Ferill 637. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1423  —  637. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni um Samkeppniseftirlitið.


     1.      Með hvaða hætti eru fyrirtæki úrskurðuð með markaðsráðandi stöðu? Hverjir koma að slíkri ákvörðun hjá Samkeppniseftirlitinu og er hún háð samþykki stjórnar eftirlitsins? Þarf að bera slíka ákvörðun undir úrskurðarnefnd samkeppnismála?
    Fyrirtæki telst vera í markaðsráðandi stöðu þegar það hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina eða neytenda, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005.
    Markaðsráðandi staða fyrirtækja kemur einkum til skoðunar í eftirfarandi málum:
    a)     Brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, sbr. 11. gr. samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitinu er jafnframt falið að beita banni 54. gr. EES-samningsins við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, sem er sama efnis og hið íslenska. Eftirlitsstofnun EFTA og eftir atvikum EFTA-dómstóllinn sjá til þess að beiting ákvæðisins sé einsleit á Evrópska-efnahagssvæðinu.
    b)     Samrunar fyrirtækja, sbr. 17. –17. gr. e. samkeppnislaga. Telji Samkeppniseftirlitið að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja verði til eða slík staða styrkist, eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, getur stofnunin ógilt samruna eða sett honum skilyrði.
    c)     Markaðsrannsóknir, sbr. c-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga.
    Samkvæmt 4. gr. samkeppnislaga er markaður sölusvæði vöru og staðgönguvöru og/eða sölusvæði þjónustu og staðgönguþjónustu. Staðgönguvörur eru vörur eða þjónusta sem að öllu eða miklu leyti uppfylla sömu þarfir og veita þær því hver annarri samkeppnislegt aðhald. Við skilgreiningu vöru- og/eða þjónustumarkaða þarf því að rannsaka og meta hvaða vörur eru staðgönguvörur.
    Við skilgreiningu markaða þarf einnig að greina það sölusvæði sem viðkomandi fyrirtæki keppa á. Með því er átt við svokallaðan landfræðilegan markað sem er það svæði þar sem viðkomandi fyrirtæki bjóða vörur sínar og þjónustu. Á landfræðilegum markaði þurfa eftirspurn og samkeppnisskilyrði einnig að vera nægilega lík til að hægt sé að greina markaðinn frá öðrum nærliggjandi svæðum. Landfræðilegur markaður getur ýmist verið staðbundinn (t.d. höfuðborgarsvæðið), landsbundinn (Ísland) eða alþjóðlegur (nær út fyrir Ísland).
    Við lýsingu á því með hvaða hætti fyrirtæki eru metin í markaðsráðandi stöðu er gagnlegt að líta til fordæma í íslenskum rétti. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 3/2008, Hf. Eimskipafélag Íslands gegn Samkeppniseftirlitinu, kemur fram að við mat á stöðu fyrirtækja á markaði skipti mestu að huga að markaðshlutdeild og því skipulagi sem ríki á markaðnum. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 18. nóvember 2010 í máli nr. 188/2010, Hagar hf. gegn Samkeppniseftirlitinu, var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur staðfestur með vísan til forsendna hans. Í dómi héraðsdóms kemur fram að við „mat á því hvort fyrirtæki hafi haft markaðsráðandi stöðu á skilgreindum markaði er litið til nokkurra atriða og þau metin saman:
    1.     Hver er markaðshlutdeild viðkomandi fyrirtækis á skilgreindum markaði og þróun hennar. Ein viðmiðun er að ef markaðshlutdeild fer yfir 50% þá eru allar líkur á að fyrirtækið hafi markaðsráðandi stöðu.
    2.     Litið er til markaðshlutdeildar þess fyrirtækis sem verið er að meta og hún borin saman við markaðshlutdeild annarra fyrirtækja á markaði. Ef miklu munar á markaðshlutdeild þess fyrirtækis sem stærstu hlutdeild hefur og þess fyrirtækis sem næst kemur í röðinni er líklegt að stærsta fyrirtækið hafi markaðsráðandi stöðu.
    3.     Þá er einnig litið til aðgangshindrana að markaði. Hér er átt við atriði á borð við lagalegar hindranir, fjárhagslegar hindranir, stærðarhagkvæmni, aðgengi að birgjum, þróað sölukerfi og þekkt vörumerki.“
    Fram kemur einnig að dómurinn telji að „þriðja atriðið sem nefnt er að framan, þ.e. aðgangshindranir að markaði, ráði ekki úrslitum þegar meta skal hvort stefnandi hafi verið í markaðsráðandi stöðu ...“ Hins vegar geti þessi atriði samkvæmt dóminum styrkt frekar þá niðurstöðu að fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu.
    Há markaðshlutdeild, 50% eða meira, veitir því mjög ríkar vísbendingar um markaðsráðandi stöðu, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 4. mars 2021 í máli nr. 26/2020, Mjólkursamsalan ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu. Rétt er að hafa í huga að fyrirtæki geta einnig verið í markaðsráðandi stöðu þrátt fyrir að hafa lægri hlutdeild en 50% á viðkomandi markaði. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 8/2008, Fiskmarkaður Íslands hf. gegn Samkeppniseftirlitinu, var fyrirtæki með 42–46% markaðshlutdeild talið markaðsráðandi. Geta önnur atriði en markaðshlutdeild styrkt þá niðurstöðu að fyrirtæki sé markaðsráðandi. Skiptir t.d. máli hvort viðkomandi fyrirtæki er almennt öflugt með hliðsjón af fjármagni, tækjum og framboði vöru eða þjónustu. Niðurstaða um markaðsráðandi stöðu byggist þannig á heildarmati þar sem bæði markaðshlutdeild og atriði sem tengjast skipulagi markaðarins hafa þýðingu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 14. mars 2013 í máli nr. 355/2012, Lyf og heilsa hf. gegn Samkeppniseftirlitinu.
    Forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri Samkeppniseftirlitsins, sbr. 1. mgr. 6. gr. samkeppnislaga, og tekur ákvarðanir fyrir hennar hönd. Meiri háttar efnislegar ákvarðanir skal bera undir stjórn eftirlitsins til samþykktar eða synjunar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Meiri háttar efnislegar ákvarðanir eru skilgreindar í grein 2.4. í starfsreglum stjórnar, nr. 1226/2020. Einkum er um að ræða ákvarðanir er varða íhlutun á grundvelli samkeppnislaga og að auki ákvarðanir í málum vegna samruna þegar ekki er talið tilefni til íhlutunar en samrunafyrirtæki hafa samanlagt 50% markaðshlutdeild eða meira á sama markaði.
    Ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins sæta kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. sbr. 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga. Aðilar máls geta því borið ákvörðun eftirlitsins undir áfrýjunarnefndina, m.a. þær ákvarðanir þar sem reynir á markaðsráðandi stöðu fyrirtækja. Einnig er unnt að bera ákvarðanir eftirlitsins beint undir dómstóla.

     2.      Hvaða ferill er hjá Samkeppniseftirlitinu þegar tilkynnt er um að fyrirtæki hafi verið úrskurðað markaðsráðandi? Hefur viðkomandi fyrirtæki tækifæri til að bera fram andmæli áður?
    Eins og rakið er í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er mat á markaðsráðandi stöðu jafnan liður í rannsókn á háttsemi eða aðstæðum á viðkomandi mörkuðum, þ.e. einkum rannsókn á hugsanlegu broti á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, rannsókn á áhrifum samruna eða markaðsrannsókn. Í engu tilviki beinist rannsókn Samkeppniseftirlitsins því að því einvörðungu að ákvarða markaðsráðandi stöðu fyrirtækis, heldur er það mat þáttur í rannsókn á tiltekinni háttsemi eða aðstæðum í viðkomandi máli.
    Um meðferð mála hjá Samkeppniseftirlitinu gilda ákvæði stjórnsýslulaga og reglur nr. 880/2005.
    Í málum sem varða m.a. mat á markaðsráðandi stöðu er aflað gagna og upplýsinga sem nauðsynlegar eru við skilgreiningu á viðkomandi markaði eða mörkuðum. Því næst er aflað gagna sem nýtast við mat á stöðu fyrirtækja á hinum skilgreindu mörkuðum, svo sem um tekjur og magn hlutaðeigandi fyrirtækja á mörkuðunum og mögulega framboð og afkastagetu eftir því sem við á. Jafnframt er aflað upplýsinga og gagna til þess að meta aðgangshindranir á markaði o.fl. Þá er aflað gagna og upplýsinga sem nauðsynlegar eru við mat á háttsemi eða aðstæðum sem til rannsóknar eru í viðkomandi máli.
    Framangreind gagnaöflun beinist að aðilum málsins, en oft einnig að öðrum fyrirtækjum sem starfa á markaðnum, stjórnvöldum sem kunna að búa yfir gögnum eða upplýsingum, viðskiptavinum fyrirtækja á markaðnum og eftir atvikum neytenda. Í sumum tilvikum lætur Samkeppniseftirlitið framkvæma kannanir á meðal viðskiptavina eða neytenda við úrlausn máls.
    Telji Samkeppniseftirlitið að íþyngjandi ákvörðun kunni að verða tekin í málum er varða bannreglur samkeppnislaga, samruna fyrirtækja eða markaðsrannsóknir tekur Samkeppniseftirlitið saman greinargerð sem nefnist andmælaskjal. Í því er helstu atvikum málsins lýst og greint frá frummati eftirlitsins á málinu og mögulegum samkeppnishindrunum. Andmælaskjalið er ritað í því skyni að stuðla að því að málið sé að fullu upplýst áður en ákvörðun er tekin og til þess að auðvelda aðila að nýta sér andmælarétt sinn. Fá aðilar máls hæfilegan frest til að gera athugasemdir og koma að frekari skýringum. Með framangreindu verklagi Samkeppniseftirlitsins er gengið lengra í því að tryggja réttindi aðila máls heldur en almennar reglur stjórnsýslulaga krefjast.
    Samkeppniseftirlitið tekur ákvörðun í málinu þegar öflun gagna og sjónarmiða er lokið. Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga um meðferð máls.

     3.      Hvaða fyrirtæki hefur Samkeppniseftirlitið úrskurðað með markaðsráðandi stöðu frá stofnun Samkeppniseftirlitsins? Hvenær voru viðkomandi fyrirtæki úrskurðuð markaðsráðandi og á hvaða sviði viðskipta?
    Eins og rakið er í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er mat á markaðsráðandi stöðu jafnan liður í rannsókn á háttsemi eða aðstæðum á viðkomandi mörkuðum, þ.e. einkum rannsókn á hugsanlegu broti á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, rannsókn á áhrifum samruna eða markaðsrannsókn. Í engu tilviki beinist rannsókn Samkeppniseftirlitsins því að því einvörðungu að ákvarða markaðsráðandi stöðu fyrirtækis, heldur er það mat þáttur í rannsókn á tiltekinni háttsemi eða aðstæðum í viðkomandi máli.
    Á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins er að finna ákvarðanir samkeppnisyfirvalda þar sem komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu. Til hægðarauka eru hér taldar upp helstu ákvarðanir þar sem Samkeppniseftirlitið hefur komist að niðurstöðu um brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu:
    Ákvörðun nr. 10/2005, Erindi Skýrr hf. vegna misnotkunar Umferðarstofu á markaðsráðandi stöðu, sbr. úrskurð áfrýjunarnefnda samkeppnismála í máli nr. 17/2005
    Ákvörðun nr. 29/2006, Misnotkun Osta- og smjörsölunnar sf. á markaðsráðandi stöðu, sbr. og úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 8/2006
    Ákvörðun nr. 20/2006, Misnotkun Skífunnar á markaðsráðandi stöðu sinni, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 550/2007.
    Ákvörðun nr. 9/2006, Misnotkun Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli ehf. (IGS) á markaðsráðandi stöðu sinni, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 640/2007
    Ákvörðun nr. 70/2007, Misnotkun Hf. Eimskipafélags Íslands á markaðsráðandi stöðu sinni, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 3/2008.
    Ákvörðun nr. 17/2007, Erindi Og fjarskipta hf. vegna meintrar misnotkunar Landssíma Íslands hf. á markaðsráðandi stöðu á fjarskiptamarkaði.
    Ákvörðun nr. 11/2007, Erindi Iceland Express ehf. vegna verðlagningar Icelandair á fargjöldum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 205/2011.
    Ákvörðun nr. 64/2008, Misnotkun Haga hf. á markaðsráðandi stöðu sinni á matvörumarkaði, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 188/2010.
    Ákvörðun nr. 27/2008, Kvörtun Frostfisks ehf. yfir viðskiptaháttum fiskmarkaða (Fiskmarkaður Íslands), sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 8/2008.
    Ákvörðun nr. 4/2008, Brot Greiðslumiðlunar hf., Kreditkorts hf. og Fjölgreiðslumiðlunar hf. á bannákvæðum samkeppnislaga (sátt).
    Ákvörðun nr. 14/2009, Misnotkun Véla og verkfæra á markaðsráðandi stöðu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 116/2011.
    Ákvörðun nr. 4/2010, Misnotkun Lyfja og heilsu hf. á markaðsráðandi stöðu sinni, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 355/2012.
    Ákvörðun nr. 30/2011, Brot Símans hf. með tilboði í 3G netlykil og áskrift, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 10/2011.
    Ákvörðun nr. 11/2011, Misnotkun Vífilfells hf. á markaðsráðandi stöðu sinni, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 111/2014.
    Ákvörðun nr. 34/2012, Misnotkun Sorpu bs. á markaðsráðandi stöðu sinni, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 273/2015.
    Ákvörðun nr. 7/2012, Ólögmætur verðþrýstingur Símans hf. á farsímamarkaði, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 1/2012.
    Ákvörðun nr. 8/2013, Misnotkun Valitor hf. á markaðsráðandi stöðu o.fl., sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 419/2005.
    Ákvörðun nr. 40/2014, Misnotkun Securitas hf. á markaðsráðandi stöðu sinni, sbr. og ákvörðun nr. 45/2017 (endurupptaka).
    Ákvörðun nr. 31/2014, Misnotkun Já hf. á markaðsráðandi stöðu sinni, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 7/2014.
    Ákvörðun nr. 19/2016, Brot Mjólkursamsölunnar ehf. á samkeppnislögum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 26/2020.
    Ákvörðun nr. 32/2020, Skipulag og gjaldtaka Isavia ohf. á fjar- og nærstæðum fyrir fólksflutninga við Keflavíkurflugvöll.
    Eftirfarandi eru ákvarðanir um ógildingu á samruna þar sem markaðsráðandi staða hefði orðið til eða styrkst:
    Ákvörðun nr. 22/2006, Samruni Dagsbrúnar hf. og Senu ehf., sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 5/2006.
    Ákvörðun nr. 28/2006, Samruni DAC ehf. og Lyfjavers ehf. (sameiginleg markaðsráðandi staða), sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 6/2006.
    Ákvörðun nr. 23/2007, Samruni Frumherja hf. og Aðalskoðunar hf.
    Ákvörðun nr. 51/2007, Samruni Reynimels ehf. og Kynnisferða.
    Ákvörðun nr. 3/2009, Kaup Valitors hf. á öllu hlutafé í Euro Refund Group North á Íslandi ehf., sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 335/2011.
    Ákvörðun nr. 6/2009, Samruni Árvakurs hf., Fréttablaðsins ehf. og Pósthússins ehf.
    Ákvörðun nr. 15/2009, Kaup Myndforms ehf. á 50% hlut í Þrjúbíói ehf. af Senu ehf.
    Ákvörðun nr. 27/2011, Yfirtaka Stjörnugríss hf. á eignum Rekstrarfélagsins Brautar ehf. og LS2 ehf., sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 277/2012.
    Ákvörðun nr. 22/2017, Samruni Tempru ehf. og Plastgerðar Suðurnesja ehf.
    Ákvörðun nr. 28/2017, Samruni Haga hf. og Lyfju hf.
    Ákvörðun nr. 28/2018, Kaup Lyfja og heilsu hf. á Opnu ehf.
    Ákvörðun nr. 35/2020, Kaup Myndgreiningar ehf. á Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Íslenskri myndgreiningu ehf., sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 3/2020.
    Ótaldar eru samrunaákvarðanir þar sem fyrirtæki hafa gert sátt við Samkeppniseftirlitið og sett fram tillögur að skilyrðum til þess að vinna gegn samkeppnishindrunum sem leitt hafa af sterkri stöðu viðkomandi fyrirtækja. Vegna sáttar hefur ekki í öllum tilvikum reynst nauðsynlegt að leiða markaðsráðandi stöðu viðkomandi fyrirtækja til lykta. Því er ekki hægt um vik að taka saman tæmandi lista yfir mál sem varða markaðsráðandi stöðu fyrirtækja.
    Einnig eru ótaldar ákvarðanir þar sem markaðsráðandi fyrirtæki hafa gert sátt við Samkeppniseftirlitið og skuldbundið sig til að fylgja tilteknum skilyrðum á grunni markaðsráðandi stöðu sinnar, án þess að nauðsynlegt hafi reynst í málinu að staðreyna tiltekin brot. Dæmi um þetta eru ákvarðanir nr. 8/2017, Aðgerðir til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði, og nr. 6/2013, Breytingar á skipulagi Skiptasamstæðunnar og aðrar aðgerðir til þess að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði.
    Þá eru ótaldar ákvarðanir til bráðabirgða, þar sem eftirlitið hefur gripið til íhlutunar vegna sennilegra brota á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, sbr. t.d. ákvörðun til bráðabirgða nr. 1/2020, Sennileg misnotkun Pennans ehf. á markaðsráðandi stöðu, sbr. og úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 2/2020. Jafnframt hefur Samkeppniseftirlitið í mörgum tilvikum komið á framfæri leiðbeiningum til fyrirtækja sem kunna að vera í markaðsráðandi stöðu.

     4.      Hvaða fyrirtæki hefur Samkeppniseftirlitið fellt af lista yfir markaðsráðandi fyrirtæki frá upphafi og hvenær það var gert?
    Mat á því hvort fyrirtæki sé markaðsráðandi einskorðast jafnan við þær aðstæður sem uppi eru í viðkomandi máli og það rannsóknartímabil sem til skoðunar er hverju sinni. Í engum tilvikum er það hlutverk Samkeppniseftirlitsins að ákvarða fram í tímann hvort fyrirtæki sé markaðsráðandi eða ekki. Ástæðan er sú að aðstæður geta breyst hratt á samkeppnismörkuðum og þar með staða fyrirtækja á þeim.
    Það er því ekki hlutverk Samkeppniseftirlitsins að halda til haga lista yfir markaðsráðandi fyrirtæki á hverjum tíma, eða fella fyrirtæki af slíkum lista, enda væri það ógerlegt vegna síbreytilegra aðstæðna á mörkuðum. Slíkur listi gæti jafnframt haft óheppileg áhrif á viðskipti og samkeppni á viðkomandi mörkuðum, þar sem ekki væri hægt að tryggja að hann gæfi rétta mynd af stöðu fyrirtækja á hverjum tíma. Slíkur listi er því ekki til.
    Mikilvægt er að hafa í huga að markaðsráðandi staða er ekki ólögmæt í sjálfu sér, heldur setur hún fyrirtækjum ákveðnar skorður. Stjórnendum fyrirtækja er sjálfum ætlað að leggja mat á það hvort fyrirtæki þeirra hafi þann efnahagslega styrk að geta hindrað virka samkeppni og geti að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina eða neytenda.

     5.      Hver var árlegur kostnaður fyrirtækja við tilsjónarmenn sl. tíu ár sem aðilum samruna er heimilt að tilnefna? Svar óskast sundurliðað eftir fyrirtækjum.
    Ætla verður að með spurningunni sé átt við eftirlitsaðila (oft nefndur kunnáttumaður, söluaðili eða eftirlitsnefnd; e. trustee), sem stundum er skipaður til þess að fylgja eftir skilyrðum sem sett eru í ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Hér á landi hefur þessu úrræði fyrst og fremst verið beitt þegar sátt næst milli hlutaðeigandi fyrirtækja og Samkeppniseftirlitsins í samrunamálum um tilteknar aðgerðir sem fyrirtæki skuldbinda sig til að ráðast í, með það að markmiði að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum.
    Eftirlitsaðilinn er tilnefndur af hlutaðeigandi fyrirtæki sem jafnframt greiðir fyrir vinnuna og ber ábyrgð á störfum hans, þar á meðal rekstrarlega ábyrgð. Af þessum sökum býr Samkeppniseftirlitið ekki yfir upplýsingum úr bókhaldi fyrirtækjanna um kostnað af störfum þeirra.
    Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra svaraði fyrirspurn um þetta efni á 150. löggjafarþingi 2019–2020, þingskjal 1746 í 592. máli. Vísast að öðru leyti til þess svars.

     6.      Hver var fjöldi ársverka fyrir hvert starfsár hjá Samkeppniseftirlitinu frá stofnun þess til og með árinu 2020?
    Fjöldi ársverka hjá Samkeppniseftirlitinu er eftirfarandi:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Stofnunin tók til starfa á miðju ári 2005, en fjöldi ársverka er birtur hér á ársgrundvelli. Á árunum 2019 og 2020 hýsti Samkeppniseftirlitið teymi starfsmanna OECD sem framkvæmdi samkeppnismat á lögum og reglum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Lánaði eftirlitið starfsmenn í verkefnið. Eru þau ársverk ekki talin með hér.

     7.      Hver var heildarlaunakostnaður Samkeppniseftirlitsins árið 2020, þ.e. laun og launatengd gjöld?
    Heildarlaunakostnaður, þ.e. laun og launatengd gjöld, Samkeppniseftirlitsins árið 2020 var 428.700.555 kr. Launakostnaður vegna starfsmanna Samkeppniseftirlitsins sem lánaðir voru í verkefni OECD er ekki talinn með.

     8.      Hvaða aðilar þáðu verktakagreiðslur fyrir vinnu fyrir Samkeppniseftirlitið árið 2020 og hver var upphæðin í hverju tilfelli?
    Í eftirfarandi töflu er gerð grein fyrir einstökum verkkaupum og fjárhæð þeirra og verklýsingu, sem Samkeppniseftirlitið greiddi fyrir af ráðstöfunarfé sínu á árinu 2020:

Kennitala Nafn

Kr.

Lýsing
101278-3799 Sölvi Helgason 70.000 Fræðsla
140774-4129 Guðrún Heiða Guðmundsdóttir 12.000 Táknmálstúlkun
170971-4189 Axel Hall 100.000 Ráðgjöf
410283-0349 Terra umhverfisþjónusta 9.796 Losun á tunnum
411199-2749 Öryggismiðstöðin 101.525 Vöktun á öryggiskerfi
461206-0850 Markaðs- og miðlarannsóknir ehf. 114.400 Marktektarprófanir
500101-2880 Hugsmiðjan ehf. 65.059 Aðstoð við heimasíðu
500810-0680 CEO HUXUN ehf. 445.198 Mannauðsmælingar
500902-3530 One Systems Ísland ehf 859.265 Uppfærsla á skjalakerfi o.fl.
501073-0249 Pipar/TBWA – Eignarhald ehf. 1.542.196 Hugmyndavinna, hönnun og uppsetning
520110-1350 Lagastoð lögfræðiþjónusta ehf. 9.352.820 Lögfræðiþjónusta
530117-1380 Háskólaprent 421.721 Prentun
530292-2079 Origo 83.048 Upplýsingatæknivinna
530710-0170 Maskína-rannsóknir ehf 75.000 Aðgangur að markaðsrannsókn
540708-0450 Ritari ehf. 1.616.256 Símsvörunarþjónusta
541298-3049 Icetransport ehf. 7.234 Flutningur
550101-2890 Sjá ehf. 825.000 Ráðgjafaþjónusta – þarfagreining
570707-1080 ENP ehf. 90.000 Ráðgjöf
580882-0729 DHL Express Iceland ehf. 13.205 Flutningur
590515-3530 Dattaca Labs Iceland ehf. 328.900 Persónuvernd
600169-2039 Háskóli Íslands 330.000 Launagreining vegna jafnlaunavottunar
600712-0630 Skjal þjónusta ehf. 69.832 Þýðingar
640388-2699 Securitas 29.777 Úttekt á slökkvitækjum
641097-3229 Fönn – þvottaþjónustan ehf. 54.426 Þrif á mottum
650414-0390 Klettagjá ehf. 101.250 Grafísk hönnun
650806-0690 Vinnuvernd ehf. 405.266 Trúnaðarlæknisþjónusta og fjarvistaskráning
670295-2739 Samsýn ehf. 513.360 Kortagerð
681073-0199 Svansprent ehf 219.480 Prentun
690515-0590 Zenter rannsóknir ehf. 714.000 Spurningakannanir
710102-2360 Sólar ehf. 3.190.647 Ræstingar
711208-1270 Hugefli ehf. 69.650 Ráðgjöf í mannauðsmálum
711296-4099 Nortek ehf. 135.160 Vinna við aðgangsstýringu
Competition.dk 1.023.314 Ráðgjöf í samrunamálum
Samtals 22.988.785

     9.      Hver var heildarrekstrarkostnaður Samkeppniseftirlitsins á árinu 2020?
    Heildarrekstrarkostnaður Samkeppniseftirlitsins árið 2020 var 527.209.128 kr. en þá hefur verið dreginn frá launakostnaður starfsmanna Samkeppniseftirlitsins sem voru lánaðir í verkefni á vegum OECD.

     10.      Hver er ráðningartími forstjóra og aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins? Hver eru launakjör þeirra, þ.e. heildarlaun og hlunnindi?
    Forstjóri Samkeppniseftirlitsins er ráðinn af stjórn Samkeppniseftirlitsins, sbr. 1. mgr. 6. gr. samkeppnislaga. Ákvæðið tók breytingum með lögum nr. 103/2020, um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005, en samkvæmt þeim skal forstjóri ráðinn til fimm ára í senn.
    Kjör forstjóra eru ákveðin í samræmi við fyrirmæli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, um ákvörðun launa forstöðumanna ríkisstofnana. Heildarlaun forstjóra Samkeppniseftirlitsins árið 2020 voru 20.509.557 kr. Engin hlunnindi fylgja starfinu önnur en þau að hann fær greiddan kostnað vegna farsíma og nets sem hann notar í starfi sínu.
    Aðstoðarforstjóri er ráðinn af forstjóra Samkeppniseftirlitsins og er hann ráðinn til starfa ótímabundið og með gagnkvæmum uppsagnarfresti, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Heildarlaun aðstoðarforstjóra árið 2020 voru 21.183.450 kr. Engin hlunnindi fylgja starfinu önnur en þau að hann fær greiddan kostnað vegna farsíma sem hann notar í starfi sínu.

     11.      Hefur ráðuneytið gert áætlun um vöxt Samkeppniseftirlitsins, t.d. til næstu tíu ára?
    Stefnumótun í opinberum fjármálum er unnin á grundvelli laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Skv. 6. gr. laganna felst hún í gerð fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, fjármálaáætlun og samkomulagi ríkis og sveitarfélaga. Áætlun um rekstur einstaka stofnana er unnin á grundvelli stefnumótunar málefnasviða fjármálaáætlunar. Gildandi fjármálaáætlun er fyrir árin 2021–2025 og var hún samþykkt þann 17. desember sl. sem ályktun Alþingis nr. 11/151. Í fylgiriti fjárlaga er birt áætlun um fjárveitingar til ríkisaðila í A-hluta fyrir næstu tvö ár á eftir komandi fjárlagaári. Samkvæmt fylgiriti fjárlaga 2021 er gert ráð fyrir 495 millj. kr. fjárveitingu til Samkeppniseftirlitsins á árinu 2021, 486,6 millj. kr. árið 2022 og 481,2 millj. kr. fyrir árið 2023.

     12.      Hver hefur árlegur vöxtur Samkeppniseftirlitsins verið síðustu tíu ár hlutfallslega og í krónum talið?
    Heildarútgjöld Samkeppniseftirlitsins samkvæmt ársreikningi, á verðlagi viðkomandi árs, hafa á síðustu 10 árum verið eftirfarandi:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samkvæmt framangreindu hafa heildarútgjöld Samkeppniseftirlitsins hækkað að meðaltali um 5,7% á ári, þegar ekki er tekið tilliti til verðlagsbreytinga. Séu framlögin leiðrétt fyrir fjölda ársverka nemur árleg meðaltals breyting um 3,88%.
    Á sama tímabili hefur árleg meðaltals breyting vísitölu neysluverðs numið 2,87% á ári og meðaltals breyting launavísitölu numið 6,89% á ári. Um 80% útgjalda Samkeppniseftirlitsins eru vegna launa, en 20% vegna annars. Sé búin til samsett vísitala launa og neysluverðs í sömu hlutföllum, hefur sú vísitala hækkað um 6,21% að meðaltali á ári.
    Samkvæmt framangreindu hefur vöxtur í fjárveitingum til Samkeppniseftirlitsins á síðustu tíu árum verið minni en breyting launavísitölu eða samsettrar vísitölu launa og neysluverðs á sama tímabili.

     13.      Hvað skýrir að Samkeppniseftirlitið fer ekki að lögum og skilar ársskýrslum líkt og kveðið er á um í samkeppnislögum?
    Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. samkeppnislaga skal Samkeppniseftirlitið gefa út ársskýrslu um störf sín. Ákvæðið var lögfest með lögum nr. 103/2020, um breytingu á samkeppnislögum, og tók gildi í júlí sama ár. Því reynir í fyrsta skipti á skyldu til útgáfu ársskýrslu á þessu ári.