Ferill 512. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1117  —  512. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna.


     1.      Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá forsætisráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
                  b.      hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
                  c.      hversu mörg ný störf er um að ræða.
     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.

    Skipað var í eitt embætti skrifstofustjóra á tímabilinu en aðrir starfsmenn voru ráðnir. Ekki er getið um aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar í svarinu en kveðið er á um ráðningu þeirra og undanþágu frá auglýsingaskyldu í starf aðstoðarmanns í 22. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Þá tekur svarið mið af því að ein ótímabundin ráðning sérfræðings fluttist til forsætisráðuneytisins við flutning mannréttindamála til ráðuneytisins frá dómsmálaráðuneytinu við myndun ríkisstjórnar 28. nóvember 2021, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Loks taka upplýsingarnar mið af því að einn starfsmaður með ótímabundna ráðningu var fluttur til forsætisráðuneytisins frá öðru ráðuneyti á tímabilinu, án auglýsingar, á grundvelli heimildar í 2. mgr. 21. gr. sömu laga, sbr. og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Eftirfarandi tafla sýnir fjölda ráðninga og skipana í embætti hjá forsætisráðuneytinu á tímabilinu, tímabundnar eða ótímabundnar ráðningar/skipanir, hversu mörg ný störf hafi verið að ræða og hversu margar stöður voru auglýstar:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     3.      Hver var fjöldi stöðugilda hjá forsætisráðuneyti við skipan nýrrar ríkisstjórnar í nóvember 2017 samanborið við fjölda stöðugilda í september 2022? Hafi orðið breyting á málefnasviði ráðuneytisins á þessum tíma er óskað eftir að tilgreind sé breyting á starfsmannafjölda með tilliti til þess.
    Í samræmi við fyrirspurnina tekur svar ráðuneytisins mið af fjölda stöðugilda á tímabilinu en ekki fjölda starfsfólks. Fjöldi stöðugilda í nóvember 2017 var 32,9 en í september 2022 voru stöðugildin 41.
    Töluverð breyting hefur orðið á málefnasviði ráðuneytisins frá því í nóvember 2017. Við uppskiptingu velferðarráðuneytisins í upphafi árs 2019 voru jafnréttismálin flutt frá ráðuneytinu til forsætisráðuneytisins. Við flutning stjórnarmálefnisins voru þrjú föst stöðugildi og tvö tímabundin flutt til forsætisráðuneytisins. Í samræmi við áherslur ríkisstjórnar í jafnréttismálum og til að efla umgjörð málaflokksins var sett á laggirnar sérstök skrifstofa jafnréttismála í forsætisráðuneytinu og þar skipaður skrifstofustjóri til að stýra daglegum rekstri hennar. Þá var á fjárlögum 2020 jafnframt gert ráð fyrir viðbótarstöðugildi á skrifstofuna til frekari eflingar málaflokksins.
    Á árinu 2019 var umsýsla á ráðherrabifreiðum endurskoðuð með það fyrir augum að ná fram hagkvæmari rekstri allra ráðherrabifreiða, skýrari umgjörð um notkun þeirra og efldu hlutverki bifreiðastjóra. Við breytingar tók Umbra, rekstrarfélag Stjórnarráðsins, yfir ráðningarsamband ráðuneytisins við bifreiðastjóra ráðherra.
    Við myndun núverandi ríkisstjórnar í nóvember 2021 voru mannréttindamálin flutt til ráðuneytisins frá dómsmálaráðuneytinu og fluttist með því eitt stöðugildi. Á sama tíma var framfylgd laga og reglna um undirbúning stjórnarfrumvarpa flutt frá ráðuneytinu til dómsmálaráðuneytisins en við það fluttust sex stöðugildi frá forsætisráðuneytinu.
    Með bréfi umboðsmanns Alþingis árið 2021 var þeirri ábendingu komið á framfæri við ráðuneytið að hugað yrði að úrbótum hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál varðandi starfsskilyrði og starfsaðstöðu nefndarinnar, t.d. með því að fjölga starfsmönnum, í því skyni að stytta afgreiðslutíma mála hjá nefndinni. Í samræmi við framangreint var aflað viðbótarfjár fyrir eitt stöðugildi til að styðja betur við starfsemi nefndarinnar.
    Við útgáfu forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 125/2021, voru í fyrsta skipti tilgreind sérstök áherslumál á sviði samhæfingar, þ.m.t. um réttlát umskipti og sjálfbæra þróun. Í samræmi við framangreint var ráðinn sérstakur leiðtogi á sviði sjálfbærrar þróunar í ágúst sl. í forsætisráðuneytinu m.a. til að fylgja eftir áhersluatriðum núverandi ríkisstjórnar um mótun stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Þá hefur ráðuneytið ráðið til sín starfsfólk á tímabilinu í því skyni að styrkja og efla grunnstarfsemi þess, þ.m.t. ritara, upplýsingafulltrúa og starfsmann í veitingaumsjón.

     4.      Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá forsætisráðuneyti á kjörtímabilinu?
    Enginn viðbótarkostnaður er áætlaður á kjörtímabilinu vegna fjölgunar starfsfólks hjá ráðuneytinu. Þá má geta þess að forsætisráðuneytið hefur ekki orðið fyrir viðbótarkostnaði vegna flutnings stjórnarmálefna til ráðuneytisins á kjörtímabilinu, en gert er ráð fyrir því í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 115/2011 að við flutning stjórnarmálefna milli ráðuneyta, sbr. 1. mgr. 4. gr. sömu laga, skuli flytja fjárheimildir og starfsmenn milli ráðuneyta að því marki sem eðlilegt er talið að teknu tilliti til umfangs verkefna og aðstæðna.