Ferill 306. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 784  —  306. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þórunni Sveinbjarnardóttur um ljósmæður.


     1.      Hve mörg stöðugildi ljósmæðra voru á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri árin 2016 og 2021?
    Árið 2016 voru 97,9 stöðugildi ljósmæðra á Landspítalanum og 12,7 á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Árið 2021 voru 100,8 stöðugildi ljósmæðra á Landspítalanum og 14,2 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

     2.      Hversu margar ljósmæður mönnuðu þessi stöðugildi?
    Árið 2016 voru 172 starfandi ljósmæður á Landspítalanum og 24 á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Árið 2021 voru 176 starfandi ljósmæður á Landspítalanum og 25 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

     3.      Hve mörg stöðugildi ljósmæðra voru á heilsugæslustöðvum eftir heilbrigðisumdæmum árin 2016 og 2021?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda stöðugilda ljósmæðra eftir heilbrigðisumdæmum fyrir árin 2016 og 2021:

Ljósmæður          
Stofnun
2016
Stöðugildi
2021
Stöðugildi
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 23,1 18,1
Einkareknar heilsugæslur 1,55 8,7
Reykjavíkurborg 0 0
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 2,6 2,2
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 1,9 1,6
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 6,7 8,4
Heilbrigðisstofnun Austurlands 1,65 1,5
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 5,9 11,31
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 2 1,1
Stöðugildi ljósmæðra alls 45,4 52,91

     4.      Hversu margar ljósmæður mönnuðu þessi stöðugildi?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda starfandi ljósmæðra á heilsugæslum eftir heilbrigðisumdæmum:

Ljósmæður
Stofnun
2016


Fjöldi starfsmanna
2021
Fjöldi starfsmanna
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 40

47
Einkareknar heilsugæslur 3 14
Reykjavíkurborg 0 0
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 6 5
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 3 2
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 10 12
Heilbrigðisstofnun Austurlands 5 5
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 16 20
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 3 2
Ljósmæður alls 86 107


     5.      Hefur ráðuneytið sett viðmið um mönnun ljósmæðra á heilbrigðisstofnunum?
    Nei. Ráðuneytið hefur ekki sett viðmið um mönnun ljósmæðra á heilbrigðisstofnunum.
    Landsráð um menntun og mönnun var stofnað í maí 2021. Hlutverk þess er að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana ráðherra á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, auk þess að vera samráðsvettvangur á þessu sviði þvert á menntastofnanir, fagfélög, sjúklingasamtök og aðra hagsmunaaðila.
    Í ráðuneytinu fer einnig fram vinna við umfangsmikla mönnunargreiningu þvert á heilbrigðiskerfið sem mun hjálpa til við að kortleggja mönnunina í dag og þörfina til framtíðar. Mönnunarþörf ljósmæðra þarf að greina út frá fjölmörgum breytum. Meðal annars þarf að taka tillit til breyttrar aldursamsetningar samfélagsins, mannfjöldaþróunar, fjölda ferðamanna, fjármagns, verkefnis hverrar stofnunar og skipulags vinnunnar.

     6.      Hvert er lágmarksviðmið um mönnun ljósmæðra á heilbrigðisstofnunum?
    Ráðuneytið hefur ekki sett lágmarksviðmið um mönnun ljósmæðra á heilbrigðisstofnunum, sbr. svar við 5. tölul. fyrirspurnar.
    Ekki er einhlítt svar við því hvert rétt mönnunarviðmið sé. Almennt er það skilgreint út frá starfsemi hverrar einingar eða deildar. Einingin getur verið heilsugæsla, mismunandi deildir sjúkrahúsa eða annað. Mikill breytileiki getur einnig verið í umfangi starfsemi hverrar einingar. Taka þarf tillit til stærðar, íbúafjölda á hverjum stað, samsetningar innbyrðis eins og aldursdreifingu íbúa, fjölda í ungbarnavernd og mæðravernd, þarfar fyrir heimavitjanir o.fl., auk sveiflu í þörf fyrir þjónustu, svo sem tengdri ferðaþjónustu. Við skipulag mönnunar líta stofnanir einnig til fjárveitinga/fjárheimilda og aðgengis að starfsfólki. Þannig getur verið munur á skipulagi mönnunar heilbrigðisstarfsfólks eftir landsvæðum.
    Við rekstur heilsugæslustöðva á landsbyggðinni er fjármögnunarlíkan heilsugæslu á landsbyggðinni til viðmiðunar, útg. 2022 (september). Almennt byggjast greiðslur til stöðvanna á fjölda skráðum á stöðina, lýðfræðilegri samsetningu og einkennum. Tekið er mið af aldri, kyni, mældri sjúkdómsbyrði, félagslegum aðstæðum einstaklinga, mældum þjónustuþáttum o.s.frv. Þegar um er að ræða minnstu stöðvarnar á landsbyggðinni er greitt sérstakt smæðarálag. Við rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er fjármögnunarlíkan heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu til viðmiðunar, útg. 2022 (september).
    Landspítalinn skilgreinir ekki lágmarksviðmið um mönnun ljósmæðra, heldur miðar við fjármögnuð stöðugildi sem lágmarksstöðugildi. Þá notar Landspítalinn hjúkrunarþyngdarflokkunarkerfið RAFAELA til að fylgjast með jafnvægi á milli hjúkrunarþarfa sjúklinga og mönnunar við hjúkrun sjúklinga. Nú er kerfið notað á 22 deildum spítalans og innleiðing stendur yfir á sjö deildum til viðbótar. Landspítali er að hefja það verkefni að greina betur eigin viðmið mönnunar út frá sinni starfsemi.
    Viðmið Sjúkrahússins á Akureyri hafa miðast við fjárheimildir og hvernig aðgengi er að starfsfólki. Sjúkrahúsið er að hefja það verkefni að greina betur eigin viðmið mönnunar og mun byggja á þeim gögnum sem það hefur, svo sem hjúkrunarþyngdarflokkunarkerfi RAFAELA og viðmiðum um fjölda legurýma.
    Að lokum má nefna að allar stofnanirnar eru með svokallaða verkfallslista sem sendir eru til stéttarfélaga. Slíkir listar eru hugsaðir sem öryggislistar, þar sem skilgreind er lágmarksmönnun til að halda starfseminni gangandi til skemmri tíma.

     7.      Getur ráðuneytið upplýst um meðalaldur og kynjaskiptingu í stétt ljósmæðra?
    Samkvæmt Ljósmæðrafélagi Íslands er meðalaldur ljósmæðra 49,8 ár. Allar starfandi ljósmæður eru konur og aldrei hefur verið starfandi karlmaður hér á landi við fagið. Ekki liggja fyrir upplýsingar um önnur kyn.

     8.      Hversu mörg stunda nám í ljósmóðurfræðum til MS-gráðu (120 ECTS)?
    Við Háskóla Íslands stunda 39 einstaklingar nám í ljósmóðurfræðum til MS-gráðu, þar af 28 til starfsréttinda.