Ferill 112. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 260  —  112. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um búningsaðstöðu og salerni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig hefur ráðherra komið því á framfæri við félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra annars vegar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hins vegar að þeir flýti endurskoðun stjórnsýslufyrirmæla um búningsaðstöðu og salerni svo að þau samræmist betur lögum um kynrænt sjálfræði, sbr. svar við fyrirspurn á 150. löggjafarþingi (þskj. 2124, 991. mál)?
     2.      Hvenær áætlar ráðherra að þeirri endurskoðun verði lokið svo að tryggja megi að fólk búi við jafna aðstöðu að þessu leyti óháð kyni?


    Í tilvísuðu svari á þskj. 2124 á 150. löggjafarþingi kemur meðal annars fram að ráðherra telur engum vafa undirorpið að eftir gildistöku laga um kynrænt sjálfræði verði jafnframt að gera ráð fyrir þeim sem kjósa að hafa hlutlausa skráningu kyns í lagaákvæðum, reglugerðum og reglum sem fela í sér kyngreiningu (karl, kona). Þá kemur fram að stjórnsýslufyrirmæli um búningsaðstöðu og salerni, sem heyra nú undir málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra annars vegar og félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra hins vegar, sæta endurskoðun í einhverjum tilvikum hjá hlutaðeigandi ráðuneytum.
    Fulltrúar forsætisráðuneytisins hafa átt í samskiptum við fulltrúa ráðuneytanna um málið og meðal annars setið fund með fulltrúum félagsmálaráðuneytis um setningu stjórnsýslufyrirmæla um efnið. Fyrirspurnum um það hvað líður vinnu við endurskoðun á lögum, reglugerðum og reglum í tengslum við búningsaðstöðu og salerni hefur þegar verið beint að hlutaðeigandi ráðherrum, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og 113. og 114. mál á yfirstandandi löggjafarþingi, og vísast að öðru leyti til svara við þeim fyrirspurnum um framvindu málsins.