Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 509  —  21. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 (breytt kynskráning).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Rán Ingvarsdóttur og Aagot Óskarsdóttur frá forsætisráðuneyti, Daníel E. Arnarsson frá Samtökunum '78 og Sigríði Ólöfu Guðmundsdóttur frá Mosfellsbæ.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mosfellsbæ og Samtökunum '78.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna samþykktar laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, annars vegar breytingar sem til koma vegna þess að lög um kynrænt sjálfræði heimila einstaklingum að hafa hlutlausa kynskráningu og hins vegar breytingar sem tryggja foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Samhliða frumvarpi þessu var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (kynrænt sjálfræði), sbr. 204. mál.
    Samhljómur var á meðal gesta um að frumvarpið feli í sér mikilvæga réttarbót fyrir hinsegin samfélagið. Meiri hlutinn bendir á að um sé að ræða nauðsynlegar breytingar í kjölfar samþykktar laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.
    Meiri hlutinn leggur til fáeinar orðalagsbreytingar til leiðréttingar og skýringar en þeim er ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 3. gr.
                  a.      Í stað orðanna „manneskja í hjúskap“ í a-lið komi: einstaklingur í hjúskap.
                  b.      Í stað orðanna „eiga manneskju“ í b-lið komi: eiga einstakling.
     2.      Við 4. gr.
                  a.      Orðið „manneskju“ í a-lið fellur brott.
                  b.      Efnismálsliður b-liðar orðist svo: Hið sama á við ef gift manneskja sem breytt hefur skráningu kyns hefur alið barn sem getið er utan hjónabands og tilkynnt það sem hjónabandsbarn með samþykki maka.
     3.      Við b-lið 6. gr. bætist: manneskju.
     4.      Efnismálsliður 7. gr. orðist svo: Hið sama á við ef brotaþoli er manneskja með kvenkyns kynfæri og hefur breytt skráningu kyns.
     5.      Í stað orðanna „hitt hjóna“ í 12. gr. komi: maki þess.
     6.      Í stað orðanna „kynjum og starfsheiti“ í 24. gr. komi: kyni og starfsheiti.
     7.      Við 25. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðsins „sambúðaraðili“ í 3. málsl. kemur: sambúðarmaki.

    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 4. desember 2020.

Páll Magnússon,
form.
Steinunn Þóra Árnadóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Þórunn Egilsdóttir.