Ferill 590. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1063  —  590. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar, nr. 57/2020 (framlenging á umsóknarfresti).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Baldur Sigmundsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ingibjörgu Björnsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Benedikt S. Benediktsson frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Ólaf Sigurðsson, Þóreyju S. Þórðardóttur og Gylfa Jónsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Jón Gunnar Ásbjörnsson frá Lögmannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að frestur fyrirtækja til að óska eftir tímabundinni heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar verði framlengdur til 1. janúar 2022 og að bætt verði nýju viðmiðunartímabili þannig að miðað er við að fyrirsjáanlegt sé að heildartekjur af starfseminni á næstu þremur mánuðum frá því að sótt er um úrræðið lækki um 75 hundraðshluta eða meira í samanburði við sama tíma á árinu 2019.
    Við meðferð málsins kom fram að í desember 2020 hefðu alls 23 fyrirtæki sótt um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Þrátt fyrir að færri fyrirtæki hafi sótt um úrræðið en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi væri mikilvægt að framlengja möguleikann á að sækja um úrræðið enda orðið ljóst að efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins munu vara lengur en fyrirsjáanlegt var þegar lögin voru samþykkt á síðasta ári. Lögin kveða á um raunhæft úrræði fyrir fyrirtæki, þar á meðal lítil og meðalstór fyrirtæki, sem orðið hafa fyrir verulegum tekjusamdrætti tímabundið vegna heimsfaraldurs. Meiri hlutinn tekur undir nauðsyn þess að úrræðið verði framlengt og áréttar jafnframt að með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að þau fyrirtæki sem þegar hafa fengið heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar vegna heimsfaraldursins fái framlengingu á því úrræði. Aðeins er verið að gera fleiri fyrirtækjum kleift að sækja um fjárhagslega endurskipulagningu vegna heimsfaraldursins með því að framlengja þann tíma sem hægt er að sækja um úrræðið.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um nauðsyn þess að girða fyrir misnotkun á úrræði af þessu tagi og að kveða þyrfti með skýrari og afmarkaðri hætti á um að orsakir fjárhagserfiðleika fyrirtækjanna mætti rekja til faraldursins. Meiri hlutinn áréttar að markmið laga um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar er að fyrirtækin geti fengið skjól í tiltekinn tíma til að endurskipuleggja rekstur sinn í ljósi breyttra aðstæðna vegna heimsfaraldursins og því mega skilyrði þessa úrræðis ekki vera of þröng eða þung í vöfum. Fyrirtækin verða að hafa svigrúm til að meta hvernig best megi bregðast við rekstrarvandanum og halda starfseminni gangandi. Þá er markmið þessa frumvarps ekki að endurskoða efnisleg skilyrði fyrir heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja heldur einvörðungu að tryggja að þetta úrræði standi fyrirtækjum opið lengur en gert var ráð fyrir í upphafi. Telur meiri hlutinn ekki þörf á því að svo stöddu að fara í vinnu sem tengist hinum efnislegu skilyrðum.
    Þá var nefndinni bent á samspil heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar við þær kröfur sem ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa tekur til og ábyrgðartímabil þeirra krafna. Í því samhengi voru viðraðar þær áhyggjur að ef úrræðið um fjárhagslega endurskipulagningu er framlengt geti það leitt til þess að ábyrgð sjóðsins nái ekki til krafna sem eru utan ábyrgðartímabils, sbr. 4. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003. Meiri hlutinn leggur áherslu á að um er að ræða tímabundið úrræði. Meiri hlutinn telur ástæðu til að í framhaldi af samþykkt þessa frumvarps að ákvæði laganna verði endurskoðuð og framkvæmd þeirra, m.a. er snýr að samspili ákvæða þessara laga og laga um Ábyrgðasjóð launa.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Guðmundur Andri Thorsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara um að ekki sé gengið nógu langt og þörf sé á frekari aðgerðum. Þannig telur þingmaðurinn mikilvægt að stemma stigu við kennitöluflakki og lagt verði fram að nýju frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (aðgerðir gegn kennitöluflakki) (815. mál á 150. löggjafarþingi). Að auki þurfi að leggja fram tillögur sem miði að því að koma heimilum og einstaklingum í sambærilegt greiðsluskjól og fyrirtækjum var veitt með lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

Alþingi, 17. mars 2021.

Páll Magnússon,
form.
Birgir Ármannsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson,
með fyrirvara.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson.