Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 937  —  562. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skipulag og stofnanir ráðuneytisins.


     1.      Stendur yfir vinna í ráðuneytinu varðandi stofnanaskipulag þess með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi? Ef já, hvaða?
    Ráðuneytið hefur samið frumvarp til laga um sameiningu allra núverandi níu sýslumannsembætta í eitt og miða áformin við að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi fyrir lok 153. löggjafarþings 2022–2023. Þá er einnig unnið að frumvarpi um sameiningu átta héraðsdómstóla landsins í einn og ráðgert er að það frumvarp verði sömuleiðis lagt fram á sama löggjafarþingi. Vinna við síðara frumvarpið mun einkum byggjast á skýrslu starfshóps sem dómsmálaráðherra skipaði í mars 2022 um sameiningu héraðsdómstólanna. Skýrslan var birt í Samráðsgátt stjórnvalda 16. desember síðastliðinn.
    Að því er varðar sameiningu sýslumannsembættanna þá þykir breytt skipulag þeirra embætta í kjölfar sameiningar vera til þess fallið að styrkja starfsemina með því að ryðja brautina m.a. fyrir ný verkefni og stuðla að hraðari innleiðingu stafrænna lausna við framkvæmd verkefna ásamt því að skapa tækifæri til að nýta hagræðinguna sem fylgir breyttri framkvæmd í þágu þjónustuþega og frekari uppbyggingar sameinaðs embættis. Þá þykir sameiningin vera til þess fallin að styrkja stjórnsýslu embættisins þar sem stærri þjónustueining býður upp á aukinn sveigjanleika við verkaskiptingu, aukna sérhæfingu og tækifæri fyrir fjölbreyttari störf innan embættisins.
    Framangreind markmið um sameiningu sýslumannsembætta kalla á heildarendurskoðun laga nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, enda mæla lögin fyrir um valdheimildir níu sjálfstæðra sýslumanna til að fara með faglega ábyrgð, þ.e. stefnumótun og ákvarðanatöku um framkvæmd, að hluta í sömu verkefnum. Núverandi níu sýslumenn eru jafnframt bundnir af rekstrarheimildum síns embættis og eru því í misgóðri stöðu til að standa undir sameiginlegum kostnaði við að bæta þjónustuna, ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi. Óbreytt staða dregur ekki eingöngu úr skilvirkni ákvarðanatöku heldur takmarkar hún jafnframt möguleika einstakra sýslumanna til að bregðast við óvæntum atburðum, svo sem auknu álagi sökum utanaðkomandi aðstæðna, fjarveru starfsmanna o.fl. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2021, „Stofnanir ríkisins – fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni“, er bent á að ótvíræðir rekstrar- og faglegir möguleikar liggi í sameiningu ríkisstofnana, enda reynist smæð þeirra í flestum tilvikum áskorun. Fjöldi stofnana sem tilheyra sama málaflokki, eins og raunin er með sýslumannsembættin, vinnur gegn einföldun, hagræðingu og skilvirkni, og má almennt ætla að fjöldinn sé óhagstæður í rekstrarlegu og faglegu tilliti. Þá kemur jafnframt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2019, sem ber heitið „Sýslumenn – samanburður milli embætta“, að frekari sameining en sú sem embættin gengu í gegnum 1. janúar 2015, þegar embættunum var fækkað úr 24 í 9, gæti verið til þess fallin að stuðla að aukinni hagkvæmni í rekstri. Skýrsla Ríkisendurskoðunar frá 2021, „Stofnanir ríkisins – fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni“, þykir styðja við framangreinda ályktun, enda vinni fjöldi sýslumannsembættanna gegn einföldun, hagræðingu og skilvirkni. Óbreytt staða, með fleiri en einn forstöðumann yfir sama málefnasviðinu, þykir ekki líkleg til að ná fram þeim áherslum sem fram koma í skýrslum Ríkisendurskoðunar frá 2019 og 2021.
    Þá er til þess að vísa að í apríl 2020 kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu dómstólanna sem unnin var að beiðni Alþingis. Þar var meðal annars fjallað um mögulega sameiningu héraðsdómstóla og vísað til þess mats dómstólasýslunnar að sameining þeirra væri skilvirkasta og árangursríkasta leiðin að aukinni samræmingu innan dómskerfisins. Með sameiningu mætti auka hagkvæmni með meiri samvinnu og samlegð en að óbreyttu væri ekki þörf á fjölgun starfsmanna héraðsdómstólanna. Ríkisendurskoðun taldi að skoða þyrfti gaumgæfilega hvort fækka ætti héraðsdómstólum með sameiningum. Þá þyrfti að fara fram mat á því hver fjárhagsleg samlegð yrði og hvernig sameining gæti styrkt stjórnsýslu dómstólanna, meðal annars eftirlitshlutverk dómstjóra. Taldi stofnunin mikilvægt að leitað yrði allra leiða til að auka vægi sameiginlegrar stjórnsýslu dómstólanna. Skoða þyrfti hvort lækka mætti rekstrarkostnað dómstólanna með því að starfrækja fleiri héraðsdómstóla í sameiginlegu húsnæði og sameina stoðþjónustu.
    Ákvörðun um skipun starfshópsins um sameiningu héraðsdómstólanna er meðal annars komin til vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í apríl 2020. Starfshópnum var falið að taka saman upplýsingar um þau atriði sem huga þyrfti að við sameiningu héraðsdómstólanna í einn, einnig að koma með tillögur að útfærslu að slíkum breytingum, meta hagkvæmni af sameiningunni og þörf á lagabreytingum. Í framangreindri skýrslu starfshópsins er auk annars gerð grein fyrir ætluðum ávinningi af sameiningu héraðsdómstólanna, en jafnframt áskorunum. Færð eru rök fyrir einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu, betra samræmi í verklagi, styrkari starfsstöðvum á landsbyggðinni, bættri þjónustu, betri nýtingu mannauðs og fjárveitinga og að búið verði í haginn fyrir stafræna umbreytingu dómstólanna. Sameining kalli þó einnig á nokkrar lagabreytingar, kunni að mæta andstöðu á landsbyggðinni, erfiðara kunni að verða að fá dómara til starfa á landsbyggðinni, mögulega verði breytingar á tekjum starfsmanna héraðsdómstólanna og sveitarfélaga og þá muni nokkur einskiptiskostnaður verða af sameiningunni.

     2.      Hefur ráðherra brugðist við tillögum til úrbóta í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá desember 2021? Ef já, hvernig?
    Eins og fyrr greinir hefur ráðuneytið samið frumvarp til laga um sýslumann, sem felur í sér sameiningu allra sýslumannsembætta í eitt og þá er unnið að frumvarpi um sameiningu allra héraðsdómstóla í einn. Gangi þessi áform eftir mun stofnunum ráðuneytisins fækka samtals um 15.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2021, „Stofnanir ríkisins - fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni“, er bent á ýmis tækifæri til hagræðingar sem ráðuneytið hefur tekið til sérstakrar skoðunar. Í skýrslunni er m.a. bent á þá staðreynd að sýslumannsembættin níu séu misstór með tilliti til stöðugilda og að sú staða gefi tækifæri til endurskoðunar á skipulagi starfseminnar. Smáar stofnanir séu almennt metnar óhagstæðar í rekstrar- og faglegu tilliti og eigi frekar að rúmast innan stærri skipulagsheilda hins opinbera. Meðal þeirra úrræða sem ríkisendurskoðandi telur koma til skoðunar til að bæta úr erfiðri rekstrarstöðu smærri stofnana og ná fram aukinni hagræðingu er meiri samvinna og samlegð í rekstri, stofnun miðlægs stjórnvalds, sem kæmi þá til viðbótar öllum sýslumannsembættunum, eða frekari sameining. Sameining sýslumannsembættanna 1. janúar 2015 þykir ekki hafa skilað tilsettum markmiðum og þykir stofnun miðlægs stjórnvalds, til viðbótar við núverandi níu embætti, ekki vera til þess fallin að ná fram bættri þjónustu og hagræðingu í ríkisrekstri. Eftir stendur síðasta tillaga Ríkisendurskoðunar, þ.e. frekari sameining embætta. Fyrrgreint frumvarp um sameiningu sýslumannsembætta og áform um frumvarp vegna sameiningu héraðsdómstóla eru meðal annars sprottin af stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar.

     3.      Hversu margar eru stofnanir ráðuneytisins?
    Stofnanir ráðuneytisins er samtals 38, þar af 8 héraðsdómstólar og 9 sýslumannsembætti.

     4.      Hversu margar stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn?
    19 stofnanir ráðuneytisins eru með færri en 50 starfsmenn.

     5.      Er til skoðunar að sameina stofnanir ráðuneytisins?
    Það stendur til að sameina embætti sýslumanna í eitt sýslumannsembætti og alla héraðsdómstóla í einn sbr. hér að framan.