Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 845  —  329. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997 (opinberar sóttvarnaráðstafanir o.fl.).

Frá velferðarnefnd.


    Málinu var vísað til nefndarinnar eftir 2. umræðu.
    Við umfjöllun nefndarinnar og í umræðum í þingsal komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að horfa til norrænnar löggjafar við endurskoðun sóttvarnalaga. Íslensk löggjöf væri gjarnan í takt við þá löggjöf af sögulegum og menningarlegum ástæðum. Við endurskoðun jafnviðamikillar löggjafar og sóttvarnalaga væri mikilvægt að horfa til Norðurlandanna, sérstaklega hvað varðar heimildir til íþyngjandi takmarkana, svo sem útgöngubanns, bólusetningar og lokunar á atvinnustarfsemi.
    Nefndinni bárust samantektir frá rannsóknaþjónustu Alþingis, þar sem annars vegar er fjallað um ónæmisaðgerðir á Norðurlöndum og hins vegar breytingar á sóttvarnalögum á Norðurlöndum. Þar kemur fram að öll Norðurlöndin hafi gert breytingar á sóttvarnalögum til að bregðast við yfirstandandi heimsfaraldri og að ekkert þeirra hafi gengið svo langt að skylda borgara sína til að undirgangast ónæmisaðgerðir vegna COVID-19-sjúkdómsins. Þá bendir nefndin á að þær breytingar sem gerðar hafa verið á löggjöf á Norðurlöndum hafa í einhverjum tilvikum verið færðar til baka í fyrra horf, enda ætlaðar til þess að bregðast við bráðum vanda og aðstæðum sem ekki var hægt að sjá fyrir. Við mat á þörf lagasetningar verði einnig horft til þeirra þátta.
    Líkt og fjallað er um í áliti nefndarinnar við 2. umræðu þá er fyrirhuguð heildarendurskoðun á sóttvarnalögum. Þar er jafnframt fjallað um mikilvægi þess að þær breytingar sem gerðar eru nú verði ekki til þess að breyta eða torvelda stjórnsýslu sóttvarna á meðan heimsfaraldur kórónuveiru geisar. Slíkum breytingum væri betri staður fundinn í heildarendurskoðun laganna. Var það mat nefndarinnar að ráðast eingöngu í þær breytingar sem taldar voru nauðsynlegar til að unnt væri að bregðast hratt og rétt við yfirstandandi heimsfaraldri, en að aðrar breytingar skyldu bíða.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að við heildarendurskoðun laganna verði m.a. horft til þróunar löggjafar annars staðar á Norðurlöndum. Menningarleg tengsl við grannþjóðir okkar eru sterk og mikilvægt er að líta til reynslu og þekkingar þeirra á sviði mannréttinda, lækninga og vísinda, enda eru Norðurlöndin þar í fremstu röð á heimsvísu auk þess sem stjórnskipan ríkjanna er um margt sambærileg. Sérstaklega verði horft til heimilda til aðgerða á landamærum og heimilda til takmarkana á frelsi, svo sem hvað útgöngubann og lokun atvinnustarfsemi varðar. Þá hvetur nefndin til þess að Alþingi verði upplýst reglulega um framgang heildarendurskoðunar laganna.
    Við heildarendurskoðun sóttvarnalaga verði einnig horft til skuldbindinga Íslands á grundvelli EES-samningsins og Schengen-samstarfsins.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Helga Vala Helgadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Sara Elísa Þórðardóttir og Sigríður Á. Andersen skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þau hyggjast gera grein fyrir í ræðu.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 2. febrúar 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form., með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson, frsm. Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara.
Guðmundur Ingi Kristinsson, með fyrirvara. Halla Signý Kristjánsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Sara Elísa Þórðardóttir, með fyrirvara. Sigríður Á. Andersen, með fyrirvara. Vilhjálmur Árnason.