Ferill 368. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 460  —  368. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Frá umhverfis- og auðlindaráðherra.



I. KAFLI

Markmið, gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara eru að:
     1.      Villtir fuglar og villt spendýr fái að þróast eftir eigin lögmálum.
     2.      Tryggja friðun, vernd, viðgang og velferð villtra fugla og villtra spendýra.
     3.      Ekki sé gengið á líffræðilega fjölbreytni og búsvæði villtra fugla og villtra spendýra í þeim mæli að það ógni viðgangi þeirra.
     4.      Verndarstöðu villtra fugla og villtra spendýra sé ekki spillt með umsvifum manna eða framandi lífverum sem ógnað gætu viðgangi þeirra.
     5.      Veiðar og önnur nýting á villtum dýrum sé sjálfbær og byggist á vísindalegum, faglegum og haldbærum upplýsingum um stofnstærð, stofnþróun, náttúruleg afföll, veiðiþol og veiði viðkomandi tegundar eða stofns.
     6.      Treysta eftirlit með veiðum og efla virka stýringu veiða á þeim villtu fuglum og villtu spendýrum sem lög þessi taka til.
     7.      Uppfylla skuldbindingar alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að og varða efni laga þessara.

2. gr.

Gildissvið.

    Ákvæði laga þessara taka til villtra fugla og villtra spendýra á íslensku yfirráðasvæði, hvort sem er á landi eða sjó, að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands. Lögin taka hvorki til hvala né sela.

3. gr.

Orðskýringar.

    Merking hugtaka í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er sem hér segir:
     1.      Afréttur: Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé, sbr. lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda þjóðlendna og afrétta.
     2.      Almenningur í stöðuvatni: Sá hluti stöðuvatns sem er fyrir utan 115 m breitt vatnsbelti eignarlands þeirra sem að vatninu liggja.
     3.      Ábyrgðartegund: Tegund sem Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á samkvæmt alþjóðlegum samningum vegna þess að um eða yfir fimmtungur stofnsins á Evrópu- eða heimsvísu heldur hér til að staðaldri eða hluta úr ári.
     4.      Ágangssvæði: Nánar skilgreint svæði þar sem ágangur hreindýra er svipaður á öllu svæðinu.
     5.      Ágeng framandi tegund: Framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni, meðal annars með því að fækka eða útrýma náttúrulegum tegundum með samkeppni, afráni, sýkingum og breytingum á staðbundnum vistkerfum og virkni þeirra.
     6.      Búsvæði: Svæði þar sem tegund eða stofn villtra fugla og villtra spendýra getur þrifist, svo sem varplönd og fæðusvæði eða farleið.
     7.      Eggjataka: Þegar egg eru fjarlægð úr hreiðrum fugla á varptíma.
     8.      Eignarland: Jörð eða annað landsvæði sem er háð beinum eignarrétti einstaklings eða lögaðila, þar með talið sveitarfélag eða ríki, þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
     9.      Framandi tegund: Allar tegundir, undirtegundir eða lægri flokkunareiningar fugla og spendýra, svo sem afbrigði, kyn eða stofn, þ.m.t. kynfrumur og egg, sem menn hafa flutt vísvitandi eða óafvitandi út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði.
     10.      Friðun: Bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu dýra af tiltekinni tegund eða stofni. Friðun tekur einnig til eggja og hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar, nema annað sé tekið fram og eftir því sem við á til tilgreindra búsvæða eða lykilbúsvæða viðkomandi tegundar.
     11.      Friðlýst svæði: Þjóðgarðar, friðlönd, náttúruvé, náttúruvætti, landslagsverndarsvæði, fólkvangar, óbyggð víðerni eða verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda á grundvelli náttúruverndarlaga eða önnur svæði sem njóta sambærilegrar verndar eða friðlýsingar á grundvelli sérlaga.
     12.      Fuglabjarg: Sjófuglabyggð í sjávarhömrum, einkum byggðir svartfugla og ritu en einnig varpstöðvar súlu, fýls og máfa.
     13.      Fuglabyggð: Staður þar sem fuglar verpa þétt og oft margir saman.
     14.      Fugl í sárum: Fugl sem fellt hafa flugfjaðrir sínar og er ófleygur meðan nýjar fjaðrir vaxa.
     15.      Föngun: Að ná villtu dýri lifandi.
     16.      Hefðbundin hlunnindi: Hlunnindi sem landeigendur eða veiðirétthafar tiltekinna jarða eða landsvæða hafa haft af veiðum á villtum spendýrum eða villtum fuglum eða nýtingu á dúni þeirra eða eggjum fyrir gildistöku laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, og hafa verið nýtt síðan.
     17.      Hlunnindi af villtum dýrum: Æðardúntekja, eggjatekja og lundaveiðar í háf.
     18.      Hreiður: Staður þar sem fugl verpir eggjum sínum, meðal annars á bera jörð, í skál í hvers kyns undirlag, holur og glufur, þar á meðal í mannvirkjum eða körfu úr ýmsum efnum.
     19.      Hreiðurstæði: Varpstaðir fuglategunda er verpa á hefðbundnum stöðum og geta verið nýttir kynslóð fram af kynslóð.
     20.      Hreiðurstæði arna: Allir þeir staðir sem hafernir hafa orpið á.
     21.      Landeigandi: Sá sem fer með eignarrétt yfir eignarlandi. Hafi réttur til veiða löglega verið aðskilinn tímabundið frá eignarlandi, sbr. 2. mgr. 23. gr., fer rétthafi með fyrirsvar veiðiréttar.
     22.      Líffræðileg fjölbreytni: Breytileiki meðal lifandi vera á öllum stigum lífs, þar á meðal í vistkerfum á landi, í sjó og í ferskvatni. Hugtakið tekur til vistfræðilegra tengsla milli vistkerfa og nær til fjölbreytni innan tegunda og milli tegunda og vistkerfa.
     23.      Lykilbúsvæði: Afmörkuð búsvæði sem geta verið breytileg í tíma og rúmi og eru sérstaklega mikilvæg villtum dýrum. Búsvæði eru lykilbúsvæði ef:
                  a.      finna má meiri þéttleika dýra ákveðinnar tegundar eða stofns en gerist að jafnaði á öðrum búsvæðum eða
                  b.      líkamsástand, æxlunarárangur og/eða lífslíkur dýra af tilteknum stofni tegundar, sem nýtir búsvæðið til varps og/eða viðhalds, er betri en þeirra dýra af sama stofni sem nýta önnur búsvæði að jafnaði.
     24.      Lykilstaðir: Afmörkuð svæði, t.d. tilteknar leirur og votlendi, þar sem reglulega má finna meira en 1% af skilgreindum stofni tegundar eða undirtegundar.
     25.      Netlög: Hafsvæði og sjávarbotn 115 m út frá stórstraumsfjörumáli eignarlands eða 115 m út frá bakka stöðuvatns sem eignarland liggur að. Netlög fylgja einnig eyjum, hólmum og skerjum í sjó og stöðuvötnum.
     26.      Nytjaveiðar: Að veiðibráð sé nýtt til neyslu eða afurðir hennar nýttar á annan hátt.
     27.      Refagreni: Hefðbundnir staðir þar sem refir gjóta og ala upp yrðlinga.
     28.      Selalátur: Staðir þar sem selir kæpa, fella hár og halda til með kópa sína.
     29.      Sjálfbærar veiðar: Veiðar teljast sjálfbærar ef nýliðun tegundar eða stofns stendur undir veiðum, náttúrulegum afföllum og náttúrulegum reglubundnum sveiflum, þannig að stofn nær yfir tiltekinn tíma að endurnýja sig og viðhalda þeirri stofnstærð og útbreiðslu sem náttúruleg takmörk setja.
     30.      Stjórnunar- og verndaráætlun: Áætlun sem unnin er fyrir einstakar tegundir villtra fugla og villtra spendýra. Áætlunin felur í sér mat á stofnstærð, stofnþróun, útbreiðslu, viðkomu, flokkun á válista, veiðiþoli og ákjósanlegri verndarstöðu hlutaðeigandi tegundar eða stofns og breytingar þar á. Í stjórnunarþætti áætlunarinnar skal meðal annars leggja til nauðsynlegar verndar- og stjórnunaraðgerðir byggðar á framangreindu mati til að stuðla að ákjósanlegri verndarstöðu, ásamt tillögum um hvernig standa beri að nýtingu eða veiðum ef það á við og aðgerðum til þess að bregðast við tjóni.
     31.      Stofn: Hópur lífvera sömu tegundar sem finnast á tilteknum stað og tíma og eru líklegri til að æxlast innbyrðis en með dýrum úr öðrum hópum.
     32.      Stýring á stofnum villtra dýra: Aðgerðir af opinberri hálfu sem miða að því að hafa áhrif á útbreiðslu eða stærð tiltekins stofns villtra dýra.
     33.      Tjón af völdum villtra dýra: Fjárhagslegt tjón sem einstaklingar, lögaðilar eða aðrir verða fyrir, heilsufarslegt tjón fólks eða búfénaðar, ógnun við öryggi t.d. flugs eða tjón á náttúru landsins og líffræðilegri fjölbreytni þess.
     34.      Varptími fugla: Tíminn frá því fuglar búa sig undir varp með því að dvelja við varpstöðvar sínar, hefja tilhugalíf og huga að hreiðurgerð, þar til ungar verða fleygir og að öðru leyti sjálfbjarga.
     35.      Válisti: Skrár yfir tegundir sem eiga undir högg að sækja eða kunna að vera í hættu í tilteknu ríki eða svæði.
     36.      Veiðar: Að drepa villt dýr eða handsama það til að deyða. Eggjataka frá villtum fuglum telst til veiða samkvæmt lögum þessum.
     37.      Virk veiðistjórnun: Kerfi sem felur í sér og samþættir:
                  a.      opinbera stefnumótun,
                  b.      rannsóknir og vöktun á veiðistofnum,
                  c.      mat á ástandi, stofnstærð, sveiflum og þróun tegunda og stofna,
                  d.      mat á veiðiþoli,
                  e.      veiðiráðgjöf,
                  f.      umsjón með og skipulagningu, stjórnun og skráningu á veiðum,
                  g.      almenningsfræðslu og
                  h.      eftirlit.
     38.      Velferð villtra dýra: Vernd villtra dýra gegn þjáningu eða sársauka af mannavöldum.
     39.      Vernd: Aðgerðir sem stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni tegunda og stofna þannig að þeir viðhaldist á náttúrulegum útbreiðslusvæðum sínum til langs tíma litið. Verndin felur í sér að veiðum eða öðrum aðgerðum, þ.m.t. skerðingu á búsvæðum, lykilbúsvæðum eða lykilstöðum, sem haft geta áhrif á viðkomu eða vanhöld dýra af tiltekinni tegund eða stofni, sé hagað á þann hátt að þeim sé ekki stefnt í hættu.
     40.      Villingar: Allir fuglar og spendýr sem fæðst hafa í haldi eða eru afkomendur slíkra dýra og lifa og æxlast í villtri eða hálfvilltri náttúru með eða án aðkomu mannsins.
     41.      Villt dýr: Allir fuglar og spendýr, önnur en gæludýr og bústofn. Villingar teljast einnig til villtra dýra. Villt dýr, sem er handsamað og haft í haldi, telst áfram villt dýr.
     42.      Vistgerðir: Staðir eða svæði með ákveðnum einkennum, t.d. hvað varðar gróður- og dýralíf, jarðveg og loftslag.
     43.      Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi, sbr. lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda þjóðlendna og afrétta.

II. KAFLI

Stjórnsýsla.

4. gr.

Yfirstjórn.

    Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til, þar á meðal stefnumörkun um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

5. gr.

Stofnanir og hlutverk þeirra.

    Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu vera ráðherra til ráðgjafar um framkvæmd laga þessara og gera tillögur til hans varðandi vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eftir því sem lögin mæla fyrir um eða ráðherra óskar sérstaklega eftir, auk þeirra verkefna sem þeim eru sérstaklega falin samkvæmt lögunum.

6. gr.

Hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands.

    Náttúrufræðistofnun Íslands rannsakar villta fugla og villt spendýr auk þess sem hún vaktar ástand þeirra, metur stofnstærð, verndarstöðu og verndarþörf tegunda. Stofnunin setur upp vöktunaráætlanir fyrir villta fugla og villt spendýr í samvinnu við aðra vöktunaraðila, sér til þess að vöktun sé viðhaldið, tekur reglulega saman niðurstöður vöktunar og birtir. Sérstakar vöktunaráætlanir skulu gerðar vegna tegunda sem friðun hefur verið létt af til nytja og veiða.
    Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur, uppfærir og birtir válista yfir villta fugla og villt spendýr sem heyra undir lög þessi. Stofnunin birtir auk þess lista yfir ábyrgðartegundir villtra fugla og villtra spendýra hér á landi.
    Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur að þeim þáttum stjórnunar- og verndaráætlunar einstakra tegunda eða stofna, sbr. 16. gr., sem heyra undir verksvið hennar.
    Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að vinna að verkefnum í samstarfi eða í samráði við náttúrustofur, háskóla eða aðra rannsóknaraðila á hlutaðeigandi sviðum eftir því sem tilefni er til.

7. gr.

Hlutverk Umhverfisstofnunar.

    Umhverfisstofnun hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd laga þessara. Stofnunin stjórnar aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á vernd tegunda, stofnstærð og útbreiðslu villtra fugla og villtra spendýra og aðgerðum til að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum.
    Umhverfisstofnun fer með veiðistjórnun, hefur umsjón með veiðum á villtum spendýrum og villtum fuglum, sér um framkvæmd námskeiða og hæfnisprófa til undirbúnings veiðum á villtum fuglum og villtum spendýrum, veitir fræðslu og leiðbeiningar vegna veiða og aðgerða til varnar tjóni, veitir fræðslu og leiðbeiningar um vernd og verndaraðgerðir, sér um útgáfu veiðikorta og veiðileyfa og veitir tímabundnar undanþágur til veiða meðal annars í því skyni að varna tjóni.
    Umhverfisstofnun hefur með höndum eftirlit með veiðum, sér um að taka saman veiðitölur, ásamt annarri söfnun upplýsinga um veiðar samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.
    Umhverfisstofnun vinnur að þeim þáttum stjórnunar- og verndaráætlunar einstakra tegunda eða stofna, sbr. 16. gr., sem heyra undir verksvið hennar og hefur jafnframt umsjón með gerð og vinnslu áætlunarinnar í heild.
    Umhverfisstofnun er heimilt að vinna að verkefnum í samstarfi eða í samráði við stofnanir, rannsóknaraðila eða hagsmunasamtök á hlutaðeigandi sviðum eftir því sem tilefni er til.

8. gr.

Samráð við hagsmunaaðila.

    Um stefnumótandi mál er varða vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skal eftir því sem við á hafa samráð við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, hreindýraráð, áhuga- og hagsmunasamtök um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, svo sem Fuglavernd og Skotveiðifélag Íslands eða aðra aðila sem hagsmuni kunna að hafa í málinu.

III. KAFLI

Vernd og velferð villtra fugla og villtra spendýra.

9. gr.

Friðun.

    Villtir fuglar og villt spendýr sem heyra undir lög þessi eru friðuð nema friðun hafi verið aflétt á grundvelli laganna eða reglna settra með stoð í þeim. Undir friðunina falla einnig þær tegundir villtra fugla og villtra spendýra sem koma reglulega á svæði sem gildissvið laganna tekur til eða berast þangað af sjálfsdáðum, auk eggja villtra fugla og hreiðra þeirra á varptíma.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð, sbr. 54. gr., að eigin frumkvæði eða að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar að kveða á um aukna vernd eða sértæka friðun ákveðinna villtra fugla og villtra spendýra ef ástæða þykir til.

10. gr.

Önnur vernd villtra fugla og villtra spendýra og búsvæða þeirra.

    Við gerð skipulagsáætlana og ákvarðana um landnotkun og ferðir almennings um náttúruna skal eins og kostur er taka tillit til villtra fugla og villtra spendýra og búsvæða þeirra, sbr. lög um náttúruvernd og skipulagslög.
    Forðast skal alla óþarfa truflun á dýralífi og röskun á búsvæðum, lykilbúsvæðum eða lykilstöðum. Eigendum eða ábyrgðaraðilum hunda og katta ber að virða friðhelgi fugla um varptímann og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að forða tjóni og röskun af þeirra völdum.
    Óheimilt er að þeyta flautur, fljúga þyrlum, flygildum eða öðrum loftförum, sigla hávaðamiklum skipum eða bátum eða vera með annan hávaða að óþörfu við selalátur á tímum kæpingar og hárfellis og á varptíma við þau fuglabjörg og fuglabyggðir sem ráðherra er heimilt að tilgreina í reglugerð skv. 54. gr., innan þeirra fjarlægðarmarka sem þar koma fram. Enn fremur er óheimilt á varptíma að hleypa af skoti á landi nær sömu stöðum en 200 m og á sjó nær en 2 km. Aldrei má skjóta fugl í fuglabjörgum, steypa undan fuglum eða ryðja fuglabjörg.
    Óheimilt er að veiða fugla í sárum og ófleyga unga. Lifandi ósærða fugla sem lenda í neti við veiðar skal ávallt greiða úr netinu og sleppa.

11. gr.

Velferð villtra fugla og villtra spendýra.

    Skylt er að sýna villtum fuglum og villtum spendýrum hvar sem er á landinu tillitssemi og forðast óþarfa truflun, röskun eða meðhöndlun
    Við alla nauðsynlega meðhöndlun eða afskipti af villtum fuglum og villtum spendýrum skal þess gætt eins og kostur er að meðferð þeirra sé réttlætanleg og að þau verði ekki fyrir óþarfa þjáningu eða hræðslu.
    Veiðar eða aflífun villtra fugla og villtra spendýra skulu vera mannúðlegar og skal ávallt reyna að aflífa dýr á skjótan og sársaukalausan hátt. Óheimilt er að valda villtu dýri óþarfa limlestingum eða kvölum.
    Óheimilt er að fanga og halda villta fugla og villt spendýr nema í því skyni að veita þeim tímabundna neyðaraðstoð eða sérstök heimild hafi fengist til þess samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum. Við lögmæta föngun villtra fugla og villtra spendýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda limlestingum eða kvölum.
    Koma skal sjúku, særðu eða bjargarlausu villtu dýri til bjargar ef þess er nokkur kostur eða tilkynna slík atvik til lögreglu. Heimilt er að aflífa slík dýr á skjótan og sem sársaukaminnstan hátt ef sýnt þykir að ekki sé unnt að veita því viðunandi bjargir.

12. gr.

Sértæk friðun og vernd hreiðurstæða arna.

    Óheimilt er frá 15. mars til 15. ágúst að koma nær arnarhreiðrum en 500 m frá hreiðurstað nema brýna nauðsyn beri til, svo sem vegna lögmætra nytja sem ekki er hægt að stunda á öðrum árstíma, enda sýni menn ýtrustu varfærni og forðist alla óþarfa truflun. Þessi takmörkun á umferð gildir bæði þar sem ernir eru að búa sig undir varp og við þau hreiður sem orpið hefur verið í og eru með eggjum eða ungum.
    Óheimilt er að hrófla við hreiðrum og hreiðurstæðum arna og svæði sem takmarkast af 100 m fjarlægð frá hreiðurstað, hvort sem er á varptíma eða utan hans. Einnig er óheimilt að koma fyrir hvers kyns búnaði í þeim tilgangi að fæla fugla frá hreiðurstæðum eða reyna að hindra þá í að verpa þar.
    Heimilt er þó að stugga við örnum sem halda til eða sjást í friðlýstum æðarvörpum, svo fremi sem fuglunum sjálfum, hreiðrum þeirra, eggjum og ungum er ekki hætta búin. Þó er óheimilt að stugga við hreiðurörnum innan 2 km frá hreiðurstað.
    Ráðherra getur veitt undanþágu frá banni skv. 1. og 2. mgr. í sérstökum tilvikum, svo sem vegna lagningar þjóðvega eða annarrar mannvirkjagerðar í almannaþágu, á grundvelli niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Náttúrufræðistofnun Íslands skal halda skrá yfir hreiðurstæði arna. Fara skal með skrána og upplýsingar úr henni sem trúnaðarmál og skulu ákvæði upplýsingalaga ekki taka til hennar. Náttúrufræðistofnun Íslands skal þó veita Umhverfisstofnun nauðsynlegar upplýsingar um arnarhreiður í tengslum við framkvæmd laga þessara, auk þess sem heimilt er að veita landeiganda upplýsingar um hreiður á eignarlandi hans, eða öðrum sem nauðsynlega þurfa á upplýsingum úr skránni að halda, t.d. í tengslum við mannvirkjagerð í almannaþágu.

13. gr.

Sértæk friðun og verndun hreiðurstæða og búsvæða annarra villtra fugla.

    Ef nauðsyn ber til er ráðherra heimilt í reglugerð, sbr. 54. gr., að eigin frumkvæði eða að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, að veita hreiðurstæðum og búsvæðum tiltekinna annarra sjaldgæfra og viðkvæmra fuglategunda, eins og t.d. fálka, sambærilega eða svipaða vernd og mælt er fyrir um í 12. gr.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð, sbr. 54. gr., að setja sérstakar umgengnisreglur um vistgerðir eða búsvæði annarra villtra fugla, t.d. á varptíma, ef sýnt þykir að ákveðnum stofni eða tegund stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða sé sérstaklega viðkvæm fyrir raski.

14. gr.

Hvítabirnir.

    Hvítabirnir eru friðaðir samkvæmt lögum þessum á landi, hafís og á sundi, sbr. þó 2. mgr.
    Sjáist hvítabjörn við ströndina eða á landi skal tafarlaust tilkynna það til lögreglu. Þrátt fyrir friðun er lögreglu í hlutaðeigandi lögregluumdæmi heimilt að taka ákvörðun um að fella hvítabjörn sem fólki getur stafað hætta af.
    Sé það mat lögreglu að ekki þurfi tafarlaust að grípa til úrræða skv. 2. mgr. vegna komu hvítabjarnar er Umhverfisstofnun heimilt að láta fanga björninn og flytja hann á stað þar sem ekki stafar hætta af honum.
    Hafi hvítabjörn verið felldur skv. 2. mgr. skal hann afhentur Náttúrufræðistofnun Íslands til athugunar og ráðstöfunar, enda greiði ríkissjóður áfallinn kostnað við að fella björninn.

IV. KAFLI

Válistar og stjórnunar- og verndaráætlanir.

15. gr.

Válistar.

    Náttúrufræðistofnun Íslands skal taka saman og birta á vef sínum válista um villta fugla og villt spendýr samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum og leiðbeiningum um gerð slíkra lista. Slíka válista skal endurmeta á fimm ára fresti eða oftar ef þörf er talin á.
    Þegar tegund eða stofn er færður af eða á válista eða flokkun tegunda eða stofns breytt á válista skal Náttúrufræðistofnun Íslands birta greinargerð með rökstuðningi, ásamt yfirliti yfir þau gögn sem ákvörðunin er byggð á þegar válisti er uppfærður.

16. gr.

Stjórnunar- og verndaráætlanir.

    Umhverfisstofnun skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, sbr. 2. mgr., taka saman og leggja fyrir ráðherra til yfirferðar, samþykktar og birtingar stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir einstakar tegundir eða stofna villtra fugla og villtra spendýra sem falla undir lög þessi.
    Náttúrufræðistofnun Íslands skal í áætluninni gera grein fyrir mati stofnunarinnar á stofnstærð, stofnþróun, útbreiðslu, viðkomu, flokkun á válista, veiðiþoli og ákjósanlegri verndarstöðu og verndarþörf hlutaðeigandi tegundar eða stofns og breytingar þar á.
    Umhverfisstofnun skal í áætluninni meðal annars leggja til nauðsynlegar verndar- og stjórnunaraðgerðir, byggðar á fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum skv. 2. mgr., til að stuðla að ákjósanlegri verndarstöðu, ásamt tillögum um hvernig standa beri að nýtingu eða veiðum ef við á og aðgerðum til þess að bregðast við tjóni.
    Við undirbúning og vinnslu áætlana samkvæmt þessari grein skal eftir því sem þörf er á leita samráðs eða samstarfs við aðrar fagstofnanir, rannsókna- eða hagsmunaaðila.
    Umhverfisstofnun skal leggja fyrir ráðherra endurskoðaða stjórnunar- og verndaráætlun fyrir einstakar tegundir eða stofna á fimm ára fresti, eða eftir atvikum oftar, með hliðsjón af sérstöðu og eiginleikum einstakra tegunda og stofnþróunar þeirra.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð, sbr. 54. gr., að mæla fyrir um gerð, birtingu og endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlana.

V. KAFLI

Aflétting friðunar villtra fugla og villtra spendýra.

17. gr.

Almenn skilyrði fyrir afléttingu friðunar vegna nytjaveiða og eggjatöku.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð, sbr. 54. gr., að aflétta friðun villtra fugla og villtra spendýra samkvæmt lögum þessum vegna nytjaveiða og eggjatöku, enda njóti umrædd tegund eða stofn ekki sértækrar friðunar eða aukinnar verndar samkvæmt þeim.
    Skilyrði fyrir afléttingu friðunar vegna nytjaveiða og eggjatöku eru eftirfarandi:
     1.      Fyrir liggi stjórnunar- og verndaráætlun hlutaðeigandi stofns eða tegundar.
     2.      Ákvörðun byggist á sjálfbærni tegundar eða stofns þannig að viðkoma yfir tiltekinn tíma sé nægileg, samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun, til þess að vega upp á móti afföllum við afléttingu friðunar, nema áætlunin geri ráð fyrir að fækka í stofninum.
     3.      Ákvörðun um afléttingu friðunar vegna nytjaveiða byggist á að veiðibráð sé þess eðlis að hún sé veidd til neyslu.

18. gr.

Aflétting friðunar vegna tjóns af völdum villtra fugla og villtra spendýra.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð, sbr. 54. gr., að aflétta friðun villtra fugla og villtra spendýra, sem ekki njóta aukinnar verndar eða sértækrar friðunar, sé talið í stjórnunar- og verndaráætlun að hætta sé á að tegundin geti valdið raunverulegu og skilgreindu tjóni á heilsu fólks eða búfénaðar, ógnað öryggi, valdið umtalsverðu fjárhagslegu tjóni einstaklinga eða lögaðila eða ógnað eða haft veruleg áhrif á náttúru landsins og líffræðilega fjölbreytni þess, sbr. XI kafla.
    Í stjórnunar- og verndaráætlunum fyrir einstakar tegundir villtra fugla og villtra spendýra sem talin eru líkleg til að valda tjóni skal lagt almennt mat á tegund tjóns, hversu mikil hætta sé á tjóni, umfang líklegs tjóns og hvort hægt sé að bregðast við hættu á tjóni með öðrum fyrirbyggjandi aðferðum en veiðum.
    Sé í stjórnunar- og verndaráætlun metið að tjón eða hætta á tjóni geti verið þess eðlis að það réttlæti veiðar í ákveðnum tilvikum, svo sem við friðlýst æðarvörp, skal gera grein fyrir í hvaða tilvikum eða við hvaða aðstæður slíkar veiðar komi til greina. Þar skal jafnframt gerð grein fyrir áætluðum áhrifum á sjálfbærni viðkomandi tegundar eða stofns og áætluðu veiðiálagi.
    Þótt friðun hafi ekki verið aflétt á einstökum tegundum á grundvelli þessarar greinar er Umhverfisstofnun heimilt að veita tíma- og staðbundnar undanþágur frá friðunarákvæðum skv. 43. gr., enda séu undanþágurnar í samræmi við samþykkta stjórnunar- og verndaráætlun.

19. gr.

Aflétting friðunar eða undanþága frá friðunarákvæðum vegna annarra atvika.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð, sbr. 54. gr., að aflétta friðun framandi tegunda og ágengra eða mögulega ágengra tegunda villtra fugla og villtra spendýra eða villinga, sem berast til landsins af mannavöldum eða á annan hátt, til að halda slíkum stofnum niðri eða útrýma úr náttúru Íslands, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar eða á grundvelli stjórnunar- og verndaráætlunar hafi hún verið gerð vegna tegundarinnar.
    Umhverfisstofnun getur, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, veitt tímabundna undanþágu frá banni við veiðum á friðlýstum svæðum þar sem friðlýsingarskilmálar eða sérlög mæla fyrir um veiðibann, eða svæðum sem njóta verndar skv. 10. gr., á tegundum sem valda tjóni skv. 18. gr., eða vegna veiða á framandi tegundum, ágengum tegundum og villingum.
    Umhverfisstofnun getur að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá friðunar- og verndarákvæðum tímabundið og í einstökum tilvikum svo sem vegna myndatöku, rannsókna eða fyrir dýragarða, enda sé sótt um hana fyrir fram. Við föngun og hald villtra fugla og villtra spendýra skal jafnframt leita umsagnar Matvælastofnunar.
    Umhverfisstofnun skal við veitingu undanþágu skv. 3. mgr. setja þau skilyrði sem hún metur nauðsynleg til að friðun eða verndun verði ekki raskað meira en þörf er á.

VI. KAFLI

Veiðar.

20. gr.

Sjálfbær nýting.

    Allar veiðar og nytjar villtra fugla og villtra spendýra, þ.m.t. hefðbundin nýting hlunninda, skulu vera sjálfbærar, nema ætlunin sé að fækka í stofninum á grundvelli 18. gr. eða 1. mgr. 19. gr.

21. gr.

Veiðistjórnun.

    Veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skulu háðar virkri veiðistjórnun. Veiðistjórnun og ákvarðanir stjórnvalda er varða hana skulu byggjast á bestu vísindalegri þekkingu á hverjum tíma á verndarstöðu, sjálfbærni og stofnstærð tegunda eða stofna, útbreiðslu og verndarstöðu búsvæðis. Sama gildir um áætlanagerð stjórnvalda, sveitarfélaga og aðila á þeirra vegum.
    Til að framfylgja stjórnunar- og verndunaráætlun er Umhverfisstofnun heimilt að grípa til aðgerða til veiðistjórnunar eftir atvikum í samráði við fagstofnanir eða hagsmunaaðila. Aðgerðir geta meðal annars falið í sér bann við veiðum á tilteknum tegundum, á tilteknum svæðum eða á tilteknum tímum.
    Aðgerðir til veiðistjórnunar geta einnig falið í sér veiðar, þ.m.t. eggjatöku eða útrýmingu ágengra eða mögulega ágengra tegunda og villinga sem valdið geta óæskilegri og verulegri breytingu á náttúru landsins eða taldar eru líklegar til að ógna eða hafa veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni, sbr. 67. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.
    Ákvarðanir Umhverfisstofnunar um veiðistjórnun á grundvelli þessarar greinar skulu birtar á vef stofnunarinnar og auglýstar eftir því sem við á.

22. gr.

Heimild til veiða.

    Íslenskum ríkisborgurum og þeim sem hafa lögheimili hér á landi eru veiðar heimilar samkvæmt lögum þessum í þjóðlendum, í efnahagslögsögunni, í landhelginni og í innsævi, utan netlaga eignarlanda.
    Leyfi til hreindýraveiða, sbr. 38. gr., veitir handhafa þess rétt til að stunda slíkar veiðar á veiðisvæðum hreindýra óháð skilyrðum 1. mgr., hvort sem er á þjóðlendum eða eignarlandi hafi landeigandi heimilað hreindýraveiðar innan þess.
    Á friðlýstum svæðum eru veiðar heimilar nema sérlög, friðlýsingarskilmálar eða stjórnunar- og verndaráætlanir sem gilda um svæðið mæli fyrir um annað.
    Allir sem stunda veiðar skulu hafa til þess gilt veiðikort ásamt veiðileyfi ef það er áskilið til veiðanna samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.

23. gr.

Réttur til veiða á eignarlandi.

    Villtir fuglar og villt spendýr eru hluti af náttúru landsins og ekki háð eignarrétti fyrr en dýr hefur verið veitt með lögmætum hætti. Landeigendur hafa rétt til veiða og ráðstöfunar veiðiréttar á eignarlandi sínu og í netlögum eignarlanda sinna og þar eru allar veiðar háðar leyfi landeiganda nema lög mæli öðruvísi fyrir. Eignarréttur á landi þar sem hreindýr halda sig veitir þó ekki rétt til veiða á hreindýrum.
    Ekki má skilja rétt til veiða að nokkru eða öllu leyti frá eignarlandi fyrir fullt og allt. En leyfilegt skal að skilja rétt til veiða frá eignarlandi um tiltekið tímabil sem ekki má vera lengra en 10 ár í senn.
    Sé eignarland í sameign skipt eftir merkjum og afnota- eða eignarskiptingu á hver sameigandi rétt til dýraveiða á og fyrir sínum landshluta eða afnotasvæði, nema samkomulag hafi orðið um aðra lögmæta skipan.
    Sé eignarland í óskiptri sameign er öllum landeigendum dýraveiðar jafnheimilar á eignarlandinu í réttu hlutfalli við afnotarétt lands nema samkomulag verði um aðra skipan.
    Þar sem stöðuvötn, firðir, vogar eða sund, sem ekki ná 230 m á breidd, skipta eignarlandi eiga eigendur veiðirétt út að miðlínu, svo og í ám og lækjum. Í stöðuvötnum, sem eru breiðari en 230 m, er landeigendum, sem land eiga að vatninu, einum heimilar veiðar í almenningi þess og eru þær þeim öllum jafnheimilar, nema lög mæli fyrir um aðra skipan. Sé forn venja til þess að réttur til fuglaveiða í almenningi stöðuvatns fylgi tilteknu eignarlandi eða tilteknum eignarlöndum gildir sú venja áfram.

24. gr.

Veiðiaðferðir.

    Við veiðar má eingöngu nota skotvopn sem heimil eru samkvæmt vopnalögum með þeim undantekningum sem upp eru taldar í þessari grein. Við fuglaveiðar er óheimilt að nota haglabyssu með hlaupvídd stærri en nr. 12. Við veiðar á hreindýrum er óheimilt að nota kúlur sem eru minni en 6,5 gr og með slagkraft minni en 180 kgm á 200 m færi.
    Við veiðar er meðal annars óheimilt að nota:
     1.      Eitur eða svefnlyf, nema útrýmingarefni til músa- og rottuveiða í samræmi við ákvæði efnalaga.
     2.      Sprengiefni, bensín eða önnur efni til þess að svæla með gasi eða reyk.
     3.      Steina, barefli, eggvopn, skutla, stunguvopn eða áþekka hluti.
     4.      Allar gerðir fótboga.
     5.      Net, nema háf til hlunnindaveiða á lunda.
     6.      Öngla eða önnur tól sem komið er fyrir í æti.
     7.      Snörur og snörufleka.
     8.      Gildrur, nema til músa-, rottu- og minkaveiða og sem hafa hlotið samþykki Umhverfisstofnunar.
     9.      Rafbúnað sem getur drepið eða rotað.
     10.      Upptöku- eða afspilunartæki og aðra rafknúna hljóðgjafa.
     11.      Fastan ljósgjafa, nema til refaveiða við æti og minkaveiða.
     12.      Búnað til að lýsa upp skotmörk, t.d. ljósabúnað festan við byssu eða ökutæki.
     13.      Spegla eða annan búnað sem blindar.
     14.      Búnað til þess að miða í myrkri með rafeindatækjum er stækka eða breyta ímyndinni. Undanskilinn er þó rafeindapunktur eða upplýstur kross í sjónauka.
     15.      Sjálfvirk skotvopn, svo og handhlaðnar fjölskota haglabyssur og hálfsjálfvirk skotvopn, með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki.
     16.      Hljóðdeyfa eða hljóðdempara, nema skotvopnið þannig útbúið uppfylli skilyrði vopnalaga.
     17.      Lifandi dýr sem bandingja eða agn við veiðar eða til þjálfunar veiðihunda, nema bendihunda utan varptíma.
     18.      Veiðihunda til þess að hlaupa uppi ósærða bráð, nema við minkaveiðar.
    Óheimilt er að nota loftför, flygildi eða önnur vélknúin farartæki við veiðar, nema báta á sjó til fuglaveiða enda gangi þeir ekki hraðar en níu sjómílur meðan á veiði stendur. Til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum á landi er einungis heimilt að nota götuskráð vélknúin farartæki og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stendur. Þau skulu einnig vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 250 metra.
    Umhverfisstofnun er heimilt að veita þeim sem varanlega eru bundnir við notkun á hjólastól, sérstaka undanþágu frá ákvæðum 3. mgr. til að skjóta frá kyrrstæðu vélknúnu farartæki á vegum eða merktum vegaslóðum, enda hafi veiðimaður í för með sér aðstoðarmann eða hund til að sækja bráð. Séu skilyrði náttúruverndarlaga um akstur á snævi þakinni og frosinni jörð utan vega uppfyllt er honum heimilt að víkja frá vegum eða merktum vegaslóðum við veiðar enda sé ekki hætta á náttúruspjöllum. Heimild samkvæmt þessari grein skal getið í veiðikorti hlutaðeigandi veiðimanns, sbr. 27. gr.
     Umhverfisstofnun er heimilt, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, að veita tímabundna undanþágu frá veiðiaðferðum og veiðitækjum skv. 1. og 2. mgr. í vísindaskyni eða ef villtir fuglar eða villt spendýr valda umtalsverðu tjóni og aðrar aðferðir eru ekki taldar henta.

25. gr.

Skyldur veiðimanna.

    Við veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er það frumskylda veiðimanns að valda veiðidýri sem minnstri þjáningu og að aflífa það með skjótum og sem sársaukaminnstum hætti.
    Særi veiðimaður dýr ber honum strax að elta það uppi og aflífa ef þess er nokkur kostur. Ákvæði þetta gildir einnig þótt sært dýr fari inn á eignarland sem veiðimaður hefur ekki leyfi til að veiða á og er þá bráð, önnur en hreindýr, eign landeiganda.
    Veiðimanni er skylt að hirða bráð sína.

VII. KAFLI

Hæfnispróf veiðimanna og veiðikort.

26. gr.

Hæfnispróf veiðimanna.

    Þeir sem stunda veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skulu hafa staðist próf um villta fugla og villt spendýr og umhverfi þeirra og í hæfni til veiða í samræmi við lög þessi og reglur settar samkvæmt þeim.
    Umhverfisstofnun semur námskrá, setur mörk og viðmið um fullnægjandi árangur á prófi og heldur námskeið til undirbúnings hæfnisprófum. Umhverfisstofnun er heimilt að fela aðilum, sem hafa til þess þekkingu og reynslu að mati stofnunarinnar, að halda slík námskeið í sínu umboði.
    Umhverfisstofnun er heimilt að veita þeim sem óskar eftir veiðikorti, sem eingöngu gildir til töku eggja eða til annarra veiða en skotveiða, undanþágu frá hæfnisprófum veiðimanna skv. 1. og 2. mgr.

27. gr.

Útgáfa veiðikorta.

    Allir sem stunda veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eða eggjatöku villtra fugla, skulu hafa til þess gilt veiðikort sem Umhverfisstofnun gefur út til eins árs í senn. Umhverfisstofnun er heimilt að ákveða að málsmeðferð vegna veiðikorta og útgáfa veiðikorta samkvæmt þessari grein sé rafræn.
    Veiðikorthafar skulu hafa náð þeim aldri sem vopnalög mæla fyrir um til að hljóta almennt skotvopnaleyfi en heimilt er að veita þeim sem orðin eru 16 ára veiðikort sem eingöngu gildir til töku eggja og annarra veiða en skotveiða.
    Á veiðikorti skal getið nafns handhafa, gildistímabils og þeirra tegunda sem viðkomandi hefur heimild til að veiða ef við á, rétt til nýtingar ákveðinna hlunninda eða eggjatökuheimildar og á hvaða landareign hafi hann rétt til nýtingar hlunninda. Korthafi skal ætíð bera kortið á sér á veiðum, við nýtingu hlunninda eða við eggjatöku og skal framvísa því ef óskað er.
    Veiðikort þarf ekki til músaveiða í og við híbýli né rottuveiða.

28. gr.

Veiðiskýrslur.

    Eigi síðar en 1. apríl ár hvert skal veiðikortshafi skrá og skila til Umhverfisstofnunar þar til gerðri skýrslu um undangengið veiðiár sem telst frá 1. janúar til 31. desember. Veiðiskýrslu skal einnig skila vegna hlunnindaveiða og eggjatöku þar sem fram skal koma fjöldi og tegund eggja og á hvaða landsvæði eða jörð þau voru tínd. Hafi villtir fuglar drepist við netaveiðar í vötnum eða ám skal skila inn þar til gerðri skýrslu um fjölda og tegundir þeirra til Umhverfisstofnunar.
    Umhverfisstofnun skal innan árs birta veiðitölur síðasta veiðiárs á vef sínum eða með öðrum opinberum hætti.
    Ef veiðiskýrslu frá fyrra veiðitímabili hefur ekki verið skilað er útgáfa nýs veiðikorts óheimil næsta veiðitímabil. Ef veiðiskýrsla berst eftir lögmæltan skiladag hækkar gjald í ríkissjóð fyrir útgáfu nýs veiðikorts um 40%.

VIII. KAFLI

Fuglaveiðar.

29. gr.

Nytjaveiðar á fuglum.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð, sbr. 54. gr., að aflétta friðun eftirtalinna fuglategunda, sbr. 17. gr., innan þeirra tímamarka sem hér segir:
     1.      Frá 20. ágúst til 31. mars: grágæs, heiðagæs.
     2.      Frá 1. september til 31. mars: dílaskarfur, toppskarfur, súla, blesgæs, helsingi, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd, skúfönd, hávella, toppönd, rita.
     3.      Frá 1. september til 10. maí: álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi.
     4.      Frá 15. október til 22. desember: rjúpa.
     5.      Frá 1. júlí til 15. ágúst: hlunnindaveiðar lunda í háf skv. 34. gr.
    Heimilt er að takmarka veiðar á tegund við ákveðna daga innan þeirra tímamarka sem fram koma í 1. mgr., ákveðinn tíma dags og við tiltekin landsvæði.
    Ráðherra er með reglugerð, sbr. 54. gr., heimilt að aflétta friðun á eggjum fugla sem ekki njóta sértækrar friðunar eða aukinnar verndar, óháð þeim tegundum sem upp eru taldar í 1. mgr., enda þoli stofninn slíka eggjatöku samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlunum.
    Nú hefur ráðherra ákveðið að aflétta friðun skv. 1. mgr. og getur hann þá að ósk Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, sveitarstjórnar eða annarra aðila ákveðið að friðun gildi áfram í tiltekinn tíma á ákveðnum svæðum þar sem veiði er talin óæskileg.

30. gr.

Merking á villtum dýrum.

    Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ein heimild til að láta merkja villta fugla og villt spendýr á Íslandi og getur veitt öðrum heimild til slíkra merkinga samkvæmt reglum sem hún setur.
    Hverjum þeim sem finnur eða handsamar merktan fugl eða merkt spendýr ber að senda merkið eða staðsetningartæki, hvort sem það er íslenskt eða erlent, til Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt nánari upplýsingum um fundinn.

IX. KAFLI

Nýting hlunninda.

31. gr.

Almennt um nýtingu hlunninda.

    Til hlunninda telst réttur landeiganda samkvæmt lögum þessum til veiða á villtum fuglum, nýtingu á dún þeirra eða eggjum. Nýting hlunninda skal byggjast á því að viðkomandi tegund eða stofn sé sjálfbær og standi undir nýtingu.
    Sá sem rétt hefur til nýtingar hlunninda á landi sínu samkvæmt þessum kafla skal hafa til þess gilt veiðikort ætli hann að nýta önnur hlunnindi jarðarinnar en dúntekju. Í veiðikortinu skal tilgreindur sá réttur sem hann hefur til nýtingar hlunninda og svæðisbundin mörk hans. Réttur til nýtingar hlunninda gildir fyrir handhafa veiðikortsins og þá aðstoðarmenn sem landeigandi telur nauðsynlegt að hafa með í för til nýtingar hlunnindanna.
    Sá sem telur sig eiga rétt til nýtingar staðbundinna hlunninda skv. 34. gr. skal afla staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar og sýslumanns á slíkum rétti og skila til Umhverfisstofnunar, enda liggi slík staðfesting ekki þegar fyrir. Sé uppi ágreiningur um rétt þennan sker ráðherra úr ágreiningnum.

32. gr.

Æðarvarp.

    Landeigandi eða sá sem lögmætan rétt hefur til æðarvarps er heimilt að fara fram á sérstaka friðlýsingu æðarvarpsins og nánasta umhverfis þess.
    Sýslumaður í því umdæmi sem æðarvarpið er í skal annast friðlýsingu þess og skal hún gilda í 10 ár frá birtingu ákvörðunar í Lögbirtingarblaði. Skal í umsókn um friðlýsingu tilgreina staðsetningu og mörk varpsins og sýna svæðið skýrt á viðurkenndu korti eða loftmynd. Umsækjandi ber kostnað vegna friðlýsingarinnar.
    Uppfærð skrá um friðlýst æðarvörp í umdæminu skal liggja frammi á skrifstofu sýslumanns og á vef embættisins og skal sýslumaður jafnframt tilkynna allar breytingar á skránni til hlutaðeigandi sveitarstjórnar, Bændasamtaka Íslands og Umhverfisstofnunar sem heldur utan um og birtir yfirlit yfir friðlýst æðarvörp á landsvísu á vef sínum.
    Á tímabilinu 15. apríl til 14. júlí eru öll skot bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema um sé að ræða skot landeiganda eða lögmæts rétthafa æðarvarpsins í því skyni að verja æðarvarpið á grundvelli heimilda samkvæmt lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim. Bannsvæðið skal þó ekki ná lengra en 1 km inn á eignarlönd annarra nema að fengnu samþykki þeirra.
    Á tímabilinu 1. apríl til 14. júlí er óheimilt án leyfis landeiganda eða lögmæts rétthafa æðarvarps að leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli. Á sama tímabili er öll óviðkomandi umferð bönnuð um friðlýst æðarvarp nema með heimild landeiganda eða lögmæts rétthafa æðarvarps.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð á grundvelli 54. gr. að mæla frekar fyrir um friðlýsingu æðarvarpa ásamt heimildum til handa landeiganda eða rétthafa friðlýsts æðarvarps til að verjast tjóni af völdum villtra fugla og villtra spendýra innan marka æðarvarpsins.

33. gr.

Eggjataka.

    Almenningi í þjóðlendum og landeigendum á eignarlöndum er heimilt fyrir 15 júní að taka egg silfurmáfs, sílamáfs, svartbaks, hvítmáfs og hettumáfs.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð, sbr. 54. gr., að fjölga þeim tegundum sem falla undir ákvæði þetta, sé talið að tegundirnar þoli eggjatöku með sjálfbærum hætti samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun.

34. gr.

Staðbundin nýting hefðbundinna hlunninda.

    Á takmörkuðum svæðum, þar sem veiði fullvaxinna lunda í háf hefur talist til hefðbundinna hlunninda, skal landeiganda heimil slík veiði samkvæmt hefð sem gilt hefur, enda hafi friðun verið aflétt skv. 29. gr.
    Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggjataka í varpi kríu, fýls, ritu, álku, langvíu og stuttnefju hefur talist til hefðbundinni hlunninda er landeiganda heimil taka slíkra eggja.
    Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggjataka í varpi grágæsa og heiðagæsa hefur talist til hefðbundinna hlunninda er eggjataka landeiganda heimil, en þá skulu eigi færri en tvö egg skilin eftir í hreiðri.
    Á takmörkuðum svæðum, þar sem hefðbundið andarvarp er mikið, skal landeiganda heimilt að taka egg frá eftirtöldum andartegundum: æðarfugli, stokkönd, rauðhöfðaönd, urtönd, duggönd, skúfönd, hávellu, húsönd og toppönd. Við slíka eggjatöku skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri.
    Halda skal truflun vegna eggjatökunnar í algeru lágmarki. Egg sem tekin eru á grundvelli heimilda þessarar greinar má hvorki bjóða til sölu, selja eða kaupa nema talið sé að hlutaðeigandi stofn eða tegund þoli slík viðskipti með sjálfbærum hætti skv. 48. gr.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð, sbr. 54. gr., að friða tímabundið einstakar tegundir eða stofna fyrir eggjatöku skv. 33. gr. og 2.–4. mgr. 34. gr., eða setja henni sérstök skilyrði, enda sé talið að eggjatakan hafi neikvæð áhrif á stofnstærð hlutaðeigandi fuglategundar eða stofns samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun.

X. KAFLI

Hreindýraveiðar.

35. gr.

Stjórnun hreindýraveiða.

    Umhverfisstofnun gerir tillögu til ráðherra um árlegan veiðikvóta hreindýra og um skiptingu hans milli veiðisvæða og tilhögun veiða að fengnum tillögum Náttúrustofu Austurlands og hreindýraráðs þar að lútandi.
    Ráðherra ákveður árlega fjölda þeirra dýra sem fella má, eftir aldri, kyni og veiðisvæðum og tilhögun veiða og birtir með opinberri auglýsingu að jafnaði eigi síðar en 15. janúar ár hvert.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð, sbr. 54. gr., að mæla nánar fyrir um stjórn og skipulag mála við hreindýraveiðar á grundvelli þessa kafla laga þessara.

36. gr.

Hreindýraráð.

    Ráðherra skipar fjóra fulltrúa í hreindýraráð. Hlutverk ráðsins er að vera Umhverfisstofnun til ráðgjafar um vernd, veiðar og nýtingu hreindýrastofnsins.
    Ráðið skal ár hvert gera tillögu til Umhverfisstofnunar um skilgreiningu ágangssvæða hreindýra og veita stofnuninni umsögn um tillögur Náttúrustofu Austurlands um árlegan veiðikvóta, skiptingu hans milli veiðisvæða og tilhögun veiða.
    Formaður ráðsins sem hafa skal þekkingu á málaflokknum er skipaður án tilnefningar, Búnaðarsamband Austurlands og Búnaðarsamband Austur-Skaftafellssýslu tilnefna einn fulltrúa hvort og sveitarfélög á veiðisvæði hreindýra einn fulltrúa. Fulltrúar Náttúrustofu Austurlands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum og Skotveiðifélags Íslands er heimilt að sitja fundi hreindýraráðs og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
    Verði atkvæði jöfn á fundum ráðsins ræður atkvæði formanns.


37. gr.

Náttúrustofa Austurlands.

    Náttúrustofa Austurlands annast vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum og mat á veiðiþoli samkvæmt samningi við Náttúrufræðistofnun Íslands og gerir tillögur um árlegan veiðikvóta, skiptingu hans eftir veiðisvæðum og tilhögun veiða.
    Náttúrustofa Austurlands gerir hreindýraráði, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands grein fyrir niðurstöðu sinni.

38. gr.

Heimild til veiða á hreindýrum.

    Umhverfisstofnun úthlutar og selur leyfi til hreindýraveiða til veiðimanna sem hafa gilt veiðikort og skotvopnaleyfi með B-réttindum, samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Stofnuninni er heimilt að ákveða að málsmeðferð og leyfisveitingar samkvæmt þessari grein fari fram rafrænt.

39. gr.

Verklegt skotpróf.

    Áður en veiðimaður fer til hreindýraveiða skal hann á síðustu tólf mánuðum hafa staðist verklegt skotpróf sem Umhverfisstofnun skal halda fyrir hreindýraveiðimenn og leiðsögumenn. Umhverfisstofnun er heimilt að fela öðrum hæfum aðilum framkvæmd verklegra skotprófa svo sem rekstraraðilum skotvalla eða skotfélögum.
    Staðfesting á að veiðimaður hafi lokið og staðist verklegt skotpróf skal hafa borist Umhverfisstofnun áður en stofnunin gefur út leyfi til hreindýraveiða til hlutaðeigandi veiðimanns.

40. gr.

Leiðsögumenn með hreindýraveiðum.

    Allir sem stunda hreindýraveiðar skulu vera í fylgd með leiðsögumanni sem fengið hefur til þess leyfi Umhverfisstofnunar. Leyfi skal veitt til allt að fjögurra ára í senn og miðast við tiltekin veiðisvæði.
    Til að geta hlotið leyfi sem leiðsögumaður þarf leiðsögumaður að uppfylla eftirfarandi skilyrði og skila inn viðeigandi gögnum til staðfestingar að hann hafi:
     1.      Skotvopnaleyfi með B-réttindum og veiðikort.
     2.      Staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum.
     3.      Þekkingu og reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra.
     4.      Sjálfur veitt a.m.k. tvö hreindýr.
     5.      Tvisvar á sama veiðitímabili leiðsagt með hreindýraveiðum þar sem dýr er veitt undir handleiðslu reynds og starfandi leiðsögumanns sem valinn er af Umhverfisstofnun.
     6.      Á síðustu tveimur árum sótt skyndihjálparnámskeið sem viðurkennt er af Umhverfisstofnun.
     7.      Líkamlega færni til starfans samkvæmt læknisvottorði.
     8.      Sótt námskeið á vegum Umhverfisstofnunar fyrir leiðsögumenn og lokið prófi í því með fullnægjandi árangri.
    Umhverfisstofnun er heimilt að endurnýja leyfi samkvæmt þessari grein enda skili umsækjandi inn staðfestingu á að hann uppfylli skilyrði 1., 2., 6., og 7. tölul. 2. mgr., hann hafi leiðsagt í a.m.k. tíu ferðum yfir gildistíma síðasta leyfis, auk staðfestingar á að hann hafi setið endurmenntunarnámskeið Umhverfisstofnunar.
    Umhverfisstofnun semur námskrá og setur mörk og viðmið um fullnægjandi árangur á prófi fyrir leiðsögumenn í samráði við Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum.
    Umhverfisstofnun heldur námskeið til undirbúnings leyfi fyrir verðandi leiðsögumenn í samráði við hreindýraráð á að a.m.k. 4 ára fresti og skal stofnunin tryggja með slíkum námskeiðum að eðlileg nýliðun verði í hópi leiðsögumanna á öllum veiðisvæðum hreindýra.
    Umhverfisstofnun er heimilt að fela aðilum, sem hafa til þess þekkingu og reynslu að mati stofnunarinnar, að halda slík námskeið í sínu umboði.

41. gr.

Hlutverk og skyldur leiðsögumanna.

    Hlutverk leiðsögumanna með hreindýraveiðum er að fylgja veiðimanni um veiðisvæði, hjálpa honum að þekkja þau dýr sem hann má veiða, sjá til þess að veiðimaður fari rétt að við veiðarnar, skrái þær upplýsingar í veiðiskýrslur sem krafist er og skili inn rétt útfylltum veiðiskýrslum. Leiðsögumanni ber að sjá til þess að veiðar séu í samræmi við lög og reglur.
    Særi veiðimaður dýr og ekki eru yfirgnæfandi líkur á því að mati leiðsögumanns að hann nái að fella það svo fljótt sem auðið er, skal leiðsögumanni sjálfum skylt að aðstoða veiðimann við að koma skoti á hið særða dýr. Leiðsögumaður skal einnig fella önnur illa særð dýr af völdum veiða sem verða á vegi hans á veiðislóð og eiga sér takmarkaða lífsvon. Tilkynna skal slík tilvik til Umhverfisstofnunar sem fær eignarráð yfir dýrinu og tekur ákvörðun um förgun þess eða aðra ráðstöfun.
    Leiðsögumanni með hreindýraveiðum er heimilt að taka ákvörðun um að nota sexhjól til að sækja hreindýr sem fellt hefur verið fjarri vegum eða vegaslóðum, enda sé ekki talin hætta á náttúruspjöllum samkvæmt leiðbeinandi reglum sem Umhverfisstofnun skal gefa út á grundvelli þessa ákvæðis. Heimild til slíks aksturs utan vega og vegaslóða nær hvorki til einstakra veiðimanna né til sjálfrar leiðsagnarinnar. Tilkynna skal Umhverfisstofnun um slíka för áður en bráð er sótt eða við fyrsta tækifæri eftir slíka för, auk þess sem gera skal grein fyrir henni í veiðiskýrslum.
    Brjóti leiðsögumaður gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eða skotvopnalögum, getur Umhverfisstofnun veitt honum áminningu eða svipt hann leyfi til leiðsagnar, enda séu sakir alvarlegar eða ítrekaðar. Hafi leiðsögumaður verið sviptur leyfi til leiðsagnar er honum heimilt að sækja um slíkt leyfi að nýju, enda uppfylli hann skilyrði 2. mgr. 40. gr. og hafi sótt á ný og lokið prófi, skv. 8. tölul. sömu greinar.

XI. KAFLI

Veiðar til varnar tjóni.

42. gr.

Leiðbeiningar til varnar tjóni og tilkynning um tjón.

    Umhverfisstofnun veitir fræðslu og leiðbeiningar um aðgerðir til varnar tjóni af völdum villtra fugla og villtra spendýra.
    Umhverfisstofnun skal á vef stofnunarinnar taka á móti og skrá tilkynningar sem stofnuninni berast frá almenningi eða lögaðilum um tjón sem hlutaðeigandi telur sig hafa orðið fyrir vegna villtra fugla og villtra dýra. Umhverfisstofnun getur með samningi falið náttúrustofum eða öðrum hæfum aðilum verkefni samkvæmt þessari grein.

43. gr.

Undanþága frá friðunarákvæðum.

    Umhverfisstofnun er heimilt að veita tímabundna og skilyrta undanþágu til veiða, þ.m.t. eggjatöku, á tiltekinni tegund villtra fugla og villtra spendýra, sem ekki nýtur aukinnar eða sértækrar friðunar, enda sé sýnt fram á raunverulega og skilgreinda hættu á tjóni af völdum tegundarinnar í ákveðnum tilvikum, á tilteknum stöðum eða svæðum, enda sé undanþágan í samræmi við samþykkta stjórnunar- og verndaráætlun um hlutaðeigandi tegund.
    Minkar, rottur, svo og mýs í og við híbýli eru undanþegin friðunar- og verndarákvæðum laga þessara, en reynt skal að tryggja skjóta og sársaukalausa aflífun þeirra.

44. gr.

Refir.

    Í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir refi skal gerð grein fyrir stofnstærð, stofnþróun, verndarstöðu, útbreiðslu og viðkomu íslenska refastofnsins og stöðu hans í lífríki og líffræðilegri fjölbreytni landsins.
    Í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir refi skal gera grein fyrir því tjóni sem refir kunna að valda og hvernig best sé að bregðast við hættu á því. Metið skal hvort aflétta skuli friðun refa á tilteknum svæðum landsins auk þess sem lagt skal til hvernig haga skuli veiðum á ref til að takmarka tjón af hans völdum og um forgangsröðun svæða landsins á grundvelli þess.
    Á þeim svæðum þar sem refaveiðar eru taldar nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón, er sveitarstjórn skylt að ráða skotmenn með kunnáttu til refaveiða.
    Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með framkvæmd veiða á grundvelli 2. og 3. mgr. Að fengnum árlegum skýrslum um veiðarnar er stofnuninni heimilt að endurgreiða sveitarfélögum allt að helming kostnaðar við veiðarnar á grundvelli reglugerðar sem ráðherra er heimilt að setja, sbr. 54. gr., og eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.

45. gr.

Refagreni.

    Óheimilt er að eyðileggja refagreni.
    Sveitarstjórnir skulu halda skrá yfir öll þekkt greni í sínu umdæmi ásamt lýsingu á þeim og skulu afrit af skránum varðveitt hjá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Ákvæði upplýsingalaga gilda ekki um slíka skráningu.
    Þeim sem ráðnir hafa verið til refaveiða skv. 44. gr. og þeim sem fá heimild til refaveiða skv. 43. gr. er óheimilt að skilja eftir æti eða agn á veiðistöðum að veiðum loknum. Ekki má láta hunda hlaupa um á greni á grenjatímanum né hafa þar óþarfa umgang.

XII. KAFLI

Framandi dýrategundir, ágengar framandi dýrategundir og villingar.

46. gr.

Eftirlit og aðgerðir.

    Umhverfisstofnun hefur með höndum eftirlit með innflutningsleiðum og útbreiðslu framandi dýrategunda og villinga sem heyra undir lög þessi og leggur til við ráðherra aðgerðir til þess að hefta útbreiðslu þeirra.
    Umhverfisstofnun getur að fengnu áliti Náttúrufræðistofnunar Íslands lagt til við ráðherra, eða í stjórnunar- og verndaráætlun, að framandi dýrategundum, ágengum framandi dýrategundum og villingum sé útrýmt, annaðhvort á landsvísu eða á tilteknum svæðum.
    Umhverfisstofnun skal skipuleggja aðgerðir sem teknar eru á grundvelli 2. mgr. í samvinnu við sveitarfélög.

47. gr.

Minkar.

    Í stjórnunaráætlun vegna minka skal lagt mat á þau svæði landsins þar sem lífríki og tegundum dýra stafar mest hætta af tjóni af völdum minka. Í henni skal leggja fram tillögur til ráðherra um hvernig nauðsynlegt er að haga veiðum á mink til að útrýma megi honum úr náttúru landsins eða takmarka eins og unnt er útbreiðslu og tjón af völdum hans og um forgangsröðun svæða landsins á grundvelli tillagnanna.
    Á þeim svæðum þar sem minkaveiðar eru taldar nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón, er sveitarstjórn skylt að ráða kunnáttumenn til minkaveiða.
    Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með framkvæmd veiða á grundvelli 1. og 2. mgr. Að fengnum árlegum skýrslum um veiðarnar er stofnuninni heimilt að endurgreiða sveitarfélögum allt að helming kostnaðar við veiðarnar á grundvelli reglugerðar sem ráðherra er heimilt að setja, sbr. 54. gr., og eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.
    Minkar njóta ekki friðunar eða verndar samkvæmt lögum þessum en reynt skal að tryggja skjóta og sársaukalausa aflífun. Veiðar á mink eru öllum heimilar sem hafa veiðikort.

XIII. KAFLI

Sala á veiðifangi og eggjum. Starfsemi hamskera.

48. gr.

Sala á veiðibráð eða öðrum afurðum villtra dýra.

    Við afléttingu á friðun villtra fugla og villtra spendýra samkvæmt lögum þessu skal ráðherra á grundvelli stjórnunar- og verndaráætlunar taka ákvörðun um það hvort hlutaðeigandi stofn eða tegund þoli sölu á veiðibráð eða öðrum afurðum, þ.m.t. eggjum, á sjálfbæran hátt eða hvort slík sala skuli ekki heimiluð.
    Telji ráðherra að hlutaðeigandi stofn eða tegund þoli ekki slíka sölu er honum heimilt í reglugerð, sbr. 54. gr., að banna öll viðskipti, sbr. 3. mgr., með veiðibráð eða afurðir hennar.
    Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja veiðibráð eða aðrar afurðir villtra dýra, þ.m.t. uppstoppuð dýr og fugla, eða egg fugla sem falla undir lög þessi og sala hefur verið bönnuð á. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi eða vöru- eða þjónustuskipti.
    Ekki er heimilt að flytja út, gefa, bjóða til sölu eða selja fugla sem drepast í netum við veiðar óháð því hvort sala hlutaðeigandi tegundar sé heimil skv. 2. mgr.
    Þó að sala á tilteknu veiðifangi og eggjum sé ekki heimiluð gildir það þó ekki um dún sem aflað er með lögmætum hætti samkvæmt lögum þessum, né um innflutta veiðibráð eða aðrar afurðir villtra fugla og villtra spendýra, þ.m.t. egg þeirra tegunda sem bannið tekur til.
    Innflytjanda og seljanda ber að tryggja að bæði innlend og innflutt veiðibráð eða aðrar afurðir villtra fugla og villtra spendýra séu þannig merktar að fram komi í hvaða landi þær eru upprunnar.

49. gr.

Starfsemi hamskera.

    Einungis er heimilt að setja upp villta fugla og villt spendýr sem hafa drepist af náttúrulegum orsökum og villta fugla og villt spendýr sem eru löglega veidd samkvæmt lögum þessum.
    Þeir aðilar sem stunda hamskurð dýra skulu skrá starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun.
    Hamskerar skulu skrá alla villta fugla og villt spendýr sem þeir setja upp og geta hvar og hvernig dýrið fannst eða var veitt og afhenda Umhverfisstofnun slíka skrá þegar eftir því er leitað.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð, sbr. 54. gr., að mæla fyrir um tilkynningu og skil á ákveðnum tegundum friðaðra villtra fugla og villtra spendýra sem finnast dauð eða ósjálfbjarga. Afhenda má finnanda slíkt dýr eftir rannsóknir á því, til uppsetningar og varðveislu, ef í ljós kemur að það hefur ekki verið drepið af mannavöldum eða hið ósjálfbjarga dýr drepst í haldi.
    Ráðherra er einnig heimilt í reglugerð, sbr. 54. gr., að mæla fyrir um skyldu til örmerkingar á hömum sjaldgæfra friðaðra tegunda eða tegunda sem metnar eru í hættu á válistum.

XIV. KAFLI

Eftirlit og framkvæmd eftirlits.

50. gr.

Eftirlit.

    Umhverfisstofnun annast og hefur umsjón með eftirliti með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.
    Umhverfisstofnun getur með samningi falið öðrum stjórnvöldum einstaka þætti eftirlits samkvæmt lögum þessum. Í þeim tilvikum sem Umhverfisstofnun hefur gert samning um framkvæmd eftirlits hefur viðkomandi sömu heimildir til skoðunar og eftirlits og Umhverfisstofnun samkvæmt þessum kafla laganna.
    Umhverfisstofnun skal sinna veiðivörslu á landinu öllu á samræmdan hátt. Í veiðivörslu felst almennt eftirlit með veiðum í samræmi við eftirlitsáætlun skv. 51. gr.

51. gr.

Eftirlitsáætlun.

    Til að tryggja yfirsýn með framkvæmd laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim skal Umhverfisstofnun útbúa eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn vegna eftirlits með veiðum og annarri framkvæmd laganna og gæta sérstaklega að skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti.
    Umhverfisstofnun skal upplýsa og eiga samráð við hlutaðeigandi lögregluembætti um fyrirhugað eftirlit innan umdæma þeirra á grundvelli eftirlitsáætlunarinnar og um einstök eftirlitsverkefni stofnunarinnar.
    Að öðru leyti skal gæta trúnaðar um eftirlitsáætlunina og taka upplýsingalög ekki til áætlunarinnar fyrr en að loknum gildistíma hennar.


52. gr.

Heimildir Umhverfisstofnunar og upplýsingaskylda.

    Sérstaklega auðkenndum starfsmönnum Umhverfisstofnunar er heimilt að hafa afskipti af veiðimönnum á veiðislóð í þeim tilgangi að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara.
    Við skoðun og eftirlit skulu veiðimenn veita allar umbeðnar upplýsingar sem hafa þýðingu við eftirlitið. Í því felst meðal annars að veiðimenn framvísi veiðikorti, skotvopnaleyfi, leyfi til hreindýraveiða, og eftir atvikum leyfi til að stunda leiðsögn með hreindýraveiðum, sbr. 40. gr. Veiðimenn skulu jafnframt framvísa veiðibráð og veiðibúnaði sé eftir því óskað.
    Umhverfisstofnun skal við framkvæmd eftirlits leita aðstoðar lögreglu hafi hún rökstuddan grun um að framið hafi verið brot sem rannsaka þurfi frekar eða hún telji það nauðsynlegt til að framfylgja heimildum samkvæmt þessarar grein.

XV. KAFLI

Réttarfar, refsingar og viðurlög.

53. gr.

Um refsingar.

    Hver sem brýtur gegn ákvæðum laga þessara skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef:
     a.      friðun og vernd arna eða hreiðurstæða þeirra er raskað,
     b.      friðun og vernd fuglabjarga, fuglabyggða og selalátra er raskað,
     c.      friðun og vernd refagrenja er raskað,
     d.      valdið er ólögmætri eða tilefnislausri truflun eða röskun á mikilvægum búsvæðum villtra fugla og villtra spendýra,
     e.      veiddar eru tegundir eða tínd eru egg tegunda sem njóta friðunar samkvæmt lögum þessum,
     f.      veiðar eða eggjataka er stunduð utan leyfilegs tíma,
     g.      veiðar eru stundaðar á svæðum sem eru friðuð fyrir veiðum samkvæmt lögum þessum,
     h.      veiðar eru stundaðar á svæðum sem eru friðlýst vegna dýralífs eða á öðrum friðlýstum svæðum þar sem friðlýsingarskilmálar eða sérlög mæla fyrir um veiðibann,
     i.      stundaðar eru veiðar samkvæmt lögum þessum án þess að fyrir hendi sé gilt veiðikort eða veiðileyfi,
     j.      notaðar eru veiðiaðferðir sem andstæðar eru 24. gr.,
     k.      veiðimaður veldur veiðidýri tilefnislausri, óheimilli og óþarfri þjáningu eða brýtur með öðrum hætti gegn skyldum sínum sem veiðimanns samkvæmt lögum þessum eða hirðir vísvitandi ekki upp veiðibráð sína,
     l.      brotið er gegn ákvæðum laga þessara um útflutning eða sölu á veiðibráð, eggjum eða öðrum dýraafurðum og um starfsemi hamskera,
     m.      hann hefur undir höndum ólöglega veidda friðaða fugla eða villt spendýr samkvæmt lögum þessum eða friðaða villta fugla og villt spendýr sem skylt er að tilkynna um skv. 4. mgr. 49. gr. en ekki hefur verið tilkynnt um,
     n.      hann hafnar að veita sérstaklega auðkenndum starfsmönnum Umhverfisstofnunar þær upplýsingar eða gögn sem mælt er fyrir um í 52. gr. við framkvæmd eftirlits.
    Refsing getur einnig falið í sér sviptingu veiðikorts, skotvopna- og veiðileyfis.
    Virða skal það refsingu til þyngingar ef brot er stórfellt eða um ásetningsbrot er að ræða. Sama gildir ef brot beinist gegn sjaldgæfum eða fágætum villtum fugla- eða spendýrategundum, mikilvægum nytjategundum eins og æðarfugli eða svæðum sem njóta sérstakrar verndar eða friðunar samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum.
    Gera má lögaðila sekt fyrir brot gegn 48. og 49. gr. Um refsiábyrgðina fer eftir II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Tilraun til brota gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra varða refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Hið sama gildir um hlutdeild í brotum.
    Gera má upptækt til ríkissjóðs: Ólöglegt veiðifang, egg eða eggjaskurn, friðaða villta fugla og villt spendýr og afurðir þeirra sem skylt er að tilkynna um en ekki hefur verið gert, sbr. 4. mgr. 49. gr., skotvopn, veiðitæki og annan ólögmætan búnað sem notaður hefur verið við framkvæmd brots, veiðifang sem boðið er til sölu eða selt í bága við sölubann 48. gr. svo og hagnað af ólöglegri veiði og sölu framangreindra afurða. Ekki er það upptöku til fyrirstöðu þótt annar sé eigandi veiðitækis eða annars sem upptaka er heimil á en sá sem sekur hefur reynst um brot á lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra. Að öðru leyti skal fara um eignaupptöku samkvæmt ákvæðum 69. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1940.

XVI. KAFLI

Reglugerðarheimildir, gjaldtökuákvæði, úthlutun arðs af hreindýraveiðum og gildistaka.

54. gr.

Setning reglugerða.

    Ráðherra er heimilt í reglugerð að mæla fyrir um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     a.      sértæka friðun eða aukna vernd ákveðinna villtra fugla og villtra spendýra, vistgerða þeirra og búsvæða skv. 9. og 13. gr.,
     b.      tilgreiningu mikilvægra fuglabjarga, fuglabyggða og selalátra sem njóta aukinnar verndar gegn athöfnum sem taldar eru upp í 3. mgr. 10. gr.,
     c.      stjórnunar- og verndaráætlanir skv. 16. gr.,
     d.      ákvörðun um að aflétta friðun einstakra tegunda villtra fugla vegna nytjaveiða, skv. 17. og 29. gr.,
     e.      ákvörðun um að aflétta friðun framandi tegunda og ágengra eða mögulega ágengra tegunda villtra fugla og villtra spendýra eða villinga, skv. 1. mgr. 19. gr.,
     f.      eggjatöku frá villtum fuglum skv. 3. mgr. 29. gr., 33. og 34. gr.,
     g.      friðlýsingu æðarvarps og heimild landeiganda eða umráðamanns til að verjast tjóni villtra fugla og villtra spendýra innan marka æðarvarpsins skv. 32. gr.,
     h.      stjórn og skipulag mála við hreindýraveiðar, skv. X. kafla,
     i.      veiðar á ref og greiðslu kostnaðar vegna þess, sbr. 44. gr.,
     j.      veiðar á mink og greiðslu kostnaðar vegna þess, sbr. 47. gr.,
     k.      bann við sölu á veiðibráð eða öðrum afurðum og eggjum villtra fugla og villtra spendýra, skv. 48. gr.,
     l.      tilkynningu og skil á ákveðnum tegundum friðaðra villtra fugla og villtra spendýra sem finnast dauð eða ósjálfbjarga og um örmerkingar, skv. 49. gr.,
     m.      gjaldtöku, skv. 55. gr.

55. gr.

Gjaldtaka.

    Í reglugerðum skv. 54. gr. laganna má ákveða gjald fyrir eftirfarandi veitta þjónustu eða leyfi:
     1.      Fyrir útgáfu og endurnýjun veiðikorts. Gjaldið skal nema 6.900 kr. og rennur það í ríkissjóð.
     2.      Vegna hæfnisprófa veiðimanna og fyrir námskeið til undirbúnings þeirra, sbr. 26. gr.
     3.      Verkleg skotpróf vegna hreindýraveiða, sbr. 39. gr.
     4.      Útgáfu eða endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum, 40. gr.
     5.      Undanþágu frá friðunarákvæðum, sbr. 1. mgr. 43. gr.
     6.      Af útgefnu leyfi til hreindýraveiða, sbr. 38. gr.
    Gjöld samkvæmt 2.–5. tölul. skulu renna til Umhverfisstofnunar og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra er heimilt að setja að tillögu stofnunarinnar. Gjöldin skulu ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu vegna námskeiða, prófa og leyfa.
    Gjald samkvæmt 6. tölul. skal innheimt af Umhverfisstofnun og taka mið af kostnaði við vöktun hreindýrastofnsins, eftirlit og stjórn hreindýraveiða auk arðgreiðslna til landeigenda á hreindýrasvæðum sbr. 56. gr.
    Ráðherra ákvarðar fjárveitingar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands til rannsókna, vöktunar, gerðar stjórnunar- og verndaráætlana fyrir veiðistofna, veiðieftirlits og stýringar á stofnum villtra fugla og villtra spendýra á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar.
    Tillögur Umhverfisstofnunar skv. 4. mgr. skulu unnar í samráði við fimm manna ráðgjafanefnd sem ráðherra skipar til tveggja ára í senn samkvæmt verklagsreglum sem hann setur.

56. gr.

Úthlutun arðs af hreindýraveiðum.

    Umhverfisstofnun skiptir arði af sölu veiðileyfa milli landeigenda sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu að fengnum tillögum hreindýraráðs.
    Landeigandi skal fyrir 1. júlí ár hvert tilkynna til Umhverfisstofnunar hvort hann heimili veiðar á landi sínu eða ekki. Landeigandi þarf þó ekki að tilkynna afstöðu sína árlega hafi hann gert það einu sinni og ekki orðið breyting á afstöðu hans. Umhverfisstofnun er heimilt að miða við afstöðu landeiganda frá fyrri veiðitímabilum hafi hann ekki tilkynnt um afstöðu sína fyrir 1. júlí.
    Aðeins er heimilt að úthluta arði af hreindýraveiðum til þeirra landeigenda sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu allt veiðitímabilið.

57. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. Reglugerðir og aðrar stjórnvaldsákvarðanir sem settar voru með stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, og voru í gildi við setningu laga þessara, halda gildi sínu þar til nýjar reglur hafa verið settar, enda brjóti þær ekki í bága við lögin.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þar til skorið hefur verið endanlega úr mörkum eignarlands og þjóðlenda alls staðar á landinu, samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998, eru þeim sem tilgreindir eru í 1. mgr. 22. mgr. heimilar veiðar í almenningum og á afréttum utan landareigna lögbýla, eins og verið hefur enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra.

II.

    Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara hafa lokið gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir þær tegundir eða stofna sem hingað til hafa sætt tiltekinni nýtingu eða veiðum eða eru líklegar til að valda tjóni.

III.

    Ráðherra er heimilt, þar til stjórnunar- og verndaráætlanir liggja fyrir samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II, að aflétta friðun og heimila nytjaveiðar, eggjatöku og veiðar til varnar tjóni á tegundum eða stofnum villtra fugla og villtra spendýra og sem mælt er fyrir um í V. kafla að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Um slíka afléttingu friðunar vegna hreindýraveiða fer skv. X. kafla.

Greinargerð.

1.     Inngangur.
    Í sáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá 30. nóvember 2017 kemur fram „að dýralíf á Íslandi sé hluti af íslenskri náttúru sem beri að vernda. Náttúran er auk þess stærsta aðdráttarafl Íslands fyrir ferðamenn. Endurskoða þurfi löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum.“
    Ákveðið var í upphafi þeirrar vinnu að endurskoða lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, að reyna eins og unnt væri að horfa til skýrslu nefndar um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra sem skipuð var hinn 9. júlí 2010 af þáverandi umhverfisráðherra. Nefndinni var samkvæmt erindisbréfi ætlað að varpa skýru ljósi á lagalega stöðu villtra fugla og villtra spendýra á Íslandi, meðal annars með tilliti til dýraverndunarsjónarmiða og leggja fram tillögur um úrbætur með það að leiðarljósi að uppfylla markmið gildandi laga og þeirra alþjóðlegu samninga sem Ísland er aðili að og varða verndun villtra fugla og villtra spendýra og veiðar á þeim.
    Vinna nefndarinnar átti ekki að einskorðast við að rýna framkvæmd villidýralaganna svokölluðu, heldur átti hún einnig að taka til skoðunar vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, þar með talið selum og hvölum, í víðu samhengi. Nefndin átti einnig að skoða önnur lög er tengjast viðfangsefninu eftir því sem ástæða þótti til. Þá átti nefndin að vinna eftir stefnu þáverandi ríkisstjórnar í umhverfismálum með sérstaka áherslu á náttúruvernd. Einnig átti nefndin að taka til sérstakrar skoðunar fugla- og vistgerðartilskipanir Evrópusambandsins.
    Í nefndina voru tveir aðilar skipaðir af ráðherra án tilnefningar, annars vegar Páll Hersteinsson, líffræðingur og prófessor í spendýrafræði við Háskóla Íslands og hins vegar Menja Von Schmalensee líffræðingur og sviðsstjóri á Náttúrustofu Vesturlands, sem skipuð var formaður nefndarinnar. Auk þeirra sátu í nefndinni fulltrúar tilnefndir af Umhverfisstofnun, Dýralæknafélagi Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Fuglavernd, Skotveiðifélagi Íslands, auk fulltrúa tilnefndum af frjálsum félagasamtökum á sviði náttúruverndar.
    Nefndin skilaði umfangsmikilli og vandaðri skýrslu um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og villtra spendýra hinn 3. apríl 2013 (hér eftir nefnd villidýraskýrslan) og taldi nefndin að skýrslan gæti verið fyrsti áfangi í því ferli að semja nýtt lagafrumvarp um málefnið. Að mestu eða öllu leyti var samstaða meðal þeirra fjölmörgu aðila sem unnu að skýrslunni um tillögur til breytinga á umgjörð þessara mála og sem gerð er grein fyrir í niðurstöðukafla skýrslunnar.
    Í skýrslu starfshópsins var gengið út frá nokkrum meginreglum sem vinna og endanlegar tillögur hópsins byggðu á. Umræddar meginreglur voru eftirfarandi:
     1.      Stuðla skuli að því að náttúran fái að þróast eftir eigin lögmálum.
     2.      Tryggja skuli vernd villtra dýrastofna, þ.e. að öll dýr verði í grunninn friðuð og að litið verði á þau sem skyni gæddar verur, sem koma skuli fram við af virðingu og með velferð þeirra að leiðarljósi.
     3.      Tryggja skuli að ekki verði gengið á búsvæði villtra dýra í þeim mæli að það ógni viðgangi og náttúrulegri fjölbreytni þeirra.
     4.      Tryggja skuli að villt dýr njóti verndar fyrir hvers kyns umsvifum mannsins eða annarra lífvera á hans vegum, sem ógnað geta viðgangi og náttúrulegri fjölbreytni þeirra.
     5.      Áhersla skuli lögð á að aflétting friðunar og leyfi til veiða byggist á haldbærum upplýsingum um stofnstærð og veiðiþol viðkomandi stofns eða um tjón sem hann kann að valda. Skort á upplýsingum ætti að túlka villtum dýrum eða náttúrunni í hag, sbr. varúðarregluna, að veiðiaðferðir taki mið af velferð og líffræði viðkomandi tegundar, með tilliti ótta, sársauka og dauðastríðs, með það fyrir augum að lágmarka þessa þætti eins og kostur er og að velferð og viðhald veiðistofna verði höfð í fyrirrúmi umfram hefðir og sérhagsmuni, enda tryggi það sjálfbæra nýtingu og aðgang komandi kynslóða að þeim.

2.     Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Þrátt fyrir að lög nr. 64/1994 hafi að mörgu leyti staðist tímans tönn á þeim rúmlega 25 árum sem liðin eru frá því þau voru sett, þá liggur hins vegar fyrir að umhverfi þessara mála hefur breyst talsvert frá gildistöku laganna. Hér má t.d. nefna aukna áherslu á umhverfis- og lofslagsmál, meiri áherslu á velferð dýra og dýravernd, skuldbindingar Íslands á grundvelli alþjóðasamninga, stóraukinn straum ferðamanna sem hingað koma til að skoða náttúru og dýralíf landsins, auk ýmissa sjónarmiða er lúta að virkri stjórnun og stýringu á veiðum á villtum fuglum og villtum spendýrum.
    Jafnframt er talin full þörf á að skýra eða afmarka betur verkaskiptingu og ábyrgð einstakra stofnana ríkisins á tilteknum þáttum við framkvæmd laganna, einfalda núverandi veiðikortakerfi og koma á virkara veiðieftirliti. Þrátt fyrir að gildandi lög um málefnið hafi að einhverju leyti sætt tilteknum breytingum síðan skýrslan kom út hafa lögin hins vegar ekki sætt heildarendurskoðun á grunni þeirra fjölmörgu tillagna sem nefndin lagði til villidýraskýrslunni.
    Markmiðið er að endurskoða gildandi lög á þessu sviði með hliðsjón af þeirri þekkingu sem aflað hefur verið frá setningu þeirra, meðal annars á grundvelli framangreindrar skýrslu. Við gerð skýrslunnar og við samningu frumvarps þessa var jafnframt horft til ýmissa skuldbindinga og samningsákvæða sem Ísland hefur gengist undir í ýmsum alþjóðlegum samningum, svo sem í Ramsarsamningnum um verndun votlendis einkum fyrir fugla, Bernarsamningnum um verndun tegunda og búsvæða fugla og plantna í Evrópu, samningnum um líffræðilega fjölbreytni, samkomulagi ríkja um verndun farfugla og farleiðir þeirra í Evrópu, Afríku og austurland nær (AEWA), OSPAR-samningsins sem tekur meðal annars til verndunar líffræðilegrar fjölbreytni í Norður Atlantshafinu, CITES samningsins um alþjóðlega verslun með tegundir dýra og plantna í útrýmingarhættu og Árósasamningsins. Umfjöllun um efni marga þessara samninga og tengsl þeirra við endurskoðun þessa er meðal annars að finna í framangreindri skýrslu nefndarinnar.
    Einnig hefur verið litið til ýmissa meginreglna í umhverfisrétti og þá helst meginreglna um sjálfbæra þróun, samþættingu, og fyrirbyggjandi aðgerðir, auk varúðarreglunnar. Þess hefur jafnframt verið freistað að auka vægi verndar og velferðar villtra fugla og villtra spendýra í löggjöfinni og að allar aðgerðir sem gripið er til á þessu sviði séu vel studdar faglegri þekkingu og vísindalegum rökum.

3.     Meginefni frumvarpsins.
3.1. Yfirlit
Með frumvarpinu eru lagðar til talsverðar breytingar á lagaumgjörð mála er varða vernd, friðun og velferð villtra fugla og villtra spendýra í samanburði við gildandi lög nr. 64/1994. Helstu nýmæli og breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Víðtækari markmiðsákvæði og lagfæringar á gildissviði.
     2.      Ítarlegri skilgreiningar á hlutverki og verkefnum stofnana ráðuneytisins og annarra aðila sem fjalla um mál þessi.
     3.      Aukin áhersla á alhliða vernd villtra fugla og villtra spendýra og helstu búsvæða þeirra í ljósi þess að þau eru mikilvægur hluti af náttúru Íslands.
     4.      Aukin áhersla á dýravernd og velferð villtra fugla og villtra spendýra.
     5.      Komið til móts við sérstakar þarfir veiðimanna sem varanlega eru bundnir við notkun á hjólastól þannig að þeir hafi eins og kostur er möguleika á að stunda veiðar eins og aðrir.
     6.      Lagðar til breytingar á þeim veiðitækjum sem óheimilt er að nota.
     7.      Válistar vegna villtra fugla og villtra spendýra lögfestir.
     8.      Gerðar verði stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir allar tegundir eða stofna villtra fugla og villtra spendýra.
     9.      Ákvarðanir um vernd og veiðar á grundvelli laganna byggi á vísindalegum og faglega unnum stjórnunar- og verndaráætlunum.
     10.      Allar nytjaveiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum verði sjálfbærar.
     11.      Breytingar á veiðikortakerfinu til einföldunar.
     12.      Tekið verði með markvissari og skipulagðari hætti á tjóni vegna villtra fugla og villtra spendýra.
     13.      Veiðistjórnun og veiðieftirlit verði lögfest fyrir allar tegundir veiða á villtum fuglum og villtum spendýrum.
     14.      Sala á veiðifangi villtra fugla og villtra spendýra byggist á því að umræddur veiðistofn þoli slíka sölu með sjálfbærum hætti.

3.2. Markmiðs- og gildissviðsákvæði.
    Í 1. gr. er að finna þau sjö markmið sem stefnt er að verði frumvarpið lögfest:
     1.      Villtir fuglar og villt spendýr fái að þróast eftir eigin lögmálum.
     2.      Tryggja friðun, vernd, viðgang og velferð villtra dýrastofna.
     3.      Ekki sé gengið á líffræðilega fjölbreytni og búsvæði villtra dýra í þeim mæli að það ógni viðgangi þeirra.
     4.      Verndarstöðu villtra fugla og villtra spendýra sé ekki spillt með umsvifum manna eða framandi lífverum sem ógnað gætu viðgangi þeirra.
     5.      Veiðar og önnur nýting á villtum dýrum byggi á vísindalegum, faglegum og haldbærum upplýsingum um stofnstærð, stofnþróun, náttúruleg afföll, veiðiþol og veiði viðkomandi tegundar eða stofns.
     6.      Treysta eftirlit með veiðum og efla virka stýringu veiða á þeim villtu fuglum og villtu spendýrum sem lög þessi taka til.
     7.      Uppfylla skuldbindingar alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að og varða efni laga þessara.
    Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki til allra villtra fugla og villtra spendýra á íslensku yfirráðasvæði, hvort sem er á landi eða sjó að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands. Ekki er þó gert ráð fyrir því frekar en í gildandi lögum að lögin gildi um hvali enda gilda um hvali meðal annars lög nr. 26/1949 um hvalveiðar og lög um veiðigjald nr. 145/2018. Að sama skapi er ekki gert ráð fyrir að selir falli undir gildissvið frumvarpsins verði það að lögum þar sem um seli er fjallað í reglugerð nr. 1100 frá 11. desember 2019, um bann við selveiðum, sem sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 11. gr. laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006.

3.3. Hlutverk stofnana ráðuneytisins.
    Í frumvarpinu er kveðið skýrar á um en áður hefur verið gert um annars vegar stefnumótunarhlutverks umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og hins vegar þau verkefni sem fagstofnanir ráðuneytisins eiga að vinna að og bera ábyrgð á. Hér er sérstaklega átti við verkefni og hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar, en báðar stofnanirnar gegna lykilhlutverki við framkvæmd þessara mála. Einnig er kveðið skýrar á um hlutverk tiltekinna annarra aðila við framkvæmd þessara mála, svo sem hreindýraráðs og Náttúrustofu Austurlands.
    Lagt er til að skýrar verði kveðið á um að Náttúrufræðistofnun Íslands gegni að meginstefnu til rannsóknar og vöktunarhlutverki í málaflokknum en að Umhverfisstofnun hafi hins vegar umsjón með framkvæmd mála er varða vernd, friðun og veiðar auk þess sem lagt er til að stofnunin hafi með höndum eftirlit og veiðistjórnun og fari með almenna framkvæmd laganna, verði frumvarpið samþykkt.
    Einnig er lagt til að sameiginlega fari Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands með veigamikið hlutverk er lýtur að stjórnunar- og verndaráætlunum fyrir villta fugla og villt spendýr sem verða helsti grundvöllur ráðherra í tengslum við ákvarðanir sem hann þarf að taka.
    
3.4. Almenn vernd villtra fugla og villtra spendýra og búsvæða þeirra.
    Lagt er til að áfram verði byggt á þeirri meginreglu gildandi laga að allir villtir fuglar og villt spendýr sem heyra undir lögin verði í grunninn friðuð en hins vegar er unnt að aflétta friðun á grundvelli tiltekinna ástæðna. Friðunarákvæðin gilda þó ekki um minka, rottur og mýs í eða við híbýli sem er í samræmi við ákvæði núgildandi laga. Gert er ráð fyrir því að lögin taki einnig til villtra dýra sem berast hingað endrum og sinnum auk svokallaðra villinga, þ.e. hálfvilltra dýr sem lifa og æxlast í náttúrunni en eru upprunalega dýr sem fæðst hafa í haldi eða eru afkomendur slíkra dýra.
    Gert er ráð fyrir sérstakri heimild fyrir ráðherra til að kveða á um aukna vernd eða sértæka friðun tiltekinna villtra fugla og villtra spendýra ef ástæða er til, auk þess sem honum er heimilt að kveða á um að strangari reglur skuli gilda um búsvæði eða vistgerðir ef tegundir eru í hættu eða þeim stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða séu á annan hátt sérlega viðkvæm fyrir raski.
    Lögð er áhersla á að auka nokkuð hina almennu vernd villtra fugla og villtra spendýra. Kveðið er á um að taka skuli tillit til þeirra við skipulag, landnotkun og þegar farið er um náttúruna auk þess sem forðast skuli alla óþarfa truflun á mikilvægustu búsvæðum villtra fugla og villtra spendýra. Sérstök skylda er lögð á eigendur eða ábyrgðaraðila hunda og katta að gæta að friðhelgi fugla á mikilvægustu búsvæðum fugla um varptíma. Jafnframt er lagt til að vernd mikilvægra fuglabjarga og fuglabyggða á varptíma verði aukin frá því sem nú er t.d. gagnvart flugförum þ.m.t. flygildum (drónum), hávaðamiklum skipum og bátum og gagnvart skotum á sjó. Gert er ráð fyrir að þau svæði sem muni falla undir þessa grein verði sérstaklega skilgreind í reglugerð.
    Lögð er til sú breyting að alfarið verði óheimilt að veiða fugla í sárum eða ófleyga unga. Þetta er í samræmi við efni villidýraskýrslunnar þar sem ýmis rök voru færð fyrir banni við veiðum á ófleygum ungum. Telja verður að sú hefð að veiða ófleyga unga til matar sé að miklu leyti hverfandi auk þess sem slíkar veiðar stangast á bæði við Parísar- og Bernarsamninginn. Bæði siðferðisrök og dýravelferðarsjónarmið mæla með banni við slíkum veiðum enda á ófleygur ungi sér enga undankomuleið undan veiðimanni ólíkt fullvöxnum fleygum fuglum.
    
3.5. Aukin áhersla á umfjöllun um velferð villtra fugla og villtra spendýra.
    Þrátt fyrir að ákvæði laga um velferð dýra, nr. 55/2013, taki einnig til villtra dýra og villinga var talið rétt að fjalla um velferð villtra fugla og villtra spendýra. Þar er áhersla lögð á þá grundvallarreglu að skylt sé að sýna villtum fuglum og villtum spendýrum í sínu náttúrulega umhverfi tillitssemi og forðast að valda þeim óþarfri truflun, röskun eða þau séu meðhöndluð að óþörfu. Lagt er til að mælt verði fyrir um skyldu til að koma sjúkum, særðum eða bjargarlausum villtum fuglum og villtum spendýrum til bjargar ef þess er nokkur kostur eða tilkynna um slík dýr til lögreglu. Jafnframt er kveðið á um það að veiðar á grundvelli laganna skuli vera mannúðlegar og reynt skuli að aflífa þau á skjótan og sársaukalausan hátt Veiðimenn skulu hér eftir sem hingað til gera allt sem í þeirra valdi stendur til að finna og aflífa skotsærð dýr ef þess er nokkur kostur. Í þessu sambandi er meðal annars lagt til að leiðsögumanni með hreindýraveiðum verði beinlínis skylt að aðstoða veiðimann sem hann leiðsegir við að koma skoti á sært dýr ef líkur eru á að veiðimaður nái ekki sjálfur að fella það svo fljótt sem auðið er. Að sama skapi er lagt til að ein af skyldum leiðsögumanns með hreindýraveiðum sé að fella önnur illa særð dýr af völdum veiða sem verða á vegi hans á veiðislóð og eru talin eiga sér takmarkaða lífsvon.
    
3.6. Fötluðum veiðimönnum gefið aukið svigrúm til að stunda frístundaveiðar.
    Gert er ráð fyrir að þeim sem varanlega eru bundnir við notkun á hjólastól verði veitt aukið svigrúm til að stunda og njóta frístundaveiða. Almenna reglan við veiðar hérlendis er að einungis sé heimilt að nýta vélknúin ökutæki til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum en óheimilt sé að skjóta frá slíkum tækjum. Undanþágan sem kveðið er á um gerir ráð fyrir að heimilt verði að veita þeim sem varanlega eru bundnir við að nota hjólastól leyfi til að skjóta frá kyrrstæðum vélknúnum ökutækjum á vegum eða merktum vegaslóðum eða utan vega ef skilyrði náttúruverndarlaga um akstur á snævi þakinni og frosinni jörð eru uppfyllt.
    
3.7. Breytingar á aðferðum við veiðar og á óheimilum veiðitækjum.
    Lagt er til að í þeirri grein sem fjallar um heimilar veiðiaðferðir verði sérstaklega tekið fram að óheimilt sé að nota flygildi við veiðar. Þar er átt við ómönnuð loftför sem í daglegu tali kallast drónar. Nokkrar aðrar breytingar eru lagðar til frá gildandi lögum. Þannig er lagt til að notkun barefla við veiðar á fíls- súlu- og skarfsungum verði alfarið bönnuð. Er það í samræmi við þá meginreglu sem lögð er til að veiðar á ófleygum ungum verði ekki heimilaðar enda stangast þær á við alþjóðlega samninga. Einnig er lagt til að háfaveiðar verði einungis heimilar vegna hefðbundinna lundaveiða en ekki til veiða á álku, langvíu eða stuttnefju. Báðar þessar breytingar eru lagðar til á grundvelli villidýraskýrslunnar. Jafnframt er af dýravelferðarástæðum lagt til að alfarið verði bannað að nota fótboga við veiðar hérlendis.
    Í greininni er lagt til að við veiðar verði heimilt að nota hljóðdeyfa eða hljóðdempara á skotvopn enda uppfylli þau skilyrði vopnalaga. Slík breyting er í samræmi við það sem gildir í nágrannalöndum okkar. Hljóðdeyfar sem notaðir eru á skotvopn við þessar aðstæður dempa skothljóðið niður fyrir sársaukamörk en þau eru hins vegar langt frá því að vera alveg hljóðlaus. Hljóðdeyfar hafa verið notaðir um skeið við hreindýraveiðar enda vernda þeir eyru veiðimanna og leiðsögumanna með hreindýraveiðum en eru ekki síður ákjósanlegir til að valda ekki umfangsmeiri truflun eða röskun á umhverfi og dýralífi en nauðsynlegt er auk þess sem bakslag verður minna og hittni betri.
    Þó að áfram sé gert ráð fyrir banni við búnaði til þess að miða í myrkri með rafeindatækjum sem stækka eða breyta ímyndinni er lagt til að í lagatexta verði til skýringar og fyllingar tekið fram að þar sé undanskilinn rafeindapunktur eða upplýstur kross í sjónauka eins og algengt er í nútíma sjónaukum.
    Kveðið er á um að óheimilt sé að nota lifandi dýr bæði sem bandingja eða agn við veiðar og til þjálfunar veiðihunda. Með bandingja er átt við þegar önnur dýr, t.d. ungviði þeirra dýra sem ætlunin er að veiða, eru notuð til að lokka veiðidýrið úr felum til að unnt sé að veiða það. Í gildandi lögum er einungis kveðið á um að óheimilt sé að nota lifandi dýr sem bandingja en talið er rétt að það sé sérstaklega tekið fram að einnig sé óheimilt að nota slík dýr til þjálfunar á veiðihundum. Er þessi breyting í samræmi við niðurstöðu villidýraskýrslunnar. Heimilt verður þó að nota hunda til sækja særða bráð og svokallaða bendihunda til að finna veiðifugla.
    Að lokum er kveðið á um að heimilt verði að nota öll götuskráð vélknúin farartæki til að koma veiðimönnum á veiðislóð, en ekki eingöngu tilteknar gerðir farartækja, eins og er í gildandi lögum. Þar er kveðið á um að nota megi önnur vélknúin farartæki en vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum. Þetta hefur valdið talsverðum vandkvæðum við framkvæmd gildandi laga. Síðan þau voru samþykkt hafa sum af þeim farartækjum sem bönnuð eru samkvæmt gildandi lögum fengið heimild til aksturs á vegum landsins til jafns við önnur götuskráð farartæki. Erfitt er því að banna tilteknar gerðir af götuskráðum vélknúnum farartækjum en ekki aðrar. Áfram er hins vegar lagt til að vélknúin farartæki megi eingöngu nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Bann við því að hafa undir höndum hlaðin skotvopn nær vélknúnu ökutæki en 250 metra er eftir sem áður til staðar eins og kveðið er á um í gildandi lögum.
    
3.8. Lögfesting válista.
    Náttúrufræðistofnun Íslands hefur á undanförnum árum unnið að gerð válista yfir ýmsa hópa lífvera í hættu hérlendis þrátt fyrir að í íslenskum lögum sé ekki kveðið á um gerð slíkra lista. Slíkir listar eru skrár yfir tegundir sem eiga undir högg að sækja eða eru taldar vera í tiltekinni hættu í tilteknu landi eða svæði. Lagt er til að eitt af verkefnum Náttúrufræðistofnun Íslands skuli vera að taka saman og birta á vef sínum slíka válista um villta fugla og villt spendýr. Gert er ráð fyrir að válistarnir verði unnir samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum og leiðbeiningum um gerð slíkra lista og að stofnunin skuli endurmeta þá á fimm ára fresti eða oftar ef þörf er talin á.
    
3.9. Stjórnunar- og verndaráætlanir.
    Ein af helstu breytingum sem kveðið er á um miðað við gildandi lög er að mælt er fyrir um gerð svokallaðra stjórnunar- og verndaráætlana fyrir alla tegundir eða stofna villtra fugla og villtra spendýra. Með gerð slíkra áætlana er lagður mikilvægur grunnur að því að ávallt verði byggt á haldbærum, faglegum og vísindalegum upplýsingum við vernd, stýringu og stjórnun á stofnum villtra dýra. Með þessari aðferðafræði yrði eins og kostur er tryggt að á einum stað verði að finna allar nauðsynlegar upplýsingar sem liggja þurfa fyrir um hlutaðeigandi tegund eða stofn áður en stjórnvöld taka mikilvægar ákvarðanir. Slíkar áætlanir yrðu birtar opinberlega þannig að þær yrðu aðgengilegar almenningi.
    Þótt gert sé ráð fyrir því að stjórnunar- og verndaráætlunin sé ein heildstæð áætlun þá er áætlunin í raun byggð á tveimur meginþáttum. Kveðið er á um að Náttúrufræðistofnun Íslands, sem samkvæmt lögum um stofnunina stundar grunnrannsóknir í dýrafræði og náttúru Íslands, sjái um gerð þess hluta áætlunarinnar sem snýr að verksviði hennar. Þar gerir stofnunin grein fyrir mati sínu á stofnstærð, stofnþróun, útbreiðslu, viðkomu, veiðiþoli og ákjósanlegri verndarstöðu og verndarþörf hlutaðeigandi tegundar eða stofns og breytingar þar á.
    Hinn meginþáttur áætlunarinnar er stjórnunarhlutinn. Kveðið er á um að Umhverfisstofnun, sem fer með stjórnsýslu og framkvæmd þessara mála, sjái um gerð þess þáttar áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að stjórnunarþátturinn byggist á verndarhluta hennar og fjalli um leiðir og aðgerðir til að bregðast við breytingum á ástandi og verndarstöðu tegunda, svo sem að endurheimta, viðhalda eða minnka stofnstærð og útbreiðslu tiltekinnar tegundar, ásamt tillögum um hvernig standa beri að nýtingu eða veiðum ef það á við og aðgerðum til að bregðast við tjóni af völdum villtra fugla og villtra spendýra. Auk þess er lagt til að Umhverfisstofnun hafi það verkefni með höndum að hafa umsjón með gerð og skilum á tillögu að heildaráætluninni til ráðherra til yfirferðar, samþykktar og birtingar þannig að það verkefni sé á höndum eins skilgreinds aðila innan stjórnsýslunnar.
    Í meginatriðum er í stjórnunar- og verndaráætlun gert ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun Íslands leggi fram sjónarmið sín um mat á viðkomandi stofni og verndarþörf hans en Umhverfisstofnun leggi að því búnu fram tillögur á grundvelli þess hvernig rétt sé að vinna úr niðurstöðunum til að ná fram skilgreindu markmiði. Sé gert ráð fyrir því í áætluninni að fyrir hendi sé grundvöllur til að veiða úr stofninum skulu í stjórnunarhluta áætlunarinnar fylgja útfærðar tillögur Umhverfisstofnunar um það hvernig lagt er til að slíkum veiðum skuli háttað. Í stjórnunar- og verndaráætlunum vegna einstakra stofna eða tegunda verður þannig annars vegar lagt mat á nauðsynlega verndun og friðun og hins vegar eðlilega og sjálfbæra nýtingu. Með slíkri heildstæðri áætlun er tryggt að ákvörðun um friðun eða nýtingu einstakra tegunda eða stofna villtra dýra sé byggð á vel undirbyggðum vísindalegum forsendum.
    Ljóst er að það mun taka nokkurn tíma og þarfnast talsverðrar samhæfingar og samvinnu hlutaðeigandi stofnana að gera stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir allar tegundir eða stofna villtra dýra á Íslandi. Því er kveðið á um það að stofnanirnar forgangsraði verkefninu þannig að áhersla verði lögð á að ljúka gerð slíkra áætlana varðandi villta fugla og villt spendýr sem sætt hafa nytjaveiðum hérlendis eða tegundir sem taldar eru valda tjóni við tilteknar aðstæður, eins og t.d. refi og tilteknar tegundir fugla. Sama gildir um minka sem er ágeng framandi tegund sem mikilvægt er að reyna að útrýma með öllu úr náttúru Íslands. Þegar stjórnunar- og verndaráætlanir fjalla um tegundir eða stofna sem kunna að valda tjóni mundu slíkar áætlanir þá leggja almennt eða sértækt mat á tjónsáhættuna og ef niðurstaðan væri sú að rétt geti verið að varna tjóni með veiðum yrði þá að finna í áætluninni útfærðar tillögur um það hvernig best væri að standa að veiðunum, annaðhvort á landinu öllu eða tilteknum svæðum eða við tilteknar aðstæður, til að takmarka tjón af völdum hlutaðeigandi tegundar.
    Þegar stjórnunar- og verndaráætlanir liggja fyrir um einstakar tegundir eða stofna munu þær verða veigamikill faglegur grundvöllur fyrir ráðherra áður en hann tekur ákvarðanir t.d. um afléttingu friðunar til nytjaveiða eða til veiða til varnar tjóni og um það hvernig haga beri slíkum veiðum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samþykktar stjórnunar- og verndaráætlanir hafi einnig mikilvægu hlutverki að gegna við að marka ákveðinn og skýran ramma um heimildir til handa Umhverfisstofnun til veita undanþágur til veiða á tilteknum tegundum villtra fugla og villtra spendýra sem taldar eru valda tjóni á vissum stöðum eða við tilteknar aðstæður jafnvel þótt almennri friðun hafi ekki verið aflétt af hlutaðeigandi tegund.
    Þar sem ljóst er að nokkurn tíma mun taka að gera stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir allar tegundir veiðidýra og þær tegundir sem kunna að valda tjóni þá er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að ráðherra hafi skýra heimild til að aflétta friðun með sama hætti og verið hefur þrátt fyrir að slíkar áætlanir liggi ekki fyrir á ákveðnu aðlögunartímabili.

3.10. Sjálfbærar veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
    Gengið er út frá þeirri meginreglu að öll villt dýr séu í grunninn friðuð með tilteknum skilgreindum undantekningum. Jafnframt er byggt á þeirri meginreglu að viðkomandi stofn sé sjálfbær og að veiðar og aðrar nytjar villtra fugla og villtra spendýra, þar á meðal hlunnindaveiðar, skuli vera sjálfbærar og lúta veiðistjórnun.
    Mikilvægt er að ekki sé gengið á stofna villtra fugla og villtra spendýra með ofveiði jafnvel þótt slík veiði eigi sér sögulegar eða menningarlegar hefðir. Því er lagt til að engar veiðar eða nytjar séu undanskildar þessari mikilvægu reglu nema veiðar séu beinlínis til að minnka stofninn eða jafnvel útrýma honum ef um er að ræða ágengar framandi lífverur.
    
3.11. Tjón vegna villtra fugla og villtra spendýra.
    Gengið er út frá þeirri meginreglu að ávallt fari fram ákveðin greining og mat á því tjóni sem einstakar tegundir villtra fugla og villtra spendýra geta valdið. Í þessu sambandi verður þó að hafa í huga að hluti þeirra dýra- og fuglategunda sem veiddar hafa verið nánast án takmarkana í gegn um tíðina eru órjúfanlegur hluti af náttúru og lífríki landsins. Hér er mikilvægt að litið sé til umfangs tjónsins og hvers eðlis tjónið af völdum villtra fugla og villtra spendýra sé í raun og veru. Þar er t.d. ástæða til að greina hvort tjónið sé aðallega á lífríki annarra villtra fugla og villtra spendýra og að tjónið sé þannig eðlilegur hluti af náttúrulegum ferlum eins og t.d. þegar ránfugl eða refur veldur tjóni í hreiðrum villtra fugla. Jafnvel þótt slíkt tjón teljist vera hluti af náttúrulegum ferlum kann það hins vegar í sumum tilvikum að vera tjón sem er þess eðlis að skýr úrræði þurfa að vera fyrir hendi til að verjast slíku tjóni eins og t.d. í friðlýstum æðarvörpum þar sem umtalsverðum fjárhagslegum hagsmunum æðarvarpseiganda kann að vera raskað. Við mat á tjóni af völdum villtra dýra verður að vega umfang tjóns og hættu á tjóni við þau viðbrögð sem ákveðið er að beita til að varna tjóninu.
    Kveðið er á um það að ráðherra geti eins og í gildandi lögum aflétt friðun einstakra tegunda villtra fugla og villtra spendýra, enda sé í stjórnunar- og verndaráætlun talin hætta á að slíkar tegundir geti valdið raunverulegu og skilgreindu tjóni á heilsu fólks eða búfénaðar, ógnun við öryggi, umtalsverðu fjárhagslegu tjóni einstaklinga eða lögaðila eða tjóni á náttúru landsins og líffræðilegri fjölbreytni þess. Ráðherra getur einnig í reglugerð skilgreint að við tilteknar aðstæður, t.d. við friðlýst æðarvörp, sé umráðamönnum æðarvarps veittar heimildir til að verja varpið með veiðum á tilteknum tegundum villtra fugla eða villtra spendýra.
    Þótt ráðherra hafi ekki aflétt friðun af tilteknum tegundum villtra fugla og villtra spendýra er kveðið á um að Umhverfisstofnun verði heimilað, á grundvelli þess að stofnunin fari með veiðistjórnun og framkvæmd þessara mála, að veita tilteknar skilgreindar undanþágur til veiða til varnar tjóni þrátt fyrir friðunina, enda séu undanþágurnar í samræmi við það sem fram kemur í stjórnunar- og verndaráætlunum. Slíkar undanþágur geta til að mynda beinst gegn tegundum villtra fugla sem ógna kunna flugöryggi eða tiltekinnar heilsufarslegrar áhættu eins og t.d. vegna sýkingar eða mengunar sem kemur upp á tilteknum stað. Mikilvægt er að Umhverfisstofnun geti brugðist hratt við í slíkum tilvikum og markvisst. Hægt er þá að veita slíkar undanþágur á tilteknum stað eða við tilteknar aðstæður frekar en að friðun slíkra tegunda sé aflétt.
    
3.12. Breytingar á veiðikortakerfinu.
    Kveðið er á um tilteknar aðlaganir eða breytingar á núverandi veiðikortakerfi. Í fyrsta lagi er þar lagt til að veiðikort þurfi til allra annarra veiða en til rottuveiða og veiða á músum í og við híbýli. Því er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að til minkaveiða þurfi að hafa veiðikort. Sama gildir um eggjatöku. Hvort tveggja byggist á tillögum í villidýraskýrslunni. Kveðið er á um það að ekki sé gerður sérstakur greinarmunur á veiðikortum og svokölluðum hlunnindakortum. Þeir aðilar sem rétt hafa til hlunnindaveiða samkvæmt gildandi lögum fengju því hefðbundið veiðikort þar sem réttur til hlunnindaveiðanna eða eftir atvikum til eggjatöku er sérstaklega tilgreindur. Mikilvægt er að veiðiskýrslum sé skilað um allar veiðar, einnig eggjatöku og hlunnindaveiðar, þannig að veiðitölur séu eins fullnægjandi og hægt er. Með því að fella eggjatöku og hlunnindaveiðar undir almennar reglur um veiðikort þá fylgir sú skylda að skila veiðiskýrslu vegna veiðanna. Veiðitölur eru mikilvægur hluti í vísindalegu mati á umræddum veiðistofnum. Ef sótt er um veiðikort eingöngu til eggjatöku eða annarra veiða en skotveiða er hins vegar lagt til að heimilt sé að gefa það út án þess að hlutaðeigandi þurfi að sitja hefðbundið veiðikortanámskeið auk þess sem aldurstakmark til að sækja um slík veiðikort er lægra og miðast ekki við aldurstakmark til að fá skotvopnaleyfi samkvæmt vopnalögum.

3.13. Veiðistjórnun og veiðieftirlit.
    Kveðið er á um virka veiðistjórnun og að veiðistjórnun verði aukin umtalsvert frá því sem núgildandi lög gera ráð fyrir. Fram kemur að veiðistjórnun og áætlunargerð opinberra aðila skuli byggjast eins og kostur er á sem bestri vísindalegri þekkingu. Til að framfylgja stjórnunar- og verndunaráætlun er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun verði heimilað að grípa til ýmissa nauðsynlegra aðgerða til að framfylgja veiðistjórnun og aðgerðum henni tengdri. Gert er ráð fyrir að stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir einstakar tegundir villtra fugla og villtra spendýra, sem samþykktar hafa verið af ráðherra, marki ákveðinn og skýran ramma um þær heimildir sem stofnunin hefur til aðgerða á þessu sviði.
    Jafnframt er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um veiðieftirlit Umhverfisstofnunar. Slíkt veiðieftirlit felur til að mynda í sér eftirlit með því að friðaðar eða verndaðar dýrategundir séu ekki veiddar, að ekki sé veitt á landsvæðum þar sem veiðar eru ekki heimilar, að tegundir séu ekki veiddar á þeim tímum sem veiðar eru ekki heimilar, að veiðiaðferðir séu í samræmi við lög og að þeir sem stunda veiðar á tegundum sem heimilaðar eru samkvæmt lögum hafi til þess veiðikort og tilskilin leyfi. Mikilvægt er að Umhverfisstofnun sem sinnir almennri framkvæmd þessara mála hafi veiðivörslu og samræmt skipulag hennar sem eitt af megin verkefnum sínum. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir því að þáttur lögreglu í almennu eftirliti skerðist með einhverjum hætti frá því sem nú er þótt lagt sé til veiðieftirlit verði eitt af verkefnum Umhverfisstofnunar. Lögreglan mun áfram sinna hefðbundnu eftirliti sínu vegna lögbrota á þessu sviði sem og vegna annarra brota gegn lögunum, hvort sem það er með ólögmætum veiðum, eftirlit með framfylgd skotvopnalaga eða öðrum brotum á landslögum sem snúa að þessum málaflokki. Miklu skiptir að í samfélaginu sé almenn vitneskja um að fyrir hendi sé samræmt og virkt eftirlit með hvers kyns veiðum á villtum fuglum og villtum spendýrum sem nái til landsins alls. Kveðið er á um að Umhverfisstofnun skuli í þessu skyni útbúa sérstaka eftirlitsáætlun til þriggja ára um veiðieftirlit stofnunarinnar og að stofnunin skuli sinna eftirlit sínu á grundvelli hennar. Jafnframt er gert ráð fyrir að við framkvæmd eftirlitsins eigi stofnunin samráð og samstarf við hlutaðeigandi lögregluumdæmi.
    
3.14. Veiðar verði almennt frístundaveiðar.
    Lagt er til í samræmi við villidýraskýrsluna að meginreglan verði sú að nytjaveiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum verði almennt frístundaveiðar einstaklinga en að þær séu ekki stundaðar í atvinnuskyni. Í þessu skyni er lagt til að veiðiafurðir séu almennt ekki seldar nema ljóst sé að hlutaðeigandi veiðistofn þoli veiðar og sölu slíkra afurða á sjálfbæran hátt. Gert er ráð fyrir að í stjórnunar- og verndaráætlunum einstakra stofna verði tekið á þessu atriði og í áætluninni verði jafnframt lagt mat á hvort umræddur stofn þoli sölu á veiðiafurðum með sjálfbærum hætti.
    
4.     Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ákvæði frumvarpsins ganga ekki gegn ákvæðum stjórnarskrár. Þótt lagt sé til að tilteknar veiðar, eins og veiðar ófleygra unga og ákveðinna tegunda fugla í háf, verði ekki heimilaðar verður ekki talið að slíkt gangi gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Telja verður að slíkt bann sé innan þeirra almennu takmarkana sem heimilt er að setja eignarréttindum með almennum lögum á grundvelli veigamikilla náttúruverndar- og velferðarsjónarmiða. Ýmsar breytingar sem lagðar eru til er einnig liður í því að uppfylla tilteknar alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir á sviði náttúruverndar og umhverfismála.

5.     Samráð.
    Við gerð skýrslu nefndar um lagalega og lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra sem fjallað er um hér að framan (villidýraskýrslan) og frumvarp þetta byggist í stórum dráttum á voru fulltrúar tilnefndir af Umhverfisstofnun, Dýralæknafélagi Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Fuglavernd, Skotveiðifélagi Íslands, auk fulltrúa tilnefndum af frjálsum félagasamtökum á sviði náttúruverndar. Við gerð og vinnslu tillagna nefndarinnar var jafnframt leitað eftir samráði við mikinn fjölda hagaðila, samtaka og stofnana. Um samráðið og þá aðila sem haft var samráð við er sérstaklega fjallað á bls. 2–4 í 1. viðauka skýrslunnar.
    Við gerð lagafrumvarps þessa var einnig óskað eftir samráði við eftirfarandi stofnanir, auk áhuga- og hagsmunasamtaka um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum: Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Matvælastofnun, Bændasamtök Íslands, Landssamband veiðifélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skotvís, Samtök náttúrustofa, Fuglavernd, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Dýraverndarsambands Íslands, Landssamband veiðifélaga, Hreindýraráð, Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum og Félags atvinnuveiðimanna á ref og mink. Allflestir sem boðið var til samráðsins tóku þátt í því á vinnslutíma frumvarpsins. Á samráðstímanum var þeim sem sátu í hópnum gefið ítrekað færi á að koma að athugasemdum sínum og viðbrögðum við drög að lagafrumvarpi þessu og sjónarmiðum sínum til málefnisins á fundum hópsins auk þess sem öllum var boðið að hitta fulltrúa ráðuneytisins sérstaklega til að fara yfir málið.
    Áform um lagasetningu ásamt frummati á áhrifum voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is dagana 9. desember 2019–2. janúar 2020 (mál nr. S-301/2020) og drög að frumvarpi voru kynnt í samráðsgátt dagana 8. júlí – 24. ágúst 2020 (mál nr. S-130/2020) og bárust um 90 umsagnir um frumvarpið bæði í samráðsgátt, frá fulltrúum í samráðshópi og beint til ráðuneytisins.
    Í ljósi fjölda þeirra umsagna sem bárust er ekki unnt að reifa öll þau sjónarmið og athugasemdir sem fram komu við samráðið. Rétt er þó að reifa nokkur sjónarmið umsagnaraðila og þá sérstaklega þau sem leitt hafa til breytinga á þeim frumvarpsdrögum sem samráð var um og þær greinar sem sættu breytingum í kjölfar samráðsins.
    Nokkrir umsagnaraðilar töldu með réttu að það væru ekki einungis framandi ágengar tegundir sem valdið gætu tjóni og að einnig þyrfti að gera ráð fyrir að hægt væri að bregðast við tjóni af völdum annarra ágengra tegunda. Í þessu sambandi var meðal annars nefnt tjón vegna álfta og gæsa í túnum bænda. Þær breytingar voru því gerðar að gert er ráð fyrir að hægt sé að bregðast við tjóni af völdum tegunda sem teljast ágengar þótt þær séu ekki framandi. Að sama skapi töldu mjög margir umsagnaraðilar ekki rétt að undanskilja þau dýr sem skylt væri að örmerkja þeim ákvæðum sem giltu um framandi dýr þegar slíkar tegundir eru farnar að lifa villtar eða hálfvilltar í náttúrunni. Fallist er á að mikilvægt sé að til staðar séu úrræði til að bregðast við tjóni af völdum slíkra tegund þannig að fallið hefur verið frá því að undanskilja þann flokk gæludýra sem skylt er að lögum að örmerkja frá ákvæðum um viðbrögð við tjóni af völdum framandi tegunda.
    Varðandi stjórnsýslu mála sem snúa að þessum málaflokki komu fram talsvert margar athugasemdir sem lutu að því að skýr skil yrðu að vera á milli verkefna og hlutverks stofnana ríkisins við framkvæmd þessara mála. Þetta væri sérstaklega mikilvægt að mati umsagnaraðila vegna verkefna Náttúrufræðistofnunar Íslands sem einkum lúta að rannsóknum og vöktun á villtum fuglum og villtum dýrum og Umhverfisstofnunar sem fer með stjórnsýsluhlutverk samkvæmt frumvarpinu. Fallist er á þau rök að verkefni og verkaskipting þessara aðila þurfi að vera skýr og hafa nokkur ákvæði frumvarpsins verið skýrð með tilliti til þess. Þar má t.d. nefna að felld var út tilvísun til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofu í 1. mgr. 6. gr. og í 2. mgr. 21. gr. auk þess sem sérstaklega er tekið fram í 6. og 7. gr. að báðar þessar stofnanir vinni að þeim þáttum stjórnunar- og verndaráætlana sem heyra undir verksvið þeirra. Til að tryggja enn frekar verkaskiptingu þessara aðila við sameiginlega gerð stjórnunar- og verndaráætlana er gert ráð fyrir reglugerðarheimild í 5. mgr. 16. gr. sem mælir fyrir um að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um gerð slíkra áætlana þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að skýra eða skerpa á verksviði þessara stofnana við gerð þessara áætlana ef þörf verður á.
    Talsverðar athugasemdir voru gerðar við það af hálfu nokkurra umsagnaraðila að lög um velferð dýra giltu um öll dýr, þar á meðal villta fugla og villt spendýr. Í umsögnunum komu meðal annars fram þær skoðanir að um velferð villtra fugla og villtra spendýra ætti frekar að fjalla í löggjöf um villt dýr og veiðar og að stjórnsýsla þessara mála ætti þá frekar heima hjá Umhverfisstofnun sem færi með málefni varðandi veiðar. Brugðist var að hluta við þessum athugasemdum með breytingum á 5., 8. og 11. gr. frumvarpsins þar sem felldar voru út vísanir til Matvælastofnunar og laga um velferð dýra. Ljóst er hins vegar að gildissviði laga um velferð dýra er ekki breytt þótt frumvarp þetta verði að lögum. Áfram er hins vegar gert ráð fyrir lögbundinni umsögn Matvælastofnunar í 3. mgr. 19. gr. í tengslum við föngun og hald villtra fugla og villtra spendýra.
    Í kjölfar athugasemda umsagnaraðila var ákveðið að færa ákvæði um vernd búsvæða úr 9. gr. sem fjallar um friðun í 10. gr. sem fjallar um aðra vernd villtra fugla og villtra spendýra og búsvæða þeirra. Þar sem ákvæðið mælir frekar fyrir um vernd en friðun er talið að ákvæðið eigi frekar heima þar.
    Nokkur fjöldi umsagnaraðila lýsti áhyggjum vegna þeirra skilyrða sem sett eru vegna afléttingar á friðun vegna tjóns. Þar komu meðal annars fram sjónarmið um að óljóst væri hvernig umtalsvert fjártjón yrði metið að þessu leyti í 1. mgr. 18. gr. Ákveðið var að breyta ákvæðinu á þá leið að vísa bæði til lögaðila og einstaklinga sem yrðu fyrir slíku tjóni. Með því er reynt að koma til móts við þetta sjónarmið enda ljóst að fjártjón einstaklings samkvæmt greininni þarf ekki að vera hátt til að teljast umtalsvert fjártjón fyrir hann.
    Talsverð andstaða kom fram hjá ýmsum samráðsaðilum við 3. mgr. 10. gr. um vernd fuglabjarga og fuglabyggða þar sem lagt er til að fjarlægð heimilla skota frá sjó verði 2 km í stað 500 metra í gildandi lögum þar sem með slíku ákvæði væri hætta á að heilir firðir gætu lokast fyrir skotveiðum. Tekið hefur verið tillit til þessara athugasemda með því að bæta við orðunum „á varptíma“ við skilyrði greinarinnar. Ljóst er að á þeim tíma eru nytjaveiðar fugla almennt ekki heimilar þannig að áhrif þessarar breyttu fjarlægðar ætti því ekki að vera mikil. Í tilvikum veiða til varnar tjóni eru heimildir í 2. mgr. 19. gr. til að veita undanþágur til slíkra veiða á svæðum sem falla undir þessa grein. Auk þess má benda á að gert er ráð fyrir að sú vernd sem mælt er fyrir um gildi einvörðungu um þau fuglabjörg og fuglabyggðir sem sérstaklega verða talin upp í reglugerð en ekki önnur fuglabjörg og fuglabyggðir.
    Margir umsagnaraðilar lögðu áherslu á að virk veiðistjórnun (e. adaptive harvest management) yrði lögfest hérlendis eins og gert hefur verið í ýmsum nágranna löndum. Tekið var tillit til þessara athugasemda og er í 21. gr. um veiðistjórnun kveðið skýrlega á um að veiðar skuli háðar virkri veiðistjórnun. Í 3. gr. er virk veiðistjórnun skilgreind með þeim hætti að hún sé kerfi sem felur í sér og samþættir opinbera stefnumótun, rannsóknir tengdar veiðistofnum, mat á ástandi, stofnstærð, sveiflum og þróun tegunda og stofna, mat á veiðiþoli, veiðiráðgjöf, umsjón með og skipulagningu, stjórnun og skráningu á veiðum, almenningsfræðslu og eftirlit. Ljóst er að innleiðing og frekari útfærsla slíkrar veiðistjórnunar er verkefni sem þarfnast mikillar og góðrar samvinnu og samráðs þeirra opinberu aðila sem halda utan um verkefnið við samtök veiðimanna.
    Talsvert margir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við heimilar veiðiaðferðir í 24. gr. Athugasemdirnar voru mjög fjölbreyttar og lutu t.d. að því að heimila bogveiðar hér á landi, að banna eða leyfa ætti ljósgjafa við veiðar, að heimila ætti allar gerðir hljóðdeyfa eða hljóðdempara við veiðar, að gera yrði ráð fyrir heimild til að nota hunda við tilteknar veiðar og annaðhvort að banna eða leyfa fótboga við tilteknar veiðar, auk þess sem í ákvæðinu þyrfti að koma fram lágmarkskrafa um heimil skot til hreindýraveiða. Í kjölfar umsagna var ákveðið að breyta ákvæðinu nokkuð. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því í 1. mgr. að við veiðar á hreindýrum sé óheimilt að nota kúlur sem eru minni en 6,5 gr og með slagkraft minni en 180 kgm á 200 m færi. Slík krafa er þegar til staðar en gerð er grein fyrir henni í reglugerð með stoð í gildandi lögum. Fallist er á að eðlilegra sé að gera grein fyrir slíkri lágmarkskröfu í lögum frekar en reglugerð. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í 4. tölul. 2. mgr. að allar gerðir fótboga séu óheimilir. Í 11. tölul. kemur fram að fastur ljósgjafi sé óheimill nema til refaveiða við æti og minkaveiða. Í 12. tölul. hefur ljósi á ökutæki verið bætt við sem óheimilli aðferð við veiðar. Í 15. tölul. er kveðið á um til að taka af vafa að töluliðurinn eigi við um fjölskota haglabyssur, ekki aðrar fjölskota byssur enda hafa rifflar oft skothylkjahólf eða svokallað magasín sem getur tekið mun fleiri skot. í 16. tölul. kemur nú fram að hljóðdeyfar eða hljóðdemparar eru ekki heimilir nema skotvopnið þannig útbúið uppfylli skilyrði vopnalaga. Í þessari breytingu felst því að heimilt er að nota hljóðdeyfa til veiða, hvort sem er á haglabyssur eða riffla ef vopnið uppfyllir skilyrði vopnalaga. Í 17. tölul. er kveðið á um að óheimilt sé að nota lifandi dýr sem bandingja eða agn við veiðar eða til þjálfunar veiðihunda nema bendihunda utan varptíma. Talið var rétt að leggja ekki skorður við þjálfun bendihunda nema um varptíma þegar æskilegt er að fuglar njóti verndar. Í 18. tölul. er kveðið á um að það er einskorðað við ósærða bráð. Heimilt er því að nota veiðihunda til að ná í særða bráð og við minkaveiðar hvort sem minkurinn er særður eða ósærður. Í samráðsferlinu var jafnframt bent á að ekki væri gert ráð fyrir að sérstökum undanþáguheimildum frá veiðiaðferðum 24. gr. eins og er í gildandi lögum. Við því hefur verið brugðist í 5. mgr. þar sem gert er ráð fyrir slíkri heimild til handa Umhverfisstofnun. Varðandi veiðar með boga hérlendis þá var talið að ekki væri unnt að heimila slíkar veiðar þar sem vopnalög leggja bann við nauðsynlegum búnaði til að stunda veiðar með boga.
    Hluti umsagnaraðila benti á að ekki væri þörf á veiðiskýrslum vegna eggjatöku eða vegna villtra fugla sem drepast við netaveiðar. Aðrir umsagnaraðilar töldu að allar slíkar upplýsingar kæmu að gagni við rannsóknir og ákvarðanir sem taka þarf í þessum málaflokki. Ljóst væri að í sumum vötnum væri um að ræða mikinn fjölda fugla sem dræpust við netaveiðar. Í umsögnum var einnig bent á að veiðitölur þyrftu að vera aðgengilegar og opinberar. Ákveðið var í framhaldi af ábendingum að breyta 1. mgr. 28. gr. með þeim hætti að skýrlega kæmi fram að skýrslugjöfin ætti einungis við um villta fugla sem dræpust við netaveiðar í vötnum og ám en ekki á sjó. Þegar er skylda til að skrá niður slíkan meðafla í afladagsbók. Með hliðsjón af eðli máls þá yrði slík skýrsla ekki hluti af skýrsluskilum veiðikortshafa enda óvíst hvort sá sem stundar netaveiðar hafi slíkt kort. Gert er því ráð fyrir að Umhverfisstofnun útbúi þar til gerða skýrslu til að taka við slíkum upplýsingum. Jafnframt er nú mælt fyrir um í 2. mgr., í samræmi við framangreint, að Umhverfisstofnun skuli innan árs birta veiðitölur síðasta veiðiárs.
    Nokkrir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við hugtakið sjálfbærar veiðar í frumvarpsdrögunum og að hugtakið þyrfti að skýra frekar. Reynt var að ná betur utan um skilgreiningu hugtaksins með þeim hætti að veiðar teljist sjálfbærar ef nýliðun tegundar eða stofns stendur undir veiðum og náttúrulegum afföllum þannig að stofn nái yfir tiltekinn tíma að endurnýja sig og viðhalda þeirri stofnstærð og útbreiðslu sem náttúruleg takmörk setja. Orðalagi 2. tölul. 2. mgr. 17. gr. var breytt til samræmis.
    Margar athugasemdir komu frá umsagnaraðilum um 29. gr. laganna varðandi nytjaveiðar á fuglum. Hluti umsagnaraðila taldi að verið væri að fækka stórlega þeim tegundum sem veiði væri heimil á. Aðrar umsagnaraðilar töldu hins vegar að margar af þeim tegundum sem taldar væru upp í greininni væru mjög viðkvæmar fyrir veiðum og ættu því ekki heima á lista um heimilar veiðitegundir. Nokkrir umsagnaraðilar töldu með öllu óþarft að vera með slíkan tegundalista veiðitegunda í lögum og að stjórnunar- og verndaráætlanir ættu að vera ráðandi varðandi það hvort einstakar tegundir yrðu veiddar eða ekki. Ekki er hægt að fallast á þær athugasemdir umsagnaraðila að með greininni sé fækkað verulega þeim tegundum sem heimilt er að veiða. Athugasemdirnar byggjast á því að í 17. gr. gildandi laga er gert ráð fyrir því að ráðherra sé heimilt að aflétta friðun á svartbak, sílamáf, silfurmáf og hrafni allt árið. Ástæða þess að umræddar tegundir eru ekki taldar upp í 29. gr. sem fjallar um nytjaveiðar er sú að í frumvarpinu er gert ráð fyrir mismunandi ástæðum fyrir afléttingu ráðherra á friðun villtra fugla og villtra spendýra. Í 17. gr. er einungis fjallað um afléttingu friðunar vegna nytjaveiða og eggjatöku, 18. gr. fjallar um afléttingu friðunar vegna tjóns af völdum villtra fugla og villtra spendýra og 19. gr. fjallar um afléttingu friðunar vegna annarra atvika. Í 29. gr. er einungis fjallað um afléttingu friðunar vegna nytjaveiða á fuglum en ekki á tegundum sem kunna að valda tjóni. Svartbakur, sílamáfur, silfurmáfur og hrafn eru hvorki veiddir til nytja né neyslu. Um afléttingu friðunar á svartbak, sílamáf, silfurmáf og hrafni, ásamt öllum öðrum tegundum sem geta valdið tjóni fer samkvæmt 18. gr. Í þeirri grein frumvarpsins eru því í raun að finna víðtækari heimildir til afléttingar friðunar á tegundum sem valdið geta tjóni á grundvelli en er að finna í 17. gr. gildandi laga.
    Hluti umsagnaraðila vildi að í lögum yrði gert ráð fyrir því að hægt yrði að fjölga þeim tegundum sem veiddar yrðu hérlendis ef staðreynt væri að slíkar tegundir þoldu slíka veiði. Í þessu sambandi var meðal annars bent á hrossagauk sem dæmi um villtan fugl sem gæti þolað veiði og hann væri veiddur í nágrannalöndum okkar. Ljóst er að ýmsar aðrar tegundir villtra fugla eru veiddar í nágrannalöndum okkar sem eru friðaðar hérlendis. Þar má t.d. nefna skógarþröst, heiðlóu, æðarfugl, spóa, jaðrakan, stelk og rauðbrysting. Ljóst er að mjög skiptar skoðanir eru í samfélaginu á því hvort heimila eigi veiðar á slíkum tegundum hérlendis, óháð því hvort hefð sé fyrir veiðum á þeim erlendis, og jafnvel þótt slíkar tegundir kynnu að þola einhverjar veiðar. Eins og fram kemur í skýringum við 29. gr. frumvarpsins varð það niðurstaða við vinnslu frumvarpsins að miða við þær fuglategundir sem hefð væri fyrir veiðum á hérlendis. Það væru þær tegundir sem veiddar hafa verið hérlendis um langt skeið og væru því séríslenskar veiðitegundir. Einnig var talið rétt að í upptalningu greinarinnar væru þær tegundir sem veiddar hefðu verið hérlendis, þrátt fyrir að hluti þeirra stæði illa um þessar mundir og þyldi ekki veiðar. Í þessu sambandi verður að horfa til þess að greinin, eins og 17. gr. gildandi laga, mælir einungis fyrir um heimild til að aflétta friðun á þessum tegundum en ekki skyldu. Vegna slæmrar stöðu hluta tiltekinna fuglategunda sem taldar eru upp í greininni hefur friðun ekki verið aflétt af þeim og veiðar því ekki verið heimilar um talsvert skeið. Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum þar á verði frumvarp þetta að lögum nema ástand slíkra tegunda breytist þannig að hægt verði að heimila að nýju á þeim sjálfbærar veiðar á grundvelli stjórnunar- og verndaráætlana.
    Nokkrar athugasemdir frá umsagnaraðilum komu fram um friðlýsingu æðarvarpa. Þar var meðal annars bent á að óeðlilegt væri að annar en landeigandi gæti óskað eftir friðlýsingu æðarvarps. Einnig komu fram athugasemdir um að skýra þyrfti frekar rétt til að verja æðarvarp gegn tjóni. Varðandi hver getur óskað friðlýsingar á æðarvarpi ber að nefna að í gildandi lögum er kveðið á um að friðlýsing æðarvarps fari samkvæmt reglugerð. Um friðlýsingu æðarvarpa o.fl. er fjallað í reglugerð nr. 252/1996. Hafa ber í huga að friðlýsing æðarvarpa er byggð á gömlum grunni og er talsvert annars eðlis en þær almennu friðlýsingar sem t.d. er fjallað um í náttúruverndarlögum. Friðlýsingin snýr aðallega að því að vernda tiltekna fjárhagslega hagsmuni þess sem stendur fyrir æðarvarpinu. Í framangreindri reglugerð er kveðið á um að landeigandi, ábúandi eða umráðamaður æðarvarps geti óskað eftir friðlýsingu. Fallist er á það sjónarmið sem fram kom að það sé almennt landeigandi sem geti farið fram á friðlýsingu. Hins vegar sé varhugavert að útiloka að aðrir en landeigendur geti óskað eftir slíkri friðlýsingu ef ljóst þykir að hlutaðeigandi eigi þar lögbundna hagsmuni. Sú breyting var því gerð að sá sem farið geti fram á friðlýsingu æðarvarps sé landeigandi eða sá sem lögmætan rétt hefur til að nýta æðarvarp. Eðlilegt er að æðarræktandi sem hefur lögmætan rétt til að nýta æðarvarp, t.d. á grundvelli samnings eða jafnvel hefðarréttar, geti óskað eftir slíkri friðlýsingu varpsins enda er hér einungis um tímabundna friðlýsingu að ræða en ekki varanlega. Varðandi rétt landeigandi eða lögmæts rétthafa til að verja æðarvarpið er gert ráð fyrir að hann hafi rétt til að skota innan marka friðlýsingarinnar enda séu skotin í því skyni að verja það á grundvelli þeirra heimilda sem hann hefur til þess. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um slíkar heimildir í reglugerð.
    Nokkrar athugasemdir voru gerðar um eggjatöku. Annars vegar fjölluðu tilteknar athugasemdir um að rétt væri að banna með öllu töku eggja frá villtum fuglum eða þrengja að minnsta kosti verulega ákvæði um eggjatöku eða takmarka slíka eggjatöku við þær jarðir þar sem slíkt teldist vera hefðbundin hlunnindi. Einnig komu fram athugasemdir um að víkka ætti heimildir til eggjatöku og þær ættu ekki einungis að vera bundnar við eigendur lands heldur ætti almenningur að geta átt þess kost að tína egg. Í 33. gr. er fjallað almennt um eggjatöku en í 34. gr. er fjallað um eggjatöku sem telst vera staðbundin og hefðbundin hlunnindi á tilteknum svæðum. Ákveðið var með hliðsjón af framangreindum athugasemdum að gera ráð fyrir að bæði almenningur og landeigendur á eignarlöndum gætu tínt egg þeirra fugla sem heimilt hefur verið að tína samkvæmt gildandi lögum. Það eru egg silfurmáfs, sílamáfs, svartbaks, hvítmáfs og hettumáfs, sbr. 33. gr. Einnig er nú gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að fjölga þeim tegundum sem falla undir 33. gr. enda verði talið að tegundirnar þoli sjálfbæra eggjatöku. Þar sem veiðiréttur og eggjataka fylgja eignarlandi liggur fyrir að almenningur getur ekki tínt egg á eignarlöndum samkvæmt þessari grein nema með leyfi landeiganda. Eggjatökuheimild almennings á því einvörðungu við um þjóðlendur. Landeigandi hefur sömu heimildir til að tína egg framangreindra fuglategunda á eignarlandi sínu. Einnig getur hann tínt egg þeirra tegunda sem mælt er fyrir um í 34. gr. enda eigi skilyrði greinarinnar við um landeigandann. Sú grein mælir fyrir um þau hefðbundnu og staðbundnu hlunnindi sem gilda um takmörkuð svæði á landinu þar sem taka eggja þessara tegunda hefur talist til hefðbundinna hlunninda í tíð gildandi laga.
    Talsvert margar umsagnir bárust vegna fyrirkomulags hreindýraveiða. Beindust athugasemdir meðal annars að hreindýraráði, að fresti veiðimanna til skila niðurstöðum úr verklegum skotprófum, þeim kröfum sem gerðar væru til að hljóta leyfi til leiðsagnar með hreindýraveiðum, endurnýjun leyfa til leiðsagnar með hreindýraveiðum og heimild til að nota sexhjól til að sækja hreindýr sem fellt hefði verið fjarri veiðislóð. Síðastnefndu athugasemdirnar lutu annars vegar að því að ekki mætti gera of strangar kröfur vegna aksturs sexhjóla til að sækja veiðibráð utan alfaraleiðar og hins vegar að slík hjól geti valdið náttúruspjöllum. Í tilefni framkominna athugasemda hafa verið gerðar nokkrar breytingar á efni kaflans um hreindýraveiðar. Þannig hefur hreindýraráði verið bætt við þá aðila í 2. mgr. 37. gr. sem Náttúrustofa Austurlands gerir grein fyrir niðurstöðum sínum. Áréttað er í 38. gr. að Umhverfisstofnun bæði úthluti og selji veiðileyfi til hreindýraveiða. Í 2. mgr. 39. gr. er mælt fyrir um að staðfesting á verklegu skotprófi skuli hafa borist Umhverfisstofnun áður en stofnunin gefur út leyfi til hreindýraveiða í stað þess að mæla fyrir um að leyfi skuli hafa borist stofnuninni fyrir tiltekið tímamark. Varðandi áskildar kröfur til leiðsögumanna með hreindýraveiðum þá er nú kveðið á um í 4. tölul. 2. mgr. 40. gr. að umsækjandi um slíkt leyfi skuli sjálfur hafa veitt að minnsta kosti tvö hreindýr auk þess sem í 5. tölul. er nú kveðið á um að umsækjandi hafi tvisvar á sama veiðitímabili leiðsagt undir handleiðslu reynds og starfandi leiðsögumanns og í 7. tölul. er nú gert ráð fyrir að hann þurfi að sýna fram á að hann hafi líkamlega færni til starfans samkvæmt læknisvottorði. Í 3. mgr. er að finna sérstaka málsgrein um endurnýjun á leyfi til hreindýraveiða eftir að gildistími fyrra leyfis er liðinn. Þar er gerð sú krafa að hann hafi leiðsagt í að minnsta kosti tíu ferðum á gildistíma síðasta leyfis. Eins og rakið er í skýringum við greinina þykir eðlilegt að áskilja að leiðsögumaður hafi nýtt og viðhaldið þekkingu sinni á gildistíma síðasta leyfis óski hann endurnýjunar leyfisins. Í 4. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun semji námskrá og setji mörk og viðmið fyrir fullnægjandi árangur á prófi fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum í samráði við Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Nokkur fjöldi umsagnaraðila taldi að tryggja þyrfti að námskeið vegna réttinda leiðsögumanna með hreindýraveiðum yrði haldið með reglulegu millibili. Til að koma til móts við þá athugasemd er í 5. mgr. nú gert ráð fyrir að slík námskeið verði haldin á að minnsta kosti 4 ára fresti. Varðandi athugasemdir vegna aksturs sexhjóla til að sækja veiðibráð sem felld hefur verið utan alfaraleiðar þá var ákvæðinu breytt nokkuð með því að heimila leiðsögumanni að taka ákvörðun um slíkan akstur í einstökum tilvikum enda væri ekki hætta á náttúruspjöllum. Ljóst er að erfitt getur verið í sumum tilvikum að óska fyrir fram eftir leyfi Umhverfisstofnunar fyrir slíkum akstri, meðal annars vegna takmarkaðs símasambands á hálendinu. Gert er því ráð fyrir að slík tilkynning skuli því eiga sér stað um leið og færi gefst. Einnig er mælt fyrir um að gera skuli grein fyrir slíkri för í veiðiskýrslum. Áréttað er að þessi takmarkaða heimild nái einungis til leiðsögumanna með hreindýraveiðum, ekki til veiðimanna, og að heimildin gildi ekki um leiðsögnina sjálfa. Varðandi 4. mgr. 41. gr. um viðurlög við brot á skyldum leiðsögumanna með hreindýraveiðum þá er nú gert ráð fyrir að sá sem sviptur er slíkum réttindum vegna brota geti á ný sótt um slíkt leyfi enda uppfylli hann skilyrði 2. mgr. 40. gr., auk þess sem hann hafi að nýju lokið prófi skv. 8. tölul. sömu greinar
    Varðandi sölu á veiðifangi og eggjum þá komu fram talsvert mismunandi sjónarmið meðal umsagnaraðila. Hluti umsagnaraðila var fylgjandi víðtækum heimildum til að takmarka sölu á veiðibráð jafnvel þannig að slík sala væri alfarið bönnuð, en aðrir töldu að slíkar takmarkanir á sölu ætti ekki að lögfesta nema brýna nauðsyn bæri til. Almennt var þó viðurkennt að sölubann gæti verið áhrifarík leið til að minnka veiðiálag á tilteknum stofnum ef þyrfti. Til að koma til móts við ólík sjónarmið er í 2. mgr. 48. gr. mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt að banna sölu veiðifangi eða eggjum ef hlutaðeigandi stofn eða tegund þoli ekki slíka sölu með sjálfbærum hætti, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Greinin mælir því fyrir um að þessa þætti þurfi að skoða og meta áður en ráðherra tekur ákvörðun um að takmarka eða banna sölu slíkra afurða.
    Tilteknar athugasemdir umsagnaraðila lutu að ákvæðum um eftirlit og framkvæmd eftirlits. Fram komu sjónarmið og efasemdir um að rétt væri að gera ráð fyrir sérstöku eftirliti með veiðum og að slíkt eftirlit væri best komið í höndum lögreglu í hverju umdæmi fyrir sig. Bent var einnig á að sérstakar valdheimildir þyrfti til að framkvæma slíkt eftirlit með árangursríkum hætti. Í kjölfar samráðs voru nokkrar breytingar gerðar á þeim kafla sem snýr að eftirliti og framkvæmd eftirlits. Helstu breytingarnar felast í að 51. gr. gerir nú ráð fyrir samráði Umhverfisstofnunar við lögreglu í hlutaðeigandi umdæmi um framkvæmd eftirlits innan lögregluumdæmanna á grundvelli eftirlitsáætlunar og um einstök eftirlitsverkefni, auk þess sem skýrar er kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli við framkvæmd eftirlits leita aðstoðar lögreglu hafi stofnunin rökstuddan grun um að framið hafi verið brot sem rannsaka þurfi frekar.
    Athugasemdir komu frá nokkrum samráðsaðilum um að gjaldtaka vegna veiðikorta væri skattur og því óeðlilegt að hún fylgi breytingum á vísitölu. Athugasemdir lutu einnig að því að ekki væri gert ráð fyrir að gjöld vegna veiðikorta rynnu í sérstakan veiðikortasjóð sem gerði tillögur um úthlutun úr sjóðnum. Einnig komu fram ábendingar um að rétt væri að arður vegna veiða á hreindýrum sem innheimtur væri af jörðum í ríkiseigu rynni til Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Í framhaldi af samráði hefur 55. gr. verið breytt þannig að ekki er gert ráð fyrir vísitölubindingu gjalds vegna veiðikorta. Jafnframt hefur sú breyting verið gerð á ákvæðinu að gert er ráð fyrir að ráðherra skipi sérstakan samráðshóp hagaðila sem komi að tillögum Umhverfisstofnunar um tillögur að fjárveitingum til tiltekinna verkefna samkvæmt greininni. Ítarlega er farið yfir þessa breytingu í skýringum við greinina.
    
6. Mat á áhrifum.
    Gert er ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til aukins rekstrarkostnaðar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun.
    Hvað Náttúrufræðistofnun Íslands varðar má gera ráð fyrir að fjölga þurfi starfsmönnum um sem svarar einu stöðugildi og að árlegur viðbótarkostnaður sé um 15 millj. kr.
    Hjá Umhverfisstofnun má gera ráð fyrir að fjölga þurfi starfsmönnum um sem nemur þremur stöðugildum og að árlegur viðbótarkostnaður geti legið á bilinu 45–50 millj. kr. Gert er ráð fyrir að hluti af kostnaði Umhverfisstofnunar vegna veiðistjórnunar greiðist með fjárveitingum sem tengjast tekjum af veiðikortum sbr. 1. tölul. 55. gr.
    Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til frekari aukinna útgjalda hjá ríkissjóði eða sveitarfélögum og að viðbótarkostnaður hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun rúmist innan fjárheimilda á málefnasviði 17 Umhverfismál.
    

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. er að finna helstu markmið sem stefnt er að. Markmiðsákvæðin eru að nokkru leyti samhljóða þeim meginreglum eða meginsjónarmiðum sem nefnd um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og villtra spendýra byggði á við tillögugerð sína. Í heild má segja að markmiðsákvæðið byggist á því að hið villta dýralíf landsins skuli hafa sjálfstæðan tilverugrundvöll og að meginreglan sé að villtir fuglar og villt spendýr og búsvæði þeirra séu friðuð og njóti verndar. Gert er ráð fyrir að hægt sé að víkja frá þeirri meginreglu á grundvelli sjónarmiða um sjálfbæra nýtingu eins og t.d. nytjaveiðum eða þegar villtir fuglar eða villt spendýr valda tjóni. Í báðum tilvikum er lagt til að haldbær, fagleg og vísindaleg gögn liggi fyrir áður en slíkar ákvarðanir eru teknar.
    

Um 2. gr.

    Í greininni kemur fram að ákvæðið taki til allra villtra fugla og villtra spendýra á íslensku yfirráðasvæði, hvort sem er á landi eða sjó að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands, nema hvala og sela.
    Í 3. mgr. 2. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, kemur fram að lögin nái til efnahagslögsögu Íslands. Skv. 3. gr. laga um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979, er efnahagslögsaga skilgreint svo: „Efnahagslögsaga Íslands er svæði utan landhelgi sem afmarkast af línu sem alls staðar er 200 sjómílur frá grunnlínum landhelginnar (…).“ Í greininni er lögð til breyting á gildissviðinu þannig að lögin, verði þau samþykkt, nái til íslensks yfirráðasvæðis, hvort sem er á landi eða sjó að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands.
    Hvalir og selir eru undanskildir gildissviðsákvæði eins og í gildandi lögum.
    

Um 3. gr.     

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. er lögð áhersla á stefnumótunarhlutverk ráðherra í málaflokknum ásamt því að hann fari með yfirstjórn mála er varða friðun, vernd og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Um 5. gr.

    Í greininni er fjallað um hlutverk stofnana og lagt til að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skuli vera ráðherra til ráðgjafar um framkvæmd laganna og gera tillögur varðandi friðun, vernd og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eftir því sem nánar er mælt fyrir um eða ráðherra óskar sérstaklega eftir, auk annarra verkefna sem stofnununum kunna að verða sérstaklega falin. Þessi grein er að mestu í samræmi við sambærilegt ákvæði 2. mgr. 3. gr. gildandi laga.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram sú megináhersla að Náttúrufræðistofnun Íslands gegni fyrst og fremst sérstöku vöktunar- og rannsóknarhlutverki vegna villtra fugla og villtra spendýra. Þar hefur stofnunin t.d. veigamiklu hlutverki að gegna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar varðandi þá þætti sem heyra undir verksvið hennar, sbr. 3. mgr. Í 16. gr. er auk þess mælt fyrir um aðra þætti sem snúa að stofnuninni varðandi gerð stjórnunar- og verndaráætlana. Í greininni er meðal annars kveðið á um að Náttúrufræðistofnun Íslands meti stofnstærð, verndarstöðu og verndarþörf tegunda. Kveðið er á um skyldu til að gera vöktunaráætlanir vegna þeirra tegunda sem friðun hefur verið létt af og heimild veitt til veiða eða annarra nytja. Mikilvægt er að slíkar tegundir eða stofnar sæti ákveðinni og skilvirkri vöktun með tilliti til stýringar á nytjaveiðum og veiða til varnar tjóni.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um hlutverk stofnunarinnar við að vinna, uppfæra og birta válista yfir villta fugla og villt spendýr. Henni er jafnframt ætlað það hlutverk að birta lista yfir ábyrgðartegundir villtra fugla og villtra spendýra sem Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á samkvæmt alþjóðlegum samningum.
    Í 4. mgr. er kveðið á um tiltölulega opna heimild stofnunarinnar til að vinna að verkefnum sínum í samstarfi eða samráði við náttúrustofur, háskóla eða aðra rannsóknaraðila eftir því sem aðstæður eða verkefni gefa tilefni til. Mikilvægt er að stofnunin hafi heimildir til að vinna að einstökum verkefnum í slíku samstarfi enda hafa slíkir aðilar oft yfir að ráða mikilli þekkingu og sérhæfingu á tilteknum þáttum er snúa að villtum fuglum og villtum spendýrum.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um almennt hlutverk Umhverfisstofnunar. Lagt er til talsvert víðtækara hlutverk stofnunarinnar við framkvæmd laganna en gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Í mörgum tilvikum hefur stofnunin hins vegar sinnt hluta af þeim verkefnum sem fjallað er um í greininni og lagt er til að verði lögfest. Í greininni kemur fram að gert sé ráð fyrir að Umhverfisstofnun hafi með höndum umsjón og eftirlit með framkvæmd laganna og stjórni aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á vernd tegunda, stofnstærð og útbreiðslu villtra fugla og villtra spendýra og aðgerðum til að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hlutverk Umhverfisstofnunar í tengslum við almenna veiðistjórnun, þ.m.t. umsjón með veiðum og námskeið vegna veiða, útgáfu veiðikorta, við veiðar, fræðslu- og leiðbeiningar vegna veiða og aðgerða til að varna tjóni, auk þess að veita tímabundnar undanþágur til veiða meðal annars í því skyni að varna tjóni.
    Í 3. mgr. er kveðið á um hlutverk Umhverfisstofnun við eftirlit með framkvæmd veiða, þ.e. veiðieftirlits og söfnunar upplýsingar.
    Í 4. mgr. er kveðið á um hlutverk Umhverfisstofnunar í tengslum við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar. Lagt er til að bæði Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands komi að gerð stjórnunar- og verndaráætlana. Gert er ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun Íslands sjái alfarið um þann hluta áætlunarinnar sem byggist á verksviði Náttúrufræðistofnunar Íslands og snýr að rannsóknum og vöktun einstakra tegunda og mati stofnunarinnar á ástandi stofna út frá slíkum gögnum. Stjórnunarþáttur áætlunarinnar er hins vegar á hendi Umhverfisstofnunar og skal byggjast á þeim þætti áætlunarinnar sem Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á. Kveðið er á um í greininni að Umhverfisstofnun vinni að þeim þáttum áætlunarinnar sem heyra undir verksvið hennar. Þrátt fyrir að stofnanirnar beri ábyrgð á mismunandi þáttum í áætluninni er mikilvægt að skýrt liggi fyrir hver beri ábyrgð á heildaráætluninni sjálfri og gerð hennar. Því er lagt til að Umhverfisstofnun verði sá aðili sem beri ábyrgð á gerð og vinnslu heildaráætlunar einstakra tegunda og sjái um að koma henni til ráðherra til skoðunar og samþykktar.
    Í 5. mgr. er að finna heimild fyrir stofnunina að vinna að verkefnum sínum samkvæmt greininni í samstarfi og samráði við stofnanir, rannsóknaraðila eða hagsmunasamtök á hlutaðeigandi sviðum eftir því sem aðstæður eða verkefni gefa tilefni til. Í sumum af þeim verkefnum sem stofnunin hefur með höndum er mikilvægt að hafa skýra heimild til að eiga samráð og samvinnu við þá aðila sem lagt geta þekkingu sína á vogaskálar við stefnumörkun og framkvæmd verkefnanna.

Um 8. gr.

    Að mörgu leyti er um að ræða efnislega sambærilega samráðsheimild og er að finna í 4. mgr. 3. gr. gildandi laga. Þó er lagt til að ekki verði um að ræða fortakslausa skyldu til að viðhafa alltaf samráð við alla þá aðila sem taldir eru upp í greininni. Rétt er talið að hægt verði að einskorða slíkt samráð við þá aðila sem eru líklegustu hagaðilarnir í einstökum tilvikum. Þannig kann í dæmaskyni t.d. að vera ónauðsynlegt að hafa samráð við Fuglavernd um málefni sem snúa eingöngu að hreindýrastofninum. Leiki hins vegar einhver vafi á því hvort hafa skuli samráð við tiltekna hagaðila er eðlilegt að slíkum aðila sé boðið að taka þátt í slíku samráði frekar en ekki.
    

Um 9. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um þá meginreglu að allir villtir fuglar og villt spendýr, þar með talin þau dýr sem koma reglulega eða kunna að berast til landsins af sjálfsdáðum, séu friðuð nema annað sé tekið fram í lögunum eða að friðun hafi verið aflétt. Þessi friðun nær einnig til eggja villtra fugla og hreiðra þeirra á varptíma. Þetta ákvæði er efnislega sambærilegt ákvæði 1. mgr. 6. gr. gildandi laga. Minkar njóti þó ekki friðunar og sama gildir um rottur og mýs í og við híbýli, sbr. 1. mgr. 15. gr. gildandi laga. Er það í samræmi við meginreglu gildandi laga, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 15. gr. Ekki er talin ástæða til sérstakra breytinga þar á.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra sé heimilt með reglugerð að eigin frumkvæði eða að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar að kveða á um aukna vernd eða sértæka friðun ákveðinna tegunda villtra fugla og villtra spendýra ef ástæða er til. Eðlilegt er talið að ráðherra hafi slíka heimild t.d. í þeim tilvikum að nauðsynlegt er talið að bregðast þurfi skjótt við og ekki er talið ráðlegt að bíða endurskoðaðrar stjórnunar- og verndaráætlunar áður en taka þarf ákvörðun um aukna vernd eða sértæka friðun.
    

Um 10. gr.

    Í greininni eru tekin saman í eina grein helstu ákvæði gildandi laga sem snúa að verndun villtra fugla og villta spendýra og búsvæða þeirra auk þess sem lagðar eru til ákveðnar breytingar í átt til aukinnar verndar frá gildandi lögum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að við gerð skipulagsáætlana, og ákvarðana um landnotkun og ferðir almennings um náttúruna skuli eins og kostur er taka tillit til villtra fugla og villtra spendýra og búsvæða þeirra. Greinin er sambærileg 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að bætt hefur verið við að við ferðir um náttúruna beri einnig að taka tillit til villtra dýra.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að forðast skuli alla óþarfa truflun á dýralífi og röskun á búsvæðum, lykilbúsvæðum og lykilstöðum. Ljóst er að ýmsar athafnir manna geta valdið truflun eða röskun á slíkum svæðum, en með ákvæðinu er lögð áhersla á að slíkri truflun eða röskun sé haldið í lágmarki og að hún eigi sér ekki stað að óþörfu. Í greininni er að finna nýmæli á þann veg að eigendum eða ábyrgðaraðilum hunda og katta beri að virða friðhelgi fugla á búsvæðum, lykilbúsvæðum og lykilstöðum um varptímann og gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að forða tjóni og röskun af þeirra völdum. Mikilvægt er að kveðið sé á um aðgæsluskyldu í þessa veru enda geta slík dýr valdið umtalsverðu tjóni sé ekki hugað að ráðstöfunum til að koma í veg fyrir umferð þeirra um slík svæði á varptíma.
    Í 3. mgr. er kveðið á um sérstaka vernd fuglabjarga og fuglabyggða á varptíma. Um er að ræða nokkrar efnisbreytingar frá 4. mgr. 17. gr. gildandi lag þar sem er að finna almennt ákvæði um vernd fuglabjarga. Í þessari grein er lagt til að gildandi ákvæði verði víkkað nokkuð þannig að það taki ekki einungis til fuglabjarga heldur einnig mikilvægra fuglabyggða. Mikilvægt er að slík búsvæði njóti sambærilegrar verndar og fuglabjörg. Erfitt er að átta sig á hvaða svæði geti fallið undir greinina enda geta t.d. mjög margir staðir á landinu fallið að einhverju marki undir hugtakið fuglabyggðir svo dæmi sé tekið. Gert er því ráð fyrir að hægt verði að telja upp og tilgreina í reglugerð mikilvægustu fuglabyggðir og fuglabjörg landsins sem ákvæði þessu yrði ætlað að taka til. Í greininni er kveðið á um að óheimilt sé að þeyta flautur, fljúga þyrlum, flygildum eða öðrum loftförum og sigla hávaðamiklum skipum eða bátum eða vera með annan hávaða að óþörfu á varptíma við þessi mikilvægu búsvæði villtra dýra innan þeirra fjarlægðarmarka sem gert er ráð fyrir að heimilt verði að skilgreina í reglugerð. Flygildi (drónar) höfðu ekki rutt sér til rúms með jafn almennum hætti og nú er þegar gildandi lög voru sett. Einnig hefur á síðari árum borið nokkuð á truflun á slíkum stöðum af völdum hljóðmikilla báta og skipa sem nýtt eru til skoðunarferða. Í greininni er alls ekki lagt til fortakslaust bann við siglingum á slíkum svæðum heldur lagt til að slíkar siglingar valdi ekki meiri truflun á slíkum búsvæðum en nauðsyn ber til og að hægt verði í reglugerð að mæla fyrir um ákveðin viðmið um hávaða frá slíkum farartækjum og fjarlægð frá þessum svæðum. Að lokum er í málsgreininni kveðið á um að ekki sé heimilt á varptíma að hleypa af skoti á sjó nærri fuglabjörgum og mikilvægum fuglabyggðum en 2 km. Í 4. gr. 17. gr. gildandi laga er mælt fyrir um að þessi fjarlægð skuli vera 500 metrar á sjó. Talið er að sú fjarlægð sé í mörgum tilvikum of lítil enda geta skothljóð borist langar leiðir og magnast t.d. í grennd við sjávarhamra. Þessi breyting er í samræmi við þær tillögur sem lagðar voru til í villidýraskýrslunni auk þess sem fjarlægðarmörkin eru í samræmi við fjarlægðarmörk gildandi laga um skot við friðlýst æðarvörp, sbr. 20. gr. gildandi laga. Lagt er hins vegar til að fjarlægð skota á landi verði óbreytt, eða 200 metrar, sbr. 5. mgr. 17. gr. gildandi laga.
    Í 4. mgr. er að finna ákvæði sem er í samræmi við 5. mgr. 17. gr. gildandi laga sem leggur bann við veiðum á fuglum í sárum. Í 10. gr. er jafnframt kveðið á um að einnig verði óheimilt að veiða ófleyga unga. Ljóst er að sú hefð að veiða ófleyga unga til matar er að miklu leyti hverfandi. Slíkar veiðar stangast auk þess á við ýmsa alþjóðlega samninga sem Ísland er aðili að. Hér má nefna að slíkar veiðar eru bæði andstæðar Parísarsamningnum og Bernarsamningnum. Telja verður auk þess að bæði siðferðisrök og dýravelferðarsjónarmið mæli með banni við slíkum veiðum enda á ófleygur ungi sér enga undankomuleið frá veiðimanni ólíkt fullvöxnum fleygum fuglum. Þessi breyting er í samræmi við þær tillögur sem lagðar eru til í villidýraskýrslunni.

Um 11. gr.

    Kveðið er á um velferð villtra fugla og villtra spendýra í 11. gr. Ljóst er að lög um velferð dýra, nr. 55/2013, gilda um villta fugla og villt spendýra auk villinga. Þrátt fyrir það þykir rétt að einnig sé kveðið á um velferð þeirra í frumvarpi þessu þar sem það fjallar að stórum hluta einnig um veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að skylt sé að sýna villtum fuglum og villtum spendýrum hvar sem er á landinu nærgætni og tillitssemi og forðast óþarfa truflun, röskun eða meðhöndlun. Greinin mælir þannig ekki fyrir um að öll truflun, röskun eða meðhöndlun sé ávallt óheimil, heldur er áherslan lögð á að óheimilt sé að valda truflun eða röskun á dýralífi ef það er ónauðsynlegt eða óþarft. Þannig er t.d. ljóst að lögmæt inngrip í náttúruna, eins og t.d. dýraveiðar á grundvelli laganna, lögmætar merkingar dýra, eða þegar særðu dýri er veitt neyðarhjálp geta valdið bæði röskun og truflun. Hér verður hins vegar að hafa í huga að slík röskun eða truflun yrði ekki metin óþörf í skilningi þessarar greinar enda hefur hún lögmætan tilgang.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að við alla nauðsynlega meðhöndlun eða afskipti af villtum fuglum og villtum spendýrum skuli þess gætt eins og kostur er að meðferð þeirra sé réttlætanleg og að þau verði ekki fyrir óþarfa þjáningu eða hræðslu. Í framangreindum málsgreinum felst viðurkenning á því að dýr séu skyni gæddar verur sem hafa sjálfstæðan tilverurétt óháð því hvernig þau nýtast manninum fjárhagslega eða efnahagslega. Þetta sjónarmið liggur einnig til grundvallar lögum um velferð dýra og er jafnframt mikilvægt leiðarljós við túlkun einstakra ákvæða. Lögð er áhersla á að dýr séu lifandi verur sem geta fundið til sársauka og vanlíðunar og að taka beri tillit til þess við alla nauðsynlega meðhöndlun eða afskipti af þeim. Þegar um slík lögmæt inngrip er að ræða þá er í 2. mgr. kveðið á um að þess skuli gætt eins og kostur er að meðferð þeirra sé samt sem áður réttlætanleg og að dýrin verði ekki fyrir óþarfa þjáningu eða hræðslu. Hér er því áhersla lögð á að þegar lögmætar ástæður liggja til grundvallar slíkum inngripum skuli reynt að valda dýrunum eins litlum þjáningum og unnt er miðað við þau inngrip sem heimil eru.
    Í 3. mgr. er í samræmi þau sjónarmið sem reifuð eru varðandi 1. og 2. mgr. áréttuð sú meginskylda veiðimanna við veiðar eða aflífun villtra fugla eða villtra dýra að gera það mannúðlega og að ávallt skuli reyna að aflífa dýr á skjótan og sársaukalausan hátt. Við veiðar er jafnframt óheimilt að valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum. Ljóst er að við veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er aldrei hægt að tryggja með öruggum eða óyggjandi hætti að dýr verði aflífað á skjótan hátt enda geta skot misheppnast þannig að nauðsynlegt er að gera fleiri tilraunir til að ná veiðidýri eða að veiðidýr komist sært undan veiðunum. Ákvæðið mælir hins vegar fyrir um það að veiðimaður skuli gera allt sem í hans valdi stendur til að reyna að tryggja að dýrið verði aflífað á skjótan og sársaukalausan hátt. Þessi skylda er jafnframt áréttuð í 25. gr. ásamt þeirri skyldu veiðimanns til að elta sært veiðidýr uppi jafnvel þótt hann þurfi að fara inn á eignarland þar sem hann hefur ekki heimild til að veiða til að ná hinu særða veiðidýri.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að óheimilt sé að fanga eða halda villt dýr nema til að veita þeim tímabundna neyðaraðstoð eða sérstök heimild hafi fengist til þess í lögum. Ljóst er að nauðsynlegt getur verið að fanga villt dýr til að veita því nauðsynlega aðstoð. Í dæmaskyni um lögmæta föngun til að veita dýri tímabundna neyðaraðstoð má t.d. nefna þann sið barna og ungmenna í Vestmannaeyjum að bjarga ósjálfbjarga lundapysjum í ágústmánuði ár hvert og sleppa í sjó. Í öllum tilvikum ætti að freista þess að sá tími sem líður þar til dýr er fangað og þar til því er sleppt að nýju sé eins skammur og unnt er. Villt dýr sem haft er í haldi um langt skeið getur auðveldlega orðið of háð manninum með þeim afleiðingum að það kemst ekki af í náttúrunni á nýjan leik. Jafnframt er mælt fyrir um það að við lögmæta föngun dýra sé óheimilt að beita aðferðum sem valda dýrinu limlestingum eða kvölum.
    Í 5. mgr. þykir rétt að árétta að koma skal sjúku, særðu eða bjargarlausu villtu dýri til bjargar, jafnvel þótt einnig sé kveðið á um það í 7. gr. laga um velferð dýra. Mikilvægt er að kveðið sé einnig á um þessa hjálparskyldu í löggjöf um veiðar á villtum dýrum.

Um 12. gr.
    

    Ekki var talin þörf á að breyta 19. gr. gildandi laga um erni nema að litlu leyti. Greinin er skýr að flestu leyti og hefur verið talin veita hreiðurstæðum arna fullnægjandi vernd. Í stað þess að nota „100 m hringmál“ eins og er í gildandi lögum er hins vegar lagt til að notað sé „100 m fjarlægð frá hreiðurstað“. Miklu skiptir að ekki sé vafi eða misskilningur um fjarlægðarmörk þau sem liggja til grundvallar vernd hreiðra og hreiðurstæða arna. Svo virðist sem almennt hafi þetta ákvæði verið skilið þannig að átt sé við 100 m radíus en hringmál er einnig hægt að skilja sem ummál hrings. Ljóst er að miðað við þann skilning þá verður að telja það ófullnægjandi vernd slíkra hreiðra. Varðandi undanþágu frá banni við röskun arnarhreiðra, svo sem vegna lagningar þjóðvega eða annarrar mannvirkjagerðar í almannaþágu, er lagt til að mat á umhverfisáhrifum ásamt umsögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar liggi fyrir áður en ráðherra tekur ákvörðun í slíku máli. Í gildandi lögum er kveðið á um að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli halda skrá yfir hreiðurstæði arna og að fara skuli með allar upplýsingar úr skránni sem trúnaðarmál. Í greininni er auk þess lagt til að ákvæði upplýsingalaga skuli ekki taka til skrárinnar. Mikilvægt er til að friðun þessara fugla sé ekki raskað með þeim hætti að óviðkomandi aðilar geti á grundvelli ákvæða upplýsingalaga óskað eftir gögnum frá opinberum stofnunum um nákvæma staðsetningu arnarhreiðra.

Um 13. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að ráðherra sé heimilt í reglugerð að veita hreiðurstæðum og búsvæðum annarra sjaldgæfra villtra fuglategunda sambærilega eða svipaða vernd og mælt er fyrir um í 12. gr. varðandi hreiðurstæði arna. Gert er ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun Íslands geti gert tillögu til ráðherra um slíka friðun og vernd annarra sjaldgæfra villtra fugla og að leitað sé umsagnar Umhverfisstofnunar um málið. Mikilvægt er að fyrir hendi sé skýr heimild til handa ráðherra til að veita hreiðurstæðum og búsvæðum t.d. fálka, snæuglu eða annarra sjaldgæfra og viðkvæmra fugla og fuglum sem metnir eru í mikilli hættu á válistum sambærilega vernd ef nauðsynlegt þykir.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra geti í reglugerð sett tilteknar umgengnisreglur um búsvæði og vistgerðir annarra villtra fugla ef slíkum stofnum eða tegundum stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða eru sérstaklega viðkvæm fyrir raski. Hér er ekki endilega nauðsynlegt að um sé að ræða sérstaklega sjaldgæfa tegund eins og fjallað er um í 1. mgr. heldur meira horft til þess hvort tegundin eða stofninn sé í eðli sínu viðkvæm fyrir umferð eða raski, t.d. á varptíma. Gert er ráð fyrir að ekki verði um eiginlega friðun að ræða eins og t.d. varðandi hreiðurstæði arna, eða sérstaka varanlega búsvæðafriðun samkvæmt náttúruverndarlögum, heldur er frekar verið að hugsa um tiltölulega einfalt og skilvirkt úrræði þar sem hægt er að setja sérstakar umgengnisreglur um tiltekið búsvæði eða vistgerð og hægt er að grípa til með stuttum fyrirvara ef þörf verður á.

Um 14. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um, eins og í gildandi lögum, að almenna reglan sé sú að hvítabirnir eru friðaðir á landi, hafís og sundi.
    Ljóst er hins vegar að hvítabirnir eru óútreiknanlegir og við vissar aðstæður geta þeir verið einstaklega hættulegir. Því er nauðsynlegt að fyrir hendi sé skýrt ferli til að taka á málum þegar fólki stafar hætta af hvítabjörnum eða ljóst er að það stefnir í slíka hættu. Í 2. mgr. er því kveðið á um að skylt sé að tilkynna komu hvítabjarna þegar í stað til lögreglu. Jafnframt er kveðið skýrt á um það að ákvörðunarvaldið til að fella hvítabjörn sem fólki er talin hætta af sé ávallt hjá lögreglu í hlutaðeigandi umdæmi. Enginn vafi má leika á því að skýr heimild sé fyrir hendi fyrir lögreglu í hlutaðeigandi umdæmi að taka ákvörðun um að fella slíkt dýr, þrátt fyrir friðun þess, meti hún það svo að fólki stafi hætta af hvítabirni. Almennt tekur lögreglustjórinn í hlutaðeigandi lögregluumdæmi slíka ákvörðun, en ekki er rétt að útiloka að einstakir lögreglumenn kunni að þurfa að taka ákvörðun um að fella hvítabjörn ef aðstæður eru þannig að enginn tími vinnst til að bregðast við á annan hátt. Ef tækifæri gefst til verður að telja eðlilegt að lögreglan leiti faglegra ráðlegginga eða aðstoðar hjá þeim sem fara með framkvæmd þessara laga, verði frumvarpið óbreytt að lögum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ef það er mat lögreglu að ekki þurfi tafarlaust að grípa til úrræða skv. 2. mgr. þá sé Umhverfisstofnun heimilt að láta fanga hvítabjörn og flytja á stað þar sem ekki er talin stafa hætta af honum. Til slíkra flutninga getur tæpast komið nema hann sé talinn raunhæfur og að fyrir hendi sé öruggur viðtökustaður fyrir hvítabjörninn. Slíkur viðtökustaður hlýtur eðli máls samkvæmt að vera annars staðar en á Íslandi. Ljóst er að til að unnt sé að virkja þetta ákvæði þarf að vera til viðeigandi búnaður til flutnings á hvítabjörnum. Með ákvæðinu er ekki lögð sérstök skylda á Umhverfisstofnun til að koma sér upp slíkum búnaði og viðhalda honum vegna þessa ákvæðis enda bæði um að ræða dýran búnað auk deyfilyfja sem hafa takmarkaðan líftíma og endurnýja þarf reglulega. Rétt þykir þó að slík heimild sé áfram til staðar í lögum ef upp kemur sú staða að Umhverfisstofnun eignist slíkan búnað eða ef t.d. alþjóðasamtök sem hafa yfir rétta búnaðinum að ráða auk þekkingar og reynslu til slíkrar föngunar og flutnings, óski eftir aðkomu að slíkum aðgerðum og öruggur viðtökustaður fyrir slík dýr sé fyrir hendi. Eins og fram kemur í skýrslu nefndar um viðbrögð við komu hvítabjarna til landsins, sem skipuð var í júní 2008, virðast þeir hvítabirnir sem hingað koma almennt vera hluti austur-grænlenska hvítabjarnarstofnsins. Í skýrslunni kemur fram að ekki virðast vera sérstök stofnstærðarrök fyrir björgun hvítabjarna sem villast til Íslands enda sé árlega gefin út veiðikvóti fyrir þennan stofn hvítabjarna á Grænlandi. Í stað þess að fanga slík dýr, væntanlega með miklum tilkostnaði, geti því verið skynsamlegra að fella þau, a.m.k. á meðan stofnstærðarsjónarmið mæla ekki með slíkri björgun. Í skýrslunni er meðal annars vísað til helsta sérfræðings Dana um hvítabirni ásamt Hvítabjarnaráðinu (IUCN) sem telja að litlu skipti fyrir þennan stofn þótt einstaka dýr séu felld á Íslandi.
    Í 4. mgr. er kveðið á um það að afhenda skuli Náttúrufræðistofnun Íslands hvítabirni sem felldir hafa verið til athugunar og ráðstöfunar, enda greiði ríkissjóður áfallinn kostnað við að fella björninn. Efnislega sambærilegt ákvæði er að finna 4. mgr. 16. gr. gildandi laga um heimild til handa ráðherra að krefjast þess að felldur hvítabjörn sé afhentur gegn greiðslu á áföllnum kostnaði.

Um 15. gr.

    Náttúrufræðistofnun Íslands hefur á undanförnum árum unnið válista yfir tegundir villtra fugla og villtra spendýra í lífríki Íslands sem eiga undir högg að sækja eða eru taldar vera í hættu. Á alþjóðavettvangi ganga slíkir válistar einnig undir nafninu „rauðir listar“ (e. Red Lists). Þeir eru mikilvæg forsenda náttúruverndar víða um heim og hafa flestar þjóðir sem Íslendingar bera sig saman við útbúið slíka lista fyrir algengustu hópa lífvera. Við gerð válista hefur stofnunin stuðst við viðmið Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, IUCN, en þau viðmið gera kröfur um nokkuð nákvæma vitneskju um útbreiðslu tegunda, fjölda dýra og stofnstærðarbreytingar. Þrátt fyrir að stofnunin hafi unnið að gerð slíkra lista er mikilvægt með hliðsjón af alþjóðlegu mikilvægi þeirra að þeir fái jafnframt ákveðinn sess í íslenskum lögum. Válistar geta gefið vísbendingu um að vanda þurfi sérstaklega til ákvarðana sem teknar eru og haft geta áhrif á umrædda tegund með einhverjum tilteknum hætti. Válisti á þannig að geta verið mikilvægt gagn vegna ýmissa ákvarðana sem daglega eru teknar í samfélaginu og snúið geta að lífríkinu. Þannig geta válistar væntanlega skipt máli við ákvarðanatöku, t.d. vegna framkvæmda og sem eitt af því sem fjalla þarf um við mat á umhverfisáhrifum vegna þeirra. Þeir geta einnig skipt máli við mat á því hvort heimila eigi veiðar úr einstökum stofnum. Hafa þarf þó í huga að þótt tegund sé á válista er ekki þar með sagt að veiðar á henni séu sjálfkrafa útilokaðar enda getur tegundin verið á válista vegna allt annarrar ástæðu en ofveiði. Skoða þarf hvers vegna tilteknar fugla- og dýrategunda eru á slíkum válistum, í hvaða flokk dýrin eru metin auk fjölda annarra atriða. Þannig kunna tilteknir stofnar eða tegundir að vera metnar í bráðri hættu á alþjóðlegum válistum þótt viðkoma þeirra hérlendis sé í jafnvægi. Þótt válistar séu hluti af gögnum sem tekin verða til skoðunar við gerð stjórnunar- og verndaráætlana þá liggur hins vegar fyrir að það er í stjórnunar- og verndaráætlunum sem eiginlegt mat er lagt á að hvaða marki veiðar hafi áhrif á stofnþróun tegundarinnar og hvort hún þoli veiðar. Í 1. mgr. er því lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli taka saman og birta á vef sínum válista um villta fugla og villt spendýr á grundvelli alþjóðlega viðurkenndra staðla og leiðbeininga um gerð slíkra lista. Þar sem mikilvægt er að slíkir listar séu reglulega uppfærðir miðað við nýjustu og bestu upplýsingar er kveðið á um að stofnunin skuli endurmeta þá á fimm ára fresti eða oftar ef þörf er talin á.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að þegar tegund eða stofn er færður af eða á válista eða flokkun breytt skuli Náttúrufræðistofnun birta greinargerð með rökstuðningi ásamt yfirliti yfir þau gögn sem ákvörðunin er byggð á við slíka uppfærslu. Telja verður rétt og eðlilegt að rökstuðningur og yfirlit fylgi með slíkum breytingum enda geta upplýsingarnar veitt mikilvægar upplýsingar um þróun hlutaðeigandi tegundar eða stofns.

Um 16. gr.
    

    Til að tryggja að þær ákvarðanir sem teknar eru um nýtingu eða vernd á villtum fuglum eða villtum spendýrum byggi á haldbærum, faglegum og vísindalegum upplýsingum, er lagt til í 1. mgr. að stjórnunar- og verndaráætlanir verði gerðar fyrir allar tegundir eða stofna villta fugla og villtra spendýra. Ákvæði um stjórnunar- og verndaráætlanir er ekki að finna í gildandi lögum. Með gerð slíkra áætlana er reynt að tryggja að allar nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir um einstakar tegundir eða stofna villtra dýra áður en opinberir aðilar taka ákvarðanir. Gerð slíkra áætlana er jafnframt mikilvægur liður í stýringu á nýtingu stofna villtra fugla og villtra spendýra sem hluta af auðlindum landsins. Ljóst er að sambærileg stýring hefur átt sér stað um langt skeið á öðrum stöðum innan stjórnkerfisins, t.d. varðandi auðlindir sjávar þar sem Hafrannsóknastofnun rannsakar og leggur mat á auðlindirnar og sjálfbæra nýtingu þeirra og veitir ráðherra ráðgjöf þar að lútandi áður en tekin er ákvörðun um kvóta til veiða. Fiskistofa fer síðan með framkvæmd og eftirlit með þeirri nýtingu auðlindarinnar sem stunduð er á grundvelli ákvörðunar ráðherra. Þótt stjórnunar- og verndaráætlunin sé ein heildstæð áætlun þá er hins vegar gert ráð fyrir að hún sé í grunninn byggð á tveimur meginþáttum eins og kemur fram í 2. og 3. mgr. þessarar greinar. Í greininni er lagt til að Umhverfisstofnun skuli hafa umsjón með gerð og skilum á stjórnunar- og verndaráætlun til ráðherra til yfirferðar, samþykktar og birtingar þannig að það verkefni sé á höndum eins skilgreinds aðila innan stjórnsýslunnar. Í greininni felst jafnframt að ráðherra þarf að samþykkja áætlunina áður en hægt er að vinna eftir henni. Gert er því ráð fyrir að í slíku ferli yfirfari ráðherra áætlunina og geti lagt til breytingar, viðbætur eða frekari skoðun á henni. Ráðherra getur einnig lagt til ákveðnar tillögur t.d. varðandi þær heimildir sem Umhverfisstofnun gerir ráð fyrir að stofnunin hafi til afléttingar friðunar. Samþykki ráðherra áætlunina er gert ráð fyrir að slík áætlun verði birt opinberlega þannig að almenningur og hagsmunaaðilar geti kynnt sér þær forsendur sem byggt er á í áætluninni.
    Í 2. mgr. er lagt til að Náttúrufræðistofnun Íslands sem samkvæmt lögum um stofnunina stundar grunnrannsóknir í dýrafræði og náttúru Íslands sjái um þann hluta áætlunarinnar sem snýr að mati á stofnstærð, stofnþróun, útbreiðslu, viðkomu, flokkun á válista, veiðiþoli og ákjósanlegri verndarstöðu og verndarþörf hlutaðeigandi tegundar eða stofns og breytingar þar á. Hér er um að ræða matskennda þætti sem snúa að þeim grunnrannsóknum sem stofnunin sinnir samkvæmt lögum og verða hin faglega undirstaða þeirra ákvarðana sem teknar er í framhaldinu á grundvelli stjórnunar- og verndaráætlana.
    Í 3. mgr. er kveðið á um hlutverk Umhverfisstofnunar við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar. Skal stofnunin leggja til nauðsynlegar verndar- og stjórnunaraðgerðir, byggðar á gögnum skv. 2. mgr. til að stuðla að ákjósanlegri verndarstöðu, ásamt tillögu um hvernig standa beri að nýtingu eða veiðum ef við á og aðgerðum til að bregðast við tjóni. Í meginatriðum er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun fari með stjórnsýslu þessa málaflokks. Því er gert ráð fyrir að við gerð stjórnunar- og verndaráætlana byggi Umhverfisstofnun á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands, sbr. 2. mgr., sem stofnunin leggur fram á grundvelli rannsókna og vöktunar hennar. Með mikilli einföldun má því segja að í meginatriðum sé gert ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun Íslands leggi fram sjónarmið sín um mat á viðkomandi stofni og verndarþörf hans en Umhverfisstofnun leggi að því búnu fram tillögur á grundvelli þess hvernig rétt sé að vinna úr niðurstöðunum til að ná fram slíkum markmiðum. Sé fyrir hendi grundvöllur til að veiða úr stofninum miðað við tillögur Náttúrufræðistofnunar er gert ráð fyrir að í stjórnunarhluta áætlunarinnar fylgi útfærðar tillögum Umhverfisstofnunar um það hvernig lagt er til að slíkum veiðum skuli háttað. Í stjórnunar- og verndaráætlunum vegna einstakra tegunda verður þannig reynt að leggja mat annars vegar á nauðsynlega vernd og friðun og hins vegar eðlilega og sjálfbæra nýtingu dýrastofna. Með slíkri heildstæðri áætlun er tryggt að ákvörðun um friðun eða nýtingu einstakra tegunda eða stofna villtra dýra sé tekin á vel undirbyggðum og vísindalegum forsendum.
    Í 4. mgr. er kveðið á um samráð eða samstarfs þessara stofnana við aðrar fagstofnanir, rannsókna- eða hagsmunaaðila. Eins og áður hefur komið fram er mikilvægt að við þessa vinnu sé reynt að draga saman sem mest af þeirri þekkingu sem til staðar er við gerð áætlananna og fá fram mismunandi sjónarmið og skoðanir.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli leggja fyrir ráðherra endurskoðaða stjórnunar- og verndaráætlun einstakra tegunda eða stofna á fimm ára fresti, eða oftar eftir því sem þurfa þykir, með hliðsjón af sérstöðu og eiginleikum einstakra tegunda og stofnþróunar þeirra. Mikilvægt er að stjórnunar- og verndaráætlanir verði eins lifandi gagn og unnt er þannig að þær úreldist ekki með tímanum. Áætlanirnar eiga því að endurspegla eins og unnt er verndarstöðu einstakra stofna eða tegunda eins og staðan er þegar nauðsynlegt er að taka ákvarðanir á grundvelli þeirra. Til að allar ákvarðanir er lúta að vernd, friðun og veiðum hafi eins trausta og faglega undirstöðu og kostur er því lagt til að stofnanirnar sem sjái um gerð áætlana skuli endurskoða þær eins oft og talið er þurfa til að endurspegla raunverulega stöðu eins og hún er á hverjum tíma.
    Í 6. mgr. er að finna heimild fyrir ráðherra til að útfæra frekar í reglugerð fyrirmæli um gerð, birtingu og endurskoðun þessara áætlana ef þörf krefur.

Um 17. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að ráðherra sé heimilt með reglugerð að aflétta friðun villtra fugla og villtra spendýra vegna nytjaveiða enda njóti umræddur stofn eða tegund ekki sértækrar friðunar eða aukinnar verndar samkvæmt þeim. Þessi grein fjallar því einungis um nytjaveiðar á fuglum en ekki veiðar á tegundum sem veiddar eru vegna annarra ástæðna, eins og t.d. vegna hættu á tjóni eða veiðar á framandi tegundum. Um slíkar veiðar er fjallað í 18. og 19. gr.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skilyrði sem þurfa að vera til staðar til þess að ráðherra geti aflétt friðun vegna nytjaveiða og eggjatöku.
    Í 1. tölul. er mælt fyrir um að stjórnunar- og verndaráætlun hlutaðeigandi stofns eða tegundar liggi fyrir. Stjórnunar- og verndaráætlanir eru mikilvægasta undirstaða fyrir mati og ákvörðun ráðherra um afléttingu friðunar einstakra tegunda villtra dýra til veiða. Í áætluninni eiga að liggja fyrir allar helstu upplýsingar um tegundina og viðkomu hennar byggðar á vísindalegu og faglegu mati, ásamt tillögum um hvernig standa beri að nýtingu eða veiðum ef lagt er til að veiða úr stofninum.
    Í 2. tölul. er áréttaður sá skilningur að ákvörðun ráðherra sé byggð á sjálfbærni þannig að viðkoman yfir tiltekinn tíma verði nægileg til þess að vega upp á móti afföllum ákveði hann að aflétta friðun og heimila veiðar. Þessar upplýsingar eiga eins og unnt er að koma fram í áætluninni sjálfri en geta hins vegar verið þess eðlis að þær þarfnist ákveðins mats áður en endanleg ákvörðun er tekin. Þannig má t.d. hugsa sér að stofn eða tegund þoli veiðar upp að tilteknu marki áður en veiðar verða ósjálfbærar. Eðlilegt er því að ráðherra leggi sjálfstætt mat á þennan þátt með tilliti til þess hvernig hann hefur í hyggju að haga eða skipuleggja veiðarnar eða veiðitímabil þannig að slíku takmarki verði náð.
    Í 3. tölul. er kveðið á um að eitt að skilyrðum afléttingar friðunar á tiltekinni tegund veiðidýrs sé að hún sé veidd til neyslu. Þetta er í samræmi við þá meginreglu sem byggt er á og sem segja má að hafi í raun almennt gilt um veiðar hérlendis, að frístundaveiðar skulu eingöngu stundaðar á villtum dýrum með ábyrgum hætti og til matar en ekki til eingöngu til hreinnar skemmtunar eða til æfinga í skotfimi. Sé það skilyrði uppfyllt er hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir að aðrar afurðir dýrsins séu einnig nýttar með öðrum hætti, svo sem skinn eða hamur. Meginreglan um að veiðibráð sé veidd til neyslu á þó augljóslega ekki við ef um er að ræða veiðar sem nauðsynlegar eru taldar til að varna tjóni, sbr. 18. og 19. gr.
    Eins og fram hefur komið liggur fyrir að nokkurn tíma mun taka að vinna stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir allar tegundir villtra fugla og villtra spendýra. Á meðan slíkar áætlanir liggja ekki fyrir er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að ráðherra geti aflétt friðun með þeim hætti sem verið hefur í tíð gildandi laga.

Um 18. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um heimild ráðherra með reglugerð til að aflétta friðun villtra fugla og villtra spendýra sem ekki njóta sértækrar friðunar eða aukinnar verndar sé talið í stjórnunar- og verndaráætlun að hætta geti verið á því að tegundin geti valdið raunverulegu og skilgreindu tjóni á heilsu fólks eða búfénaðar eða hún geti ógnað öryggi, valdið umtalsverðu fjárhagslegu tjóni einstaklinga eða lögaðila eða ógnað eða haft veruleg áhrif á náttúru landsins og líffræðilega fjölbreytni þess. Ákvæðið mælir fyrir um svigrúm fyrir ráðherra til að aflétta friðun einstakra tegunda sem falla undir greinina með almennum hætti, t.d. með því að affriða tilteknar fuglategundir allt árið verði það talið nauðsynlegt. Í þessu sambandi má nefna að aflétting friðunar á svartbak, sílamáf, silfurmáf og hrafni sem taldir eru upp í 17. gr. gildandi laga um tegundir sem heimilt er að aflétta friðun á allt árið myndu heyrir undir þessa grein ekki 17. gr. og 29. gr. sem fjalla einungis um þær fuglategundir sem heimilt er að aflétta friðun á vegna nytjaveiða. Í þessari grein frumvarpsins er því að finna víðtækari heimildir til afléttingar friðunar á tegundum sem valdið geta tjóni en er að finna í 17. gr. gildandi laga enda geta allar tegundir sem valda tjóni komið til greina að þessu leyti og á hvaða tíma ársins sem er, nema þær njóti sértækrar friðunar eða aukinnar verndar samkvæmt lögunum. Ráðherra getur einnig aflétt friðun tiltekinn tíma ársins eða á tilteknum stöðum eða við tilteknar aðstæður. Kveðið er á um að slík ákvörðun þurfi þó að byggjast á því að í stjórnunar- og verndaráætlun einstakra tegunda komi fram mat á að umrædd tegund geti valdið raunverulegu og skilgreindu tjóni. Í ákvæðinu eru talin upp þau tilvik sem talist geta verið tjón af völdum villtra dýra. Í fyrsta lagi er getið um tjón á heilsu fólks eða búfénaðar. Hér geta ýmis tilvik komið til greina eins og t.d. sýkingarhætta af tilteknum tegundum villtum fuglum sem halda sig við vatnsból. Villtir fuglar geta einnig valdið hættu á tjóni t.d. við flugvelli þar sem hópar fugla geta á vissum tíma ársins valdið hættu fyrir flugvélar í flugtaki eða lendingu. Vera kann í vissum tilvikum að villtir fuglar og villt spendýr geti valdið hættu á umtalsverðu fjárhagslegu tjóni, t.d. á fjárhagslegum hagsmunum einstaklinga sem stunda tiltekinn landbúnað eða sinna æðarrækt. Ákvæðinu er einnig heimilt að beita ef hætta er á að tilteknir stofnar eða tegundir villtra dýra ógni eða geti hafi veruleg áhrif á náttúru landsins og líffræðilega fjölbreytni þess.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þær tegundir villtra dýra sem taldar eru líklegar til að valda tjóni skuli lagt almennt mat á tegund tjóns, hversu mikil hætta sé á tjóni, umfang líklegs tjóns og hvort hægt sé að bregðast við hættu á tjóni með fyrirbyggjandi aðferðum frekar en veiðum. Eðlilegt er að fram fari mat á því hvort tjónið sé þess eðlis að það réttlæti veiðar. Slíkt mat myndi þá byggjast á hagsmunamati þar sem tjónsáhættan og umfang tjóns af völdum tiltekinna tegunda yrði metið með tilliti til eðlilegra viðbragða við tjóninu. Mikilvægt er að ávallt sé skoðað hvort hægt sé að bregðast við tjóni með einhverjum tilteknum úrræðum áður en ákvörðun er tekin um veiðar á grundvelli þessarar greinar. Í einhverjum tilvikum er hægt að takmarka tjón öðruvísi en með veiðum en í sumum tilvikum má gera ráð fyrir að einu raunhæfu úrræðin séu veiðar.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ef veiðar eru taldar réttmætar í tilteknum tilvikum skuli í stjórnunar- og verndaráætluninni gerð grein fyrir því í hvaða tilvikum eða við hvaða aðstæður veiðar komi til greina. Í ákvæðinu eru friðlýst æðarvörp nefnd í dæmaskyni. Þar getur t.d. verið lagt til í stjórnunar- og verndaráætlun að innan friðlýstra æðarvarpa á varptíma séu veiðar á tiltekinni tegund ávallt réttlætanlegar. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal gera grein fyrir áætluðum áhrifum veiða á sjálfbærni viðkomandi tegundar eða stofns og áætluðu veiðiálagi.
    Í 4. mgr. er að lokum kveðið á um að þótt ráðherra hafi ekki aflétt friðun einstakra tegunda villtra dýra sem kunna að valda tjóni þá hafi Umhverfisstofnun samt sem áður heimild til að veita tímabundnar undanþágur frá friðunarákvæðum laganna með vísan til 43. gr. Með þessu er stofnuninni gert kleift að heimila veiðar á tilteknum stöðum eða svæðum, eða í ákveðnum tilvikum, enda hafi í samþykktri stjórnunar- og verndaráætlun verið sýnt fram á hættu af tjóni vegna tegundarinnar í slíkum tilvikum. Með slíkri heimild til handa Umhverfisstofnun má gera ráð fyrir hægt verði að stýra þeim veiðum sem taldar eru nauðsynlegar svo veiðarnar verði markvissari, skilvirkari og þjóni betur þeim tilgangi að koma í veg fyrir tjón í tilteknum tilvikum.

Um 19. gr.

    Í 19. gr. eru lagðar til heimildir til að aflétta eða veita undanþágu frá friðunarákvæðum vegna annarra atvika en vegna nytjaveiða skv. 17. gr. eða afléttingu friðunar vegna tjóns af völdum villtra dýra skv. 18. gr.
    Í 1. mgr. er að finna almenna heimild ráðherra til að aflétta með reglugerð friðun framandi tegunda og ágengra eða mögulega ágengra tegunda villtra fugla og villtra spendýra eða villinga sem borist hafa til Íslands af mannavöldum eða hafa komið sjálf til landsins, til að halda slíkum stofnum niðri eða útrýma úr náttúrunni. Áður en ráðherra tekur ákvörðun um afléttingu friðunar á grundvelli þessarar málsgreinar er mælt fyrir um að hann skuli hafa fengið umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar ef ekki liggur fyrir stjórnunar- og verndaráætlun sem leggur slíkt til. Mikilvægt er að til staðar sé heimild í lögum til að halda niðri eða útrýma framandi lífverum og ágengum framandi lífverum sem lifað getað af í náttúru landsins annaðhvort á eigin forsendum eða með einhverri utanaðkomandi hjálp eins og t.d. útburði á mat. Slíkir dýrastofnar geta valdið miklum skaða á öðru lífríki og náttúru landsins. Einnig er nauðsynlegt að slíkar heimildir séu til staðar vegna tegunda sem eru ágengar jafnvel þótt þær teljist ekki framandi tegund í náttúrunni eða hafa komið til landsins án hjálpar mannsins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun geti veitt tímabundna undanþágu frá banni við veiðum á tilteknum svæðum þar sem almennar veiðar eru ekki heimilar í því skyni að varna tjóni eða vegna veiða á framandi tegundum, ágengum tegundum og villingum. Þar er helst um að ræða svæði þar sem veiðar eru ekki heimilar samkvæmt friðlýsingarskilmálum eða sérlögum ef um er að ræða friðlýst svæði, eða þau búsvæði sem njóta tiltekinnar verndar á grundvelli 10. gr.
    Í 3. mgr. er að finna sambærilegt ákvæði og nú er að finna í 7. mgr. 7. gr. gildandi laga. Í greininni er kveðið á um að Umhverfisstofnun geti veitt undanþágu frá friðunar- og verndarákvæðum tímabundið og í einstökum tilvikum vegna tiltekinna tilvika. Í greininni er í dæmaskyni nefnd myndataka, rannsóknir eða að heimild sé veitt fyrir því að dýr séu veidd í þágu dýragarða. Hér fellur einnig undir heimild til að fanga villt dýr vegna húsdýragarða. Í 4. mgr. 11. gr. er mælt fyrir um að óheimilt sé að fanga og halda villt dýr nema í því skyni að veita því tímabundna neyðaraðstoð eða sérstök heimild hafi fengist til þess samkvæmt lögum. Mælt er fyrir um að Umhverfisstofnun geti á grundvelli þessa ákvæðis heimilað undanþágu frá friðunar- og verndunarákvæðum t.d. vegna myndatöku, vegna rannsókna eða vegna dýragarða. Undir dýragarða í skilningi greinarinnar myndu t.d. falla húsdýragarðar hérlendis sem þurfa leyfi fyrir því bæði að fanga og halda villt dýr. Ákvæðið mælir fyrir um að áður en heimild er veitt til föngunar og halds villtra fugla og villtra dýra skuli jafnframt leita umsagnar Matvælastofnunar, sbr. einnig 1. mgr. 26. gr. laga um velferð dýra, nr. 55/2013. Í 7. mgr. 7. gr. gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er aftur á móti kveðið á um að slík heimild sé hjá ráðherra. Þarna er því um að ræða misræmi milli gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og laga um velferð dýra. Talið er rétt að gera ráð fyrir að slík heimild verði hjá Umhverfisstofnun og að slík ákvörðun sé þá frekar kæranleg til ráðherra. Jafnframt er lagt til að ekki verði lengur að finna heimild fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands sem er í 6. mgr. 7. gr. fyrir stofnunina til að stunda veiðar á öllum tegundum villtra fugla heldur þurfi stofnunin að sækja undanþágu frá friðunarákvæðum með sama hætti og aðrir.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli, við veitingu undanþágu skv. 3. mgr., setja þau skilyrði sem hún metur nauðsynleg til að friðun og verndun verði ekki raskað meira en þörf er á. Erfitt er að skilgreina nákvæmlega í laga eða reglugerðartexta hvaða skilyrði getur verið nauðsynlegt að setja. Ætla verður Umhverfisstofnun rúma heimild til að setja slík skilyrði enda séu þau málefnaleg og eðlileg miðað við þá undanþágu sem verið er að veita. Gera má ráð fyrir að slík skilyrði myndu í mörgum tilvikum einnig byggjast á þeim athugasemdum og umsögnum sem stofnunin fær frá bæði Náttúrufræðistofnun Íslands og Matvælastofnun.

Um 20. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um þá meginbreytingu að allar veiðar og nytjar á villtum fuglum og villtum spendýrum, þ.m.t. hefðbundin nýting hlunninda, skuli vera sjálfbærar nema um sé að ræða veiðar sem sérstaklega eru stundaðar til að varna tjóni eða ef um er að ræða veiðar með það að markmiði að minnka tiltekna stofna eða jafnvel útrýma stofnum ágengra framandi tegunda og villinga. Mikilvægt er að allar veiðar sem stundaðar eru á villtum dýrastofnum með þeim undantekningum sem nefndar voru hafi sjálfbærni að leiðarljósi. Ósjálfbærar veiðar geta leitt til hruns á stofnum eða tegundum villtra dýra sem bæði getur leitt getur til tjóns á náttúrunni sjálfri auk tjóns hjá þeim sem nýta hana á sjálfbæran hátt.

Um 21. gr.

Fjallað er um veiðistjórnun í 21. gr. Í 1. mgr. er kveðið á um að allar veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skuli háðar virkri veiðistjórnun sem byggist á bestu vísindalegri þekkingu á hverjum tíma á verndarstöðu, sjálfbærni og stofnstærð tegunda, útbreiðslu og verndarstöðu búsvæðis. Mælt er fyrir um að öll áætlunargerð sem fram fari á vegum opinberra aðila taki einnig mið af framangreindu. Sambærilegt ákvæði er ekki í gildandi lögum. Mikilvægt er að skilgreint sé í lögum að allar veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skuli lúta veiðistjórnun sem byggist á faglegum og vísindalegum grunni.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun sem fer með veiðistjórnun séu veittar heimildir til að grípa til ýmissa nauðsynlegra aðgerða til að framfylgja veiðistjórnuninni eftir atvikum í samráði við fagstofnanir eða hagsmunaaðila. Er með ákvæðinu opnað á það með formlegum hætti að Umhverfisstofnun geti leitað til hag- og fagaðila vegna mála sem tengjast efni þess. Ljóst er margir aðilar geta komið til greina að þessu leyti, svo sem Náttúrustofur, Náttúrufræðistofnun Íslands, háskólasamfélagið, sveitarfélög auk aðila eins og t.d. Fuglaverndar eða Skotveiðifélags Íslands svo einhverjir séu nefndir. Þær veiðistjórnunaraðgerðir sem stofnunin getur beitt samkvæmt greininni geta meðal annars falið í sér bann við veiðum á tilteknum tegundum, á tilteknum svæðum eða á tilteknum tímum. Mikilvægt er að slíkt svigrúm sé til staðar þannig að veiðistjórnun verði eins virk og mögulegt er innan ramma laganna.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að veiðistjórnun Umhverfisstofnunar geti falist í aðgerðum eins og t.d. veiðum eða eggjatöku, sem nauðsynlegar kunna að þykja til að fækka eða útrýma ágengum eða mögulega ágengum tegundum úr náttúru Íslands. Í þessari málsgrein er jafnframt tilvísun til 67. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, en þar mælt frekar fyrir um málsmeðferð Umhverfisstofnunar þegar framandi lífverur ógna líffræðilegri fjölbreytni og hafa veruleg áhrif á lífríkið, meðal annars skyldu til að leita umsögn sérfræðinganefndar um innflutning og ræktun framandi tegunda og dreifingu lifandi lífvera skv. 4. mgr. 63. gr. laganna.
    Til að tryggja gegnsæi og upplýsingaflæði um veiðistjórnun sem almenningur þarf að hafa vitneskju um, er í 4. mgr. kveðið á um að ákvarðanir sem Umhverfisstofnun tekur um veiðistjórnun á grundvelli þessar greinar skuli birtar á vef hennar. Mikilvægt er að þessar ákvarðanir séu birtar þannig að almenningur geti fundið þær fljótt og vel og að þær séu í það minnsta ávallt birtar á vefs stofnunarinnar þótt stofnunin geti auðvitað tekið þá ákvörðun að birta þær einnig annars staðar, eins og t.d. í dagblöðum ef stofnunin telur ástæðu til.

Um 22. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um hvaða aðilar hafa heimild til veiða hérlendis. Í 1. mgr. 8. gr. gildandi laga er kveðið á um að íslenskir ríkisborgarar og þeir sem hér hafa lögheimili hafi heimild til veiða í almenningum, á afréttum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra og í efnahagslögsögunni og í landhelginni utan netlaga eignarlanda. Á grundvelli laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, er unnið að því að skera endanlega úr mörkum eignarlands og þjóðlenda á landinu öllu. Þau landssvæði sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 8. gr. gildandi laga munu þegar þessari vinnu er lokið annað hvort teljast þjóðlendur eða eignarlönd. Í greininni er lagt til að sambærilegar reglur gildi um þjóðlendur samkvæmt greininni og gildir nú um þau svæði sem enginn getur sannað eignarrétt sinn til. Um er að ræða sameiginlegar auðlindir landsins sem þeim sem hér búa er veittur réttur til að nýta án þess að greitt sé meira fyrir slík réttindi en hluta af þeim kostnaði sem hið opinbera hefur af því að viðhalda þeirri stjórnsýslu sem tengist veiðum og nýtingu. Með hliðsjón af því þykir rétt að einskorða heimildir til veiða á slíkum svæðum áfram við íslenska ríkisborgara eins og gert er í 1. mgr. 8. gr. gildandi laga og þá sem dveljast og eiga hér lögheimili.
    Í 2. mgr. er þó að finna sérákvæði vegna hreindýraveiða eins og er í 3. mgr. 14. gr. gildandi laga. Þeir sem hafa veiðikort og eru handhafar veiðileyfis til hreindýraveiða hafa heimild til að stunda slíkar veiðar hvort sem er á þjóðlendu eða eignarlandi hafi landeigandi heimilað hreindýraveiðar innan lands síns. Sérstakar reglur gilda því um þá sem hafa leyfi til hreindýraveiða í samanburði við þá sem stunda aðrar veiðar hér á landi. Ástæða þess liggur meðal annars í því að um er að ræða stofnstærðarstjórnun hreindýra auk þess sem þeir aðilar sem leyfi hafa til hreindýraveiða hafa greitt fyrir það veiðidýr sem þeir fella. Slíkar veiðar eru því heimilar öllum sem hafa veiðileyfið óháð ríkisborgararétti eða búsetu.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að veiðar séu heimilar á friðlýstum svæðum nema friðlýsingarskilmálar svæðisins, sérlög eða stjórnunar- og verndaráætlanir sem gilda um svæðið mæli fyrir um annað. Mjög er mismunandi hvernig friðlýsingarskilmálar og stjórnunar- og verndaráætlanir einstakra svæða taka á veiðum innan svæðanna þar sem slíkt mat fer fram við gerð friðlýsingarskilmálanna. Þannig eru veiðar t.d. oft heimilar samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlunum innan þjóðgarða. Lögð er til sú almenna regla að veiðar séu heimilar á slíkum svæðum nema skilmálar friðlýsingarinnar kveði á um takmarkanir við veiðum. Því eru ekki settar tilteknar skorður við veiðum á slíkum svæðum umfram það sem gert er í slíkum skilmálum. Séu veiðar hins vegar bannaðar samkvæmt friðlýsingarskilmálum, sérlögum eða stjórnunar- og verndaráætlunum einstakra svæða er hægt að beita tilteknum úrræðum við veiðum sem eru óheimilar samkvæmt þeim.
    Í 4. mgr. er áréttað að allir þeir sem stunda veiðar á grundvelli greinarinnar skuli hafa til þess gilt veiðikort og veiðileyfi ef það er áskilið til veiðanna.

Um 23. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að villtir fuglar og villt spendýr séu hluti af náttúru landsins og því ekki háð eignarrétti fyrr en dýr hefur verið veitt með lögmætum hætti. Mikilvægt er að það sé áréttað í lögum að villt dýr sem halda til á eignarlandi eru ekki háð eignarrétti þess sem á landið eða fer með veiðiréttindi þess. Villt dýr eru hluti af náttúrunni og gæðum landsins í heild. Gera verður hins vegar greinarmun á eignarrétti vegna villtra dýra sem eru frjáls og lifandi og rétti til veiða. Rétturinn til veiða fylgir eignarlandi nema lög kveði á um annað. Um leið og villt dýr hefur verið löglega veitt verður það eign þess sem veiðir enda sé það landeigandi sem veiðir, hann veiði með heimild landeiganda eða leiði rétt sinn með öðrum hætti frá landeiganda. Á öðrum svæðum landsins en þeim svæðum sem mælt er fyrir um í 22. gr. er það ávallt eigandi lands eða veiðirétthafi sem tekur ákvörðun um það hver fær heimild til að veiða innan marka eignarlands enda hafi tilvonandi veiðimaður aflað sér tilskilinna leyfa og veiðikorts til veiðanna. Áréttað er því í greininni að allar veiðar á eignarlandi séu háðar leyfi landeiganda. Í greininni er þó að finna undanþágu frá þessari meginreglu sem kveður á um að eignarréttur á landi veiti ekki rétt til veiða á hreindýrum. Kveðið er á um að sú sérregla verði óbreytt frá 2. mgr. 14. gr. gildandi laga nr. 64/1994.
    Í 3–5. mgr. er að finna ákvæði sem eru óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast þau ekki skýringar.


Um 24. gr.

    Í 24. gr. er fjallað um veiðiaðferðir. Uppsetning greinarinnar er svipuð og 9. gr. gildandi laga nr. 64/1994. Nokkuð var skoðað hvort hægt væri að einfalda greinina þannig að einungis yrði um að ræða upptalningu á þeim aðferðum sem heimilt væri að nota við veiðar. Ákveðið var í samræmi við tillögur villidýranefndarinnar að leggja til að áfram yrði í lögum upptalning á óheimilum aðferðum við veiðar í samræmi við slíkar upptalningar á óheimilum veiðiaðferðum bæði í Bernarsamningnum og Parísarsamningnum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að einungis megi nota skotvopn sem heimil eru samkvæmt vopnalögum með þeim undantekningum sem taldar eru upp í 24. gr. Í gildandi lögum eru leyfilegar gerðir vopna haglabyssa af stærð nr. 12 eða minni (einskota, tvíhleypa og pumpa/hálfsjálfvirk sem taka þrjú skot að hámarki) og rifflar með hlaupvídd að 8 mm (cal. 32). Í greininni er kveðið á um að við veiðar á hreindýrum sé óheimilt að nota kúlur sem eru minni en 6,5 gr og með slagkraft minni en 180 kgm á 200 m færi. Þetta er óbreytt frá núverandi framkvæmd en þessi takmörkun hefur hins vegar verið í reglugerð hingað til. Rétt þykir að kveðið sé á um þetta með skýrum hætti í lögum.
    Nokkrar breytingar eru lagðar til á upptalningu á óheimilum veiðiaðferðum í 2. mgr. frá þeim veiðiaðferðum sem taldar eru upp í 1. mgr. 9. gr. gildandi laga.
    Í 1. tölul. er lagt til að hnykkt verði á því að undanþáguefni til músa- og rottuveiða skuli vera í samræmi við ákvæði efnalaga.
    Í 3. tölul. er lagt til að ekki sé lengur heimilt að nota barefli við hefðbundnar veiðar. Þetta bann gildir því um t.d. veiðar á fýls-, súlu- og skarfsungum í ljósi þess að gert er ráð fyrir banni við veiðum á ófleygum ungum.
    Í 4. tölul. er lagt til að allar gerðir fótboga verði bannaðir.
    Í 5. tölul. er lagt til að óheimilt verði að nota net við veiðar á villtum dýrum nema háf til hlunnindaveiða á lunda. Í samræmi við tillögur í villidýraskýrslunni er lagt til að ekki verði lengur heimilt að nota háfa til veiða á álku, langvíu og stuttnefju.
    Í 11. tölul. er lagt til að í stað orðsins „ljósgjafa“ sem notað er í 10. tölul. 1. mgr. 9. núgildandi laga komi „fastur ljósgjafi“. Með föstum ljósgjafa er átt við ljóskastara eða annan búnað sem komið er fyrir á veiðisvæði þar sem von getur verið á veiðibráð. Kveðið er á um undanþága til notkunar slíks ljósgjafa vegna refaveiða við æti og minkaveiða.
    Í 14. tölul. er lagt til ekki sé heimilt að nota búnað til að miða í myrkri með rafeindatækjum sem stækka eða breyta ímyndinni eins og kveðið er á um í 13. tölul. 1. mgr. 9. gr. gildandi laga. Hins vegar er lögð til sú breyting að undanskilinn sé þó rafeindapunktur eða upplýstur kross í sjónauka. Hér er um skýringarákvæði að ræða enda er slíkur rafeindabúnaður orðinn alvanalegur í sjónaukum og gegnir þar sama hlutverki og hefðbundinn kross í sjónauka.
    Í 15. tölul. er fjallað um þau skotvopn sem óheimilt er að nota við veiðar. Þar segir að óheimilt sé að nota sjálfvirk skotvopn, svo og handhlaðnar fjölskota haglabyssur og hálfsjálfvirk skotvopn, með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki. Skoðað var hvort ástæða væri til að nota annað og þekktara hugtak yfir handhlaðnar fjölskota haglabyssur sem almennt ganga undir heitinu pumpur. Fallið var hins vegar frá því enda eru hugtökin í samræmi við hugtakanotkun í gildandi vopnalögum og því mikilvægt að samræmi sé á milli þessara tveggja lagabálka.
    Í 16. tölul. er kveðið á um að óheimilt sé að nota hljóðdeyfa eða hljóðdempara nema skotvopnið þannig útbúið uppfylli skilyrði vopnalaga. Þessi breyting er meðal annars lögð til í samræmi við tillögur í villidýraskýrslunni. Hljóðdeyfar eru leyfðir í flestum nágrannalanda okkar og hafa verið leyfðir hér til notkunar á tilteknum skotvopnum að fenginni sérstakri heimild á grundvelli vopnalaga. Helstu kostirnir við notkun hljóðdeyfa við veiðar er að vernda heyrn veiðimanna auk þess sem bakslag verður minna. Slíkt getur skilað sér í betri hittni veiðimannsins og minni líkum á því að særa bráð. Minna hljóð dregur einnig úr neikvæðum áhrifum veiða á önnur villt dýr eða búfé.
    Í 17. tölul. er kveðið á um það að óheimilt sé að nota lifandi dýr sem bandingja eins og mælt er fyrir um í 15. tölul. 1. mgr. 9. gr. gildandi laga. Einnig er lagt til að auk þess verði kveðið á um að óheimilt sé að nota lifandi dýr til þjálfunar veiðihunda nema um sé að ræða svokallaða bendihunda utan varptíma. Slíkir hundar eru þjálfaðir til að finna veiðibráð án þess að nálgast hana um of eða fæla.
    Í 18. tölul. er kveðið á um að óheimilt sé að nota veiðihunda til að hlaupa uppi ósærða bráð nema til minkaveiða.
    3. mgr. er efnislega sambærileg við 9. gr. gildandi laga að því er varðar vélknúin farartæki til veiða en þó með nokkrum breytingum. Þannig er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um það að óheimilt sé að nota loftför eða flygildi við veiðar. Auk þess er lagt til að ekki verði sérstakt bann lagt við því að nota vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki til að flytja veiðimenn til og frá veiðisvæðum eins og er í gildandi ákvæði. Síðan lögin voru sett hafa verið gerðar breytingar á skráningu slíkra ökutækja þannig að sum þeirra geta nú verið með venjulega götuskráningu eins og hefðbundin ökutæki. Í greininni er því lagt til orðalag með hliðsjón af því þannig að einungis verði heimilt að nota götuskráð vélknúin farartæki til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá einungis á vegum eða merktum vegaslóðum. Alfarið er óheimilt að skjóta frá slíku ökutæki og er kveðið á um að skotvopn skulu vera óhlaðin nær vélknúnu ökutæki á landi en 250 metrum.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun sé heimilt að veita veiðimönnum sem varanlega eru bundnir við notkun á hjólastól sérstaka undanþágu frá banni við að skjóta frá vélknúnu ökutæki. Með ákvæðinu er reynt að stuðla að því að slíkir aðilar fái aukið svigrúm að lögum til að stunda og njóta frístundaveiða. Almenna reglan við veiðar hérlendis er að einungis sé heimilt að nýta vélknúin ökutæki til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum en óheimilt sé að skjóta frá slíkum tækjum. Undanþágan sem hér er kveðið á um gerir ráð fyrir að heimila þeim sem uppfylla skilyrði greinarinnar leyfi til að skjóta frá kyrrstæðum vélknúnum ökutækjum á vegum eða merktum vegaslóðum eða utan vega ef skilyrði náttúruverndarlaga um akstur á snævi þakinni og frosinni jörð eru uppfyllt. Þar sem veiðimaður sem er varanlega bundinn við notkun á hjólastól þarf að hafa tök á því að nálgast þá bráð sem hann fellir er gert ráð fyrir að hann hafi í för með sér aðstoðarmann eða hund til að sækja bráð.
    Í 5. mgr. er að finna heimild til handa Umhverfisstofnun til að veita tímabundnar undanþágur frá veiðiaðferðum og veiðitækjum samkvæmt greininni í vísindaskyni eða ef villtir fuglar eða villt spendýr valda umtalsverðu tjóni og aðrar aðferðir eru ekki taldar henta. Um er að ræða svipaða heimild og er í 9. gr. gildandi laga.

Um 25. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um þá frumskyldu veiðimanns að valda veiðidýri sem minnstri þjáningu og reyna að aflífa það á sem skjótastan og sársaukaminnstan hátt.
    Í 2. mgr. er fjallað um þá skyldu veiðimanns að elta uppi sært veiðidýr og aflífa eins skjótt og kostur er jafnvel þótt hann þurfi að fara inn á eignarland sem veiðimaður hefur ekki leyfi til að veiða á. Í slíkum tilvikum er talið mikilvægara en umrædd eignarmörk að ná hinu særða dýri sem fyrst og aflífa það. Mælt er fyrir um að í slíkum tilvikum sé bráðin hins vegar eign landeiganda, nema um sé að ræða hreindýr. Ákvæðið er í samræmi við þá meginreglu að veiðirétturinn fylgir eignarlandi þar sem bráð er felld. Þetta ákvæði er í samræmi við 2. mgr. 10. gr. gildandi laga nema að sú undantekning sem lögð er til að þessi skylda eigi ekki við um hreindýr. Ástæða þess er sú að um hreindýr gilda um margt frábrugðnar reglur frá öðrum dýraveiðum, meðal annars sú meginregla að eignarréttur á landi þar sem hreindýr halda sig veitir landeiganda ekki rétt til veiða á hreindýrum, sbr. 23. gr. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um það eins og í gildandi lögum að það sé ein af skyldum veiðimanna að hirða bráð sína að loknum veiðum.

Um 26. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu þeirra sem hyggjast stunda veiðar að hafa staðist próf um villta fugla og villt spendýr og umhverfi þeirra og í hæfni til veiða.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun semji námskrá vegna slíkra námskeiða, setji mörk og viðmið um fullnægjandi árangur í prófi og haldi námskeið til undirbúnings prófum. Eðlilegt er að Umhverfisstofnun sem fer með framkvæmd þessara mála, sjái alfarið um þessi mál og beri á þeim ábyrgð. Lagt er hins vegar til að stofnuninni verði veitt svigrúm til að fela öðrum aðilum sem hafa þekkingu eða reynslu að mati hennar að halda slík námskeið í sínu umboði. Í slíkum tilvikum myndi stofnunin þó eftir sem áður bera ábyrgð á námskránni og þeim kröfum sem stofnunin telur eðlilegt að gera til prófa þó að námskeiðshaldið sjálft, kennslan og prófin yrði í höndum annarra aðila.
    Í 3. mgr. er lögð til undanþága frá námskeiði samkvæmt þessari grein til þeirra sem einungis hafa í hyggju að sækja um veiðikort vegna eggjatöku eða til annarra veiða en skotveiða. Skotveiðar og skotpróf eru það stór hluti af hefðbundnu námskeiði vegna veiðikorta að eðlilegt má telja að hægt sé að fá undanþágu frá slíkum námskeiðum. Í slíkum tilvikum gæti hins vegar verið rétt að Umhverfisstofnun afhenti þeim sem óska eftir slíkum veiðikortum sérstakar upplýsingar eða námsefni sem einungis lýtur að eggjatöku og öðrum veiðum en skotveiðum.

Um 27. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að allir sem stunda veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eða eggjatöku villtra fugla skuli hafa til þess gilt veiðikort sem gefið er út af Umhverfisstofnun til eins árs í senn. Í greininni felst því að til þess að stunda veiðar á mink og til eggjatöku frá villtum fuglum þurfi veiðikort. Mælt er fyrir um að veiðikortið sé gefið út til eins árs í senn. Ekki er að finna frekari fyrirmæli um hvort slíkt tímabilið miðist við almanaksárið eða aðrar tímasetningar og er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun verði heimilt að kveða nánar á um gildistíma veiðikorta innan þessa ramma. Í málsgreininni er einnig kveðið á um að stofnuninni sé heimilt að ákveða að málsmeðferð vegna veiðikorta og útgáfa þeirra fari fram rafrænt í samræmi við þá þróun sem orðið hefur.
    Í 2. mgr. er kveðið á um aldurstakmark til að geta fengið útgefið veiðikort. Í gildandi lögum er ekki kveðið á um aldurstakmark til að hljóta veiðikort. Lagt er til að það komi fram í greininni að umsækjandi um veiðikort hafi náð því aldurstakmarki sem mælt er fyrir um í vopnalögum til að hljóta almennt skotvopnaleyfi. Það aldurstakmark er núna 20 ár sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. vopnalaga, nr. 16/1998. Talið er rétt að aldurstakmark til að hljóta veiðikort fylgi vopnalögum um lágmarksaldur. Verði aldursmörkum breytt í vopnalögum munu aldursmörk til að öðlast veiðikort þá breytast til samræmis. Í greininni er hins vegar kveðið á um það að til að hljóta veiðikort til annarra veiða en skotveiða sé aldurstakmarkið 16 ár. Þar er þá um að ræða t.d. háfaveiðar eða töku eggja.
    Í 3. mgr. er kveðið á um þær upplýsingar sem skuli vera til staðar á veiðikorti auk þess sem mælt er fyrir um skyldu til að bera kortið á sér við veiðar.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að veiðikort þurfi hvorki til músaveiða í og við híbýli né til rottuveiða. Er það í samræmi við ákvæði gildandi laga.

Um 28. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu til skila á veiðiskýrslu fyrir hvert veiðiár eins og mælt er fyrir um í gildandi lögum. Jafnframt er kveðið á um að einnig skuli skila veiðiskýrslu vegna hlunnindaveiða og eggjatöku sem er nýmæli. Mikilvægt er talið að fyrir liggi upplýsingar um hlunnindaveiðar að þessu leyti auk fjölda og tegund eggja sem tínd eru og á hvaða landsvæðum eða jörðum þau voru tínd. Einnig er mælt fyrir um að skila skuli inn þar til gerðri skýrslu um fjölda og tegundir villta fugla sem drepast við netaveiðar í vötnum og ám. Sérstök skylda er þegar fyrir hendi til þess að skila inn slíkum upplýsingum vegna villtra fugla sem drepast við netaveiðar á sjó í tengslum við afladagbækur, sbr. reglugerð nr. 298/2020, um skráningu og rafræn skil aflaupplýsinga.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að Umhverfisstofnun skuli innan árs birta veiðitölur síðasta veiðiárs á vef sínum eða með öðrum opinberum hætti.
    Í 3. mgr. er, eins og í gildandi lögum, kveðið á um áhrif þess að veiðiskýrslu sé ekki skilað með réttum hætti. Í stað þess að gert sé ráð fyrir að gjald fyrir útgáfu nýs veiðikorts hækki um tiltekna prósentutölu er kveðið á um að gjald vegna nýs veiðikorts hækki um 40% hafi veiðiskýrsla borist eftir lögmæltan skiladag.

Um 29. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um nytjaveiðar á fuglum og mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt með reglugerð að aflétta friðun þeirra fuglategunda sem þar eru taldir upp innan þeirra tímamarka sem greinin mælir fyrir um. Þær tegundir sem taldar eru upp í greininni og þau tímamörk sem þar koma fram eru í samræmi við gildandi lög nema að því er varðar þær tegundir sem einungis eru veiddar til varnar tjóni, en um þær er fjallað í 18. gr. Í þessari grein er einungis fjallað um þær tegundir sem veiddar eru til nytja. Tekið var til skoðunar hvort rétt væri að fella út bæði tímamörk og tegundir fugla sem fjallað er um í greininni. Ástæðan var það nýmæli að mælt verði fyrir bæði um verndarstöðu og veiðiþol einstakra stofna eða tegunda fugla í stjórnunar- og verndaráætlunum auk þess sem lagðar verða línur um veiðitíma þeirra með hliðsjón af stöðu stofnsins eða tegundarinnar. Ákveðið var að leggja til að áfram yrði miðað við þær tegundir sem löng hefð hefur skapast um að séu nýttar til nytjaveiða hérlendis og taldar eru upp í gildandi lögum. Ljóst er hins vegar að staða þessara tegunda er mjög misjöfn og er ástand sumra þeirra slæmt um þessar mundir. Talið er rétt að miðað verði við hinar hefðbundnu veiðitegundir óháð núverandi stöðu þeirra enda ljóst að ástand einstakra tegunda getur skánað til framtíðar og ástand annarra tegunda versnað. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að hér er einungis um að ræða heimild fyrir ráðherra til að aflétta friðun þeirra tegunda sem taldar eru upp í greininni innan þeirra tímamarka sem þar eru talin upp en ekki skylda til afléttingar friðunar. Ákvörðun um það hvort ráðherra afléttir friðun einstakra tegunda mun fyrst og fremst byggjast á stjórnunar- og verndaráætlun einstakra tegunda. Sömu sjónarmið eiga við um það tímabil ársins sem friðun er aflétt til nytjaveiða, hugsanlegt veiðitímabil mun byggjast á tillögum stjórnunar- og verndaráætlunar og ákvæðum um veiðistjórnun og getur því með hliðsjón af stöðu einstakra tegunda verið mun styttra en það svigrúm sem ráðherra hefur til afléttingar friðunar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að takmarka veiðar á tegund við ákveðna daga innan þeirra tímamarka sem fram koma í 1. mgr., ákveðinn tíma dags og tiltekin landsvæði. Mikilvægt er að veiðistjórnun sé öflug og virk og að hægt sé að stýra veiðum á sveigjanlegan hátt með tilliti til aðstæðna. Um er að ræða sambærilega heimild og er í 2. mgr. 17. gr. gildandi laga. Ástand einstakra stofna getur þannig verið mjög misjafnt á einstökum stöðum eða svæðum á landinu. Ástæða getur verið til að heimila ekki veiðar á tilteknu stöðum eða svæðum landsins þótt veiðar séu áfram heimilaðar á öðrum stöðum eða svæðum þar sem ástand einstakra stofna er betra.
    Í 3. mgr. er heimild fyrir ráðherra að aflétta friðun á eggjum fugla sem ekki njóta sértækrar friðunar eða verndar enda þoli stofninn slíka eggjatöku samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun. Egg fugla falla undir friðunar- og verndarákvæði og eggjataka telst til veiða. Egg eru tínd á varptíma fugla þegar flestar tegundir þeirra njóta friðunar, nema e.t.v. þær tegundir sem taldar eru valda tjóni. Heimild þarf því að vera í lögum til að aflétta friðun á töku eggja á þessum tíma ef stofninn þolir eggjatöku samkvæmt greininni. Ekki er nauðsynlegt samkvæmt greininni að það séu egg tegunda sem falla undir 1. mgr. greinarinnar.
    Í 4. mgr. er að finna heimild fyrir ráðherra að ákveða að friðun gildi áfram í tiltekinn tíma á einstökum svæðum landsins að beiðni þeirra sem þar eru taldir upp. Ákvæðið mælir þannig fyrir um að slík friðun verði áfram gildandi á tilteknum svæðum óháð ástandi einstakra tegunda samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun. Hér er fyrst og fremst verið að skapa svigrúm til að heimila ekki veiðar á tilteknum stöðum eða svæðum þar sem veiði er almennt talin óæskileg. Hér má í dæmaskyni t.d. nefna tiltekin vinsæla staði eða svæði sem nýtt eru til útivistar eða frístunda og ekki þykir æskilegt að séu samhliða nýtt til skotveiða.

Um 30. gr.

    1. mgr. er að nokkru leyti samhljóða 2. mgr. 4. gr. gildandi laga þar sem mælt er fyrir um að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi ein heimild til að merkja villta fugla hérlendis en geti heimilað öðrum slíkar merkingar samkvæmt sérstökum reglum. Lagt er til að heimildin nái einnig til merkinga á öðrum villtum dýrum. Hér er t.d. átt við merkingar á hreindýrum, refum eða öðrum villtum spendýrum sem þörf er talin á að merkja til að öðlast tilteknar vísindalegar upplýsingar. Í greininni er bæði átt við hefðbundnar fugla- eða dýramerkingar og rafrænar merkingar. Merkingar með rafrænum GPS-sendum eru orðnar algengar mundir og gefa þær ítarlegar upplýsingar um ferðir villtra dýra í rauntíma.
    2. mgr. er sambærileg 3. mgr. 4. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að gildissvið hefur verið víkkað þannig að það nái einnig til spendýra í samræmi við 1. mgr.

Um 31. gr.

    Hlunnindi geta verið nokkuð mismunandi. Þau geta verið allt frá því að vera tiltekinn almennur réttur landeiganda eða veiðirétthafa eins og t.d. réttur til að nýta hlunnindi æðarfugla með því að nytja dún þessara fugla í æðarvörpum eða réttur landeiganda til eggjatöku á landinu. Hlunnindi geta einnig verið hefðbundin og staðbundin. Þar má t.d. nefna réttindi til að veiða lunda í háf á varptíma sem tíðkast hefur um aldir á tilteknum stöðum landsins eins og í Vestmannaeyjum eða taka andareggja á tilteknum stöðum þar sem hefðbundið andarvarp er mikið. Þessi hlunnindi eru ekki almenn hjá öllum landeigendum heldur eiga þau eingöngu við á vissum stöðum landsins og í vissum tilvikum.
    Í 1. mgr. er að finna skilgreiningu á hlunnindum. Þar er kveðið á um að til hlunninda teljist réttur landeiganda til tiltekinna veiða á villtum fuglum, nýtingu á dún þeirra eða eggjum. Í greininni kemur jafnframt fram það grundvallaratriði að nýting hlutaðeigandi tegundar eða stofns sé sjálfbær og standi undir nýtingunni. Er með öðrum orðum kveðið á um að þótt tiltekin nýting hafi verið talin til hlunninda einstakra jarða eða svæða, jafnvel um mjög langt skeið, þá hafi nýting ekki forgang ef ljóst er að ástand stofnsins eða tegundarinnar sé þannig að stofn eða tegund þoli ekki slíka nýtingu og ljóst sé að nýtingin verði þar með ósjálfbær.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að sá sem rétt hefur til nýtingar hlunninda á landi sínu skuli hafa til þess veiðikort til nýtingar hlunninda samkvæmt þessum kafla annarrar en dúntekju. Í slíku veiðikorti skal tilgreindur réttur til nýtingar hlunninda og svæðisbundin mörk hans. Réttur til nýtingar hlunnindanna gildir um handhafa veiðikortsins og þá aðstoðarmenn sem landeiganda er nauðsynlegt að hafa með sér í för við nýtingu hlunnindanna.
    Í 3. mgr. er kveðið á um, það eins og í gildandi lögum, að sá sem telur sig eiga rétt til staðbundinna hlunninda skv. 34. gr. skuli afla staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar og sýslumanns á slíkum rétti enda liggi slík staðfesting ekki fyrir og skila til Umhverfisstofnunar. Í grunninn er hér um að ræða efnislega sambærilegt ákvæði og nú er að finna í 7. mgr. 20. gr. gildandi laga. Ljóst er hins vegar að allar líkur eru á því að þeir sem nýtt hafa slík staðbundin hlunnindi frá í gildistíð gildandi laga hafi þegar aflað sér þessarar staðfestingar. Ekki er því þörf á því að þessir aðilar afli sér slíkrar staðfestingar á nýjan leik liggi hún fyrir.

Um 32. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um friðlýsingu æðarvarpa. Þar kemur fram að landeigandi eða sá sem lögmætan rétt hefur til æðarvarps sé heimilt að fara fram á sérstaka friðlýsingu þeirra og nánasta umhverfis þeirra. Rétthafi æðarvarps getur því verið annar aðili en landeigandi. Þannig kann tiltekinn aðili að eiga rétt til æðarvarpsins á grundvelli samnings eða heimildar landeiganda eða hann hafi tiltekinn annan rétt að lögum. Þannig er t.d. ljóst að slík réttindi geta byggst á hefðarrétti tiltekins aðila eða tiltekinnar jarðar til æðarvarps á ákveðnum stað, jafnvel þótt umráðamaður varpsins eigi ekki landið þar sem varpið er staðsett. Mikilvægt er að æðarvörp njóti formlegrar friðlýsingar ef ætlunin er að nýta úrræði til verndar þeim, t.d. bann við skotum nærri slíkum vörpum, bann við umferð eða bann við netlögnum í sjó í grennd við slík vörp.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að sýslumaður í því umdæmi sem varpið er í skuli annast friðlýsingu þess og að hún gildi í 10 ár frá birtingu slíkrar ákvörðunar. Gert er ráð fyrir að umsækjandi skuli merkja varpið skilmerkilega inn á kort eða loftmynd þannig að þau mörk sem friðlýsingin byggist á liggi skýrt fyrir.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að uppfærð skrá um friðlýst æðarvörp skuli liggja frammi á skrifstofu sýslumanns og á vef embættisins. Mikilvægt er að slíkar upplýsingar séu ávallt aðgengilegar almenningi til þess að öllum sé ljóst hvaða svæði innan umdæmisins njóti slíkrar friðlýsingar og verndar. Jafnframt er í ákvæðinu mælt fyrir um að sýslumaður skuli tilkynna allar breytingar á skránni til hlutaðeigandi sveitarstjórnar, Umhverfisstofnunar og Bændasamtaka Íslands. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun haldi utan um slíka skrá á landsvísu.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert skuli öll skot bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema um sé að ræða skot landeiganda eða lögmæts rétthafa æðarvarpsins í því skyni að verja æðarvarpið á grundvelli þeirra heimilda sem lögin veita honum til slíkra varna. Þetta er í samræmi við 1. mgr. 20. gr. gildandi laga. Í greininni kemur hins vegar fram að bannsvæðið skuli þó ekki ná lengra en 1 km inn á eignarlönd annarra nema að fengnu samþykki þeirra. Hér er um að ræða nýmæli sem byggist á tillögum sem fram komi í villidýraskýrslunni. Með breytingunni er lagt til að samþykki landeiganda annarrar jarðar eða lands þurfi til að banna skot lengra en 1 km inn á land annars aðila enda er um að ræða tiltekna skerðingu á nýtingarmöguleikum og eignarrétti þess aðila að þurfa að sæta slíku banni 2 km inn á land sitt eins og er í gildandi lögum. Í skýrslunni var því lag til að stytta þessa vegalengd en byggja frekar á samþykki hins landeigandans ef bannsvæðið ætti að ná lengra inn á lönd annarra.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að frá 1. apríl til 14. júlí ár hvert sé óheimilt án leyfis landeiganda eða lögmæts rétthafa æðarvarps að leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli. Á sama tímabili er öll óviðkomandi umferð um friðlýst æðarvarp jafnframt bönnuð um varpið nema með heimild landeiganda eða rétthafa þess. Um er að ræða sambærilegt bann varðandi netlagnir og nú er að finna í 1. mgr. 20. gr. gildandi laga. Í síðari málsl. 5. gr. er lagt til að óviðkomandi umferð um friðlýst æðarvarp verði óheimil nema með leyfi landeiganda eða rétthafa æðarvarps. Ljóst er að við sum friðlýst æðarvörp hefur ágangur fólks verið það mikill að tjón hefur orðið á varpinu vegna þess. Því er lagt til að á varptíma verði umgangur um varpið óheimill nema með leyfi landeiganda.
    Í 6. mgr. er mælt fyrir um það að ráðherra skuli í reglugerð heimilt að mæla frekar fyrir um friðlýsingu æðarvarpa ásamt heimildum til handa landeigandi eða rétthafi til að verjast tjóni af völdum villtra fugla og villtra spendýra innan marka friðlýsts æðarvarps.

Um 33. gr.

    Í 1. mgr. 33. gr. er mælt fyrir um heimildir almennings í þjóðlendum og landeiganda á eignarlöndum til eggjatöku. Hér er um að ræða heimildir til eggjatöku sem eru almennar og byggjast ekki á hefðbundnum hlunnindum einstakra svæða sem fjallað er um í 2.–4. mgr. 34. gr. þar sem fjallað er um réttindi sem eigendur jarða á takmörkuðum svæðum landsins hafa haft til langs tíma til eggjatöku frá tilteknum tegundum fugla á grundvelli hefðbundinna og staðbundinna hlunnindaréttinda. Í 1. mgr. 33. gr. er mælt fyrir um að heimilt sé að taka egg silfurmáfs, sílamáfs, svartbaks, hvítmáfs og hettumáfs bæði í þjóðlendum og eignarlöndum. Varla þarf að taka fram að heimild almennings gildir hins vegar einungis um þjóðlendur en ekki eignarlönd enda er það ávallt landeigandi eða veiðirétthafi sem hefur rétt til veiða á eignarlandi. Í gildandi lögum hefur verið til staðar almenn heimild til töku eggja silfurmáfs, hvítmáfs og hettumáfs auk þess sem heimild hefur verið til veiða á svartbak, sílamáf og silfurmáf allt árið. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að aðrar tegundir gætu komið til greina ef fyrir liggur að þær þoli eggjatöku. Því er gert ráð fyrir að hægt sé að auka fjölda þeirra tegunda sem ákvæðið tekur til með reglugerð.

Um 34. gr.

    Í greininni er að finna sérákvæði er mælir fyrir um staðbundna nýtingu hefðbundinna hlunninda. Með staðbundnum hlunnindum er átt við tiltekin hlunnindi af villtum dýrum og sem nýtt hafa verið hérlendis og söguleg hefð nytja er fyrir hendi á tilteknum stöðum á landinu. Hlunnindi teljast því einungis hefðbundin hlunnindi tiltekinnar jarðar eða svæðis ef landeigendur eða veiðirétthafar tiltekinna jarða eða landsvæða hafa haft slík hlunnindi af veiðum eða eggjatöku fyrir gildistöku laga nr. 64/1994 og þessi hlunnindi hafa verið nýtt síðan. Lundaveiðar í háf á tilteknu svæði sem á sér enga fyrri sögu um slíka nýtingu í tíð gildandi laga teldust því ekki hefðbundnar hlunnindaveiðar. Sama gildir einnig um eggjatöku skv. 2.–4. mgr. þessarar greinar sem heimila landeiganda eggjatöku tiltekinna tegunda sem þar eru taldar upp á takmörkuðum svæðum. Ef slík hlunnindi hafa ekki verið nýtt áður eða slík hlunnindi hafa ekki verið nýtt um margra ára eða áratuga skeið, eða ekki hefur verið hirt um að skrá þau í tíð gildandi laga, teljast þau ekki hefðbundin hlunnindi samkvæmt þessari grein. Ákvæði gildandi laga um nýtingu tiltekinna hlunninda byggðust á því sjónarmiði að þeir sem nýtt hefðu hefðbundin hlunnindi jarða sinna ættu að hafa tiltekna heimild til að nýta slík hlunnindi áfram óháð ákvæðum laganna. Er í meginatriðum fallist á þau sjónarmið. Þó er byggt á því að hlunnindanýting verði að vera sjálfbær og að hún verði ekki undanskilin friðunar- og verndarákvæðum ef ástand stofna eða tegunda gefur tilefni til.
    Í 1 mgr. er kveðið á um að á takmörkuðum svæðum, þar sem veiði fullvaxinna lunda í háf hefur talist til hefðbundinna hlunninda, skuli landeiganda heimil slík veiði samkvæmt þeim venjum sem gilt hafa, enda hafi friðun verið aflétt skv. 29. gr. Ekki er um að ræða neina meginbreytingu á þessu ákvæði gildandi laga að öðru leyti en því að lundaveiði í háf er ekki, frekar en aðrar veiðar villtra fugla og villtra spendýra, undanskilin friðunarákvæðum frumvarpsins. Hins vegar viðurkennt að þar sem þessi nýting á sér hefðbundnar og sögulegar rætur sé heimilt að nýta slík hlunnindi áfram enda sé það gert á sjálfbæran hátt og að stofninn þoli slíka nýtingu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að á takmörkuðum svæðum, þar sem eggjataka í varpi, kríu, fýls, ritu, álku, langvíu og stuttnefju hefur talist til hefðbundinni hlunninda er landeiganda heimil taka slíkra eggja.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að á takmörkuðum svæðum, þar sem eggjataka í varpi grágæsa og heiðagæsa hefur talist til hefðbundinna hlunninda er eggjataka landeiganda heimil, en þá skulu eigi færri en tvö egg skilin eftir í hreiðri.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að á takmörkuðum svæðum, þar sem hefðbundið andarvarp er mikið, skal landeiganda heimilt að taka egg frá tilteknum andartegundum sem þar eru taldar upp. Mælt er fyrir um skyldu til að skilja eftir ákveðinn fjölda eggja í hverju hreiðri við eggjatöku þessara tegunda.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að truflun vegna eggjatöku skuli haldið í algeru lágmarki. Auk þess er kveðið á um það að viðskipti með egg sem tínd eru á grundvelli þessarar greinar megi hvorki bjóða til sölu, selja eða kaupa nema talið sé að hlutaðeigandi stofn eða tegund sé talin þola slík viðskipti skv. 48. gr. Í 20. gr. gildandi laga er kveðið á um að óheimilt sé með öllu að eiga viðskipti með egg hluta þeirra tegunda sem þar eru taldar upp. Hins vegar er lagt til að ákvörðun um heimild til sölu slíkra eggja fari eftir 48. gr. þar sem metið er hvort umræddur stofn eða tegund þoli slíka sölu með sjálfbærum hætti.
    Í 6. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt í reglugerð að friða tímabundið einstakar tegundir eða stofna fyrir eggjatöku skv. 33. gr. og 2.–4. mgr. 34. gr., eða setja henni sérstök skilyrði, enda sé talið að eggjatakan hafi neikvæð áhrif á stofnstærð hlutaðeigandi fuglategundar eða stofns samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun. Hlunnindanýting samkvæmt þessum greinum er því að öllu jöfnu heimil þeim landeigendum sem greinarnar eiga við um, en sá varnagli er þó sleginn að heimilt sé að takmarka eggjatöku þeirra tegunda sem þar eru taldar upp séu skilyrði greinarinnar uppfyllt.

Um 35. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun geri tillögur til ráðherra um árlegan veiðikvóta hreindýra og um skiptingu hans milli veiðisvæða og tilhögun veiða að fengnum tillögum Náttúrustofu Austurlands. Hreindýr eins og önnur villt dýr og villtir fuglar eru friðuð nema ákveðið hafi verið að aflétta slíkri friðun. Mikilvægt er hins vegar að hafa í huga að hreindýr voru upphaflega flutt hingað til lands fyrir tilstuðlan mannsins og eru því framandi tegund hér á landi þótt þau séu að margra mati orðin rótgróinn hluti af íslenski náttúru. Veiðar á hreindýrum þjóna því mikilvægu hlutverki við stofnstærðarstjórn þessara dýra í íslenskri náttúru. Því er mikilvægt varðandi hreindýrastofninn að í stjórnunar- og verndaráætlunum verði hægt að mæla fyrir um ákveðnar stærðarviðmiðanir varðandi hann. Ákvæði greinarinnar er að mestu efnislega sambærilegt 5. mgr. 14. gr. og í fullu samræmi við þá framkvæmd sem viðhöfð hefur verið að þessu leyti um langt skeið.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra ákveði árlegan fjölda þeirra hreindýra sem fella má, eftir aldri, kyni og veiðisvæðum og tilhögun veiða og birtir með opinberri auglýsingu. Ákvæðið er að mestu í samræmi við framkvæmd gildandi laga en í greininni er hins vegar kveðið á um að ráðherra skuli birta ákvörðun sína með auglýsingu að jafnaði eigi síðar en 15. janúar ár hvert. Í gildandi lögum er ekki að finna tiltekna tímasetningu um hvenær ákvörðun ráðherra að þessu leyti skuli liggja fyrir. Mikilvægt er til þess að skapa fyrirsjáanleika vegna þessara veiða að ákvörðunin liggi fyrir sem fyrst eftir áramót vegna veiða þess árs.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til að mæla nánar fyrir um stjórn og skipulag mála við hreindýraveiðar á grundvelli þessa kafla.

Um 36. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að ráðherra skipi fjóra fulltrúa í hreindýraráð. Hlutverk þess er að vera Umhverfisstofnun til ráðgjafar um vernd, veiðar og nýtingu hreindýrastofnsins og er skilgreint hlutverk ráðsins að mestu óbreytt frá 5. mgr. 14. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að hreindýraráð skuli veita Umhverfisstofnun umsögn um tillögur Náttúrustofu Austurlands um árlegan veiðikvóta, skiptingu hans milli veiðisvæða og tilhögun veiða. Hér er lagt til að núverandi framkvæmd verði lögfest en Náttúrustofa Austurlands hefur til þessa lagt fram slíkar tillögur á grundvelli vöktunar hreindýrastofnsins og hreindýraráð veitt umsögn um þær. Mikilvægt er að ákvæði laga endurspegli þá framkvæmd sem unnið hefur verið eftir.
    Í 3. mgr. er kveðið á um hvernig hreindýraráð skuli skipað. Áfram er gert ráð fyrir því að þeir sem taldir eru upp í 5. mgr. 14. gr. gildandi laga eigi aðild að ráðinu. Sama gildir um fulltrúa frá Náttúrustofu Austurlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands sem heimilt er að sitja fundi ráðsins og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Auk þeirra tveggja síðarnefndu er gert ráð fyrir því að fulltrúar Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum og Skotveiðifélags Íslands (Skotvís) hafi heimild til að sitja fundi og hafi þar sömu réttindi og fulltrúar Náttúrustofu Austurlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Telja verður að reynsla og þekking beggja þessara aðila á hreindýraveiðum og veiðisvæðum hreindýra geti verið upplýsandi og jákvæð á fundum ráðsins.

Um 37. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að Náttúrustofa Austurlands annist vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum og mat á veiðiþoli samkvæmt samningi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Ákvæðið er efnislega í samræmi við 8. mgr. 14. gr. gildandi laga fyrir utan að bætt hefur verið við að Náttúrustofan meti einnig veiðiþol hreindýrastofnsins. Hér er lögð til breyting á ákvæði gildandi laga þannig að ákvæðið endurspegli þá framkvæmd sem Náttúrustofan hefur viðhaft samkvæmt gildandi lögum og samningi við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Um 38. gr.

Í greininni er kveðið á um heimildir til veiða á hreindýrum. Þar kemur fram Umhverfisstofnun úthluti og selji slík leyfi til veiðimanna sem hafa gilt veiðikort og skotvopnaleyfi með B-réttindum. Ákvæðið er að þessu leyti efnislega samhljóða 14. gr. gildandi laga. Í samræmi við nútímakröfur er mælt fyrir um að Umhverfisstofnun sé heimilt að ákveða að málsmeðferð og leyfisveitingar samkvæmt greininni fari fram með rafrænum hætti.

Um 39. gr.

    Í greininni er fjallað um verklegt skotpróf vegna hreindýraveiða. Hreindýraveiðar eru þess eðlis að gerðar eru mun strangari kröfur um hæfni og hittni veiðimanna en almennt gildir um aðrar skotveiðar. Miklu skiptir að þessari kunnáttu sé haldið við og mikilvægt þykir að bæði veiðimenn og leiðsögumenn með hreindýraveiðum sýni fram á það með reglulegu millibili að þeir búi yfir þeirri kunnáttu að geta fellt hreindýr á viðunandi hátt. Þær kröfur sem gerðar eru að þessu leyti eru þær sömu og gerðar eru samkvæmt gildandi lögum. Í greininni er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að fram komi að Umhverfisstofnun skuli halda verkleg skotpróf, en stofnuninni sé hins vegar heimilt að fela öðrum hæfum aðilum, eins og rekstraraðilum skotvalla eða skotfélögum framkvæmd slíkra prófa. Eðlilegt er að stofnunin hafi svigrúm til að semja um framkvæmd skotprófa við aðila sem hafa hæfni og þekkingu til að standa fyrir slíkum prófum enda sé það gert á grundvelli þeirra viðmiða sem stofnunin setur til slíkra prófa og um fullnægjandi árangur í þeim.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að veiðimaður skuli skila staðfestingu á að hann hafi lokið og staðist verklegt skotpróf áður en Umhverfisstofnun gefur út leyfi til hreindýraveiða til hlutaðeigandi veiðimanns. Í 8. mgr. 14. gr. gildandi laga er hins vegar mælt fyrir um að veiðimaður skuli skila slíkri staðfestingu fyrir 1. júlí ár hvert. Í gildandi lögum er að finna ákvæði um að Umhverfisstofnun sé heimilt sé að veita einstökum veiðimönnum frest til að skila slíkri staðfestingu. Telja verður að það sé til einföldunar að gera frekar þá kröfu í lögum að veiðimaður skili staðfestingunni áður en heimilt er að gefa út leyfi til hans.

Um 40. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um það að allir þeir sem stundi hreindýraveiðar skuli vera í fylgd með leiðsögumanni sem fengið hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að leiðsegja með slíkum veiðum. Slíkt leyfi er veitt til fjögurra ára í senn og miðast leyfið við tiltekin veiðisvæði. Ákvæðið er í samræmi við 10. mgr. 14. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skilyrði þess að hljóta leyfi til leiðsagnar með hreindýraveiðum og þau gögn sem skila þarf inn þar að lútandi. Ákvæðið er að miklu leyti samhljóða 10. mgr. 14. gr. gildandi laga. Ekki þykir hins vegar ástæða til að telja upp þær námsgreinar sem standast þarf í námskeiði Umhverfisstofnunar. Eðlilegra er talið að Umhverfisstofnun hafi svigrúm til að breyta og aðlaga slík námskeið eftir því sem þörf krefur og þekking breytist. Einnig er lagt til að í 4. tölul. greinarinnar verði kveðið á um að veiðimaður hafi sjálfur veitt a.m.k. tvö hreindýr áður en hann geti hlotið slíkt leyfi. Telja verður mikilvægt að leiðsögumaður hafi sjálfur reynslu af hreindýraveiðum ef hann ætlar að stunda leiðsögn með slíkum veiðum. Í því sambandi má meðal annars nefna að lagt er til að honum beri við tiltekin skilyrði skylda til að aðstoða veiðimann við að koma skoti á sært veiðidýr, sbr. 41. gr., og heimild til að fella önnur illa særð hreindýr af völdum veiða. Einnig er í 7. tölul. lagt til að tilvonandi leiðsögumaður þurfi að sýna fram á að hann hafi líkamlega færi til starfans samkvæmt læknisvottorði, sem telja verður eðlilega kröfu til að geta sinnt þessu hlutverki.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skilyrði til hljóta endurnýjun leyfis til hreindýraveiða að loknum fjögurra ára gildistíma fyrra leyfis. Þar er gerð krafa um að umsækjandi skili inn staðfestingu á að hann uppfylli skilyrði 1., 2., 6., og 7. tölul. 2. mgr. þessarar greinar auk þess sem hann hafi leiðsagt í a.m.k. tíu ferðum yfir gildistíma síðasta leyfis auk staðfestingar á að hann hafi setið endurmenntunarnámskeið Umhverfisstofnunar. Talið er mikilvægt að þeir sem óska eftir endurnýjun á leyfi til leiðsagnar hafi nýtt fyrra leyfið að einhverju ráði enda mikilvægt að leiðsögumaður viðhaldi reynslu sinni og þekkingu enda geta aðstæður breyst á veiðislóð.
    Í 4. mgr. er í samræmi við það sem segir hér að framan um 2. mgr., kveðið á um að Umhverfisstofnun semji námskrá og setji mörk og viðmið um fullnægjandi árangur á prófi fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum í samráði við Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Eðlilegt er að Umhverfisstofnun semji og setji slík mörk í samráði við þá aðila sem mesta reynslu hafa við slíka leiðsögn.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun haldi námskeið til undirbúnings leyfi fyrir verðandi leiðsögumenn í samráði við hreindýraráð sem er í samræmi við 11. mgr. 14. gr. gildandi laga. Kveðið er á um að stofnunin skuli tryggja með námskeiðunum að eðlileg nýliðun verði í hópi leiðsögumanna eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Sú breyting er hins vegar lögð til í lok greinarinnar að slík eðlileg nýliðun skuli ná til leiðsögumanna á öllum veiðisvæðum hreindýra. Þar sem leyfi til leiðsagnar gildir um tiltekin veiðisvæði þykir rétt að árétta að horfa þarf til ástands hvers og eins veiðisvæðis að því er varðar nýliðun leiðsögumanna. Einnig er lagt til að slík námskeið verði haldin á a.m.k. 4 ára fresti en slíkt tímamark er ekki að finna í gildandi lögum. Mikilvægt er að tryggt verði að slík námskeið verði haldin með reglulegu millibili.
    Í 6. mgr. er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að Umhverfisstofnun hafi heimild til að fela aðilum sem til þess hafa þekkingu og reynslu að mati stofnunarinnar til að halda námskeið til undirbúnings leyfi til leiðsagnar með hreindýraveiðum í sínu umboði. Þótt stofnunin nýti heimildina og feli öðrum að sjá um framkvæmdina er það hins vegar ávallt stofnunin sem ber ábyrgð á heildarframkvæmd þessara mála hjá þeim sem hún felur að sjá um framkvæmdina.

Um 41. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um hlutverk leiðsögumanna með hreindýraveiðum og er hlutverk þeirra skilgreint eins og í 14. mgr. 14. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli þar sem kveðið er á um að leiðsögumanni sé skylt að aðstoða við að fella sært veiðidýr sem skotið hefur verið af veiðimanni í fylgd hans, þegar ekki eru yfirgnæfandi líkur á því að umræddur veiðimaður nái að fella dýrið svo fljótt sem auðið er. Hér er ekki einungis um heimild að ræða heldur er lagt til að þetta verði hluti af starfsskyldu leiðsögumannsins þegar svo stendur á sem mælt er fyrir um í ákvæðinu. Þótt veiðimenn þurfi að gangast undir skotpróf til að fá leyfi til veiðanna getur hæfni og reynsla einstakra veiðimanna verið misjöfn. Mikilvægt er í þágu dýravelferðar að leiðsögumanni sé skylt að grípa inn í veiðarnar og felli illa sært dýr þegar hann metur það svo að veiðimaður nái af einhverjum ástæðum ekki að fella dýrið. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að leiðsögumaður skuli fella önnur illa særð dýr af völdum veiða sem verða á vegi hans á veiðislóð og eiga sér takmarkaða lífsvon. Sömu sjónarmið um dýravelferð búa að baki þessari heimild leiðsögumanns með hreindýraveiðum. Rétt er talið að leiðsögumönnum með hreindýraveiðum beri að fella önnur illa særð dýr frekar en einstökum veiðimönnum enda bera leiðsögumenn tilteknar opinberar skyldur á grundvelli 41. gr., þeir hafa almennt víðtæka reynslu og þekkingu á hreindýrastofninum, auk þess sem leiðsögumenn eiga ávallt að vera í för með veiðimönnum. Mælt er fyrir um að þegar leiðsögumaður aflífar illa sært dýr á veiðislóð beri honum að tilkynna slík atvik til Umhverfisstofnunar sem fær eignarráð yfir dýrinu og tekur ákvörðun um förgun þess eða aðra ráðstöfun. Mikilvægt er að heimild til að fella særð hreindýr skapi ekki eignarhald yfir dýrinu án þess að veiðileyfi sé til staðar enda kann það að skapa hættu á misnotkun.
    Í 3. mgr. er að finna heimild sem ekki er til staðar í gildandi lögum. Ljóst er að hreindýr eru stundum felld fjarri vegum og vegaslóðum. Kallað hefur verið eftir því að í lögum sé fyrir hendi þröng heimild til að sækja felld hreindýr á vélknúnu farartæki þegar svo háttar til enda geta fullvaxnir tarfar, svo dæmi sé tekið, verið gríðarlega þungir. Í ákvæðinu er kveðið á um að leiðsögumanni með hreindýrum sé heimilt að ákveða að nota sexhjól til að sækja hreindýr sem fellt hefur verið fjarri vegum og vegaslóðum, enda sé ekki talin hætta á náttúruspjöllum samkvæmt leiðbeinandi reglum sem Umhverfisstofnun skal gefa út á grundvelli ákvæðisins. Mælt er fyrir um í ákvæðinu að heimild til slíks aksturs nái hvorki til einstakra veiðimanna né til sjálfrar leiðsagnarinnar. Kveðið er á um að leiðsögumaður með hreindýraveiðum skuli tilkynna Umhverfisstofnun um slíka för áður en bráðin er sótt eða við fyrsta tækifæri eftir slíka för, auk þess sem gerð skal grein fyrir henni í veiðiskýrslum. Að frátaldri þessari undantekningarheimild hefur leiðsögumaður almennar heimildir til notkunar á sexhjólinu á vegum eða vegaslóðum þar sem almenn notkun slíkra vélknúinna tækja er heimil. Hann getur því tekið ákvörðun um að ferja aðra veiðimenn eða búnað á hjólinu á vegum eða vegaslóðum ef hann kýs það í samræmi við almennar reglur um notkun slíkra tækja en honum er það hins vegar ekki heimilt utan vega eða vegaslóða.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að brot leiðsögumanna með hreindýraveiðum á lögum um vernd, veiðar og velferð villtra fugla og villtra spendýra eða reglum settum samkvæmt þeim, skotvopnalögum eða lögum um velferð dýra geti Umhverfisstofnun veitt leiðsögumanni áminningu eða svipt hann leyfi til leiðsagnar ef sakir eru miklar eða ítrekaðar. Kveðið er jafnframt á um að hafi leiðsögumaður verið sviptur leyfi til leiðsagnar er honum heimilt að sækja um slíkt leyfi að nýju enda uppfylli hann skilyrði 2. mgr. 40. gr., þar á meðal að hann hafi sótt á ný og lokið prófi fyrir leiðsögumenn á vegum Umhverfisstofnunar skv. 8. tölul. 2. mgr.

Um 42. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu Umhverfisstofnunar til að veita fræðslu og leiðbeiningar varðandi aðgerðir til varnar tjóni af völdum villtra fugla og villtra spendýra. Ekki er kveðið á um slíka skyldu í gildandi lögum þótt stofnunin hafi sinnt þessu hlutverki að einhverju leyti. Eðlilegt er að Umhverfisstofnun sé sá ríkisaðili sem sinni slíkri leiðbeininga- og fræðsluskyldu enda gert ráð fyrir að hún hafi með höndum framkvæmd þessara mála. Mikilvægt er að hafa í huga að aðgerðir til varnar tjóni af völdum villtra dýra geta verið með ýmsum öðrum hætti en veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Slíkar aðgerðir geta t.d. falist í notkun ýmis búnaðar sem fæla burtu fugla eins og t.d. hljóðbyssur við flugvelli sem gefa frá sér hvellt og hávært hljóð til fælingar. Mikilvægt er að slík úrræði séu nýtt eins og kostur er áður en gripið er til veiða, a.m.k. á þeim tegundum sem ekki er beinlínis ætlunin að fækka eða útrýma.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði sem ekki er í gildandi lögum sem kveður á um það að Umhverfisstofnun skuli á vef stofnunarinnar taka á móti og skrá tilkynningar sem stofnuninni berast frá almenningi eða lögaðilum um tjón sem hlutaðeigandi telur sig hafa orðið fyrir vegna villtra fugla og villtra spendýra. Ástæða þessa ákvæðis er að gert er ráð fyrir því að veiðar til varnar tjóni byggist á því að tjón eða hætta á tjóni vegna einstakra tegunda liggi fyrir eins og kostur er áður en gripið er til þess úrræðis að heimila veiðar. Í mörgum tilvikum hefur tjón eða tjónsáhætta vegna einstakra tegunda villtra fugla og villtra spendýra verið óljós og skráningu slíks tjóns verið ábótavant. Mikilvægar upplýsingar og greiningar hefur því tilfinnanlega vantað um tjón af völdum einstakra tegunda og afleiðinga þeirra. Ljóst er að um áratugaskeið hafa tilteknar fuglategundir verið taldir „vargfuglar“ vegna tjóns sem þessir fuglar hafa verið taldir valda. Nokkuð er hins vegar á reiki í sumum tilvikum hvort tjón af þeirra völdum sé í grunninn fjárhagstjón einstaklinga eða lögaðila, hugsanlegt heilsufarslegt tjón eða hvort um sé að ræða „tjón“ sem þessar tegundir kunna að valda vegna náttúrulegra ferla og þá á hreiðrum eða ungum annarra villtra fugla. Miklu skiptir því að fyrir hendi sé vettvangur fyrir þá sem verða fyrir tjóni að tilkynna og gera grein fyrir tjóni sem þeir verða fyrir vegna villtra fugla og villtra spendýra. Hér er þó lögð áhersla á að ekki er um skyldu að ræða til að tilkynna slíkt tjón heldur einungis heimild og vettvangur fyrir slíkar tilkynningar. Með þeim hætti er von til þess að betur liggi fyrir um raunverulegt tjón vegna einstakra tegunda. Í greininni er mælt fyrir um að Umhverfisstofnun sé heimilt með samningi að fela náttúrustofum eða öðrum hæfum aðilum verkefni sem fjallað er um í þessari grein.

Um 43. gr.

    Í 1. mgr. er lögð til skýr heimild fyrir Umhverfisstofnun til að veita tímabundna og skilyrta undanþágu frá friðunarákvæðum og heimila veiðar á tiltekinni tegund villtra fugla og villtra spendýra, eða eggjatöku villtra fugla, sem ekki njóta aukinnar eða sértækrar friðunar, enda sé sýnt fram á raunverulega og skilgreinda hættu á tjóni af þeirra völdum í ákveðnum tilvikum, á ákveðnum stöðum eða svæðum, enda sé undanþágan í samræmi við samþykkta stjórnunar- og verndaráætlun um hlutaðeigandi tegund. Ákvæðið mælir því fyrir um tilteknar heimildir til handa Umhverfisstofnun til að veita takmarkaðar undanþágur frá friðunarákvæðum jafnvel þó ráðherra hafi ekki aflétt almennri friðun þessara tegunda. Slíkar undanþágur eiga að vera tímabundnar og skilyrtar vegna tiltekinna atvika sem upp geta komið. Hér má t.d. hugsa sér tiltekna staðbundna salmonellusýkingu við vatnsból sem rakin er til villtra fugla, tímabundna hættu sem getur skapast við tiltekna flugvelli vegna villtra fugla og aðrar aðgerðir eru ekki taldar duga til eða fyrirsjáanlegt tjón á túnum bænda á tilteknu svæði vegna óvenju mikils ágangs gæsa eða álfta. Gert er ráð fyrir að í samþykktri stjórnunar- og verndaráætlun einstakra tegunda sé reynt að sjá fyrir þau tilvik þar sem helst getur reynt á slíkar undanþágur og hvenær tilefni kann að vera til að beita þeim.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að rottur, svo og mýs í og við híbýli séu undanþegin friðunar- og verndarákvæðum. Ákvæðið er í samræmi við meginreglur gildandi laga að öðru leyti en því að mælt er fyrir um að reynt skuli að aflífa þessi dýr á skjótan og sársaukalausan hátt. Heimilt er að veiða og aflífa rottur hvar sem til þeirra næst enda er þar um að ræða dýrategund sem er framandi lífvera hér á landi auk þess sem þær þykja ekki sérstakir aufúsugestir í sambýli við menn. Mýs njóta hins vegar friðunar í náttúrunni nema slíkri friðun hafi verið aflétt. Inni í híbýlum manna eða við híbýli, t.d. í húsagörðum eða undir húsum, njóta mýs hins vegar ekki friðunar eða verndar. Rétt er að líta svo á að þetta gildi einnig um aðra dvalarstaði manna sem jafna má til húsa eða híbýla, svo sem kofa, hjólhýsi, bíla, báta eða loftför.

Um 44. gr.
    

    Í 1. mgr. er kveðið á um að í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir refi skuli lagt mat á stofnstærð, stofnþróun, verndarstöðu, útbreiðslu og viðkomu íslenska refastofnsins og stöðu hans í lífríki og líffræðilegri fjölbreytni landsins. Í ákvæðinu er því lagt til að unnin verði nokkuð ítarleg greining á íslenska refastofninum í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir hann. Íslenski refurinn er hluti af náttúru Íslands og hefur verið það um árþúsundir. Refurinn hefur hins vegar um langt skeið verið nánast réttdræpur hvar sem er á landinu nema á takmörkuðum svæðum, svo sem á Hornströndum þar sem hann hefur notið friðunar. Ljóst er að það er ekki opinbert markmið að útrýma ref úr náttúru Íslands eins og gildir t.d. með ágenga framandi lífveru eins og minkinn. Að því sögðu er ekki gert lítið úr tjóni sem refir kunna að valda á hagsmunum sem markmið er að vernda, eins og t.d. friðlýstum æðarvörpum. Mikilvægt er að veiðar á ref til að takmarka tjón af hans völdum byggist á bestu fyrirliggjandi upplýsingum um refastofninn og því tjóni sem hann kann að valda á eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að sé talið að refir valdi raunverulegu og skilgreindu tjóni á ákveðnum stöðum eða svæðum geti Umhverfisstofnun lagt til í stjórnunar- og verndaráætlun til ráðherra að friðun refa verði aflétt. Tillögur Umhverfisstofnunar um afléttingu friðunar geta náð yfir tiltekin svæði landsins, auk þess sem Umhverfisstofnun ber í tillögum sínum að leggja til við ráðherra hvernig stofnunin telji best að haga veiðum á ref til að takmarka tjón af hans völdum og um forgangsröðun svæða landsins út frá eðli og umfangi tjóns eða verndun líffræðilegrar fjölbreytni á grundvelli tillagnanna. Ljóst er að umfang tjóns vegna refa getur verið mjög mismunandi eftir svæðum. Þannig kunna tiltekin svæði landsins þar sem mikið er t.d. um æðarvarp eða búskap að vera mun viðkvæmari fyrir slíku tjóni en svæði þar sem slíkt er ekki fyrir hendi. Einnig kann viðkoma refa að vera mjög mismunandi eftir landsvæðum. Miklu skiptir að lögð sé til ákveðin forgangsröðun svæða landsins með tilliti til þessa þannig að þeir fjármunir sem hið opinbera veitir í málaflokkinn nýtist markvisst og sem best til að varna tjóni og verja þá hagsmuni sem mikilvægast er að verja
    Í 3. mgr. er kveðið á um að á þeim svæðum landsins þar sem refaveiðar eru taldar nauðsynlegar til að koma í veg fyrir tjón sé sveitarfélögum skylt að ráða skotmenn með kunnáttu til refaveiða. Ákvæðið er að mestu samhljóða 2. mgr. 12. gr. gildandi laga. Ekki er hins vegar talin þörf á því að binda í lög að refaskyttu sé skylt að hafa með sér aðstoðarmann eins og kveðið er á um í greininni. Ekki er heldur talið nauðsynlegt að hafa sérstakt ákvæði um það í lögum að skipuleggja megi refaveiðar að vetrarlagi í stað grenjavinnslu eins og gildandi lög mæla fyrir um. Ekki er með þessari breytingu gert ráð fyrir að slíkar veiðar megi ekki skipuleggja að vetrarlagi eftir sem áður. Gert er ráð fyrir að tímabil veiða verði ákveðið á grundvelli stjórnunar- og verndaráætlunar um það hvernig best sé að haga refaveiðum. Áfram er gert ráð fyrir því að ríkissjóður styðji fjárhagslega við refaveiðar sveitarfélaga eins og er í gildandi lögum. Að fengnum árlegum skýrslum þeirra um veiðarnar er Umhverfisstofnun heimilt að endurgreiða þeim allt að helming kostnaðar við veiðarnar á grundvelli reglugerðar sem ráðherra er heimilt að setja um slíkar endurgreiðslur og eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.

Um 45. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um, eins og í gildandi lögum, að óheimilt sé að eyðileggja greni. Ástæða þessa ákvæðis er annars vegar sú að refagreni hafa í einhverjum tilvikum verið í óslitinni notkun í mjög langan tíma og hins vegar að þá er vitað hvar refurinn heldur sig. Sé greni eyðilagt gæti það haft í för með sér að hann finni sér óþekktan íverustað sem gerir erfiðara en ella að fylgjast með honum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það eins og í gildandi lögum að sveitarfélög skuli halda skrá yfir öll þekkt refagreni í sínu umdæmi ásamt lýsingu á þeim. Mikilvægt er að refagreni séu þekkt, grenin séu skráð og að skráin sé uppfærð reglulega. Jafnframt er mælt fyrir um að afrit af þessum skrám séu aðgengileg hjá bæði Náttúrufræðistofnun Íslands vegna rannsóknargildis slíkrar skráa og Umhverfisstofnun sem fer með yfirumsjón með framkvæmd refaveiða. Mælt er fyrir um að kvæði upplýsingalaga gilda ekki um skráninguna til að koma eins og hægt er í veg fyrir óviðkomandi umferð um refagreni með tilheyrandi truflun eða röskun grenjanna.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að þeir sem stunda refaveiðar, sé óheimilt að skilja eftir æti eða agn við veiðistaði refa að veiðum loknum. Mikilvægt er að settar séu strangar takmarkanir við slíkum útburði á æti bæði vegna sjúkdómahættu og vegna þess að óheftur aðgangur refa að æti sem skilið er eftir að veiðum loknum getur unnið gegn markmiðum með veiðunum. Í einhverjum tilvikum hafa heilu skrokkarnir verið skildir eftir á veiðistöðum sem agn við refaveiðar og slík hræ látin liggja á víðavangi að veiðum loknum þar sem önnur dýr eins og búfé, fuglar og hundar hafa haft óheftan aðgang að slíku æti. Ljóst er að útburður á æti getur verið nauðsynlegur við refaveiðar og er ekki lagt til að hann verði alfarið óheimill. Tíðkast hefur að skilja eftir slíkt æti í stuttan tíma til að refurinn venji komur sínar að ætinu. Mikilvægt er hins vegar að æti sé ekki skilið eftir að veiðum loknum. Erfitt er að skilgreina nákvæmlega hvenær veiðum sé formlega lokið en gert er ráð fyrir því að ákvæði verði skýrt þannig að veiðar þurfi að standa óslitið yfir og að veiðimaður hafi annaðhvort viðveru á veiðistaðnum eða komi daglega að veiðistað við veiðarnar. Sá tími sem hér um ræðir er því talin í einhverjum dögum en ekki vikum eða mánuðum.

Um 46. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun hafi með höndum eftirlit með innflutningsleiðum og útbreiðslu framandi dýrategunda og villinga og leggur til við ráðherra aðgerðir til að hefta útbreiðslu þeirra. Því er lagt til að Umhverfisstofnun hafi víðtækar skyldur að þessu leyti til varnar og verndar náttúru Íslands og líffræðilegri fjölbreytni landsins. Gert er ráð fyrir að undir ákvæði þetta falli einungis þær framandi lífverur sem talist geta til villtra fugla og villtra spendýra. Um aðrar framandi lífverur eins og t.d. plöntur gilda hins vegar náttúruverndarlög.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að Umhverfisstofnun geti að fengnu áliti Náttúrufræðistofnunar Íslands lagt til, annaðhvort í stjórnunar- og verndaráætlun ef hún er til staðar um hlutaðeigandi framandi dýr eða villinga eða þá beint við ráðherra, að slíkum framandi dýrum sé skipulega útrýmt, annaðhvort á tilteknum svæðum eða landinu öllu. Í slíkum tillögum myndi stofnunin jafnframt leggja fram þá aðferðafræði við fækkun eða útrýminu þessara tilteknu lífvera sem hún telur vera áhrifaríkasta til að ná fram markmiðum greinarinnar.
    Í 3. mgr. kemur fram að Umhverfisstofnun skuli skipuleggja aðgerðir í samvinnu við sveitarfélögin, enda mikilvægt að þau hafi bæði vitneskju og aðkomu að slíkum aðgerðum innan sveitarfélags.

Um 47. gr.

    Þrátt fyrir að minkar séu framandi ágengar lífverur sem reynt hefur verið að útrýma úr náttúru landsins síðustu áratugina hefur það ekki tekist. Minkar eru mjög varir um sig í náttúrunni auk þess sem þeir hafa mikla aðlögunarhæfni sem hefur nýst þeim til að lifa af þrátt fyrir ýmsar aðgerðir til að hefta útbreiðslu þeirra eða útrýma úr lífríkinu. Miklu skiptir að unnið sé að útrýmingu minksins úr náttúrunni. Þrátt fyrir að minkurinn hafi verið ófriðaður samkvæmt lögum um áratugaskeið er ekki hægt að líta svo á að fyrirsjáanlegt sé að því takmarki verði náð, a.m.k. á næstu árum, að honum verði með öllu útrýmt. Því er kveðið á um það í 1. mgr. að unnin verði stjórnunaráætlun vegna minka þar sem gerð verði grein fyrir því hvernig best sé að haga veiðum á mink til að ná því takmarki að honum verði útrýmt út náttúrunni eða fækkað eins og hægt er ef ekki er unnt að útrýma honum. Tilraunaátak umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í samvinnu við sveitarfélög á Snæfellsnesi og við Eyjafjörð á árunum 2011 til 2013, þar sem minkaveiðar voru kerfisbundið auknar verulega, sýndu að með vel skipulögðu veiðiátaki er mögulegt að fækka umtalsvert og jafnvel útrýma minki svæðisbundið. Slíkum aðgerðum er nauðsynlegt að fylgja vel eftir og hugsanlega útfæra á landsvísu. Í þessu skyni er nauðsynlegt að veiðarnar séu skipulagðar þannig á landsvísu að það fjármagn sem lagt verður til veiðanna nýtist á eins hagkvæman og árangursríkan hátt og mögulegt er til að ná þessu takmarki. Því getur verið eðlilegt í slíkri áætlun að lögð sé til forgangsröðun á þeim svæðum landsins þar sem ætla má að veiðar á mink skili mestum árangri til að ná markmiðum laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Tillaga Umhverfisstofnunar um forgangsröðun væri í samráði við sveitarfélög landsins.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að á þeim svæðum þar sem minkaveiðar eru taldar nauðsynlegar skuli sveitarstjórn vera skylt að ráða kunnáttumenn til minkaveiða. Hér er um að ræða efnislega sambærilegt ákvæði og er að finna í 2. mgr. 13. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun hafi yfirumsjón með framkvæmd veiða á grundvelli 1. og 2. mgr. Áfram er gert ráð fyrir því að ríkissjóður styðji fjárhagslega við minkaveiðar sveitarfélaga eins og er í gildandi lögum. Að fengnum árlegum skýrslum þeirra um veiðarnar er Umhverfisstofnun heimilt að endurgreiða þeim allt að helming kostnaðar við veiðarnar á grundvelli reglugerðar sem heimilt verður að setja um slíkar endurgreiðslur og eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.
    Í 4. mgr. er að finna sambærilegt ákvæði og er að finna í gildandi lögum. Í því er kveðið á um að minkar njóti ekki friðunar eða verndar. Tekið er jafnframt fram að við aflífun þeirra skuli reyna að tryggja að tryggja skjóta og sársaukalausa aflífun. Eins og fyrr segir er gert ráð fyrir að til að stunda veiðar á mink þurfi að hafa veiðikort. Í gildandi lögum er ekki þörf á veiðikorti til að stunda minkaveiðar.

Um 48. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að við afléttingu á friðun villtra fugla og villtra spendýra skuli ráðherra á grundvelli stjórnunar- og verndaráætlana jafnframt taka ákvörðun um það hvort hlutaðeigandi stofn eða tegund þoli sölu á veiðibráð eða öðrum afurðum, þ.m.t. eggjum, á sjálfbæran hátt eða hvort slík sala skuli ekki heimiluð. Sé talið í stjórnunar- og verndaráætlun að stofn eða tegund þoli ekki sölu slíka afurða á sjálfbæran hátt getur ráðherra lagt bann við sölu slíkra afurða. Þrátt fyrir að meginregla frumvarpsins sé að veiðar eigi að vera frístundaveiðar kann í einhverjum tilvikum að vera rétt og eðlilegt að tiltekin viðskipti geti átt sér stað með slíkar afurðir ef fyrir liggur að umræddur veiðistofn þoli slíka sölu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra sé heimilt í reglugerð að banna öll viðskipti með veiðibráð eða afurðir hennar, sbr. 3. mgr., ef hann telur að hlutaðeigandi stofn eða tegund þoli ekki slíka sölu á sjálfbæran hátt. Sölubann á tilteknum tegundum getur haft í för með sér stöðvun á magnveiðum sem kunna að vera stundaðar í atvinnuskyni og þar með haft mikil áhrif sem verndaraðgerð til að draga úr veiðum einstakra tegunda villtra fugla og villtra spendýra áður en það kemur til skoðunar að draga úr eða banna hefðbundnar frístundaveiðar til eigin neyslu.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að óheimilt sé að flytja út, bjóða til sölu eða selja veiðibráð eða aðrar afurðir villtra dýra, þ.m.t. uppstoppuð dýr og fugla, eða egg fugla sem falla undir frumvarpið og sala hefur verið bönnuð á. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi eða vöru- eða þjónustuskiptum.
    Í 4. mgr. er sérstaklega kveðið á um að öll viðskipti, þ.m.t. útflutningur eða hvers kyns sala sé ekki heimil á fuglum sem drepast í netum við veiðar. Einu gildir þótt nytjaveiði sé heimil á umræddri fuglategund. Net við fuglaveiðar eru alfarið bönnuð skv. 24. gr. nema háfar til lundaveiða í takmörkuðum tilvikum. Sala veiðiafurða sem aflað er með slíkum hætti er því ekki eðlileg auk þess sem hér er liggja einnig heilbrigðissjónarmið að baki.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að þrátt fyrir að bann hafi verið lagt við sölu tiltekinna veiðiafurða villtra dýra gildi það þó ekki um dún sem aflað hefur verið með lögmætum hætti né um innflutta villta fugla og dýraafurðir þeirra tegunda sem bannið tekur til. Til að hægt sé að framfylgja og hafa eftirlit með slíkum afurðum er kveðið á um skyldu innflytjanda og seljanda að merkja þær þannig að fram komi í hvaða landi þær eru upprunnar. Eru fyrirmæli um merkingar í samræmi við 3. mgr. 17. gr. a gildandi laga.

Um 49. gr.

    Ekki er sérstaklega fjallað um hamskurð eða hamskera í gildandi lögum nema í 4. mgr. 7. gr. þar sem segir að ráðherra skuli kveða á um hamtöku og skinnatöku, uppsetningu dýra og starfsemi hamskera í reglugerð. Vikið er að hamskurði í reglugerð um friðun tiltekinna fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl., nr. 252/1996. Í 1. mgr. þessarar greinar er kveðið á um þá meginreglu að einungis sé hægt að setja upp (stoppa upp) villta fugla og villt spendýr sem ekki hafa verið drepin af mannavöldum og dýr sem hafa verið löglega veidd samkvæmt lögum. Mikilvægt er að þau dýr sem eru uppstoppuð hafi ekki verið ólöglega veidd eða drepin með slíkum hætti jafnvel þó sá sem uppstoppar eða kemur með dýr til uppstoppunar hafi ekki átt neinn þátt í dauða dýrsins. Séu fyrir hendi heimild til að stoppa upp slík dýr er sú hætta ávallt fyrir hendi að fágætar og friðaðar tegundir séu jafnvel veiddar til uppstoppunar. Mjög erfitt eða ómögulegt er í flestum tilvikum að sanna að sá sem stoppar upp eða kemur með slíkt dýr til uppstoppunar hafi ekki sjálfur átt þátt í dauða dýrsins en hafi ekki til að mynda fundið dýrið dautt á víðavangi. Heimilt er hins vegar að setja upp villt dýr sem ekki hefur verið drepið af mannavöldum ef það finnst dautt á víðavangi.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um skráningarskyldu hamskera. Mælt er fyrir um skráningarskyldu hamskera í framangreindri reglugerð nr. 252/1996. Þar er mælt fyrir um að slíkir aðilar skuli skrá sig hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í greininni er lagt til að því verði breytt og að hamskerar skuli skrá sig hjá Umhverfisstofnun. Eðlilegt er að skráningarskylda og eftirlit samkvæmt því sé á hendi Umhverfisstofnunar en ekki þeirri stofnun sem aðallega hefur með höndum rannsóknir. Gert er hins vegar ráð fyrir því að upplýsingar, gögn og skrár sem aflað verður á grundvelli þessarar greinar séu aðgengilegar Náttúrufræðistofnun Íslands frá Umhverfisstofnun eins og verið hefur.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skráningarskyldu hamskera á öllum villtum dýrum sem þeir setja upp. Þessi skylda er óbreytt frá því sem mælt er fyrir um í reglugerð 252/1996. Hamskerar skulu skrá öll villt dýr sem þeir setja upp, hvar og hvenær dýrið fannst eða var veitt.
    Í 4. mgr. er kveðið á um það að ráðherra sé heimilt í reglugerð að kveða á um tilkynningu og skylduskil á ákveðnum tegundum friðaðra villtra fugla og villtra spendýra sem finnast dauð eða ósjálfbjarga á víðavangi. Um er að ræða sambærilega heimild fyrir ráðherra og nú er að finna í reglugerð nr. 252/1996. Tilgangur með ákvæðinu er að gera Náttúrufræðistofnun Ísland kleift að rannsaka tilteknar tegundir eða stofna villtra fugla og villtra spendýra sem finnast dauð á víðavangi, t.d. með það að leiðarljósi að komast að því hvað valdi dauða slíkra dýra.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að ráðherra sé heimilt í reglugerð að kveða á um að hamskerar eða aðrir sem ráða yfir hömum sjaldgæfra friðaðra tegunda eða tegunda sem metnar eru í hættu á válistum láti örmerkja hamina. Örmerkingar á hömum friðaðra sjaldgæfra dýra tíðkast víða um heim og eru liður í því að slík dýr séu ekki ólöglega veidd eða sett upp með ólöglegum hætti.

Um 50. gr.
    

    Í 1. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun annist og hafi umsjón með eftirliti með framkvæmd mála varðandi vernd, velferð og veiðar villtra fugla og villtra spendýra verði frumvarpið að lögum. Mikilvægt er að fyrir liggi með skýrum hætti hvaða stofnun á vegum ríkisins fari með almennt eftirlit að þessu leyti óháð því hvort aðrir aðilar kunni einnig að koma að eftirliti með einstökum þáttum eins og t.d. þegar brot á tilteknum ákvæðum eða fyrirmælum kann að varða hlutaðeigandi refsingu. Lögreglan hefur eftir sem áður veigamikið hlutverk vegna brota á lögum á þessu sviði eins og verið hefur. Með því að skilgreina í lögum almennt eftirlit Umhverfisstofnun með framkvæmd laganna og hugsanlegum brotum á þeim er ekki dregið úr hlutverki og mikilvægi þess eftirlits sem lögregla víða um land sinnir vegna brota á reglum um veiði, friðun og vernd og annarra þátta sem löggjöfin fjallar um. Mikilvægt er hins vegar að eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar sé að hafa almennt og samræmt eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerða settum samkvæmt þeim um allt land.
    Í 2. mgr. er að finna heimild fyrir Umhverfisstofnun að fela öðrum stjórnvöldum með samningi einstaka þætti eftirlits samkvæmt greininni. Hagkvæmt getur verið að fela tilteknum aðilum sem eru t.d. með aðsetur á tilteknu svæði landsins. t.d. landvörðum þjóðgarða, afmarkaða þætti nauðsynlegs eftirlits. Í greininni er mælt fyrir um að þeir aðilar sem stofnunin hefur gert samning við til að sinna tilteknum þáttum eftirlits á grundvelli laganna hafi sömu heimildir og Umhverfisstofnunar og starfsmenn hennar.
    Í 3. mgr. er sérstaklega fjallað um veiðivörslu sem eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar. Veiðivörslu hefur ekki verið sinnt á samræmdan eða skipulegan hátt í tíð gildandi laga af hálfu stofnunarinnar. Umhverfisstofnun hefur sinnt tilteknu eftirliti með hreindýraveiðum á veiðitíma þeirra en lítið hefur verið fylgst með öðrum veiðum. Eftirliti með ólöglegum veiðum hefur verið sinnt af hálfu einstakra lögregluumdæma en ekki er vitað til að slíku eftirlit hafi verið skipulega sinnt um landið allt eða slíkt eftirlit hafi verið samræmt eða því hafi verið sinnt á grundvelli fyrir fram gerðra áætlana eins og kveðið er á um í greininni. Ljóst er að það skiptir máli fyrir náttúru landsins og dýralíf að fullvissa sé um það í samfélaginu að fyrir hendi sé eftirlit með því að friðaðar eða verndaðar tegundir séu ekki veiddar, að ekki sé veitt á svæðum þar sem veiðar eru ekki heimilar, að ekki séu notaðar ólöglegar veiðiaðferðir eða veiðitæki við veiðar og að þeir sem stundi veiðar hafi til þess veiðikort og önnur tilskilin leyfi. Með ákvæðinu er ekki vegið að þeim mikla meiri hluta veiðimanna sem stundar sjálfbærar og löglegar veiðar sér til ánægju og útivistar. Að koma í veg fyrir ólögmætar, skaðlegar og ósjálfbærar veiðar sem valda skaða á náttúru landsins og dýralífi þess fer hins vegar vel saman við hagsmuni þess mikla meiri hluta veiðimanna sem stundar ábyrgar, löglegar og sjálfbærar veiðar.
    

Um 51. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli útbúa eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn vegna eftirlits með veiðum og annarri framkvæmd. Eins og fram kemur í skýringum við 50. gr. er mikilvægt að eftirliti með veiðum verði sinnt á skipulegan og samræmdan hátt á landsvísu. Í ákvæðinu er hins vegar áréttað að gæta skuli að skilvirkni og hagkvæmni í slíku eftirliti. Með ákvæðinu er því ekki verið að leggja til að slíkt veiðieftirlit þurfi að vera umfangsmikið, mannaflafrekt, flókið og dýrt. Áherslan liggur frekar í forvarnargildi eftirlits sem byggist á góðu skipulagi, eftirlitsáætlunum og skyndikönnunum. Eðlilegt er að allir þeir sem stunda veiðar megi búast við því að von geti verið á slíku eftirliti hvenær og hvar sem er á landinu, bæði á vegum Umhverfisstofnunar auk hins hefðbundna og almenna eftirlits lögreglu með öllum lögbrotum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli upplýsa og eiga samráð við hlutaðeigandi lögregluembætti um fyrirhugað eftirlit innan umdæma þeirra á grundvelli eftirlitsáætlunar og um einstök eftirlitsverkefni stofnunarinnar. Mikilvægt er að gott samstarf og samvinna sé við einstök lögregluembætti við framkvæmd eftirlits samkvæmt þessari grein. Þetta skiptir sérlega miklu máli í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir að þeir starfsmenn Umhverfisstofnunar sem sinna eftirlitinu hafi sérstakar valdbeitingarheimildir, sektarheimildir eða heimildir til að leggja hald á ólögmætan búnað, skotvopn eða veiðibráð.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að eftirlitsáætlanir samkvæmt greininni og upplýsingar úr henni séu trúnaðargögn sem ekki skal afhenda öðrum en þeim sem þurfa á slíkum upplýsingum að halda samkvæmt greininni. Kveðið er á um að upplýsingalög taki ekki til áætlunarinnar fyrr en að loknum gildistíma hennar. Mikilvægt er að ekki sé á almannavitorði áður en eftirlit fer fram hvar eftirlitsmenn bera niður eða á hvaða tímum. Eðlilegt er hins vegar að hægt sé að óska eftir slíkum áætlunum eftir að eftirliti er lokið samkvæmt eftirlitsáætluninni.
    

Um 52. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um almenna heimild fyrir auðkennda starfsmenn Umhverfisstofnunar að hafa afskipti af veiðimönnum á veiðislóð í þeim tilgangi að sinna eftirliti, og þeim skyldum sem stofnun hefur að þessu leyti.
    Í 2. mgr. er lögð skylda á veiðimenn til að veita eftirlitsmönnum Umhverfisstofnunar þær upplýsingar og gögn sem hafa þýðingu við eftirlitið. Þar er fyrst og fremst um að ræða skyldu til að sýna veiðikort og skotvopnaleyfi sem eru grundvallargögn við skotveiðar. Ef um er að ræða hreindýraveiðar er mælt fyrir um skyldu til að framvísa leyfi til hreindýraveiða eða eftir atvikum leyfi til að stunda leiðsögn með hreindýraveiðum ef um leiðsögumann er að ræða. Jafnframt er kveðið á um að veiðimenn skuli jafnframt framvísa veiðibráð og veiðibúnaði sé eftir því óskað enda getur það skipt höfuðmáli við framkvæmd eftirlits sem þessa með tilliti til þess hvort brot hafi verið framið.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli við framkvæmd eftirlits leita aðstoðar lögreglu hafi hún rökstuddan grun um að framið hafi verið brot sem rannsaka þurfi frekar eða hún telji það nauðsynlegt til að framfylgja heimildum samkvæmt þessarar grein. Eins og fram hefur komið er ekki gert ráð fyrir að stofnunin hafi tilteknar valdbeitingarheimildir til að framfylgja ákvæðum um eftirlit, frekar en t.d. landverðir samkvæmt náttúruverndarlögum. Því er mikilvægt að þeir sem framkvæma slíkt eftirlit eigi gott samráð og samstarf við hlutaðeigandi lögregluembætti þannig að hægt sé að kalla til aðstoð hafi eftirlitsaðilar rökstuddan grun um að framið hafi verið brot sem rannsaka þurfi frekar eða ef þeir telja nauðsyn á því til að framfylgja þeim heimildum sem þeir hafa samkvæmt ákvæðinu.

Um 53. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að þeir sem brjóta gegn þeim ákvæðum sem þar eru talin upp skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Um er að ræða sama refsiramma og kveðið er á um í 1. mgr. 21. gr. gildandi laga. Sú breyting er þó lögð til að talin eru upp í 14 stafliðum þau brot laganna sem hægt er að refsa fyrir.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að refsing geti einnig falið í sér sviptingu veiðikorts, skotvopna- og veiðileyfis. Samkvæmt 21. gr. gildandi laga er gert ráð fyrir sviptingu veiðileyfis og skotvopnaleyfis. Rétt er talið að í ákvæðinu komi skýrlega fram að einnig sé hægt að svipta aðila veiðikorti.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að virða skuli það refsingu til þyngingar ef brot er stórfellt eða um ásetningsbrot er að ræða. Slíkt sé jafnframt heimilt að gera ef brot beinist að sjaldgæfum eða fágætum fugla- eða spendýrategundum, mikilvægum nytjategundum eins og æðarfugli eða svæðum sem njóta sérstakrar verndar eða friðunar.
    Í 4. mgr. er sérstaklega kveðið á um að hægt sé að refsa lögaðilum fyrir brot gegn 48. og 49. gr. varðandi sölu á veiðiafurðum og ákvæði um starfsemi hamskera. Starfsemi sem á sér stað samkvæmt báðum þessum greinum getur verið sinnt af lögaðilum en ekki einstaklingum. Mikilvægt að til staðar séu refsiheimildir sem nái einnig til þeirra við brot á þessum greinum.
    Í 5. mgr. er að finna sambærilegt ákvæði um tilraun til brota og hlutdeild í brotum og er að finna í 3. mgr. 21. gr. gildandi laga.
    Í 6. mgr. er að lokum að finna að mestu leyti efnislega sambærilegt ákvæði og nú er að finna í 4. mgr. 21. gr. gildandi laga. Þar er í fyrsta lagi mælt fyrir um að heimilt sé að gera upptækt til ríkissjóðs ólöglegt veiðifang ásamt eggjum eða eggjaskurn. Í greininni er einnig kveðið á um að heimilt sé að gera upptæka friðaða villta fugla og villt spendýr og afurðir þeirra sem skylt er að tilkynna um á grundvelli 4. mgr. 49. gr. en ekki hefur verið gert. Einnig er heimilt að gera upptæk skotvopn, veiðitæki og annan ólögmætan búnað sem notaður hefur verið við framkvæmd brots, veiðifang sem boðið er til sölu eða selt í bága við sölubann 48. gr., svo og hagnað af ólöglegri veiði og sölu framangreindra verðmæta. Með veiðitækjum og öðrum ólögmætum búnaði í skilningi greinarinnar er aðallega átt við veiðitæki og búnað sem ekki er heimilt að nota við veiðar, sbr. 2. mgr. 24. gr. Hér má í dæmaskyni nefna snörufleka, búnað til að lýsa upp skotmörk o.s.frv. Ákvæðið getur þó einnig átt við veiðitæki og búnað sem heimilt kann að vera að nota en hefur ekki verið notaður með lögmætum hætti, eins og t.d. háfur sem notaður er við lundaveiðar ef hlutaðeigandi veiðimaður hefur ekki heimild til að stunda slíkar hlunnindaveiðar með lögmætum hætti. Ekki er það upptöku til fyrirstöðu að annar sé eigandi veiðitækis eða annars sem upptaka er heimil á en sá sem reynst hefur sekur um brotið. Er það óbreytt frá 4. mgr. 21. gr. gildandi laga.


    Um 54. gr.
    

    Ákvæðið þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 55. gr.
    

    Í 1. tölul. er kveðið á um að gjald fyrir útgáfu veiðikorta fyrir hvert veiðiár skuli nema 6.900 kr. og rennur gjaldið í ríkissjóð. Gjald samkvæmt gildandi lögum er 3.500 kr. sbr. breytingu á gildandi lögum á árinu 2008 og hefur verið óbreytt síðan. Ljóst er að gjaldið hefur rýrnar umtalsvert á liðnum árum með hliðsjón af hækkun á verðlagi frá þeim tíma sem það var lögfest. Lagt er til að gjaldið verði hækkað í 6.900 kr. Sé núverandi gjald fært til verðlags miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar ætti það að nema u.þ.b. 5.550 kr. Að auki er lögð til hófleg hækkun umfram verðbreytingar vegna aukinna verkefna.
    Í 2.–6.tölul. er kveðið á um aðrar gjaldtökuheimildir vegna þjónustu sem Umhverfisstofnun er ætlað að veita. Flestar heimildirnar eru óbreyttar frá gildandi lögum og þarfnast ekki frekari skýringa.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að gjöld skv. 2.–5. tölul. skuli renna til Umhverfisstofnunar á grundvelli gjaldskrár sem ráðherra er heimilt að setja. Í greininni kemur fram að gjöldin skuli ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur almennum rökstuddum kostnaði við að veita umrædda þjónustu. Er það í samræmi við almenn sjónarmið um töku þjónustugjalda.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að gjald skv. 6. tölul. skuli innheimt af Umhverfisstofnun og taka mið af kostnaði við vöktun hreindýrastofnsins, eftirlit og stjórn hreindýraveiða auk arðgreiðslna til landeiganda á hreindýrasvæðum, sbr. 56. gr. Hér er annars vegar um að ræða þjónustugjald sem innheimt er á grundvelli almennra sjónarmiða um töku þjónustugjalda auk þess sem gjaldinu er ætlað að standa undir hefðbundnum arðgreiðslum til handa eigendum lands á hreindýrasvæðum vegna notkunar lands og ágangs á landi vegna veiðanna.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra ákvarði fjárveitingu til Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum til rannsókna, vöktunar, gerðar stjórnunar- og verndaráætlana fyrir veiðistofna, veiðieftirlits og stýringar á stofnum villtra fugla og villtra spendýra. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að ráðherra úthluti fé skv. 1. málslið að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar á grundvelli verklagsreglna sem hann setur um samráð stofnunarinnar við hagsmunaaðila. Í gildandi lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, var, allt þar til í maí 2018, kveðið á um í 3. mgr. 11. gr. að gjald fyrir útgáfu veiðikorta skyldi notað til rannsókna, vöktunar og stýringar á stofnum villtra dýra, auk þess að kosta útgáfu kortanna. Mælt var fyrir um að ráðherra úthlutaði fé til rannsókna af tekjum af sölu veiðikorta að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar. Hér var því um markaðan tekjustofn að ræða, þ.e. það sem innheimtist vegna sölu á veiðikortum skyldi renna til ákveðinna skilgreindra verkefna. Til að standa að frekari útfærslu á tillögum Umhverfisstofnunar um úthlutun fjármuna á grundvelli gjalda vegna sölu á veiðikortum var settur á laggirnar sérstakur Veiðikortasjóður hjá Umhverfisstofnun. Umsögn Umhverfisstofnunar um tillögur um ráðstöfun úr sjóðnum skyldi unnin í samráði við fimm manna ráðgjafanefnd sem ráðherra skipar til tveggja ára í senn. Ráðgjafanefndin hefur verið skipuð einum fulltrúa Bændasamtaka Íslands, einum fulltrúi Skotvís, einum fulltrúa frjálsra félagasamtaka á sviði náttúruverndar og tveimur fulltrúum sem Umhverfisstofnun tilnefnir, annar á sviði stofnvistfræða og hinn á sviði veiðistjórnunar.
    Í kjölfar setningar laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, var lögfest sú stefnumörkun ríkisins að leggja skyldi niður alla mörkun á tekjum ríkisins. Með lögum um breytingu á lagaákvæðum um markaðar tekjur, nr. 47/2018, var þágildandi ákvæði 11. gr. laga nr. 64/1994 breytt í samræmi við framangreinda stefnumörkun. Í lögunum fólst því afnám markaðra tekjustofna í gildandi lögum nr. 64/1994 auk fjöldamargra annarra sambærilegra ákvæða þeirra laga sem gerðu ráð fyrir mörkun og ráðstöfun tekjustofna. Þessi breyting hefur þó ekki valdið neinum meginbreytingum við framkvæmd laga nr. 64/1994 eða þeim framlögum sem ákvörðuð hafa verið til þeirra verkefna sem mörkunin tók til. Ástæða þess hefur falist í því að úthlutun fjár til þessara verkefna hefur án undantekninga verið ákvörðuð jafnhá og áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna sölu á veiðikortum. Breytingin með lögum nr. 47/2018 hefur heldur ekki haft áhrif á þá umgjörð sem þegar hafði verið ákveðin varðandi tillögur að úthlutun til verkefnanna og lýst er hér að framan, ásamt framangreindri ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila. Góð reynsla hefur verið af þessu fyrirkomulagi og er ekki gert ráð fyrir að sérstakar breytingar verði á því fyrirkomulagi með lögfestingu frumvarps þessa. Því er lagt til að lögfest verði að ráðherra setji sérstakar verklagsreglur um samráð Umhverfisstofnunar við hagsmunaaðila eins og hefur gilt til þessa.
    

Um 56. gr.
    

    Í 1. mgr. er kveðið á um skiptingu á arði af sölu veiðileyfa milli landeigenda. Ekki er um breytingar að ræða frá 4. mgr. 14. gr. gildandi laga.
    Í 2.–3. mgr. er kveðið á um tilkynningar landeigenda til Umhverfisstofnunar um hvort hann heimili veiðar á landi sínu og ákvarðanir um að einungis sé heimilt að úthluta arði til þeirra sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu allt veiðitímabilið. Ákvæðið er óbreytt frá 15. mgr. 14. gr. gildandi laga og þarfnast því ekki frekari skýringar.
    

Um 57. gr.
    

    Í 1. og 2. mgr. mgr. er að finna gildistökuákvæði og ákvæði um brottfall gildandi laga sem ekki þarfnast frekari skýringa.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að reglugerðir og aðrar stjórnvaldsákvarðanir sem settar voru með stoð í gildandi lögum og voru í gildi verði frumvarp þetta að lögum haldi gildi sínu þar til nýjar reglur hafa verið settar, enda brjóti þær ekki í bága við lögin.
    

Um ákvæði til bráðabirgða I–III.

    Í ákvæði til bráðabirgða I er mælt fyrir um að þar til skorið hefur verið endanlega úr mörkum eignarlands og þjóðlenda á öllum svæðum landsins, samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998, eru þeim sem tilgreindir eru í 1. mgr. 22. mgr. heimilar veiðar í almenningum og á afréttum utan landareigna lögbýla, eins og verið hefur enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki frekari skýringa.
    Ákvæði til bráðabirgða II er mælt fyrir um að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu innan tveggja ára frá gildistöku laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, hafa lokið gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir þær tegundir eða stofna sem hingað til hafa sætt tiltekinni nýtingu eða veiðum eða eru líklegar til að valda tjóni. Stjórnunar- og verndaráætlanir eru undirstaða flestra ákvarðana sem taka þarf. Af þessum sökum er mikilvægt að umræddar stofnanir hraði eins og unnt er gerð þessara áætlana og forgangsraði gerð þeirra þannig að vinnan hefjist við gerð áætlana fyrir þá stofna eða tegundir sem sætt hafa nytjaveiðum hér á landi eða eru líklegar til að valda tjóni.
    Ákvæði til bráðabirgða III er tengt ákvæði til bráðabirgða II. Í ákvæðinu er kveðið á um að ráðherra sé heimilt, þar til umræddar stjórnunar- og verndaráætlanir liggja fyrir, að aflétta friðun og heimila nytjaveiðar, eggjatöku og veiðar til varnar tjóni á tegundum eða stofnum villtra fugla og villtra spendýra og sem mælt er fyrir um í V. kafla að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Um afléttingu friðunar vegna hreindýraveiða fer skv. X. kafla. Ákveðin tenging er að þessu leyti við 3. mgr. 57. gr. sem mælir fyrir um að reglugerðir og stjórnvaldsákvarðanir sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 64/1994 haldi gildi sínu þar til nýjar reglur hafa verið settar enda brjóti þær ekki í bága við lögin. Bráðabirgðaákvæðið veitir ráðherra rétt til að heimila alla hefðbundnar nytjar á stofnum og tegundum villtra fugla og villtra spendýra eins og verið hefur þar til hin nýju stjórntæki liggja fyrir auk þess að heimila veiðar sem nauðsynlegar eru taldar til að varna tjóni.