Ferill 651. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1217  —  651. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um dóma Landsréttar í fíkniefnabrotamálum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver var fjöldi dóma Landsréttar í fíkniefnabrotamálum árin 2018–2020, sundurliðað eftir því hvort:
     a.      fyrri dómur var staðfestur,
     b.      fyrri dómi var breytt, og þá hvort það var til þyngri eða vægari refsingar,
     c.      fyrri dómi var snúið, og þá hvort sakfellingu var snúið í sýknu eða sýknu snúið í sakfellingu,
     d.      um ómerkingu, frávísun eða niðurfellingu var að ræða?
    Svör óskast einnig sundurliðuð eftir árum og þeim lagagreinum sem brot varðar í dómunum.


    Til að svara fyrirspurninni var leitað til Landsréttar. Í Landsrétti er ekki haldin tölfræði sem flokkar mál á grundvelli lagagreina eins og fyrirspurnin hljóðar enda iðulega ákært fyrir brot gegn mörgum lagaákvæðum í sama málinu. Þá getur niðurstaðan verið að sýknað sé af sumum brotum en sakfellt í öðrum. Svarið byggist á úrvinnslu upplýsinga úr málaskrá Landsréttar þar sem um er að ræða mál þar sem ýmist var ákært fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, eða brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þá er áréttað að niðurstöður mála þarf að rýna með hliðsjón af forsendum þeirra dóma sem þar búa að baki.
    Á árunum 2018, 2019 og 2020 féllu 24 dómar hjá Landsrétti þar sem meðal ákæruatriða var brot gegn fíkniefnalöggjöf. Þar af var einn dómur síðar ómerktur með dómi Hæstaréttar 18. mars á þessu ári og er sá dómur Landsréttar því ekki talinn með hér á eftir. Að auki voru fjögur mál þar sem ákært var fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöf felld niður á þessum árum þar sem áfrýjunarstefnur málanna voru afturkallaðar.
     a.      Af framangreindum málum var dómur héraðsdóms að öllu leyti staðfestur um mat á sekt/sýknu og refsingu í tíu dómum Landsréttar.
                  1.      Á árinu 2018 var það gert í fimm tilvikum.
                  2.      Á árinu 2019 voru þau skipti þrjú talsins.
                  3.      Á árinu 2020 var það gert í tveimur tilvikum.
     b.      Af framangreindum málum var dómi héraðsdóms breytt um mat á refsingu dómfellda í 12 dómum Landsréttar.
                  1.      Á árinu 2018 þyngdi Landsréttur refsingu í fjórum tilvikum en mildaði refsingu í þrjú skipti.
                  2.      Á árinu 2019 þyngdi Landsréttur refsingu ekki í neinu tilviki en mildaði refsingu í tvö skipti.
                  3.      Á árinu 2020 þyngdi Landsréttur refsingu í tveimur tilvikum en mildaði refsingu í eitt skipti.
     c.      Af framangreindum málum var dómi héraðsdóms snúið í tveimur dómum Landsréttar, í báðum tilvikum þannig að Landsréttur sakfelldi þegar héraðsdómur hafði áður kveðið upp sýknudóm. Fyrra málið af því tagi var dæmt í Landsrétti árið 2018 en hið síðara árið 2019.
     d.      Enginn dómur héraðsdóms þar sem ákært var fyrir brot á fíkniefnalöggjöf var ómerktur af hálfu Landsréttar á árunum 2018, 2019 eða 2020 og þá vísaði rétturinn engum málum af því tagi frá dómi á sömu árum. Þá voru sem fyrr segir fjögur mál þar sem ákært var fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöf felld niður þessi ár þar sem áfrýjunarstefnur málanna voru afturkallaðar af hálfu embættis ríkissaksóknara. Hið síðastgreinda gerðist einu sinni árið 2018, tvívegis árið 2019 og í eitt skipti árið 2020.