Ferill 518. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1317  —  518. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hlutinn telur mikilvægt að efla réttarstöðu brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda. Frumvarp þetta er mikilvægur liður í þeirri vegferð. Við breytingar á lögum um meðferð sakamála ber ávallt að sýna varfærni og allar slíkar breytingar verður að skoða með hliðsjón af meginreglum réttarfars.
    Minni hlutinn tekur undir athugasemdir í umsögnum ríkissaksóknara og Ákærendafélags Íslands. Í umsögn ríkissaksóknara er bent á að tiltekið ákvæði frumvarpsins kunni að ganga gegn meginreglu sakamálaréttarfars um að sönnunarbyrðin hvíli á ákæruvaldinu, svo sem kveðið er á um 108. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Hér er um grundvallarreglu að ræða um forræði ákæruvalds á málsmeðferð er lýtur að ákæru og sönnun. Í ákvæðinu segir að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, hvíli á ákæruvaldinu.
    Í 2. efnismgr. a-liðar 7. gr. frumvarpsins er fjallað um heimild réttargæslumanns til að leggja spurningar fyrir þá sem gefa skýrslu fyrir dómi um atriði sem varða annað en einkaréttarkröfur skjólstæðings hans. Að mati ríkissaksóknara er umrætt ákvæði til þess fallið að skapa ójafnræði gagnvart sakborningi, sem þurfi þá að verjast tveimur málsaðilum í dómsal. Minni hlutinn telur að nauðsynlegt hefði verið við meðferð málsins að kanna þetta álitaefni með hliðsjón af 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttinn til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli, sem einnig er tryggður í stjórnarskránni, og hvort reynt hefði á álitaefnið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Mikilvægt er að hafa í huga að ójafnræði gagnvart sakborningi í sakamáli varðar réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.
    Ákærendafélag Íslands fjallaði einnig um 2. efnismgr. a-liðar 7. gr. í umsögn sinni og segir að með ákvæðinu geti réttargæslumenn farið inn á verksvið ákæruvaldsins þvert á meginreglu 108. gr. laga um meðferð sakamála.
    Auk þess er vert að benda á að ósamræmi virðist vera á milli títtnefndrar 2. efnismgr. a-liðar 7. gr. og b-liðar 7. gr. þar sem fram kemur að réttargæslumaður geti ekki spurt um kröfur ákæruvalds að öðru leyti en varðar einkaréttarkröfur skjólstæðings hans.
    Minni hlutinn telur frumvarpið að meginstefnu jákvætt og fagnar því að með samþykkt þess verður stigið skref í átt að aukinni réttarvernd þolenda, aðstandenda og fatlaðs fólks. Minni hlutinn telur engu að síður rétt í ljósi framangreinds að staldra við athugasemdir ríkissaksóknara og Ákærendafélags Íslands. Því eru lagðar til breytingartillögur við frumvarpið til samræmis við umsagnir framangreindra aðila. Lagt er til að 2. efnismgr. a-liðar 7. gr., sem kveður á um heimild réttargæslumanns til að spyrja um önnur atriði en varða einkaréttarkröfur skjólstæðings hans falli brott. Einnig er lagt til að 12. gr. falli brott þar sem ákvæðið er til komið vegna fyrrgreindrar 2. efnismgr. a-liðar 7. gr.

    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. efnismgr. a-liðar 7. gr. falli brott.
     2.      12. gr. falli brott.

Alþingi, 14. júní 2022.

Eyjólfur Ármannsson.