Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 801  —  256. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um vistun fanga á Akureyri.


     1.      Hversu margir eftirtalinna voru vistaðir í fangelsinu á Akureyri á árunum 2015–2019 og það sem af er árs 2020 og í hversu marga sólarhringa ár hvert:
                  a.      gæsluvarðhaldsfangar,
                  b.      afplánunarfangar,
                  c.      fagnar sem sátu af sér vararefsingu,
                  d.      einstaklingar sem voru handteknir af lögreglu?

    Frá árinu 2015 og allt þar til fangelsinu á Akureyri var lokað á árinu 2020 voru 54 gæsluvarðhaldsfangar vistaðir þar í samtals 2171 sólarhring samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun. Á sama tímabili voru vistaðir 114 afplánunarfangar í fangelsinu í samtals 13.297 sólarhringa og 17 fangar voru vistaðir vegna afplánunar vararefsingar í samtals 392 sólarhringa. Handteknir einstaklingar voru ekki vistaðir í fangelsinu á Akureyri heldur í skammtímavistun á lögreglustöð.

     2.      Hversu margir gæsluvarðhaldsfangar, afplánunarfangar og aðrir fangar, auk annarra handtekinna einstaklinga, voru á tímabilinu fluttir frá Akureyri til vistunar í öðrum fangelsum landsins og í hvaða fangelsi voru þeir fluttir?
    Frá árinu 2015 til 15. maí 2020 voru 16 gæsluvarðhaldsfangar sem vistaðir voru í fangelsinu á Akureyri fluttir í annað fangelsi, þrír á Sogn, fjórir á Hólmsheiði og sex á Litla-Hraun. 54 afplánunarfangar voru fluttir úr fangelsinu á Akureyri í annað fangelsi, þrír á Sogn, 14 á Hólmsheiði, níu í Hegningarhúsið, 19 á Kvíabryggju og níu á Litla-Hraun. Enginn þeirra fanga sem afplánuðu vararefsingu var fluttur í annað fangelsi.