Ferill 666. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1079  —  666. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um kulnun starfsfólks á Landspítala.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir starfsmenn á Landspítala tóku sér veikindaleyfi vegna kulnunar árin 2012–2021 og hvert var hlutfall þeirra af heildarstarfsmannafjölda ár hvert?
     2.      Hversu margir starfsmenn á Landspítala sem tekið höfðu sér veikindaleyfi vegna kulnunar árin 2012–2021 sögðu upp störfum í framhaldinu og hvert var hlutfall þeirra af heildarstarfsmannafjölda ár hvert?
     3.      Hversu lengi höfðu þeir sem sögðu upp störfum á Landspítala vegna kulnunar árin 2012–2021 starfað á spítalanum að meðaltali? Svar óskast sundurliðað eftir starfsstéttum, kyni og aldri.


    Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala eru ástæður veikinda eða fjarvista ekki skráðar í kerfi hans vegna persónuverndarsjónarmiða. Því liggja ekki fyrir bein svör við spurningum þingmanns. Hins vegar má vísa í niðurstöður starfsmannakönnunar sem Landspítalinn gerði í febrúar sl. Þar var m.a. spurt hvort viðkomandi hefði upplifað kulnunareinkenni í starfi síðastliðna 12 mánuði. Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að 27% höfðu upplifað kulnunareinkenni oft eða mjög oft. Um 28% höfðu stundum fundið slík einkenni, 26% höfðu fundið þau sjaldan og 19% aldrei. Þá var einnig spurt hvort starfsfólk hefði íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi vegna kulnunareinkenna og/eða örmögnunar á síðustu 12 mánuðum og sögðust 22% vera mjög eða frekar sammála því. Þegar spurt var um ýmis streitueinkenni var niðurstaða könnunarinnar sú að 42,8% hafa mjög oft eða oft upplifað mikla þreytu.
    Nýverið lagði Landspítalinn fyrir aðra starfsmannakönnun, þar sem m.a. er spurt um streitueinkenni, og eru niðurstöður væntanlegar á næstu dögum.