Ferill 511. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 954  —  511. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um fyrirhugaðar ráðstafanir vegna ÍL-sjóðs.


     1.      Telur ráðherra að stjórnum lífeyrissjóða sé heimilt samkvæmt lögum að semja við ríkið eða aðra aðila um skerðingu á eignum sjóðanna?
    Ráðuneytið lítur ekki svo á að verið sé að óska eftir samningi um skerðingu eigna, þótt ágreiningur kunni að vera uppi um virði eigna og framtíðarávöxtunarmöguleika.
    Fyrirsjáanlegt er að sjóðurinn mun ekki geta staðið undir öllum skuldbindingum sínum á gjalddaga að óbreyttu og er því í reynd ógjaldfær. Af þeim sökum eru uppi sjónarmið um að ganga verði til uppgjörs á sjóðnum. Slíkt uppgjör gæti til að mynda falið í sér að eigendur bréfanna fái afhentan höfuðstól skuldarinnar ásamt vöxtum og verðbótum til uppgjörsdags. Ávöxtun af slíku eignasafni í höndum lífeyrissjóðanna kynni allt eins að verða jafn góð eða betri en af skuldabréfum ÍL-sjóðs.

     2.      Hvaða áhrif telur ráðherra að það muni hafa á trúverðugleika íslenska ríkisins, traust til ríkissjóðs sem útgefanda skuldabréfa og þýðingu ríkisábyrgðar í framtíðinni ef ÍL-sjóður verður knúinn í gjaldþrot með lagasetningu til að koma í veg fyrir að skuldabréfaeigendur, meðal annars lífeyrissjóðir og almannaheillasamtök, njóti vaxtagreiðslna og verðbóta út líftíma hinna ríkistryggðu skuldabréfa í samræmi við skilmála þeirra?
    Ekki stendur annað til af hálfu ríkisins en að standa við ábyrgð sína gagnvart skuldabréfaeigendum; lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum, tryggingafélögum, einstaklingum og öðrum sem í þeim hópi eru, í samræmi við þær aðstæður sem eru fyrir hendi – þ.e. að sjóðurinn er í reynd ógjaldfær.
    Lánshæfismatsfyrirtæki voru upplýst um efni skýrslunnar fyrir birtingu hennar en matsfyrirtækin hafa allt frá uppskiptingu Íbúðalánasjóðs fengið kynningar á markmiðum og möguleikum með úrvinnslu ÍL-sjóðs.
    Þess er ekki að vænta að uppgjör ríkisábyrgðar í samræmi við lög og samningsskilmála hafi áhrif á trúverðugleika Íslands eða á það traust sem ríkissjóður nýtur. Lækkun heildarskulda ásamt því að eyða óvissu til framtíðar ætti að óbreyttu að hafa jákvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs sem útgefanda.

     3.      Þekkir ráðherra einhver dæmi úr samtímanum um að evrópskt ríki, fyrir utan Grikkland á tímum efnahagshamfara 2011, grípi til viðlíkra ráðstafana vegna skuldbindinga sem ríkið eða stofnun sem ríkið ber óumdeilanlega ábyrgð á hefur stofnað til?
    Ekki er ljóst í fyrirspurninni til hvaða ráðstafana í Grikklandi er vísað.
    Ráðherra hefur ekki boðað eina tiltekna aðgerð eða ráðstöfun í málefnum ÍL-sjóðs, hvorki í skýrslu um málið né á blaðamannafundi um hana, heldur var um að ræða kynningu á ósjálfbærri fjárhagsstöðu sjóðsins og reifun á þremur leiðum sem helst virðast koma til greina við úrvinnslu sjóðsins. Líkt og fram hefur komið mun Alþingi svo þurfa að taka afstöðu til þeirra leiða sem farnar verða.