Ferill 655. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1047  —  655. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Ernu Bjarnadóttur um stöðu viðræðna við ESB um endurskoðun viðskiptasamninga með landbúnaðarvörur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur ráðuneytið hafið viðræður við ESB um endurskoðun viðskiptasamninga með landbúnaðarvörur eins og þáverandi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tilkynnti um 17. desember 2020?
     2.      Hversu oft hafa fulltrúar ráðuneytisins hitt fulltrúa ESB vegna endurskoðunar viðskiptasamninga með landbúnaðarvörur? Hvenær hittust samninganefndir Íslands og ESB?
     3.      Hvaða almennu markmiðum er stefnt að því að ná í viðræðunum? Hver er samningsafstaða íslenska ríkisins í viðræðunum?
     4.      Í ljósi þess að viðskiptasamningur Íslands og ESB með landbúnaðarvörur gagnast ekki íslenskum útflytjendum, eins og úttekt utanríkisráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis staðfesti 17. desember 2020, verður eitt úrræða ráðuneytisins að segja samningnum einhliða upp?
     5.      Liggur fyrir áætlun um framþróun þessara viðræðna og ef svo er, hver er hún?


    Frá því í byrjun árs 2021 hefur ráðuneytið átt í viðræðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) um endurskoðun á tvíhliða samningi Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur. Samningurinn var undirritaður í september 2015, gekk í gildi í maí 2018 en kom að fullu til framkvæmda árið 2021. Óskað var eftir endurskoðun samningsins í desember 2020. Fulltrúar viðkomandi ráðuneyta hafa hitt fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB á fjórum formlegum fundum frá því að óskað var eftir endurskoðun samningsins. Formlegir fundir voru haldnir í janúar 2021, mars 2021, febrúar 2022 og mars 2022. Þrír fyrstu fundirnir fóru fram með fjarfundabúnaði en sá fjórði fór fram í Brussel. Auk þess hafa formenn samninganefnda og aðrir háttsettir embættismenn fundað og átt í öðrum samskiptum á milli formlegra funda. Bæði núverandi og fyrrverandi utanríkisráðherra hafa á sama tímabili átt fundi með framkvæmdastjóra landbúnaðarmála og framkvæmdastjóra viðskiptamála hjá ESB gagngert til að ræða endurskoðun landbúnaðarsamningsins. Þeir fundir voru í febrúar 2021, júlí 2021 og febrúar 2022.
    Að fengnu samþykki ríkisstjórnar óskuðu stjórnvöld eftir endurskoðun landbúnaðarsamningsins á grundvelli þess að langtímabreytingar hefðu orðið á forsendum samningsins. Snúa þær forsendubreytingar bæði að útgöngu Bretlands úr ESB sem og því að framtíðarspár um möguleika íslensks landbúnaðar til útflutnings hafa ekki gengið eftir. Það hefur því skapast ójafnvægi á milli samningsaðila varðandi nýtingu á þeim möguleikum sem samningurinn felur í sér. Aðalmarkmið viðræðnanna af Íslands hálfu er að auka jafnvægi í samningnum.
    Markmið stjórnvalda er að vinna að langtímalausn með endurskoðun samningsins en möguleiki á uppsögn samningsins hefur ekki verið ræddur við fulltrúa ESB. Í því sambandi þarf jafnframt að hafa í huga að samningurinn veitir tollfrelsi inn til ESB-ríkja fyrir fjölmargar íslenskar landbúnaðarafurðir og skapar þannig útflutningstækifæri sem annars væru ekki fyrir hendi. Þá er samningurinn mikilvægur vegna innflutnings ýmissa landbúnaðarafurða. Þannig nýtast almenn tollkjör samningsins vel á báða bóga á meðan ójafnvægi samningsins varðar fyrst og fremst innflutningskvóta.
    Senn hefjast samningaviðræður EFTA-ríkjanna þriggja innan EES við ESB um nýtt starfstímabil Uppbyggingarsjóðs EES. Samhliða slíkum viðræðum hefur hingað til verið samið um tímabundna tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir tilteknar íslenskar sjávarafurðir til ESB. Gert er ráð fyrir að framþróun viðræðna um markaðsaðgang fyrir landbúnaðarafurðir fylgi þeim viðræðum. Eins og fyrri endurskoðanir samningsins sýna taka svona viðræður nokkurn tíma.

    Alls fóru fjórar vinnustundir í að taka svarið saman.