Ferill 342. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 416  —  342. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. tölul. 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins ,,almenningsheilla“ kemur: almannaheilla.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eftirtalin starfsemi telst til almannaheilla samkvæmt töluliðnum:
                  a.      mannúðar- og líknarstarfsemi,
                  b.      æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, þ.m.t. íþróttastarfsemi,
                  c.      starfsemi björgunarsveita, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstakra félagseininga sem starfa undir merkjum samtakanna,
                  d.      vísindaleg rannsóknarstarfsemi,
                  e.      starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða,
                  f.      neytenda- og forvarnarstarfsemi og
                  g.      starfsemi Þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga.

2. gr.

    Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Gjafir og framlög til lögaðila sem hafa með höndum starfsemi til almannaheilla skv. a–g-lið 4. tölul. 4. gr., að lágmarki samtals 10 þús. kr. og allt að hámarki 350 þús. kr. á almanaksári. Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum lið er að lögaðili sem hefur með höndum starfsemi til almannaheilla sé skráður í almannaheillafélagaskrá hjá Skattinum á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag er veitt og upplýsingar um fjárhæð fjárframlags hafi verið mótteknar frá viðtakanda til áritunar á skattframtal. Ákvæði VII. kafla laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019 gilda um skráningu lögaðila í almannaheillafélagaskrá eftir því sem við á. Ráðherra setur með reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

3. gr.

    2. tölul. 31. gr. laganna orðast svo: Einstaka gjafir og framlög til lögaðila sem hafa með höndum starfsemi til almannaheilla skv. a–g-lið 4. tölul. 4. gr., þó ekki yfir 1,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári sem gjöf er afhent. Auk þess skulu gjafir og framlög til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun, svo sem aðgerða í rekstri til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis falla undir töluliðinn, þó ekki yfir 1,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt. Skilyrði frádráttar skv. 1. málsl. er að lögaðili sem hefur með höndum starfsemi til almannaheilla sé skráður í almannaheillafélagaskrá hjá Skattinum á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag er veitt. Ákvæði VII. kafla laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019 gilda um skráningu lögaðila í almannaheillafélagaskrá eftir því sem við á. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið og um framkvæmd hans að öðru leyti.

4. gr.

    Tilvísunin ,,4“ í 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Á eftir orðunum ,,sem og tekjur af þeim“ í 6. mgr. 92. gr. laganna kemur: veittar og mótteknar gjafir eða framlög til starfsemi sem telst til almannaheilla skv. a–g-lið 4. tölul. 4. gr.

II. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996.

6. gr.

    Tilvísunin ,,4“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

7. gr.

    5. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Góðgerðarstarfsemi er undanþegin skattskyldu, enda renni hagnaður af henni að öllu leyti til almannaheilla skv. a–g-lið 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Skilyrði fyrir undanþágu eru að móttakandi hagnaðar sé skráður í almannaheillafélagaskrá Skattsins, að starfsemin sé á ábyrgð og fjárhagslegri áhættu aðila sem hefur með höndum góðgerðarstarfsemi og að hann hafi fengið staðfestingu ríkisskattstjóra um að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Eftirtalin starfsemi telst góðgerðarstarfsemi samkvæmt ákvæðinu:
     1.      basarsala, merkjasala og önnur hliðstæð sala góðgerðarfélaga, þ.m.t. sala í netverslun, enda vari starfsemin ekki lengur en í 5 daga í hverjum mánuði eða í 25 daga sé um árlegan atburð að ræða,
     2.      söfnun og sala verðlítilla notaðra muna, enda sé einungis selt til skattskyldra aðila,
     3.      sala nytjamarkaða á notuðum munum sem seljandi hefur fengið afhenta án endurgjalds,
     4.      sala listaverka, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000.

8. gr.

    Á eftir 11. mgr. 42. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Endurgreiða skal lögaðilum sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir a–g-lið 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 60% þess virðisaukaskatts sem þessir aðilar hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum, eða sérgreindum matshlutum þeirra, sem alfarið eru í eigu þeirra samkvæmt skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þrátt fyrir að skráning í fasteignaskrá Þjóðskrár Ísland sé ekki til staðar er endurgreiðsla heimil ef fyrir liggur fullgildur kaupsamningur um viðkomandi mannvirki, eða sérgreindan matshluta þess og umsækjandi hefur fengið það afhent á grundvelli kaupsamnings.
    Endurgreiðsla samkvæmt ákvæði þessu tekur til mannvirkja sem að yfirgnæfandi hluta eru nýtt í þágu meginstarfsemi umsækjanda samkvæmt samþykktum hans. Endurgreiðsla tekur ekki til íbúðar- og frístundahúsnæðis eða mannvirkja sem einkum eru notuð í atvinnustarfsemi í samkeppni við annan atvinnurekstur. Þá tekur endurgreiðsla ekki til virðisaukaskatts sem telja má til innskatts, sbr. VII. kafla.
    Frekari skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæði þessu eru eftirfarandi:
     1.      Umsækjandi sé skráður í fyrirtækjaskrá og almannaheillafélagaskrá Skattsins og sé hvorki í heild né að hluta í opinberri eigu, þ.e. hvorki opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana né í eigu félags alfarið í þeirra eigu.
     2.      Virðisaukaskattur sem umsókn tekur til sé ekki af kostnaði við aðföng sem varða lögbundnar skyldur opinberra aðila, svo sem lögmælt verkefni ríkis, sveitarfélaga og/eða félaga eða stofnana alfarið í þeirra eigu vegna byggingar mannvirkis.
     3.      Samanlögð fjárhæð endurgreidds virðisaukaskatts og styrks frá opinberum aðilum vegna framkvæmdar sé ekki hærri en heildarfjárhæð vinnu við framkvæmdir.
     4.      Umsækjandi hagi bókhaldi sínu þannig að unnt sé að hafa eftirlit með því að virðisaukaskattur verði leiðréttur ef breyting verður á forsendum fyrir endurgreiðslu skv. 15. mgr.
     5.      Umsækjandi sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda. Leggja skal fram staðfestingu á skuldastöðu við opinbera aðila og lífeyrissjóði.
    Verði breyting á forsendum endurgreiðslu innan tíu ára frá því framkvæmd fór fram, svo sem ef viðkomandi mannvirki er selt eða tekið til annarrar notkunar en varðar meginstarfsemi umsækjanda samkvæmt samþykktum hans, skal umsækjandi leiðrétta virðisaukaskatt og endurgreiða ríkissjóði þá fjárhæð sem hann hefur móttekið vegna þess mannvirkis.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013.

9. gr.

    Á eftir 3. mgr. 3. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lögaðilar sem falla undir 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og eru undanþegnir greiðslu tekjuskatts samkvæmt þeim lögum, eru undanþegnir gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum.

V. KAFLI

Breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004.

10. gr.

    5. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Ekki skal greiða erfðafjárskatt af gjöfum og framlögum til lögaðila sem falla undir 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003.

11. gr.

    Á eftir orðinu „landamæri“ í 4. tölul. 2. gr. og 3. gr. laganna kemur: lögaðilar sem falla undir 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021. Þó öðlast 2.,3. gr., 7. gr. og 11. gr. gildi 1. júlí 2021 og 8. gr. öðlast gildi 1. janúar 2022.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld með það að leiðarljósi að styrkja og efla skattalegt umhverfi þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir svonefndan þriðja geira, þ.e. starfsemi sem telst hvorki falla undir einkageirann né opinbera geirann.
    Hinn 1. apríl 2019 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp til að fara yfir skattalegt umhverfi þeirrar starfsemi sem fellur undir þriðja geirann. Starfshópnum var falið að leggja fram tillögur að breytingum, eftir atvikum á reglugerðum og lögum sem giltu um skattlagningu á þeirri starfsemi sem félli undir þriðja geirann eða teldist til menningarstarfsemi. Starfshópnum var gert að hafa að leiðarljósi að skattalegt umhverfi gæti eflt og styrkt það mikilvæga starf sem unnið væri af þúsundum sjálfboðaliða um allt land. Sérstaklega yrði horft til þess að hvetja enn frekar til þess að einstaklingar og lögaðilar legðu starfsemi þriðja geirans lið. Þá var starfshópnum gert að leitast við að auka samræmi í lögum og reglum við sambærilega starfsemi í nágrannaríkjum okkar þar sem það væri til bóta.
    Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra hinn 29. janúar 2020.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld til að efla skattumhverfi þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann. Breytingarnar taka að miklu leyti mið af tillögum starfshóps um skattalegt umhverfi þriðja geirans.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þeir lögaðilar sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Mikil vinna og óeigingjarnt starf, sem oft á tíðum er unnið í sjálfboðavinnu, fer fram hjá hinum ýmsu félögum og stofnunum víðsvegar um landið til hagsbóta fyrir hagsmuni og réttindi tiltekinna hópa eða samfélagið í heild sinni. Þau félög og félagasamtök sem falla undir þriðja geirann og starfa með samfélagsleg markmið að leiðarljósi geta því verið mörg og markmið þeirra misjöfn. Hér undir falla til að mynda mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, björgunarsveitir og félög sem sinna menningu og listum og vísindalegum rannsóknum. Þeir lögaðilar sem þarna falla undir starfa eftir ákveðinni hugmyndafræði þar sem meginmarkmiðið er að vinna að umbótum í þágu almennings og samfélagsins, þ.e. til almannaheilla, oft með forystu í tilteknum málum með velferð eða vernd ýmissa trúarlegra, félagslegra og menningarlegra hópa að leiðarljósi.
    Í fyrrnefndri skýrslu starfshóps sem skilaði tillögum sínum til fjármála- og efnahagsráðherra hinn 29. janúar sl. kemur meðal annars fram að alþjóðlegur samanburður hafi leitt í ljós að víðast hvar í nágrannaríkjum okkar séu skattalegir hvatar vegna starfsemi til almannaheilla víðtækari en hér á landi. Þetta eigi bæði við um skattalega hvata fyrir gefendur vegna fjárframlaga eða annarra framlaga til slíkrar starfsemi og þiggjendur þeirra framlaga sem um ræðir og starfa til almannaheilla. Tækifæri séu því til þess að víkka út skattalega hvata fyrir þá lögaðila sem teljast til almannaheilla. Þá telur starfshópurinn einnig rétt að samhliða því að útvíkka núverandi skattalega hvata sé rétt að leggja til lögfestingu á nýjum slíkum hvötum til að stuðla enn frekar að eflingu þeirrar mikilvægu starfsemi þeirra lögaðila í þriðja geiranum sem starfa til almannaheilla.
    Vegna þessa er nú lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um virðisaukaskatt, lögum um stimpilgjald og lögum um erfðafjárskatt. Nauðsynlegt þykir að auka skattalega hvata fyrir þá lögaðila sem falla undir þriðja geirann og starfa til almannaheilla og skjóta þannig styrkari stoðum undir þá starfsemi sem þar fer fram. Þá þykir rétt að auka jafnframt hvata fyrir gefendur vegna gjafa og framlaga til þeirrar starfsemi. Með auknum skattalegum hvötum bæði fyrir þiggjendur og gefendur mun sú starfsemi til almannaheilla sem fellur undir þriðja geirann eflast og styrkjast sem auðgar það mikilvæga sjálfboðaliðastarf sem fram fer í hinum ýmsu félögum og félagasamtökum um land allt.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Skattalegt umhverfi á Íslandi. Þriðji geirinn og lögaðilar sem starfa til almannaheilla.
    Hugtakið þriðji geirinn er að jafnaði notað sem samheiti þeirra ófjárhagslegu félaga (e. non profit organizations) sem að formi, markmiði og viðfangsefnum eru aðskilin frá hinu opinbera og aðilum í atvinnustarfsemi sem rekin er með hagnaðarvon að leiðarljósi. Hér undir falla til að mynda almenn félög, sjóðir og sjálfseignarstofnanir. Algengt er að skipta félögum í þriðja geiranum í tvo flokka þ.e. annars vegar félög sem stunda starfsemi sem miðar að því að styrkja tiltekna hagsmuni félags eða félagsmanna, svo sem stéttarfélög, fagfélög, húsfélög o.fl. og hins vegar félög sem stunda starfsemi til almannaheilla sem miðar að því að vinna að bættum hag ótiltekins fjölda manna, svo sem mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, björgunarsveitir, félög og félagasamtök sem sinna æskulýðsmálum og trú- og lífsskoðunarfélög. Markmið frumvarpsins er að efla og auka skattalega hvata til þeirra lögaðila í þriðja geiranum sem starfa til almannaheilla og einstaklinga og fyrirtækja sem ákveða að leggja starfseminni lið í formi gjafa eða fjárframlaga.
    Vegna mikilvægi þeirrar starfsemi sem fram fer hjá lögaðilum í þriðja geiranum sem starfa með þjóðfélagslega hagsmuni að leiðarljósi hafa ýmsir skattalegir hvatar verið lögfestir þeim til handa í gegnum tíðina. Í innlendri skattalöggjöf er því að finna ýmsa skattalega hvata fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla, svo sem fyrir mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, björgunarsveitir o.fl., sem leiðir eftir atvikum til undanþágu frá skattskyldu, heimildar til endurgreiðslu skatts eða heimildar til lækkunar á skatti hjá þeim aðilum sem þar falla undir. Sú hugsun sem býr oftast að baki slíkum skattalegum hvötum til starfseminnar er skilningur löggjafans á því mikilvæga samfélagslega hlutverki og óeigingjarna starfi sem þessir lögaðilar sinna. Þá má nefna að þessir aðilar sinna oft á tíðum brýnum samfélagslegum verkefnum sem hið opinbera þyrfti annars að sinna, til að mynda ýmsum velferðarmálum, mannúðar- og líknarmálum og starfsemi sem miðar að því að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. Slík útvistun tiltekinna verkefna leiðir þannig til útgjaldasparnaðar fyrir hið opinbera og aukins ábata fyrir þjóðfélagið. Jafnframt ber að hafa í huga að þessir lögaðilar reka ekki atvinnustarfsemi í skilningi skattalaga, heldur starfsemi með þjóðfélagslegan tilgang og samfélagsleg markmið að leiðarljósi.
    Í þessu sambandi má meðal annars nefna að í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, eru tilgreindir lögaðilar undanþegnir greiðslu tekjuskatts ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Þá er þeim aðilum sem hafa með höndum atvinnurekstur heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum einstaka gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,75% af atvinnurekstrartekjum.
    Eftirfarandi mynd sýnir gjaldfærðan frádrátt atvinnurekstraraðila vegna gjafa og framlaga til almannaheilla og gjaldfærð framlög til stjórnmálaflokka á tekjuárunum 2013–2018. Hækkun á heimiluðu hlutfalli af tekjum við frádrátt einstakra gjafa og framlaga úr 0,5% í 0,75% öðlaðist gildi 1. janúar 2016 og kom til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015. Á myndinni má sjá að breytingin hefur haft töluverð áhrif á milli rekstraráranna 2014 og 2015.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Gjafir og framlög tekjuárin 2013-2018. Fjárhæðir eru í milljónum króna.
Heimild: Skatturinn
.

    Í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, eru einnig til staðar skattalegir hvatar til handa þeim aðilum sem hafa með höndum tiltekna starfsemi með samfélagslega hagsmuni að leiðarljósi. Sem dæmi má nefna að góðgerðarstarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti ef hagnaður af henni rennur alfarið til líknarmála. Þá er jafnframt til staðar heimild í lögum um virðisaukaskatt til að endurgreiða virðisaukaskatt af rannsóknartækjum sem óskattskyldir rannsóknaraðilar kaupa fyrir styrkfé eða fé að gjöf. Auk þess eru heimildir til staðar í lögum um virðisaukaskatt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé og vegna innflutnings eða kaupa björgunarsveita á ökutækjum sem ætluð eru fyrir starfsemi þeirra, allt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Þá má nefna að í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, er heimild til staðar fyrir sveitarstjórnir til að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf. Jafnframt kemur fram í tollalögum, nr. 88/2005, að gjafir til mannúðar og líknarstarfsemi séu tollfrjálsar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og að fella skuli niður, lækka eða endurgreiða toll af björgunarbúnaði og björgunartækjum, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að búnaðurinn verði einungis nýttur í starfsemi björgunarsveita.
    Bifreiðir í eigu björgunarsveita eru auk þess undanþegnar greiðslu vörugjalds af ökutækjum sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita, sbr. lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að viðkomandi ökutæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita. Þá eru björgunarsveitir einnig undanþegnar frá greiðslu olíu- og kílómetragjalds, sbr. lög um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, til nota á bifreiðir í eigu björgunarsveita, og bifreiðagjalds, sbr. lög um bifreiðagjald, nr. 39/1988. Loks má nefna að í lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, kemur fram að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af gjöfum sem falla til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum.

3.2. Önnur lönd.
    Í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eru lögaðilar sem hafa með höndum starfsemi til almannaheilla undanþegnir tekjuskatti líkt og hér á landi. Það grundvallaratriði þarf þó að vera uppfyllt að ekki sé um að ræða hagnaðardrifna atvinnustarfsemi. Hagnaðurinn verður því skilyrðislaust að renna eingöngu til starfseminnar sem slíkrar en ekki til félagsaðila eða eigenda í formi arðgreiðslna. Þegar litið er til skattskyldu tekjuskatts af mótteknum eða fengnum fjármagnstekjum hjá þeim lögaðilum sem starfa til almannaheilla má sjá að Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem undanþiggur ekki slíkar tekjur frá tekjuskatti.
    Annars staðar á Norðurlöndunum eru til staðar heimildir í tekjuskattslöggjöf fyrir atvinnurekstraraðila til að draga framlög til almannaheillafélaga, samtaka og sjóða frá skattskyldum tekjum af atvinnurekstri. Þá eru Danmörk, Finnland og Noregur með í tekjuskattslöggjöf sinni misvíðtækar heimildir sem heimila einstaklingum að draga framlög til slíkrar starfsemi frá tekjum sínum utan atvinnurekstrar. Það sameiginlega skilyrði er þó að finna í Danmörku, Finnland og Noregi að viðkomandi almannaheillafélög, stofnanir eða sjóðir séu fyrir fram samþykktir af þarlendum skattyfirvöldum. Annars staðar á Norðurlöndunum má í löggjöf finna ákvæði sem kveða á um undanþágu góðgerðarstarfsemi frá virðisaukaskatti. Að lokum má nefna að Danmörk, Finnland, Ísland og Noregur eru með undanþágu frá greiðslu erfðafjárskatts í löggjöf sinni. Í Svíþjóð hefur erfðafjárskattur ekki verið við lýði frá árinu 2005.
    Í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa í langan tíma verið í gildi víðtækar skattalegar ívilnanir fyrir félög, stofnanir og sjóði til almannaheilla. Þá er víðtækur frádráttur heimilaður, bæði hjá lögaðilum, einstaklingum og öðrum félagaformum vegna framlaga til slíkrar starfsemi. Skilyrði er að viðkomandi lögaðilar séu skráðir í almannaheillafélagaskrá þarlendra skattyfirvalda.

3.3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:
     Að hugtakið ,,almannaheill“ komi í stað hugtaksins ,,almenningsheill“ og verði skilgreint nánar í lögum um tekjuskatt.
     Að einstaklingum verði heimilt að draga einstaka fjárframlög til þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum, að hámarki 350 þús. kr. á hverju almanaksári, að frekari skilyrðum uppfylltum.
     Að hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekstraraðila vegna einstakra fjárframlaga til almannaheilla og kolefnisjöfnunar verði hækkað úr 0,75% í 1,5% að frekari skilyrðum uppfylltum.
     Að þeir lögaðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum.
     Að þeir lögaðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir staðgreiðslu skatts á tilgreindar fjármagnstekjur.
     Að þeim lögaðilum sem starfa til almannaheilla verði gert kleift að óska eftir 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnulið vegna vinnu á byggingarstað, eða vegna endurbóta eða viðhalds, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
     Að hugtakið góðgerðarstarfsemi verið skilgreint nánar í lögum um virðisaukaskatt. Samhliða er lagt til að dögum sem miðað er við vegna undanþágu góðgerðarstarfsemi frá virðisaukaskatti verði fjölgað og að ákvæðið verði útvíkkað.
     Að þeir aðilar sem starfa til almannaheilla og eru undanþegnir tekjuskatti verði jafnframt undanþegnir gjaldskyldu stimpilgjalds samkvæmt lögum um stimpilgjald.
     Að í lögum um erfðafjárskatt verði kveðið á um að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af gjöfum og framlögum til aðila sem starfa til almannaheilla.

3.3.1. Hugtakið almannaheill.
    Hér á landi eru ekki í gildi sérstök lög um félög til almannaheilla. Frumvörp þess efnis hafa þó þrívegis verið lögð fram, þ.e. upphaflega á 145. löggjafarþingi 2015–2016, þingskjal 1323, 779. mál, á 149. löggjafarþingi 2018–2019, þingskjal 1245, 785. mál og á 150. löggjafarþingi 2019–2020, þingskjal 182, 181. mál, en ekki náð fram að ganga.
    Skilgreining á hugtakinu almannaheill út frá þeim málaflokkum sem þar falla undir hefur lykilþýðingu þegar kemur að skattalegu umhverfi þriðja geirans. Í dag eru þeir lögaðilar undanþegnir skattskyldu sem um ræðir í 2. gr. tekjuskattslaga og hér eiga heimili, ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum, sbr. 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga. Sambærilegt ákvæði var að finna í eldri lögum, sbr. 2. málsl. A–liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það ákvæði tók þó samkvæmt orðan sinni einungis til hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila. Núgildandi ákvæði, sem upphaflega var lögtekið með 4. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, tekur hins vegar til allra þeirra lögaðila sem tilgreindir eru í 2. gr. laganna, uppfylli þeir þau skilyrði sem sett eru í 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga, þ.e. að þeir verji hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum.
    Hugtakið almenningsheill er ekki skilgreint í 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga. Í skattframkvæmd hefur hins vegar verið horft til frádráttarbærni gjafa sem gefnar eru til starfsemi sem fellur undir tiltekna málaflokka við afmörkun á því hvort lögaðili starfi til almenningsheilla eða ekki, sbr. 2. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga, en málaflokkar þessir eru nú tilgreindir í 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
    Með vísan til þeirra krafna sem gerðar eru til skýrleika skattlagningarheimilda, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er nú í frumvarpi þessu lagt til að í stað þess að litið sé til þeirra málaflokka sem tilgreindir eru í 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, við mat á því hvort hagnaði þeirra lögaðila sem um ræðir í 2. gr. tekjuskattslaga sé einungis varið til almenningsheilla, verði í stað orðsins almenningsheill notast við orðið almannaheill og lagt til að sú starfsemi sem teljist til almannaheilla verði skilgreind sérstaklega í sjö stafliðum í töluliðnum.
    Með 2. gr. laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, er þeim félögum sem þar falla undir heimilt að stunda atvinnustarfsemi til fjáröflunar innan tiltekinna marka. Sömu sjónarmið skulu eiga við um þá aðila sem falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga og er þeim því heimilt að stunda atvinnustarfsemi til fjáröflunar innan þeirra marka sem tilgreind eru í samþykktum og leiða má beint af tilgangi viðkomandi lögaðila, enda séu að öðru leyti öll almenn skilyrði fyrir atvinnustarfsemi uppfyllt. Þá skal lögaðila sem fellur undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga með sama hætti vera heimilt að stunda starfsemi sem hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu með tilliti til heildartekna félagsins. Hér undir fellur atvinnustarfsemi sem rekin er til að efla og styrkja tilgang viðkomandi lögaðila til almannaheilla eða starfsemi til almannaheilla sem ágóðinn rennur til. Einnig getur lögaðili rekið starfsemi sem getur verið til hjálpar meginstarfsemi, t.d. rekstur húsnæðis fyrir skrifstofur samtaka o.fl. Almennt mun þó atvinnurekstur ekki vera ráðandi þáttur í starfsemi lögaðila, enda yrði þá litið svo á að um almennt atvinnurekstrarfélag væri þá að ræða í samkeppni við annan atvinnurekstur og væri viðkomandi lögaðili þá skattskyldur sem slíkur.

3.3.2. Fjárframlög atvinnufyrirtækja og einstaklinga.
    Lögaðilar sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu og eiga hér heimili eru undanþegnir skattskyldu ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Félög, sjóðir og stofnanir sem ekki reka atvinnu falla hér undir. Í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, er kveðið á um að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri megi draga einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,75% af tekjum á því ári sem gjöf er afhent, sbr. 2. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt. Lagt er til að reglu þessari um hámark frádráttar verði breytt og það hlutfall sem ekki megi fara yfir við frádrátt verði hækkað úr 0,75% í 1,5%. Hlutfallið var hækkað úr 0,5% í 0,75% með lögum um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, nr. 124/2015. Hlutfallið hafði þá ekki hækkað svo árum skipti og gat því hugsanlega takmarkað tækifæri gefanda til að láta framlög af hendi rakna.
    Þá er lögð til orðalagsbreyting með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu á skilgreiningu hugtaksins almannaheill og þeim breytingum sem lögfestar voru með lögum um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, nr. 86/2020, um frádrátt vegna aðgerða í rekstri til kolefnisjöfnunar sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis. Jafnframt er lögð til sú breyting að frádráttarheimildin taki ekki til stjórnmálaflokka eins og nú er samkvæmt gildandi lögum.
    Lagt er til að við A–lið 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt verði bætt nýjum tölulið þess efnis að einstaklingum verði heimilt að draga frá tekjum utan atvinnurekstrar gjafir og framlög til þeirra lögaðila sem um ræðir í 4. tölul. 4. gr., að lágmarki samtals 10 þús. kr. og allt að hámarki 350 þús. kr. á almanaksári. Skv. E–lið 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt var til staðar heimild fyrir einstaklinga til þess að draga frá tekjum sínum einstaka gjafir til líknarmála upp að ákveðnu marki, sem hafði einnig verið til staðar áður, sbr. lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 68/1971. Framangreind heimild var felld niður með 4. gr. laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 49/1987, þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp. Lagt er til að heimild einstaklinga til þess að draga tiltekna fjárhæð frá tekjum sínum utan atvinnurekstrar verði tekin upp að nýju. Um er að ræða nýtt frádráttarákvæði einstaklinga frá tekjum utan atvinnurekstrar í tekjuskattslögum sem telja verður afar mikilvægt til að afla tekna þar sem það hvetur til gjafa og framlaga til þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla.
    Þá er í frumvarpinu að finna það nýmæli að skilyrði áðurnefnds frádráttar, hvort heldur varðar lögaðila eða einstaklinga, að lögaðili sem starfar að almannaheillum skv. 4. tölul. 4. gr. sé skráður í almannaheillafélagaskrá hjá Skattinum á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag er veitt. Með slíkri skráningu verður eftirlit tryggt með þeim gjöfum og framlögum sem einstaklingar eða atvinnurekstraraðilar veita til lögaðila sem starfa til almannaheilla. Þeir lögaðilar sem telja sig falla undir 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt skulu ótilkvaddir tilkynna ríkisskattstjóra um slíka beiðni um skráningu og veita ríkisskattstjóra nauðsynlegar upplýsingar og gögn í tengslum við skráninguna. Gild skráning í almannaheillafélagaskrá hjá Skattinum er því skilyrði fyrir því að atvinnufyrirtæki og einstaklingar geti nýtt sér þær heimildir sem getið er um í ákvæðunum um veitingu gjafa og framlaga til lögaðila sem starfa til almannaheilla.
    Gert er ráð fyrir því að ráðherra kveði nánar á um í reglugerð hvaða málaflokkar falla hér undir og um framkvæmdina að öðru leyti.
    
3.3.3. Tekjuskattur af fjármagnstekjum.
    Lagt er til að þeir lögaðilar sem falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga og eru undanþegnir tekjuskatti skuli jafnframt vera undanþegnir tekjuskatti af mótteknum fjármagnstekjum sínum, sbr. 4. mgr. 71. gr. laganna. Í dag greiða þeir lögaðilar sem eru undanþegnir tekjuskatti fjármagnstekjuskatt af mótteknum fjármagnstekjum sínum, til að mynda af mótteknum vaxtatekjum. Sömu aðilar eru jafnframt staðgreiðsluskyldir vegna þeirra fjármagnstekna sem um ræðir, skv. 2. mgr. 2. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996. Fjármagnstekjur eru oft á tíðum hátt hlutfall tekna þeirra lögaðila sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínu, en það er raunin til að mynda hjá ýmsum styrktarsjóðum, svo sem styrktarsjóðum háskóla, námsmanna, heilbrigðisstofnana o.fl. Einnig má nefna að oft er stór hluti tekna björgunarsveita og ýmissa mannúðar- og líknarfélaga í formi fjármagnstekna, t.d. tekjur vegna fjáraflana o.fl. sem safnast upp og varðveittar eru á vaxtaberandi innlánsreikningum þar til þörf er á að nýta það fé sem aflað hefur verið. Fyrir liggur að Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem undanþiggur ekki fjármagnstekjur þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla. Auk þess er að finna slíkar ívilnanir í öðrum nágrannaríkjum okkar. Með þeirri breytingu sem lögð er til munu þeir aðilar sem falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga og eru undanþegnir tekjuskatti jafnframt verða undanþegnir tekjuskatti af mótteknum fjármagnstekjum. Af því leiðir að staðgreiðsluskylda fellur niður vegna þeirra mótteknu fjármagnstekna sem verða undanþegnar tekjuskatti eftir breytinguna.

3.3.4. Virðisaukaskattur – Undanþága góðgerðarstarfsemi frá virðisaukaskatti.
    Samkvæmt 5. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er góðgerðarstarfsemi undanþegin virðisaukaskatti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðinu. Samhliða þeim breytingum sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins um afmörkun á þeirri starfsemi sem telst til almannaheilla er lagt til að góðgerðarstarfsemi verði undanþegin skattskyldu ef allur hagnaður af starfseminni rennur til almannaheilla, sbr. a–g-liði 1. gr. Sú breyting er einnig lögð til á málsgreininni að móttakandi hagnaðar skuli einnig vera skráður í almannaheillafélagaskrá skattsins. Þá eru lögð til rýmkun á þeirri starfsemi sem telst til góðgerðarstarfsemi samkvæmt málsgreininni og á þeim dagafjölda sem þar er tilgreindur, en talið er að tímamörkin séu of þröng og geti jafnvel unnið gegn því að fyrirhuguð fjáröflun verði að veruleika.

3.3.5. Virðisaukaskattur – Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu. á byggingarstað o.fl.
    
Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt skal endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skal endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess.
    Í frumvarpinu er nú lagt til að þeir aðilar sem falla undir a–g-lið 1. gr. og verja þannig hagnaði sínum einungis til almannaheilla skuli með sama hætti eiga rétt á endurgreiðslu 60% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu manna sem innt er af hendi á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, var ákvæði til bráðabirgða XXXIV bætt við lög um virðisaukaskatt með b-lið 7. gr. laganna. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 73/2020, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (endurgreiðsla vegna vinnu á byggingarstað). Í ákvæðinu kemur meðal annars fram að endurgreiða skuli 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu tiltekinna aðila sem starfa til almannaheilla, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Undir ákvæðið falla meðal annars mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, björgunarsveitir, æskulýðsfélög og Þjóðkirkjan o.fl.
    Í ákvæði frumvarpsins er nú lögð til varanleg lögfesting á ákvæði þess efnis að þeir lögaðilar sem starfa til almannaheilla og falla undir a–g-lið 1. gr., geti óskað eftir endurgreiðslu 60% þess virðisaukaskatts sem þessir aðilar hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á byggingarstað við byggingu mannvirkja sem alfarið eru í eigu þeirra.

3.3.6. Undanþága frá gjaldskyldu stimpilgjalds.
    Lagt er til að þeir lögaðilar sem falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga verði einnig undanþegnir gjaldskyldu stimpilgjalds. Áhrifa af greiðslu stimpilgjalds hjá þeim aðilum sem falla undir tekjuskattsundanþágu 4. tölul. 4. gr. geta verið töluverð. Sem dæmi má nefna að lögaðilar sem eru undanþegnir tekjuskatti og verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum greiða í dag 1,6% stimpilgjald af fasteignamati við kaup á fasteignum. Með lögum nr. 49/2020, um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013 (afnám stimpilgjalds af skjölum varðandi eignayfirfærslu skipa), var stimpilgjald af skjölum sem varðaði eignayfirfærslu skipa afnumið. Lögin voru samþykkt á Alþingi 28. maí 2020. Eftir breytinguna bera skip yfir fimm brúttótonnum ekki stimpilgjald. Breytingin hefur meðal annars haft jákvæð áhrif á starfsemi björgunarsveita sem þurftu fyrir breytinguna að greiða 1,6% stimpilgjald af kaupverði skipa yfir 5 brúttótonnum.

3.3.7. Undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts.
    Með lögum um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, nr. 124/2015, var gerð sú breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, að gjafir til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum voru undanþegnar erfðafjárskatti. Sambærilegt ákvæði hafði verið að finna í eldri lögum um erfðafjárskatt en var fellt brott árið 2004. Fram kom í frumvarpi því sem varð að áðurnefndum lögum nr. 124/2015 að til lengri tíma litið væri stefnt að því marki að félagasamtök og sjálfseignarstofnanir gætu í auknum mæli aflað sér fjár án beins stuðnings ríkisins. Lagt er til í frumvarpi þessu að í lögum um erfðafjárskatt verði kveðið á um að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af gjöfum og framlögum til aðila sem starfa til almannaheilla. Ákvæðið verður því ekki lengur takmarkað við gjafir til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana heldur mun það taka til gjafa og framlaga til þeirra aðila sem starfa til almannaheilla eins og það hugtak er skilgreint í 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess gætt sérstaklega við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir svonefndan þriðja geira auk skattskylda einstaklinga og lögaðila. Við vinnslu þess var að miklu leyti tekið mið af tillögum starfshóps um skattalegt umhverfi þriðja geirans. Þá var haft samráð við Skattinn. Áform um samningu frumvarpsins voru kynnt á vettvangi ráðuneytisstjóra og almenningi í opinni samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 29. september til 13. október 2020 (mál nr. S-203/2020). Sex umsagnir bárust, þ.e. frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, Barnaheill, Hagsmunasamtökum heimilanna, Ungmennafélagi Íslands, Almannaheill og Heimili og skóla – landssamtökum foreldra. Almennt voru umsagnaraðilar jákvæðir og hlynntir áformunum en hvöttu þó til þess að gengið yrði lengra í einhverjum tilvikum. Frumvarpsdrögin voru einnig kynnt almenningi í opinni samráðsgátt stjórnvalda daganna 7.–17. nóvember 2020. Sautján umsagnir bárust og voru umsagnaraðilar almennt afar jákvæðir gagnvart þeim tillögum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Tekið hefur verið tillit til margra athugasemda og gerðar breytingar á frumvarpinu í samræmi við þær. Í því sambandi má nefna að ýmis skilyrði hafa verið gerð skýrari er varðar skráningu í almannaheillafélagaskrá. Þá hefur verið komið til móts við ábendingar sem komu fram um lágmarksfjárhæð gjafa og framlaga til einstaklinga. Einnig hefur verið komið til móts við sjónarmið sem snúa að tilgreiningu á íþróttastarfsemi undir b-lið 1. gr. frumvarpsins. Að lokum má nefna að neytenda- og forvarnarstarfsemi hefur verið felld undir b-lið 1. gr. frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga. Frummat af mati á áhrifum frumvarpsins sem fela í sér skattalegar ívilnanir til starfsemi til almannaheilla o.fl. er byggt á gögnum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Skattinum. Áhrifin eru talin hafa neikvæð áhrif á skatttekjur ríkissjóðs sem nemur um 2 ma.kr. á ári. Áhrifin eru ótímabundin.
    Áætlað tekjutap ríkissjóðs af hækkun heimildar lögaðila til að draga frá tekjum af atvinnurekstri einstaka gjafir og framlög til tiltekinna aðila er áætlað um 0,8 ma.kr. á ári.
    Áætlað tekjutap ríkissjóðs af nýrri heimild fyrir einstaklinga til að draga frá skattskyldum tekjum sínum sambærilegar gjafir og framlög, miðað við hámarksfjárhæð 350 þús. kr., er 0,5 ma.kr. á ári.
    Áætlað tekjutap ríkissjóðs af undanþágu þeirra lögaðila sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínu samkvæmt samþykktum sínum frá tekjuskatti af fjármagnstekjum er rúmlega 0,4 ma.kr. á ári. Í því sambandi er gert ráð fyrir því að undanþága styrktarsjóða háskóla og annarra menntasjóða frá tekjuskatti af fjármagnstekjum nemi frá 2,5–10 m.kr. á ári.
    Áætlað tekjutap ríkissjóðs af útvíkkun á endurgreiðsluheimild virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum þannig að heimildin nái til allra þeirra lögaðila sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínu samkvæmt samþykktum sínum er 0,2 ma.kr. á ári.
    Áætlað tekjutap ríkissjóðs af undanþágu þeirra lögaðila sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla frá greiðslu stimpilgjalds af kaupsamningum er 0,1 ma.kr. á ári.
    Áætlað tekjutap ríkissjóðs af undanþágu annarra lögaðila en félagasamtaka og sjálfseignarstofnana frá greiðslu erfðafjárskatts af dánargjöfum er 0,1 ma.kr. á ári.
    Gera má ráð fyrir því að frumvarpið hafi jákvæð áhrif á starfsemi þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla. Ekki liggja fyrir sundurgreindar upplýsingar um þá hópa sem njóta góðs af starfseminni. Af því leiðir að erfitt er að álykta um áhrif frumvarpsins á jafnrétti kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið er lagt til að í stað orðsins almenningsheilla í 4. tölul. komi almannaheilla. Ekki er um efnisbreytingu að ræða en samkvæmt almennu orðfæri er nú frekar talað um félög til almannaheilla heldur en til almenningsheilla, sbr. meðal annars lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla yfir landamæri, nr. 119/2019, og lög um fyrirtækjaskrá, nr.17/2003, þar sem meðal annars kemur fram að fyrirtækjaskrá skuli geyma upplýsingar um og halda aðgreinanlegar skrár yfir félög til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.
    Í b-lið er greint frá þeirri starfsemi sem telst til almannaheilla samkvæmt töluliðnum. Sú starfsemi sem fellur undir hugtakið almannaheill er tæmandi talin í töluliðnum en hún er eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er lagt til að undir hugtakið falli mannúðar- og líknarstarfsemi. Undir mannúðar- og líknarstarfsemi fellur meðal annars starfsemi sjúkra-, umönnunar- og meðferðarstofnana, dvalar- og vistheimila og sambýla fyrir fatlaða, greiningarstöðva, öldrunarstofnana og stofnana í hliðstæðri starfsemi, þ.m.t. starfsemi Rauða krossins.
    Í öðru lagi er lagt til að undir hugtakið almannaheill falli æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, þ.m.t. íþróttastarfsemi. Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi félaga eða félagasamtaka samkvæmt æskulýðslögum, nr. 70/2007, sbr. 1. gr. þeirra laga. Við mat á því hvaða félög eða félagasamtök falla undir heimildina skal litið til 1. og 3. tölul. 2. gr. sömu laga. Með æskulýðsstarfsemi er þannig átt við starfsemi félaga og félagasamtaka sem sinna æskulýðsmálum á frjálsum áhugamannagrundvelli, enda byggist félagsstarfsemin fyrst og fremst á sjálfboðastarfi og eigin fjármögnun. Menningarmálastarfsemi felur í sér hvers konar menningarmálastarfsemi fyrir almenning, svo sem íþróttastarfsemi, byggingu skólahúsa og íþróttamannvirkja, o.fl. sem til menningarmála heyrir. Undir íþróttastarfsemi fellur starfsemi íþróttafélaga, heildarsamtaka á sviði íþrótta og héraðs- og sérsambanda. Með íþróttafélögum er átt við félög sem hafa með höndum íþróttastarfsemi. Skilgreina ber hugtakið íþrótt til samræmis við íþróttalög, nr. 64/1998. Íþróttastarfsemi tekur til hverrar þeirrar íþróttar sem stunduð er innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands, en er þó ekki bundin við að íþróttin sé stunduð á vegum þeirra samtaka. Með héraðs- og sérsamböndum er átt við yfirsamtök íþrótta í landinu, svo sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Íþróttasamband fatlaðra, íþróttahéruð og sérsambönd innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, svo og önnur heildarsamtök í skipulögðu íþróttastarfi.
    Í þriðja lagi er lagt til að starfsemi björgunarsveita, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstakra félagseininga sem starfa undir merkjum samtakanna skuli falla undir töluliðinn. Undir björgunarsveitir, landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstakar félagseiningar þeirra falla félög, deildir eða félagseiningar sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, nr. 43/2003, sbr. m.a. Slysavarnafélagið Landsbjörg. Með björgunarsveit er átt við félag sem á grundvelli sjálfboðaliðastarfs tekur þátt í björgun, leit og gæslu að beiðni stjórnvalda, sbr. 2. gr. laganna.
    Í fjórða lagi er lagt til að undir hugtakið almannaheill falli vísindaleg rannsóknarstarfsemi, hvort heldur sem slík starfsemi er á sviði hug- eða raunvísinda.
    Í fimmta lagi er lagt til að undir hugtakið almannaheill falli starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða. Hér undir falla meðal annars doktorsstyrkjasjóðir háskólanna og aðrir menntasjóðir sem eru sjálfstæðir gagnvart hinu opinbera, þ.e. eru ekki háðir fjárveitingum úr ríkissjóði eða frá öðrum opinberum aðilum og ekki reknir í atvinnuskyni. Móttaka einstaka fjárframlaga úr ríkissjóði eða frá öðrum opinberum aðilum skal þó ekki ein og sér girða fyrir að aðili falli undir stafliðinn, að því gefnu að sjóðurinn sé sjálfstæður gagnvart hinu opinbera og að slík framlög hafi óverulegt gildi í starfsemi sjóðsins.
    Í sjötta lagi er lagt til að hér undir falli starfsemi þeirra lögaðila sem hafa með höndum neytenda- og forvarnarstarfsemi. Um er að ræða lögaðila, til að mynda félög og félagasamtök sem vinna að neytendamálum, umferðaröryggismálum, forvörnum gegn áfengi, fíkniefnanotkun og sjálfsvígum. Hér undir fellur til að mynda starfsemi Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ).
    Í sjöunda lagi er lagt til að hér undir falli starfsemi Þjóðkirkjunnar og starfsemi þjóðkirkjusafnaða hér á landi, sbr. lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Á sama hátt falli hér undir skráð trú- og lífsskoðunarfélög, sbr. lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999. Við mat á því hvort slíkt félag eða söfnuður teljist starfa til almannaheilla skal jafnframt litið til þess hvort aðilinn eigi rétt á ákveðinni hlutdeild í tekjuskatti skv. 1. gr. laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987.
    Við nánari skýringu á töluliðnum ber að hafa í huga að undanþága töluliðarins ræðst ekki eingöngu af markmiði þess lögaðila sem fellur undir 2. gr. laganna og ber að verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla, heldur skal þeim hagnaði sem um ræðir í raun varið til þeirrar starfsemi til almannaheilla sem fellur undir a–g-lið töluliðarins. Við mat á því hvort hagnaði sé ráðstafað til almannaheilla ber að líta til hagnaðar hvers árs fyrir sig. Starfsemi lögaðila, svo sem félaga og samtaka, sem hafa að meginmarkmiði að vinna að hagsmunamálum tiltekinna starfsstétta, verður ekki talin miða að almannaheill í skilningi töluliðarins. Þá ber enn fremur að hafa í huga við skýringu hugtaksins að um undantekningu frá meginreglu um skattskyldu er að ræða, auk þess sem hafa verður í huga jafnræðis- og samkeppnisrök, sbr. samkeppnislög, nr. 44/2005.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að einstaklingum verði heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar gjafir og framlög til þeirra lögaðila sem hafa með höndum starfsemi sem um ræðir í a–g-lið 4. tölul. 4. gr., að lágmarki samtals 10 þús. kr. og allt að hámarki 350 þús. kr. á hverju almanaksári. Af ákvæðinu leiðir að einstaklingi er heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar gjafir og framlög undir 10 þús. kr. að því gefnu lágmarksfjárhæð gjafa og framlaga nemi samtals 10 þús. kr. á hverju almanaksári. Þannig sitja þeir einstaklingar sem styðja með reglubundnum hætti við starfsemi til almannaheilla og einstaklingar sem gefa gjafir eða veita framlög stöku sinnum til slíkrar starfsemi við sama borð. Af ákvæðinu leiðir einnig að hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 62. gr., getur dregið frá skattskyldum tekjum sínum allt að 700 þús. kr. á hverju almanaksári. Þá er talið rétt að til staðar sé tiltekin lágmarksfjárhæð með tilliti til þess kostnaðar og eftirlits sem hlýst af breytingunni.
    Það skilyrði kemur fram í ákvæðinu að lögaðili sem starfar til almannaheilla sé skráður í almannaheillafélagaskrá hjá Skattinum á því tímamarki sem einstaka gjafir eða framlög eru afhent. Í því felst að einstaklingi ber að ganga úr skugga um að viðkomandi lögaðili sem starfar til almannaheilla sé sannanlega skráður á opna almannaheillafélagaskrá Skattsins á því tímamarki sem einstaka gjöf eða framlag er afhent til lögaðila. Þannig getur viðkomandi einstaklingur nýtt sér þá heimild að draga frá tekjum sínum utan atvinnurekstrar þá gjöf eða það framlag sem veitt er til þeirra lögaðila sem falla undir 4. tölul. 4. gr. laganna. Við veitingu gjafar eða framlags ber einstaklingi að fá í hendur móttökukvittun frá lögaðila þar sem fram koma nauðsynlegar upplýsingar um gefanda, dagsetningu gjafar og verðmæti hennar. Móttakanda gjafar eða framlags ber síðan að senda Skattinum nauðsynlegar upplýsingar um mótteknar gjafir eða framlög frá einstaklingum á hverju almanaksári, sbr. 6. mgr. 92. gr. Í kjölfarið eru umræddar upplýsingar forskráðar á skattframtal einstaklings vegna næstliðins tekjuárs.
    Ákvæði VII. kafla laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, þar sem kveðið er á um skráningu í almannaheillafélagaskrá, skulu gilda eftir því sem við á um skráningu þeirra lögaðila í almannaheillafélagaskrá sem falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga.
    Sá meginmunur er þó á skráningu í almannaheillafélagaskrá samkvæmt lögum um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, að þar er um skyldubundna skráningu að ræða, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Sú skráning í almannaheillafélagaskrá hjá Skattinum sem kveðið er á um í ákvæði frumvarpsins er aftur á móti ekki skyldubundin. Skráning í opna almannaheillafélagaskrá hjá Skattinum er aftur á móti ekki skylda en er þó grundvöllur fyrir því að einstaklingar geti nýtt sér heimild ákvæðisins og veitt gjafir og framlög til þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt. Sú opna almannaheillafélagaskrá sem getið er um í ákvæðinu og varðar lögaðila sem falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga skal því vera sjálfstæð og aðgreind frá þeirri almannaheillafélagaskrá sem fram kemur í lögum um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.
    Gert er ráð fyrir því að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd ákvæðisins, svo sem um skráningu lögaðila í almannaheillafélagaskrá, tímamörk í þeim efnum o.fl.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á 2. tölul. 31. gr. laganna þar sem fjallað er um heimilaðan frádrátt frá skattskyldum tekjum lögaðila vegna einstakra gjafa og framlaga.
    Lögð er til breyting á þeirri starfsemi sem fellur nú undir ákvæðið. Með breytingunni er lagt til að í stað þess að lögaðilum verði heimilt að afhenda einstaka gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa verði miðað við að móttakendur einstakra gjafa og framlaga skuli falla undir a–g-lið 4. tölul. 4. gr. laganna.
    Þá er lagt til að það hlutfall af tekjum af atvinnurekstri, sem ekki má fara yfir við frádrátt einstakra gjafa og framlaga verði hækkað úr 0,75% í 1,5%. Hlutfallið var síðast hækkað með 2. gr. laga nr. 124/2015. Hækkunin mun efla til muna hvata lögaðila til að afhenda gjafir og framlög til þeirra þiggjenda sem falla undir töluliðinn.
    Með lögum nr. 86/2020 var gerð sú breyting á töluliðnum að framlög til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun, svo sem aðgerða til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis voru felld undir töluliðinn. Breytingin tekur gildi 1. janúar 2021. Með þeim breytingum sem nú eru lagðar til á töluliðnum munu þiggjendur gjafa og framlaga sem hafa með höndum starfsemi sem felst í kolefnisjöfnun, skógrækt, uppgreiðslustörfum eða starfsemi í formi endurheimt votlendis njóta sams konar möguleika til tekna og þeir lögaðilar sem falla undir 4. tölul. 4. gr. laganna, frá og með gildistöku breytingarinnar 1. júlí 2021. Um er að ræða sjálfstæða heimild til að veita framlög til þeirrar starfsemi sem þar fellur undir, þ.e. 1,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári sem gjöf er afhent. Heildarhlutfall þeirra gjafa og framlaga sem fallið geta undir ákvæðið er því 3% af tekjum af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi skv. B-lið 7. gr.
    Í ákvæðinu kemur fram að skilyrði frádráttar atvinnurekstraraðila vegna afhendingar gjafa eða framlaga til þeirra lögaðila sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir a–g-lið 4. tölul. 4. gr. sé að lögaðilinn sé skráður í almannaheillafélagaskrá hjá Skattinum. Um er að ræða sama skilyrði og greint er frá í 2. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við 2. gr. í því sambandi. Þá er gert ráð fyrir því að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um hvaða málaflokkar og stofnanir falli undir töluliðinn, svo sem um þá starfsemi sem felur í sér aðgerðir til reksturs kolefnisjöfnunar o.fl. og um framkvæmd töluliðarins að öðru leyti.

Um 4. gr.

    Lagt er til að þeir lögaðilar sem falla undir 4. tölul. 4. gr. laganna og eru undanþegnir skattskyldu er varðar tekjuskatt verði einnig undanskildir frá greiðslu tekjuskatts af fjármagnstekjum, sbr. 3., 4. og 5. tölul. C–liðar 7. gr., svo og skv. 8. tölul. sama stafliðar 7. gr. að því er varðar söluhagnað af hlutabréfum. Í dag greiða þeir aðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskatt af mótteknum fjármagnstekjum, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laganna. Eftir breytinguna munu þessir aðilar verða undanþegnir skattskyldu er varðar tekjuskatt vegna þeirra fjármagnstekna sem falla undir 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Í 92. gr. laganna er fjallað um launaskýrslur o.fl. Í 6. mgr. 92. gr. er kveðið á um að ríkisskattstjóri geti ákveðið almenna skyldu til að honum sé afhent skýrsla ókeypis og í því formi sem hann ákveður um önnur atriði er máli skipta varðandi álagningu skatta samkvæmt lögunum. Í málsgreininni eru tekin dæmi um atriði sem þarna falla undir.
    Í ákvæðinu er nú lagt til að veittum og mótteknum gjöfum eða framlög til þeirrar starfsemi sem telst til almannaheilla skv. a–g-lið 4. tölul 4. gr. laganna, verði bætt við upptalninguna. Miklu máli skiptir að Skatturinn hafi á hverjum tíma upplýsingar um mótteknar gjafir eða framlög þeirra lögaðila sem um ræðir í 4. tölul. 4. gr. laganna. og skráðir eru í almannaheillafélagaskrá hjá Skattinum, m.a. í þeim tilgangi að sporna gegn því að almannaheillafélög verði misnotuð í tilgangi sem varðar ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Af því leiðir að þeim lögaðilum sem þar falla undir ber að afhenda ríkisskattstjóra skýrslu um mótteknar gjafir, framlög eða önnur atriði sem ríkisskattstjóri óskar eftir varðandi álagningu skatta samkvæmt lögum þessum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála.

Um 6. gr.

    Samhliða þeim breytingum sem lagðar eru til á 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. tekjuskattslaga, í 4. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að þeir aðilar sem falli undir 4. tölul. 4. gr. laganna verði einnig undanskildir frá greiðslu tekjuskatts af fjármagnstekjum, er lagt til að greiðsluskylda skv. 2. mgr. 2. gr. laganna skuli ekki ná til fjármagnstekna samkvæmt lögum nr. 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga. Samkvæmt núgildandi ákvæði 2. málsl. 4. mgr. 71. gr. tekjuskattslaga skal afdráttur skatts og innborgun hans samkvæmt lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur vera fullnaðargreiðsla og koma í stað álagningar samkvæmt tekjuskattslögum. Eftir breytinguna munu þær fjármagnstekjur sem um ræðir og falla til hjá lögaðilum sem starfa til almannaheilla verða undanþegnar staðgreiðslu.

Um 7. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 5. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, þar sem kveðið er á um að góðgerðarstarfsemi sé undanþegin virðisaukaskatti að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þær breytingar sem lagðar eru til eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er lagt til að góðgerðarstarfsemi verði undanþegin skattskyldu, að því tilskildu að hagnaður af henni renni að öllu leyti til almannaheilla skv. a–g-lið 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en ekki eingöngu til líknarmála samkvæmt núgildandi 1. málsl. ákvæðisins.
    Í öðru lagi er lagt til í nýjum 2. málsl. málsgreinarinnar að kveðið verði á um að móttakandi hagnaðar af góðgerðarstarfsemi skuli vera skráður í almannaheillafélagaskrá Skattsins. Með kröfu um slíka skráningu liggur fyrir að aukið eftirlit verði til staðar með þeirri starfsemi sem telst til almannaheilla, m.a. í þeim tilgangi að sporna gegn því að almannaheillafélög verði misnotuð í tilgangi sem varðar ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á 1. tölul. málsgreinarinnar. Í ljósi samfélagslegrar þróunar og tæknibreytinga er nú lagt til að auk basarsölu, merkjasölu og annarrar hliðstæðrar sölu góðgerðarfélaga verði sérstaklega kveðið á um að sala í netverslun verði heimil.
    Samhliða þeirri breytingu er tillaga um að fjölgað verði þeim dögum sem slík sala má standa yfir hjá aðilum. Eftir breytinguna má hver starfsemi í hverjum mánuði vara að hámarki í fimm daga í stað þriggja daga áður. Sami aðili getur þannig einungis fengið undanþágu vegna einnar sölustarfsemi í hverjum mánuði að hámarki fimm daga í senn. Einnig er lagt til að ef um árlegan atburði er að ræða verði slík sala heimiluð samfellt í tuttugu og fimm daga í stað fimmtán daga. Það skilyrði þarf að vera uppfyllt líkt og áður að aðili sem óskar eftir undanþágu til Skattsins vegna góðgerðarstarfsemi hafi að öðru leyti ekki með höndum sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Tilgangurinn sem býr að baki þeirri kröfu er sá að starfsemi af þessum toga raski ekki samkeppni við aðila í virðisaukaskattsskyldri starfsemi.
    Í fjórða er lagt til að nýjum tölulið verði bætt við málsgreinina þar sem kveðið verði á um undanþágu vegna sölu listaverka í þágu góðgerðarstarfsemi. Um er að ræða listaverk sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000, þ.e. sömu tollskrárnúmer og tilgreind eru í 2. tölul. 4. gr. laganna. Ekki skiptir máli hvort listaverkasala eigi sér stað af hálfu listamannsins sjálfs, listagallerís eða annars aðila, svo fremi sem skilyrði ákvæðisins séu að öðru leyti uppfyllt.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 42. gr. laganna. Lagt er til að endurgreiða skuli þeim lögaðilum sem falla undir a–g-lið 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, 60% þess virðisaukaskatts sem þessir aðilar hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum, eða sérgreindum matshlutum þeirra, sem alfarið eru í eigu þeirra, samkvæmt skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Fram kemur að þrátt fyrir að skráning í fasteignaskrá Þjóðskrár Ísland liggi ekki fyrir sé heimilt að endurgreiða umsækjanda virðisaukaskatt ef sýnt er fram á af hálfu umsækjanda að fullgildur kaupsamningur um viðkomandi mannvirki, eða sérgreindan matshluta þess hafi verið gerður og að umsækjandi hafi fengið mannvirkið afhent á grundvelli kaupsamningsins. Algengt er í fasteignaviðskiptum að greiðslum sé haldið eftir í tiltekinn tíma og afsal gefið út þegar lokagreiðsla hefur verið innt af hendi. Vegna þess verður að telja eðlilegt að heimild sé til endurgreiðslu virðisaukaskatts ef fullgildur kaupsamningur liggur fyrir vegna fasteignaviðskipta.
    Um er að ræða rýmkun á þeirri starfsemi sem fallið getur undir ákvæðið þar sem fleiri aðilar en áður sem teljast starfa til almannaheilla, sbr. 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga, geta nú átt rétt á endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum 42. gr.
    Lagt er til að sömu skilyrði skuli gilda vegna umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts og lögfest voru með lögum nr. 25/2020, auk þess sem gerð er sú krafa að umsækjandi sé skráður í almannaheillafélagaskrá Skattsins á því tímamarki þegar sú vinna sem liggur til grundvallar kröfu um endurgreiðslu virðisaukaskatts var innt af hendi.
    Lagt er til að miðað sé við endurgreiðsluhlutfall að hámarki 60% af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Um er að ræða sama endurgreiðsluhlutfall og verið hefur í gildi vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað vegna byggingar, endurbóta eða vegna viðhalds á íbúðarhúsnæði, sbr. 2. mgr. 42. gr. laganna.
    Við skýringu og mat á skilyrðum ákvæðisins og hugtökum þess skal eftir því sem við á litið til b-liðar 7. gr. laga nr. 25/2020, reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna, og reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt, með síðari breytingum.

Um 9. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að aðilar sem falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga og eru undanþegnir tekjuskatti verði einnig undanþegnir gjaldskyldu stimpilgjalds samkvæmt lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013.

Um 10. gr.

    Gerð er tillaga um breytingu á gildandi ákvæði 5. mgr. 1. gr. til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins. Lagt er til að í stað þess að kveðið sé á um undanþágu frá greiðslu erfðafjárskatts af gjöfum sem falla til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum skuli undanþágan ná til gjafa sem falla til aðila sem eru undanþegnir tekjuskatti skv. 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga. Breytingin leiðir til rýmkunar á fjölda þeirra aðila og þeirri starfsemi sem fallið getur undir málsgreinina.

Um 11. gr.

    Í 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, er kveðið á um hvaða fyrirtæki og aðilar eigi að skrá í fyrirtækjaskrá. Þá er í 3. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, kveðið á um upptalningu á þeim skrám sem fyrirtækjaskrá er gert að halda. Með lögum um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, var gerð sú breyting á 2. og 3. gr. laga nr. 17/2003 að félögum til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri var bætt við lögin.
    Í ákvæðinu er nú lagt til að fyrirtækjaskrá skuli jafnframt geyma upplýsingar og halda aðgreinanlega skrá yfir þá lögaðila sem falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga, þ.e. þá aðila sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Breytingin leiðir til þess að þeim lögaðilum sem falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga verður bætt við þá upptalningu sem finna má í 2. og 3. gr. laga nr. 17/2003.

Um 12. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2021.
    Lagt er til að þrátt fyrir 1. mgr. ákvæðisins skuli 2.,3, 7. og 11. gr. öðlast gildi hinn 1. júlí 2021. Þau ákvæði sem um ræðir eiga það sammerkt að vísað er til almannaheillafélagaskrár Skattsins með beinum hætti í þeim ákvæðum sem um ræðir eða gerð er sú krafa að almannaheillafélagaskrá sé til staðar hjá fyrirtækjaskrá vegna þeirra aðila sem falla undir 4. tölul. 4. gr. laganna. Í ljósi þess að nauðsynlegt er að veita Skattinum svigrúm til þess að koma upp opinni almannaheillafélagaskrá vegna skráningar þeirra lögaðila sem falla undir 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga og meta réttmæti þeirra umsókna sem berast, er lagt til að ákvæðin öðlist gildi hinn 1. júlí 2021.
    Lagt er til að þrátt fyrir 1. mgr. skuli 8. gr. öðlast gildi 1. janúar 2022. Ákvæði til bráðabirgða XXXIV, laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, gildir til og með 31. desember 2020. Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um virðisaukaskatt hafa nú verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, sbr. mál nr. S-227/2020, þar sem gert er ráð fyrir því að ákvæðið verði framlengt til og með 31. desember 2021. Í því ljósi er lagt til ákvæði 8. gr. öðlist gildi hinn 1. janúar 2022.