Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1050  —  680. mál.




Fyrirspurn


til mennta- og barnamálaráðherra um sérfræðingateymi vegna barna með fjölþættan vanda og barna sem vegna fötlunar sinnar þurfa annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldna þeirra.

Frá Oddnýju G. Harðardóttur.


     1.      Eru upplýsingar sem finna má á vef Stjórnarráðsins um sérfræðingateymi vegna barna með fjölþættan vanda og barna sem vegna fötlunar sinnar þurfa annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldna þeirra, sbr. 20. og 21. gr. laga nr. 38/2018, réttar? Ef ekki, hvenær var teymið skipað og hvar má afla upplýsinga um það?
     2.      Hvernig er sjónarmiða fötlunarréttar og þekkingar á honum gætt í störfum teymisins?
     3.      Hvernig er málsmeðferð teymisins háttað og hvaða verklagsreglur eru til um framkvæmdina?
     4.      Hvernig er tilvísunum/beiðnum til teymisins háttað?
     5.      Hversu margar tilvísanir/beiðnir hefur teymið fengið frá því að lög nr. 38/2018 tóku gildi 1. október 2018?
     6.      Hvað hefur teymið komið að mörgum málum fatlaðra barna frá gildistöku laga nr. 38/2018?
     7.      Í hversu mörgum málum hefur teymið veitt formlega ráðgjöf um veitingu stoðþjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018 og að hvaða þjónustuformi hefur ráðgjöfin um þjónustuveitingu miðast?
     8.      Hversu margar ákvarðanir um búsetu fatlaðs barns utan heimilis hefur teymið tekið frá gildistöku laga nr. 38/2018, í hvaða úrræði hafa börnin verið flutt og á grundvelli hvaða laga hefur ákvörðun um búsetu og þjónustu verið reist, barnaverndarlaga, nr. 80/2002, laga nr. 38/2018 eða hvorra tveggja laganna?
     9.      Er heimilt að ákvarða um búsetu fatlaðs barns utan heimilis án aðkomu sérfræðingateymisins og ef svo er, á hvaða lagagrundvelli hvílir ákvörðunin og meðferðin?
     10.      Hversu margar ákvarðanir um búsetu og/eða vistun fatlaðs barns utan heimilis hafa verið teknar án aðkomu teymisins frá því að lög nr. 38/2018 tóku gildi?
     11.      Verði sveitarfélag ekki við ákvörðun teymisins, hvert geta einstaklingar þá leitað til að fá ákvörðun framfylgt?


Skriflegt svar óskast.