Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 710  —  458. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Högna Elfari Gylfasyni um farsímasamband.


     1.      Hversu margir sveitabæir í ábúð hafa ekki farsímasamband?
    Ráðuneytið leitaði umsagnar Fjarskiptastofu um fyrirspurn háttvirts alþingismanns og er í svari þessu byggt á umsögn stofnunarinnar.
    Í gagnagrunni almennra fjarskipta (GAF) sem Fjarskiptastofa á og rekur eru til nokkuð áreiðanleg gögn um bæði lögheimili með búsetu og frístundahús. „Sveitabæir í ábúð“ og „sumarbústaðir“ er ekki skilgreind flokkun bygginga í GAF. Þar sem sveitabæir í ábúð hljóta jafnframt að teljast til lögheimila með búsetu og sumarbústaðir líklega flestir flokkaðir með frístundahúsum, þá er notast við þá flokkun bygginga í svörum við þessum spurningum. Gögn varðandi lögheimili, búsetu á lögheimilum og frístundahús eru góð að mati Þjóðskrár Íslands en ekki fullkomin. Útbreiðsla farsímakerfa/farneta er jafnframt tiltæk í GAF með þeim skýra fyrirvara þó að um er að ræða samanlagða útbreiðsluspá allra farsíma- og farnetsfyrirtækjanna þriggja fyrir allar kynslóðir farneta (2G/GSM, 3G, 4G og 5G) en ekki niðurstöðu raunmælinga. Greiningar sem þessar byggjast á misnákvæmum gögnum þó að niðurstöður úr útreikningum sem á þeim byggjast gefi nákvæma tölu.
    Þá geta aðrir þættir haft áhrif á upplifun notenda á gæðum farsíma- eða farnetsþjónustu. Veggir og gler í húsum hafa mismikil áhrif á radíómerki, loftnet í símum eru misjafnlega næm, sjónlína í sendi getur verið tæp, svo sem vegna mikils gróðurs o.s.frv. Þá ber að horfa til þess að rekstraraðilar farneta horfa í auknum mæli til þess að skipta út eldri GSM- og 3G-sendum og loftnetum með nýrri 4G- og 5G-búnaði sem getur leitt til breytinga á útbreiðslu eða gæðum farnetsþjónustu.
    Eftirfarandi svör taka mið af tveimur sviðsmyndum (A og B) um líklega upplifun notenda á farsíma/farnetsþjónustu við eða í viðkomandi byggingu:
    A.    Í einhverjum tilfellum má búast við döpru sambandi innan húss, hins vegar ætti samband að vera nægilega gott utan húss.
    B.    Búast má við slitróttu sambandi utan húss og mjög döpru eða engu sambandi innan húss.
    Ef miðað er við sviðsmynd A eru 86 lögheimili með búsetu sem ekki hafa farsímasamband í framangreindum skilningi en ef miðað er við sviðsmynd B er um að ræða 13 lögheimili með búsetu sem ekki hafa farsímasamband.

     2.      Hversu margir sumarbústaðir hafa ekki farsímasamband?
    Í framangreindum skilningi og miðað við sviðsmynd A eru 260 frístundahús án farsímasambands en 70 frístundahús ef miðað er við sviðsmynd B.

     3.      Er til áætlun um að ljúka farsímavæðingu þessara staða? Ef svo er, hvenær eru áætluð verklok?
    Stjórnvöld hafa um langt skeið stuðlað að því að tryggja öllum lögheimilum með búsetu viðunandi lágmarksfjarskiptaþjónustu á hverjum tíma á grundvelli laga og reglugerðar um alþjónustu í fjarskiptum. Kvöð um alþjónustu hvíldi lengi vel á Mílu ehf. en Neyðarlínan ohf. tók við því hlutverki fyrir nokkru síðan að tryggja þeim lögheimilum með búsetu a.m.k. 10Mb-internettengingu sem jafnframt ber talsímaþjónustu, svokallaðan netsíma eða VoiP. Fyrir liggur að 3G-netsamband uppfyllir þetta lágmarksviðmið sem og allar afkastameiri nettengingar, svo sem örbylgja, 4G, 5G, ljósnet og ljósleiðari. Neyðarlínan hefur á síðustu misserum hlaupið víða undir bagga með heimilum og fyrirtækjum einkum í tengslum við niðurlagningu Símans á talsímaþjónustu yfir koparlínur um land allt. Það hefur komið fyrir að slík verkefni hafi verið leyst með hagkvæmum úrbótum á farnetssambandi. Í öðrum tilfellum hefur sú leið ekki verið farin, einkum vegna mikils kostnaðar. Rétt er að halda því til haga að stjórnvöld hafa á undanförnum árum stutt dyggilega við lagningu ljósleiðara í dreifbýli landsins með milligöngu fjarskiptasjóðs.
    Yfir 99,9% lögheimila landsins eiga þegar kost á 4G-farneti og um 70% hafa jafnframt aðgang að 5G-farneti. Líklegt má telja, á grundvelli nýrra fjarskiptalaga og tíðniúthlutunar Fjarskiptastofu á næsta ári, að aukin samvinna farnetsfyrirtækja og opinberra aðila muni leiða til aukinnar útbreiðslu og/eða betri gæða farnets gagnvart fleiri lögheimilum og frístundahúsum á komandi misserum og árum.