Ferill 482. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 732  —  482. mál.
1. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002 (einstaklingar sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis).

Frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur.


     1.      Á eftir 2. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
                  a.      (3. gr.)
                     Orðin „dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða“ og „dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið“ í a-lið 1. mgr. 11. gr. laganna falla brott.
                  b.      (4. gr.)
                    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna:
                      a.      Orðin „tímabundið atvinnuleyfi sem tengist dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 11. gr. laganna“ falla brott.
                      b.      Á eftir orðunum „alþjóðlegrar verndar“ kemur: mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið.
     2.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
              Við 1. mgr. 22. gr. laganna bætast tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
                  g.      Útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga.
                  h.      Útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið samkvæmt lögum um útlendinga.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002 (einstaklingar sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis og einstaklingar með dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og á grundvelli sérstakra tengsla við landið).

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla við landið samkvæmt lögum um útlendinga verði undanþegnir kröfu um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi. Vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að beita 44. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, í málum flóttafólks frá Úkraínu er brýnt að gera breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga þannig að allir þeir sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fái sjálfkrafa og milliliðalaust atvinnuleyfi samhliða dvalarleyfinu. Sambærileg breyting er lögð til í 201. máli og kom jafnframt fram í frumvarpi dómsmálaráðherra á 151. þingi, sem frumvarp þetta er unnið upp úr.