Ferill 676. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1184  —  676. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um endurgerð skipsins Maríu Júlíu BA-36.



    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra fýsilegt að veita verkefni Hollvinasamtaka um Maríu Júlíu BA-36, sem lýtur að endurgerð og nýju hlutverki skipsins, brautargengi í samstarfi við þau ráðuneyti og/eða undirstofnanir þeirra sem verkefninu tengjast á einn eða annan hátt, m.a. í ljósi þess að María Júlía var fyrsta sérsmíðaða hafrannsóknarskip á Íslandi?

    Sögu sjósóknar hér við land hefur stundum verið skipt eftir þróun báta og skipa, þar sem fyrst skútuöldin tók við af árabátaöldinni uns vélskipin komu til sögunnar sem síðan þróuðust í ýmsum áföngum. Minjar um þessa sögu eru oft sagðar sorglega fáar og veldur þar væntanlega helst að skip ganga úr sér, dýrt er að halda þeim við þegar þau úreldast og að þekkingu er ekki haldið við. Til eru eftirtektarverð dæmi um að vel hafi tekist til en þau eru fá. Þannig hefur verið bent á að enginn Nýsköpunartogaranna var varðveittur. Með hliðsjón af þessu er virðingarvert þegar hollvinasamtök eins og þau sem sagt er frá í fyrirspurn þessari beita sér fyrir endurgerð og nýju hlutverki fyrir þekkt og jafnvel menningarlega mikilvæg skip.
    Sem beint svar við fyrirspurninni skal tekið fram að matvælaráðherra fer ekki með málefni minjavörslu og býr ekki yfir neinum fjárheimildum sem heimilt væri að ráðstafa til verkefnis sem þessa.