Ferill 298. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 655  —  298. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um undanþágur frá sóttvarnareglum.


     1.      Hverjir hafa fengið undanþágu frá gildandi sóttvarnareglum síðan kórónuveirufaraldur hófst hér á landi í febrúar 2020?
    Undanþágur frá ákvæðum reglugerða um takmörkun á samkomum vegna farsóttar hafa verið veittar til þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja og aðila sem sinna velferðarþjónustu við hópa sem mega illa við röskun. Auk þess hafa undanþágur verið veittar í nokkrum tilvikum þegar takmarkanir hafa verið hertar með litlum fyrirvara. Heildarfjöldi fyrirspurna og undanþágubeiðna til ráðuneytisins varðandi samkomutakmarkanir eru tæp 3.000 en málaskrárkerfi ráðuneytisins býður því miður ekki upp á að unnt sé að flokka þessar upplýsingar með góðum hætti út úr skjalastjórnunarkerfinu. Nýtt skjalavistunarkerfi er væntanlegt fyrir allt Stjórnarráðið á næsta ári. Áréttað er að sá fjöldi fyrirspurna og beiðna sem borist hefur ráðuneytinu endurspeglar ekki þann fjölda beiðna sem fallist hefur verið á að veita undanþágur vegna, enda eru slíkar reglur að jafnaði túlkaðar þröngt.

     2.      Hver getur veitt undanþágu frá sóttvarnareglum?
    Ráðherra hefur haft heimild til að veita undanþágur frá takmörkun á samkomum og í skólastarfi en sóttvarnalæknir hefur haft heimild til að veita undanþágur frá sóttkví og einangrun.

     3.      Af hvaða tilefni hafa undanþágur verið veittar frá sóttvarnareglum og hafa þær verið tímabundnar eða varanlegar?
    Undanþágur sem ráðherra hefur veitt eru einungis tímabundnar þar sem reglugerðir um takmarkanir hafa verið settar tímabundið. Þó hafa kerfislega og efnahagslega mikilvæg fyrirtæki og velferðarþjónusta fengið framlengingu á undanþágum.

     4.      Hafi verið veittar varanlegar undanþágur frá sóttvarnareglum, hverjir hafa fengið þær?
    Ekki hafa verið veittar varanlegar undanþágur frá sóttvarnareglum.

     5.      Fer fram sjálfstætt mat á afleiðingum þess að veita undanþágu?
    Í þeim tilvikum þar sem vafi hefur leikið á mögulegum afleiðingum þess að veita undanþágu út frá sóttvörnum hafa erindi verið send til sóttvarnalæknis til umsagnar áður en undanþágubeiðni hefur verið afgreidd.

     6.      Í þeim tilvikum þar sem undanþágur hafa verið veittar, hafa komið upp mál þar sem sóttvarnareglur hafa eigi að síður verið brotnar?
    Ráðuneytið hefur ekki annast eftirlit með brotum á sóttvarnareglum og hefur því ekki þessar upplýsingar. Það hefur verið hlutverk lögreglu að hafa eftirlit með brotum á sóttvarnareglum.
     7.      Hefur undanþága frá sóttvarnareglum verið veitt vegna réttinda sem önnur lög veita tilteknum hópi einstaklinga eða fyrirtækja?

    Undanþágur hafa ekki verið veittar vegna réttinda sem önnur lög veita hópi einstaklinga eða fyrirtækja, heldur hafa undanþágur verið veittar til verndar lífi eða heilsu manna eða dýra, vegna samfélagslega ómissandi innviða sem ekki mega stöðvast, vegna kerfislega og efnahagslega mikilvægrar starfsemi og þegar sérstaklega hefur staðið á.