Ferill 309. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 586  —  309. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um ferðagjöf.


     1.      Hver tók ákvörðun um að ferðaávísun sú sem send var öllum fullorðnum Íslendingum skyldi kölluð ferðagjöf?
    Ákvörðun stjórnvalda var kynnt í mars 2020, en meginmarkmið verkefnisins var að hvetja til ferðalaga innan lands sumarið 2020. Verkefnið byggðist á ákvörðun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að efla efnahagslíf í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og var meðal þeirra skilgreindu aðgerða sem ætlað var að styðja viðspyrnu íslensks efnahagslífs.
    Verkefnið var unnið í samhengi við og samhliða markaðsátaki innan lands undir yfirskriftinni „Komdu með“, sem kom til framkvæmda á sama tíma. Jafnframt var verkefninu ætlað að styðja framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030.
    Strax í upphafi var stofnaður verkefnishópur með fulltrúum helstu hagaðila, þar á meðal fulltrúum stjórnvalda og ferðaþjónustunnar. Verkefnishópurinn lagði í sameiningu til nafn á verkefnið, en við þá vinnu var horft sérstaklega til þess að handhafi myndi upplifa úrræðið sem gjöf sem hann gæti varið að vild. Einnig var tekið tillit til markaðslegra forsendna áðurnefnds markaðsátaks innan lands sem framkvæmt var á sama tíma.
    Frumvarp til laga um ferðagjöf var samþykkt í júní 2020. Það var því Alþingi sem tók endanlega ákvörðun um heiti ferðagjafarinnar.

     2.      Er það afstaða ráðherra að um gjöf sé að ræða ef skattgreiðslum er skilað til skattgreiðenda?
    Í því tilviki sem hér um ræðir er það afstaða ráðherra að um gjöf sé að ræða.