Ferill 648. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1018  —  648. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2022.


1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2022 var innrás Rússlands í Úkraínu í brennidepli og lýsti það yfir algjörri samstöðu með lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn, þjóðþingi og íbúum Úkraínu. Með yfirgangi sínum gegn Úkraínu væru Rússar að leitast við að brjóta niður lýðræðið í landinu, hræða önnur fullvalda lýðræðisríki og grafa undan grunngildum NATO og lýðræðisríkja.
    Rúslan Stefantsjúk, forseti úkraínska þingsins, ávarpaði stjórnarnefndarfund NATO-þingsins í apríl með fjarfundarbúnaði og kallaði eftir stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Gerald E. Connolly, forseti NATO-þingsins, svaraði ávarpi hans með þeim orðum að þingið fordæmdi harðlega árásir Rússa í Úkraínu og að það væri staðráðið í því að tryggja að refsað yrði fyrir þá glæpi sem Rússar og hermenn þeirra fremdu. NATO-þingið myndi halda áfram að byggja upp sterkt alþjóðlegt bandalag til að styðja við Úkraínu. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að Rússar vissu að alþjóðasamfélagið myndi aldrei viðurkenna ólöglegt hernám og innlimun Krímskaga, „sjálfstæði“ hinna svokölluðu alþýðulýðvelda Lúhansk og Donetsk, hernám Rússa á úkraínsku landsvæði eða aðrar tilraunir Rússa til að koma á ólögmætri stjórnskipan í Úkraínu. Þá yrði áfram þrýst á Rússa að taka þátt í uppbyggilegum viðræðum við Úkraínu til að ná áþreifanlegum árangri. Jafnframt var tekin ákvörðun um að NATO-þingið myndi aðstoða Úkraínu í auknum mæli, m.a. fyrir tilstilli sjóðs NATO-þingsins, til að styðja við lýðræði í landinu.
    Á vorfundum NATO-þingsins í Vilníus í maí var stríðið í Úkraínu helsta dagskrármálið. Fyrirhugað hafði verið að halda fundinn í Kænugarði en hann var fluttur til Litháens eftir að Rússar hófu árásir á Úkraínu 24. febrúar. Í yfirlýsingu fundarins eru brot rússneska hersins gegn mannréttindum og alþjóðlegum mannúðarlögum fordæmd harðlega, þar á meðal árásir á almenna borgara og innviði. Skorað er á stjórnvöld í aðildarríkjunum að styðja við Alþjóðlega sakamáladómstólinn og aðrar alþjóðastofnanir sem rannsaka stríðsglæpi svo að réttað verði yfir gerendum. Þá er lýst yfir áhyggjum af aukinni hættu sem viðkvæmustu hópar samfélagsins standa frammi fyrir, sérstaklega konur og börn, þar sem hætta á kynferðisofbeldi og mansali eykst.
    Á ársfundi NATO-þingsins í Madríd var stríðið í Úkraínu enn í brennidepli og lýsti þingið yfir staðföstum stuðningi við lýðræði, sjálfstæði og fullveldi Úkraínu og fordæmdi tilefnislausa og ólögmæta innrás Rússa. Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn með fjarfundarbúnaði frá Kænugarði og kallaði eftir frekari stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Hann sagðist viss um að Úkraínumenn gætu varið land sitt og endurreist landamærin með utanaðkomandi aðstoð og mátt lýðræðisins að vopni. Í framhaldinu samþykkti ársfundurinn ályktun um það hvernig efla mætti stuðning við Úkraínu og styrkja aðlögun landsins að stofnunum Evró-Atlantshafssvæðisins.
    Öryggisáskoranir á norðurslóðum fengu aukna athygli á árinu og afgreiddi vísinda- og tækninefnd NATO-þingsins skýrslu um málið. Þar kemur fram að NATO leggi aukna áherslu á norðurslóðir og hafi aukið sýnileika sinn og fjölgað heræfingum á svæðinu. Íslandsdeild tók þátt í umræðum um málið og lagði áherslu á aukið mikilvægi norðurslóða, m.a. í ljósi bráðnunar jökla, mikils áhuga Kína og aukinnar hernaðarviðveru Rússa. Einnig væri brýnt að gera ráð fyrir því að Rússar bregðist við atburðum líðandi stundar á norðurslóðum en með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO yrðu sjö af átta norðurskautsríkjum aðildarríki.
    Einnig var mikið rætt um inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í bandalagið og voru fulltrúar Tyrklands og Ungverjalands hvattir til að fullgilda aðildarumsókn þeirra án tafar í þjóðþingum sínum. Þá var rætt um uppfærða stefnu NATO sem samþykkt var í júní á leiðtogafundi bandalagsins þar sem rík áhersla er lögð á grunngildi þess; lýðræði og frelsi. Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum NATO-þingsins árið 2022 má nefna viðnám og fælingarmátt NATO, netöryggi, spillingu og efnahagslegar og pólitískar áskoranir í Hvíta-Rússlandi. Þá gaf NATO-þingið út sextán málefnaskýrslur á árinu og sex ályktanir sem nálgast má á vefsvæði NATO-þingsins, www.nato-pa.int/.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hefur allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja eiga nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth-áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum frá árinu 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum jókst fylgi við þá skoðun að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við NATO og til stuðnings bandalaginu. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um lýðræði og öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins frá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúar ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu (e. Supreme Headquarters Allied Powers in Europe, SHAPE) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 269 þingmenn frá aðildarríkjunum 30. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls á 91 þingmaður frá ellefu aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, nema fundum stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkeri en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Árið 2022 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild NATO-þingsins: Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Andrés Ingi Jónsson, varaformaður, þingflokki Pírata, og Stefán Vagn Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn eru Diljá Mist Einarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingflokki Framsóknarflokksins, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokki Pírata.
    Íslandsdeild hélt tvo fundi á árinu til undirbúnings þátttöku sinni á fundum NATO-þingsins. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang, alþjóðaritari.
    Skipan málefnanefnda starfsárið 2022 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
Til vara: Diljá Mist Einarsdóttir
Stjórnmálanefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
Til vara: Diljá Mist Einarsdóttir
Varnar- og öryggismálanefnd: Stefán Vagn Stefánsson
Til vara: Jóhann Friðrik Friðriksson
Nefnd um lýðræði og öryggi: Andrés Ingi Jónsson
Til vara: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Efnahagsnefnd: Andrés Ingi Jónsson
Til vara: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Vísinda- og tækninefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
Til vara: Diljá Mist Einarsdóttir
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Stefán Vagn Stefánsson
Þingmannaráð um málefni Úkraínu: Andrés Ingi Jónsson

    Njáll Trausti Friðbertsson gegndi á árinu starfi skýrsluhöfundar undirnefndar vísinda- og tækninefndar NATO-þingins og var kjörinn aðalskýrsluhöfundur nefndarinnar á ársfundi þingsins í nóvember. Þá var Andrés Ingi Jónsson kjörinn í þingmannaráð Úkraínu og NATO-þingsins á ársfundi þingsins.

4. Fundir NATO-þingsins.
    Á venjubundnu ári kemur NATO-þingið tvisvar sinnum saman til fundar. Vorfundur er haldinn í maí og ársfundur í október eða nóvember. Á svokölluðum febrúarfundi heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þurfti að færa lítinn hluta funda NATO-þingsins í fjarfundarform fyrstu tvo mánuði ársins. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í fundum vísinda- og tækninefndar og stjórnmálanefndar NATO-þingsins. Andrés Ingi Jónsson tók þátt í fundum efnahagsnefndar og lýðræðis- og öryggisnefndar NATO-þingsins. Að auki sóttu fulltrúar Íslandsdeildar ýmsa fjarfundi sem skipulagðir voru á árinu um málefni NATO-þingsins.
    Árið 2022 tók Íslandsdeild þátt í vorfundi í Vilníus maí og ársfundi í Madríd í nóvember. Einnig tóku formaður og varaformaður þátt í febrúarfundi í Brussel og formaður tók auk þess þátt í fundi stjórnarnefndar í Aþenu í apríl.

Febrúarfundur NATO-þingsins í Brussel 21.–23. febrúar.
    Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, og Andrés Ingi Jónsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá var haldinn árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu. (Sjá fylgiskjal I.)

Stjórnarnefndarfundur NATO-þingsins í Aþenu 10. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins tók þátt í fundinum Njáll Trausti Friðbertsson formaður auk Örnu Gerðar Bang alþjóðaritara. Á dagskrá var stríðið í Úkraínu, drög að ályktun þingsins þar sem innrás Rússa var fordæmd, aðlögun NATO að breyttu öryggisumhverfi, mótun framtíðarstefnu bandalagsins og starfið fram undan. (Sjá fylgiskjal II.)

Vorfundur NATO-þingsins í Vilníus 27.–30. maí.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Vilníus dagana 27.–30. maí. Fyrirhugað hafði verið að halda fundinn í Kænugarði en hann var fluttur til Litháens eftir að Rússar hófu árásir á Úkraínu. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, Andrés Ingi Jónsson, varaformaður, og Stefán Vagn Stefánsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara. Helstu umræðuefni fundarins voru stríðið í Úkraínu, ný grunnstefna NATO, netöryggi og fjölþættar ógnir. Einnig fór fram umræða um það hvernig NATO-þingið gæti sýnt Úkraínu staðfastan stuðning og hvernig þjóðþing aðildarríkjanna gætu veitt frekari aðstoð. (Sjá fylgiskjal III.)

Ársfundur NATO-þingsins í Madríd 18.–21. nóvember.
    Ársfundur NATO-þingsins var haldinn dagana 18.–21. nóvember í Madríd. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, og Andrés Ingi Jónsson, varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli 16 skýrslna sem unnar voru af nefndarmönnum, og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst hefur borið í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og greidd atkvæði um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru stríðið í Úkraínu, ný grunnstefna NATO, netöryggi, loftslagsbreytingar og spilling. Einnig fór fram umræða um það hvernig NATO-þingið gæti aukið stuðning sinn við Úkraínu og styrkt aðlögun landsins að stofnunum Evró-Atlantshafssvæðisins. Þingið lýsti yfir staðföstum stuðningi við lýðræði, sjálfstæði og fullveldi Úkraínu og fordæmdi tilefnislausa og ólögmæta innrás Rússa í Úkraínu. (Sjá fylgiskjal IV.)

Alþingi, 2. febrúar 2023.

Njáll Trausti Friðbertsson,
form.
Andrés Ingi Jónsson,
varaform.
Stefán Vagn Stefánsson.

Fylgiskjal I.


MINNISPUNKTAR
af febrúarfundi NATO-þingsins 21.–23. febrúar 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, og Andrés Ingi Jónsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá var haldinn árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu. Í samræmi við trúnaðarreglu sem gildir á þessum fundum (e. Chatham House Rule) er í minnispunktum þessum gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem fram komu á fundinum án þess að tengja þau einstökum þátttakendum. Á dagskrá fundarins voru m.a. liðssöfnun Rússa umhverfis Úkraínu, brotthvarf NATO frá Afganistan og samskipti við Kína.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram 21. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum hjá þingmönnum en umræðum stjórnaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Fyrst og fremst var rætt um uppbyggingu herafla Rússa umhverfis Úkraínu. Ítrekað var að samkvæmt öllum upplýsingum NATO væru Rússar ekki að draga úr viðbúnaði heldur þvert á móti. Svo virtist sem forseti Rússlands sæi alþjóðakerfið sem byggðist á alþjóðalögum sem stein í götu sinni. Fyrirhuguð uppfærsla á grunnstefnu bandalagsins yrði að taka mið af þessari staðreynd og leggja áherslu á skuldbindingar NATO-ríkjanna gagnvart lýðræðinu. Talsvert var rætt um hvort tillögur NATO-þingsins um stofnun miðstöðvar um lýðræðislegt viðnám ættu erindi í nýja grunnstefnu. Annars vegar var bent á að útbreiðsla lýðræðis og mannréttinda ætti frekar heima á vettvangi þeirra alþjóðastofnana sem sérstaklega væru stofnaðar í þeim tilgangi. Hins vegar væri lýðræði meðal grunngilda bandalagsins og stækkun NATO hefði haft jákvæð áhrif á þróun lýðræðis í Austur-Evrópu. Njáll Trausti Friðbertsson þakkaði Stoltenberg fyrir að hafa veitt bandalaginu forystu undanfarin átta ár. Hann sagði aðgerðir Rússa ógna stöðugleika á alþjóðavettvangi og sagði nauðsynlegt að bandalagsríkin stæðu vörð um öryggisumhverfi heimsins. Hann spurði Stoltenberg hvernig ný grunnstefna gæti aukið áhrif og skilvirkni bandalagsins til framtíðar og benti einnig á mikilvægi þess að tryggja fjármögnun og tækniþróun herafla NATO.
    Stoltenberg sagði að allt benti til þess að rússnesk yfirvöld væru að undirbúa árás. Helmingur herafla Rússlands væri nú umhverfis Úkraínu og þar að auki hefði verið komið upp birgðageymslum og sjúkrahúsum. Bandalagsríkin gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir að af árásinni yrði. Í þeim tilgangi hefðu bandalagsríkin upplýst um fyrirætlanir rússneskra stjórnvalda á hverju stigi til að draga úr möguleikum þeirra til að setja á svið atburði sem yrðu nýttir sem tilefni til innrásar. Stoltenberg ítrekaði að verkefni NATO væri að vernda bandalagsríkin. Ef til árásar Rússa á Úkraínu kæmi myndi NATO aðstoða stjórnvöld í Úkraínu en ekki stíga inn í átökin með beinum hætti. NATO myndi einnig styrkja varnarstöðu sína í aðildarríkjum í kringum Úkraínu. Hann benti á að líklegt væri að í kjölfar árásar á Úkraínu myndu Rússar reyna að styrkja stöðu sína í Norður-Atlantshafi til að standa vörð um flutningsleiðina á hafsvæðinu milli Grænlands og Íslands.
    Aðfaranótt þriðjudags 22. febrúar var tilkynnt um viðurkenningu rússneskra stjórnvalda á sjálfstæði lýðveldanna Donetsk og Lúhansk í Austur-Úkraínu. Formaður landsdeildar Úkraínu, Jehor Tsjerníev, ávarpaði fund stjórnarnefndar NATO-þingsins. Hann sagði Vladímír Pútín, forseta Rússlands, gera tilraun til að endurskrifa sögu Úkraínu og bað viðstadda um að styðja Úkraínu með viðskiptaþvingunum og vopnasendingum. Í umræðum var ítrekað að það væri ekki rússneskra stjórnvalda að segja til um það hvort önnur lönd fengju að ganga í NATO. Fundarmenn lýstu stuðningi sínum við sjálfstæði og fullveldi Úkraínu og fordæmdu ákvörðun rússneskra stjórnvalda.
    Í umfjöllun um liðssöfnun Rússlands í Austur-Evrópu voru Jesse Karotkin, úr sameiginlegri leyniþjónustu- og öryggisdeild NATO, og Tanya Hartmann, úr stjórnmála- og öryggisdeild, gestir fundarins. Í erindi þeirra og umræðum sem fylgdu var farið yfir upplýsingar NATO um staðsetningu herliðs Rússa umhverfis Úkraínu, nýlegar netárásir og falsfréttaherferð. Bent var á að ógnin nú kæmi ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Liðssöfnunin hefði verið ljós frá haustinu 2021 en einnig hefðu fulltrúar bandalagsins fylgst með breytingum á samskiptum við rússnesk yfirvöld árið 2008 og aftur árið 2014. Fyrir það hefði ríkt traust milli aðila, t.d. hefðu löndin deilt upplýsingum um æfingar og liðsflutninga. Undanfarin ár hefðu átt sér stað aftökur rússneskra yfirvalda á óvinum sínum á landsvæði NATO-ríkja, auk netárása og annarra fjölþáttaárása á bandalagsríki. Haustið 2021 hefðu rússnesk stjórnvöld sent NATO og Sameinuðu þjóðunum drög að samningum sem hefðu verið óásættanleg. Í samningsdrögunum voru ýmis grundvallargildi alþjóðakerfisins brotin, t.d. réttur ríkja til að taka ákvarðanir um eigin framtíð og bann við breytingum á landamærum ríkja í krafti valds. Ef rússnesk stjórnvöld fengju að segja til um það hvort Úkraína gengi í NATO hefði það einnig áhrif á önnur ríki, t.d. Finnland og Svíþjóð. Andrés Ingi Jónsson spurði nánar um það hvernig samskipti milli NATO og Rússlands hefðu lagst af og hvort mögulega hefði verið hægt að forðast þá stöðu sem upp væri komin nú ef samskiptaleiðum hefði verið haldið opnum. Í svörum kom fram að samskiptaleiðir hefðu verið opnar af hálfu NATO en rússnesk stjórnvöld hefðu ekki nýtt þær og ekki hefði verið vilji til viðræðna hjá rússneskum stjórnvöldum.
    James Mackey, úr stjórnmála- og öryggisdeild NATO, var gestur fundarins í umræðum um NATO, Kína og Suður-Kyrrahaf. Í erindi hans og umræðum sem fylgdu kom fram að ekki væri litið svo á að NATO stafaði sams konar ógn af Kína og af Rússlandi. Hins vegar væri ljóst að kínversk stjórnvöld ögruðu alþjóðalögum og -reglum. Mögulegt væri að aðgerðir Rússa í Úkraínu hefðu áhrif á ákvarðanir kínverskra stjórnvalda um aðgerðir gagnvart Taívan. Njáll Trausti Friðbertsson benti á að á undanförnum tuttugu árum hefðu kínversk stjórnvöld aukið stórlega framleiðslu sína á áli og sjaldgæfum málmum. Það gæti reynst NATO-ríkjunum hættulegt að treysta um of á kínverska framleiðslu á nauðsynlegum aðföngum. Tekið var undir þessi sjónarmið og bent á að framleiðsla á sjaldgæfum málmum væri orðin of samþjöppuð. Nauðsynlegt væri að auka fjölbreytni í innkaupum og framleiðslu til að tryggja öryggi í aðföngum og koma í veg fyrir að hægt verði að nota þessar eftirsóttu auðlindir til að beita önnur lönd þrýstingi í pólitískum tilgangi.
    Í umfjöllun um hlutverk NATO við að standa vörð um lýðræði var Ruben-Erik Diaz-Plaja gestur fundarins. Andrés Ingi Jónsson benti á að aðrar alþjóðastofnanir á borð við Evrópuráðið störfuðu í þágu lýðræðis og mannréttinda og hefðu skýrara umboð til að sinna slíkum verkefnum. Hann ítrekaði einnig að grundvöllur lýðræðis væri traust og það gæti NATO styrkt með því að auka gagnsæi og lýðræðislega umræðu um störf sín. Tekið var undir þessi sjónarmið en bent á að uppi væri eindregin ósk um auknar áherslur á útbreiðslu lýðræðislegra gilda frá aðildarríkjum og NATO-þinginu. Vísað var í stofnsáttmála bandalagsins þar sem fram kemur að NATO væri bandalag lýðræðisríkja.
    Í umræðum um aðgerðir NATO í Afganistan var Burcu San, yfirmaður aðgerða hjá NATO, gestur fundarins. Í erindi hennar og umræðum sem fylgdu var farið yfir skýrslu NATO um brotthvarf NATO frá Afganistan í lok sumars 2021 og þann lærdóm sem draga mætti af aðgerðunum. Sérstaklega var bent á að nauðsynlegt væri að veita fjölþættan og alhliða stuðning í átakastjórnun af þessu tagi. Skort hefði á stuðning við borgaralegar stofnanir, en NATO hefði aðallega sérþekkingu á uppbyggingu löggæslu og hers. Andrés Ingi Jónsson sagði að NATO-ríkjunum bæri siðferðisleg skylda til að veita afgönskum flóttamönnum hæli, ekki aðeins þeim sem hefðu starfað fyrir NATO. Hann velti því upp hvort atburðirnir í Afganistan hefðu sýnt fram á að uppbygging lýðræðis af utanaðkomandi aðilum væri ómöguleg. Hann benti á að afganskt samfélag hefði haft yfirbragð lýðræðisríkis en sú tálsýn hefði hrunið um leið og lið NATO og Bandaríkjanna hefði yfirgefið landið og talibanar tekið völdin. Í umræðum í kjölfarið var því mótmælt að starf NATO í Afganistan síðustu áratugi hefði verið unnið fyrir gýg. Bent var á að í þau tuttugu ár sem NATO hefði verið að störfum hefðu ekki verið gerðar hryðjuverkaárásir sem hefðu átt uppruna sinn í Afganistan. Mikið hefði áunnist í lýðræðislegum umbótum, mannréttindaumgjörð og aðgengi að menntun á þessum tíma en árangurinn hefði reynst mjög brothættur. Enn ætti eftir að koma í ljós hvort einhver ávinningur yrði af starfinu til langs tíma. Á fundunum fóru jafnframt fram umræður um viðnám og fælingarmátt NATO, kjarnorkuvopn og afvopnunarmál.


Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN
af fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins í Aþenu 10. apríl 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins tók þátt í fundinum Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Á dagskrá var stríðið í Úkraínu, drög að ályktun þingsins þar sem innrás Rússa var fordæmd, aðlögun NATO að breyttu öryggisumhverfi, mótun framtíðarstefnu bandalagsins og starfið fram undan.
    Rúslan Stefantsjúk, forseti úkraínska þingsins, og Jehor Tsjerníev, formaður úkraínsku þingmannanefndarinnar sem hefur áheyrnaraðild að NATO-þinginu, ávörpuðu þingið með fjarfundarbúnaði og kölluðu eftir stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Gerald E. Connolly, forseti NATO-þingsins, svaraði ávarpi þeirra með þeim orðum að NATO-þingið fordæmdi harðlega árásir Rússa í Úkraínu og væri staðráðið í því að tryggja að refsað yrði fyrir þá glæpi sem Rússar og hermenn þeirra fremdu.
    Stjórnarnefndin lýsti yfir algjörri samstöðu með Úkraínu og sagði Connolly að NATO-þingið væri staðráðið í því að halda áfram að byggja upp sterkt alþjóðlegt bandalag til að styðja við Úkraínu. „Við munum viðhalda umfangsmiklum, lamandi og viðvarandi refsiaðgerðum eins lengi og þörf er,“ sagði hann og bætti við að þing bandalagsríkjanna legðu sitt af mörkum: „Við munum ekki gefa eftir í þeirri viðleitni okkar að afla stuðnings.“ Forseti gríska þingsins, Konstantínos Tasúlas, og varnarmálaráðherra Grikklands, Níkolaos Panajotópúlos, ávörpuðu jafnframt þingið og lýstu yfir eindregnum stuðningi við Úkraínu.
    Eftir miklar umræður voru fyrstu drög yfirlýsingar um stuðning NATO-þingsins við Úkraínu samþykkt. Á grundvelli þeirrar umræðu birti forseti NATO-þingsins yfirlýsinguna og verður hún lögð fram til samþykktar á þingfundi NATO-þingsins í Vilníus í maí. Í yfirlýsingunni fordæmir stjórnarnefndin harðlega yfirstandandi árásir rússneskra stjórnvalda á Úkraínu og lýsir yfir stuðningi við lýðræðislega kjörna ríkisstjórn, þjóðþing og íbúa Úkraínu. Með yfirgangi sínum gegn Úkraínu séu Rússar að leitast við að brjóta niður lýðræðið í landinu, hræða önnur fullvalda lýðræðisríki og grafa undan grunngildum NATO og lýðræðisríkja.
    Í yfirlýsingunni eru brot rússneska hersins gegn mannréttindum og alþjóðlegum mannúðarlögum fordæmd harðlega, þar á meðal árásir á almenna borgara og innviði. Skorað er á stjórnvöld í aðildarríkjunum að styðja við Alþjóðlega sakamáladómstólinn (e. International Criminal Court) og aðrar alþjóðastofnanir sem rannsaka stríðsglæpi svo að réttað verði yfir gerendum. Þá er lýst yfir áhyggjum af aukinni hættu sem viðkvæmustu hópar samfélagsins standa frammi fyrir, sérstaklega konur og börn, þar sem hætta á kynferðisofbeldi og mansali eykst. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í umræðum um yfirlýsinguna.
    Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að Rússar vissu að alþjóðasamfélagið myndi aldrei viðurkenna ólöglegt hernám og innlimun Krímskaga, „sjálfstæði“ hinna svokölluðu alþýðulýðvelda Lúhansk og Donetsk, hernám Rússa á úkraínsku landsvæði eða aðrar tilraunir Rússa til að koma á ólögmætri stjórnskipan í Úkraínu. Þá yrði áfram þrýst á Rússa að taka þátt í uppbyggilegum viðræðum við Úkraínu til að ná áþreifanlegum árangri. Jafnframt var tekin ákvörðun um að NATO-þingið myndi aðstoða Úkraínu í auknum mæli, m.a. fyrir tilstilli sjóðs NATO-þingsins, til að styðja við lýðræði í landinu.
    Einnig tók stjórnarnefndin ákvörðun um að leggja fram yfirlýsingu á þingfundi NATO-þingsins í Vilníus 30. maí um ógn Rússlands. Drög að yfirlýsingunni verða rædd í fyrsta sinn á fundi stjórnarnefndar í Vilníus 27. maí. Enn fremur var lögð áhersla á mikilvægi þess að bæði NATO og NATO-þingið drægju varanlegan lærdóm af stríðinu í Úkraínu. Stríðið þyrfti að endurspeglast í nýrri grunnstefnu NATO þar sem meginreglur um fælingarmátt og varnir yrðu endurmetnar.
    Forseti NATO-þingsins lagði áherslu á mikilvægi þess að missa ekki sjónar á þeim ógnum og áskorunum sem NATO var stofnað til að verjast. Að því er varðaði framlag NATO-þingsins til nýrrar grunnstefnu NATO væri það forgangsverkefni að leggja áherslu á staðfestingu grunngilda og meginreglna NATO. Hann sagði stríðið í Úkraínu sýna með óyggjandi hætti að sameiginleg lýðræðisleg gildi væru mikilvægari en nokkru sinni fyrr og brýnt væri að koma á fót miðstöð um lýðræðislegt viðnámsþol innan sambandsins. Mikilvægi miðstöðvarinnar á tímum vaxandi fjölþættra öryggisógna í heiminum væri ótvírætt en markmið hennar yrði að leggja aukna áherslu á og vernda sameiginleg lýðræðisleg gildi bandalagsins. Hann sagði jafnframt að þingið ætti að gera sig gildandi þegar kæmi að málefnum lýðræðisins. Hann hefði sjálfur verið í þinghúsi Bandaríkjanna 6. janúar 2021 þegar ráðist var inn í bygginguna og atburðurinn hefði verið áminning um styrk lýðræðisins en einnig um það hversu brothætt það gæti verið. Kominn væri tími til að bandalagið hyrfi til grunngilda sinna og hugaði að skuldbindingum um sameiginlegar varnir aðildarríkjanna.
    Framkvæmdastjóri NATO-þingsins, Ruxandra Popa, greindi nefndarmönnum frá fyrirhuguðu starfi þingsins fyrir árið 2022 og aðlögun dagskrárinnar að stríðinu í Úkraínu. Hún greindi frá því að þingið í Litháen hefði boðist til að vera gestgjafi á vorfundum NATO-þingsins sem hefði átt að halda í Kænugarði 27.–30. maí. Vorfundirnir verða haldnir sömu daga í Vilníus og verður stríðið í Úkraínu í brennidepli. Í framhaldinu samþykkti nefndin starfsáætlun þingsins fyrir seinni hluta árs 2022.
    Þá tók til máls gjaldkeri NATO-þingsins og greindi frá fjárhagsstöðu þess. Nefndarmenn samþykktu í framhaldinu endurskoðað fjárhagsyfirlit NATO-þingsins fyrir árið 2022 og tillögu gjaldkera um ráðstöfun afgangs. Jafnframt fór fram umræða um fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og hvernig ráðstafa ætti þeim afgangi sem yrði á fjárhagsárinu 2022 af völdum heimsfaraldurs. Gjaldkeri kynnti tillögu sína og framkvæmdastjórnar NATO-þingsins þar sem m.a. var lagt til að geyma þær fjárhæðir sem sparast hefðu í faraldrinum í sjóðum NATO-þingsins. Var tillagan samþykkt samhljóða.


Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN
af vorfundi NATO-þingsins í Vilníus 27.–30. maí 2022.


    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Vilníus dagana 27.–30. maí. Fyrirhugað hafði verið að halda fundinn í Kænugarði en hann var fluttur til Litháens eftir að Rússar hófu árásir á Úkraínu 24. febrúar. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, Andrés Ingi Jónsson, varaformaður og Stefán Vagn Stefánsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og með sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Helstu umræðuefni fundarins voru stríðið í Úkraínu, ný grunnstefna NATO, netöryggi og fjölþættar ógnir. Einnig fór fram umræða um það hvernig NATO-þingið gæti sýnt Úkraínu staðfastan stuðning og hvernig þjóðþing aðildarríkjanna gætu veitt frekari aðstoð. Rúmlega 230 þingmenn sóttu fundinn frá aðildarríkjum NATO, auk fulltrúa frá tuttugu aukaaðildar- og áheyrnarríkjum.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins voru til umræðu drög að tveimur ályktunum NATO-þingsins, annars vegar um stuðning við Úkraínu þar sem innrás Rússa er fordæmd og hins vegar um það hvernig takast eigi á við ógn Rússa í tengslum við stríðið í Úkraínu. Olha Stefanísjina, varaforsætisráðherra Úkraínu, ávarpaði fundinn og svaraði spurningum nefndarmanna. Hún þakkaði þá ómetanlegu aðstoð sem aðildarríkin hafa veitt Úkraínu frá upphafi stríðsins og kallaði eftir enn frekari stuðningi þar sem ástandið væri skelfilegt og um þjóðarmorð væri að ræða. Þá minnti hún á að Úkraína hefði sótt um aðild að NATO árið 2008 og vonaðist til að umsóknin yrði samþykkt sem fyrst. Einnig fór fram umræða um aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar að NATO og studdu nefndarmenn hana samhljóða. Undirbúningur þinglegrar meðferðar vegna fullgildingarinnar er þegar hafinn hérlendis og í öðrum norrænum ríkjum. Enn fremur voru teknar ákvarðanir um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta árs 2022 og fjárhagsáætlun þingsins yfirfarin og rædd.
    Vísinda- og tækninefnd ræddi drög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um það hvernig styrkja mætti NATO tæknilega, önnur um aðlögun að loftslagsbreytingum og áhrif þeirra á almannaöryggi og sú þriðja um framtíð hernaðar þar sem Njáll Trausti Friðbertsson var skýrsluhöfundur. Kynnti hann hana fyrir nefndinni og svaraði spurningum. Hann sagði skýrsluna fjalla um það hvernig stríðsrekstur framtíðar gæti litið út með áherslu á tækniþróun og aðlögun NATO að henni. Þá fjallaði skýrslan einnig um stríðið í Úkraínu og hugsanleg áhrif þess á stríðsátök í framtíðinni. Skýrslunni væri ætlað að vera umræðuvettvangur fyrir þingmenn og yrði uppfærð fyrir ársfund NATO-þingsins eftir að tekið hefði verið tillit til breytingartillagna frá nefndarmönnum.
    Jovita Neliupsiene, aðstoðarráðherra efnahags- og nýsköpunarmála í Litháen, ávarpaði vísinda- og tækninefndina og svaraði spurningum nefndarmanna. Njáll Trausti Friðbertsson spurði hana hver væri lykillinn að velgengni Litháens í netöryggismálum. Neliupsiene svaraði því til að mikil áhersla hefði verið lögð á netöryggismál um árabil í Litháen og að auknu fjármagni og fræðslu væri varið til málaflokksins. Þá taldi hann gagnlegt að málaflokkurinn væri á einni hendi og í Litháen væri hann á hendi varnarmálaráðuneytis.
    Andrés Ingi Jónsson tók þátt í umræðum um skýrslu um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á almannaöryggi. Hann benti á að í skýrslunni væri rætt um losunartölur vegna hervæðingar og spurði hvort ekki væri gagnlegra að bæta þá mælikvarða sem eru nú þegar til staðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í stað þess að þróa nýja mælikvarða eingöngu fyrir losun herafla. Julijus Grubliauskas, sérfræðingur í málefnum orkuöryggis og loftslagsbreytinga hjá NATO, svaraði því til að sum aðildarríki NATO vildu ekki deila tölfræðilegum upplýsingum um losun og bandalagið gæti ekki krafið þau um slíkar upplýsingar. Hann væri þó sammála Andrési Inga um að innleiðing staðla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) varðandi losun væri æskileg.
    Nefnd um lýðræði og öryggi fjallaði um drög að þremur skýrslum. Í fyrsta lagi um það hvernig styrkja megi innviði og varnir bandalagsins gegn netógnum, í öðru lagi um hlutverk NATO við að varðveita mannúðarrými og í þriðja lagi um loftslagsbreytingar og leiðir til að takmarka áhrif þeirra á almannaöryggi. Andrés Ingi Jónsson tók þátt í umræðum nefndarinnar og benti m.a. á að samhliða baráttu gegn netógnum þyrfti að stíga varlega til jarðar varðandi söfnun og úrvinnslu upplýsinga um almenning. Þekkt væri af umræðu um fjarskiptamál innan Evrópusambandsins að ríkjum hætti til að setja reglur um allt of víðtæka og almenna gagnageymd gagnvart öllum almenningi sem í sinni verstu mynd gætu gengið gegn grunngildum mannréttinda. Fleiri þingmenn viku að þessum þætti í umræðunum og tóku undir mikilvægi þess að ná jafnvægi í gagnasöfnun í þágu almannaöryggis.
    Nefnd um efnahagsmál ræddi um skýrsludrög um efnahagslegar áskoranir vegna spillingar, málefni Vestur-Balkanskaga, stríðið í Úkraínu og stefnumótandi viðskiptaáskoranir og hvernig tryggja mætti nauðsynlegar aðfangakeðjur. Gintare Skaiste, fjármálaráðherra Litháens, ávarpaði nefndina og svaraði spurningum nefndarmanna. Andrés Ingi Jónsson benti á að í máli hennar hefði komið fram að í kjölfar stríðsins í Úkraínu hefðu stjórnvöld hraðað útgjaldaaukningu til varnarmála, þannig að þegar á þessu ári stefndi í að þau myndu ná því markmiði sem sett var fyrir árið 2030. Hann spurði hvort sama máli gegndi um útgjöld til orkuskipta og loftslagsmála, enda hefði komið fram að ríkisstjórnin liti á það sem þjóðaröryggismál að gera landið óháð erlendu jarðefnaeldsneyti. Ráðherrann svaraði því að markmið Litháens væru með þeim metnaðarfyllri innan Evrópusambandsins og að erfitt væri að hraða þeim mikið frá því sem þegar væri.
    Þá fjallaði varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins um drög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um innrás Rússlands í Úkraínu og afleiðingar fyrir varnir NATO og nýja grunnstefnu bandalagsins, næsta um þróun hryðjuverkaógnar og viðbrögð NATO og sú þriðja um áskoranir NATO vegna netárása. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að NATO tryggði vernd innviða gegn netárásum og að það kæmi fram í nýrri grunnstefnu NATO.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 30. maí þar sem gestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Gerald E. Connolly, forseti NATO-þingsins, Gitanas Nauseda, forseti Litháens, Jehor Tsjerníev, formaður þingmannanefndar Úkraínu hjá NATO-þinginu, Rúslan Stefantsjúk, forseti úkraínska þingsins, Matti Vanhanen, forseti finnska þingsins, Andreas Norlén, forseti sænska þingsins og Mircea Geoanã, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO. Geoanã ræddi m.a. um stríðið í Úkraínu, nýja grunnstefnu NATO sem lögð verður fram til samþykktar á leiðtogafundi bandalagsins í júní og netárásir sem vaxandi áhyggjuefni þar sem eðli þeirra er annað en það sem þekkst hefði og erfitt væri að rekja slíkar árásir.
    Njáll Trausti Friðbertsson áréttaði eindreginn stuðning Íslands við aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar að NATO og lagði áherslu á að bæði löndin myndu efla og styrkja varnir og fælingarmátt bandalagsins. Hann sagði einnig ljóst að norðurslóðir væru sífellt að verða mikilvægari, ekki síst í ljósi þróunar alþjóðastjórnmála, viðskipta og öryggismála. Þá væri ekki ólíklegt að Rússar myndu til lengri tíma litið endurmeta afstöðu sína gagnvart NATO á norðurslóðum ef aðild norðurskautsríkjanna tveggja yrði að veruleika. NATO yrði því að vera viðbúið þeim möguleika að Rússar brygðust við þróun mála á svæðinu með aukinni hervæðingu.
    Jafnframt spurði Njáll aðstoðarframkvæmdastjóra NATO hvaða áhrif þróun mála á svæðinu hefði á hlutverk NATO á norðurslóðum. Með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO yrðu sjö af átta norðurskautsríkjum aðildarríki NATO. Geoanã svaraði því til að innganga Finnlands og Svíþjóðar í NATO hefði sannarlega mikil áhrif á stöðugleika á Eystrasaltssvæðinu. NATO hefði hins vegar ekki beinu hlutverki að gegna á norðurslóðum en með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar myndi áhersla á svæðið aukast. Áfram yrði þó lögð áhersla á sameiginleg markmið aðildarríkjanna og norðurskautsríkjanna um að viðhalda norðurslóðum sem lágspennusvæði þar sem stöðugleiki og samstarf ríkir.
    Þingfundur kaus um tvær ályktanir, annars vegar um stuðning við Úkraínu og hins vegar um það hvernig takast eigi á við ógn Rússa í tengslum við stríðið í Úkraínu. Voru ályktanirnar samþykktar samhljóða en Andrés Ingi Jónsson sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Einnig hittust formenn landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) þar sem farið var yfir þróun mála í varnar- og öryggismálum ríkjanna. Áhersla var lögð á stuðning við aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar að NATO.


Fylgiskjal IV.


FRÁSÖGN
af ársfundi NATO-þingsins í Madríd 18.–21. nóvember 2022.


    Ársfundur NATO-þingsins var haldinn dagana 18.–21. nóvember í Madríd. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, og Andrés Ingi Jónsson, varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli sextán skýrslna sem unnar voru af nefndarmönnum og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst hefur borið í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og greidd atkvæði um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru stríðið í Úkraínu, ný grunnstefna NATO, netöryggi, loftslagsbreytingar og spilling. Einnig fór fram umræða um það hvernig NATO-þingið gæti aukið stuðning sinn við Úkraínu og styrkt aðlögun landsins að stofnunum Evró-Atlantshafssvæðisins. Þingið lýsti yfir staðföstum stuðningi við lýðræði, sjálfstæði og fullveldi Úkraínu og fordæmdi tilefnislausa og ólögmæta innrás Rússa í Úkraínu. Um 268 þingmenn frá 30 aðildarríkjum NATO og fulltrúar 21 aukaaðildar- og áheyrnarríkis, auk alþjóðastofnana, sóttu ársfundinn.
    Stjórnarnefnd NATO-þingsins hélt fund í tengslum við ársfundinn. Á fundinum voru m.a. teknar ákvarðanir um starfsemi, fjármál og helstu viðfangsefni NATO-þingsins fyrri hluta árs 2023. Áhersla var lögð á innrás Rússa í Úkraínu en einnig var rætt um inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í bandalagið og fulltrúar Tyrklands og Ungverjalands hvattir til að fullgilda aðildarumsókn þeirra án tafar í þjóðþingum sínum. Þá var rætt um uppfærða stefnu NATO sem samþykkt var í júní á leiðtogafundi NATO, þar sem rík áhersla er lögð á grunngildi bandalagsins; lýðræði og frelsi. Gerald E. Connolly, forseti NATO-þingsins, áréttaði í opnunarræðu sinni eindreginn stuðning við Úkraínu eins lengi og þörf krefði. Hann sagði að framtíð lýðræðisins væri í húfi og að Úkraínumenn berðust daglega fyrir lýðræðislegri framtíð sinni.
    Stjórnmálanefnd samþykkti á fundi sínum skýrslur um pólitíska aðlögun og viðbrögð NATO við stríði Rússlands í Úkraínu og mat á nýrri varnarstefnu og innleiðingu ákvarðana leiðtogafundarins í Madríd 2022. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í umræðum nefndarinnar og bað Tomás Valásek, skýrsluhöfund, að útfæra nánar öryggisógnir á norðurslóðum. Valásek benti á að hernaðarátök gætu átt sér stað á norðurslóðum í framtíðinni þar sem Rússar myndu halda áfram að fjárfesta á svæðinu. Bandalagið þyrfti að vera viðbúið þeim möguleika þó að áfram yrði lögð áhersla á að viðhalda stöðugleika á svæðinu. Að auki samþykkti nefndin skýrslur um NATO og Indó-Kyrrahafssvæðið og þróun mála í Afganistan, auk ályktunar um veruleikann sem blasir við eftir leiðtogafund NATO í Madríd.
    Nefnd um lýðræði og öryggismál samþykkti þrjár skýrslur á fundum sínum. Sú fyrsta fjallaði um aðgerðir til að varðveita mannúðarrými, önnur um hvernig efla mætti vernd mikilvægra innviða gegn netógnum og sú þriðja um skilning, aðlögun og takmörkun áhrifa loftslagsbreytinga. Í umræðum um skýrslu um aðgerðir til að varðveita mannúðarrými benti Andrés Ingi Jónsson á að þar sem vísað væri til ýmist beinna eða óbeinna áhrifa erlendra aðila á deilur í ríkjum á borð við Írak, Líbíu, Sýrland og Jemen væri mikilvægt að ræða nauðsyn þess að herða reglur og styrkja eftirlit með vopnasölu. Skýrsluhöfundurinn, Rodrigue Demeuse, tók undir þetta og benti á að innan Evrópusambandsins væri mikið rædd sú þversögn að evrópsk vopn rötuðu oft á vettvang átaka þar sem Evrópusambandsríki beittu sér í þágu friðar. Í umræðum um vernd mikilvægra innviða gegn netógnum benti Andrés Ingi á að skýrsluhöfundur hefði tekið til greina umræðu frá síðasta fundi nefndarinnar um mikilvægi þess að ekki væri gengið of langt í söfnun og úrvinnslu upplýsinga um almenning, sem í sinni verstu mynd gæti gengið gegn grunngildum mannréttinda. Í tengslum við skýrslu um skilning, aðlögun og takmörkun áhrifa loftslagsbreytinga spunnust miklar umræður um hugtakið „loftslagsflóttafólk“ sem sumum nefndarmönnum þótti ganga óþarflega langt og ekki vera í fullu samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. Andrés Ingi var í hópi þeirra nefndarmanna sem taldi mikilvægt að nota þetta skýra hugtak í samhengi skýrslunnar, þar sem lagaleg skilgreining flóttamannasamningsins væri barn síns tíma og hugtakið lýsti ástandi sem væri til staðar og myndi ágerast á næstu árum og áratugum. Þá samþykkti nefndin ályktun um hvernig styrkja mætti viðnámsþrótt aðildarríkjanna gegn netógnum. Enn fremur var Andrés Ingi kjörinn fulltrúi þingmannaráðs um Úkraínu og NATO (e. Ukraine–NATO Interparliamentary Council, UNIC).
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins samþykkti á fundi sínum ályktun og skýrslu um innrás Rússa í Úkraínu, efnahagslegar afleiðingar og viðbrögð. Í ályktuninni er m.a. lögð áhersla á að refsiaðgerðir hafi veikt efnahag Rússlands. Þá er lýst yfir áhyggjum af því að stríðið hafi haft neikvæðar efnahagslegar afleiðingar á heimsvísu og hægt á vexti og keyrt upp verð á t.d. hrávöru, matvælum og orku.
    Vísinda- og tækninefnd ræddi þrjár skýrslur á fundum sínum og fjallaði sú fyrsta um það hvernig NATO gæti eflt getu bandalagsins á sviði vísinda og tækni, önnur um baráttuna gegn loftslagsbreytingum og hlutverk tækninnar og sú þriðja um nýsköpun í tækni fyrir framtíðarhernað og var Njáll Trausti Friðbertsson höfundur hennar. Hann kynnti skýrsluna fyrir nefndinni og sagði m.a. að framtíð hernaðar myndi aðallega byggjast á tækniþróun. Ný tækni myndi leiða til þess að hernaðargeta yrði samtengdari, treysti meira á gervigreind og yrði stafrænni í eðli sínu. NATO þyrfti að sjá fyrir og aðlaga sig að nýjum öryggisógnum á sama tíma og bandalagið legði áherslu á sameiginlegar varnir og fælingarmátt. Njáll Trausti var jafnframt kjörinn aðalskýrsluhöfundur nefndarinnar. Andrés Ingi tók þátt í umræðum um skýrslu um loftslagsbreytingar og minnti á umræðu á fyrri stigum um það hversu bagalegt það væri að losun herafla á gróðurhúsalofttegundum væri ekki hluti af losunarbókhaldi aðildarríkja. Hvatti hann aðildarríki til að ganga fram með góðu fordæmi og gera grein fyrir slíkri losun í opinberu bókhaldi sínu gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 21. nóvember þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu ávarp voru Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, Gerald E. Connolly, forseti NATO-þingsins, og Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar. Vólódímír Selenskí ávarpaði fundinn með fjarfundarbúnaði frá Kænugarði og kallaði eftir frekari stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Hann sagðist viss um að Úkraínumenn gætu varið land sitt og endurreist landamærin með utanaðkomandi aðstoð. Með mátt lýðræðisins að vopni gæti enginn harðstjóri fyrir austan Úkraínu ógnað Evrópu. Í framhaldinu samþykkti þingfundur ályktun um hvernig efla mætti stuðning við Úkraínu og styrkja aðlögun landsins að stofnunum Evró-Atlantshafssvæðisins. Þá var franska þingkonan Joëlle Garriaud-Maylam kosin nýr forseti NATO-þingsins. Einnig tók Olha Stefanísjina, aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu í málefnum er tengjast aðlögun landsins að Evrópu og Evró-Atlantshafssvæðinu, við viðurkenningu NATO-þingsins sem veitt er árlega og ber yfirskriftina „Konur í þágu friðar og öryggis“.
    Njáll Trausti Friðbertsson tók til máls á þingfundinum og vakti athygli á málefnum norðurslóða og auknu vægi svæðisins í alþjóðlegri umræðu. Hann sagði innrás Rússa í Úkraínu hafa bundið enda á tímabil lágspennu og samvinnu eftir kalda stríðið. Hann undirstrikaði hversu erfitt það væri fyrir ríki að fylgjast með hafsvæðum sínum, einkum á norðurslóðum, þar sem gervihnettir skipta sköpum svo að hægt sé að greina og fylgjast með virkni í rauntíma. Einnig væri brýnt að gera ráð fyrir því að Rússar brygðust við atburðum líðandi stundar á norðurslóðum en með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO yrðu sjö af átta norðurskautsríkjum aðildarríki. Hann benti á að á undanförnum árum hefðu bandalagsríki NATO og Rússland aukið heræfingar á svæðinu. Því væri mikilvægt, þrátt fyrir sameiginleg markmið um stöðugleika og samvinnu á norðurslóðum, að íhuga möguleikann á því að Rússar ákveði að beita herafla á norðurslóðum og í Eystrasalti. Enn fremur áréttaði Njáll Trausti eindreginn stuðning Íslands við aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar og sagði að bæði löndin myndu styrkja varnir og fælingarmátt bandalagsins.
    Stoltenberg tók undir orð Njáls Trausta og sagði ljóst að aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO myndi styrkja bandalagið enn frekar. Ríkin hefðu unnið mjög náið með NATO um árabil, hefðu sterkar lýðræðislegar stofnanir og byggju yfir mikilli getu á varnarsviði öryggismála. Þá sagði hann að aukin áhersla yrði lögð á öryggismál á norðurslóðum vegna ógnar af hálfu Rússa, enda væri svæðið afar mikilvægt með tilliti til öryggismála í Evrópu og á Atlantshafi.
    Þingfundurinn samþykkti sex ályktanir sem miða að því að bandalagið geti staðið við þær varnarskuldbindingar sem lagðar voru fram á leiðtogafundi NATO í júní 2022 og til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum stríðsins í Úkraínu, ógnum gagnvart netöryggi, áhrifum loftslagsbreytinga og spillingu. Þingið áréttaði stuðning sinn við lýðræði, sjálfstæði, fullveldi og landhelgi Úkraínu og fordæmdi harðlega tilefnislausa og ólögmæta innrás Rússa í Úkraínu. Andrés Ingi Jónsson tók ekki þátt í atkvæðagreiðslum. Enn fremur hittust formenn landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) á fundi þar sem farið var yfir þróun mála í varnar- og öryggismálum ríkjanna. Áhersla var lögð á stuðning við aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar að NATO.


Fylgiskjal V.


Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 2022.


     .      Yfirlýsing 473 um stuðning við Úkraínu.

     .      Yfirlýsing 474 um það hvernig takast eigi á við ógn Rússa í tengslum við stríðið í Úkraínu.

     .      Ályktun 475 um netöryggi og hvernig styrkja megi viðnámsþrótt bandalagsins.

     .      Ályktun 476 um stuðning við varnar- og fælingarmátt NATO.

     .      Ályktun 477 um spillingu.

     .      Ályktun 478 um stríð Rússlands gegn Úkraínu, efnahagslegar afleiðingar og svörun.

     .      Ályktun 479 um varnarskuldbindingar NATO sem lagðar voru fram á leiðtogafundinum í Madríd.

     .      Ályktun 480 um loftslagsbreytingar og alþjóðlegt öryggi.