Ferill 603. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1685  —  603. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um félög til almannaheilla.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ingvar J. Rögnvaldsson, Ragnheiði Guðnadóttur og Sigríði Líneyju Lúðvíksdóttur frá Skattinum, Jónas Guðmundsson og Ómar H. Kristmundsson frá Almannaheillum, samtökum þriðja geirans, Lárus L. Blöndal, Líneyju R. Halldórsdóttur og Birki Smára Guðmundsson frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Breka Karlsson frá Neytendasamtökunum, Guðmund Löve og Stefán Örn Stefánsson frá SÍBS og Bergþór Heimi Þórðarson og Lilju Þorgeirsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Umsagnir bárust frá Almannaheillum, samtökum þriðja geirans, Alþýðusambandi Íslands, Barnaheillum, Bindindissamtökunum IOGT, FRÆ – fræðslu og forvörnum, Hagsmunasamtökum heimilanna, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Krabbameinsfélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Öryrkjabandalagi Íslands, Rauða krossinum á Íslandi, Ríkisendurskoðun, SÍBS, Skattinum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Ungmennafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildi taki ný heildarlög þar sem komið verði á nýju félagaformi félaga til almannaheilla og því mótaður lagarammi þar sem fram komi reglur um stofnun, meginefni samþykkta, félagsaðild, ákvarðanatöku og stjórnun slíkra félaga.

Umfjöllun nefndarinnar.
Hæfisskilyrði stjórnarmanna.
    Í umsögnum sem bárust nefndinni komu fram athugasemdir við skilyrði 19. gr. frumvarpsins um að stjórnarmenn félaga til almannaheilla skuli vera lögráða. Við umfjöllun nefndarinnar um málið á 150. löggjafarþingi (181. mál) voru athugasemdir sama efnis teknar til skoðunar af nefndinni. Í umsögnum um málið á 150. löggjafarþingi kom fram að skilyrði um lögræði geti verið íþyngjandi fyrir félög sem byggja starfsemi sína á aðkomu ungs fólks, líkt og Samband íslenskra framhaldsskólanema.
    Nefndin bendir á að samkvæmt frumvarpinu er stjórnarmanni í félagi til almannaheilla ætlað nokkuð umfangsmikið hlutverk í tengslum við fjárhagslegar ráðstafanir. T.d. ber stjórn ábyrgð á því að tryggja eftirlit með bókhaldi félags og ber ábyrgð á samningu ársreiknings fyrir hvert reikningsár. Þá skal stjórnin sjá til þess að fjármunum félagsins sé ráðstafað á forsvaranlegan hátt í samræmi við tilgang félagsins. Telur nefndin ljóst að gera verði þá kröfu til þeirra sem fara með slíka ábyrgð að þeir séu fjár síns ráðandi.
    Í minnisblaði ráðuneytisins um málið, dags. 31. maí 2021, segir að við undirbúning málsins hafi verið skoðað hvort rétt væri að leggja til að einstaklingar undir 18 ára aldri gætu setið í stjórn félaga til almannaheilla ef viðkomandi kemur ekki að neinum ákvörðunum sem varða fjárhagslegar skuldbindingar félagsins. Fram kemur að skortur á lögræði falli illa að þeirri ábyrgð sem almennt er gert ráð fyrir að stjórnarmenn í félögum hafi, t.d. gagnvart félagsmönnum og gagnvart þriðja aðila, svo sem viðsemjendum félags.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Stofnsamningur (4. gr).
    Í 3. málsl. 4. gr. er kveðið á um að stofnsamningur skuli vera undirritaður af stofnendum félags. Í umsögn Skattsins um málið kemur fram að eðlilegt sé að höfð verði hliðsjón af 3. gr. laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, þar sem kveðið er á um að stofnsamningur skuli undirritaður af a.m.k. þremur lögráða félagsmönnum. Bendir Skatturinn á að stofnendur félaga til almannaheilla geti jafnvel numið hundruðum og íþyngjandi væri fyrir félög að afla undirritunar allra stofnenda. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til breytingu til samræmis við framangreint.

Samþykktir (5. gr.).
    Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um þau atriði sem tilgreina skuli í samþykktum félaga til almannaheilla. Í b-lið segir að tilgreina skuli tilgang félagsins. Í umsögn Skattsins kemur fram að ætla verði að félag sé ekki drifið áfram af sjálfboðavinnu einni saman, í þeim tilvikum þyrfti að geta þess með hvaða hætti staðið skuli að fjáröflun til starfseminnar og hvernig skuli staðið að ráðstöfun þeirra fjármuna sem aflað hefur verið. Vísar Skatturinn til 4. mgr. 19. gr. þar sem fram kemur að stjórn skuli sjá til þess að fjármunum félagsins sé ráðstafað á forsvaranlegan hátt í samræmi við tilgang þess. Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til að með tilgangi félags skuli tilgreina fjármögnun og ráðstöfun fjármuna.

Tilkynning um félag (29. gr).
    Í umsögn sinni um málið leggst Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands gegn samþykkt frumvarpsins í núverandi mynd. Nánar tiltekið lýtur gagnrýni sambandsins að því að ÍSÍ, félög, sérsambönd, íþróttahéruð og önnur starfsemi sem fellur undir íþróttalög, nr. 64/1998, eigi að teljast til almannaheillastarfsemi í skilningi frumvarpsins en eigi að vera óbundin af formreglum frumvarpsins. Í því sambandi hefur ÍSÍ bent á, við umfjöllun um málið á fyrri löggjafarþingum, að sambandið og sérsambönd innan vébanda þess séu í mörgum tilfellum bundin af reglum alþjóðlegra sérsambanda auk þess sem ólympíuhluti hreyfingarinnar sé bundinn af Ólympíusáttmálanum. ÍSÍ og aðilar innan vébanda sambandsins kunni því að falla illa að þeim formreglum sem kveðið er á um í lögunum.
    Nefndin bendir á að skv. 2. gr. frumvarpsins geta ríkið, sveitarfélög, opinberar stofnanir og lögaðilar sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera gert það að skilyrði fyrir styrkjum, rekstrarsamningum og opinberum leyfum til félaga að þau séu skráð í almannaheillafélagaskrá. Framangreint ákvæði fellur illa að því skilyrði að íþróttafélög skv. 5. gr. íþróttalaga geti eingöngu fengið skráningu í almannaheillafélagaskrá að gættum formskilyrðum laganna. Leggur nefndin því til að sérreglu verði bætt við 29. gr. þess efnis að heimilt verði að skrá félög skv. 5. gr. íþróttalaga í almannaheillafélagaskrá þótt ekki sé tekið fram í samþykktum þeirra að þau séu félög til almannaheilla. Um tilkynningu fer skv. 2.–4. mgr. 29. gr. Gert er ráð fyrir því að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og aðilar innan vébanda þess verði ekki bundnir af formreglum laganna.
    Nefndin leggur til að skylda til að senda almannaheillafélagaskrá birtingargjald skv. 2. mgr. 29. gr. falli brott, enda er ekki gert ráð fyrir að aðalefni skráningar félaga til almannaheilla verði birt í Lögbirtingablaði, sbr. minnisblað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um málið, dags. 31. maí 2021, og umsögn Skattsins.

Gildistaka (36. gr.).
    Í umsögn Skattsins er bent á að frumvarpið á ýmsa snertifleti við lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla), nr. 32/2021, sem öðlast gildi 1. nóvember 2021. Eðlilegt sé að gildistaka laga um félög til almannaheilla miðist við sömu dagsetningu. Með vísan til þess og til þess að veita Skattinum rýmra svigrúm til þess að innleiða þær nýjungar sem kveðið er á um í frumvarpinu leggur nefndin til að gildistaka frumvarpsins verði 1. nóvember 2021.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. bætist: sbr. þó 5. mgr. 29. gr.
     2.      Í stað orðanna „stofnendum félagsins“ í 3. málsl. 4. gr. komi: a.m.k. þremur lögráða félagsmönnum.
     3.      Við b-lið 5. gr. bætist: þ.m.t. fjármögnun og ráðstöfun fjármuna.
     4.      2. málsl. 1. mgr. 17. gr. orðist svo: Sama gildir um ákvörðun sem samkvæmt efni sínu rýrir sérstaka hagsmuni sem félagsmaður á samkvæmt samþykktum félagsins eða sem raskar jafnræði félagsmanna.
     5.      Við 29. gr.
                  a.      Í stað orðanna „skráningar- og birtingargjöldum“ í 2. mgr. komi: skráningargjöldum.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. er heimilt að skrá félög skv. 5. gr. íþróttalaga í almannaheillafélagaskrá þótt ekki sé tekið fram í samþykktum þeirra að þau séu félög til almannaheilla. Skal um tilkynningu til almannaheillafélagaskrár í slíkum tilvikum fara skv. 2.–4. mgr.
     6.      36. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 2021.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Smári McCarthy rita undir nefndarálitið með fyrirvara sem þeir hyggjast gera grein fyrir í þingræðu.

Alþingi, 8. júní 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
með fyrirvara.
Smári McCarthy,
með fyrirvara.
Þórarinn Ingi Pétursson.