Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 242  —  3. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn Steinar Örn Steinarsson, Írisi Hönnuh Atladóttur, Benedikt Axel Ágústsson, Guðrúnu Ingu Torfadóttur, Hlyn Ingason og Guðlaugu Maríu Valdemarsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elísabetu Önnu Jónsdóttur og Arnar Frey Einarsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ingvar J. Rögnvaldsson, Theodóru Emilsdóttur og Jóhönnu Láru Guðbrandsdóttur frá Skattinum. Steindór Haraldsson, Óskar Magnússon og Valgerði Sverrisdóttur frá Sóknasambandi Íslands, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Róbert Farestveit og Arnald Sölva Kristjánsson frá Alþýðusambandi Íslands, Benedikt S. Benediktsson frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Jóhannes Jóhannesson frá Bílgreinasambandinu, Björgu Ástu Þórðardóttur, Ingólf Bender, Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur og Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Þóreyju S. Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Ólaf K. Ólafsson frá Lífeyrissjóði bænda, Ólaf Pál Gunnarsson frá Lífeyrissjóði Tannlæknafélags Íslands, Tryggva Felixson frá Landvernd, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Bergþór Heimi Þórðarson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Aðalgeir Ásvaldsson, Hrefnu Björk Sverrisdóttur og Emil Helga Lárusson frá Samtökum fyrirtækja í veitingarekstri, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá BSRB, Sigurð Inga Friðleifsson frá Orkusetri, Odd Ás Garðarsson, Erlu Guðmundsdóttur og Söru Sigurðardóttur frá Seðlabanka Íslands.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bílgreinasambandinu, Samtökum ferðaþjónustunnar og SVÞ – samtökum verslunar og þjónustu, Biskupsstofu, BSRB, Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Landssamtökum lífeyrissjóða, Landvernd, Lífeyrissjóði bænda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóði Tannlæknafélags Íslands, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Samtökum sjálfstæðra skóla, Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og Festu lífeyrissjóði, Sóknasambandi Íslands og Vantrú.
    Nefndinni bárust minnisblöð frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og félagsmálaráðuneyti.

Umfjöllun nefndarinnar.
Tímabundnar ívilnanir vegna tengiltvinnbifreiða.
    Í ákvæði til bráðabirgða XXIV við lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er kveðið á um heimild til þess að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í ákvæðinu við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar. Ákvæðið gildir jafnframt um niðurfellingu virðisaukaskatts við innflutning, fyrstu sölu og endursölu notaðrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar enda sé ökutækið þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu. Frá 1. janúar 2022 mun fjárhæð virðisaukaskattsívilnunar vegna tengiltvinnbifreiða lækka úr 960.000 kr. á hverja bifreið í 480.000 kr. og ívilnunin falla að fullu úr gildi frá og með sjötta virka degi næsta almanaksmánaðar eftir að 15.000 slíkar bifreiðar, sem notið hafa ívilnana, hafa verið skráðar á ökutækjaskrá.
    Í sameiginlegri umsögn Bílgreinasambandsins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka verslunar og þjónustu kemur fram að niðurfelling ívilnunarinnar muni orsaka hliðstæða hækkun á útsöluverði tengiltvinnbifreiða sem muni draga úr líkum á að einstaklingar og fyrirtæki, þar með taldar ökutækjaleigur, kaupi tengiltvinnbifreiðar. Jafnframt er bent á að aðrar ívilnanir sem nýtast ökutækjaleigum tengist með beinum hætti framangreindri ívilnun vegna tengiltvinnbifreiða. Í umsögninni er nefndin hvött til þess að taka m.a. til skoðunar að framlengja ívilnunina þannig að heimilt verði að fella niður virðisaukaskatt að hámarki að 960.000 kr. til og með 31. desember 2022 auk þess sem fjöldatakmörkunin á bifreiðunum verði hækkuð.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis um málið kemur fram ítarleg afstaða þess til ábendinga samtakanna og vísar meiri hlutinn til þeirrar umfjöllunar. Meiri hlutinn tekur undir ábendingar ráðuneytisins þess efnis að mikilvægt sé að beina áherslum í orkuskiptum að fjölgun hreinna raforkubifreiða og uppbyggingu innviða vegna þeirra. Í ljósi þess kostnaðar sem áframhaldandi ívilnanir vegna tengiltvinnbifreiða hafa í för með sér fyrir ríkissjóð telur meiri hlutinn ekki tilefni til þess að framlengja ívilnanir vegna þeirra frekar. Að auki bendir meiri hlutinn á að gildandi ívilnunarkerfi hefur verið heimilað af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), breytingar á ákvæðinu krefðust því frekara samráðs við stofnunina.

Lenging tímabila lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis.
    Við umfjöllun nefndarinnar barst nefndinni minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem fram kom beiðni um að nefndin legði til breytingu þess efnis að bætt yrði við búvörulög, nr. 99/1993, ákvæði til bráðabirgða sem kvæði á um lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis á tilteknum tímabilum. Ákvæðinu er ætlað að tryggja nægjanlegt framboð blómkáls, gulróta, hvítkáls, rauðkáls, selju, spergilkáls og kartaflna á tilteknum tímabilum til hagsbóta fyrir neytendur og draga úr líkum á tímabundnum verðhækkunum vegna álagningar tolla þegar innlent vöruframboð er ekki nægjanlegt.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins um málið er bent á að eðlilegra sé að nefndin leggi ákvæðið til sem breytingu við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (gjalddagar, refsinæmi o.fl.), 4. mál. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið ráðuneytisins og hyggst leggja til breytingu á því frumvarpi.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Bifreiðagjald (9. gr.).
    Í 2. mgr. 2. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, er kveðið á um fjárhæð bifreiðagjalds. Í 2. málsl. segir að hafi koltvísýringslosun ökutækis verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni skuli miða við skráða koltvísýringslosun samkvæmt evrópsku aksturslotunni. Í 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til hækkanir á bifreiðagjaldi skv. 2. mgr. 2. gr. laganna um 2,5% vegna verðlagsbreytinga.
    Í 18. gr. frumvarps til laga um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld (gjalddagar, refsinæmi o.fl.) 4. mál, sem nefndin hefur fjallað um samhliða málinu, er lögð til sú efnisbreyting á 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna að sé losun skráð samkvæmt báðum aðferðum skuli miða við skráða koltvísýringslosun samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni. Meiri hlutinn bendir á að ósamræmis gætir á milli þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvörpunum tveimur þar sem í fyrra frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir þeirri efnisbreytingu sem lögð er til í síðara frumvarpinu. Til einföldunar og til þess að tryggja samræmi í breytingum á ákvæðinu leggur meiri hlutinn til að þær breytingar sem lagðar eru til á 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. skv. 18. gr. frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld verði felldar inn í 9. gr. þessa frumvarps. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um skatta og gjöld (gjalddagar, refsinæmi o.fl.) er lögð til breyting til samræmis.
    Meiri hlutinn leggur til að fasti hluti bifreiðagjaldsins (lágmarksbifreiðagjald) hækki um 1.000 kr. til viðbótar við það sem lagt er til í frumvarpinu.

Eftirlitsgjald lífeyrissjóða (11. gr.).
    Í 11. gr. frumvarpsins er m.a. lögð til breyting á eftirlitsgjaldi lífeyrissjóða þannig að þáttur fastagjalds í heildarálagningu lífeyrissjóða verði hækkaður úr 60% í 70%. Í umsögnum sem bárust nefndinni, m.a. frá Lífeyrissjóði bænda og Lífeyrissjóði Tannlæknafélags Íslands, er m.a. gerð athugasemd við það fyrirkomulag að svo stórum hluta gjaldsins sé skipt jafnt á sjóðina, enda feli fyrirkomulagið í sér að hlutfall fastagjaldsins af heildarálagningu er hærra hjá minni lífeyrissjóðum en þeim eignameiri. Meiri hlutinn telur að svo stöddu ekki forsendur fyrir því að þáttur fastagjalds í heildarálagningu lífeyrissjóða verði hækkaður með þeim hætti sem gert er ráð fyrir og leggur til breytingu þess efnis að hlutfall fastagjaldsins af heildarálagningu verði óbreytt, eða 60%.
    Meiri hlutinn áréttar það sem fram kom í nefndaráliti meiri hluta þáverandi efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021 (5. mál á 151. löggjafarþingi) um mikilvægi þess að fram fari endurskoðun á fyrirkomulagi eftirlitsgjalds með tilliti til þess að tryggja frekar jafnræði milli ólíkra lífeyrissjóða og sanngjarna skiptingu gjaldsins.

Lækkun skerðingarhlutfalls örorkulífeyris (ný 17. gr.).
    Meiri hlutinn leggur til í samráði við félagsmálaráðuneytið að skerðingarhlutfall örorkulífeyris, skv. 5. mgr. 18. gr. laga um almanntryggingar, lækki úr 25% í 11%. Í 3. kafla minnisblaðs félagsmálaráðuneytisins segir að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2022 sé gert ráð fyrir að bætur örorkulífeyrisþega hækki um 5,6%. Sú breyting muni að óbreyttu leiða til þess að svokallað „fall á krónunni“ muni aukast, þannig að hækkun á tekjum lífeyrisþega um eina krónu geti leitt til þess að hann missi rétt til greiðslu örorkulífeyris og tengdra greiðslna. Breytingartillögunni er ætlað að stemma stigu við framangreindum vanda og fyrirbyggja að örorku- og endurhæfingalífeyrisþegar geti misst háar bótafjárhæðir við það eitt að tekjur þeirra hækki smávægilega. Meiri hlutinn vísar til nánari umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins.

Sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna þeirra sem fá greiddan hálfan ellilífeyri (18. gr.).
    Meiri hlutinn leggur til í samráði við félagsmálaráðuneytið að sett verði sérstakt frítekjumark á atvinnutekjur einstaklinga sem fá greiddan hálfan ellilífeyri. Í 18. gr. frumvarpsins er lagt til að frítekjumark á atvinnutekjur þeirra sem fá greiddan fullan ellilífeyri verði hækkað úr 1.200.000 kr. á ári í 2.400.000 kr. Til að hálfur lífeyrir geti nýst sem skyldi er lagt til að samtímis verði lögfest sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna þeirra sem fá greiddan hálfan ellilífeyri sem nemi sömu fjárhæð. Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins um málið.

Bráðabirgðaákvæði við lög um almannatryggingar, nr. 100/2007 – leiðrétting (19. gr.).
    Á 151. löggjafarþingi samþykkti Alþingi lög um breytingu á lögum um slysatryggingu almannatrygginga, sbr. 424. mál á því þingi. Lögin öðlast gildi 1. janúar 2022. Í 19. gr. frumvarpsins sem varð að lögunum var kveðið á um breytingar á öðrum lögum og í d-lið 2. tölul. þeirrar greinar var lagt til að við lög um almannatryggingar, nr. 100/2007, bættist bráðabirgðaákvæði þar sem fjallað yrði um eftirstöðvar greiðslna til bótaþega sem þegar nytu bótaréttar samkvæmt lögunum og fleiri þætti sem nauðsynlegt var að kveða á um vegna lagaskila. Við umfjöllun um frumvarpið í velferðarnefnd benti Tryggingastofnun nefndinni á að 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins væri óþörf þar sem hún innihéldi almennt ákvæði sem þegar leiddi af lögunum. Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um málið (þingskjal 1643 á 151. löggjafarþingi) var tekið undir ábendingu Tryggingastofnunar en fyrir mistök lagt til að bráðabirgðaákvæðið sem kveðið var á um í d-lið 2. tölul. 19. gr. frumvarpsins félli brott í heild sinni en ekki aðeins 1. mgr. þess.
    Nauðsynlegt er að efni bráðabirgðaákvæðisins öðlist lagagildi um komandi áramót, samhliða gildistöku laga nr. 108/2021. Í þessu skyni er lögð til breyting á 19. gr. frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar þess efnis að nýtt bráðabirgðaákvæði bætist við lög um almannatryggingar.

Sóknargjöld (23. gr.).
    Í 23. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að föst krónutala sóknargjalda verði 985 kr. á mánuði árið 2022 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Um er að ræða undanþágu frá meginreglu laganna að fjárhæð sóknargjalda breytist í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga.
    Meiri hlutinn bendir á að í greinargerð frumvarpsins virðist gæta misskilnings en þar segir um 23. gr. að lagt sé til að föst krónutala hækki úr 980 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 985 kr. eða um 0,5%. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XIV við lögin nam sóknargjald 1.080 kr. á mánuði árið 2021. Er því lagt til í frumvarpinu að sóknargjöld lækki.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að sóknargjöld verði 1107 kr. á mánuði árið 2022 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Hækkunin nemi því 2,5% sem er í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

Jöfnunargjald vegna dreifingar raforku (ný 54. gr.).
    Í 3. mgr. 3. gr. a laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004, kemur fram að fjárhæð jöfnunargjalds vegna dreifingar raforku sé 0,34 kr. á hverja kílóvattstund en að fjárhæð jöfnunargjalds vegna skerðanlegs flutnings raforku sé 0,11 kr. á hverja kílóvattstund. Vegna aukins framlags ríkissjóðs til jöfnunar dreifingarkostnaðar í fjárlögum, sem færist á gjaldahlið fjárlaga, er nauðsynlegt að hækkun eigi sér stað á tekjuhlið til að mæta auknum kostnaði við dreifingu raforku. Vegna þessa er þörf á að hækka annars vegar fjárhæð jöfnunargjalds á hverja kílóvattstund og hins vegar fjárhæð jöfnunargjalds vegna skerðanlegs flutnings raforku. Samkvæmt útreikningum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er tekjuþörfin 247,2 millj. kr. Af því leiðir að nauðsynlegt er að hækka fjárhæð jöfnunargjalds á hverja kílóvattstund (forgangsorku) úr 0,34 kr. í 0,41 kr. Á sama hátt er þörf á að hækka fjárhæð jöfnunargjalds vegna skerðanlegs flutnings raforku úr 0,11 kr. í 0,13 kr.

Gildissvið laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020 (nýjar greinar, 55.–58.).
    Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, taka skv. 1. mgr. 1. gr. laganna til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 31. desember 2021. Í minnisblaði félagsmálaráðuneytisins leggur ráðuneytið til að tímabilið sem lögin taka til verði framlengt til 31. desember 2022. Í því sambandi er bent á að alls óvíst er hversu lengi til viðbótar sóttkví verð beitt af hálfu heilbrigðisyfirvalda til þess að hefta útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Í samræmi við framangreinda breytingu er í minnisblaðinu lagt til að kveðið verði á um það í 8. gr. laganna að Vinnumálastofnun skuli miða fjárhæð greiðslna við undanfarandi tekjuár í stað tekjuársins 2019 þegar meðaltekjur sjálfstætt starfandi einstaklinga eru fundnar.
Þá leggur ráðuneytið til að við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að atvinnurekendur sem fá greidda styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku launamanns í vinnumarkaðsúrræði eigi ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögunum vegna sama launamanns á sama tímabili og fyrrnefndir styrkir eiga við um.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreindar tillögur ráðuneytisins og gerir þær að sínum.

Álag á grunnatvinnuleysisbætur vegna framfærslu barna (ný 59. gr.).
    Í kafla 2 í minnisblaði félagsmálaráðuneytisins er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða XV við lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, verði framlengdur til og með 31. desember 2022 þannig að á árinu 2022 verði áfram miðað við að sá sem telst tryggður skv. III. og IV. kafla laganna og hefur framfærsluskyldu gagnvart börnum yngri en 18 ára skuli eiga rétt á 6% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni eigi hann einungis rétt til grunnatvinnuleysisbóta eða þegar að loknu tímabili tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreinda tillögu ráðuneytisins og gerir hana að sinni.

Allir vinna (ný 60. gr.).
    Með lögum nr. 25/2020 og lögum nr. 37/2020 voru fest tímabundið í lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, ný og aukin úrræði sem heimila endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna tiltekinnar vinnu, en saman hafa þessi úrræði verið nefnd „Allir vinna“. Kveðið er á um úrræðin í ákvæði til bráðabirgða XXXIII í lögum um virðisaukaskatt.
    Samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins er áformað að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um virðisaukaskatt á árinu 2022, þ.m.t. ákvæðum um virðisaukaskatt í byggingariðnaði og að fyrirkomulag skattskyldu í iðnaðinum verði skoðað heildstætt. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að í þeirri vinnu verði jafnframt mörkuð skýr stefna til framtíðar um fyrirkomulag endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds.
    Meiri hlutinn telur ekki tímabært að svo stöddu að fyrirkomulag endurgreiðslu vegna vinnu manna eins og það er útfært í ákvæði til bráðabirgða XXXIII við lög um virðisaukaskatt verði með öllu fellt niður. Leggur meiri hlutinn því til að úrræðið verði framlengt til og með 31. ágúst 2022 að því er varðar endurgreiðslu vegna vinnu iðnaðar og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis. Frá og með 1. september 2022 miðist endurgreiðslan við 60%, sbr. 2. mgr. 42. gr. laganna. Ívilnun vegna vinnu við aðra þætti sem tilgreindir eru í ákvæðinu, þ.e. vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur frístundahúsnæðis, og húsnæðis í eigu sveitarfélaga, vinnu við hönnun og eftirlit með byggingu, endurbótum og viðhaldi og frístundahúsnæðis og vinnu manna vegna heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis, verði framlengd til og með 30. júní 2022. Á hinn bóginn falli niður frá og með 1. janúar 2022 endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna við bílaviðgerðir, bílamálningu eða bílaréttingar fólksbifreiða.
    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 20. desember 2021.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.