Ferill 599. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1088  —  599. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Örn Guðleifsson frá forsætisráðuneyti og Viðar Eggertsson og Árna H. Kristjánsson, fulltrúa frá hópnum Réttlæti.
    Nefndinni bárust tvær umsagnir um málið frá Persónuvernd og Þjóðskjalasafni Íslands.
    Með frumvarpinu er kveðið á um nauðsynlegar heimildir fyrir Reykjavíkurborg til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa fyrir börn sem voru reknar af barnaverndarnefnd Reykjavíkur á síðustu öld.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að skoðað yrði hver hefðu orðið afdrif þeirra barna sem vistuð voru á vöggustofum, meðan á dvöl þeirra stóð og síðar á lífsleiðinni. Taka mætti mið af þeim upplýsingum sem þegar hafa komið fram um málið við vinnu nefndar sem yrði skipuð á vegum Reykjavíkurborgar. Mikilvægt væri að fá fram sjónarmið þeirra sem upplifðu aðstæður barna á vöggustofum og eru til frásagnar um þær, m.a. starfsfólks og aðstandenda barnanna. Nefndin telur brýnt að frumvarpið nái fram að ganga svo að hægt verði að hefjast handa við að rannsaka málefni vöggustofa í Reykjavík á síðustu öld.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Með hliðsjón af ábendingum sem komu fram í umsögnum um málið leggur nefndin til breytingu þess efnis að lög um opinber skjalasöfn gildi ekki um aðgang að gögnum nefndarinnar á meðan hún starfar. Þegar nefndin hefur lokið störfum munu upplýsingalög og lög um opinber skjalasöfn gilda um gögn hennar eftir atvikum, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 6. gr. frumvarpsins.
    Við meðferð málsins var jafnframt rætt um heimildir frumvarpsins til vinnslu persónuupplýsinga hjá þeirri nefnd sem mun kanna starfsemi vöggustofa. Nefndin bendir á að breytingartillagan skerpir á þessum heimildum þar sem mælt er fyrir um hvernig skuli fara með birtingu upplýsinga sem nefndin aflar. Nefndin undirstrikar að ákvæði stjórnsýslulaga um þagnarskyldu, sbr. ákvæði X. kafla stjórnsýslulaga um tjáningarfrelsi, þagnarskyldu o.fl., gilda um störf nefndarinnar auk grundvallarreglu íslensks stjórnsýsluréttar um meðalhóf.
    Þá leggur nefndin til eina lagfæringu tæknilegs eðlis.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað „ar“ í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. komi: almennar.
     2.      Við 6. gr. bætist nýr málsliður sem orðist svo: Þá gilda lög um opinber skjalasöfn ekki um aðgang að gögnum nefndarinnar á meðan hún starfar.

    Sigurður Páll Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 27. maí 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Jóhann Friðrik Friðriksson,
frsm.
Birgir Þórarinsson.
Eyjólfur Ármannsson. Jódís Skúladóttir. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Logi Einarsson. Sara Elísa Þórðardóttir.