Ferill 674. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1172  —  674. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um endurgerð skipsins Maríu Júlíu BA-36.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra fýsilegt að veita verkefni Hollvinasamtaka um Maríu Júlíu BA–36, sem lýtur að endurgerð og nýju hlutverki skipsins, brautargengi í samstarfi við þau ráðuneyti og/eða undirstofnanir þeirra sem verkefninu tengjast á einn eða annan hátt í ljósi þess að markmið verkefnisins er m.a. að varðveita menningararfleifð skipsins?

    Skipið María Júlía BA–36 flokkast lögum samkvæmt til menningarminja. Skipið var sjósett árið 1949 og telst til aldursfriðaðra fornminja skv. 2. mgr. 3. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012. Tilgangur minjalaganna er að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fer umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti með málefni er varða menningarminjar.
    Minjastofnun Íslands er sú stofnun umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis sem annast framkvæmd minjavörslu í samræmi við ákvæði minjalaga. Eitt hlutverka Minjastofnunar er að úthluta styrkjum úr fornminjasjóði sem hefur það hlutverk að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornminjum. Sjóðurinn veitir m.a. styrki til varðveislu og viðhalds á skipum og bátum sem teljast til menningarminja.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti, sem áður fór með málefni menningarminja í Stjórnarráðinu, greiddi út styrki sem ákvarðaðir voru í fjárlögum til Byggðasafns Vestfjarða vegna Maríu Júlíu BA–36, fyrst árið 2004 vegna kaupa á skipinu og svo vegna viðgerða næstu ár á eftir, alls um 20 millj. kr. Eftir að minjalögin tóku gildi árið 2013 var styrkumsóknum til ráðuneytisins sjálfs vegna Maríu Júlíu BA–36 vísað til fornminjasjóðs. Rétt er að styrkumsóknum til varðveislu og viðhalds á skipum og bátum sem teljast til menningarminja verði beint til fornminjasjóðs.