Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 406  —  256. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um bótasjóð.


     1.      Hversu margar umsóknir hafa borist frá því að lög nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, tóku gildi, sundurliðað eftir árum og tegund umsókna?
    Lög nr. 69/1995 tóku gildi 10. mars 1996 og eru bætur greiddar af sérstökum fjárlagalið nr. 06-235-110. Ekki er því um að ræða sérstakan sjóð eins og oft er talið. Frá gildistöku laganna og fram til 1. ágúst 2006 var móttaka umsókna, skjalavarsla og önnur umsýsla fyrir bótanefnd á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Staðfestar upplýsingar um fjölda mála árin 1996–2004, að báðum árum meðtöldum, liggja ekki fyrir en bent er á að í grein sem þáverandi formaður bótanefndar ritaði í Tímarit lögfræðinga árið 2006 koma fram ýmsar upplýsingar um málafjölda og er byggt á þeim upplýsingum hvað varðar tímabilið 1996 til 2004.
    Bótanefnd hefur ekki yfir að ráða sérstöku málaskráningarkefi og því er ekki haldið utan um tölfræði með þeim hætti að hægt sé að svara þeim lið fyrirspurnarinnar sem snýr að tegund umsókna. Þrátt fyrir framangreint má þó taka fram að á síðustu árum hefur orðið töluverð breyting á þeim umsóknum sem hafa borist bótanefnd og ætla má að um helmingur þeirra umsókna sem berist til bótanefndar núna sé vegna kynferðisbrota og heimilisofbeldis. Í eftirfarandi töflu má sjá sundurliðun málafjölda á milli ára.

Ár Fjöldi Ár Fjöldi
1996 60 Áætlað 2010 274
1997 104 2011 251
1998 110 Áætlað 2012 257
1999 110 Áætlað 2013 352
2000 130 2014 335
2001 132 2015 286
2002 146 2016 304
2003 228 2017 462
2004 253 2018 402
2005 202 2019 487
2006 327 2020 512
2007 317 2021 486
2008 402 2022 388 Til 1. okt
2009 403

     2.      Hversu háar fjárhæðir hafa verið greiddar út frá því að fyrrgreind lög tóku gildi, sundurliðað eftir árum og tegund umsókna?
    Fjársýsla ríkisins annast útgreiðslu bótanna og eru bæturnar greiddar af sérstökum fjárlagalið. Vegna breytinga á bókhaldskerfum Fjársýslunnar á árinu 2003 er verulega tímafrekt að nálgast upplýsingar um greiðslu bóta fyrir þann tíma. Í þessu svari er því látið nægja að miða við greiðslu bóta frá árinu 2003.
    Til upplýsingar má taka fram að þegar mál berast bótanefnd er það skráð inn á því ári sem það berst. Sækja þarf um bætur innan tveggja ára frá því brot var framið og því eru umsóknir yfirleitt sendar til nefndarinnar eins fljótt og unnt er, jafnvel þótt ekki sé nein niðurstaða komin í málið hjá lögreglu eða ákæruvaldi. Þá má geta þess að um 99% mála berast frá lögmönnum í umboði brotaþola. Það geta svo liðið 1–4 ár þar til mál er afgreitt, enda getur rannsókn á broti, dómsmeðferð og bið eftir gögnum tekið töluverðan tíma. Fjárhæðir útgreiddra bóta endurspegla því ekki alltaf fjölda mála sem berast hvert ár fyrir sig.
    Í eftirfarandi töflu eru upplýsingar um fjárhæðir útgreiddra bóta frá árunum 2003–2021, að báðum árum meðtöldum. Tölurnar vegna ársins 2022 liggja ekki enn fyrir að fullu en fjárhæðin er miðuð við 1. ágúst sl. Heildarfjárhæð greiddra bóta á þessu 20 ára tímabili er samkvæmt neðangreindu rúmlega tveir milljarðar króna. Ætla má að þau sjö ár sem vantar inn í upplýsingarnar breyti heildarfjárhæðinni ekki verulega þar sem umsóknir til bótanefndar voru mun færri á árunum 1996–2002.

Ár Upphæð Ár Upphæð
2003 46.060.245 2013 90.819.582
2004 62.262.068 2014 119.697.932
2005 57.766.555 2015 143.090.214
2006 81.242.912 2016 124.891.423
2007 82.317.159 2017 117.825.619
2008 79.453.732 2018 101.387.313
2009 98.285.188 2019 151.903.368
2010 99.692.695 2020 167.714.879
2011 78.973.223 2021 197.184.084
2012 87.706.463 2022 101.387.313

     3.      Hversu hátt hlutfall af dæmdum bótum hefur bótasjóður greitt út frá því að fyrrgreind lög tóku gildi, sundurliðað eftir árum og tegund umsókna?
    Þegar dómur hefur fallið um bótakröfu sem lögð hefur verið fram í sakamáli og málið svo vaxið að það falli undir ákvæði laga nr. 69/1995, er bótanefnd bundin af þeirri fjárhæð sem ákveðin var í dómnum. Það eru hámarks- og lágmarksfjárhæðir á því hvað ríkissjóður greiðir. Frá gildistöku laganna og fram til ársins 2009 voru ekki greiddar bætur nema höfuðstóll þeirra næmi að lágmarki 100.000 kr. Vegna ráðstafana í ríkisfjármálum í kjölfar bankahrunsins voru lágmarksbætur hækkaðar í 400.000 kr. og gildir sú fjárhæð enn í dag. Frá gildistöku laganna og fram til ársins 2012 greiddi ríkissjóður að hámarki 600.000 kr. í miskabætur og að hámarki 2.500.000 kr. vegna líkamstjóns. Með hugtakinu miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og með hugtakinu líkamstjón er átt við tjón sem skilgreint er í I. kafla skaðabótalaga, einkum 3.–8. gr. þeirra. Með lögum nr. 54/2012 var hámark miskabóta hækkað í 3.000.000 kr. og 5.000.000 kr. í bætur fyrir líkamstjón. Fátítt er að miskabætur nái þessu hámarki og sömuleiðis bætur fyrir líkamstjón.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvað ríkissjóður hefur verið krafinn um hátt hlutfall dæmdra bóta, þar sem einhver hluti málanna endar með bótagreiðslu tjónvalds til brotaþola, eða að bætur eru undir lágmarki, auk þess sem aðrar ástæður kunna að vera til þess að umsókn um greiðslu dæmdra bóta berst bótanefnd ekki. Ætla verður að allur meginþorri mála þar sem bætur hafa verið dæmdar berist bótanefnd. Af þeim málum sem bótanefnd afgreiðir og leiða til greiðslu bóta byggjast yfirleitt um 2/ 3 málanna á dómsniðurstöðu, en um 1/ 3 byggist á málum þar sem atvik eru ekki að öllu upplýst, tjónvaldur er ósakhæfur eða tjónvaldur finnst ekki (er látinn eða farinn af landi brott). Um það bil 1/ 3 umsókna er að jafnaði hafnað og eru helstu ástæður fyrir því að umsókn um bætur hafi borist of seint, fjárhæð bóta sé undir tilteknu lágmarki, brot teljist ósannað eða að brot falli ekki undir gildissvið laga nr. 69/1995.

     4.      Hversu mörg einkamál hafa verið höfðuð til greiðslu bóta umfram þá fjárhæð sem bótasjóður greiðir, samkvæmt fyrrgreindum lögum, sundurliðað eftir árum og tegund umsókna, frá því að lögin tóku gildi?
    Engar upplýsingar liggja fyrir um fjölda mála sem hafa leitt til höfðunar dómsmáls, hvort sem það er á hendur tjónvaldi eða ríkissjóði. Mjög sjaldgæft er að bætur séu greiddar á grundvelli dómsniðurstöðu í einkamáli, en rétt er að taka fram að dómur í einkamáli einn og sér getur ekki leitt til greiðslu bóta þar sem það þarf að liggja fyrir að brot hafi verið framið og einhver sakfelldur fyrir það. Samkvæmt lauslegri talningu sem bótanefnd framkvæmdi hafa á bilinu 50–60 mál verið höfðuð á hendur ríkissjóði frá gildistöku laganna og hafa þau öll nema eitt verið höfðuð til ógildingar á ákvörðun nefndarinnar, sem hafði þá hafnað greiðslu bóta. Í flestum málum var ákvörðun bótanefndar staðfest.
    Rétt er að taka fram að ekki er þörf á því að höfða mál á hendur tjónvaldi til að krefjast hærri bóta en ákveðnar voru með dómi, ef tjónþoli getur sýnt fram á að tjón af broti hafi verið meira en lá fyrir þegar mál var til dómsmeðferðar. Þetta er nokkuð algengt vegna þess að varanlegt líkamstjón liggur oft ekki fyrir fyrr en liðin eru nokkur ár frá tjónsatburði. Ríkissjóður greiðir ekki bætur fyrir varanlegt líkamstjón nema varanlegur miski sé 5 stig að lágmarki og varanleg örorka nemi að lágmarki 15%. Þegar svo háttar er unnt að beina bótakröfunni beint til ríkissjóðs án þess að stefna tjónvaldi í dómsmáli.

     5.      Hversu hátt hlutfall greiddra bóta, samkvæmt fyrrgreindum lögum, hefur ríkissjóður endurheimt af þeim sem frömdu brotin, sundurliðað eftir árum og tegund umsókna, frá því að lögin tóku gildi?
    Samkvæmt 19. gr. laga nr. 69/1995 er ríkissjóði heimilt að endurkrefja þann sem er valdur að tjóni sem leiðir til greiðslu bóta um það sem greitt er brotaþola. Bótanefnd tekur ákvörðun um það hvort og í hvaða mæli tjónvaldur verður krafinn. Nefndin hefur jafnan litið svo á að þar sem um er að ræða almannafé sé rétt að krefja alla þá sem eru valdir að slíku tjóni um endurgreiðslu. Tjónvaldur getur svo eftir atvikum óskað eftir því að endurkrafan verði lækkuð eða fallið verði frá henni. Það er mjög sjaldgæft að slíkar beiðnir berist nefndinni og aðeins 2–3 á hverju ári, en það er aðallega aldur tjónvalds sem ræður niðurfellingu á kröfu eða lækkun hennar. Er einkum miðað við að ef tjónvaldur var 21 árs eða yngri þegar brot hans var framið og hafi bætt ráð sitt séu forsendur til að lækka endurkröfu eða falla frá henni. Ef tjónvaldur býr við verulega örorku hafa einnig verið taldar forsendur til að falla frá endurkröfu.
    Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar fer nú með innheimtu endurkrafna en fram til ársins 2011 annaðist Fjársýsla ríkisins þær. Samkvæmt upplýsingum frá Innheimtumiðstöðinni er ekki haldin nein tölfræði yfir hlutfall innheimtra bóta, en nú eru útistandandi um 800 millj. kr. vegna þessa liðar. Samkvæmt upplýsingum gengur innheimtan yfirleitt treglega og ætla verður að það sé lágt hlutfall greidda bóta sem er endurheimt. Þess má geta að ef brotaþoli í máli hefur áður framið brot sem leitt hefur til greiðslu bóta til annars einstaklings og ríkissjóður virkjað rétt til endurkröfu er heimilt að láta þær bætur sem brotaþoli væntir ganga upp í það sem hann skuldar ríkissjóði. Þetta er þó sjaldgæft.