Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 852  —  582. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að flýta uppbyggingu flutningskerfis raforku .


Flm.: Njáll Trausti Friðbertsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Haraldur Benediktsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra að flýta uppbyggingu flutningskerfis raforku, nánar tiltekið Blöndulínu 3, Holtavörðulínu 1, Holtavörðulínu 3 og Suðurnesjalínu 2, með það að markmiði að draga úr sóun, truflun og flutningstapi flutningskerfisins og stuðla þannig að bættu afhendingaröryggi og orkunýtni.

Greinargerð.

    Flutningskerfi raforku er hluti af grunninnviðum samfélagsins og ein af mikilvægum forsendum fjölbreyttrar atvinnu- og byggðaþróunar. Brýnt er að flýta frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku, ekki síst til að bæta afhendingaröryggi í einstökum landshlutum, auka um leið samkeppnishæfni og ryðja þannig braut grænni iðnaðaruppbyggingu og orkuskiptum. Með tilkomu þeirrar uppbyggingar greiðist úr flöskuhálsi í flutningskerfinu sem mun bæta nýtingu virkjana landsins og minnka rennsli um yfirfall lóna með tilheyrandi orkutapi. Þannig verður hægt að nýta raforkukerfi þjóðarinnar, sem byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum, enn betur en gert er í dag. Í vor kom upp sú staða að orkuskerðing varð vegna slæmrar vatnsstöðu í uppistöðulónum og því var þúsundum lítra af olíu brennt til að anna eftirspurn, t.d. í fiskimjölsverksmiðjum. Á hverju ári tapast raforka sem nemur rafmagnsnotkun hundrað þúsund heimila þar sem flutningskerfi raforku er fullnýtt og ekkert svigrúm er til að bregðast við sveiflum. Með öflugra flutningskerfi raforku minnkar flutningstap, dregur úr sóun og bætt afhendingaröryggi er tryggt. Það kemur einnig í veg fyrir að fyrirtæki keyri á dísilvaraaflstöðvum, sér í lagi þegar rafmagn fer af í vondum veðrum.
    Í kjölfar óveðursins í desember árið 2019 var settur á fót átakshópur stjórnvalda um úrbætur á innviðum. Í skýrslu átakshópsins kom fram að styrking meginflutningskerfis og svæðisflutningskerfis raforku væri meðal þeirra ráðstafana sem til framtíðar væru mikilvægastar og raunhæfastar til að tryggja betur afhendingaröryggi raforku og koma í veg fyrir truflanir eins og urðu í óveðrinu. Helstu flöskuhálsar kerfisins væru tafir í leyfisveitingarferli fyrirhugaðra framkvæmda Landsnets sem og tafir vegna undirbúnings framkvæmda í svæðisbundna flutningskerfinu. Því væri nauðsynlegt að gera Landsneti kleift, með aukinni skilvirkni í regluverki leyfisveitinga, að komast í þær framkvæmdir sem eru í 10 ára kerfisáætlun fyrirtækisins og flýta mikilvægum framkvæmdum sem eru á langtímaáætlun.
    Í stjórnarsáttmálanum koma fram markmið í orkuskiptum og um kolefnishlutleysi. Öflugra flutningskerfi raforku er undirstaða orkuskiptanna og svo að hægt sé að miðla orku á milli landshluta til að nýta endurnýjanlega orkugjafa sem gegna grundvallarhlutverki í baráttunni gegn loftslagsvánni. Brýnt er að orkukerfið sé heilsteypt og áfallaþolið og tengi allt landið svo að hægt sé að miðla á milli svæða og nýta þannig betur græna orku landsins í virkjunum sem fyrir eru. Enn fremur kemur þar fram að horfa verði til lagabreytinga til að tryggja skilvirkari málsmeðferð innviðaframkvæmda á borð við flutningskerfi raforku. Ísland stefnir í átt að aflskorti á næstu árum og má búast við því að tímabil aflskerðingar á mestu álagstímum verði viðvarandi næstu árin ef uppbyggingu raforkukerfisins verður ekki flýtt.
    Samkvæmt skýrslu á vegum Landsnets um töpuð tækifæri vegna takmarkana í flutningskerfinu kemur fram að samfélagslegur kostnaður vegna seinkunar þriggja verkefna, sem hafa sótt um tengingu við flutningskerfið og Landsnet hefur þurft að hafna á undanförnum árum vegna takmarkaðrar flutningsgetu, hefur numið milljörðum króna ár hvert. Fram kemur að ráðast þurfi í viðamiklar framkvæmdir með það að markmiði að styrkja flutningskerfið og auka afhendingargetu milli landshluta. Að mati Landsnets hefðu 25-30 verkefni sem tekin hafa verið saman raungerst ef flutningskerfi raforku hefði verið sterkara. Þau dæmi sem tekin eru í skýrslunni gefa til kynna að raforkusala hafi tapað tugum milljarða króna vegna þess að flutningskerfi raforku er ekki nógu sterkt hér á landi. Þá kemur einnig fram að sum þessara verkefna snúi að vetnisframleiðslu og að það sé óheppilegt að takmörkuð geta flutningskerfisins standi í vegi fyrir getu Íslands til að ná loftslagsmarkmiðum og efnahagslegri uppbyggingu. 1

Kostnaður:
Lína Svæði Áætlaður framkvæmdatími Kostnaður
Blöndulína 3 Blanda – Akureyri 2023–2024 11.878 millj. kr.
Holtavörðulína 1 Hvalfjörður – Hrútafjörður 2024–2026 8.230 millj. kr.
Holtavörðulína 3 Hrútafjörður – Blanda 2028–2029 6.600 millj. kr.
Suðurnesjalína 2 Hafnarfjörður – Suðurnes 2022–2023 3.970 millj. kr.

    Að öllu framangreindu virtu er því ljóst að flýta þarf uppbyggingu flutningskerfis raforku, nánar tiltekið Blöndulínu 3, Holtavörðulínu 1, Holtavörðulínu 3 og Suðurnesjalínu 2, til þess að stuðla að bættu afhendingaröryggi og orkunýtni en einnig til að ná fram markmiðum í orkuskiptum. Það mun auka álag á flutningskerfi raforku sem eykur enn fremur á nauðsyn uppbyggingar flutningskerfis raforku. Það verði gert til að tryggja raforkuöryggi og afhendingaröryggi grundvallarinnviða enda er raforkukerfið og tryggt orkuframboð grundvallarþáttur í þjóðaröryggi og lífæð margra nauðsynlegra innviða.

1     landsnet.is/library?itemid=9b485b76-acf9-4448-aaef-664a8938221a