Ferill 379. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 623  —  379. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur um menningarsamning við Akureyrarbæ.


     1.      Hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar þeirri upphæð sem er í gildandi menningarsamningi milli menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Akureyrarbæjar?
    Menningarsamningur milli ráðuneytis menningar og Akureyrarbæjar rennur út um áramótin 2023-24. Slíkur samningur hefur verið í gildi allt frá árinu 1996 og hefur síðan reglulega verið endurnýjaður.
    Tilgangur samstarfssamnings ríkisins og Akureyrarbæjar um menningarmál er að efla hlutverk Akureyrar í lista- og menningarlífi á Íslandi. Með stuðningi við meginstofnanir á sviði myndlistar, tónlistar og leiklistar vilja samningsaðilar stuðla að því að Akureyri verði þungamiðja öflugs menningarstarfs, með möguleikum til aukinnar atvinnumennsku á listasviði. Eftir að menningarhúsið Hof var tekið í notkun árið 2010 var litið til þess að því myndi fylgja aukin starfsemi á sviði lista og menningar í bæjarfélaginu.
    Það sem samningsaðilar hafa verið sammála um alla tíð og hefur einkennt farsælt samstarf er að eðlilegt sé að halda úti öflugri liststarfsemi í atvinnuskyni utan höfuðborgarsvæðisins og hefur það sjónarmið notið pólitísks velvilja. Samningurinn styður fyrst og fremst við starfsemi Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Listasafns Akureyrar. Aðilar hafa verið sammála um að fjárveitingarnar eigi að renna til þessara stofnana og þær að efla starfsemi Hofs með leiksýningum og tónleikum og koma þannig óbeint að rekstri hússins.
    Framlag á fjárlögum ársins 2023 er 230 millj. kr. og hefur vaxið jafnt og þétt allan samningstímann í góðu samkomulagi samningsaðila.

     2.      Kemur til greina af hálfu ráðherra að upphæðin í menningarsamningnum við Akureyrarbæ hækki með tilliti til verðlagsþróunar?
    Að öllu jöfnu eru samningar menningarráðuneytis ekki vísitölutryggðir heldur hefur verið vegið og metið við endurnýjun samninga hvort ástæða sé til hækkunar vegna verðlagshækkana eða umfangs verkefna sem um er samið. Síðustu tíu árin hefur samningsupphæðin nær tvöfaldast eins og sjá má á eftirfarandi töflu:

Ár Upphæð
2011 120,0 millj. kr.
2012 125,0 millj. kr.
2013 140,1 millj. kr.
2014 138,0 millj. kr.
2015 138,0 millj. kr.
2016 168,0 millj. kr.
2017 172,2 millj. kr.
2018 195,0 millj. kr.
2019 199,9 millj. kr.
2020 224,9 millj. kr.
2021 230,0 millj. kr.
2022 230,0 millj. kr.

     3.      Kemur til greina af hálfu ráðherra, þegar litið er til byggðastefnu og viðurkenningar Akureyrarbæjar sem svæðisborgar, að framlag ríkisins til menningarsamningsins verði 10% af því framlagi sem sambærilegar stofnanir í Reykjavík fá, þ.e. hækki úr 230 millj. kr. í 460 millj. kr. á árinu 2023?
    Engin dæmi eru þess að verkefni er tengist byggðastefnu fái framlag miðað við höfðatölu heldur er fremur litið til þess hver markmið verkefnanna eru hverju sinni og að framlag helgist af efni og aðstæðum. Þeim sambærilegu stofnunum á höfuðborgarsvæðinu sem njóta fjárframlaga ríkisins er ætlað að þjóna landinu öllu.