Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 690  —  466. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Högna Elfari Gylfasyni um samstarf við fjármála- og efnahagsráðuneytið í tengslum við endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og Evrópusambandsins.


     1.      Er samstarf milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins vegna misræmis á útflutningstölum ESB og Íslands og þá einkum í tengslum við samningaviðræður Íslands og ESB um endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB sem nú standa yfir?
    Haustið 2020 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða hvort misræmi væri á magni í útflutningstölum úr gagnagrunni Evrópusambandsins (ESB) annars vegar og innflutningstölum Hagstofu Íslands hins vegar á ákveðnum landbúnaðarvörum. Starfshópurinn skilaði minnisblaði til ráðherra í október 2020. Í framhaldi af minnisblaði þess starfshóps skipaði fjármála- og efnahagsráðherra nýjan starfshóp í janúar 2021 til þess að fara nánar ofan í saumana á þessu málefni. Sá starfshópur er enn starfandi.
    Ráðuneytið hefur ekki haft aðkomu að vinnu framangreindra starfshópa sem skipaðir hafa verið af fjármála- og efnahagsráðherra. Gerð fríverslunarsamninga og annarra viðskiptasamninga er á forræði ráðherra. Almennt eru samningaviðræður unnar í nánu samstarfi við viðkomandi fagráðuneyti, hvort sem um er að ræða gerð nýrra samninga eða við endurskoðun eldri samninga. Samráð er haft við matvælaráðuneytið vegna skuldbindinga fyrir landbúnaðarvörur og fjármála- og efnahagsráðuneytið fyrir iðnaðarvörur. Í tilfelli endurskoðunar landbúnaðarsamnings Íslands og ESB, sem eingöngu fjallar um markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur, er samráð haft við matvælaráðuneytið. Engu að síður er rétt að taka fram að náið og gott samstarf er á milli sérfræðinga og embættismanna ráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sviði tollamála.
    Í greinargerð með þingfyrirspurninni segir að í úttekt frá 2021 sem framkvæmd var á vegum ráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á hagsmunum Íslands samkvæmt EES-samningnum, komi fram að „misræmi sé milli inn- og útflutningstalna og að misræmið gefi ranga mynd af stöðu utanríkisviðskipta og skekki samkeppnisstöðu bænda ásamt því að hafa áhrif á tekjuöflun ríkissjóðs.“ Ráðuneytið vill taka fram að umrædd úttekt laut að landbúnaðarsamningi ESB og Íslands frá 2015 en ekki mögulegu misræmi í inn- og útflutningstölum. Í úttektinni er sagt stuttlega frá gagnrýni hagaðila vegna misræmis á milli inn- og útflutningstalna. Í úttektinni er tekið fram að misræmið sé til staðar en ekki er komist að neinni niðurstöðu eða aðrar ályktanir dregnar hvað það varðar.

     2.      Liggur fyrir viðræðuáætlun við ESB um endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB?
    Frá því í byrjun árs 2021 hafa stjórnvöld átt í viðræðum við framkvæmdastjórn ESB um endurskoðun á tvíhliða samningi Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur. Samningurinn var undirritaður í september 2015, öðlaðist gildi í maí 2018 en kom að fullu til framkvæmda árið 2021. Óskað var eftir endurskoðun samningsins í desember 2020. Að fengnu samþykki ríkisstjórnar óskuðu stjórnvöld eftir endurskoðun landbúnaðarsamningsins á grundvelli þess að breytingar hefðu orðið á langtímaforsendum samningsins. Lúta þær forsendubreytingar bæði að útgöngu Bretlands úr ESB sem og því að framtíðarspár um möguleika íslensks landbúnaðar til útflutnings hafa ekki gengið eftir. Það hafi því skapast ójafnvægi á milli samningsaðila varðandi nýtingu á þeim möguleikum sem samningurinn felur í sér. Aðalmarkmið viðræðnanna af Íslands hálfu er að auka jafnvægi í samningnum.
    Ekki er unnið eftir sérstakri viðræðuáætlun, en samtöl og fundir eiga sér stað eftir því sem efni og ástæða er til. Af Íslands hálfu hafa viðræðurnar verið tengdar við yfirstandandi viðræður um nýjan Uppbyggingarsjóð EES og því ljóst að viðræður um endurskoðun munu að einhverju leyti fylgja framgangi þeirra viðræðna.

    Alls fóru sex vinnustundir í að taka þetta svar saman.