Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 967  —  531. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um upplýsingar úr rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvar eru birtar upplýsingar um staðsetningu mælinga í rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar samkvæmt lengdar- og breiddargráðu frá árinu 1995 til dagsins í dag, ásamt dagsetningu mælinganna, magni og skiptingu afla eftir tegund í hverju togi? Ef þessar upplýsingar eru hvergi birtar, hvernig stendur á því? Er fyrirhugað að birta þær og þá hvar?

    Leitað var upplýsinga frá Hafrannsóknastofnun og byggist svarið á þeim upplýsingum.
    Umbeðnar upplýsingar eru ekki aðgengilegar á vef stofnunarinnar eða öðrum sambærilegum upplýsingaveitum.
    Hafrannsóknastofnun hefur á undanförnum árum birt skýrslur þar sem teknar eru saman helstu niðurstöður rannsóknaleiðangra t.d. úr stofnmælingum botnfiska (SMB) (HV 2020-20) en slíkar skýrslur sýna staðsetningu og hlutfallslega stærð afla í togi fyrir helstu botnfiskstofna. Hægt er að finna staðsetningar toga í skýrslum sem lýsa framkvæmd leiðangra, t.d. fyrir SMB (Hafrannsóknir nr. 156). Svipaðar upplýsingar má finna í tækniskýrslum um einstakar tegundir sem birtar eru árlega sem hluti af ráðgjöf stofnunarinnar.
    Gögn frá bergmálsmælingum á uppsjávarfiskstofnum eru almennt ekki enn sem komið er aðgengileg almenningi, hvort sem um er að ræða hrágögn sem nýtast aðeins þeim sem hafa mikla sérþekkingu á þeim og hugbúnað til að lesa þau, eða gögn sem hafa verið túlkuð með tilliti til fisktegunda. Túlkuð bergmálsgögn fyrir deilistofna, sem gefa bergmálsgildi á mismunandi tegundir eftir staðsetningu og dýpi á siglingaleiðinni, eru hins vegar send í alþjóðlegan gagnagrunn staðsettan í Færeyjum. Hann er enn sem komið er lokaður en utanaðkomandi vísindamönnum er veittur aðgangur að honum sé þess óskað. Þessu til viðbótar verður byrjað í sumar að setja sömu gögn í tiltölulega nýjan gagnagrunn Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um bergmálsleiðangra sem er opinn öllum. Aflagögn deilistofna munu sömuleiðis fara inn í opinn gagngrunn ICES á næstu árum, þ.e. bæði afli eftir mánuðum og reitum (1°N x 1°V) ásamt upplýsingum úr aflasýnum sem Hafrannsóknastofnun vinnur (líffræðilegar upplýsingar, svo sem tegund, lengd, þyngd og aldur ásamt tíma og staðsetningu).
    Haffræðilegum gögnum af mismunandi tagi er safnað í allflestum leiðöngrum stofnunarinnar. Tölulegar samantektir á niðurstöðum frá þeim helstu eru aðgengilegar á vef stofnunarinnar um sjórannsóknir. 1 Þar er m.a. að finna tímaraðir um hita og seltumælingar á föstum mælistöðvum kringum landið á völdum dýpum sem eru heimsóttar ársfjórðungslega (lengd- og breiddargráður gefnar). Þar eru einnig rauntímagögn um sjávarhitastig í Reykjavík og Grímsey. Þessu til viðbótar fara haffræðileg gögn stofnunarinnar inn í alþjóðlega gagnagrunna þar sem þeir eru aðgengilegir öllum. 2 Það eru samt sem áður ýmis gögn sem eru ekki aðgengileg utan stofnunarinnar og eru það m.a. flókin gögn eins og straummælingar.
    Hafrannsóknastofnun hefur í gegnum árin fúslega veitt innlendum sem erlendum aðilum aðgang að gögnum úr rannsóknaleiðöngrum til vísindarannsókna sem aukið hefur rannsóknir og þekkingu til muna. Til skoðunar er aukið aðgengi að gögnum stofnunarinnar og er þá horft til gagnagrunna Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) sem eru að stórum hluta opnir almenningi.

1     sjora.hafro.is/
2    T.d. www.seadatanet.org/, emodnet-physics, ices.dk o.fl.