Ferill 508. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 854  —  508. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um brottfall ýmissa laga (úrelt lög).

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



1. gr.

    Eftirtalin lög eru felld úr gildi:
     1.      Lög um bæjarstjórn Ísafjarðar, nr. 67/1917.
     2.      Lög um bæjarstjórn Vestmannaeyja, nr. 26/1918.
     3.      Lög um bæjarstjórn á Siglufirði, nr. 30/1918.
     4.      Lög um bæjarstjórn á Seyðisfirði, nr. 61/1919.
     5.      Lög um bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði, nr. 48/1928.
     6.      Lög um bæjarstjórn á Akranesi, nr. 45/1941.
     7.      Lög um bæjarstjórn í Ólafsfirði, nr. 60/1944.
     8.      Lög um bæjarstjórn á Sauðárkróki, nr. 57/1947.
     9.      Lög um bæjarstjórn í Keflavík, nr. 17/1949.
     10.      Lög um bæjarstjórn í Húsavík, nr. 109/1949.
     11.      Lög um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað, nr. 30/1955.
     12.      Lög um tekjur sveitarfélaga, samkvæmt gjaldskrám og reglugerðum, nr. 83/1971.
     13.      Lög um kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi, nr. 16/1974.
     14.      Lög um kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni, nr. 17/1974.
     15.      Lög um kaupstaðarréttindi til handa Grindavíkurhreppi, nr. 18/1974.
     16.      Lög um kaupstaðarréttindi til handa Eskifjarðarhreppi, nr. 19/1974.
     17.      Lög um kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni, nr. 20/1974.
     18.      Lög um kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi, nr. 83/1975.
     19.      Lög um kaupstaðarréttindi til handa Njarðvíkurhreppi, nr. 86/1975.
     20.      Lög um kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni, nr. 8/1978.
     21.      Lög um lagningu sjálfvirks síma, nr. 32/1981.
     22.      Lög um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi, nr. 34/1983.
     23.      Lög um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2000, nr. 72/2000.
     24.      Lög um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2001, nr. 160/2000.
     25.      Lög um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., nr. 75/2001.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Með því er lagt til að felldir verði úr gildi ýmsir lagabálkar sem ekki eiga lengur við sökum breyttra aðstæðna, breytts lagaumhverfis eða sökum þess að ráðstafanir þær sem kveðið er á um eiga ekki lengur við.
    Framsetning frumvarpsins miðar við aldursröð laga sem lagt er til að fella brott og skiptast þau niður á tímabil sem hér segir:
     1.      Lög frá 1900–1949     10
     2.      Lög frá 1950–1999     12
     3.      Lög frá 2000 og yngri lög      3

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að ýmis lög á málefnasviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem hafa lokið hlutverki sínu en eru að formi til enn í gildi, verði felld brott. Æskilegt er að úrelt lög, eða lög sem lokið hafa hlutverki sínu, séu felld brott úr lagasafni og skapi þar af leiðandi ekki rugling á gildandi rétti og óvissu í lagaframkvæmd.
    Lagabálkar þeir sem heyra undir ráðuneytið samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands komu til skoðunar. Lagt var mat á hvort löggjöf væri orðin úreld vegna gildistöku nýrri laga eða að sú ráðstöfun sem kveðið væri á um hefði þegar átt sér stað.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að felldir verði úr gildi lagabálkar sem varða málefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og ekki hafa þýðingu lengur. Það felur því ekki í sér efnisbreytingu á gildandi rétti.
    Um er að ræða lagabálka sem fjalla um stjórn, viðfangsefni og tekjustofna sveitarfélaga og póst, síma og fjarskipti. Skiptast þeir niður sem hér segir:

Stjórn sveitarfélaga:
          Lög um bæjarstjórn Ísafjarðar, nr. 67/1917.
          Lög um bæjarstjórn Vestmannaeyja, nr. 26/1918.
          Lög um bæjarstjórn á Siglufirði, nr. 30/1918.
          Lög um bæjarstjórn á Seyðisfirði, nr. 61/1919.
          Lög um bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði, nr. 48/1928.
          Lög um bæjarstjórn á Akranesi, nr. 45/1941.
          Lög um bæjarstjórn í Ólafsfirði, nr. 60/1944.
          Lög um bæjarstjórn á Sauðárkróki, nr. 57/1947.
          Lög um bæjarstjórn í Keflavík, nr. 17/1949.
          Lög um bæjarstjórn í Húsavík, nr. 109/1949.
          Lög um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað, nr. 30/1955.
          Lög um kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi, nr. 16/1974.
          Lög um kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni, nr. 17/1974.
          Lög um kaupstaðarréttindi til handa Grindavíkurhreppi, nr. 18/1974.
          Lög um kaupstaðarréttindi til handa Eskifjarðarhreppi, nr. 19/1974.
          Lög um kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni, nr. 20/1974.
          Lög um kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi, nr. 83/1975.
          Lög um kaupstaðarréttindi til handa Njarðvíkurhreppi, nr. 86/1975.
          Lög um kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni, nr. 8/1978.
          Lög um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi, nr. 34/1983.

Tekjustofnar og fjármál sveitarfélaga:
          Lög um tekjur sveitarfélaga, samkvæmt gjaldskrám og reglugerðum, nr. 83/1971.

Póstur, sími og fjarskipti:
          Lög um lagningu sjálfvirks síma, nr. 32/1981.
          Lög um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2000, nr. 72/2000.
          Lög um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2001, nr. 160/2000.
          Lög um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., nr. 75/2001.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér lagahreinsun og kallar ekki á skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Efni frumvarpsins tengist ekki alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

5. Samráð.
    Áform um lagasetningu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is á tímabilinu 3. til 17. september 2020, sbr. mál nr. 156/2020, þar sem almenningi gafst kostur á að veita umsögn. Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgáttinni á tímabilinu 17. desember 2020 til 6. janúar 2021, sbr. mál nr. 272/2020. Tvær umsagnir bárust, annars vegar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hins vegar frá Viðskiptaráði Íslands. Báðir umsagnaraðilar fögnuðu fram komnu frumvarpi og mæltust til þess að það yrði að lögum ásamt því að hvetja stjórnvöld til áframhaldandi vinnu við einföldun regluverks og heildstæðari lagahreinsun.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum mun það auka skýrleika lagasafnsins að því er varðar lög á málefnasviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

1.–11. tölul. (um bæjarstjórnir).
    Lögin fjölluðu um bæjarstjórnir í tilteknum bæjarfélögum. Sérstök löggjöf gilti um hverja bæjarstjórn fyrir sig. Sú breyting hefur orðið að kveðið er almennt á um stjórnskipan og stjórnarhætti sveitarstjórna í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Þar er nánar kveðið á um þann lagaramma sem við á um sveitarstjórnir, hlutverk þeirra og stjórnun.
12. tölul. (um tekjur sveitarfélaga, samkvæmt gjaldskrám og reglugerðum).
    Lögin gerðu ráð fyrir óbreyttri krónutölu á ákveðnum tekjum sveitarfélaga sem tóku mið af fasteignaskatti. Í frumvarpi til laganna kom fram að tilgangur löggjafar væri að koma í veg fyrir mikla hækkun á gjöldum sem byggðu á tengingu við fasteignamat í ljósi þess að fasteignamat sem tók gildi 1. janúar 1972 var töluvert hærra en árið á undan. Áttu því tekjur sveitarfélaga, sem miðuðu við fasteignamat, að vera óbreyttar að krónutölu uns staðfestar hefðu verið nýjar gjaldskrár. Þá var greint frá því í athugasemdum með frumvarpinu að sett yrðu lög um fasteignaskatt til sveitarfélaga sem taka myndu gildi 1972. Var hér um tímabundna ráðstöfun að ræða sem hefur ekki þýðingu lengur. Lagaumhverfi hefur breyst frá þessum tíma og er kveðið á um tekjur og tekjustofna sveitarfélaga í ýmsum lögum, svo sem lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um skráningu og mat fasteigna.
13.–20. tölul. (um kaupstaðarréttindi).
    Kaupstaðarréttindi voru veitt áður með sérlögum frá Alþingi og nutu kaupstaðir þess að vera sérstakt lögsagnardæmi. Með sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi 1986 gátu bæir orðið kaupstaðir að uppfylltum vissum skilyrðum svo ekki þurfti lengur sérlög til. Hefur þessi framkvæmd því ekki tíðkast í seinni tíð þar sem annað lagaumhverfi gildir um sveitarfélög, skyldur þeirra og réttindi.
21. tölul. (lagning sjálfvirks síma).
    Lögin fjölluðu um sérstaka fimm ára áætlun um lagningu sjálfvirks símakerfis til sem flestra símnotenda. Lögunum var ætlað að halda gildi sínu þar til framkvæmdum væri lokið. Ljóst er að lögin hafa lokið hlutverki sínu.
22. tölul. (um kaupstaðarréttindi).
    Sjá umfjöllun um töluliði 13–20 hér að framan.
23. og 24. tölul. (jöfnunargjald).
    Lögin kváðu á um innheimtu jöfnunargjalds vegna alþjónustu fyrir árin 2000 og 2001 og hafa því lokið hlutverki sínu.
25. tölul. (heimild til að selja hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf.).
    Þær ráðstafanir sem lögin gerðu ráð fyrir eru um garð gengnar og er því óþarfi að viðhalda heimildum í lagasafninu.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.