Ferill 355. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 691  —  355. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur um táknmál í grunnskólum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að hefja kennslu á táknmáli í grunnskólum? Ef svo er, í hvaða skólum og hvenær?

    Ákvæði um sérstaka íslenskukennslu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta og táknmálskennslu fyrir heyrnarlausa hefur verið í aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 1999. Þetta er í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, þar sem m.a. er mælt fyrir um að setja skuli ákvæði um íslenskt táknmál í aðalnámskrá. Markmið fyrir kennslu í íslensku táknmáli falla undir námssvið íslensku í grunnskóla og er námssviðið íslenska nánar útfært í aðalnámskrá grunnskóla, greinahluta íslensku frá árinu 2013.
    Ekki er gert ráð fyrir því í núverandi aðalnámskrá grunnskóla að táknmálskennsla standi öðrum til boða í grunnskólum en þeim sem eru heyrnarlausir. Það útilokar þó ekki að boðið sé upp á slíka kennslu sem valgrein fyrir nemendur sem ekki eru heyrnarlausir eða heyrnarskertir, en slíkt fer eftir ákvörðun viðkomandi grunnskóla.