Ferill 686. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1320  —  686. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um aðgerðir í kjölfar snjóflóða.


     1.      Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar varðandi snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði aðfaranótt 15. janúar 2020 og afleiðingar þeirra og varðandi flóðbylgjuna sem varð í kjölfarið á Suðureyri?
    Ítarlegar mælingar og athuganir voru gerðar á snjóflóðunum sem féllu á Flateyri. Gerð hefur verið grein fyrir þeim í skýrslu sem kom út á síðasta ári. 1
    Snjóflóðaratsjá sem var á Skollahvilftargarðinum hefur gefið mikilvægar upplýsingar um hraða snjóflóðsins sem hafa nýst til þess að skilja eðli þess. Ratsjáin eyðilagðist í snjóflóðinu og hefur verið endurnýjuð.
    Snjóflóðið í Súgandafirði var einnig mælt svo og ummerki um flóðbylgjuna. Rætt var við heimafólk sem gat gefið greinargóðar lýsingar á henni sem og fyrri flóðbylgjum en slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir vísindafólk til að gera sér betur grein fyrir aðstæðum, aðdraganda og afleiðingum slíkra flóða. Upplýsingar um flóðið eru í ofanflóðagagnagrunni Veðurstofunnar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá er unnið að minnisblaði um flóðbylgjur vegna snjóflóða á Suðureyri.
    Prófun stendur einnig yfir á tölvulíkani sem er ætlað að herma snjóflóð sem lenda á varnargörðum. Snjóflóðalíkön sem notuð hafa verið hafa ákveðna annmarka þegar kemur að því að lýsa árekstri snjóflóðs við varnargarð. Niðurstöður, sem þegar hafa fengist, lofa góðu um notkun þessa líkans. Áformað er að nýta líkanið við endurmat á hættu undir sex leiðigörðum á landinu síðar á þessu ári, þ.m.t. á Flateyri. Líkanið kann einnig að gagnast við mat á virkni keilna sem koma til greina til þess að hægja á snjóflóðum áður en þau lenda á leiðigörðunum á Flateyri.
    Í byrjun mars 2021 var á Flateyri sett upp í rannsóknarskyni nýjasta kynslóð snjóflóðaratsjár til þess að kanna hversu vel slíkt tæki getur nýst við snjóflóðavöktun á Flateyri og Hvilftarströnd. Þessi tegund ratsjáa getur séð mun stærra svæði en áður og greint flóð úr nokkrum snjóflóðafarvegum. Einnig getur ratsjáin greint staðsetningu og stærð snjóflóðanna. Ratsjáin gagnast hugsanlega í öryggisviðbúnaði vegna snjóflóðahættu á Flateyrarvegi neðan Skollahvilftar og giljanna næst innan hennar og verður það kannað á næstunni í samvinnu við Vegagerðina. Ratsjár þessarar gerðar eru víða notaðar erlendis til þess að stjórna umferð um vegi sem liggja um snjóflóðahættusvæði.

     2.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið á Flateyri til þess að bregðast við afleiðingum snjóflóðsins og til að verja íbúðarhúsnæði og hafnarmannvirki?
    Á síðasta ári var unnið að enduruppbyggingu og styrkingu mælakerfis á Flateyri. Settir voru upp sjálfvirkir snjódýptarmælar á tveimur stöðum ofan Flateyrar síðastliðið haust. Mikil vinna var lögð í undirbúning og uppsetningu mælanna sem festir eru á sex metra há álmöstur. Annað mastrið var sett upp í Innra-Bæjargili en hitt í Miðhryggsgili, þar sem ekki var talið vænlegt að setja það upp í Skollahvilft. Á hvoru mastri eru þrjár gerðir af snjódýptarmælum og hafa mælingar fram til þessa að mestu gengið vel. Snjóflóðaratsjá sem var á Skollahvilftargarðinum var endurnýjuð og í mars 2021 var sett upp í rannsóknarskyni nýjasta kynslóð snjóflóðaratsjár, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Á Flateyri hefur verið ráðinn snjóathugunarmaður í fast starfshlutfall (25%), en áður var þar snjóathugunarmaður á tímakaupi. Ísafjarðarbær hefur sett upp aðvörunarljós á höfninni á Flateyri sem lögregla kveikir á þegar talin er hætta á flóðum sem geta skapað hættu. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar metur aðstæður í samráði við lögreglu og aðra aðila.
    Gerð hafa verið drög að endurskoðuðu hættumati og var það kynnt á íbúafundi haustið 2020. Drög að rýmingarkorti hafa verið gerð sem byggjast á endurskoðuðu hættumati og hefur kortið einnig verið kynnt íbúum. Verklag við ákvörðun um rýmingu húsnæðis hefur verið endurskoðað þannig að ekki þarf jafn óhagstæð veðurskilyrði og áður til þess að gripið sé til rýmingar.

     3.      Hver er verkefnastaðan í þeirri aðgerðaáætlun sem stjórnvöld settu fram í kjölfar snjóflóðanna?
    Verkefni vegna þeirra snjóflóða sem um er að ræða eru eftirfarandi:
     *      Endurskoðun rýmingarsvæða og viðmiða um rýmingu húsnæðis á Flateyri. Þessu verkefni er lokið.
     *      Endurskoðun rýmingarsvæða og viðmiða um rýmingu almennt undir varnargörðum:
        1.    Bráðabirgðamat sem nýtist ofanflóðavakt Veðurstofunnar. Þessu verkefni er lokið fyrir Flateyri og Siglufjörð.
        2.    Ljúka við endurskoðun rýmingaráætlana þar sem reist hafa verið varnarvirki og ljúka við gerð rýmingaráætlana. Þetta verkefni er í vinnslu.
    Unnir hafa verið SAMOS-líkanreikningar fyrir flesta staði þar sem endurskoða þarf rýmingaráætlanir og drög hafa verið gerð að rýmingarkorti fyrir Siglufjörð. Rýmingarkort hafa verið endurskoðuð fyrir Seyðisfjörð og unnið hefur verið í rýmingaráætlunum fyrir Bíldudal og Akureyri.
     *      Kortlagning snjóflóðsins í víðu samhengi ásamt tilheyrandi rannsóknum á hegðun þess. Þessu verkefni er lokið.
     *      Rannsóknir og líkanreikningar á flæði snjóflóða yfir varnargarða og fyrirstöður til þess að endurbæta hönnunarforsendur og hættumatsrannsóknir. Þetta verkefni er í vinnslu.
     *      Greining á mögulegum breytingum á ofanflóðavörnum á Flateyri til að efla varnargildi þeirra og endurskoðun hættusvæða neðan þeirra. Gerð hafa verið drög að endurskoðuðu hættumati og voru þau kynnt á íbúafundi síðastliðið haust eins og fyrr segir. Að öðru leyti er þetta verkefni á ábyrgð hönnuða ofanflóðavarna á Flateyri.

     4.      Hefur eftirlit Veðurstofu Íslands verið eflt staðbundið í kjölfar snjóflóðanna ásamt viðvörunum um hættustig og hugsanlegum rýmingaráætlunum?
    Eftirlitið hefur verið eflt með enduruppbyggingu og styrkingu mælakerfis sem og ráðningu snjóathugunarmanna, sbr. svar við 2. og 8. tölul.
    Snjóflóðavaktfólki á Veðurstofunni hefur verið fjölgað úr sex í níu. Sérfræðingum á vakt í hvert sinn hefur verið fjölgað úr einum í tvo. Eins og áður koma fleiri inn á vaktina þegar aðstæður krefjast þess.

     5.      Liggur fyrir framkvæmdaáætlun ofanflóðasjóðs um auknar ofanflóðavarnir fyrir Flateyri og Flateyrarveg um Hvilftarströnd, nr. 64, þar sem hætta er á snjóflóðum sem lokað geta leiðinni til Flateyrar?
    Unnið er að frumathugun endurbættra varna fyrir Flateyri og er áætlað að niðurstaða þeirrar vinnu liggi fyrir í byrjun sumars 2021. Þá hefur verið ákveðið að setja upp snjógirðingar uppi á Eyrarfjalli til að fá reynslu af þeim sem og að styrkja glugga- og dyraop tveggja til þriggja húsa næst varnargarðinum í sumar. Jafnframt hefur verið ákveðið að hefja undirbúning að víkkun skeringarrásar við Innra-Bæjargilsgarð.
    Vegagerðin annast varnir eða aðrar aðgerðir vegna vega.

     6.      Hefur opinberu fé verið varið til að bæta hugsanlegt eignatjón einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélags í kjölfar snjóflóðanna?
    Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur greitt bætur vegna eignatjóns á Flateyri. Þá veitti ríkisstjórnin Ísafjarðarbæ styrk til að mæta óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum vegna snjóflóðanna á Flateyri.

     7.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið í Súgandafirði og á Suðureyri í kjölfar snjóflóðsins sem olli flóðbylgju á Suðureyri og Súgandafjarðarveg?
    Á Suðureyri hefur nú í fyrsta sinn verið ráðinn snjóathugunarmaður.
    Ísafjarðarbær hefur komið upp viðvörunarljósum við höfnina á Suðureyri sem lögregla kveikir á þegar hætta er talin á flóðbylgjum. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar metur aðstæður í samráði við almannavarnir. Þegar snjóflóðavakt Veðurstofunnar telur hættu yfirvofandi á stórum flóðum norðan Súgandafjarðar er lögreglan látin vita sem getur þá kveikt á ljósum á höfninni. Aðvörunum hefur einnig verið komið á framfæri í gegnum Facebook-síðu Súgfirðinga.

     8.      Hefur Veðurstofan gripið til einhverra aðgerða og rannsókna í Súgandafirði og aukið eftirlit með snjóflóðahættu og hættu á flóðbylgju á byggð og vegi í kjölfarið? Er til viðbragðsáætlun til þess að vara íbúa við hættu á snjóflóðum og er til rýmingaráætlun fyrir Suðureyri?
    Á Suðureyri er til hættumat og rýmingarkort vegna snjóflóða úr fjallinu ofan við þéttbýlið. Eftirfarandi texta má finna í hættumatsskýrslunni:
    „Snjóflóð úr norðurhlíðum Súgandafjarðar hafa valdið tjóni á ströndinni sunnan fjarðar vegna flóðbylgja sem þau hafa myndað á firðinum. Ljóst er að einhver hætta stafar af slíkum flóðbylgjum á Suðureyri, einkum við ströndina og í höfninni. Bent hefur verið á að styrkja megi hús á hafnarsvæðinu vegna slíkra flóðbylgja og að haga megi skipulagi þar til að draga úr tjóni af þeirra völdum. Þó búast megi við eignatjóni vegna flóðbylgja af þessum toga er manntjón af þeirra völdum hins vegar ekki líklegt miðað við fólk inni í húsum, sbr. viðmið í reglugerð. Því er ekki tekið tillit til þeirra við afmörkun hættusvæða.“
    Á Suðureyri hefur verið ráðinn snjóathugunarmaður og Ísafjarðarbær hefur komið upp viðvörunarljósum við höfnina, sbr. svar við 7. tölul.
    Veðurstofan vinnur að hættumati vegna sjávarflóða og kannar þá m.a. hættu af flóðbylgjum. Líkanreikningar hafa verið gerðir á flóðbylgjum í Súgandafirði, en endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir.

     9.      Hefur ofanflóðasjóður áform um að verja byggð og vegi í Súgandafirði, þ.m.t. veginn fyrir Spilli út í Staðardal þar sem tveir sveitabæir eru í byggð, Bær og Staður, í ljósi þess að Spillisvegur er þekktur fyrir snjóflóð og aurskriður sem ógna þeim íbúum sem þar eiga leið um dag hvern vegna vinnu og skólagöngu?
    Byggð á Suðureyri er ekki á hættusvæði C og því eru ekki fyrirhugaðar varnir þar. Vegagerðin annast varnir eða aðrar aðgerðir vegna vega.
1     www.vedur.is/media/vedurstofan-utgafa-2020/VI_2020_010_vef.pdf