Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 468  —  376. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (úthlutun tollkvóta).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



1. gr.

    Í stað númeranna 0602.9091, 0602.9093, 0603.1100, 0603.1400 og 0603.1909 í 2. málsl. 1. mgr. 65. gr. laganna kemur: 0602.9081–9083, 0602.9088, 0602.9093, 0603.1100, 0603.1400, 0603.1906–1908, 0603.1911–1917 og 0603.1999.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 7.–9. málsl. 3. mgr. 65. gr. skal verð tollkvóta frá og með gildistöku laganna til 1. febrúar 2022 ráðast af fjárhæð tilboða hverju sinni. Kvótanum verður því fyrst úthlutað til hæstbjóðanda, svo til þess er næsthæst bauð og þannig koll af kolli uns tiltækum kvóta hefur verið úthlutað. Það fyrirkomulag sem kveðið er á um í 7., 8. og 9. málsl. 3. mgr. 65. gr. mun þannig næst koma til framkvæmda eftir 1. febrúar árið 2022.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með því er eldra útboðsfyrirkomulag tollkvóta endurvakið tímabundið í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem ríkja nú á markaði vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Meginmarkmið frumvarpsins er að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins á innlenda framleiðslu landbúnaðarafurða. Þá er lögð til breyting á númerum í 1. mgr. 65. gr. búvörulaga, nr. 99/1993, þar sem númerin hafa verið uppfærð í tollskránni.
    Með lagabreytingu sem tók gildi þann 1. janúar 2020 var svokölluðu jafnvægisútboði komið á vegna úthlutunar tollkvóta. Framangreint fyrirkomulag útboðs var lagt til með hliðsjón af tillögum starfshóps um endurskoðun á regluverki um úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara. Í starfshópnum áttu sæti, auk ráðuneytisins, fulltrúar Neytendasamtakanna, Bændasamtaka Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Meginefni þeirra breytinga var að draga úr kostnaði þeirra sem fengju úthlutað tollkvóta, og stuðla þar með að auknum ábata neytenda, í ljósi nýrra samninga milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) um viðskipti með landbúnaðarvörur sem voru undirritaðir 17. september 2015 og tóku gildi 1. maí 2018. Með samningunum voru tollkvótar fyrir landbúnaðarvörur auknir til muna. Lagabreytingin var þannig lögð fram í ljósi þeirra aðstæðna sem þá ríktu. Meðal annars var horft til þess að hér á landi yrðu um tvær milljónir ferðamanna á ári hverju. Nú er hins vegar staðan talsvert breytt vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Áhrifanna gætir víða en samkvæmt upplýsingum á vef Ferðamálastofu hefur erlendum gestum t.d. fækkað gríðarlega milli ára. Í samanburði við árið 2019 var fækkun erlendra gesta um 53% í mars, um 99% í apríl og maí, 97% í júní, 80% í júlí, 75% í ágúst og 95% í september. Í ljósi framangreinds er ljóst að eftirspurn eftir matvælum hefur dregist talsvert saman en innflutningur samkvæmt tollkvótum hefur á sama tíma haldist óbreyttur. Það er innlend matvælaframleiðsla sem tekur það högg og við því þarf að bregðast.
    Með frumvarpinu er því lagt til að eldra fyrirkomulag útboðs tollkvóta verði tekið upp að nýju þar til 1. febrúar 2022. Ef kemur til þess að tollkvóti verði boðinn út allt fram til 1. febrúar 2022 verði það samkvæmt áður gildandi útboðsfyrirkomulagin þar sem tilboðsgjafar greiða þá fjárhæð sem tilboð þeirra hljóðar upp á en ekki lægsta samþykkta verð líkt og jafnvægisútboðið gerir ráð fyrir.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með hliðsjón af þeirri erfiðu stöðu sem ríkir á markaði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þykir nauðsynlegt að styrkja stoðir innlendrar matvælaframleiðslu með því að taka upp eldra fyrirkomulag á útboði tollkvóta. Í ljósi núverandi stöðu hefur eftirspurn eftir matvælum dregist talsvert saman en innflutningur haldist nær óbreyttur. Því er afar líklegt að samdráttur í eftirspurn landbúnaðarafurða vegna fækkunar erlendra gesta lendi á miklu leyti á innlendri framleiðslu með tilheyrandi samdrætti í afurðatekjum. Nauðsynlegt þykir að takmarka áhrif kórónuveirufaraldursins og draga úr því tjóni sem innlendir framleiðendur hafa nú þegar orðið fyrir. Undanfarið hefur ráðuneytið unnið að umfangsmikilli aðgerðaáætlun sem miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu og þykir þessi breyting styðja við þau markmið.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að upptalning á númerum í 1. mgr. 65. gr. breytist. Tollskráin tók breytingum í byrjun ársins 2020 og því þarf að uppfæra greinina samhliða því. Þá er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að eldra fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta taki gildi að nýju og gildi út árið 2021. Hið nýja fyrirkomulag við úthlutun mun því næst koma til framkvæmda eftir 1. febrúar árið 2022.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Það fyrirkomulag sem kveðið er á um að komi aftur til framkvæmda hefur tíðkast um árabil og hefur talist samræmast stjórnarskrá og rúmast innan alþjóðlegra skuldbindinga Íslands.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst starfsumhverfi innflytjenda matvæla, Tollstjóraembættið, innlenda búvöruframleiðendur, dagvöruverslanir og neytendur. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir vegna kórónuveirufaraldursins og þeirra áhrifa sem þegar er farið að gæta hefur ekki gefist svigrúm til hefðbundins samráðs fyrir framlagningu þess á Alþingi.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði tímabundnar breytingar á lagaumhverfi við úthlutun samningsbundinna tollkvóta og er ætlunin að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins á innlenda framleiðslu landbúnaðarafurða. Frumvarpið getur haft áhrif á innflytjendur matvæla, Tollstjóraembættið, innlenda framleiðendur, dagvöruverslanir og neytendur en markmið þess er að takmarka áhrif kórónuveirufaraldursins og draga úr því tjóni sem innlendir framleiðendur hafa nú þegar orðið fyrir.
    Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins muni hafa í för með sér áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Áætlað er að frumvarpið geti haft í för með sér tímabundin áhrif á tekjur ríkissjóðs til hækkunar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagðar eru til breytingar á upptalningu númera sem úthlutun tollkvóta nær til úr viðauka IIIB. Ekki er um efnislegar breytingar að ræða heldur einungis breytingar til samræmis við breytta tollskrá. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 2. gr.

    Með hliðsjón af áhrifum kórónuveirufaraldursins er þessari breytingu ætlað að lágmarka það tjón sem innlendir framleiðendur landbúnaðarvara hafa nú þegar orðið fyrir. Innflutningur á landbúnaðarvörum hefur haldist nær óbreyttur á meðan dregið hefur verulega úr eftirspurn. Því er lagt til að eldra fyrirkomulagi á útboði tollkvóta verði komið á að nýju, tímabundið, eða til 1. janúar 2022. Við útboð á tollkvóta verður honum því fyrst úthlutað til hæstbjóðanda, svo til þess er næsthæst bauð og þannig koll af kolli uns tiltækum kvóta hefur verið úthlutað að fullu og greiða bjóðendur tilboðsfjárhæðina að fullu. Það fyrirkomulag sem kveðið er á um í 7., 8. og 9. málsl. 3. mgr. 65. gr. (jafnvægisútboð) mun þannig næst koma til framkvæmdar árið 2022.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.