Ferill 542. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 684  —  542. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til tónlistarlaga.

Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



I. KAFLI

Markmið og yfirstjórn.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi með því að marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.
    Við framkvæmd þessara laga skal gæta jafnréttis og huga sérstaklega að jafnri stöðu kynjanna.
    Ráðherra fer með yfirstjórn málefna er varða tónlist samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI

Tónlistarmiðstöð og tónlistarráð.

2. gr.

Rekstrarform.

    Tónlistarmiðstöð er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá sem stjórn setur og staðfestir.

3. gr.

Hlutverk og helstu verkefni.

    Hlutverk tónlistarmiðstöðvar er að:
     a.      vera samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, menningarstofnana, menntastofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir í málefnum tónlistar,
     b.      hafa umsjón með rekstri og starfsemi tónlistarsjóðs,
     c.      stuðla að kynningu, útbreiðslu og sölu á íslenskri tónlist og nótum og starfrækja nótnaveitu fyrir íslensk tónverk,
     d.      veita tónlistarfólki og fyrirtækjum sem markaðssetja tónlist ráðgjöf og þjónustu og styðja útflutning á tónlist, stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun við erlenda aðila á sviði tónlistar,
     e.      sinna afmörkuðum verkefnum tengdum rannsóknum og tölfræði um íslenskan tónlistariðnað,
     f.      styðja varðveislu menningararfleifðar á sviði tónlistar með ráðgjöf, fræðslu og þjónustu.

4. gr.

Stjórn tónlistarmiðstöðvar.

    Ráðherra skipar sjö fulltrúa í stjórn tónlistarmiðstöðvar til þriggja ára í senn, tvo án tilnefningar og skal annar vera formaður, en aðrir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningum eftirfarandi hagaðila innan tónlistar sem hver um sig tilnefnir einn stjórnarmann: STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt.
    Stjórn tónlistarmiðstöðvar ræður framkvæmdastjóra og ber hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart henni. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur tónlistarmiðstöðvar í umboði stjórnar, ræður annað starfsfólk og er í forsvari fyrir hana. Framkvæmdastjóri skal hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði tónlistarmiðstöðvar.
    Stjórn samþykkir árlega starfs- og fjárhagsáætlun tónlistarmiðstöðvar og hefur eftirlit með framkvæmd hennar.
    Stjórn boðar til aðalfundar tónlistarmiðstöðvar sem haldinn skal fyrir 1. maí ár hvert. Rétt til setu eiga stofnaðilar, þeir sem skipa fulltrúa í stjórn tónlistarmiðstöðvar og fulltrúar í tónlistarráði. Stjórn er heimilt að bjóða fleiri til áheyrnar á aðalfundi.

5. gr.

Fjárhagur og gjaldtaka tónlistarmiðstöðvar.

    Starfsemi tónlistarmiðstöðvar skal fjármögnuð með:
     a.      þjónustusamningum við ríki, stofnanir og samtök,
     b.      þóknun fyrir veitta þjónustu, þar á meðal sölu og leigu á nótum,
     c.      sérstökum framlögum og öðrum tekjum.
    Gerður skal þjónustusamningur til þriggja ára í senn á milli ríkisins og tónlistarmiðstöðvar um ráðstöfun fjárveitinga hennar.
    Tónlistarmiðstöð setur sér gjaldskrá sem skal staðfest af stjórn.

6. gr.

Tónlistarráð.

    Tónlistarráð er stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni er varða tónlist. Tónlistarráð tekur þátt í stefnumótun tónlistarmiðstöðvar.
    Ráðherra skipar fulltrúa í tónlistarráð til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningum hagaðila sem tilgreindir eru á lista sem ráðuneytið heldur utan um og uppfærir eftir þörfum. Einn fulltrúi í tónlistarráði skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins.

III. KAFLI

Tónlistarsjóður.

7. gr.

Tónlistarsjóður.

    Hlutverk tónlistarsjóðs er að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði. Sjóðurinn skal stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra hér á landi sem erlendis.
    Tekjur tónlistarsjóðs eru:
     a.      framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
     b.      önnur framlög.
    Tónlistarsjóður skiptist í fjórar deildir, þróun og innviði, frumsköpun og útgáfu, lifandi flutning og útflutning.
    Fjármagn til sjóðsins skiptist á milli deilda á eftirfarandi hátt: Þróun og innviðir 21%, frumsköpun og útgáfa 25%, lifandi flutningur 25% og útflutningur 17%. Þar að auki mun 12% deilast á milli sjóða eftir ásókn umsækjenda og áherslum sjóðsins hverju sinni.
    Ráðherra skipar úthlutunarnefnd fyrir hverja deild til tveggja ára í senn. Í hverri úthlutunarnefnd skulu eiga sæti þrír fulltrúar, tveir tilnefndir af fagfélögum innan tónlistar og einn sem jafnframt er formaður skal skipaður af ráðherra án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra getur veitt heimild til að ein úthlutunarnefnd taki að sér fleiri en eina deild. Nefndarmönnum er einungis heimilt að sitja tvö tímabil í senn.
    Ráðherra úthlutar styrkjum úr tónlistarsjóði að fengnum tillögum úthlutunarnefndar.
    Ráðherra ákveður stefnu og áherslur í starfi tónlistarsjóðs og setur nánari reglur um meðferð umsókna, afgreiðslu og úthlutun styrkveitinga úr sjóðnum.
    Tónlistarsjóður er í umsýslu tónlistarmiðstöðvar.
    Stefna og áherslur í starfi tónlistarsjóðs skulu endurskoðaðar á þriggja ára fresti. Tónlistarmiðstöð mótar tillögur um endurskoðaða stefnu og helstu áherslur í starfi sjóðsins til þriggja ára og færir ráðherra til samþykktar.
    Þóknun fulltrúa í úthlutunarnefndum og annar kostnaður við störf úthlutunarnefnda greiðist úr tónlistarsjóði.
    Úthlutunarnefndum er heimilt að leita utanaðkomandi faglegrar ráðgjafar við mat umsókna.

IV. KAFLI

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

8. gr.

Hlutverk og helstu verkefni.

    Sinfóníuhljómsveit Íslands er eign íslensku þjóðarinnar. Hún skal stuðla að því að auðga tónmenningu Íslendinga, efla áhuga og þekkingu á sígildri tónlist og samtímatónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar, m.a. með tónleikahaldi sem víðast um landið og með tónlistarflutningi í útvarpi, sjónvarpi og á vefmiðlum. Áherslu ber að leggja á kynningu og útbreiðslu á íslenskri tónlist hér á landi og erlendis.
    Sinfóníuhljómsveit Íslands skal leitast við að tengja starf sitt tónlistarmenntun í landinu.

9. gr.

Stjórn og starfsemi.

    Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands skal skipuð fimm fulltrúum, einum tilnefndum af Reykjavíkurborg, einum af starfsmannafélagi hljómsveitarinnar, einum af þeim ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins og tveimur af ráðherra, þar af skal annar vera formaður. Ráðherra skipar stjórnina til fjögurra ára og ákveður þóknun stjórnarmanna sem greiðist af rekstrarfé hljómsveitarinnar.
    Stjórnin ræður sér framkvæmdastjóra og setur honum starfslýsingu og ber hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart henni. Hann skal ráðinn til fjögurra ára í senn. Framkvæmdastjóri ræður starfsfólk á skrifstofu og til aðstoðar við æfingar, tónleika, nótnavörslu og annað að fengnu samþykki stjórnar.
    Aðeins er heimilt að ráða sama einstakling framkvæmdastjóra tvisvar sinnum.
    Stjórnin ræður aðalhljómsveitarstjóra og aðra fasta hljómsveitarstjóra og skipar verkum með þeim.
    Stjórnin ræður hljóðfæraleikara, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra, í minnst 65 stöðugildi. Aðra hljóðfæraleikara ræður stjórnin eftir því sem viðfangsefni krefjast, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra og innan þeirra marka sem fjárframlög heimila, enda hafi viðfangsefnin verið samþykkt í fjárhagsáætlun.
    Um launakjör og vinnutíma starfsfólks hljómsveitarinnar fer eftir kjarasamningum þeirra og þess ráðherra er fer með launa- og kjaramál ríkisins.
    Heimilt er að ráða tónskáld til starfa í þágu hljómsveitarinnar í takmarkaðan tíma eða fá verk til flutnings hjá tónskáldum.
    Stjórninni er heimilt að skipa verkefnavalsnefnd um verkefni hljómsveitarinnar. Stjórnin ákveður nánar skipulag og hlutverk nefndarinnar.
    Stjórnin skal leggja starfs- og fjárhagsáætlun fyrir ráðherra með nægum fyrirvara til þess að gögn liggi fyrir þegar fjárlög eru undirbúin og afgreidd. Framkvæmdastjóri vinnur starfs- og fjárhagsáætlun fyrir stjórnina. Stjórnin ber ábyrgð á að fjárreiður og reikningshald hljómsveitarinnar sé í góðu lagi. Efnahags- og rekstrarreikningur skal gerður að loknu hverju almanaksári og sendur Ríkisendurskoðun til endurskoðunar.

10. gr.

Samstarf.

    Í öllu starfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands skal leggja áherslu á að hafa sem best samstarf við aðila sem vinna að skyldum markmiðum, einkum aðra íslenska flytjendur tónlistar, einstaklinga, hópa og stofnanir.
    Efna má til samvinnu milli Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins og annarra aðila hins vegar um einstök verkefni eftir því sem tilefni gefast til og önnur starfsemi hljómsveitarinnar leyfir.
    Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ríkisútvarpið ohf. skulu gera með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar.

11. gr.

Fjárhagur og gjaldtaka.

    Sinfóníuhljómsveit Íslands er sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag og lýtur sérstakri stjórn.
    Að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar standa eftirtaldir aðilar og greiða þeir rekstrarkostnað hennar í eftirfarandi hlutföllum:
     a.      ríkissjóður Íslands 82%,
     b.      borgarsjóður Reykjavíkur 18%.
    Með samþykki rekstraraðila getur ráðuneytið heimilað fleiri sveitarfélögum aðild að rekstri hljómsveitarinnar.
    Sinfóníuhljómsveit Íslands er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.
    Sinfóníuhljómsveit Íslands er heimilt að semja við Fjársýslu ríkisins um að taka að sér bókhald hljómsveitarinnar.

V. KAFLI

Reglugerðir og gildistaka.

12. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

13. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2023. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982. Þó skal III. kafli koma til framkvæmda 1. júní 2023 og frá þeim tíma falla úr gildi lög um tónlistarsjóð, nr. 76/2004.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Við gildistöku laga þessara er ráðherra heimilt að skipa stjórn tónlistarmiðstöðvar til bráðabirgða sem skal starfa fram að stofnfundi hennar. Verkefni stjórnarinnar er að undirbúa stofnun tónlistarmiðstöðvar og boða til stofnfundar. Þegar ný stjórn hefur verið skipuð í samræmi við 4. gr. fellur umboð stjórnar samkvæmt ákvæði þessu niður.

II.

    Tónlistarsjóður skv. III. kafla skal taka við samningum sem gerðir hafa verið við styrkþega vegna úthlutana fyrir gildistöku laga þessara og sem gerðir eru á fyrri hluta árs 2023.

III.

    Þjónustusamningur skv. 5. gr. skal liggja fyrir eigi síðar en 1. apríl 2023.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í menningar- og viðskiptaráðuneyti. Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um tónlist hér á landi. Leitast er við að uppfæra og sameina löggjöf um allar listgreinar tónlistar innan eins lagaramma og setja á stofn og útfæra hlutverk tónlistarmiðstöðvar. Frumvarpið tekur einnig mið af drögum að stefnu í málefnum tónlistar 2023–2030 sem unnin var samhliða samningu frumvarpsins.
    Við samningu frumvarpsins var einnig litið til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en í honum kemur fram að ætlunin sé að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný tækifæri fyrir íslenska listamenn. Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess og máli skiptir að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Frumvarp þetta er liður í því að koma framangreindum áherslumálum til framkvæmda.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Ríkisstjórn Íslands hefur undanfarin ár lagt áherslu á að efla menningu, þ.m.t. tónlist og skapandi greinar, með markvissri stefnumótun, aðgerðaáætlunum, miðlun og auknum fjárframlögum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur m.a. fram: „Umhverfi tónlistargeirans á Íslandi verður endurskoðað í framhaldi af skýrslu starfshóps þar um.“
    Mikil vinna var lögð í að kortleggja umhverfi tónlistar á Íslandi á síðasta kjörtímabili, m.a. kom fram skýrsla hagaðila um áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað auk þess sem settur var á laggirnar starfshópur sem hafði það hlutverk að koma með tillögu að umgjörð tónlistarmiðstöðvar, endurskoða sjóðakerfi tónlistar og leggja drög að tónlistarstefnu. Í skýrslu starfshóps um tónlistarmiðstöð, sem finna má á vef Stjórnarráðsins, er lagt til að stofnuð verði tónlistarmiðstöð sem hafi það hlutverk að endurspegla fjölbreytni tónlistargeirans. Áhersla var lögð á að styðja uppbyggingu tónlistariðnaðar á Íslandi og tónlist sem atvinnugrein. Starfshópurinn rýndi sjóðaumhverfi tónlistar og í þeirri skoðun kom m.a. í ljós skörun á verkefnum sjóðanna og skortur á yfirsýn. Skörunin snýr að því að sömu þættir eru styrktir af fleiri en einum sjóði en aðrir mikilvægir þættir eru á hinn bóginn ekki taldir styrkhæfir. Skortur á yfirsýn er t.d. með því móti að mismunandi aðilar sjá um umsýslu sjóðanna og hafa úthlutanir ekki verið bornar saman og því er mögulegt að fá styrk fyrir sömu þætti eins verkefnis úr tveimur sjóðum. Var því lögð til sameining þriggja sjóða á sviði tónlistar undir nafni tónlistarsjóðs sem er nafn eins þeirra þriggja sjóða sem nú eru starfandi.
    Ráðuneytið hafði tillögur starfshópsins um nýjan tónlistarsjóð til hliðsjónar við útfærslu á þeim sjóði sem lagður er fram í frumvarpi þessu. Sjóðurinn mun einfalda styrkjaumhverfi tónlistar til muna og gera það skilvirkara en verið hefur.
    Markmiðið með sérstökum lögum um tónlist er að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi, m.a. með því að sameina gildandi löggjöf um tónlist í ein heildarlög. Nú eru í gildi lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr.36/1982, og lög um tónlistarsjóð, nr. 76/2004. Frá gildistöku áðurnefndra laga hefur lagaumhverfi á Íslandi gjörbreyst með tilkomu fjölmargra laga sem tekið hefur verið tillit til við samningu frumvarpsins. Sem dæmi má nefna lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Höfð var hliðsjón af lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr.  70/1996, og lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, við útfærslu ákvæða frumvarpsins um tónlistarmiðstöð. Þá var litið til laga á öðrum sviðum lista og menningar sem fyrirmynda við gerð frumvarpsins.
    Frá setningu laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands og laga um tónlistarsjóð hafa orðið breytingar í starfsumhverfi tónlistargeirans sem kalla á endurskoðun laganna. Starfsumhverfi stofnana hefur breyst og ábyrgð stjórnenda er orðin skýrari. Þá er brýnt að ein heildarlög nái yfir allar stefnur tónlistar.
    Með frumvarpinu er jafnframt leitast við að löggjöf um tónlist verði sambærileg löggjöf á sviði bókmennta, myndlistar og sviðslista. Á þeim sviðum eru skipaðar stjórnir eða ráð fyrir viðkomandi listgrein sem eru ráðherra til ráðgjafar um málefni hverrar greinar og þjóna sem ákveðinn samráðsvettvangur og tenging stjórnvalda við viðkomandi grein. Þá hafa einnig verið stofnaðir sjóðir til að efla hverja listgrein fyrir sig með styrkveitingum og grundvöllur skapaður fyrir rekstur skrifstofu/miðstöðvar sem stendur að kynningu á listgreininni hér á landi og erlendis. Reynslan sýnir að þetta fyrirkomulag auðveldar stjórnsýslu, yfirsýn og samvinnu sjóðanna.
    Markmiðið er einnig að skilgreina hlutverk tónlistarsjóðs og opinberra stofnana sem tilheyra greininni, skilgreina aðkomu ríkisins að starfsumhverfi tónlistar og aðkomu þess að fyrirhugaðri tónlistarmiðstöð og lögbundnu hlutverki hennar, verði frumvarpið samþykkt. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að sameina þrjá sjóði, tónlistarsjóð, hljóðritasjóð og útflutningssjóð íslenskrar tónlistar, undir merkjum nýs tónlistarsjóðs og einfalda þar með sjóðakerfi tónlistar og gera það skilvirkara.
    Í frumvarpinu er leitast við að svara áherslum sem koma fram í drögum að stefnu í málefnum tónlistar 2023–2030. Stefnan fjallar um tónlistararfinn, menninguna og menntun, auk þess að skerpa á þeim áherslum ríkisstjórnar að tónlistin líkt og aðrar listgreinar geti orðið atvinnuskapandi og að hluta sjálfbær.
    Tónlistarmenntun heyrir ekki undir ráðuneyti menningar og er því ekki hluti af frumvarpinu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í fimm kafla.
    Í I. kafla er kveðið á um markmið. Markmiðið er að sníða umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á landinu öllu, marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.
    Í II. kafla eru ákvæði um tónlistarmiðstöð og tónlistarráð. Starfshópur um tónlistarmiðstöð með fulltrúum fjölbreyttra hagsmunahópa í tónlistarlífinu, sem skipaður var af mennta- og menningarmálaráðherra í desember 2020, skilaði af sér skýrslu í mars 2021. Niðurstaða hópsins var að stefna að opnun tónlistarmiðstöðvar og voru aðrar miðstöðvar listgreina hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum hafðar til hliðsjónar. Tónlistarmiðstöð skyldi sinna uppbyggingu og stuðningi við tónlistarstarfsemi og styðja útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Miðstöðin tæki að sér skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka. Markaðs- og kynningarmál fengju meira vægi og aukin áhersla yrði lögð á tölfræði og rannsóknir á tónlistargreininni. Starfshópurinn lagði einnig til stofnun nýs tónlistarsjóðs með fjórum deildum sem tæki yfir hlutverk núverandi tónlistarsjóðs, hljóðritasjóðs og útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar.
    Tónlistarmiðstöð mun hafa þrjú kjarnasvið og eitt stoðsvið. Kjarnasviðin verða Inntón, Útón og Tónverk.
    Útón tekur við hlutverki samnefndrar Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN). Útflutningsskrifstofan var stofnuð árið 2006 af Samtóni og Landsbanka Íslands, með fjárframlögum frá þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti, og hefur sinnt stuðningi við útflutningsverkefni í tónlist og markaðssetningu á íslenskri tónlist á lykilmörkuðum erlendis. Tilgangurinn var að efla og skapa sóknarfæri fyrir rétthafa íslenskrar tónlistar og styðja uppbyggingu tónlistariðnaðar á Íslandi. Markmið skrifstofunnar er að auka möguleika íslenskra fyrirtækja og einstaklinga í tónlistarútrás til að ná árangri í alþjóðlegum viðskiptum. Skammstöfunin ÚTÓN er vel þekkt meðal íslensks tónlistarfólks og var því ákveðið að halda skammstöfuninni sem nafni á sviðinu.
    Tónverk mun einnig taka við helstu verkefnum Íslenskrar tónlistarmiðstöðvar eða þeim sem snúa að skráningu, umsýslu og miðlun tónverka í nótnaveitu. Auk þess mun sviðið bjóða upp á þjónustu við tónskáld og sölu og leigu á tónverkum. Íslensk tónverkamiðstöð á sér langa sögu, miðstöðin var stofnuð árið 1968 og hefur hlutverk hennar frá upphafi verið að skrá og kynna íslensk tónverk, gera þau aðgengileg til flutnings og styðja starf íslenskra tónskálda bæði innan lands og erlendis. Taki fyrirhuguð tónlistarmiðstöð við hlutverkinu gefst tækifæri til samstarfs á milli deilda og breiðari þjónustu og stuðnings við tónskáld og nótnaútgefendur.
    Inntón hefur ekki verið formlega til í skipulagi þeirra tónlistarmiðstöðva sem nú eru starfandi. Mikil þörf hefur verið fyrir ráðgjöf og fræðslu fyrir tónlistarfólk en ekki síður stuðning við frumkvöðla- og sprotaverkefni og mun sviðið sinna því hlutverki. Inntón er hugsað sem kröftug og nauðsynleg innspýting í það mikilvæga verkefni að hlúa að og efla blómlegan tónlistariðnað hérlendis. Sviðið mun einnig stuðla að auknum tengslum og samstarfi höfuðborgar og landsbyggðar í þágu tónlistar.
    Stoðsviðið mun sinna fjármálum, markaðs- og kynningarmálum og mannauðsmálum miðstöðvarinnar, umsýslu tónlistarsjóðs og tölfræði- og rannsóknarverkefnum. Skortur hefur verið á aðgengilegum tölfræðiupplýsingum um umfang og stærð tónlistargeirans sem er forsenda þess að hægt sé að árangursmæla verkefni og taka upplýst skref til áframhaldandi uppbyggingar.
    Þjónusta tónlistarmiðstöðvar verður öllum opin óháð því hvar fólk er á landinu og verður áhersla lögð á að kynna starfsemina og þá þjónustu sem í boði er um land allt.
    Í III. kafla eru ákvæði um tónlistarsjóð. Tónlistarsjóður mun sem fyrr segir taka við af þremur sjóðum sem eru þegar starfandi. Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar hefur veitt ferðastyrki og markaðsstyrki tengda útflutningi á tónlist, hljóðritasjóður hefur veitt styrki til útgáfu hljóðrita og tónlistarsjóður hefur styrkt almenna tónlistarstarfsemi auk þess að veita styrki til kynningar og markaðssetningar á tónlist. Verði frumvarpið samþykkt verða þessir sjóðir lagðir niður um mitt ár 2023 þegar nýr tónlistarsjóður mun taka til starfa.
    Í IV. kafla er fjallað um Sinfóníuhljómsveit Íslands og falla því lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982, úr gildi verði frumvarpið samþykkt. Gerðar voru smávægilegar breytingar á orðalagi o.fl. sem bent var á í umsögnum við breytingar á reglugerð um Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2020. Einnig er orðalagi breytt án þess að um efnislega breytingu sé að ræða en á stöku stað þurfti að sleppa að taka upp ákvæði og efni eins og nánar verður vikið að í skýringum við einstakar greinar.
    Í V. kafla er reglugerðarheimild og upplýsingar um gildistöku laganna.
    Að lokum eru þrjú ákvæði til bráðabirgða um þætti sem mikilvægir eru fyrir samfellu í starfi, sbr. yfirfærslu verkefna frá Tónverkamiðstöð og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar til tónlistarmiðstöðvar með skipun bráðabirgðastjórnar og yfirfærslu styrktarsamninga sem eru í gildi og stofnað var til af hljóðritasjóði og núverandi tónlistarsjóði yfir í nýjan tónlistarsjóð, sem og ákvæði um þjónustusamning.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur ekki gefið tilefni til sérstaks mats á samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Starfshópur um tónlistarmiðstöð, sem skipaður var helstu hagaðilum tónlistar, skilaði skýrslu vorið 2021 sem fól í sér grunn að tónlistarstefnu og upplegg fyrir nýjan tónlistarsjóð. Á þeim grunni hefur verið unnið að frekari mótun tónlistarstefnu og verkefni tónlistarmiðstöðvar skilgreind og útfærð. Fundað var með hagaðilum innan tónlistar, svo sem Sinfóníuhljómsveit Íslands, ÚTÓN, Tónverkamiðstöð, STEF, FÍH, FÍT, Tónlistarborginni Reykjavík, LHÍ, FTT, Tónskáldafélaginu, Hörpu og öðrum aðilum tengdum menningu og listum. Einnig var tekið tillit til athugasemda sem komu fram við breytingar á reglugerð nr. 1205/2020 um Sinfóníuhljómsveit Íslands.
    Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is dagana 17.–31. ágúst 2022 (mál nr. S-145/2022). Alls bárust 22 umsagnir og svo sem nánar verður rakið var tillit tekið til þeirra umsagna sem bárust. Margar umsagnir sneru að málefnum tónlistarmenntunar sem heyra ekki undir ráðuneyti menningar og viðskipta og höfðu því ekki áhrif á efni frumvarpsins.
    Umsögn barst frá Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) þar sem bent var á að margir tónlistarkennarar um land allt, sem oft og tíðum væru einnig starfandi tónlistarfólk, væru meðlimir í FT. Félagið væri mikilvægur hlekkur í virðiskeðju tónlistariðnaðarins og eðlilegt að félagið ætti þátt í að tilnefna í stjórn nýrrar tónlistarmiðstöðvar. Fallist var á þau sjónarmið og var ákveðið að útvíkka stjórn tónlistarmiðstöðvar í sjö manna stjórn í stað fimm manna stjórnar og mun FT tilnefna einn þeirra, verði frumvarpið samþykkt.
    Ábending barst þess efnis að fella út setninguna „Ráðherra fer með yfirstjórn málefna er varða tónlist samkvæmt lögum þessum“. Hefð er fyrir því að tilgreina hvaða ráðherra beri stjórnarfarslega ábyrgð á framkvæmd laga og viðkomandi málaflokki og er því ekki breytt.
    Nokkrar athugasemdir sneru að skipan í stjórn og ráð og var tekið tillit til þeirra eftir efni og aðstæðum. Einnig hefur verið skerpt á hlutverki tónlistarráðs í greinargerð.
    Brugðist var við athugasemdum um gjaldtöku tónlistarmiðstöðvar og voru gerðar breytingar á efni ákvæðisins og það skýrt nánar í greinargerð.
    Orðalag um skipan í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur verið lagfært eftir ábendingu. Hvað varðar ósk um að þekking stjórnar á tónlist sé tryggð í lögum með minni áherslu á umrædd ráðuneyti er því að svara að meginreglan er sú að ráðherra skipar fólk í stjórn sem hefur þekkingu á málaflokknum. Ekki er því ástæða til að kveða skýrar á um það í frumvarpinu.
    Nokkrar ábendingar bárust sem snertu verkefnaval Sinfóníuhljómsveitar Íslands og tóku á íslenskum tónverkum sérstaklega. Óskað var eftir nánari útlistun og skýrari ramma um hlut íslenskrar tónlistar í efnisvali sveitarinnar. Þær athugasemdir hafa ekki leitt til breytinga á frumvarpinu umfram þau ákvæði sem koma fram í 8. gr. Að öllu jöfnu nær dagskrárvald löggjafans eða framkvæmdarvaldsins ekki til listrænnar stefnu í málefnum menningar.
    Óskað var eftir frekari ramma um tekjur Sinfóníuhljómsveitar og takmarkaðri aðkomu annarra styrktaraðila. Að fenginni reynslu er stuðningur annarra en ríkis og borgar lítið brot af heildarmyndinni og óþarfi að óttast að utanaðkomandi styrktaraðilar hafi áhrif á listrænt starf sveitarinnar.
    Athugasemd var um hlutverk tónlistarmiðstöðvar í skráningu íslenskra tónverka í gagnagrunni og miðlun þeirra til íslenskra og erlendra flytjenda með aðgengilegum og skilvirkum hætti og því var bætt við 3. gr. frumvarpsins.
    Íslensk tónverkamiðstöð bendir á að misskilnings gæti við samanburð við Íslandsstofu og þá sérstaklega varðandi undanþágu frá tekjuskatti. Sú undanþága getur ekki átt við um tónlistarmiðstöð þar sem sala og leiga á tónverkum verði eitt af hlutverkum miðstöðvarinnar og ekki hægt að undanskilja þann hluta frá skattheimtu.
    Tekið var tillit til athugasemdar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um að tónlistarmiðstöð sinni afmörkuðum verkefnum tengdum rannsóknum og tölfræði um íslenskan tónlistariðnað og því bætt við skýringar við 3. gr. frumvarpsins
    Í sumum umsögnum komu fram áhyggjur af pólitískum afskiptum ráðherra við úthlutun úr tónlistarsjóði í ljósi orðalags ákvæðisins. Orðalagið kemur til af ábyrgð ráðherra á málaflokknum og samkvæmt meginreglunni um meðferð opinberra sjóða. Þetta felur ekki í sér bein afskipti ráðherra af úthlutunum.
    Fjöldi ábendinga kom um hvaða hagsmunaaðilar ættu að hafa aðkomu að tónlistarráði og var horfið frá því að lista upp þau félög og samtök. Ráðuneyti menningarmála fær það hlutverk að halda lista yfir þá hagsmunaaðila og hefur þar af leiðandi svigrúm til að bæta við eftir þörfum og þróun í tónlistargeiranum.
    Tekið var tillit til athugasemdar um að bæta menntastofnunum við mögulega samstarfsaðila Sinfóníuhljómsveitar.

6. Mat á áhrifum.
    Með lagasetningu verður settur heildarrammi um aðkomu hins opinbera að tónlist, umgjörð sett um rekstur og hlutverk tónlistarmiðstöðvar, tónlistarsjóðs og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki fela í sér tekjubreytingar fyrir ríkissjóð en gert er ráð fyrir að í kjölfar samþykktar þess verði 600 millj. kr. veittar tímabundið á árunum 2023–2025 til stofnunar og reksturs tónlistarmiðstöðvar og eflingar tónlistarsjóðs, sbr. fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027. Breytingarnar verða að einhverju leyti einnig fjármagnaðar með tilfærslu fjármagns innan fjárlagaramma málefnasviðsins.
    Tónlistarmiðstöð mun taka við hlutverki tveggja starfandi stofnana sem fá árlegt rekstrarframlag samkvæmt þjónustusamningum við menningar- og viðskiptaráðuneytið, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) og Íslensk tónverkamiðstöð (Tónverkamiðstöð), ásamt rekstrarframlaginu. Árlegt rekstrarframlag ÚTÓN hefur verið 36 millj. kr. og Tónverkamiðstöðvar 15,6 millj. kr.
    Þær fjárveitingar sem áður voru veittar í tónlistarsjóð, hljóðritasjóð og útflutningssjóð íslenskrar tónlistar, flytjast yfir í nýjan tónlistarsjóð. Samtals eru það 123,2 millj. kr. á ári sem flytjast þá yfir samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023.
    Samtals er gert ráð fyrir að kostnaður við stofnun og þjónustusamning tónlistarmiðstöðvar og kostnaður vegna samninga við Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og Íslenska tónlistarverkastöð sem tengjast yfirfærslu verkefna verði 149,3 millj. kr. árið 2023. Gert er ráð fyrir að fjárheimildir og kostnaður vegna nýs tónlistarsjóðs ásamt samningum við núverandi umsýsluaðila á yfirfærslutímabilinu verði 175,5 millj. kr. á árinu 2023.
    Gert er ráð fyrir að upphæð þjónustusamnings við tónlistarmiðstöð verði 150 millj. kr. fyrir árið 2024 og 180 millj. kr. árið 2025.
    Gert er ráð fyrir 224,8 millj. kr. í nýjan tónlistarsjóð árið 2024 og 244,8 millj. kr. árið 2025.
    Ráðuneytið skal gera þjónustusamning við tónlistarmiðstöð til þriggja ára í senn. Við lok samningstímabils er samningurinn endurnýjaður og skulu markmið endurskoðuð í takt við stefnu ráðuneytisins í málefnum tónlistar. Tónlistarmiðstöð er ætlað að vera einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs.
    Mikil gróska hefur verið í tónlistarsköpun á Íslandi síðustu misseri en viðskiptaumgjörð tónlistariðnaðarins hefur byggst upp hægar. Tónlistariðnaður á Íslandi byggist að miklu leyti á því sem oft kallast „gerðu það sjálfur“-hugarfar þar sem tónlistarfólk sér um allt sjálft, allt frá útgáfumálum til kynningarmála. Ástæðurnar má að hluta til rekja til þess að Ísland er lítill markaður sem hefur gert tónlistartengdum fyrirtækjum erfitt í gegnum tíðina að finna rekstrargrundvöll. Sú staðreynd hefur valdið því að tónlistarfólk hefur átt í erfiðleikum með að finna samstarfsaðila fyrir verkefni sem tengjast viðskiptaumgjörð starfseminnar sem síðan leiðir af sér að minni sérhæfð reynsla byggist upp á landinu. Afleiðingin er sú að þegar tónlistarfólk fer að njóta velgengni á erlendri grundu þá er rekstur verkefnisins oft og tíðum fluttur út og þar með fer möguleikinn á útflutningstekjum fyrir landið. Með því að styðja við uppbyggingu greinarinnar er lagður grunnur að sterkari og sjálfbærari tónlistariðnaði og þekkingaruppbyggingu á Íslandi.
    Jafnréttismat sem fór fram í ráðuneytinu gaf til kynna að það hallaði á hlut kvenna í tónlistariðnaði. Kynjaskipting er höfð til hliðsjónar við skipan í nefndir og ráð sem ráðuneytið heldur utan um en sá ójöfnuður sem bent hefur verið á er m.a. minni flutningur tónverka opinberlega, sem birtist í kynjahalla við úthlutun höfundarréttartekna, og að konur og kynsegin fá síður dagskrárpláss á tónlistarhátíðum, bæjarhátíðum og öðrum viðburðum sem bjóða upp á tónlistaratriði. Það benti til þess að ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna hefðu ekki haft tilhlýðileg áhrif. Því var ákveðið að fara þá leið að árétta markmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, og laga um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, nr. 85/2018, í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Markmið frumvarpsins er að bæta starfsumhverfi tónlistar og styðja frekari uppbyggingu tónlistargeirans hér á landi. Með lagasetningu verður settur heildarrammi um aðkomu hins opinbera að tónlist og umgjörð sett um rekstur og hlutverk tónlistarmiðstöðvar, tónlistarsjóðs og Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
    Gæta þarf að jafnrétti, óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu við skipan í stjórnir, nefndir, ráð, störf og val í verkefni sem bjóða upp á þátttöku fag- og listamanna. Verði frumvarpið samþykkt skal framkvæmd laganna endurspeglast í sem fjölbreyttustum hópi þátttakenda í málefnum tónlistar. Gæta þarf sérstaklega að jafnrétti kynjanna, svo sem við skipan í stjórnir, nefndir og ráð. Leitast skal við að jafna hlut kynjanna í verkefnum þeirra stofnana sem munu heyra undir þessi lög og hafa í huga jafnréttissjónarmið við viðameiri ákvarðanatöku. Þetta ákvæði grundvallast á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, og lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, nr. 85/2018.

Um 2. gr.

    Ákvæðið fjallar um rekstrarform tónlistarmiðstöðvar og skal hún vera sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð. Miðstöðin starfar eftir skipulagsskrá sem stjórn setur og staðfestir og kveður á um rekstur tónlistarmiðstöðvar, þ.m.t. starfsemi og skipulag hennar.
    Stefnt er að því að tónlistarmiðstöðin verði einn af hornsteinum íslenska tónlistargeirans sem styðji uppbyggingu sprotafyrirtækja, hlúi að ferli tónlistarfólks og tryggi fjölbreytni og grósku í tónlistariðnaði. Það kallar á sveigjanleika og möguleika á hröðum breytingum. Tónlistargeirinn er kvikur og breytist hratt. Á Íslandi er hann samsettur af fjölbreyttum hópi einyrkja, örfyrirtækja og litlum hópi stærri fyrirtækja og félaga á borð við félagasamtök og höfundaréttarsamtök sem starfa í þágu tónlistarfólks og -fyrirtækja en þörf er á töluverðri innviðaþróun og vexti. Tónlistarmiðstöðin þarf að fylgjast grannt með þróun á bæði tekju- og rekstrarmódelum í tónlistargeiranum á alþjóðavettvangi og þróun innan tónlistargeirans hér á landi og fylgjast með breyttum þörfum eftir því sem geirinn vex og dafnar.
    Lögfesting á rekstri sjálfseignarstofnunar með sérstakri skipulagsskrá er ekki mjög algengt rekstrarform en hefur verið notað fyrir stofnanir sem eru með lögbundið hlutverk eða hlutverk sem er að einhverju eða öllu leyti opinbers eðlis en vinna í nánu samstarfi við atvinnugreinina og þurfa þar af leiðandi aukinn sveigjanleika en almennt býðst opinberum stofnunum. Dæmi um stofnun sem rekin er undir þessu formi er Íslandsstofa. Slíkt rekstrarform fellur vel að áherslum tónlistarmiðstöðvar þar sem sveigjanleiki er mikill, breytingar eru hraðar og opið samtal á sér stað við fólk sem starfar við tónlist.

Um 3. gr.

    Tónlistarmiðstöð er ætlað að styðja við uppbyggingu tónlistargeirans á Íslandi, sjá um kynningu á íslenskri tónlist og nótum, hér á landi og erlendis, hlúa að listafólki og stuðla að fjölbreytni og grósku í tónlistargeiranum. Í starfi miðstöðvarinnar verður lögð áhersla á að samræma og samstilla íslenskt tónlistarlíf sem listform, atvinnustarfsemi og iðnað. Samstarf og samtal við grasrótina, tónlistartengd fyrirtæki, menntakerfið og hið opinbera verður leiðarstef í starfsemi miðstöðvarinnar. 
    Hlutverk tónlistarmiðstöðvar verður að vera samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, menningarstofnana, menntastofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir í málefnum tónlistar.
    Tónlistarmiðstöð mun taka yfir hlutverk Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar sem kynningarmiðstöðvar fyrir íslenska tónlist. Miðstöðin mun veita tónlistarfólki og fyrirtækjum á sviði markaðssetningar ráðgjöf og þjónustu og styðja útflutning á tónlist og stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun við erlenda aðila á sviði tónlistar. 
    Tónlistarmiðstöðin mun einnig taka yfir hlutverk Íslenskrar tónverkamiðstöðvar sem nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Öllum íslenskum tónskáldum mun bjóðast að leggja verk sín inn í veituna. Miðstöðin mun stuðla að kynningu, miðlun og sölu á íslenskri tónlist og nótum hér á landi og erlendis.
    Þar að auki mun miðstöðin sinna fræðslu fyrir tónlistarfólk, tónlistartengd fyrirtæki og frumkvöðla og hafa umsjón með rekstri og starfsemi nýs tónlistarsjóðs. 
    Lengi hefur vantað tölfræði yfir menningartengda starfsemi og mun tónlistarmiðstöð sinna afmörkuðum verkefnum tengdum rannsóknum og tölfræði um íslenskan tónlistariðnað. 
    Varðveisla menningarverðmæta á borð við nótur af íslenskum tónverkum er verðugt verkefni sem mikilvægt er að tónlistarmiðstöð taki þátt í. Miðstöðin skal bjóða upp á þjónustu við skylduskil til Landsbókasafnsins á þeim verkum sem lögð eru inn í nótnaveitu auk fræðslu um skylduskil og þá möguleika sem í boði eru í tengslum við varðveislu tónlistar sem til er á upptökum, nótum og í öðrum tónlistarhandritum.

Um 4. gr.

    Ákvæðið fjallar um fyrirkomulag og hlutverk stjórnar tónlistarmiðstöðvar. Stjórnin skipuleggur og ákveður verkefni miðstöðvarinnar. Stjórnina skipa sjö aðilar skipaðir til þriggja ára í senn. Ráðherra skipar fimm stjórnarmenn eftir tilnefningum eftirfarandi hagaðila innan tónlistarheimsins, sem hver um sig tilnefnir einn stjórnarmann: STEF, Félag hljómplötuframleiðenda (FHF), Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og Tónskáldafélag Íslands. Tveir stjórnarmenn skulu skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður stjórnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.
    Stjórn ræður framkvæmdastjóra og ber hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart henni. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur tónlistarmiðstöðvar í umboði stjórnar, ræður annað starfsfólk og er í forsvari fyrir hana. Framkvæmdarstjóri skal hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði miðstöðvarinnar. 
    Stjórnin samþykkir árlega starfs- og fjárhagsáætlun tónlistarmiðstöðvar og hefur eftirlit með framkvæmd hennar.
    Stjórnin skal hafa yfirumsjón með rekstri tónlistarmiðstöðvar og meiri háttar ákvarðanir um rekstur miðstöðvarinnar skulu teknar af henni. Stjórnin skal sjá um að boða til aðalfundar tónlistarmiðstöðvarinnar.
    Að öðru leyti inniheldur greinin hefðbundin ákvæði er lúta að hlutverki stjórnar þegar kemur að almennum rekstrarþáttum, svo sem samþykki árlegrar starfs- og fjárhagsáætlunar, aðalfundi o.s.frv., sem ekki þarfnast sérstakra skýringa.

Um 5. gr.

    Í greininni er fjallað um rekstur tónlistarmiðstöðvar. Gert er ráð fyrir að stærsti hluti tekna miðstöðvarinnar hljótist af þjónustusamningum við ríki, stofnanir og samtök ásamt öðrum tilfallandi framlögum. Einnig hefur miðstöðin heimild til að innheimta þóknun fyrir veitta þjónustu sem tilgreind verður í gjaldskrá miðstöðvarinnar og heimild til að þiggja aðrar óskilgreindar tekjur á borð við styrki og fjármagn frá samstarfsaðilum til samstarfsverkefna.
    Gerður skal þjónustusamningur til þriggja ára í senn sem skal uppfærður við lok samningstímabils í samræmi við opinbera tónlistarstefnu. Þegar nýr þjónustusamningur er gerður skulu ný markmið sett sem styðja við stefnuna. Ráðuneyti og stjórn tónlistarmiðstöðvar móta og gera með sér þjónustusamning.
    Tónlistarmiðstöð mun taka við af Íslenskri tónverkamiðstöð við sölu og leigu á nótum. Tónverkamiðstöð hefur haldið úti nótnaveitu með um tíu þúsund titla af íslenskum tónverkum. Þau verk færast yfir í nýja nótnaveitu tónlistarmiðstöðvar til sölu og leigu, þegar við á, að gefnu leyfi rétthafa. Nótnaveita er gagnagrunnur og sölukerfi fyrir nótur. Gera má ráð fyrir að hluti þeirra verka sem færast yfir í tónlistarmiðstöð hafi ekki verið færður yfir á rafrænt form og verður það hluti af verkefnum miðstöðvarinnar að finna þeim verkum geymslustað og, þegar tækifæri gefast og leyfi er til staðar frá rétthöfum, koma þeim á rafrænt form. Nótur fyrir stærri hljómsveitir eru í flestum tilfellum prentaðar og leigðar út og ber tónlistarmiðstöð að bjóða upp á þá þjónustu og fylgja eftir skilum á nótum í lok leigutíma. Nótnaveitan er opin öllum íslenskum tónskáldum til að leggja inn verk sín til sölu og/eða leigu og er markmiðið að í nótnaveitunni verði að finna sem flest íslensk tónverk sem til eru á nótnaformi.

Um 6. gr.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnað verði tónlistarráð sem verði stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni er varða tónlist og faglega ráðgjöf tengda verkefnum miðstöðvarinnar. Tónlistarráð tekur þátt í stefnumótun tónlistarmiðstöðvar og verður það hlutverk stjórnar miðstöðvarinnar að eiga frumkvæði að þeirri vinnu. Þá geta ráðuneyti, sveitarfélög og önnur stjórnvöld einnig leitað til tónlistarráðs eftir ráðgjöf á sviði tónlistar eftir því sem þörf krefur. Tónlistarráði er ætlað að vera samráðsvettvangur á milli stjórnvalda, tónlistarmiðstöðvar og tónlistargeirans til að fá megi sem flest og fjölbreyttust sjónarmið fyrir vinnu við stefnumótun á sviði tónlistar. Innlegg tónlistarráðs mun einnig verða verðmætt innlegg í ákvarðanatöku hins opinbera og tónlistarmiðstöðvar um málefni tónlistar.
    Ráðherra skipar fulltrúa í tónlistarráð til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningum hagaðila innan tónlistarheimsins sem tilgreindir eru á hagaðilalista sem ráðuneytið heldur utan um og uppfærir reglulega. Ráðherra skipar einn fulltrúa í tónlistarráð án tilnefningar sem skal vera formaður ráðsins. Hlutverk formanns er að vera tengiliður ráðuneytis þegar kemur að málum sem tónlistarráð tekur fyrir og boða fundi tónlistarráðs.
    Hlutverk tónlistarráðs er að vera til ráðgjafar en það tekur ekki ákvarðanir um stjórnsýsluleg eða fjármálatengd málefni.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir stofnun tónlistarsjóðs en hlutverk hans er m.a. að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði með fjárhagslegum stuðningi. Tónlistarsjóður tekur við af útflutningssjóði íslenskrar tónlistar sem veitt hefur ferðastyrki og markaðsstyrki til útflutningsverkefna í tónlist, hljóðritasjóði sem veitt hefur styrki til útgáfu hljóðrita og tónlistarsjóði sem styrkt hefur almenna tónlistarstarfsemi auk þess að veita styrki til kynningar og markaðssetningar á tónlist. Í skýrslu starfshóps um tónlistarmiðstöð sem rýndi sjóðakerfi tónlistar kom fram að mörk á milli sjóðanna væru óskýr og að ýmsir þættir sem væru nauðsynlegir tónlistarlífinu væru ekki styrkhæfir í núverandi fyrirkomulagi. Tíðni úthlutana var einnig rýnd og í kjölfarið var lagt til að úthlutanir hinna mismunandi deilda tónlistarsjóðs yrðu samstilltar í tíma til hagræðingar fyrir umsækjendur og til að mögulegt væri fyrir úthlutunarnefndir að bera saman bækur sínar og verður það haft í huga við uppsetningu á úthlutartímabilum nýs tónlistarsjóðs.
    Með fyrirkomulagi í nýjum tónlistarsjóði er leitast við að gera styrkjakerfi tónlistar einfaldara, skilvirkara og gagnsærra.
    Með íslenskri tónlist og hljóðritagerð er átt við tónlist sem samin er af íslenskum höfundum og tónlist sem flutt er af íslenskum flytjendum, jafnt atvinnu- sem áhugamönnum.
    Með þróunarstarfi í íslenskri tónlist er átt við hvers kyns starfsemi sem snýr að nýsköpun eða þróun innviða í tónlistargeiranum, þ.e. fyrirtæki og þjónustu sem eru mikilvæg fyrir viðskiptaumgjörð tónlistarverkefna. Heimilt er m.a. að styrkja sprotafyrirtæki í tónlist og átaksverkefni sem miða að því að treysta undirstöður tónlistar sem atvinnugreinar.
    Tónlistarsjóði verður skipt í fjórar deildir sem allar hafa ólíkar áherslur. Þróun og innviðir veiti styrki til innviða- og sprotaverkefna, tónlistarhátíða og tónleikastaða og geri samninga til eins til þriggja ára í tengslum við tónlistarhátíðir, tónleikastaði og aðra innviði. Með innviðum er átt við kjarnastarfsemi tónlistariðnaðar á borð við tónleikastaði, útgáfufyrirtæki, umboðsfyrirtæki, tónlistarforleggjara, tónleikahaldara og aðra starfsemi sem mikilvæg er fyrir heilbrigðan tónlistariðnað.
    Tónlistarsköpun á Íslandi hefur blómstrað á síðustu áratugum en tónlistariðnaðurinn hefur byggst upp hægar. Einyrkjastarfsemi sem byggist á „gerðu það sjálfur“-hugarfari hefur einkennt tónlistariðnaðinn á Íslandi að miklu leyti. Með því að styðja við innviðauppbyggingu er lagður grunnur að sterkari og sjálfbærari tónlistariðnaði.
     Frumsköpun og útgáfa veiti styrki til frumsköpunar höfunda, nýrra hljóðrita, nótnaútgáfu og markaðssetningar innan lands á frumsköpun og útgáfuverkefnum.
     Lifandi flutningur veiti styrki til tónleikahalds innan lands og markaðssetningar innan lands á lifandi flutningi auk þess að gera eins til þriggja ára samninga við m.a. hljómsveitir og tónlistarhópa.
     Útflutningur veiti styrki til markaðssetningar og ferðalaga erlendis auk ferðastyrkja. Í tillögum starfshóps var lagt til að tónlistarmiðstöð mundi sjá um að úthluta ferðastyrkjum en til að tryggja sanngirni og gagnsæi verða ferðastyrkir hluti af útflutningsdeild tónlistarsjóðs.
    Fjármagn til sjóðsins skiptist á milli deildanna á eftirfarandi hátt: Þróun og innviðir 21%, frumsköpun og útgáfa 25%, lifandi flutningur 25% og útflutningur 17%. Þar að auki mun 12% fara í fljótandi úthlutun sem deilist á milli sjóða eftir ásókn umsækjenda og áherslum sjóðsins á hverjum tíma.
    Nánari útfærslu á deildunum verður að finna í úthlutunarreglum sem settar verða af ráðherra.
    Deildirnar verða með ólík umsóknartímabil og fjölda úthlutana og því getur myndast tækifæri til samnýtingar á úthlutunarnefnd á milli deilda og er það ráðherra að taka ákvörðun um hvort nýta beri þau tækifæri. 
    Tónlistarmiðstöð mun hafa umsjón með umsóknarkerfi, vinnslu umsókna, skipulagi á fundum úthlutunarnefnda og öðru sem felst í umsýslu tónlistarsjóðs. Miðstöðin hefur heimild til að útvista rekstri umsóknarkerfis. Greiðsla styrkja skal fara fram í gegnum Fjársýslu ríkisins.
    Reglur um auglýsingar, meðferð umsókna og afgreiðslu þeirra skal hafa í úthlutunarreglum sjóðsins sem settar eru af ráðherra í samráði við umsýsluaðila sjóðsins. Setja skal úthlutunarreglur fyrir fyrstu skipan í úthlutunarnefndir sjóðsins.
    Ráðherra mótar úthlutunarreglur, stefnu og áherslur sjóðsins í samráði við umsýsluaðila sjóðsins. Ráðherra úthlutar úr tónlistarsjóði að fengnum tillögum úthlutunarnefndar.
    Framkvæmdastjóri tónlistarmiðstöðvar skal bera ábyrgð á endurskoðunarferlinu, sbr. 9. mgr. og kalla eftir tillögum tónlistarráðs og úthlutunarnefndar tónlistarsjóðs. Framkvæmdastjóri tónlistarmiðstöðvar leggur til endurskoðaða stefnu og helstu áherslur í starfi sjóðsins til þriggja ára og færir ráðherra til samþykktar.

Um 8. gr.

    Sinfóníuhljómsveit Íslands telst eign íslensku þjóðarinnar þar sem um er að ræða hluta af menningararfi þjóðarinnar. Fyrirmynd að þessu ákvæði er að finna í lögum um sviðslistir þar sem kveðið er á um að Þjóðleikhúsið sé eign íslensku þjóðarinnar og sama á við um þjóðgarðinn á Þingvöllum í lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Sinfóníuhljómsveitin er, líkt og Þjóðleikhúsið og aðrar stofnanir ríkisins, hluti af stjórnsýslu hins opinbera og ekki ber að líta svo á að með ákvæðinu séu gerðar eignaréttarlegar breytingar á stöðu hljómsveitarinnar.
    Lagt er til að orðalag ákvæðisins taki nokkrum breytingum til samræmis við breytta tíma en frumvarpið felur þó ekki í sér efnislega endurskoðum á gildandi ákvæðum laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982. Með starfi sínu skal hljómsveitin stuðla að því að auðga tónmenningu Íslendinga, efla áhuga og þekkingu á sígildri tónlist og samtímatónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar. Ákvæði um tónleikahald sem áður voru í 2. gr. og 10. gr. er eingöngu til umfjöllunar hér og tekur á tónleikahaldi sem víðast um landið og ekki síður að nýta nýja möguleika til tónlistarflutnings í útvarpi, sjónvarpi og á vefmiðlum. Áherslu ber að leggja á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar, innan lands sem utan.
    Með tónlistarmenntun er átt við nám á sem víðustum grunni og á öllum skólastigum. 
    Lagt er til að ákvæði um varnarþing verði ekki tekið upp í greinina, sbr. 1. gr. gildandi laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982, þar sem ekki er nauðsynlegt að kveða sérstaklega á um varnarþing stjórnvalda í sérlögum, sbr. V. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, en stjórnvöld verða almennt sótt fyrir dómi í Reykjavík.

Um 9. gr.

    Ákvæði 5.–8. gr. laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982, fjalla um ábyrgð og verkefni stjórnar og eru felld undir eina grein í frumvarpinu.
    Lagt er til að orðalagi um hljómsveitarstjóra verði breytt í þá veru að talað verði um aðalhljómsveitarstjóra og „aðra fasta hljómsveitarstjóra“. 
    Í gildandi lögum er heimild til að ráða 65 fasta hljóðfæraleikara og skyldi það vera lágmarkið. Ekki voru gerðar breytingar á þessu ákvæði og helst það því óbreytt. Lagt er til að ákvæði um ráðningarnefnd ríkisins, sem kveðið er á um í 9. gr. laganna, verði ekki tekið upp í ákvæðið þar sem það á ekki lengur við.

Um 10. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 2. mgr. 2. gr. og. 3. mgr. 3. gr. laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982. Þar er kveðið á um að kappkosta skuli að hafa sem víðtækast samstarf við tengda aðila og einnig er þar heimild til að efna til samvinnu við Þjóðleikhús, Íslenska dansflokkinn og fleiri aðila. Í lögunum er kveðið á um að samstarf skuli vera á viðskiptagrunni en lagt er til að taka það orð ekki upp í greinina heldur hafa grundvöll til samstarfs opnari.

Um 11. gr. 

    Greinin er efnislega samhljóða 3. og 9. gr. laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982, sem eru hér sameinaðar með breyttu orðalagi. Þar er kveðið á um fjárhag Sinfóníuhljómsveitarinnar og skiptingu rekstrarkostnaðar á milli Ríkissjóðs Íslands og borgarsjóðs Reykjavíkur auk þess sem heimildir eru gefnar fyrir gjaldtöku o.fl.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 13. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2023 og frá sama tíma falli brott lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982. Einnig er lagt til að III. kafli um tónlistarsjóð komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. júní 2023 og frá þeim tíma falli úr gildi lög um tónlistarsjóð, nr. 76/2004. Er það gert til að tryggja samfellu í rekstri þeirra sjóða sem munu koma saman undir einum hatti í nýjum tónlistarsjóði. Unnið er að mati og afgreiðslu styrkja sem greiddir verða frá tónlistarsjóði og hljóðritasjóði á fyrri hluta árs 2023 frá haustmánuðum 2023 og fram yfir áramót. Til að klára þær úthlutanir munu eldri sjóðir greiða út styrki á fyrri hluta árs 2023 en nýr tónlistarsjóður í umsýslu Tónlistarmiðstöðvar mun svo taka við á miðju ári og auglýsa og afgreiða styrkumsóknir á seinni hluta ársins. Rannís hefur séð um umsýslu tónlistarsjóðs og hljóðritasjóðs. Sjóðirnir úthluta báðir tvisvar á ári, á vorin og haustin. Samið verður við Rannís um að taka að sér lokaúthlutanir sjóðanna og fylgja ferlum og úthlutunarreglum sjóðanna líkt og verið hefur.

Um ákvæði til bráðabirgða I–III.

    Ákvæði til bráðabirgða I snýst um skipun bráðabirgðastjórnar, II um eldri samninga við styrkþega og III um hvenær þjónustusamningur skal liggja fyrir. Í ákvæðunum felst að með stofnun tónlistarmiðstöðvar taki miðstöðin yfir hlutverk Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og hluta af hlutverki Íslenskrar tónverkamiðstöðvar, sem hingað til hafa hlotið rekstrarstuðning frá ráðuneyti. 
    Bráðabirgðastjórn mun hafa það hlutverk að auglýsa eftir framkvæmdastjóra tónlistarmiðstöðvar, koma að gerð þjónustusamnings og vinna að mótun skipulagsskrár. Bráðabirgðastjórn þarf einnig að sjá til þess að samfella haldist í starfi, annars vegar vegna yfirfærslu verkefna frá Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar til tónlistarmiðstöðvar og hins vegar vegna stofnunar nýs tónlistarsjóðs og niðurfellingar núverandi tónlistarsjóðs, hljóðritasjóðs og útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar.
    Íslensk tónverkamiðstöð sinnir skráningu, umsýslu og miðlun tónverka og heldur úti nótnaveitu með yfir tíu þúsund tónverkum. Starfsemi miðstöðvarinnar nær yfir allt árið. Mikilvægt er að halda gangandi þjónustu við tónskáld auk sölu og leigu á tónverkum, m.a. til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þar til tónlistarmiðstöð getur tekið við því hlutverki og ætti það að vera eitt af fyrstu verkefnum miðstöðvarinnar að ýta þeirri þjónustu úr vör. Samið verður við tónverkamiðstöð um að halda kjarnastarfsemi áfram á fyrstu mánuðum ársins 2023 til að tryggja samfellu í þjónustu við tónskáld og í tengslum við nótnaumsýslu.
    Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar sinnir, sem fyrr segir, stuðningi við útflutningsverkefni í tónlist og markaðssetningu á íslenskri tónlist á lykilmörkuðum erlendis.
    Starfsemin spannar allt árið. Til að tryggja samfellu í útflutningsstarfi er búið að skilgreina lykilverkefni sem samið verður við skrifstofuna um að sinna áfram á fyrstu mánuðum ársins 2023.
    Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar hefur verið í umsýslu Útflutningsskrifstofunnar og hafa úthlutanir úr sjóðnum verið mánaðarlega. Það verður eitt af lykilverkefnum skrifstofunnar að sinna umsýslu sjóðsins á fyrstu mánuðum ársins 2023 en frá 1. maí mun menningar- og viðskiptaráðuneytið taka við þar til nýr tónlistarsjóður tekur til starfa í ágúst 2023.