Ferill 631. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1498  —  631. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um birtingu viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum.


     1.      Í ljósi þess að það er vilji ráðherra að koma í veg fyrir persónuverndarbrot dómstóla með birtingu viðkvæmra upplýsinga í dómum sínum, sbr. svör ráðherra við fyrirspurnum á þskj. 274 á yfirstandandi þingi og á þskj. 282 á 150. löggjafarþingi, hvað er það þá við reglur um skipan dómstólasýslunnar og um eftirlit og ábyrgð sem býður upp á að slíkar upplýsingar séu birtar, sbr. t.d. dóm héraðsdóms Reykjaness frá 10. mars sl. þar sem birtar eru viðkvæmar nafngreindar persónuupplýsingar sem rötuðu síðan í fjölmiðla?
    
Rétt er að benda fyrirspyrjanda á að ráðherra hefur í svörum sínum við fyrirspurnum um birtingu persónuupplýsinga í dómum tekið fram að hún líti það alvarlegum augum ef persónuupplýsingar í dómum fara gegn lögum um persónuvernd og að mikilvægt sé að komið sé í veg fyrir slíkt. Jafnframt hefur ráðherra í svörum sínum bent á að hún leggi mikla áherslu á að við birtingu dóma verði að gæta vel að sjónarmiðum um aðgang almennings og fjölmiðla að niðurstöðum dómstóla annars vegar og rétti manna til verndar persónulegra upplýsinga hins vegar. Þar vegast á mikilvæg réttindi.
    Í fyrirspurninni er vísað til eins tiltekins héraðsdóms og fullyrt að við birtingu hans hafi verið birtar viðkvæmar persónuupplýsingar. Af því tilefni er tekið fram að umrætt dómsmál laut að ágreiningi um eignarhald og skiptingu kaupverðs fasteignar. Í 5. gr. reglna dómstólasýslunnar, nr. 3/2019, um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna, er fjallað um þær dómsúrlausnir sem ekki skulu birtar á vefsíðum dómstólanna. Ekki verður séð að umrætt dómsmál falli þar undir og var birtingin því í samræmi við framangreindar reglur. Þá er vakin athygli á að í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, kemur fram hvaða upplýsingar falla undir hugtakið „viðkvæmar persónuupplýsingar“ í skilningi laganna. Við birtingu framangreinds dóms komu ekki fram upplýsingar sem falla þar undir. Ekki verður séð að skipan dómstólasýslunnar og reglur um eftirlit og ábyrgð bjóði á einhvern hátt upp á að viðkvæmar upplýsingar séu birtar í dómum.

     2.      Er persónuverndarfulltrúi dómstólasýslunnar ekki með hefðbundið hlutverk persónuverndarfulltrúa gagnvart hverjum og einum dómstóli?
    Persónuverndarfulltrúi dómstólanna, sem dómstólasýslan hefur tilnefnt, starfar í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og persónuverndarreglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679. Á meðal verkefna hans er að upplýsa ábyrgðaraðila og starfsmenn um skyldur sínar samkvæmt þeirri löggjöf og veita ráðgjöf. Þá fylgist persónuverndarfulltrúi dómstólanna með því að farið sé eftir ákvæðum laganna og reglugerðarinnar. Verkefnum persónuverndarfulltrúa er að öðru leyti lýst í 37.–39. gr. framangreindrar reglugerðar og gilda þau ákvæði um persónuverndarfulltrúa dómstólanna.


     3.      Telur dómstólasýslan sig ekki hafa heimild til að stöðva brotin og grípa inn í?
    Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglna um birtingu dóma og úrskurða, nr. 3/2019, ber hver dómstóll fyrir sig ábyrgð á því að útgáfa dómsúrlausna sé í samræmi við reglurnar. Framkvæmdin er sú að hver og einn héraðsdómari útbýr sína dóma til birtingar á vef dómstólanna eða tekur ákvörðun um að ekki skuli birta dóm á grundvelli fyrrgreindra reglna. Þótt í 38. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, komi fram að dómstólasýslan hafi umsjón með útgáfu dóma og úrskurða héraðsdómstóla felur það samkvæmt framansögðu í ekki sér að dómstólasýslan annist útgáfu þeirra eða sé ætlað að sinna daglegu eftirliti með birtingu á vefsíðum dómstólanna. Persónuvernarfulltrúi dómstólanna gerir hins vegar ábyrgðaraðilanum viðvart verði hann var við öryggisbrest við birtingu dóms.

     4.      Hver ber ábyrgð á þessum brotum dómstóla?
    Í úrskurði Persónuverndar nr. 2016/1783 kemur fram að hver og einn dómstóll teljist vera ábyrgðaraðili á birtingu dóms sem kveðinn er upp hjá þeim dómstóli. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/2018 og 1. mgr. 33. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, hvílir skylda á ábyrgðaraðila til að tilkynna um öryggisbrest til Persónuverndar. Persónuvernarfulltrúi gerir hins vegar ábyrgðaraðilanum viðvart verði hann var við öryggisbrest við birtingu dóms.

     5.      Telur ráðherra að endurskoða þurfi lagaramma um skipan dómstólasýslunnar, eftirlitshlutverk hennar gagnvart dómstólum og forstöðumönnum þeirra og ábyrgð dómstólasýslunnar og forstöðumanna dómstóla á að stjórnsýsla dómstóla fari að lögum?
    Í skýrslu ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu dómstólanna frá árinu 2020, kemur fram að kanna þurfi hvort mæla ætti nánar fyrir í lögum um eftirlit dómstólasýslunnar með stjórnsýslu dómstólanna. Meta þurfi hvort lögfesta eigi heimild til að vísa ákvörðunum sem að stjórnsýslunni lúta til dómstólasýslunnar. Jafnframt var tekið fram að slíkar breytingar þyrftu að leiða til aukins samræmis í framkvæmd milli dómstólanna og efla réttaröryggi í stjórnsýslu þeirra bæði fyrir borgarana og starfsmenn dómstólanna. Ráðuneytið hefur þessa tillögu ríkisendurskoðunar til athugunar.

     6.      Hvað hefur ríkið greitt samtals háar bætur vegna ólögmætra dómabirtinga? Hefur ráðuneytið skoðað umfang persónuverndarbrota dómstóla fyrir og eftir úrskurði Persónuverndar árið 2017 og áætlað umfang og fjárhæð bóta sem ríkið getur þurfa að greiða einstaklingum vegna brotanna?
    Samtals hafa verið greiddar 3.300.000 kr. í bætur. Önnur þau atriði sem spurt er um undir þessum tölulið hafa ekki verið tekin til sérstakrar athugunar.