Ferill 632. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1527  —  632. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um leiðsöguhunda.


     1.      Hvað líður störfum samráðshóps sem ráðherra boðaði að hann hygðist skipa á 80 ára afmæli Blindrafélagsins til að vinna úr tillögum sem fram komu í skýrslunni Leiðsöguhundar á Íslandi: Fortíð og framtíð?
    Frá árinu 2010 hefur Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu (Miðstöðin) og forverar hennar séð um úthlutun á leiðsöguhundum. Leiðsöguhundar eru skilgreindir sem hjálpartæki samkvæmt reglugerð um úthlutun á hjálpartækjum á vegum Miðstöðvarinnar nr. 233/2010. Úthlutun er fylgt eftir með þjálfun hjá sérþjálfuðum hundaþjálfurum og umferliskennurum. Samkvæmt reglugerðinni fylgir úthlutun mat á aðstæðum einstaklinga og mat á pörun einstaklings og leiðsöguhunds. Fjöldi hunda sem er úthlutað á hverju ári er ákveðinn af Miðstöðinni fyrir eitt ár í senn. Þeir sem sækja um leiðsöguhund verða að vera eldri en 19 ára á því ári sem úthlutun fer fram.
    Frá árinu 2016 hefur Miðstöðin unnið að því með Blindrafélaginu að formgera sérstaka nefnd/starfshóp sem annast úthlutun leiðsöguhunda. Starf þeirrar nefndar hefur aukist að umfangi og frá árinu 2020 hefur nefndin verið samráðsvettvangur um greiningu á þörf fyrir fjölda leiðsöguhunda. Jafnframt hefur nefndin fjallað um fyrirkomulag við kaup á hundum og samskipti við þann aðila sem útvegar hundana. Í nefndinni situr forstjóri Miðstöðvarinnar og skrifstofustjóri hennar, fulltrúi Blindrafélagsins, þ.e. framkvæmdastjóri, og einn óháður fagaðili. Inn á fundina koma eftir atvikum leiðsöguhundaþjálfari og fagstjóri adl-umferlis á Miðstöðinni.
    Ráðherra lítur svo á að með starfi þess samráðshóps sem áður er getið hafi verið unnið að framþróun er lýtur að málefnum leiðsöguhunda og þeirra tillagna sem fram koma í fyrrgreindri skýrslu.

     2.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið í framhaldi af útgáfu skýrslunnar til að festa leiðsöguhunda í sessi sem umferlishjálpartæki?
    Á árinu 2020 voru níu virkir leiðsöguhundar í notkun hjá notendum Miðstöðvarinnar. Fyrir lok ársins 2021 verða þeir alls 13. Á árinu 2022 er stefnt að því að úthluta þremur nýjum leiðsöguhundum. Árin eftir það er horft til þess að fá inn tvo til þrjá nýja hunda á ári, líkt og gert er ráð fyrir í skýrslu Blindrafélagins. Áætlað er að á næstu tveimur árum þurfi að endurúthluta og setja hunda á eftirlaun (þrír hundar). Endurnýja þarf hunda til notenda á tíu ára fresti (starfstími leiðsöguhunds er tíu ár og síðan fer hann á eftirlaun). Það þýðir að endurnýja þarf sjö leiðsöguhunda á nk. tíu árum.
    Verkefnið um leiðsöguhunda er viðamikið og töluverð vinna er því samfara þegar hundur er kominn í hendur Miðstöðvarinnar og að lokum til notanda. Samþjálfun leiðsöguhunds og notanda tekur um sex til átta vikur. Eftir það tekur við viðhald og eftirlit. Tryggja þarf hvern hund og síðan þarf reglulegt eftirlit dýralæknis. Miðstöðin hefur því á áætlun að auka við starfshlutfall starfsmanns.
    Það er mat miðstöðvarinnar að rétt sé að festa í sessi stöðu leiðsöguhunda sem umferlishjálpartækja. Miðstöðin mun áfram vinna að því sem áhersluverkefni í starfsáætlunum sínum.