Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1334  —  483. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um vistmorð.

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hluti nefndarinnar fagnar því að fram sé komin tillaga til Alþingis um að Alþingi viðurkenni vistmorð að landslögum og beiti sér fyrir því að ákvæðinu verði bætt við Rómarsamþykktina. Það er kominn tími til að litið sé á náttúruna sem sjálfstæðan hagsmuna- og réttaraðila og að réttarstöðu hennar verði gætt. Umhverfisréttur hefur hlotið aukið vægi bæði á landsvísu og alþjóðavísu undanfarin ár. Viðurkenning vistmorðs sem glæps er rökrétt skref í baráttunni gegn loftslagshamförum. Lagaákvæði um vistmorð veitir nauðsynlegt verkfæri til að draga valdafólk til ábyrgðar fyrir víðtæk og langvarandi umhverfisspjöll. Það hefur hingað til reynst erfitt þar sem áhrifanna getur gætt á vistkerfi þvert á landamæri og yfir stærra landsvæði en regluverk hvers og eins þjóðríkis nær til. Belgía, eyríkin Samóa, Vanúatú og Maldíveyjar, auk forseta Frakklands, hafa lýst yfir stuðningi við að vistmorð verði viðurkennt sem glæpur að alþjóðalögum. Þá hefur Evrópuþingið nýverið lýst yfir vilja til þess að öll aðildarríki styðji viðurkenningu á vistmorði. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, hefur einnig tekið í sama streng, sem og fjölmörg alþjóðleg umhverfissamtök.
    Í minnisblaði utanríkisráðuneytisins eru reifaðar áhyggjur af því að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag hafi nú þegar mörg brýn mál á sinni könnu. Að mati minni hluta nefndarinnar er þó ekki tilefni til að stöðva framgang tillögunnar á Alþingi, enda yrði væntanlega úr því bætt af hálfu dómstólsins sjálfs og aðildarríkja hans þegar þar að kemur. Baráttan fyrir umhverfisvernd og mannréttindum um allan heim er vaxandi viðfangsefni hvert sem litið er. Slíkar viðbætur við Rómarsamþykktina yrði vissulega að vinna í alþjóðlegu samráði, en um það fjallar efni tillögunnar. Verði hún samþykkt verður ríkisstjórninni falið að fara í þá vinnu og hefði þar með tækifæri til að verða leiðandi afl í umhverfismálum á alþjóðavísu.
    Minni hlutinn styður áform um að íslenska ríkið verði leiðandi á sviði umhverfis- og loftslagsmála með samþykkt tillögunnar og leggur því til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 15. júní 2022.


Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir,
frsm.
Hilda Jana Gísladóttir. Eyjólfur Ármannsson.