Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 964  —  417. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um dóma Landsréttar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er fjöldi dóma Landsréttar í sakamálum árin 2018–2020, flokkað eftir því hvort:
     a.      fyrri dómur var staðfestur,
     b.      fyrri dómi var breytt, og þá hvort það var til þyngri eða vægari refsingar,
     c.      fyrri dóm var snúið, og þá hvort sakfellingu var snúið í sýknu eða sýknu snúið í sakfellingu,
     d.      um ómerkingu, frávísun eða niðurfellingu var að ræða?
    Svar óskast einnig sundurliðað eftir árum og eftir þeim brotaflokkum sem eru tilefni dómanna.


    Vegna fyrirspurnarinnar leitaði ráðuneytið til Landsréttar um svör. Samantekt Landsréttar byggist á úrvinnslu upplýsinga úr málaskrá Landsréttar. Ekki reyndist unnt að taka saman svör eftir brotaflokkum. Þá ber að hafa í huga að einungis er um tölfræðiupplýsingar að ræða sem taka ber með þeim fyrirvara að nauðsynlegt er að rýna slíka tölfræði með hliðsjón af forsendum þeirra dóma sem til grundvallar liggja.
    Á árunum 2018 til og með 2020 var 289 sakamálum lokið fyrir Landsrétti þar sem dómi héraðsdóms var áfrýjað. Að auki gengu tveir dómar í sakamálum í Landsrétti á árinu 2020 sem síðar voru ómerktir með dómum Hæstaréttar í málunum nr. 15/2020 og 16/2020. Meðferð þeirra mála var ekki lokið að nýju fyrir Landsrétti í árslok 2020 og eru þeir dómar því ekki með í þessari samantekt.
    Þess er að geta að 76 sakamálum var upphaflega áfrýjað til Hæstaréttar á árinu 2017 en þau mál fengu meðferð fyrir Landsrétti frá 2. janúar 2018 á grundvelli 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016 og 4. gr. laga nr. 53/2017.
     a.      Af framangreindum 289 málum var dómur héraðsdóms að öllu leyti staðfestur um mat á sekt/sýknu og refsingu í 116 dómum Landsréttar.
                  1.      Á árinu 2018 var það gert í 35 tilvikum.
                  2.      Á árinu 2019 voru þau skipti 39 talsins en þar af var í tveimur dómum réttarins ekki mælt fyrir um refsingu dómfelldu þar sem þeir létu lífið eftir að héraðsdómar gengu.
                  3.      Á árinu 2020 var það gert í 42 tilvikum en í einu þeirra mála staðfesti Landsréttur sakfellingu héraðsdóms, en breytti refsingu án þess að efni þyki til þess að flokka þá breytingu eftir mildun eða þyngingu refsingar.
     b.      Af framangreindum 289 málum var dómi héraðsdóms breytt um mat á refsingu dómfellda/dómfelldu í 93 dómum.
                  1.      Á árinu 2018 þyngdi Landsréttur refsingu í 13 tilvikum en mildaði refsingu í 18 tilvikum. Sama ár gengu auk þess tveir dómar þar sem refsing annars dómfellda var milduð en refsing hins dómfellda í málunum var þyngd.
                  2.      Á árinu 2019 þyngdi Landsréttur refsingu í 10 tilvikum en mildaði refsingu í 14 tilvikum. Sama ár gengu auk þess tveir dómar þar sem refsing annars dómfellda var milduð en refsing hins dómfellda í málunum var þyngd.
                  3.      Á árinu 2020 þyngdi Landsréttur refsingu í 11 tilvikum en mildaði refsingu í 23 tilvikum.
     c.      Af framangreindum 289 málum var dómi snúið við í 31 tilviki, þar af sneri Landsréttur sakfellingu héraðsdóms í sýknu í 21 tilviki en sneri sýknu héraðsdóms í sakfellingu í 10 tilvikum.
                  1.      Á árinu 2018 sneri Landsréttur dómi héraðsdóms við í fimm málum, þar af sneri rétturinn sakfellingu í sýknu í þremur tilvikum en sýknu í sakfellingu í tvö skipti.
                  2.      Á árinu 2019 sneri Landsréttur dómi héraðsdóms við í tíu málum, þar af sneri rétturinn sakfellingu í sýknu í fimm tilvikum en sýknu í sakfellingu í fimm skipti.
                  3.      Á árinu 2020 sneri Landsréttur dómi héraðsdóms við í 16 málum, þar af sneri rétturinn sakfellingu í sýknu í 13 tilvikum en sýknu í sakfellingu í þremur tilvikum.
     d.      Af framangreindum 289 málum var dómur héraðsdóms ómerktur í sjö tilvikum.
                  1.      Á árinu 2018 var það gert í tveimur tilvikum.
                  2.      Á árinu 2019 var það gert í tveimur tilvikum.
                  3.      Á árinu 2020 var það gert í þremur tilvikum.
    Af framangreindum 289 málum var dómi héraðsdóms vísað frá í fimm tilvikum.
               1.      Á árinu 2018 var það gert í þremur tilvikum.
               2.      Á árinu 2019 var það aldrei gert.
               3.      Á árinu 2020 var það gert í tveimur tilvikum.
    Þá voru 28 mál af framangreindum 289 málum felld niður undir rekstri þeirra fyrir Landsrétti.
               1.      Á árinu 2018 var það gert í þremur tilvikum.
               2.      Á árinu 2019 var það gert í 11 tilvikum.
               3.      Á árinu 2020 var það gert í 14 tilvikum.

    Hér að framan eru talin þau 280 mál sem reyndist unnt að flokka samkvæmt fyrirspurninni, en eftirfarandi níu mál féllu illa þar að.
    Árið 2020 gengu tveir dómar Landsréttar þar sem dómur héraðsdóms var staðfestur um annan dómfellda af tveimur en sakfellingu héraðsdóms snúið við um hinn dómfellda í málinu. Einn dómur af því tagi gekk árið 2019.
    Árið 2018 gekk einn dómur þar sem dómur héraðsdóms var staðfestur um suma dómfelldu en refsing þyngd yfir öðrum dómfelldu.
    Árið 2019 gekk einn dómur Landsréttar þar sem refsing var þyngd yfir þremur dómfelldu en staðfest yfir einum dómfellda.
    Árið 2020 gekk einn dómur þar sem sýknudómur héraðsdóms var staðfestur um annan af tveimur dómfelldu en refsing hins dómfellda í málinu þyngd.
    Árið 2019 gekk einn dómur Landsréttar þar sem fjórir einstaklingar voru ákærðir í héraði. Í því máli var sýkna eins dómfellda staðfest í Landsrétti, dómi héraðsdóms var snúið úr sakfellingu í sýknu í tilviki annars dómfellda en refsing tveggja dómfelldu var milduð.
    Árið 2020 gekk einn dómur í Landsrétti þar sem sýknu annars dómfellda í héraði var snúið í sakfellingu en refsing hins dómfellda í málinu var milduð.
    Árið 2020 gekk einn dómur í Landsrétti þar sem sakfellingu annars dómfellda í héraði var snúið í sýknu en refsing hins dómfellda í málinu var milduð.