má nefna að rík áhersla er lögð á það í frumvarpinu að foreldrar leggi sannanlega niður launuð störf á þeim tíma er þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs, hvort sem er að fullu eða samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Hafi foreldri fengið óvenju háar greiðslur frá vinnuveitanda fyrir eða eftir fæðingarorlof eða meðan á fæðingarorlofi stendur miðað við tekjur á viðmiðunartímabili 1.– 3. mgr. 23. gr. þannig að ætla megi að þær hafi að hluta eða öllu leyti verið ætlaðar fyrir tímabil sem foreldri var skráð í fæðingarorlof skal Vinnumálastofnun óska eftir því að foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum fyrir hvaða tímabil umræddar greiðslur hafi verið ætlaðar. Hið sama gildir um óvenju háar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris sem er í fæðingarorlofi samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður Vinnumálastofnun jafnframt heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggur fram í því sambandi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimildir til að greiða fæðingarstyrk skv. 26. eða 27. gr. til foreldra sem eiga rétt til fæðingarorlofs skv. III. og IV. kafla en uppfylla ekki skilyrði 21. gr. Í þessum tilfellum skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun fjárhæðar fæðingarstyrks og meðaltals heildarlauna foreldris koma til frádráttar fæðingarstyrknum. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við tvo almanaksmánuði fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð þegar barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Ástæðan fyrir því skilyrði að tekjur frá vinnuveitanda við þessar aðstæður skuli koma til frádráttar svo að foreldri njóti fæðingarstyrksins er að ekki verður talið sanngjarnt að foreldri hagnist á fæðingarstyrknum enda er tilgangur hans fyrst og fremst að styðja við foreldra er ekki njóta tekna fyrir vinnu utan heimilis. Í einhverjum tilvikum hafa foreldrar á vinnumarkaði sem hafa ekki átt rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi sótt um fæðingarstyrk án þess þó að hafa í hyggju að leggja niður störf. Að öðru leyti gildir ákvæði 1. mgr. eins og við getur átt. Til frekari skýringa á ákvæðinu vísast eftir atvikum til skýringa við 1. mgr.

Um 26. gr.

    Lagt er til að ákvæðið taki talsverðum breytingum frá 18. gr. gildandi laga. Þannig er lagt til að 18. gr. gildandi laga verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði aðgengilegri en nú er. Í 26. gr. verði þannig kveðið á um réttindi foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli til fæðingarstyrks við fæðingu, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Lögð er til sú breyting að í 1. mgr. verði kveðið á um lengingu fæðingarstyrks í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar og réttinum verði skipt jafnt milli foreldra í samræmi við markmiðsákvæði laganna. Þannig muni hvort foreldri um sig eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í sex mánuði en foreldri verði heimilt að framselja einn mánuð af rétti sínum til hins foreldrisins. Einnig þykir rétt að fram komi að réttindi foreldra barna sem hafa fæðst, verið frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2021 haldast óbreytt líkt og kveðið er á um í gildandi lögum.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig til fæðingarstyrks, ef foreldri er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli, verði sex mánuðir. Þannig er lagt til að fallið verði frá því fyrirkomulagi sem er í gildandi lögum um að tiltekinn fjöldi mánaða sé sameiginlegur sem foreldrar geti skipt sín á milli eða annað þeirra tekið í heild. Þrátt fyrir framangreint er gert ráð fyrir að foreldri verði heimilt að framselja einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Þá er gert ráð fyrir að réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingu barns stofnist við fæðingu barnsins og falli niður er barnið nær 24 mánaða aldri.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur stofnist réttur til fæðingarstyrks þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Jafnframt er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar barnið kemur inn á heimilið og um er að ræða reynslutíma áður en til frumættleiðingar eða varanlegs fósturs getur komið verði heimilt að miða við að réttur til fæðingarstyrks stofnist við upphaf þess tíma, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Enn fremur er gert ráð fyrir að þurfi foreldrar að sækja barnið til annars lands verði heimilt að miða við að réttur til fæðingarstyrks stofnist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist frumættleitt. Þannig mælir ákvæðið fyrir um þrjú tímamörk sem heimilt er að miða við hvað varðar stofnun réttarins auk þess sem gert er ráð fyrir að réttur til greiðslu fæðingarstyrks falli niður 24 mánuðum eftir að barnið kemur inn á heimilið. Til frekari skýringa vísast til athugasemda við 4. mgr. 8. gr. eins og við getur átt.

Um 27. gr.

    Lagt er til að 19. gr. gildandi laga taki talsverðum breytingum. Þannig er lagt til að 19. gr. verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði aðgengilegri en nú er. Í 27. gr. verði þannig kveðið á um réttindi foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks við fæðingu, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Lögð er til sú breyting að í 1. mgr. verði kveðið á um lengingu fæðingarstyrks í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar og réttinum verði skipt jafnt milli foreldra í samræmi við markmiðsákvæði laganna. Þannig muni hvort foreldri um sig eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í sex mánuði en foreldri verði heimilt að framselja einn mánuð af rétti sínum til hins foreldrisins. Jafnframt þykir rétt að fram komi að réttindi foreldra barna sem hafa fæðst, verið frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2021 haldast óbreytt líkt og kveðið er á um í gildandi lögum.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig til fæðingarstyrks, ef foreldrið er í fullu námi, verði sex mánuðir. Þannig er lagt til að fallið verði frá því fyrirkomulagi sem er í gildandi lögum um að tiltekinn fjöldi mánaða sé sameiginlegur sem foreldrar geti skipt sín á milli eða annað þeirra tekið í heild. Þrátt fyrir framangreint er gert ráð fyrir að foreldri verði heimilt að framselja einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Þá er gert ráð fyrir að réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar barns stofnist við fæðingu barnsins og falli niður er barnið nær 24 mánaða aldri. Áfram er gert ráð fyrir að skilyrði fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi sé að foreldri hafi staðist kröfur um námsframvindu á námstímanum. Er þá átt við að foreldri hafi staðist kröfur um námsframvindu sem nemur fullu námi skv. 1. tölul. 4. gr. Er því ekki gert ráð fyrir að unnt sé að leggja saman einingafjölda milli skólaanna þannig að samtals hafi foreldri náð einingafjölda á tveimur önnum sem nemur fullu námi á einni önn við hlutaðeigandi skóla. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Þá er heimilt að líta til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Til frekari skýringa á ákvæðinu vísast til greinargerðar og skýringa við 8. gr. eins og við getur átt.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur stofnist réttur til fæðingarstyrks þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Jafnframt er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar barnið kemur inn á heimilið og um er að ræða reynslutíma áður en til frumættleiðingar eða varanlegs fósturs getur komið verði heimilt að miða við að réttur til fæðingarstyrks stofnist við upphaf þess tíma, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Enn fremur er gert ráð fyrir að þurfi foreldrar að sækja barnið til annars lands verði heimilt að miða við að réttur til fæðingarstyrks stofnist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist frumættleitt. Þannig mælir ákvæðið fyrir um þrjú tímamörk sem heimilt er að miða við hvað varðar stofnun réttarins auk þess sem gert er ráð fyrir að réttur til greiðslu fæðingarstyrks falli niður 24 mánuðum eftir að barnið kemur inn á heimilið. Til frekari skýringa vísast til skýringa við 4. mgr. 8. gr. eins og við getur átt.

Um 28. gr.

    Lagt er til að tilvikum sem leitt geta til undanþágu frá skilyrði um fullt nám verði safnað saman í 28. gr. Er það gert til að gera þessi tilvik aðgengilegri en verið hefur hingað til en þau hafa verið hluti af 19. gr. gildandi laga ásamt fleiri efnisatriðum sem þar koma fram og verið í reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 27. gr. þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 21. gr., fram til þess að námið hófst. Undanþágan er því frá tímalengd námsins en ekki skilyrðinu um að foreldri hafi verið í fullu námi og staðist kröfur um námsframvindu og/eða ástundun náms á þeim tíma sem það stóð yfir. Þá er með orðunum „samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 21. gr., fram til þess að námið hófst“ átt við sömu aðstæður og skilyrði og koma fram í 2. tölul. 4. gr. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða aðstæður á innlendum vinnumarkaði eða aðstæður á vinnumarkaði samkvæmt þeim samningum sem kveðið er á um í 2. mgr. 21. gr.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild til að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar það hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 27. gr. og hefur síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Undanþágan er því frá tímalengd námsins líkt og í 1. mgr. en ekki skilyrðinu um að foreldri hafi verið í fullu námi og staðist kröfur um námsframvindu og/eða ástundun náms á þeim tíma sem það stóð yfir. Þá er með orðunum „samfellt á innlendum vinnumarkaði“ átt við sömu aðstæður og skilyrði og koma fram í 2. tölul. 4. gr.
    Í 3. mgr. kemur fram að heimilt er að taka tillit til aðstæðna foreldris sem fætt hefur barn og greiða því fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 27. gr. þó að það uppfylli ekki skilyrði um að hafa staðist kröfur um námsframvindu og/eða ástundun enda hafi það ekki getað stundað nám sitt á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna sem tengjast meðgöngunni. Er þá átt við sömu heilsufarsástæður og kveðið er á um í 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. og vísast þangað um frekari skýringar. Er gert ráð fyrir að foreldri sem fætt hefur barn leggi fram frumrit vottorðs sérfræðilæknis sem hefur annast það á meðgöngu til staðfestingar á heilsufari þess og er því ekki nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Auk þess er lagt til að foreldrið skuli leggja fram staðfestingu frá skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám á þeim tíma. Í vottorði sérfræðilæknis skal gera grein fyrir niðurstöðu læknisskoðunar og hvort heilsufarsástæður foreldris sem fætt hefur barn sem tengjast meðgöngunni hafi haft áhrif á námsárangur og/eða ástundun náms þess og þá á hvaða tímabili. Ekki er nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun skal meta hvort skilyrði um undanþágu vegna heilsufarsástæðna sem tengjast meðgöngunni sé uppfyllt og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.
    Í 4. mgr. kemur fram að heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 27. gr. þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka tiltekinni prófgráðu. Foreldri skal jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 1. mgr. 27. gr. Þannig kveður undanþágan einvörðungu á um það að foreldri geti verið í minna en 75% námi á síðustu önn í námi ef viðkomandi er að ljúka tiltekinni prófgráðu. Að öðru leyti gilda skilyrði 1. mgr. 27. gr. svo sem um tímalengd í námi og að foreldri hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma sem námið stendur yfir. Dæmi um það er t.d. ef foreldri á eftir 50% af námi á síðustu önn í námi væri ekki heimilt að veita undanþágu frá námsframvindu á þeirri önn þar sem námið er minna en 75% nám. Áður var þetta ákvæði að finna í 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Um 29. gr.

    Lagt er til að ákvæðum um lögheimilisskilyrði í 18. og 19. gr. gildandi laga verði safnað saman í 29. gr. Er það gert til að gera umfjöllun um þessi tilvik aðgengilegri en verið hefur.
    Í 1. mgr. er kveðið á um það skilyrði fyrir rétti til fæðingarstyrks að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og hafi átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir þann tíma. Í ákvæði þessu er átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018. Skilyrðið um lögheimili hér á landi er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til almannatrygginga, þ.e. að einstaklingur teljist tryggður hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.
    Í 2. mgr. er það nýmæli lagt til að heimilt verði að greiða fæðingarstyrk til foreldra sem fengið hafa dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 80/2016, þrátt fyrir að þeir hafi ekki átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur enda sé skemmri tími en tólf mánuðir liðinn frá veitingu fyrrnefnds dvalarleyfis og önnur skilyrði frumvarpsins uppfyllt. Er þetta lagt til þar sem rök þykja ekki standa til annars en að heimilt sé að greiða umræddum einstaklingum fæðingarstyrk í ljósi þess að þeim hefur verið veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli framangreindra ástæðna, enda séu önnur skilyrði frumvarpsins fyrir greiðslu fæðingarstyrks uppfyllt. Í þessu sambandi ber jafnframt að geta þess að umræddir einstaklingar eru sjúkratryggðir hér á landi á landi, sbr. 16. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
    Í 3. mgr. kemur fram að heimilt sé að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði 1. mgr. hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Hið sama skal gilda um foreldra sem dveljast erlendis en stunda fjarnám við íslenska skóla. Er þar með verið að tryggja foreldrum í fullu námi við íslenska skóla sama rétt til fæðingarstyrks hvort sem þeir stunda námið með hefðbundnum hætti eða eru í fjarnámi en fjarnám er þess eðlis að nemendur geta stundað það frá öðrum ríkjum. Þrátt fyrir undanþágu frá lögheimilisskilyrði 1. mgr. skal foreldri uppfylla önnur skilyrði um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi.
    Í 4. mgr. kemur fram að í tilvikum þegar foreldri hafi átt lögheimili hér á landi í a.m.k. einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetutímabila þess foreldris í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu þegar metið er hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 1. mgr. enda hafi foreldri verið tryggt á sama tíma í því ríki og ekki hefur liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis var lokið. Foreldri skal staðfesta búsetu- og tryggingatímabil í öðru ríki með vottorðum sem tryggingastofnanir í þeim ríkjum sem flutt er frá gefa út á grundvelli hlutaðeigandi samnings.

Um 30. gr.

    Lagt er til að tilvikum sem leitt geta til lengingar, framsals eða tilfærslu á sjálfstæðum rétti foreldris til fæðingarstyrks skv. 1. mgr. 26. gr. eða 1. mgr. 27. gr. umfram þann mánuð sem gert er ráð fyrir að foreldrar geti framselt til hins foreldrisins verði safnað saman í 30. gr. Er það gert til að gera þessi tilvik aðgengilegri en verið hefur hingað til en þau hafa verið hluti af 18. og 19. gr. gildandi laga ásamt fleiri efnisatriðum sem þar koma fram. Þá er lagt til að í nýjum málsgreinum verði kveðið á um tiltekin tilvik þar sem annað foreldrið getur átt rétt á fæðingarstyrk í allt að tólf mánuði. Þannig er lagt til í 2. mgr. að foreldri sem fætt hefur barn skuli öðlast sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði þegar foreldrið er ekki fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt. Er í því sambandi við það miðað að foreldri sé ekki fært um að feðra barn sitt á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu barnsins, m.a. samkvæmt barnalögum, nr. 76/2003, fyrir sýslumanni eða dómara. Þá er lagt til í 3. mgr. að í þeim tilvikum þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skuli sá réttur, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 26. gr. eða 1. mgr. 27. gr., og foreldrið hefur ekki þegar nýtt sér, færast yfir til hins foreldrisins. Er í þessu sambandi miðað við að nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili geti meðal annars verið á grundvelli laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, sbr. 37. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Í 7. mgr. er lagt til að í þeim tilvikum þegar annað foreldrið á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks innan fæðingarorlofskerfisins né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki skuli hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði. Í 8. mgr. er lagt til að í þeim tilvikum þegar fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þar sem foreldrið hefur ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds, svo sem sýslumanns, eða dómstóla, sé Vinnumálastofnun heimilt að færa rétt forsjárlausa foreldrisins til fæðingarstyrks, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 26. gr. eða 1. mgr. 27. gr., yfir til forsjárforeldrisins, enda sæki forsjárforeldrið um tilfærsluna til Vinnumálastofnunar. Loks er lagt til að 8. mgr. 18. gr. og 15. mgr. 19. gr. gildandi laga verði skipt upp í 5. og 6. mgr. ákvæðisins til að gera efnisatriðin sem þar er kveðið á um aðgengilegri.
    Efnisatriði sem fram koma í 30. gr. eiga það sammerkt að ákveðinn ómöguleiki er á samvistum barns við báða foreldra eða barnið á einfaldlega aðeins eitt foreldri. Við þessar aðstæður þykir rétt að þau börn sem eiga í hlut eigi þannig möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og önnur börn. Lögð er áhersla á að þær aðstæður sem lýst er í ákvæðinu verði með þeim hætti að markmiðum frumvarpsins verði ekki stefnt í hættu.
    Í 1. mgr. er kveðið á um tilvik þar sem barn á sannarlega aðeins eitt foreldri við fæðingu, frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur og lagt til að í slíkum tilvikum öðlist foreldrið tólf mánaða rétt til fæðingarstyrks þar sem ekki hefur stofnast réttur til fæðingarstyrks fyrir tvo foreldra. Er þannig komið til móts við þau börn sem eiga aðeins eitt foreldri við fæðingu, frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og þau börn sem eiga tvo foreldra.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar foreldri sem fætt hefur barn er ekki fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt skuli foreldrið öðlast sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði. Er í því sambandi við það miðað að foreldri sé ekki fært um að feðra barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu barnsins, m.a. samkvæmt barnalögum, nr. 76/2003, fyrir sýslumanni eða dómara. Líkja má slíkum aðstæðum við aðstæður skv. 1. mgr. þar sem einungis eitt foreldri er til staðar og barninu því ómögulegt að fá notið samvista við föður sinn þar sem ekki er vitað hver hann er. Almennt er litið svo á að sé foreldri sem fætt hefur barn fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt skuli foreldrið gera það. Reynist foreldrið ekki fært um að uppfylla þá skyldu er komið til móts við þau börn sem í hlut eiga þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og þau börn sem eiga þess kost að fá notið samvista við báða foreldra. Við framkvæmd ákvæðisins skal gætt að því markmiði frumvarpsins að barn fái notið samvista við báða foreldra og meginreglu 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. um skiptingu réttinda milli foreldra. Þá skal gætt að ákvæðum barnalaga, nr. 76/2003, sem mæla meðal annars fyrir um rétt barns til að þekkja báða foreldra sína og að foreldri sem fætt hefur barn sé skylt að feðra barn sitt þegar feðrunarreglur laganna eiga ekki við.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu barns sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur skuli sá réttur, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 26. gr. eða 1. mgr. 27. gr., og foreldrið hefur ekki þegar nýtt sér, færast yfir til hins foreldrisins. Er miðað við að þetta eigi við um foreldra hvort sem þeir fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Getur verið um að ræða tilfærslu réttinda að hluta eða öllu leyti, enda kann foreldrið að hafa nýtt sér hluta af fæðingarstyrk sínum áður en kom til nálgunarbanns og/eða brottvísunar af heimili. Er í þessu sambandi miðað við að nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili geti meðal annars verið á grundvelli laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, sbr. 37. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Enn fremur er gert ráð fyrir að lögreglustjóri eða dómstólar staðfesti að foreldri muni sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili fram til þess tíma að barn nær 24 mánaða aldri eða á fyrstu 24 mánuðum eftir barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur. Er þannig komið til móts við þau börn sem eiga í hlut þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og önnur börn. Við tilfærslu réttinda verði réttur þess foreldris sem sætir nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér innan fæðingarorlofskerfisins.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar annað foreldrið andast eftir fæðingu barns og áður en barnið hefur náð 24 mánaða aldri skuli réttur til fæðingarstyrks, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 26. gr. eða 1. mgr. 27. gr., og hið látna foreldri hefur ekki þegar nýtt sér, færast yfir til eftirlifandi foreldris. Gert er ráð fyrir að þegar um frumættleiðingu eða varanlegt fóstur barns er að ræða skuli miða við 24 mánuði eftir að barnið kom inn á heimilið. Er miðað við að þetta eigi við hvort sem hið látna foreldri hefur farið með forsjá barnsins, hefur farið sameiginlega með forsjá barnsins með eftirlifandi foreldrinu eða hefur ekki farið með forsjá barnsins við andlátið. Getur verið um að ræða tilfærslu réttinda að hluta eða öllu leyti, enda kann foreldrið sem andaðist að hafa nýtt sér hluta af rétti sínum til fæðingarstyrks áður en kom til andlátsins. Er þannig komið til móts við þau börn sem í hlut eiga þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og þau börn sem eiga tvo foreldra. Við tilfærslu réttinda er gert ráð fyrir að réttur þess foreldris sem andast verði að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér innan fæðingarorlofskerfisins.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar foreldri er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur sé foreldrinu heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarstyrks, sem það hefur ekki þegar nýtt sér, til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Er miðað við að þetta eigi við um foreldra hvort sem þeir fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Getur verið um að ræða framsal réttinda að hluta eða öllu leyti, enda kann foreldrið að hafa nýtt sér hluta af rétti sínum til fæðingarstyrks áður en sjúkdómur greinist eða slys verður eða það sér fram á að geta einungis nýtt sér hluta þess vegna fyrrgreindra aðstæðna. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að veita undanþágu frá samþykki foreldris um framsal réttinda þegar foreldri er ófært samkvæmt mati sérfræðilæknis um að veita samþykki sitt um framsal vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss. Ástand foreldris vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss sem leiðir til þess að foreldrið er ófært um að annast barnið á fyrrgreindu tímabili eða veita samþykki sitt um framsal réttinda sinna skal staðfest með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið og skal þá miðað við hvort foreldri er meðal annars ófært að annast um frumþarfir barns síns á umræddu tímabili, svo sem að mata, þrífa og klæða barnið án aðstoðar. Er þannig komið til móts við þau börn sem í hlut eiga þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og þau börn sem eiga þess kost að fá notið samvista við báða foreldra. Skila skal frumriti vottorðsins undirrituðu til Vinnumálastofnunar og er því ekki nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Við tilfærslu réttinda verði réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér innan fæðingarorlofskerfisins.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar foreldri er ófært vegna afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur sé foreldrinu heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarstyrks sem það hefur ekki þegar nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Er miðað við að þetta eigi við um foreldra hvort sem þeir fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Getur verið um að ræða framsal réttinda að hluta eða öllu leyti, enda kann foreldrið að hafa nýtt sér hluta af rétti sínum til fæðingarstyrks áður en kom til afplánunar refsivistar. Enn fremur er gert ráð fyrir að fangelsismálayfirvöld staðfesti að foreldri afpláni refsivist á fyrrgreindu tímabili. Er þannig komið til móts við þau börn sem í hlut eiga þannig að þau eigi möguleika á að njóta samvista við foreldri í jafn langan tíma og þau börn sem eiga þess kost að fá notið samvista við báða foreldra. Við tilfærslu réttinda er gert ráð fyrir að réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn verði að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér innan fæðingarorlofskerfisins.
    Í 7. mgr. er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar foreldri á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks innan fæðingarorlofskerfisins né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki skuli hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði vegna fæðingar barns, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Jafnframt er gert ráð fyrir að eigi foreldri sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki geti hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði að frádregnum þeim rétti sem fyrrnefnda foreldrið á í öðru ríki vegna fæðingar barns, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Er því ekki gert ráð fyrir að ákvæði þetta eigi við í þeim tilvikum þegar foreldri á sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki að hluta eða öllu leyti.
    Í 8. mgr. er lagt til að í þeim tilvikum þegar fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þar sem foreldrið hefur ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds, svo sem sýslumanns, eða dómstóla, sé Vinnumálastofnun heimilt að færa rétt forsjárlausa foreldrisins til fæðingarstyrks, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 26. gr. eða 1. mgr. 27. gr., og foreldrið hefur ekki þegar nýtt sér yfir til forsjárforeldrisins, enda sæki forsjárforeldrið um tilfærsluna til Vinnumálastofnunar. Lagt er til að hið sama eigi við liggi fyrir niðurstaða lögmælts stjórnvalds eða dómstóla um að umgengi forsjárlausa foreldrisins við barnið skuli vera verulega takmörkuð en í því sambandi er meðal annars átt við að umgengi forsjárlausa foreldrisins skuli fara fram undir eftirliti. Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun skuli meta hvort skilyrði fyrir tilfærslu réttinda séu uppfyllt. Í því sambandi er gert ráð fyrir að stofnuninni verði heimilt að óska eftir nauðsynlegum gögnum frá forsjárforeldrinu eða öðrum aðilum við matið. Við tilfærslu réttinda er gert ráð fyrir að réttur forsjárlausa foreldrisins verði að þeim réttindum sem forsjárforeldrið hefur áunnið sér innan fæðingarorlofskerfisins. Er þannig gert ráð fyrir að einstætt foreldri, sem fer með fulla og óskipta forsjá og umönnun barns á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sem og á fyrstu 24 mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur, án aðkomu forsjárlausa foreldrisins samkvæmt niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla, geti átt möguleika á rétti til fæðingarstyrks í allt að tólf mánuði. Þá kemur fram að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um skilyrði fyrir tilfærslu réttinda samkvæmt ákvæðinu.

Um 31. gr.

    Ákvæðið byggist á 7. og 8. mgr. 18. gr. og 19. gr. gildandi laga. Lagt er til að orðalagi verði breytt til að gera ákvæðið skýrara en er í gildandi lögum. Breytingarnar eiga ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna.
    Lagt er til að í 1. mgr. verði kveðið á um þá meginreglu að réttur foreldris til fæðingarstyrks verði bundinn við að foreldri fari sjálft með forsjá barnsins eða fari sameiginlega með forsjá þess ásamt hinu foreldrinu þann tíma sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarstyrks. Í þessu sambandi er litið til þess að mikilvægt þykir að gott samkomulag ríki milli foreldra og að skilningur sé á gildi sameiginlegra ákvarðana er varða barnið, einkum í ljósi þess hve barnið er ungt á þeim tíma sem foreldra geta nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks og því verulega háð foreldrum sínum. Þessar forsendur eru meðal annars hafðar til hliðsjónar þegar samningur um sameiginlega forsjá er staðfestur hjá yfirvöldum auk þess sem litið er til hags og þarfa barnsins. Ekki er gert ráð fyrir að maki eða sambúðarmaki kynforeldris eigi rétt á fæðingarstyrk heldur er eingöngu átt við kynforeldra þegar um fæðingu barns er að ræða, frumættleiðanda barns eða fósturforeldri barns.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir undantekningu frá 1. mgr. þannig að foreldri sem ekki fer með forsjá barnsins geti samt sem áður nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks að því gefnu að fyrir liggi samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem forsjárlausa foreldrisins nýtir rétt sinn til fæðingarstyrks. Slíkt samþykki leiðir af inntaki forsjár samkvæmt barnalögum, nr. 76/2003, en forsjá barns felur í sér rétt og skyldu forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins en þó ber foreldri, sem fer eitt með forsjá barns síns, að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema umgengni sé andstæð hag og þörfum barns að mati lögmælts stjórnvalds. Gert er ráð fyrir að hið sama gildi þegar fyrir liggur samningur milli forsjárlausa foreldrisins og forsjárforeldrisins, sem sýslumaður hefur staðfest, um umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem forsjárlausa foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs eða þegar fyrir liggur niðurstaða lögmælts stjórnvalds eða dómstóla um umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarstyrks. Í gildandi lögum er kveðið á um að forsjárlaust foreldri eigi rétt til fæðingarstyrks liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer má forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengi við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir. Í ljósi markmiðs frumvarpsins þess efnis að tryggja barni samvistir við báða foreldra þykir mikilvægt að kveðið verði á um að forsjárlaust foreldri geti einnig nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks ef fyrir liggur niðurstaða lögmælts stjórnvalds, svo sem sýslumanns, eða dómstóla um umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem foreldrið nýtir rétt sinn til fæðingarstyrks. Er það jafnframt í samræmi við 46. gr. barnalaga, nr. 76/2003, þar sem kveðið er á um að barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, sé það ekki andstætt hagsmunum þess að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.

Um 32. gr.

    Ákvæðið byggst á 20. gr. gildandi laga. Lagt er til í 1. mgr. að réttur til fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar eða fósturláts falli niður 24 mánuðum eftir andvanafæðingu eða fósturlát. Um breytingu er að ræða frá gildandi lögum sem gera kröfu til þess að rétturinn sé nýttur í beinu framhaldi af andvanafæðingu eða fósturláti og þá í þrjá mánuði þar á eftir í tilviki andvanafæðingar en í tvo mánuði þar á eftir í tilviki fósturláts. Þá er lagt til að réttur til fæðingarstyrks vegna fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu verði lengdur og honum breytt úr sameiginlegum rétti foreldra í sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig. Þannig muni hvort foreldri um sig öðlast sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í tvo mánuði í staðinn fyrir sameiginlegan rétt í tvo mánuði líkt og kveðið er á um í gildandi lögum. Reynslan hefur sýnt að foreldrar sem fætt hafa barn hafa nær eingöngu nýtt sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks við fósturlát og þá hefur þótt vera of mikill munur á réttindum foreldra eftir því hvort um andvanafæðingu eða fósturlát hefur verið að ræða en meðgöngulengd í þessum tilvikum getur verið nánast sú sama. Loks er lagt til að skýrt verði kveðið á um í 2. mgr. að tímalengd meðgöngu skv. 1. mgr. skuli staðfest með vottorði sérfræðilæknis og að í vottorðinu skuli jafnframt koma fram upplýsingar um foreldra séu foreldrar ekki í hjúskap eða sambúð við andvanafæðingu eða fósturlát skv. 1. mgr. en um nýmæli er að ræða frá gildandi lögum
    Í 1. mgr. er kveðið á um rétt foreldra til fæðingarstyrks við andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu og fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Gert er ráð fyrir að í þessum tilvikum eigi umsóknarfrestur skv. 37. gr. ekki við. Lagt er til að foreldrar eigi hvort um sig sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði eftir andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu en í tvo mánuði hafi verið um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og er þessi tími hugsaður sem svigrúm fyrir foreldra til að jafna sig. Þá er gert ráð fyrir að foreldrar hafi 24 mánuði til að nýta réttinn frá þeim degi að andvanafæðing eða fósturlát á sér stað. Um breytingu er að ræða frá gildandi lögum sem er talin samrýmast betur markmiðum ákvæðisins þess efnis að gefa foreldrum svigrúm til að jafna sig eftir andvanafæðingu eða fósturlát.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að tímalengd meðgöngu skv. 1. mgr. skuli staðfest með vottorði sérfræðilæknis en gert er ráð fyrir að frumriti vottorðsins sé skilað undirrituðu til Vinnumálastofnunar og er því ekki nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Þá er gert ráð fyrir að hafi foreldrar ekki verið í hjúskap eða sambúð við andvanafæðingu eða fósturlát skv. 1. mgr. skuli í vottorði sérfræðilæknisins jafnframt koma fram upplýsingar um foreldra. Er ástæðan sú að í þessum tilvikum er foreldrastaða ekki skráð hjá Þjóðskrá Íslands og hefur því sú leið verið farin við framkvæmd laganna að staðfesta foreldrastöðu með vottorði sérfræðilæknis. Rétt þykir að lögfesta framkvæmdina.

Um 33. gr.

    Lagt er til að nýtt ákvæði verði lögfest sem kveði á um tilhögun fæðingarstyrks. Í gildandi lögum hefur slíkt ákvæði ekki verið að finna og hafa foreldrar því ekki haft tök á að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks á fleiri en eitt tímabil nema í þeim tilvikum þegar foreldri hefur verið komið á innlendan vinnumarkað fyrir fæðingardag barns.
    Í 1. mgr. kemur fram að foreldri er heimilt að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil. Þá getur hvert og eitt greiðslutímabil varað skemmst hálfan mánuð í senn. Til nánari skýringar má nefna að foreldri getur t.d. ákveðið að greiðslutímabil fæðingarstyrks verði janúar, hálfur júlí, september, hálfur nóvember o.s.frv.

Um 34. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 21. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. kemur fram að foreldrar eigi sameiginlegan rétt til lengri fæðingarstyrks í þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt sem fæðist lifandi eða fæðist andvana eftir 22 vikna meðgöngu. Skilyrði er því að a.m.k. eitt barn fæðist lifandi svo réttur stofnist til lengingar fæðingarstyrks samkvæmt ákvæðinu. Hafi bæði börnin eða öll fæðst andvana skapast ekki réttur til lengingar fæðingarstyrks samkvæmt ákvæði þessu heldur eingöngu sjálfstæður réttur foreldris til fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu skv. 32. gr.
    Í 2. mgr. kemur fram að foreldrar eigi sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt sem þeir hafa frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur á sama tíma.

Um 35. gr.

    Lagt er til að 22. gr. gildandi laga verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði aðgengilegri en nú er. Í 35. gr. verði þannig kveðið á um veikindi foreldris í tengslum við fæðingu. Lögð er til sú breyting að í 1. mgr. verði skýrt kveðið á um að veikindi foreldris sem fæðir barn í tengslum við fæðingu sem veitt geta lengri rétt til fæðingarstyrks verði að vera rakin til fæðingarinnar.
    Í 1. mgr. kemur fram að heimilt er að lengja fæðingarstyrk foreldris sem fætt hefur barn um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda foreldrisins sem eru í tengslum við fæðingu barnsins. Er við það miðað að veikindi foreldris sem fætt hefur barn verði rakin til fæðingarinnar og að foreldrið hafi af þeim völdum verið ófært um að annast barn sitt þann tíma sem fæðingarstyrkur var greiddur að mati sérfræðilæknis. Önnur veikindi foreldris sem fætt hefur barn veita þannig ekki rétt til lengingar á rétti foreldris til fæðingarstyrks.
    Í 2. mgr. kemur fram að rökstyðja skuli þörf á lengingu á rétti foreldris til fæðingarstyrks með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast hefur foreldrið. Með því er átt við að sérfræðilæknir rökstyðji þörf fyrir lengingu á rétti foreldris til fæðingarstyrks með vísan til niðurstöðu læknisskoðunar og mats á því hvort veikindi foreldris sem fætt hefur barn verði rakin til fæðingarinnar og að foreldrið hafi af þeim völdum verið ófært um að annast barn sitt þann tíma sem fæðingarstyrkur var greiddur skv. 1. mgr. Þá skal foreldri sem fætt hefur barn skila frumriti vottorðsins undirrituðu til Vinnumálastofnunar og er því ekki nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging fæðingarstyrks er nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Um 36. gr.

    Lagt er til að 22. gr. gildandi laga verði skipt upp í fleiri ákvæði til að gera efnisatriði þess aðgengilegri en nú er. Í 36. gr. verði þannig kveðið á um veikindi barns eða fötlun. Ákvæðið er samhljóða 1. mgr. 22. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að heimilt verði að lengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika hjá barni eða alvarlega fötlun barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Ekki er gert ráð fyrir að litið verði til þess hvort barn þurfi að dvelja á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu þegar kemur til álita að lengja rétt foreldra til fæðingarstyrks vegna alvarlegs sjúkleika hjá barni eða alvarlegrar fötlunar barns. Í stað þess er gert ráð fyrir að eingöngu verði litið til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt er við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barn dvelji í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Hafi barn dvalist á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu þess og síðan útskrifast við góða heilsu er heimilt að lengja rétt foreldra til fæðingarstyrks um þann tíma hafi sjúkrahúsdvölin varað lengur en sjö daga. Oft kemur alvarleg fötlun eða sjúkdómar, svo sem hjartagallar, ekki fram þegar við fæðingu barns en getur hins vegar komið fram á fyrstu dögunum í lífi barns. Þá skal miðað við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og er þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra sambærilega sjúkdóma, enda þótt veikindin geti verið þrálát. Þykir eðlilegt að líta til þeirra tilvika er eiga undir lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, þegar meta skal hvort einstök tilvik geti fallið undir ákvæði þetta enda stefnt að því að tryggja foreldrum þessara barna heildstæðan rétt að þessu leyti.
    Í 2. mgr. kemur fram að rökstyðja skuli þörf á lengingu á rétti foreldris til fæðingarstyrks með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast hefur barnið. Með því er átt við að sérfræðilæknir rökstyðji þörf fyrir lengingu á rétti foreldra til fæðingarstyrks með vísan til niðurstöðu læknisskoðunar og mats á því hvort um alvarlegan sjúkleika hjá barni eða alvarlega fötlun barns sé að ræða sem krefst nánari umönnunar foreldris skv. 1. mgr. Þá skal foreldri skila frumriti vottorðsins undirrituðu til Vinnumálastofnunar og er því ekki nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging á rétti foreldris til fæðingarstyrks sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Um 37. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 23. gr. gildandi laga. Lagt er til að umsóknarferli til Vinnumálastofnunar verði einfaldað eins og kostur er og umsóknir og breytingar verði á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafrænar, en í gildandi lögum er kveðið á um að ferlið skuli vera skriflegt á þar til gerðum eyðublöðum.
    Í 1. mgr. kemur fram að foreldri skuli sækja um fæðingarstyrk til Vinnumálastofnunar þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Verður það að teljast hæfilegur tími fyrir Vinnumálastofnun til að afgreiða umsóknina.
    Í 2. mgr. kemur fram að umsókn til Vinnumálastofnunar skuli vera á því formi sem stofnunin ákveður, svo sem rafræn. Er það gert til þess að einfalda umsóknarferlið eins og kostur er. Í umsókn foreldris skal tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag greiðslu fæðingarstyrks til foreldris og lengd greiðslutímabils. Ástæða þessa er einkum sú að ljóst verði hvert tímabil fæðingarstyrks skuli vera svo unnt sé að hafa eftirlit með þeim greiðslum.

Um 38. gr.

    Lagt er til að þeim atriðum er varða fyrirkomulag á greiðslu fæðingarstyrks verði safnað saman í eitt ákvæði sem verði að 38. gr. Í 2. mgr. er lagt til að heimildir um greiðslur fæðingarstyrks sem kveðið hefur verið á um í 14. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks verði lögfestar. Þá er lögð til sú breyting að kveðið verði á um með skýrum hætti að ekki sé heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk lengra aftur í tímann en þrjá almanaksmánuði á undan þeim almanaksmánuði sem umsókn um greiðslur skv. 1. mgr. 37. gr. barst. Ástæða breytingarinnar er sú að gildandi lög kveða á um að greitt sé eftir á fyrir undanfarandi mánuð og hefur því ekki verið heimilt að greiða lengra aftur í tímann þegar umsókn hefur borist of seint. Breytingin leiðir því til aukins svigrúms að greiða lengra aftur í tímann en þó ekki lengra en þrjá almanaksmánuði frá því að umsókn barst.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að greiðslufjárhæðir fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli skuli nema tiltekinni fjárhæð. Kveðið skal nánar á um fjárhæðir í reglugerð og skulu þær fylgja því ári sem barn er fætt, frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur
    Í 2. mgr. kemur fram að greiðslur fæðingarstyrks til foreldris skuli inntar af hendi eftir á fyrir undanfarandi almanaksmánuð eða hluta úr almanaksmánuði, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Þó er heimilt að framkvæma greiðslur síðasta virkan dag þess almanaksmánaðar í stað fyrsta virka dags mánaðarins á eftir. Þá er heimilt að hefja greiðslur fæðingarstyrks í fæðingarmánuði barns, í þeim almanaksmánuði sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur eða í þeim almanaksmánuði sem ferð foreldra hefst til að sækja barn til annars lands óháð þeim mánaðardegi sem barn fæðist, kemur inn á heimilið eða ferð hefst til að sækja barnið. Loks er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk þrjá almanaksmánuði aftur í tímann frá því umsókn skv. 1. mgr. 37. gr. barst.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ef annað foreldrið nýtir hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarstyrks skv. 34. og/eða 36. gr. og nýtur greiðslna fæðingarstyrks styttist greiðslutímabil úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs skv. 15. og/eða 19. gr. sem því nemur.

Um 39. gr.

    Lagt er til að nýtt ákvæði verði lögfest sem taki til skerðinga á greiðslum fæðingarstyrkja í þeim tilvikum þegar foreldri á ekki rétt til fæðingarorlofs en í 2. mgr. 24. gr. verði kveðið á um þau tilvik þegar foreldri á rétt á fæðingarorlofi og greiðslu fæðingarstyrks.
    Í ákvæðinu kemur fram að réttur foreldris til fæðingarstyrks sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarstyrks skv. VI. eða VII. kafla. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris sem eru hærri en sem nemur helmingi þeirrar styrkfjárhæðar sem foreldri hefur fengið greidda skv. 1. og 2. mgr. 38. gr. skulu koma til frádráttar styrknum. Þannig má hugsa sér dæmi þar sem styrkfjárhæð er 150.000 kr. á mánuði og mætti foreldri því fá 75.000 kr. á sama tíma frá vinnuveitanda án þess að kæmi til skerðingar á greiðslu fæðingarstyrksins en eftir það myndi skerðingin hefjast króna á móti krónu. Þá kemur fram í ákvæðinu að um framkvæmd þess skuli að öðru leyti fara skv. 1. mgr. 25. gr. eins og við getur átt.

Um 40. gr.

    Í 15. gr. b gildandi laga er kveðið á um að Vinnumálastofnun skuli annast eftirlit með framkvæmd laganna en þó sé ráðherra heimilt að ákveða annað fyrirkomulag í reglugerð. Jafnframt er kveðið á um að skattyfirvöld skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru eftirliti með framkvæmd laganna enda hafi umsækjendur um fæðingarorlof verið upplýstir um það. Ekki hefur þótt koma nægjanlega skýrt fram í lögunum hvernig eftirliti Vinnumálastofnunar skuli háttað auk þess sem talið hefur verið æskilegt að kveðið sé á um í lögunum hvaða upplýsingar það eru sem Vinnumálastofnun getur aflað hjá skattyfirvöldum og hvernig með þær skuli fara, enda um persónuupplýsingar að ræða og því mikilvægt að eingöngu sé um að ræða upplýsingar sem nauðsynlegar eru eftirlitinu. Er lagt til að úr því verði bætt í 40. gr. Að öðru leyti vísast til skýringa við 25. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er lagt til að skýrt verði kveðið á um að Vinnumálastofnun skuli annast eftirlit með framkvæmd laganna, þ.m.t. með því hvort foreldri hafi fengið hærri greiðslur í fæðingarorlofi á grundvelli laganna en því bar samkvæmt ákvæðum laganna.
    Í 2. mgr. er lagt til að skýrt verði kveðið á um að skattyfirvöld skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits Vinnumálastofnunar með framkvæmd laganna enda hafi viðkomandi foreldri verið upplýst um slíka ráðstöfun.
    Í 3. mgr. er lagt til að skýrt verði kveðið á um að Vinnumálastofnun sé heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal þeirra sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg við framkvæmd eftirlits Vinnumálastofnunar skv. 1. mgr.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að Vinnumálastofnun sé heimilt að samkeyra upplýsingar sem stofnunin hefur undir höndum við upplýsingar frá skattyfirvöldum skv. 2. mgr. Lagt er til að slíkar samkeyrslur skuli gerðar án þess að upplýsingar séu sendar á milli stofnana umfram það sem nauðsynlegt er til skoðunar á fyrir fram skilgreindu athugunarefni. Er þetta í samræmi við þá heimild sem Vinnumálastofnun hefur í lögum um atvinnuréttindi útlendinga hvað varðar meðferð persónuupplýsinga, sbr. 25. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
    Í 5. mgr. er lagt til að skýrt verði kveðið á um að ef ætla megi að foreldri hafi fengið hærri greiðslur í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk á grundvelli frumvarpsins en því bar skuli Vinnumálastofnun óska eftir að viðkomandi foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum að svo hafi ekki verið. Þá er lagt til að Vinnumálastofnun verði veitt heimild að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggur fram í þessu sambandi eftir því sem við á.
    Í 6. mgr. er lagt til að ráðherra verði veitt heimild að setja nánari reglur í reglugerð um framkvæmd eftirlits Vinnumálastofnunar skv. 40. gr.

Um 41. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 15. gr. a gildandi laga. Lagt er til að gerðar verði smávægilegar breytingar á 2. mgr. til að gera leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk skýrari. Að öðru leyti vísast til skýringa við 25. gr. frumvarpsins hvað varðar skerðingar á greiðslum.
    Í 1. mgr. kemur fram að Vinnumálastofnun skuli leiðrétta greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Fæðingarorlofssjóði er enda einungis ætlað að bæta tiltekinn hluta þeirra tekna sem foreldri raunverulega hafði samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðrétting samkvæmt ákvæði þessu geti átt sér stað nokkru eftir að greiðslur hafi farið fram eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir.
    Í 2. mgr. er lagt til að skýrt komi fram að þegar fyrir liggur að foreldri hafi fengið hærri greiðslur en því bar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins miðað við álagningu skattyfirvalda, vegna þess viðmiðunartímabils sem greiðslur til viðkomandi foreldris hafa miðast við þegar meðaltal heildarlauna foreldris hefur verið reiknað út á grundvelli 23. gr. eða fæðingarstyrkur verið ákvarðaður skv. VI. kafla, eða af öðrum ástæðum, svo sem vegna skerðingarákvæða 25. og 39. gr., ósamrýmanlegra réttinda skv. 53. gr. eða annarra tilvika þar sem af einhverjum ástæðum hefur verið ofgreitt úr sjóðnum eða fæðingarstyrkur verið greiddur, beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem um ræðir að viðbættu 15% álagi. Enn fremur þykir mikilvægt að árétta að álagið sem lagt sé á fyrrnefnda endurgreiðslu foreldra sé ekki bundið við að foreldri hafi af ásettu ráði ætlað sér að fá hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum laganna heldur nægi gáleysi foreldris hvað það varðar. Má í því sambandi nefna þau tilvik þegar foreldri upplýsir ekki Fæðingarorlofssjóð um breyttar aðstæður sínar sem gætu hugsanlega leitt til þess að viðkomandi foreldri fái greiddar hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því ber samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild til að skuldajafna ofgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða ofgreiddum fæðingarstyrk við útgreiðslur skattkerfisins, svo sem endurgreiðslu frá skattyfirvöldum hafi greiðsla foreldris verið meiri en sem nemur endanlega álögðum sköttum, barnabótum og vaxtabótum. Þannig hefur Vinnumálastofnun heimild til að leita aðstoðar innheimtumanns ríkissjóðs um skuldajöfnun við inneign foreldris hjá hinu opinbera.
    Í 4. mgr. kemur fram að í þeim tilvikum þegar skuldajöfnun verði ekki komið við og foreldri sinnir ekki áskorun um endurgreiðslu fer um innheimtu kröfunnar skv. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Er ráðherra enn fremur gert heimilt að fela sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.
    Í 5. mgr. kemur fram að í þeim tilvikum þegar foreldri hefur fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða mál hefur verið kært til úrskurðarnefndar velferðarmála sem kemst að þeirri niðurstöðu að foreldri hefði átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en áður verið synjað eða reiknaðar lægri greiðslur beri Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldris ásamt vöxtum. Greiða skal vexti fyrir það tímabil frá því að féð hefði átt að vera greitt úr Fæðingarorlofssjóði til þess tíma að greiðslan var innt af hendi. Þá skulu vextirnir verði jafnháir þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður að skuli greiða af skaðabótakröfum og kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Hafi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verið vangreiddar vegna skorts á upplýsingum skulu vextir falla niður. Á þetta einkum við um þau tilvik er foreldrar hafa ekki staðið skil við skattyfirvöld á upplýsingum um tekjur sem og þegar mál dragast í meðförum úrskurðarnefndar velferðarmála af ástæðum sem rekja má til kæranda sjálfs.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða ofgreidds fæðingarstyrks skv. 2. mgr. séu aðfararhæfar. Er það gert til að einfalda innheimtu ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða ofgreidds fæðingarstyrks í því skyni að draga úr innheimtukostnaði sem fellur í hlut foreldris láti það hjá líða að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiðslu, sbr. framangreint. Komi hins vegar til þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða ofgreidds fæðingarstyrks er kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála er gert ráð fyrir að stjórnsýslukæran fresti aðför, sbr. 5. mgr. 7. gr. Aftur á móti er gert ráð fyrir að úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um endurkröfu ofgreiðslna séu aðfararhæfir, sbr. 4. mgr. 7. gr., sem einfaldar innheimtuferlið.

Um 42. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um með skýrum hætti að í kjölfar endurgreiðslu foreldris á ofgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða á ofgreiddum fæðingarstyrk skuli Vinnumálastofnun endurmeta hvort viðkomandi foreldri hafi fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks. Um nýtt ákvæði er að ræða sem er ætlað að stuðla að samvistum barns við báða foreldra en í gildandi lögum hefur ekki verið að finna heimild til að endurmeta rétt foreldris til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í kjölfar endurgreiðslu þess. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 25. gr.
    Í ákvæðinu kemur fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum og endurgreiði Fæðingarorlofssjóði þá upphæð sem ofgreidd var ber Vinnumálastofnun að endurmeta hvort viðkomandi foreldri hafi fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks og upplýsa foreldrið um niðurstöðu endurmatsins. Í því sambandi skal haft í huga að frumvarpinu er ætlað að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína á tilteknu tímabili sem og rétt foreldra til fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks. Auk þess skal gætt að því hvort samkomulag sé við vinnuveitanda um tilhögun fæðingarorlofs og að réttur til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks hafi ekki fallið niður samkvæmt reglum frumvarpsins um að foreldri hafi 24 mánuði til að nýta réttinn.

Um 43. gr.

    Lagt til það nýmæli að heimilt verði að greiða sérstakan styrk sé barnshafandi foreldri nauðsynlegt að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barns. Tilgangur ákvæðisins er einkum að jafna þann aðstöðumun sem er á milli barnshafandi foreldra sem búa fjarri fæðingarþjónustu og barnshafandi foreldra sem búa nær fæðingarþjónustu. Í því sambandi má nefna að barnshafandi foreldrar sem búa fjarri fæðingarþjónustu þurfa oft og tíðum að bera aukinn kostnað vegna dvalar fjarri heimili fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Almennt er miðað við að meðgöngulengd barnshafandi foreldris sé 40 vikur. Búi barnshafandi foreldri fjarri fæðingarþjónustu getur komið til þess að það sé mat sérfræðilæknis að foreldri sé nauðsynlegt að vera nálægt fæðingarþjónustu í einhverja daga fyrir áætlaðan fæðingardag barns og er því gert ráð fyrir að heimilt verði að greiða dvalarkostnað barnshafandi foreldris fjarri heimili sínu í allt að 14 daga. Þar sem verið er að koma til móts við dvalarkostnað foreldris er ekki gert ráð fyrir að greitt verði fyrir þá sólarhringa sem barnshafandi foreldri dvelur á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun á framangreindu 14 daga tímabili. Lagt er til að styrkfjárhæðin verði sú sama og dagpeningar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands eru á hverjum tíma í tengslum við kostnað vegna gistingar samkvæmt auglýsingu ferðakostnaðarnefndar og umburðarbréf nefndarinnar en talið er að þar komi fram sambærileg viðmið og beri að líta til við þessar aðstæður að því er varðar kostnað vegna gistingar.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að sé barnshafandi foreldri nauðsynlegt að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barns sé heimilt að greiða foreldrinu sérstakan styrk í allt að 14 daga fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Þá er gert ráð fyrir að dvöl barnshafandi foreldris á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun teljist ekki hluti af framangreindu 14 daga tímabili. Jafnframt er gert ráð fyrir að réttur foreldris til styrks falli niður frá og með fæðingardegi barns fæðist barnið fyrir áætlaðan fæðingardag.
    Í 2. mgr. kemur fram að fjárhæð styrks skuli fara eftir sömu reglum og gilda á hverjum tíma um dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands, sbr. auglýsingu ferðakostnaðarnefndar og umburðarbréf nefndarinnar, að því er varðar kostnað vegna gistingar.
    Í 3. mgr. er lagt til að fram komi á hvaða formi umsókn foreldris um styrk skuli vera og hvað skuli fylgja umsókninni. Er tekið fram að umsókn skuli vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafræn eða skrifleg. Þá er gert ráð fyrir að með umsókn um styrk skv. 1. mgr. skuli fylgja vottorð þess sérfræðilæknis sem annast hefur foreldrið þar sem fram komi rökstuðningur hlutaðeigandi sérfræðilæknis fyrir því að viðkomandi foreldri sé nauðsynlegt að hans mati að dvelja fjarri heimili sínu fyrir áætlaðan fæðingardag barns í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins í tiltekinn tíma. Þá skal barnshafandi foreldri skila frumriti vottorðsins undirrituðu til Vinnumálastofnunar og er því ekki nægjanlegt að skila vottorðinu rafrænt til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun skal samkvæmt ákvæðinu leggja mat á rökstuðning sérfræðilæknis og er gert ráð fyrir að stofnuninni verði heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum lækni við matið.
    Í 4. mgr. er lagt til að greiðslur til foreldris skuli inntar af hendi eftir fæðingardag barns. Þá er lagt til að réttur til styrks falli niður sex mánuðum eftir fæðingardag barns hafi umsókn um styrk ekki borist Vinnumálastofnun fyrir þann tíma. Þykir það hæfilegur tími fyrir foreldri til að sækja um styrkinn.

Um 44. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 24. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. kemur fram foreldri eigi rétt á foreldraorlofi í fjóra mánuði til að annast barn sitt í samræmi við ákvæði tilskipunar ráðsins 2010/18/EB, um framkvæmd endurskoðaðs rammasamnings um foreldraorlof sem Evrópusamtök atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE), Samtök evrópskra handverksmanna, lítil og meðalstór fyrirtæki (UEAPME), Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) hafa gert með sér. Réttur foreldris sem fer ekki með forsjá barns er ekki skilyrtur við samþykki þess foreldris sem fer með forsjána á sama hátt og fæðingarorlof.
    Í 2. mgr. er kveðið á um frá hvaða tíma foreldraorlof skv. 1. mgr. stofnast.
    Í 3. mgr. kemur fram að réttur til foreldraorlofs skv. 1. mgr. falli niður er barnið nær átta ára aldri en miðað er við það tímamark í rammasamningnum um foreldraorlof sem var innleiddur með lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Þannig er foreldrum t.d. heimilt að taka foreldraorlof þegar þeir leggja niður störf vegna veikinda barna sinna sem eru yngri en átta ára. Þá gerir ákvæðið foreldrum langveikra barna og alvarlega fatlaðra barna kleift að nýta sér þann hluta foreldraorlofs sem þeir nýttu sér ekki áður en orlofsrétturinn féll niður í tilvikum þegar barn þeirra hefur greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun eftir átta ára aldur en áður en barnið hefur náð 18 ára aldri.
    Í 4. mgr. kemur fram að réttur til foreldraorlofs sé ekki framseljanlegur heldur sé um sjálfstæðan rétt foreldris að ræða.
    Í 5. mgr. kemur fram að foreldraorlofi fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði. Þá er ekki gert ráð fyrir því að foreldri haldi launum meðan á foreldraorlofi stendur. Hins vegar er lögð á það áhersla að samningssamband milli vinnuveitanda og starfsmanns haldist á þeim tíma sem foreldraorlofið stendur yfir. Ekki koma til aðrar greiðslur frá ríki eða sveitarfélögum og á starfsmaður í foreldraorlofi ekki rétt á atvinnuleysisbótum enda ekki í atvinnuleit meðan á foreldraorlofi stendur.

Um 45. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 25. gr. gildandi laga en þó er lagt til að breyta fyrirsögn ákvæðisins úr skipulagi foreldraorlofs í tilhögun foreldraorlofs í samræmi við fyrirsögn 13. gr.
    Í 1. mgr. kemur fram að foreldri skuli eiga rétt á að taka foreldraorlof í einu lagi.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að starfsmanni og vinnuveitanda hans verði heimilt að komast að samkomulagi um hvernig orlofinu skuli háttað á sama hátt og foreldrar geta samið um fyrirkomulag fæðingarorlofs.
    Í 3. mgr. er áréttað að vinnuveitandi skuli leitast við að koma til móts við óskir foreldra um tilhögun foreldraorlofs.
    Í 4. mgr. er kveðið á um takmörkun við lengd foreldraorlofs á tólf mánaða tímabili. Er ákvæðinu ætlað að ná til þeirra tilvika þegar starfsmaður á rétt á lengra foreldraorlofi en fjórum mánuðum vegna þess að hann á fleiri en eitt barn undir átta ára aldri. Getur hann samkvæmt ákvæðinu ekki tekið lengra foreldraorlof en fjóra mánuði á tólf mánaða tímabili nema til komi sérstakt samþykki vinnuveitanda.

Um 46. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 26. gr. gildandi laga. Í 2. mgr. 46. gr. frumvarpsins er lagt til að þegar vinnuveitandi hefur áritað tilkynningu frá starfsmanni um móttökudagsetningu og afhent starfsmanninum hana skuli hann afhenda Vinnumálastofnun afrit hennar. Er það lagt til svo unnt sé að halda utan um nýtingu réttinda foreldra til foreldraorlofs. Í gildandi lögum hafa stjórnvöld enga yfirsýn yfir þann hóp foreldra sem nýtir rétt sinn til töku foreldraorlofs og er mikilvægt að stjórnvöld hafi slíkar upplýsingar til staðar til þess að meta stöðu þessa hóps til framtíðar.
    Í 1. mgr. kemur fram í samræmi við tilskipun ráðsins 2010/18/EB að starfsmaður öðlist rétt til foreldraorlofs eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda án tillits til þess hvort starfsmaður hafi verið ráðinn tímabundið eða ótímabundið.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að starfsmaður skuli tilkynna vinnuveitanda með a.m.k. sex vikna fyrirvara að hann ætli að nýta sér rétt sinn til foreldraorlofs. Þykir sá fyrirvari hæfilegur til þess að vinnuveitandi geti gert nauðsynlegar ráðstafanir, svo sem að ráða staðgengil eða þjálfa annan starfsmann til að sinna þeim verkefnum sem viðkomandi starfsmaður hefur annast meðan á orlofinu stendur. Til að auðvelda sönnun ef upp koma deilur um töku orlofs er talið nauðsynlegt að lögfesta ákveðnar formreglur í samskiptum vinnuveitanda og starfsmanns. Er því tekið fram í ákvæðinu að tilkynning skuli vera skrifleg og að þar skuli koma fram upphafsdagur, lengd og tilhögun orlofs. Einnig er tekið fram að vinnuveitandi skuli árita á tilkynninguna hvaða dag hún er móttekin og afhenda starfsmanni og Vinnumálastofnun síðan afrit hennar.
    Í 3. mgr. er sú skylda lögð á vinnuveitanda að hann skrái töku foreldraorlofs starfsmanns þannig að starfsmaður geti fengið vottorð um fjölda tekinna foreldraorlofsdaga óski hann þess. Þetta verður að teljast nauðsynlegt bæði fyrir vinnuveitanda og starfsmann. Vinnuveitandi þarf að halda utan um þá foreldraorlofsdaga sem starfsmaður hefur tekið í starfi hjá honum þar sem starfsmaður á einungis rétt á fjögurra mánaða foreldraorlofi fyrir hvert barna sinna. Af sömu ástæðum þarf starfsmaður að geta sýnt nýjum vinnuveitanda fram á hversu marga daga hann á eftir af orlofi sínu. Er þetta einkum mikilvægt í ljósi þess að taka foreldraorlofs getur dreifst á átta ára tímabil.

Um 47. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 27. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. er kveðið á um með hvaða hætti vinnuveitanda er heimilt að ákveða breytta tilhögun foreldraorlofs. Er tekið fram að um slíka ákvörðun skuli hafa samráð við starfsmann en vinnuveitanda ber að tilkynna formlega um aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar starfsmanns. Er það gert til að auðvelda sönnun ef upp koma deilur síðar. Þá ber vinnuveitanda að tilgreina skriflega þær ástæður er liggja að baki breyttri tilhögun og ef um frestun er að ræða skal taka fram hve lengi frestunin varir. Í flestum tilvikum verður vinnuveitandi að tilkynna ákveðna dagsetningu hvað þetta varðar en einnig er mögulegt að tilgreina að foreldraorlofi þurfi að fresta þar til ákveðnu verkefni eða álagstíma er lokið, sbr. þó takmarkanir í 3. mgr.
    Í 2. mgr. er skýrt kveðið á um að frestunarheimild skv. 1. mgr. verði eingöngu beitt þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi í rekstri fyrirtækis eða stofnunar sem gera slíkt nauðsynlegt eða óhjákvæmilegt. Taldar eru upp í greininni aðstæður sem teljast munu gildar en sú upptalning er ekki tæmandi. Á það meðal annars við ef álagstími fer í hönd er starfsmaður hugðist taka orlof sitt eða vinnuveitanda hefur ekki lánast að finna hæfan staðgengil ef þess er þörf. Í síðarnefnda tilvikinu verður þó að gera kröfur um að vinnuveitandi hafi reynt í tíma að leita að hæfum starfskrafti. Þegar starfsmaður gegnir lykilhlutverki við stjórnun fyrirtækis getur einnig þurft lengri frest til að mæta tímabundnu brotthvarfi hans en þann sex vikna frest sem krafist er að starfsmaður gefi vinnuveitanda áður en foreldraorlof skal hefjast.
    Í 3. mgr. eru enn fremur lagðar til tímatakmarkanir á heimild vinnuveitanda til að fresta foreldraorlofi. Er þar gert ráð fyrir að frestunin geti aldrei varað lengur en í sex mánuði frá fyrirhuguðum upphafsdegi foreldraorlofs nema til komi samþykki starfsmanns. Ákvæðið ber að skýra með hliðsjón af 3. mgr. 45. gr. þar sem kveðið er á um að vinnuveitandi skuli leitast við að taka tillit til óska starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs. Þykir í þessu samhengi hálft ár hæfilegur hámarkstími til frestunar foreldraorlofs. Má þar benda á að vinnuveitanda ætti að vera kleift að finna hæfan staðgengil á þessum tíma og jafnframt verður að teljast líklegt að álagstími flestra fyrirtækja eða stofnana vari ekki mikið lengur en í hálft ár. Vinnuveitandi hefur þó jafnan heimild í frumvarpinu að ná samkomulagi við starfsmann um lengri frest en til þess verður einnig að líta að hálft ár er mikill breytingatími í lífi ungs barns.
    Í 4. mgr. eru talin upp atvik sem leitt geta til þess að vinnuveitanda verði óheimilt að fresta foreldraorlofi. Eru talin upp tvö tilvik sem orðið geta til þess að frestun verði almennt óheimil, þ.e. ef barn veikist eða foreldraorlof er tekið í beinu framhaldi af fæðingarorlofi. Þykir eðlilegt að takmarka heimild vinnuveitanda til frestunar foreldraorlofs þegar um veikindi barns er að ræða þar sem barn þarfnast þá nærveru foreldris sem og í ljósi tilgangs foreldraorlofs. Á seinna tilvikið sér fyrirmynd úr dönskum lögum um foreldraorlof en margar ástæður geta legið að baki því að foreldri kjósi að taka orlofið í beinu framhaldi af fæðingarorlofi. Má þar helst nefna að erfitt getur verið að fá gæslu fyrir svo ungt barn. Einnig er skýrt tekið fram að ef vinnuveitandi fer ekki að þeim formreglum sem raktar eru í 1. mgr. þessa ákvæðis kann hann að glata rétti til frestunar og að vinnuveitanda er óheimilt að afturkalla þegar veitt samþykki sitt.
    Í 5. mgr. er kveðið á um þau tilvik þegar starfsmaður hefur geymt rétt sinn til foreldraorlofs fram á áttunda aldursár barns síns. Til að fyrirbyggja að frestun af hálfu vinnuveitanda leiði til þess að rétturinn glatist er tekið fram að frestun við þessar aðstæður leiði til lengingar orlofsréttar um eitt ár, þ.e. til þess tíma þegar barnið verður níu ára gamalt.

Um 48. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 28. gr. gildandi laga.
    Því er ætlað að vernda starfsmann gegn því að glata þeim rétti sem hann hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði rammasamningsins um foreldraorlof sem var innleiddur með lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.

Um 49. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 29. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. er tekinn af vafi um að ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda haldist óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi. Í þessu sambandi má benda á ákvæði 14. gr. þar sem kveðið er á um að starfstengd réttindi haldist á þessu tímabili.
    Í 2. mgr. eru einnig tekin af öll tvímæli um rétt starfsmanns til að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- og foreldraorlofi. Í því felst þó ekki takmörkun á réttindum fyrirtækis eða stofnunar til að gera almennar rekstrarbreytingar sem kunna að hafa áhrif á stöðu starfsmannsins á svipaðan hátt og þær hafa áhrif á störf annarra starfsmanna. Slíkar breytingar á starfi starfsmannsins skulu ekki hafa áhrif á launakjör hans til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði rammasamnings um foreldraorlof.

Um 50. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 30. gr. gildandi laga.
    Lögð er áhersla á að vernda starfsmenn sem lagt hafa fram skriflega tilkynningu um að þeir ætli að nýta sér rétt til töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða eru í fæðingar- eða foreldraorlofi gegn uppsögn af hálfu vinnuveitanda. Ákveði vinnuveitandi að segja upp starfsmanni sem svo er ástatt um ber honum að tilgreina ástæður fyrir uppsögninni og rökstyðja þær skriflega. Slíkt ákvæði er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að það hafi neikvæðar afleiðingar fyrir starfsmann að nýta sér rétt sinn samkvæmt frumvarpinu. Sömu skilyrði gilda um uppsagnir barnshafandi foreldra og foreldra sem nýlega hafa fætt barn en foreldri telst nýlega hafa fætt barn þegar barnið er 14 vikna eða yngra. Samsvarandi ákvæði er í 10. gr. tilskipunar ráðsins 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega fætt börn eða hafa börn á brjósti.

Um 51. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 31. gr. gildandi laga.
    Kveðið er á um að komi vinnuveitandi í veg fyrir að foreldri njóti þeirra réttinda sem það á rétt á samkvæmt frumvarpi þessu getur vinnuveitandi orðið skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Á þetta sérstaklega við bregðist vinnuveitandi þeirri skyldu að tryggja að fyrra starf starfsmanns eða sambærilegt starf í samræmi við ráðningarsamning standi honum til boða er hann snýr aftur til starfa að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sama gildir einnig segi hann starfsmanni upp störfum sem lagt hefur fram skriflega tilkynningu um að hann ætli að nýta sér rétt til töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi án þess að málefnalegar ástæður liggi þar að baki.

Um 52. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 32. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. er með skýrum hætti kveðið á um að réttur foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs eða fæðingarstyrks falli niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs.
    Í 2. mgr. er lagt til að kynforeldrar skv. 1. mgr. eigi sameiginlegan rétt til töku fæðingarorlofs í allt að tvo mánuði eftir fæðingu barns og sama gildir um rétt kynforeldra til greiðslu fæðingarstyrks.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að foreldrar geti hvort um sig nýtt þann rétt sem þeir eiga til greiðslna innan kerfisins, hvort sem um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk, nýti þeir sameiginlegan rétt foreldra skv. 2. mgr. Jafnframt er gert ráð fyrir að réttur þess foreldris sem nýtir sameiginlegan rétt foreldra skv. 2. mgr., hvort sem um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk, stytti rétt hins foreldrisins samkvæmt ákvæðinu sem því nemur, óháð því hvort það foreldri á rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk.

Um 53. gr.

    Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæðinu frá 33. gr. gildandi laga. Þannig eru lagðar til þrjár nýjar málsgreinar sem verði að 1., 4. og 5. mgr. Auk þess er lagt til að 4. mgr. 33. gr. gildandi laga verði skipt upp í tvær málsgreinar sem verði að 7. og 8. mgr. og þær skýrðar nánar en verið hefur í gildandi lögum. Þannig verði gert skýrara en áður hvað telst til ósamrýmanlegra réttinda á sama tímabili og foreldri ætlar að nýta sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Er því lagt til að tekið verði fram hvaða greiðslur úr öðrum greiðslukerfum samrýmist ekki greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða útgreiðslu fæðingarstyrks. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 25. gr. hvað varðar skerðingar á greiðslum.
    Í 1. mgr. er lagt til að skýrt verði kveðið á um að foreldri geti einungis fengið greiddan fæðingarstyrk eða greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði með einu barni á hverju tímabili. Talið er mikilvægt að hverju barni fylgi réttur til fæðingarorlofs og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða greiðsla fæðingarstyrks sem skarist ekki á við sama rétt með öðru barni.
    Í 2. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar geti ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks, greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða foreldraorlofs.
    Í 3. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, eða endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, geti ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
    Í 4. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur greiðslna sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags geti ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
    Í 5. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns geti ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
    Í 6. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur greiðslna samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna geti ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
    Í 7. mgr. kemur fram að foreldri sem nýtur orlofslauna geti ekki nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á sama tímabili og þær greiðslur eiga við um.
    Í 8. mgr. kemur fram að foreldri geti ekki nýtt rétt til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á sama tíma og það nýtur greiðslna vegna starfsloka, þar með talið orlofslauna. Er þetta lagt til þar sem foreldrar geta ekki haldið launum sínum á sama tímabili og þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs en greiðslur vegna starfsloka, þar með talið orlofslaun, miðast að öllu jöfnu við tiltekið tímabil. Er í því sambandi jafnframt gert ráð fyrir að fái foreldri greidd orlofslaun vegna starfsloka á sama tíma og það fái fæðingarstyrk eða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skuli foreldrið tilkynna Vinnumálastofnun um umrædd orlofslaun þegar í stað sem og fyrir hvaða tímabil orlofslaunin séu ætluð og sé þá við það miðað að það verði fyrir lok næsta orlofstímabils þar á eftir, sbr. lög um orlof, nr. 30/1987. Eigi foreldri þá ekki rétt á fæðingarstyrk eða greiðslum úr Fæðingarorlofsjóði fyrir sama tímabil og er þá litið svo á að fæðingarlof foreldrisins frestist um þann tíma sé því ekki lokið og geti foreldrið sótt um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks því til samræmis. Í þessu sambandi er þó engu að síður gert ráð fyrir að foreldri sem fætt hefur barn skuli vera í fæðingarorlofi fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns, sbr. 3. mgr. 8. gr., og frestast fæðingarorlof foreldrisins þá eftir þann tíma vegna umræddra greiðslna séu þær ætlaðar fyrir sama tímabil og foreldrið hefur áður áformað að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Að öðru leyti, svo sem hvað varðar aðrar greiðslur vegna starfsloka en orlofslaun, gilda skerðingarákvæði 25. og 39. gr. eftir því sem við getur átt.
    Í 9. mgr. er kveðið á um að greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegs fósturs skuli koma til frádráttar greiðslum foreldris úr Fæðingarorlofssjóði eða greiðslu fæðingarstyrks. Hafi foreldri verið búsett erlendis og öðlast þar rétt til greiðslna í tengslum við fæðingu, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skal fylgja með umsókn til Vinnumálastofnunar gögn frá viðkomandi stjórnvaldi í því ríki sem staðfestir hvort foreldri muni fá greiðslur vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns varanlegs fósturs. Njóti foreldri greiðslna í öðru ríki skal jafnframt staðfesta fjárhæðir og greiðslutímabil.

Um 54. gr.

    Lagt er til að sameina ákvæði 7. mgr. 13. gr., 5. mgr. 18. gr. og 5. gr. 19. gr. gildandi laga í nýtt ákvæði.
    Með ákvæðinu er tryggt að fjárhæðir greiðslna til foreldris úr Fæðingarorlofssjóði skv. 1 og 3. mgr. 24. gr. og greiðslna fæðingarstyrks skv. 1. mgr. 38. gr. komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þrátt fyrir framangreint er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðum á grundvelli 1. og 3. mgr. 24. gr. og á grundvelli 1. mgr. 38. gr. til hækkunar um hver áramót ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þá er gert ráð fyrir að komi til breytinga á fjárhæðum á grundvelli ákvæðisins skuli ráðherra setja reglugerð þar sem fjárhæðunum er breytt. Ekki er um breytingar að ræða frá gildandi lögum hvað varðar það fyrirkomulag að breyta fjárhæðum í framangreindum tilvikum með reglugerðum sem ráðherra setur.

Um 55. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 33. gr. a gildandi laga.
    Skýrt er kveðið á um að óheimilt er að gera fjárnám í greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk sem foreldri kann að eiga rétt á samkvæmt frumvarpinu og hafa ekki verið greiddar til foreldris. Ástæðan er sú að um er að ræða greiðslur sem eru ætlaðar til framfærslu foreldris og þeirra sem hann er framfærsluskyldur við yfir tiltekinn tíma sem ókominn er. Þá er jafnframt lagt til að óheimilt sé að taka sömu greiðslur til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda.

Um 56. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 34. gr. gildandi laga.
    Einkum er vísað til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og ESB-gerða á sviði almannatrygginga og félagsmála sem taka ber upp í landsrétt EES-ríkjanna skv. 7. gr. EES-samningsins. Er því með ákvæði þessu verið að tryggja að framkvæmd laganna, verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, verði í samræmi við ákvæði reglugerðanna, sem og annarra gerða á sviði almannatrygginga og félagsmála sem hafa orðið eða verða hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 57. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 35. gr. og 13. mgr. 13. gr. gildandi laga en lagt til að þær verði sameinaðar í 57. gr.
    Í ákvæðinu er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd fyrirmæla frumvarpsins. Markmiðið með slíkri heimild er að kveðið verði skýrar á um réttinn til fæðingar- og foreldraorlofs auk réttarins til greiðslna í fæðingarorlofi og til fæðingarstyrks ef nauðsyn ber til við framkvæmd laganna. Þá er ráðherra heimilt að kveða nánar á um fjárhæðir greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og fæðingarstyrks í reglugerð samkvæmt fyrirmælum frumvarpsins.

Um 58. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2021 og eigi við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Jafnframt er gert ráð fyrir að frá sama tíma falli brott gildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða.

Um 59. gr.

    Ákvæðið kveður á um breytingu á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, og lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995.
    Með lögum nr. 74/2008, um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, var felld brott sú heimild sem kveðið var á um í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna um að vinnuveitandi annist greiðslur í fæðingarorlofi samkvæmt samkomulagi við Fæðingarorlofssjóð sem hann fékk síðan endurgreiddar úr sjóðnum. Heimildin hafði aldrei verið nýtt enda talið eðlilegra að Fæðingarorlofssjóður annaðist þessar greiðslur beint til foreldra á grundvelli viðeigandi upplýsinga frá skattyfirvöldum. Í 6. tölul. 9. gr. laga um tryggingagjald nr. 113/1990 er hins vegar enn gert ráð fyrir því að vinnuveitandi geti annast þessar greiðslur og fengið endurgreitt úr Fæðingarorlofssjóði. Er lagt til að sú heimild verði felld brott.
    Í 7. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, er kveðið á um að heimilt sé að kæra ákvarðanir framkvæmdaraðila um réttindi foreldra langveikra barna og alvarlega fatlaðra barna sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála. Jafnframt er kveðið á um að um málsmeðferð skuli fara samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála og 6. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þar sem kveðið er á um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála í lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála, nr. 85/2015, þykir ekki ástæða til að áfram verði einnig vísað til 6. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof í 7. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, og er því lagt til að tilvísunin verði felld brott.
    Í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, er vísað til tiltekinna ákvæða í gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Hér er lagt til að vísað verði til sambærilegra ákvæða í frumvarpi þessu enda gert ráð fyrir að númer ákvæða í gildandi lögum taki breytingum verði frumvarp þetta að lögum. Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í frumvarpi þessu er þó gert ráð fyrir að 11., 29. og 30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, eigi við vegna foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2021.
    Í 1. mgr. 13. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, er kveðið á um að alþingismaður eigi rétt á fæðingar- og foreldraorlofi og að um lengd þess og greiðslur meðan það vari fari samkvæmt lögum nr. 95/2000. Hér er lagt til að í stað þess að vísað sé til númers gildandi laga um fæðingar- og foreldraorlof í 1. mgr. 13. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað verði eingöngu vísað til heitis laganna.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Lagt er til að réttur foreldra til fæðingar- eða foreldraorlofs sem stofnast hefur vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir gildistöku frumvarpsins fari samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Er því jafnframt gert ráð fyrir að lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, gildi um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2021 og falla undir ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, sbr. 3. tölul. 59. gr.