Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 477  —  262. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um viðbrögð og varnir gegn riðuveiki í sauðfé.


     1.      Úr hvaða sjóði renna bætur til bænda vegna riðuveiki? Hyggst ríkisstjórnin bæta í þann sjóð vegna nýuppkomins smits í Skagafirði?
    Í fjárlögum fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir að bætur til bænda vegna viðbragða við riðuveiki séu greiddar af fjárlagalið 04-851, Greiðslur vegna varna gegn dýrasjúkdómum.
    Frummat hefur farið fram á áætluðum kostnaði vegna bóta vegna riðuveiki í Skagafirði. Er áætlað að heildarbætur muni nema um 200 millj. kr. sem fyrirhugað er að verði mætt með sérstöku viðbótarframlagi úr ríkissjóði. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir 123,3 millj. kr. fjárveitingu til málaflokksins, eða um það bil 50 millj. kr. hækkun frá fjárlögum 2020. Miðað við framangreint kann þó að verða nauðsynlegt að endurskoða þá fjárhæð þegar fyrir liggur hvernig bótagreiðslur munu skiptast milli ára.
    Bætur vegna riðuveiki í Skagafirði hafa ekki enn verið greiddar, en nú stendur yfir vinna við að reikna þær út. Frummat hefur farið fram á áætluðum kostnaði vegna bóta vegna riðuveiki, sem þegar hefur verið nefnt.

     2.      Hefur ráðherra mótað stefnu varðandi rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum vegna riðuveiki í sauðfé hér á landi? Ef svo er, hver er sú stefna?
    Vinna er hafin í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við Matvælastofnun við að meta og endurskoða reglur og stjórnsýslu hvað varðar málefni riðuveiki, varnarlínu búfjár, bótafyrirkomulags vegna búfjársjúkdóma og niðurskurðar auk endurskoðunar á regluverki dýraheilbrigðis. Rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum gegn riðuveiki er hluti af þeim þáttum sem eru til skoðunar. Í vinnunni verður sérstaklega tekið til skoðunar hvort til staðar séu aðrar aðgerðir sem fela í sér minna inngrip, röskun og kostnað en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarna áratugi ef riðuveiki greinist í fé.

     3.      Hefur verið gerð áætlun um mögulega urðunarstaði vegna urðunar á fé sem skorið er vegna bráðsmitandi búfjársjúkdóma?
    Ákvæði reglugerðar nr. 674/2017, um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis, gilda um förgun á úrgangi fjár sem skorið er niður vegna riðuveiki. Með reglugerðinni eru innleiddar viðkomandi gerðir ESB. Í reglugerðinni er kveðið á um að riðusmituðum úrgangi skuli fargað með brennslu. Förgun úrgangs er á verksviði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Umhverfisstofnunar.
    Riðusmit sem greindist í Skagafirði í haust var gríðarlega umfangsmikið og magn úrgangs sem til féll við niðurskurð var meira en tiltækur brennsluofn réð við. Vegna þessara sérstöku aðstæðna var í samráði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar tekin ákvörðun um að urða það magn sem ekki var unnt að brenna. Úrgangur var urðaður á aflögðum urðunarstað í nágrenni við þau sauðfjárbú þar sem framkvæma þurfti niðurskurð vegna riðuveiki.
    Sú staða sem skapaðist vegna riðuveiki í Skagafirði kallar á skoðun á því hvort nauðsynlegt sé að tryggja að fyrir hendi séu innviðir sem gera þar til bærum yfirvöldum kleift að fara að reglum við eyðingu á úrgangi sem þessum. Þyrfti í því skyni að kanna hvort auka þyrfti afkastagetu þeirra staða þar sem úrgangi er brennt með fullnægjandi hætti. Er það hluti þeirrar vinnu sem hafin er í ráðuneytinu og vísað er til í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Eru til viðbragðsáætlanir vegna alvarlegustu búfjársjúkdómanna, þ.m.t. riðu?
    Matvælastofnun heldur utan um viðbragðsáætlun við helstu dýrasjúkdómum, þ.m.t. riðu, í gæðahandbók sinni. Í áætluninni er að finna það ferli sem unnið er eftir við uppkomu þeirra sjúkdóma sem áætlunin tekur til. Ákvarðanir um aðgerðir byggjast á fjölmörgum þáttum sem geta verið ólíkir í hverju tilfelli. Í stuðningsskjölum sem vísað er til í viðaukum er að finna ýmsar leiðbeiningar sem nýtast við ákvarðanatöku um viðbrögð. Þessi skjöl eru í stöðugri endurskoðun og miðað er við að þeim fjölgi jafnt og þétt. Í lið 08.07 í gæðahandbókinni er sérstaklega fjallað um riðuveiki. Ráðuneytinu er kunnugt um að Matvælastofnun heldur reglulega viðbragðsæfingar til að kanna og aðlaga þessar viðbragðsáætlanir. Hér má finna slóð á viðbragðsáætlunina: umsokn.mast.is/onequalityweb/Displaydocument.aspx? itemid=226372843146750513501.