Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 527  —  372. mál.




Fyrirspurn


til innviðaráðherra um skoðun á fjármálum Reykjavíkurborgar.

Frá Kjartani Magnússyni.


     1.      Hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og/eða ráðuneyti sveitarstjórnarmála tekið fjármál Reykjavíkurborgar til sérstakrar skoðunar í ljósi skuldastöðu borgarinnar og langvarandi ósjálfbærs rekstrar hennar og ef svo er, hvernig fór sú skoðun fram? Ef fjármál Reykjavíkurborgar hafa ekki verið tekin til sérstakrar skoðunar, hvers vegna ekki?
     2.      Eru til almennar viðmiðanir sem eftirlitsnefndin og/eða ráðuneytið hafa til hliðsjónar þegar metið er hvort taka þurfi fjármál sveitarfélags til sérstakrar skoðunar vegna ósjálfbærs reksturs til margra ára og mikillar skuldsetningar?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Árið 2020 sendi Reykjavíkurborg Alþingi umsögn vegna frumvarpa sem lögð voru fram 21. apríl sama ár, um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Í umsögninni kemur fram að Reykjavíkurborg væri í mjög erfiðri fjárhagslegri stöðu og að ekki væri um að ræða skammtímafjármögnunarvanda heldur stefndi í „algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.“ Síðan hefur fjárhagur Reykjavíkurborgar versnað verulega og hallarekstri verið mætt með stórfelldum lántökum. Í árslok 2019 námu skuldir og skuldbindingar borgarinnar 345 milljörðum kr. Nú nema þær hins vegar um 400 milljörðum kr.