Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1312  —  16. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, með síðari breytingum (lögbann á tjáningu).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hjálmar Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands.
    Nefndinni barst umsögn frá Blaðamannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við ákvæði í lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, sem ætlað er að styrkja umgjörð lögbannsmála og hraða málsmeðferðinni eftir því sem kostur er, að gættum réttindum gerðarbeiðanda og gerðarþola, þegar um er að ræða lögbann við birtingu efnis. Auk þess eru lagðar til strangari bótareglur vegna tjóns sem hlýst af hindrun á birtingu efnis vegna lögbanns eða beiðni um það.
    Í umsögn Blaðamannafélagsins kemur fram að í frumvarpinu felist réttarbót á þessu sviði. Nefndin tekur undir það sjónarmið þar sem því er ætlað að styrkja tjáningarfrelsi að teknu tilliti til friðhelgi einkalífs. Eftir sem áður verður lögbann virkt úrræði við brotum gegn friðhelgi einkalífs. Þá tekur nefndin undir mikilvægi þess að hraða eigi málsmeðferð í þessum tilteknu málum enda um að ræða þau ríku réttindi í lýðræðissamfélagi sem felast í því að þjóðfélagsleg umræða fari fram án óþarfa hindrana eða takmarkana á réttindum einstaklinga til friðhelgi einkalífs.
    Nefndin leggur til fáeinar orðalagsbreytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að því sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna ,,skal farið“ í 3. gr. komi: fer.
     2.      Í stað orðanna „að álitum ef lagt hefur verið á lögbann“ í 4. gr. komi: eftir álitum ef lögbann hefur verið lagt.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, með síðari breytingum (lögbann við birtingu efnis).

Alþingi, 29. apríl 2021.

Páll Magnússon,
form.
Birgir Ármannsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Olga Margrét Cilia,
með fyrirvara.
Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson.