Ferill 783. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1196  —  783. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2022.


1. Inngangur.
    Á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2022 bar hæst innrás Rússlands í Úkraínu en einnig var áberandi umræða um mögulegan fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru haldnir fjórum sinnum á ári í viku í senn í Strassborg. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var fyrsti fundur ársins haldinn með blönduðu fyrirkomulagi þar sem formönnum og varaformönnum landsdeilda var boðið að vera í Strassborg en aðrir þingmenn tengdust gegnum fjarfundabúnað. Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu ákvað framkvæmdastjórn Evrópuráðsins, í fyrsta sinn í sögu þingsins, að boða til aukafundar. Eina dagskrármál fundarins var innrás Rússlands í Úkraínu. Niðurstaða þingsins var að rússnesk stjórnvöld hefðu brotið alvarlega gegn stofnskrá Evrópuráðsins og stæðu ekki við skuldbindingar sínar gagnvart ráðinu. Þingið lagði því til að ráðherranefndin færi fram á að rússnesk stjórnvöld drægju sig tafarlaust úr Evrópuráðinu eða, ef stjórnvöld færu ekki að tilmælunum, vísaði Rússum úr Evrópuráðinu eins fljótt og auðið væri. Álitið var samþykkt einróma með 216 atkvæðum, en þrjú sátu hjá. Sama dag og Evrópuráðsþingið ræddi álit sitt sendi utanríkisráðherra Rússlands framkvæmdastjóra Evrópuráðsins bréf þar sem tilkynnt var um ósk rússneskra stjórnvalda um að draga sig út úr Evrópuráðinu. Daginn eftir þingfundinn, 16. mars, ákvað ráðherranefndin að vísa Rússlandi úr Evrópuráðinu samdægurs.
    Aðrir þingfundir ársins fóru fram venju samkvæmt og án teljandi áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Utan þingfunda funduðu málefnanefndir þingsins en í upphafi árs fóru fundirnir fram í gegnum fjarfundarbúnað. Bjarni Jónsson tók sæti í framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins á fyrsta þingfundi ársins í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var skipuð framsögumaður af hálfu laga- og mannréttindanefndar í málefnum mannréttindaverndar. Þá var hún einnig framsögumaður tveggja skýrslna. Á þingfundi í júní lagði hún fram skýrslu um hvernig koma mætti í veg fyrir mismunun á grundvelli bólusetningar og á þingfundi í október kynnti hún skýrslu um pólitíska fanga í Rússlandi. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir heimsótti jafnframt Úkraínu á vegum Evrópuráðsþingsins í júlí og tók þátt í kosningaeftirliti í Búlgaríu um mánaðamótin september október. Þá tók Birgir Þórarinsson einnig þátt í kosningaeftirliti á vegum Evrópuráðsþingsins í Serbíu.
    Stjórnarnefnd hélt sérstaka umræðu um mögulegan fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins á fundi sínum í Dublin í maí. Leiðtogafundir hafa verið haldnir þrisvar sinnum frá stofnun Evrópuráðsins árið 1949, í Vínarborg árið 1993, í Strassborg árið 1997 og í Varsjá árið 2005. Á fundinum var lögð áhersla á nauðsyn þess að leiðtogar aðildarríkja Evrópuráðsins ræddu hvað hefði áunnist og hvað mistekist á þeim 70 árum sem liðin væru frá stofnun Evrópuráðsins. Viðbrögð Evrópuráðsins við innrás Rússa í Úkraínu í febrúar hefðu verið rétt og leiðtogafundur væri tækifæri til að taka afgerandi afstöðu í nýjum veruleika alþjóðastjórnmálanna. Á fundinum lýsti Bjarni Jónsson, formaður Íslandsdeildar, yfir stuðningi við það að skipulagður yrði fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins til að styrkja undirstöður stofnunarinnar og standa vörð um mannréttindi og lýðræði fyrir alla Evrópubúa. Hann benti á að í aðdraganda loka kalda stríðsins hefði verið haldinn mikilvægur leiðtogafundur á Íslandi og í ljósi formennsku Íslands í ráðherranefndinni undir lok árs hefðu íslensk stjórnvöld lýst vilja sínum til að halda fjórða leiðtogafundinn í Reykjavík.
    Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði þingfund Evrópuráðsþingsins í október með fjarfundarbúnaði. Hann gagnrýndi ákvörðun þingsins sem tekin var árið 2019 um að samþykkja kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar eftir nokkurra ára hlé á þátttöku þeirra eftir hernámið. Hann fagnaði hins vegar viðbrögðum þingsins eftir innrásina í Úkraínu og að Rússum hefði verið vísað úr ráðinu í mars. Selenskí sagði Evrópuríki aldrei hafa verið jafn sameinuð og nú. Saman hefðu ríkin einangrað rússnesk stjórnvöld og látið þau finna fyrir því að stríðinu fylgdu kostnaðarsamar afleiðingar. Nauðsynlegt væri að draga rússnesk stjórnvöld til ábyrgðar sem árásarríki og rétta yfir hverjum og einum stríðsglæpamanni. Þá kallaði Selenskí eftir því að enn frekar yrði stutt við varnir Úkraínu, sérstaklega með loftvarnarkerfum til að verjast loftárásum Rússa.
    Síðasti fundur ársins fór fram í Reykjavík í lok nóvember í kjölfar þess að Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu fyrr í mánuðinum. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, flutti opnunarávarp en auk hans sátu fundinn Bjarni, formaður Íslandsdeildar, og Þórhildur Sunna, varaformaður. Á fundinum var fjallað um ályktanir og tilmæli þingsins um hlutverk Evrópuráðsins, um lýðræði á tímum neyðarástands í heilbrigðismálum, um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á borgaralegt samfélag og fanga í Evrópu, um öryggi aðfanga í heilbrigðiskerfinu, um áskoranir í tengslum við rakningar-öpp, um samskipti Evrópuráðsþingsins við þjóðþingið í Jórdaníu og um eftirlit þingsins með kosningum í Bosníu og í Búlgaríu.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 af tíu Vestur-Evrópuríkjum. Aðildarríkin eru nú 46 talsins með samtals um 830 milljónir íbúa og mynda eina órofa pólitíska heild í álfunni að Rússlandi, Belarús og Kósovó undanskildum en Rússlandi var vísað úr ráðinu í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022. Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Með það að markmiði beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Mannréttindasáttmálinn er þeirra þekktastur og á honum grundvallast Mannréttindadómstóll Evrópu. Dómstóllinn tekur til meðferðar kærur frá aðildarríkjum, einstaklingum og hópum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmálans og eru dómar hans bindandi að þjóðarétti fyrir viðkomandi ríki.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga- og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007.
    Framkvæmdarvald Evrópuráðsins er í höndum ráðherranefndarinnar, en í henni sitja utanríkisráðherrar aðildarríkjanna eða fastafulltrúar þeirra í Strassborg. Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga aðildarríkjanna en einnig hafa sveitar- og héraðsstjórnir aðildarríkjanna samráð á ráðstefnu sveitar- og héraðsstjórna.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál. Á Evrópuráðsþinginu eiga 306 fulltrúar sæti og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og sex flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar og formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins og ráðherranefndar Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.
    Hlutverk þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á, og
          vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Sáttmáli Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúl-samningurinn, er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins. Istanbúl-samningurinn tók gildi árið 2014 og Ísland fullgilti hann í apríl 2018. Þingmenn á Evrópuráðsþinginu gegna einnig því mikilvæga hlutverki að velja dómara við Mannréttindadómstól Evrópu og kjósa í embætti Evrópuráðsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Rússlandi, Belarús og Kósovó undanskildum, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins og stutt hana. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi íslenskrar þátttöku á Evrópuráðsþinginu og þá hagsmuni sem í henni felast.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Eftirfarandi aðalmenn áttu sæti í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins á árinu: Bjarni Jónsson, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Pírata, og Birgir Þórarinsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Jódís Skúladóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Björn Leví Gunnarsson, þingflokki Pírata, og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar framan af ári var Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari, en Axel Viðar Egilsson, alþjóðaritari, tók við störfum ritara Íslandsdeildar um miðjan októbermánuð og gegndi því starfi til loka árs 2022.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var sem hér segir:
     *      Stjórnarnefnd: Bjarni Jónsson.
     *      Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Bjarni Jónsson.
     *      Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Bjarni Jónsson.
     *      Laga- og mannréttindanefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
     *      Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Bjarni Jónsson.
     *      Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Birgir Þórarinsson.
     *      Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Birgir Þórarinsson.
     *      Jafnréttisnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
    Flokkahópar Evrópuráðsþingsins skipuðu Íslandsdeildarmeðlimi í eftirfarandi nefndir:
     *      Reglunefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
     *      Eftirlitsnefnd: Bjarni Jónsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Birgir Þórarinsson.
    Bjarni Jónsson tók sæti í framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins á fyrsta þingfundi ársins í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu, þá tók hann einnig þátt í þingmannaneti um heilnæmt umhverfi og átti sæti í sérnefnd um framtíð Evrópuráðsins. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var skipuð framsögumaður af hálfu laga- og mannréttindanefndar í málefnum mannréttindaverndar. Þá var hún einnig skipuð framsögumaður fyrir tveimur skýrslum, annars vegar um hvernig megi koma í veg fyrir mismunum á grundvelli bólusetningarstöðu og hins vegar um pólitískra fanga í Rússlandi. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fór jafnframt í heimsókn til Úkraínu í júlí og í kosningaeftirlit til Búlgaríu um mánaðamótin september, október. Þá tók Birgir Þórarinsson þátt í kosningaeftirliti á vegum Evrópuráðsþingsins í Serbíu.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2022.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru að jafnaði haldnir í Evrópuhöllinni í Strassborg fjórum sinnum á ári, í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 24.–28. janúar.
    Fundur Evrópuráðsþingsins var haldinn með blönduðu fyrirkomulagi þar sem formönnum og varaformönnum landsdeilda var boðið að vera í Strassborg en aðrir þingmenn tengdust gegnum fjarfundabúnað. Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Bjarni fór fyrir hönd Íslandsdeildar til Strassborgar ásamt alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins voru m.a. mál Alexeis Navalnís, kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar og sóttvarnaaðgerðir (sjá fylgiskjal 1).

Aukafundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 14.–15. mars.
    Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022 ákvað framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins, í fyrsta sinn í sögu þingsins, að boða til aukafundar. Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Eina dagskrármál fundarins var innrás Rússa í Úkraínu og áhrif stríðsins á stöðu Rússlands í Evrópuráðinu (sjá fylgiskjal 2).

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 24.–28. apríl.
    Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Að þessu sinni bar hæst á dagskrá þingsins umræður um áhrif árásarstríðs Rússa í Úkraínu á starfsemi Evrópuráðsins og viðbrögð aðildarríkja við stríðinu (sjá fylgiskjal 3).

Fundur framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Dublin 30.−31. maí.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var m.a. aðgengi að þungunarrofi, kynjasjónarmið í móttöku innflytjenda og fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins (sjá fylgiskjal 4).

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 20.–24. júní.
    Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins voru m.a. lýðræðisöryggi, áhrif árásarstríðs Rússa í Úkraínu á mannúðarástand og fólksflutninga í Evrópu og mannréttindabrot í Rússlandi (sjá fylgiskjal 5).

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 10.–14. október.
    Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins var m.a. ávarp Vólódímírs Selenskís, forseta Úkraínu, árásarstríð Rússa í Úkraínu og 4. leiðtogafundur Evrópuráðsins (sjá fylgiskjal 6).

Fundur framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Reykjavík 25. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu Bjarni Jónsson, formaður, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, fund stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins í Hörpu í Reykjavík. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, flutti opnunarávarp. Á fundinum var fjallað um ályktanir og tilmæli þingsins um hlutverk Evrópuráðsins, um lýðræði á tímum neyðarástands í heilbrigðismálum, um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á borgaralegt samfélag og fanga í Evrópu, um öryggi aðfanga í heilbrigðiskerfinu, um áskoranir í tengslum við rakningar-öpp, um samskipti Evrópuráðsþingsins við þjóðþingið í Jórdaníu og um eftirlit þingsins með kosningum í Bosníu og í Búlgaríu.

5. Nefndafundir utan þinga.
    Fundir málefnanefnda þingsins fóru fram með fjarfundarbúnaði fram í maí árið 2022. Bjarni Jónsson tók þátt í tveimur fjarfundum og tveimur staðfundum stjórnmálanefndar, fundi þingmannanets um heilnæmt umhverfi, fundi sérnefndar um framtíð Evrópuráðsins, tveimur fundum eftirlitsnefndar og fundi félagsmálanefndar. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók þátt í fjarfundi jafnréttisnefndar, fjarfundi reglunefndar, fjarfundi eftirlitsnefndar og fjórum staðfundum laga- og mannréttindanefndar. Birgir Þórarinsson tók þátt í tveimur fjarfundum eftirlitsnefndar, tveimur fjarfundum og einum staðfundi menningarmálanefndar og tveimur fundum flóttamannanefndar.

Alþingi, 17. febrúar 2023.

Bjarni Jónsson, formaður.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður.
Birgir Þórarinsson.

Fylgiskjal 1.


FRÁSÖGN
af fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg 24.–28. janúar 2022.


    Fundur Evrópuráðsþingsins var haldinn með blönduðu fyrirkomulagi þar sem formönnum og varaformönnum landsdeilda var boðið að vera í Strassborg en aðrir þingmenn tengdust gegnum fjarfundabúnað. Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Bjarni fór fyrir hönd Íslandsdeildar til Strassborgar ásamt alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins voru m.a. mál Alexeis Navalnís, kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar og sóttvarnaaðgerðir.
    Við upphaf þingfundar voru gerðar athugasemdir við kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar bæði á efnislegum og formlegum grundvelli (e. substantive/procedural grounds) með vísun í víðtæk mannréttindabrot í Rússlandi og innlimun Krímskaga. Í kjölfar umfjöllunar málsins í eftirlitsnefnd og reglunefnd þingsins var niðurstaða þingfundar að samþykkja kjörbréf Rússa. Í ályktun þingsins var kallað eftir því að rússnesk stjórnvöld færu að tilmælum þingsins í fyrri ályktunum. Þingið gagnrýndi sérstaklega rússnesk lög sem skylda félagasamtök til að skrá sig sem fulltrúa erlendra aðila ef þau þiggja fjárstyrk erlendis frá, lokun mannréttindasamtakanna Memorial, stöðu stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís, framkvæmd þingkosninganna 2021 og liðssöfnun rússneska hersins við landamæri Úkraínu. Samkvæmt þingsköpum eiga Rússar tilkall til embættis varaforseta Evrópuráðsþingsins en á þingfundi var beðið um að leynileg kosning færi fram um rússneska varaforsetaefnið, Piotr Tolstoi. Svo fór að Tolstoi hlaut ekki meiri hluta atkvæða eftir tvær umferðir kosninga og situr því varaforsetasæti Rússa autt fram að næsta þingfundi.
    Þingið samþykkti ályktun um eitrunartilræðið við Alexei Navalní. Í skýrslu sinni fór framsögumaður ítarlega yfir þau sönnunargögn og vitnisburði sem aðgengilegir væru. Á grundvelli skýrslunnar ályktaði þingið að til staðar væru nægjanleg gögn til að sýna fram á að Navalní hefði verið byrlað taugaeitur sem skylt væri Novichok. Enn fremur benti allt til þess að rússneska leyniþjónustan hefði átt hlut að máli þar sem Navalní var undir eftirliti leyniþjónustunnar þegar eitrað var fyrir honum. Þingið krafðist þess að rússnesk stjórnvöld settu á fót sjálfstæða og óháða rannsókn á málinu og slepptu Navalní tafarlaust úr haldi, líkt og Mannréttindadómstóll Evrópu kallaði eftir í febrúar 2021. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði mál Navalnís snúast um grundvallargildi Evrópuráðsins um skoðanafrelsi, félagafrelsi og bann við refsingu án laga. Hún fagnaði ítarlegri skýrslu framsögumanns og sagði afskiptum þingsins af málinu langt í frá lokið. Sjálf ynni hún að skýrslu um pólitíska fanga í Rússlandi og vonaðist til þess að þingheimur beitti sér fyrir því að hún fengi leyfi til að heimsækja Rússland í tengslum við störf sín.
    Í ályktun um virkni lýðræðisstofnana í Armeníu kom fram að í kjölfar stjórnarskipta árið 2018 hefðu Armenar lagt áherslu á lýðræðislegar umbætur. Þingið mælti með því að stjórnvöld endurskoðuðu kosningakerfi landsins og réðust í umbætur í dómskerfinu og umhverfi fjölmiðla. Bjarni Jónsson talaði fyrir hönd flokkahóps sameinaðra vinstri manna og fagnaði góðu samstarfi armenskra stjórnvalda og Evrópuráðsins. Lýðræðislegar umbætur væru þó erfiðar á meðan átökin milli Armena og Asera væru enn í fersku minni og ekki hefði náðst formleg sátt milli aðila. Bjarni benti á að bættar samgöngur við nágrannalöndin væru forgangsmál armensku ríkisstjórnarinnar og þar gæti alþjóðasamfélagið komið Armenum til aðstoðar. Aukin samskipti samfélaga á svæðinu hefðu jákvæð áhrif á efnahagslífið auk þess að stuðla að friði og stöðugleika á svæðinu. Þá væri ný aðgerðaáætlun fyrir Armeníu í vinnslu í Evrópuráðinu og mundi taka gildi þegar Ísland tæki við formennskunni í ráðherranefnd Evrópuráðsins.
    Þingið samþykkti að halda umræðu með knýjandi málsmeðferð (e. urgent procedure debate) um sóttvarnaaðgerðir í baráttunni við heimsfaraldur kórónuveiru. Í ályktun þingsins kom fram að heimsfaraldur kórónuveiru væri meira en bara heilsufarsmál því að áhrifanna gætti á efnahagslíf og samfélag með aukinni fátækt og ójöfnuði. Þingið hvatti aðildarríkin til að innleiða lýðheilsuaðgerðir og félagslegar aðgerðir til að hvetja til bólusetningar, grímunotkunar og virðingar fyrir nándartakmörkunum auk þess að bæta loftgæði í skólum. Mælt var með því að skylda þá sem starfa með fólki í viðkvæmum hópum í heilbrigðisþjónustu eða félagsþjónustu til að láta bólusetja sig. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varaði við því að hvetja aðildarríkin til að setja á bólusetningarskyldu. Tregða fólks við að þiggja bólusetningu stafaði ekki af sjálfselsku eða andfélagslegum viðhorfum fólks heldur frekar skorti þess á trausti til opinberra stofnana. Hún benti á að hægt væri að vinna markvissar að því að leiðrétta falsfréttir og bæta upplýsingagjöf. Þvinguð bólusetning mundi hins vegar bara grafa enn frekar undan trausti almennings til stjórnvalda og jaðarsetja fólk. Hún ítrekaði að fólk hefði rétt á því að gefa upplýst samþykki fyrir heilbrigðisþjónustu og einnig að afþakka hana. Sem framvörður mannréttinda ætti Evrópuráðsþingið að stíga varlega til jarðar í að mæla fyrir bólusetningarskyldu.
    Þingið ræddi tvær skýrslur um málefni hinsegin fólks, annars vegar um baráttu gegn auknu hatri gegn hinsegin fólki í Evrópu og hins vegar um brot á réttindum hinsegin fólks á Suður-Kákasussvæðinu. Í ályktun sem byggði á þeirri fyrri fordæmdi þingið ofbeldisfullar árásir á hinsegin fólk í Evrópu. Kallað var eftir því að stjórnvöld í Ungverjalandi endurskoðuðu nýlegar breytingar á stjórnarskrá sem takmarka réttindi hinsegin fólks, auk þess sem svokölluð „hinsegin-laus“ svæði í Póllandi voru harðlega gagnrýnd. Þá voru rússnesk stjórnvöld hvött til að afnema lög um bann við „hinsegin áróðri“. Í skýrslu framsögumanns kom fram að orðið hefði vart við aðför að réttindum trans fólks í löndum þar sem hingað til hefði ríkt almennur skilningur og viðurkenning gagnvart trans fólki, t.d. í Bretlandi og á Spáni. Breskir þingmenn mótmæltu þessu og reyndu árangurslaust að fá tilvísun í versnandi stöðu hinsegin fólks í Bretlandi fjarlægða úr ályktuninni. Í ályktun um mannréttindabrot gagnvart hinsegin fólki á Suður-Kákasussvæðinu voru stjórnvöld í Armeníu, Aserbaísjan og Georgíu hvött til að setja lög gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar eða kyneinkenna. Einnig hvatti þingið til þess að siðareglur þingmanna og fjölmiðlafólks í þessum löndum yrðu endurskoðaðar til að leggja bann við hatursorðræðu gegn hinsegin fólki.
    Í ávarpi sínu á þinginu var Zeljko Komsic, forseti Bosníu, ómyrkur í máli í lýsingum sínum á stjórnkerfi eigin lands. Við undirritun Dayton-friðarsamningsins í lok Bosníustríðsins hefði verið fest í sessi stjórnkerfi sem gerði ráð fyrir valddreifingu milli þjóðernishópanna þriggja sem byggju í landinu. Í Bosníu væru við lýði þrjú þingræðiskerfi og aðgangur að opinberum störfum, útboðum og samningum hvíldi á þjóðerni. Þetta kerfi byði upp á fyrirgreiðslustjórnmál og spillingu. Stjórnkerfið væri þannig grundvöllur kerfisbundinnar mismununar á grundvelli þjóðernis og fimm dómar Mannréttindadómstólsins hefðu úrskurðað gegn slíkri mismunun í Bosníu. Þetta væri ekki lýðræði að hans mati og fullkomlega óásættanlegt fyrirkomulag.
    Á fyrsta degi þingsins var Tiny Kox, öldungardeildarþingmaður frá Hollandi og meðlimur í flokkahópi sameinaðra vinstri manna, kjörinn forseti þingsins með 164 atkvæðum gegn 80 atkvæðum Mariiu Mezentseva, þingkonu frá Úkraínu og meðlims í flokkahópi evrópskra þjóðarflokka. Benedetto Della Vedova, undirráðherra í utanríkisráðuneyti Ítalíu, kynnti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins og Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, ávarpaði þingfund og sat fyrir svörum. Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um rétt barna til að taka þátt í lýðræðislegri umræðu, um skort á aðgerðum í loftslagsmálum sem brot á réttindum barna, um mannréttindi í tengslum við samning ESB um fólksflutninga og hælisleitendur, um hlutverk fjölmiðla á erfiðleikatímum, um stjórnun fótboltasamtaka, um íþróttamál á erfiðleikatímum, um þvinguð mannshvörf í löndum Evrópuráðsins, um sögukennslu í Evrópu, um eftirlit þingsins með framfylgd skuldbindinga aðildarríkja og um kosningaeftirlit í Búlgaríu og Kirgistan. Þá var haldin sérstök umræða um öryggisógnir í Evrópu. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var kjörin sérlegur framsögumaður um málefni baráttufólks fyrir mannréttindum.
    Samhliða þingfundum fundaði formaður Íslandsdeildar með Ragnhildi Arnljótsdóttur, fastafulltrúa Íslands gagnvart Evrópuráðinu. Formaður sat einnig fund framkvæmdastjórnar þingsins.
Fylgiskjal 2.


FRÁSÖGN
af aukafundi Evrópuráðsþingsins í Strassborg 14.–15. mars 2022.


    Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022 ákvað framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins, í fyrsta sinn í sögu þingsins, að boða til aukafundar. Eina dagskrármál fundarins var innrás Rússa í Úkraínu og áhrif stríðsins á stöðu Rússlands í Evrópuráðinu. Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara.
    Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, hóf fundinn með því að biðja þingmenn að rísa úr sætum og minnast fórnarlamba stríðsins með mínútu þögn. Í ræðu sinni sagði Kox að rússnesk stjórnvöld hefðu farið gegn grundvallargildum Evrópuráðsins og því væri þingið nú beðið um að taka fordæmalausar ákvarðanir. Ráðherranefnd Evrópuráðsins hefði leitað til þingsins um álit á því hvort vísa ætti Rússum endanlega úr Evrópuráðinu.
    Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, ávarpaði þingið með fjarfundarbúnaði og krafðist þess að Rússlandi yrði tafarlaust vísað úr Evrópuráðinu. Hann benti á að rétturinn til lífs væri fótum troðinn í aðildarríki Evrópuráðsins af öðru aðildarríki. Nauðsynlegt væri að bregðast við af hörku. Hann hvatti þingmenn til að standa saman, ekki aðeins til að verja Úkraínu heldur til að verja alla Evrópu. Hann kallaði einnig eftir því að lofthelgi Úkraínu yrði lokað og að falsfréttir frá rússneskum stjórnvöldum yrðu upprættar. Hann þakkaði nágrannaríkjum Úkraínu fyrir að veita konum og börnum á flótta skjól.
    Benedetto Della Vedova, undirráðherra í utanríkisráðuneyti Ítalíu, sagði Evrópuráðið hafa staðið í stafni við að tryggja skjót og samhæfð viðbrögð við innrás Rússlands í Úkraínu. Daginn eftir að innrásin hófst fundaði ráðherranefndin með þinginu og ákvað í kjölfarið að svipta Rússa þátttökuréttindum sínum í stofnunum Evrópuráðsins, þar á meðal þinginu, á grundvelli 8. gr. stofnskrár Evrópuráðsins. Skömmu síðar ákvað ráðherranefndin að biðja þingið um að gefa álit sitt á því hvort vísa ætti Rússum endanlega úr Evrópuráðinu á grundvelli sömu greinar.
    Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, fordæmdi árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu og sagði rússnesk stjórnvöld brjóta gegn 3. gr. stofnskrár Evrópuráðsins sem kveður á um viðurkenningu grundvallarreglna og tryggingu mannréttinda og frelsis. Stríðið væri harmleikur fyrir Úkraínu og Evrópuráðið stæði með Úkraínumönnum. Á þeim erfiðu tímum sem fram undan væru mundu markmið Evrópuráðsins ekki breytast. Evrópuráðið stæði áfram vörð um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið til hagsbóta fyrir alla borgara aðildarríkjanna.
    Þingmenn ræddu drög að áliti þingsins til ráðherranefndarinnar um afleiðingar innrásarinnar fyrir aðild Rússlands að Evrópuráðinu. Bjarni Jónsson sagði árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu skýrt brot á alþjóðalögum og afturhvarf til fortíðar. Rússnesk yfirvöld yrðu að stöðva hernaðinn án tafar ef þau vildu tilheyra samfélagi þjóða. Þar til það yrði gert ætti Rússland ekki heima í Evrópuráðinu. Bjarni sagði hug sinn vera hjá saklausu fólki í Úkraínu og þeim sem væru á faraldsfæti í leit að öryggi. Nauðsynlegt væri að bregðast við þeirri miklu þörf sem væri fyrir mannúðaraðstoð í Úkraínu og í nágrannalöndum þar sem flóttafólk leitaði skjóls. Evrópulönd þyrftu að taka á móti flóttafólki á skjótan og skilvirkan hátt. Bjarni sagði daginn sögulegan fyrir Evrópuráðið. Aðildarríkin, utan Rússlands, stæðu sameinuð í viðbrögðum sínum við innrásinni og aðgerðir þeirra mundu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir árásaraðilann.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fordæmdi árásarstríðið og lýsti samstöðu sinni með úkraínsku þjóðinni um leið og hún hvatti til þess að Rússlandi yrði samstundis vikið úr Evrópuráðinu. Hún kallaði eftir því að Evrópuráðið og þingið gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að standa vörð um mannréttindi í Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Rússlandi. Hún benti á að í Rússlandi undir stjórn Pútíns hefði markvisst verið unnið gegn stjórnarandstöðu. Hún hefði sjálf unnið skýrslu Evrópuráðsþingsins um stöðu krímverskra Tatara árið 2021 þar sem fram kom að rússnesk stjórnvöld beittu aftökum og pyntingum gegn minnihlutahópum og andófsmönnum Pútíns. Þórhildur Sunna sagði það skyldu Evrópuráðsríkja að vernda mannréttindafrömuði, fréttamenn og starfsmenn frjálsra félagasamtaka og hvatti til þess að baráttufólki fyrir mannréttindum frá Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Rússlandi yrðu veittar vegabréfsáritanir. Þá væri forgangsmál að sigrast á hindrunum rússneskra stjórnvalda gegn miðlun upplýsinga til almennings í Rússlandi svo að rússneska þjóðin gæti skilið til fulls þá hræðilegu glæpi sem ríkisstjórn þeirra fremdi í Úkraínu. Upplýsingar væru öflugasta vopnið gegn innrásinni.
    Birgir Þórarinsson sagði stríð Pútíns í Úkraínu vera glæp gegn mannkyninu og stríð gegn Evrópu og lýðræðinu. Mikilvægt væri að horfa til sögunnar því að einræðisherrum væri ekki treystandi. Ef Pútín yrði ekki stöðvaður mundi hann ganga lengra. Hann hefði logið að eigin þjóð og að alþjóðasamfélaginu. Árásarstríð Rússa væri alvarleg ógn við þjóðaröryggi Evrópulanda og Bandaríkjanna. Viðskiptaþvinganir væru byrjaðar að skila árangri en Pútín þyrfti að svara til saka fyrir glæpi sína gegn mannkyninu. Aðeins ætti að létta viðskiptaþvingunum ef rússneska þjóðin risi upp gegn einræðisherranum. Birgir kallaði eftir aukinni mannúðaraðstoð og einnig hernaðaraðstoð við Úkraínu. Sjálfur væri hann nýkominn frá Lvív þar sem hann hefði heimsótt sjúkrahús og séð skelfilegar afleiðingar stríðsins. Við pólsku landamærin hefði hann orðið vitni að fjölskyldum kveðja feður og eiginmenn sem urðu eftir til að berjast.
    Fjölmargar breytingartillögur voru lagðar fram við álit þingsins en framsögumaður átti samráð við úkraínsku landsdeildina og fleiri til að miðla málum varðandi orðalag. Í álitinu fordæmdi þingið innrásina og lýsti yfir stuðningi við fullveldi og sjálfstæði Úkraínu innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra sinna. Lýst var áhyggjum af alvarlegum mannréttindabrotum og árásum á almenna borgara sem og árásum á kjarnorkuver í Úkraínu. Aðildarríki Evrópuráðsins voru hvött til að aðstoða úkraínsk stjórnvöld við að vernda landsvæði sitt og lofthelgi til að draga úr mannfalli. Þá lýsti þingið því yfir að hætta skyldi samvinnu þingsins við stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi í ljósi þátttöku þeirra í árásinni. Niðurstaða þingsins var að rússnesk stjórnvöld hefðu brotið alvarlega gegn stofnskrá Evrópuráðsins og stæðu ekki við skuldbindingar sínar gagnvart ráðinu. Þingið lagði því til að ráðherranefndin færi fram á að rússnesk stjórnvöld að drægju sig tafarlaust úr Evrópuráðinu eða, ef stjórnvöld færu ekki að tilmælunum, vísaði Rússum úr Evrópuráðinu eins fljótt og auðið væri. Álitið var samþykkt einróma með 216 atkvæðum, en þrjú sátu hjá.
    Samhliða þingfundum fundaði Íslandsdeild með Ragnhildi Arnljótsdóttur, fastafulltrúa Íslands gagnvart Evrópuráðinu, og starfsfólki fastanefndarinnar. Þá tók formaður Íslandsdeildar þátt í fundi framkvæmdastjórnar þingsins. Á þingfundi var einnig haldinn stofnfundur samtaka þingkvenna á Evrópuráðsþinginu, Women@PACE.
    Sama dag og Evrópuráðsþingið ræddi álit sitt sendi utanríkisráðherra Rússlands framkvæmdastjóra Evrópuráðsins bréf þar sem tilkynnt var um ósk rússneskra stjórnvalda um að draga sig út úr Evrópuráðinu. Daginn eftir þingfundinn, 16. mars, ákvað ráðherranefndin að vísa Rússlandi úr Evrópuráðinu samdægurs.

Fylgiskjal 3.


FRÁSÖGN
af fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg 24.–28. apríl 2022.


    Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Að þessu sinni bar hæst á dagskrá þingsins umræður um áhrif árásarstríðs Rússa í Úkraínu á starfsemi Evrópuráðsins og viðbrögð aðildarríkja við stríðinu.
    Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, sagði þingið hafa tekið erfiða en nauðsynlega ákvörðun á sérstökum aukafundi sínum í mars þegar þingið hvatti ráðherranefndina til að víkja Rússum úr Evrópuráðinu. Skilaboð þingsins hefðu verið skýr. Lönd sem réðust inn í nágrannaríki sín ættu ekki heima í Evrópuráðinu. Kox sagði samstöðu aðildarríkjanna aðdáunarverða og að Evrópuráðið stæði sterkara fyrir vikið. Luigi Di Maio, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Ítalíu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, flutti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins. Hann sagði ákvörðunina um að vísa Rússum úr Evrópuráðinu hafa verið óhjákvæmilega en að hún hefði víðtæk áhrif á störf, lagalega stöðu og fjármál Evrópuráðsins. Árásarstríð Rússa í Úkraínu og stuðningur við Úkraínumenn yrði forgangsmál Evrópuráðsins næstu mánuði og efst á baugi ráðherrafundar Evrópuráðsins í maí. Hann hvatti til samvinnu ráðherranefndarinnar og þingsins við að styrkja Evrópuráðið og vinna að friði og lýðræði.
    Þingið tók til meðferðar skýrslu stjórnmála- og lýðræðisnefndar um afleiðingar árásarstríðs Rússa í Úkraínu og áhrif þess á starf Evrópuráðsins. Í ályktun þingsins kom fram að stríðið hefði leitt af sér alvarlegasta mannúðarástand í Evrópu frá seinni heimsstyrjöldinni auk þess sem matvælaöryggi á heimsvísu væri ógnað og orkukostnaður hefði stigið. Kallað var eftir samstöðu landa til stuðnings Úkraínu og að rússnesk stjórnvöld yrðu beitt þrýstingi til að binda skilyrðislaust enda á stríðið. Þingið hvatti til þess að Evrópuráðið yki stuðning og samvinnu við mannréttindafrömuði, sjálfstæða fjölmiðla, fræðasamfélag og lýðræðissinna í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Þá beindi þingið þeim tilmælum til ráðherranefndarinnar að setja á fót embætti sérstaks fulltrúa Evrópuráðsins um stríðið í Úkraínu. Tillagan á rætur að rekja til fastanefndar Íslands gagnvart Evrópuráðinu og tekur ráðherranefndin nú við keflinu.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði mikilvægt að Evrópuráðið nýtti alla þá möguleika sem í boði væru til að styðja úkraínsk stjórnvöld. Þá væri mikilvægt að ná til þeirra sem töluðu fyrir friði í Rússlandi. Hún benti á að í vikunni hefði rússneski stjórnarandstæðingurinn Vladímír Kara-Múrsa verið handtekinn fyrir ummæli sín um rússneska herinn í fjölmiðlaviðtali. Hann ætti nú yfir höfði sér 5–10 ára fangelsi fyrir að kalla stríðið stríð og fordæma árásir á saklausa borgara. Kara-Múrsa hefði komið á fund laga- og mannréttindanefndar í byrjun apríl og verið spurður hvað hægt væri að gera til að styðja stjórnarandstöðuna í Rússlandi. Hann hefði lagt til að rússneskum almenningi yrði gert auðveldara fyrir að koma sér upp VPN-tengingum til að nálgast erlenda fréttamiðla gegnum netið og leyna upplýsingum um notandann. Þórhildur Sunna sagðist vonast til að þessi leið myndi aðstoða Rússa við að skipuleggja annars konar stjórnkerfi í landinu og gæti vonandi leitt til friðar.
    Sérstök umræða með knýjandi málsmeðferð (e. urgent procedure debate) var haldin um að tryggja að þeir sem brjóta alþjóðalög í stríðinu í Úkraínu verði látnir sæta ábyrgð. Í ályktun sinni hvatti Evrópuráðsþingið aðildarríkin til að beita sér fyrir stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls fyrir árásarstríðið í Úkraínu. Þannig væri hægt að kalla til ábyrgðar skipuleggjendur stríðsins, þar á meðal forseta Rússlands. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (e. International Criminal Court, ICC) getur ákært fyrir árásarglæpi eða glæpi gegn friði en til þess þarf samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem Rússar fara með neitunarvald. Þingið lýsti hneykslun sinni á því að pyntingum og nauðgunum væri beitt af rússneskum hermönnum í Úkraínu og benti á að það félli undir skilgreiningar á stríðsglæpum samkvæmt alþjóðalögum. Það væri sérstaklega varhugavert að rússnesk stjórnvöld hefðu veitt herdeildinni sem var staðsett í Bucha í Úkraínu viðurkenningu í kjölfar fréttaflutnings af stríðsglæpum sem framdir voru þar. Með því væru stjórnvöld að senda skelfileg skilaboð til fórnarlamba og fjölskyldna þeirra og hvetja til frekari glæpa. Aðildarríki Evrópuráðsins voru hvött til að senda skýr skilaboð um að þeir sem fremdu glæpi gegn mannkyni eða þjóðarmorð yrðu sóttir til saka og að það ætti líka við um skipuleggjendur stríðsins. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði laga- og mannréttindanefnd halda áfram umfjöllun sinni um stríðsglæpi í stríðinu í Úkraínu. Hún sagðist styðja stofnun sérstaks dómstóls um árásarstríðið í Úkraínu til að tryggja að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, þyrfti að svara fyrir glæpi sína. Hún hvatti einnig aðildarríkin til að styðja við Alþjóðlega sakamáladómstólinn og nýta sér alhliða lögsögu (e. universal jurisdiction) og gefa út ákærur vegna stríðsglæpa í Úkraínu.
    Þingið samþykkti einnig ályktun um það hvernig ætti að nýta haldlagðar og glæpsamlegar eignir í þágu almennings. Í ályktuninni var sérstaklega fjallað um upptöku eigna Rússa sem beittir væru viðskiptaþvingunum vegna þátttöku þeirra í stríðinu í Úkraínu. Þingið benti aðildarríkjum Evrópuráðsins á að húsnæði í eigu slíkra einstaklinga mætti nýta til að hýsa úkraínska flóttamenn. Eignirnar ættu með réttu að renna til rússnesks almennings en á meðan núverandi stjórnvöld væru við lýði væri mikil hætta á að þær yrðu misnotaðar. Þá ítrekaði þingið að rússnesk stjórnvöld yrðu að bæta Úkraínumönnum tjónið sem árásarstríðið hefði valdið og að eignir sem gerðar hefðu verið upptækar í öðrum ríkjum gætu nýst í þeim tilgangi.
    Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, ávarpaði þingið og sagði alþjóðasamfélagið allt bera ábyrgð á að tryggja frið. Hann sagði stríð vera óseðjandi dýr og að brot rússneskra stjórnvalda gegn alþjóðalögum gætu verið fordæmisgefandi og leitt af sér fleiri stríð. Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sagði frá vinnu við aðgerðaráætlun Evrópuráðsins um aðstoð við Úkraínu. Hún lýsti einnig vonbrigðum sínum með lífstíðardóm tyrkneskra dómstóla yfir Osman Kavala og sagði dómstólana hafa tvívegis gengið gegn tilmælum Mannréttindadómstóls Evrópu um að láta Kavala lausan. Hún fordæmdi einnig fregnir af því að Dick Marty, fyrrverandi meðlimur Evrópuráðsþingsins, hefði fengið líflátshótanir vegna skýrslu hans um meint líffærasmygl í Kósovó.
    Í ályktun um baráttu gegn óhóflegri valdbeitingu lögreglu fordæmdi þingið aðgerðir lögreglu í ýmsum aðildarríkjum, sérstaklega við löggæslu í tengslum við friðsamleg mótmæli, gagnvart innflytjendum eða í kjölfar átaka. Ítrekað var að valdbeiting lögreglu þyrfti að vera nauðsynleg, hófsöm og gæta jafnræðis. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir benti á að lögreglan væri ein af örfáum stofnunum ríkisins sem mætti beita þegnana valdi. Þessum völdum fylgdi mikil ábyrgð. Nauðsynlegt væri að styrkja löggæslu og vernd borgaranna gegn lögregluofbeldi. Til þess þyrfti að setja á fót sjálfstæðar eftirlitsstofnanir sem hefðu ekki tengsl við lögregluna og vinna gegn kynþáttafordómum innan lögreglunnar. Einnig þyrfti að veita lögregluþjónum þjálfun og þekkingu á réttindum borgaranna, sérstaklega réttinum til friðsamlegra mótmæla.
    Í árlegri skýrslu sinni til þingsins lýsti Dunja Mijatovic, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, áhyggjum af versnandi stöðu mannréttinda á árinu 2021. Hún sagði þróunina ekki nýja en að staðan færi versnandi, hvort sem horft væri til réttinda til friðsamlegra mótmæla, réttinda kvenna, hinsegin fólks, mannréttindafrömuða eða fólks með fötlun. Það alvarlegasta væri hvernig grafið væri undan réttarríkinu sem væri grunnforsenda mannréttinda.
    Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um hvernig hamla megi aðgengi barna að klámi, um aukið samstarf Evrópuráðsins við Evrópusambandið, um afstofnanavæðingu fólks með fötlun, um baráttu gegn mismunun á grundvelli uppruna, um að vernda og efla raunverulegt lýðræði í Evrópu og um eftirlit þingsins með framfylgd skuldbindinga Georgíu gagnvart Evrópuráðinu. Þá var Mykola Gnatovskyy kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Úkraínu.
    Samhliða þingfundum fundaði formaður Íslandsdeildar með Ragnhildi Arnljótsdóttur, fastafulltrúa Íslands gagnvart Evrópuráðinu. Formaður sat einnig fundi framkvæmdastjórnar þingsins. Þá var fyrrverandi formaður Íslandsdeildar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sæmd titli heiðursmeðlims Evrópuráðsþingsins.

Fylgiskjal 4.


FRÁSÖGN
af fundum framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Dublin 30.−31. maí 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Bjarni Jónsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var m.a. aðgengi að þungunarrofi, kynjasjónarmið í móttöku innflytjenda og fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins.
    Seán Ó Fearghaíl, forseti neðri deildar írska þingsins, opnaði fundinn og fjallaði um óréttlátt og siðlaust stríð rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Hann gagnrýndi sérstaklega rússneska þingmenn fyrir samþykki þeirra fyrir stríðsrekstri stjórnvalda. Tími væri til kominn að einhverjir þeirra 450 þingmanna sem ættu sæti á rússneska þinginu sýndu nægilegt hugrekki til að mótmæla stríðinu. Mark Daly, forseti efri deildar þingsins, hvatti einnig viðstadda til að styðja við hraða meðferð umsóknar Úkraínu að Evrópusambandinu.
    Stjórnarnefnd hélt sérstaka umræðu um mögulegan fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins. Leiðtogafundir hafa verið haldnir þrisvar sinnum frá stofnun Evrópuráðsins árið 1949, í Vínarborg árið 1993, í Strassborg árið 1997 og í Varsjá árið 2005. Frummælandi umræðunnar lagði áherslu á nauðsyn þess að leiðtogar aðildarríkja Evrópuráðsins ræddu hvað hefði áunnist og hvað mistekist á þeim 70 árum sem liðin væru frá stofnun Evrópuráðsins. Viðbrögð Evrópuráðsins við innrás Rússa í Úkraínu í febrúar hefðu verið rétt og leiðtogafundur væri tækifæri til að taka afgerandi afstöðu í nýjum veruleika alþjóðastjórnmálanna. Bjørn Berge, varaframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sagðist sannfærður um að tími væri kominn til að halda fjórða leiðtogafundinn og benti á að meirihluti utanríkisráðherra Evrópuráðsins hefði lýst sig sammála því á ráðherrafundi í Tórínó fyrr í maí. Stóra spurningin væri hvar og hvenær slíkur fundur gæti farið fram. Berge taldi rétt að nýta slagkraftinn í umræðunni og halda leiðtogafund frekar fyrr en síðar. Ákveðið hefði verið að stofna sérstaka nefnd um málið innan Evrópuráðsins. Nefndinni væri ætlað að fjalla um viðbrögð Evrópuráðsins við þeim áskorunum sem nú blöstu við stofnuninni og afmarka umfjöllunarefni leiðtogafundar. Berge benti á að Evrópuráðið væri eina alþjóðastofnunin sem hefði vikið Rússum úr röðum sínum í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Þetta sýndi leiðtogahæfni og bæri vitni um hversu mikla virðingu aðildarríkin bæru fyrir gildum Evrópuráðsins. Bjarni Jónsson, formaður Íslandsdeildar, lýsti yfir stuðningi við það að skipulagður yrði fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins til að styrkja undirstöður stofnunarinnar og standa vörð um mannréttindi og lýðræði fyrir alla Evrópubúa. Miklar breytingar hefðu átt sér stað í Evrópu og nauðsynlegt væri að leiðtogar Evrópu kæmu saman og reyndu að stýra þessari þróun þannig að það yrði til hagsbóta fyrir alla og gildum stofnunarinnar til framdráttar. Hann benti á að í aðdraganda loka kalda stríðsins hefði verið haldinn mikilvægur leiðtogafundur á Íslandi og í ljósi komandi formennsku Íslands í ráðherranefndinni hefðu íslensk stjórnvöld lýst vilja sínum til að halda fjórða leiðtogafundinn í Reykjavík.
    Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, kynnti áherslur írskra stjórnvalda meðan á formennsku landsins í Evrópuráðinu stæði. Hann sagði stríðið í Úkraínu hafa gjörbreytt forgangsmálum Evrópuráðsins. Hann harmaði að aðgerðir rússneskra stjórnvalda hefðu leitt það af sér að rússneskur almenningur væri nú sviptur vernd öflugustu mannréttindastofnunar Evrópu. Samstaða aðildarríkja Evrópuráðsins í ráðherranefndinni og í þinginu um að víkja Rússlandi úr Evrópuráðinu hefði verið aðdáunarverð. Nú riði á að halda sömu samstöðu varðandi stuðning við Úkraínu og við Evrópuráðið í ljósi breytts rekstrarumhverfis stofnunarinnar eftir brotthvarf Rússa. Coveney sagðist mundu gera sitt besta til að fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins yrði haldinn meðan á írsku formennskunni stæði. Hann vildi byggja á þeim áhuga sem utanríkisráðherrar aðildarríkjanna hefðu lýst yfir í Tórínó. Hvar sem leiðtogafundurinn færi fram, í Kænugarði, Reykjavík, Dublin eða Strassborg, væri nauðsynlegt að leiðtogar Evrópuráðsríkja kæmu saman fyrr en síðar og ítrekuðu mikilvægi Evrópuráðsins. Í formennskutíð sinni myndu Írar leggja höfuðáherslu á að styrkja undirstöður Evrópuráðsins, virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu. Þá mundi formennskan einnig beita sér fyrir auknu þátttökulýðræði, aðkomu ungs fólks að stjórnmálum og móttöku flóttafólks.
    Stjórnarnefnd samþykkti ályktun um samþættingu kynjasjónarmiða í stefnu um móttöku flóttafólks og innflytjenda. Í ályktuninni var vakin athygli á vannýttum hæfileikum innflytjendakvenna í Evrópu. Kallað var eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins hefðu kynjasjónarmið að leiðarljósi í allri löggjöf og stefnumótun varðandi málefni innflytjenda og flóttafólks. Þingið kallaði eftir því að aðildarríkin berðust gegn hvers konar ofbeldi og misrétti gagnvart innflytjendum og þá sérstaklega kynbundnu ofbeldi. Þá var hvatt til aukinnar þátttöku kvenna, sérstaklega úr hópi innflytjenda og flóttafólks, í stefnumótun á vegum stjórnvalda.
    Í ályktun um aðgengi að þungunarrofi lýsti þingið áhyggjum af aukinni áreitni og ofbeldi frá andstæðingum þungunarrofs. Birtingarmyndir slíkrar áreitni væru t.d. sálrænn þrýstingur fyrir utan heilbrigðisstofnanir þar sem þungunarrof væri framkvæmt, orðræða á netinu, ofsóknir dómstóla gegn baráttufólki fyrir réttinum til þungunarrofs, stofnunum eða frjálsum félagasamtökum og ógnir og hótanir gegn heilbrigðisstarfsfólki. Þingið fordæmdi slíka áreitni sem skýrt brot á réttinum til einka- og fjölskyldulífs, tjáningarfrelsis og félagafrelsis. Slík áreitni græfi undan réttindum sem bundin væru í lög í flestum aðildarríkjum Evrópuráðsins og væri hluti af víðtækari aðför að réttindum kvenna. Kallað var eftir því að aðildarríki tryggðu raunverulegt aðgengi og upplýsingagjöf um þungunarrof til að valdefla konur og aðstoða þær við að taka upplýstar ákvarðanir.
    Í ályktun um fíkn í lyfseðilsskyld lyf ítrekaði þingið rétt sjúklinga til bestu mögulegu læknismeðferðar og aðgengis að nauðsynlegum lyfjum. Bent var á að fíkn í lyfseðilsskyld lyf væri kerfisbundið félagslegt vandamál sem krefðist heildstæðrar og þverfaglegrar nálgunar. Kallað var eftir því að aðildarríki færu að ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og þróuðu leiðbeiningar og viðmið um notkun og ávísun ávanabindandi lyfja.
    Þá samþykkti stjórnarnefnd ályktun um upprætingu sárrar fátæktar barna. Þingið lýsti því yfir að óásættanlegt væri að sum börn í aðildarríkjum Evrópuráðsins byggju við sára fátækt. Aðildarríki Evrópuráðsins voru hvött til að ráðast gegn orsökum vandans, þar á meðal með því að fara að tilmælum í félagsmálasáttmála Evrópu (e. European Social Charter), og útrýma algerlega sárri fátækt barna á heimsvísu fyrir árið 2030.
    Bjarni Jónsson sat einnig fund framkvæmdastjórnar þingsins.

Fylgiskjal 5.


FRÁSÖGN
af fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg 20.–24. júní 2022.


    Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins voru m.a. lýðræðisöryggi, áhrif árásarstríðs Rússa í Úkraínu á mannúðarástand og fólksflutninga í Evrópu og mannréttindabrot í Rússlandi.
    Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, setti þingfund með því að biðja þingmenn að rísa úr sætum til að sýna samstöðu sína með fórnarlömbum stríðsins í Úkraínu. Kox hvatti rússnesk stjórnvöld og almenning til að binda tafarlaust enda á stríðsreksturinn.
    Evrópuráðsþingið hélt sérstaka málstofu í þingsal um lýðræðisöryggi (e. democratic security). Svetlana Tíkhanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús, var meðal framsögumanna. Hún sagði ógn steðja að gildum Evrópuráðsins. Enn á ný geisaði stríð í Evrópu og fólk væri hvatt til að gefa eftir frekar en að standa gegn árásarhneigð. Hún sagði sigur sinn í kosningunum 2020 sýna skýrt að almenningur í Belarús líti á sig sem Evrópubúa og vilji fá landið sitt til baka og aftur í faðm Evrópu. Hún hvatti til þess að sett yrði á fót sérnefnd um málefni Belarús í Evrópuráðinu. Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, lýsti skýlausri samstöðu Evrópuráðsins með Úkraínumönnum. Skrifstofa Evrópuráðsins í Kænugarði hefði verið enduropnuð til að aðstoða saksóknara við rannsókn á mannréttindabrotum. Einnig hefði verið samþykkt aðgerðaáætlun í málefnum Úkraínu. Aðrir þátttakendur í málstofunni voru Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, og Tiny Kox, forseti þingsins. Í umræðum í kjölfarið sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir mikilvægt að formgera samstarf þingsins við borgaralegt samfélag í Rússlandi og Belarús. Einnig þyrfti að halda á lofti málum fólks sem hefði verið fangelsað fyrir að tala gegn sitjandi stjórnvöldum.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður skýrslu um pólitíska fanga í Rússlandi. Í ályktuninni lýsti þingið áhyggjum af vaxandi fjölda pólitískra fanga þar í landi og kerfisbundinni kúgun yfirvalda. Þá fordæmdi þingið ný lög sem banna gagnrýni á rússneska herinn og að innrásin í Úkraínu sé kölluð stríð. Þingið ítrekaði fyrri skilgreiningu sína á því hvað teljist vera pólitískir fangar og kallaði eftir því að tilmælum og dómum Mannréttindadómstólsins yrði fylgt eftir, sérstaklega í málum Alexei Navalní og Alexei Pichugin. Þá voru aðildarríki hvött til að taka á móti umsóknum um pólitískt hæli frá rússneskum stjórnarandstæðingum og mannréttindafrömuðum. Þórhildur Sunna benti á að árásarstríð Rússa í Úkraínu og kúgunin sem stjórnarandstaðan í Rússlandi þyrfti að þola væru tvær hliðar á sama peningnum. Það að fangelsa fólk fyrir að tjá sig væri alvarleg aðför að lýðræðinu. Aðeins með raunverulegu lýðræði með frjálsri umræðu og virkri stjórnarandstöðu væri hægt að tryggja frið. Eftir að stríðið hófst hefðu aðgerðir stjórnvalda gegn andstæðingum þeirra orðið harðari. Að lokum vitnaði Þórhildur Sunna í orð Vladímírs Kara-Múrsa þegar hann kom fyrir þingnefnd í apríl, nokkrum vikum áður en hann var handtekinn fyrir ummæli sín um rússneska herinn í fjölmiðlaviðtali. Í apríl sagði hann: „Stærsti ótti pólitísks fanga er að gleymast.“ Með ályktun sinni tryggði þingið að pólitísku fangarnir gleymdust ekki.
    Þingið samþykkti ályktun um réttlæti og öryggi kvenna í kjölfar friðarsamninga. Í umræðum benti Birgir Þórarinsson á þær áskoranir sem blöstu við konum í kjölfar átaka. Aðgengi að dómstólum væri takmarkað, atvinna væri af skornum skammti og kynbundið ofbeldi væri oft útbreitt þrátt fyrir að bundinn hefði verið endi á átökin. Nauðsynlegt væri að innleiða kynjasjónarmið í uppbyggingu samfélaga í kjölfar átaka til að tryggja þátttöku kvenna í öllum stofnunum samfélagsins og stuðla að kynjajafnrétti.
    Í frjálsum umræðum talaði Bjarni Jónsson fyrir hönd flokkahóps sameinaðra vinstri manna. Hann vakti máls á baráttunni við loftslagsbreytingar og hvatti til þess að nýstofnaður þingmannahópur um heilnæmt umhverfi beitti sér fyrir málefninu á vettvangi þingsins og Evrópuráðsins. Hann ítrekaði nauðsyn þess að flýta orkuskiptum, ekki bara til að berjast gegn loftslagsáhrifum heldur einnig til að svara ákalli um að Evrópulönd verði sjálfum sér nóg um orku.
    Birgir Þórarinsson tók til máls í umræðum um baráttu gegn gyðingahatri í Evrópu. Hann benti á að tilvikum árása og hatursfullrar orðræðu gagnvart gyðingum hefði fjölgað á árinu 2021. Ein orsökin hefði verið harðnandi átök milli Ísraela og Hamas-liða á Gaza í maí 2021. Einnig hefðu komið fram samsæriskenningar um að heimsfaraldur kórónuveiru hefði verið af gyðinga völdum. Berjast þyrfti gegn auknu gyðingahatri á fjölþættan hátt, sérstaklega með aukinni fræðslu.
    Í umræðum um samstarf Evrópuráðsþingsins við þingið í Kirgistan talaði Bjarni Jónsson fyrir hönd flokkahóps sameinaðra vinstri manna. Hann vakti athygli á fregnum af mannréttindabrotum í Kirgistan, þar á meðal pyntingum og takmörkun á tjáningarfrelsi. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir talaði fyrir hönd flokkahóps sósíalista, demókrata og grænna í umræðum um flug MH17, farþegaflugvél sem var skotin niður yfir Úkraínu árið 2014 með 298 manns innan borðs. Hún ítrekaði mikilvægi þess að komast til botns í málinu. Enn væri stórum spurningum ósvarað um hver bæri ábyrgð á störfum herdeildarinnar sem skaut flugskeytinu.
    Í skýrslugjöf sinni til þingsins ítrekaði Simon Coveney, formaður ráðherranefndarinnar, mikilvægi þess að halda leiðtogafund Evrópuráðsins til þess að aðildarríkin gætu endurnýjað samstöðu sína um gildi ráðsins. Hann sagði það ekki skipta máli hvar leiðtogafundurinn yrði haldinn heldur að hann yrði sem fyrst. Í þingfundavikunni var skipuð sérnefnd um framtíð Evrópuráðsins, sem ætlað er að móta áherslur þingsins fyrir komandi leiðtogafund. Í nefndinni sitja forseti þingsins, formenn flokkahópa og fastanefnda auk formanna landsdeilda Írlands og Íslands, en Írar fara með formennsku í ráðherranefndinni og Ísland tekur við í nóvember.
    Þingið samþykkti að halda tvær sérstakar umræður (e. current affairs debate), annars vegar um afleiðingar herkvíar Rússa á Svartahafi og hins vegar um samning breskra stjórnvalda um flutning hælisleitenda til Rúanda þvert á athugasemdir Mannréttindadómstólsins. Í síðarnefndu umræðunum sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir bresk stjórnvöld hafa hreykt sér af því að taka skýra afstöðu gegn dómstólnum. Að hennar mati væri þetta hins vegar veik afstaða og sýndi hræsni breskra þingmanna sem mótmæltu harðlega þegar rússnesk lög voru formlega gerð æðri ákvörðunum dómstólsins. Fleiri lönd hefðu gegnum tíðina reynt að grafa undan dómstólnum þegar dómar hefðu fallið gegn þeim, þar á meðal danskir og íslenskir stjórnmálamenn.
    Þá samþykkti þingið ályktanir og tilmæli til ráðherranefndarinnar um öryggisógnir í Evrópu og hlutverk Evrópuráðsins, um mannréttindi og réttarríkið í héruðum Norður-Kákasusfjallgarðsins í Rússlandi, um afleiðingar innrásarinnar í Úkraínu á mannúðarástand og fólksflutninga, um vernd og umönnun fylgdarlausra barna á flótta og á faraldsfæti, um hlutverk stjórnmálaflokka í að stuðla að fjölmenningarlegu samfélagi, um stjórn tæknifyrirtækja á samskiptum um netið, um framfylgd Möltu á skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu og um baráttu við sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir með bólusetningum.
    Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, flutti þinginu skýrslu sína og sat fyrir svörum. Einnig ávörpuðu þingið Katerina Sakellaropoulou, forseti Grikklands, og Vilhjálmur Alexander, konungur Hollands.
    Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kom í opinbera heimsókn í Evrópuráðið á meðan á þingfundum stóð. Íslandsdeild tók þátt í fundi forsætisráðherra og fastanefndar Íslands í Strassborg með forseta og framkvæmdastjóra Evrópuráðsþingsins þar sem rætt var um aðkomu þingsins í komandi formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins. Einnig áttu íslenskir þingmenn fundi með þingmönnum frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum og fulltrúum hagsmunasamtaka Kúrda. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók þátt í hliðarviðburði um aðgerðir rússneskra stjórnvalda gegn stjórnarandstöðu, ásamt Evgeníu Kara-Múrsa, eiginkonu Vladímírs Kara-Murza, sem var handtekinn í Rússlandi í apríl. Þá sat Bjarni Jónsson einnig fundi framkvæmdastjórnar þingsins.

Fylgiskjal 6.


FRÁSÖGN
af fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg 10.–14. október 2022.


    Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins var m.a. ávarp Vólódímírs Selenskís, forseta Úkraínu, árásarstríð Rússa í Úkraínu og 4. leiðtogafundur Evrópuráðsins.
    Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, þakkaði landsdeild Úkraínu sérstaklega fyrir að koma til þingfundar og bað þingheim að rísa úr sætum til að sýna samstöðu sína með fórnarlömbum stríðsins í Úkraínu. Hann vísaði til sameiginlegrar yfirlýsingar forseta þingsins, formanns ráðherranefndarinnar og framkvæmdastjóra Evrópuráðsins við upphaf þingfundar þar sem loftárásir Rússa í Kænugarði voru fordæmdar. Kox ítrekaði mikilvægi þess að halda 4. leiðtogafund Evrópuráðsins og benti á að umræður um hann færu fram í sameiginlegri nefnd þingsins og ráðherranefndarinnar samhliða þingfundum. Tillögur þingsins fyrir leiðtogafundinn yrðu ræddar á þingfundi í janúar. Þá þakkaði þingforseti Róbert Spanó fyrir störf sín sem forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, en kjörtímabili hans lýkur í nóvember.
    Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði þingfund með fjarfundarbúnaði. Hann benti á að liðnir væru 232 dagar frá því að innrásin hófst og átta ár frá því að Rússar hernámu Krímskaga. Hann gagnrýndi ákvörðun þingsins sem tekin var árið 2019 um að samþykkja kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar eftir nokkurra ára hlé á þátttöku þeirra eftir hernámið. Hann fagnaði því að annað væri uppi á teningnum nú og Rússum hefði verið vísað úr ráðinu í mars. Selenskí sagði Evrópuríki aldrei hafa verið jafn sameinuð og nú. Saman hefðu ríkin einangrað rússnesk stjórnvöld og látið þau finna fyrir því að stríðinu fylgdu kostnaðarsamar afleiðingar. Nauðsynlegt væri að draga rússnesk stjórnvöld til ábyrgðar sem árásarríki og rétta yfir hverjum og einum stríðsglæpamanni. Þá kallaði Selenskí eftir því að enn frekar yrði stutt við varnir Úkraínu, sérstaklega með loftvarnarkerfum til að verjast loftárásum Rússa. Í kjölfar ávarpsins svaraði Selenskí spurningum þingmanna. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði forsetanum frá heimsókn sinni til Úkraínu á vegum Evrópuráðsþingsins um sumarið og lýsti stuðningi sínum við Úkraínumenn. Hún spurði hvort stjórnvöld í Úkraínu hefðu íhugað að þiggja aðkomu alþjóðlegra sérfræðinga þegar kæmi að réttarhöldum yfir rússneskum stríðsglæpamönnum til þess að tryggja að málaferlin yrðu hafin yfir allan vafa. Selenskí sagði Úkraínumenn opna fyrir öllum tillögum. Mestu máli skipti að stofnaður yrði alþjóðlegur glæpadómstóll til að fjalla um árásarstríð Rússlands.
    Í kjölfarið samþykkti þingið ályktun um stigmögnun í árásarstríði Rússlands gegn Úkraínu. Þingið kallaði eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins fordæmdu hinar svokölluðu þjóðaratkvæðagreiðslur í héruðum Úkraínu um sameiningu þeirra við Rússland. Ríkin voru einnig hvött til að lýsa yfir því að sú stjórn sem nú er við völd í Rússlandi væri hryðjuverkastjórn. Þá voru ríkin hvött til að beita sér fyrir stofnun alþjóðlegs stríðsglæpadómstóls til að fjalla um árásarstríð Rússlands. Rússnesk stjórnvöld skyldu tafarlaust draga herlið sitt frá alþjóðlega viðurkenndu landsvæði Úkraínu og sömuleiðis landsvæðum Georgíu og Moldóvu. Einnig skyldu þau hætta árásum á almenna borgara, hætta að nota eldsneyti í kúgunartilgangi, hætta öllum hótunum um beitingu kjarnavopna, hætta afskiptum af kosningum í öðrum löndum og láta af netárásum. Þingið kallaði einnig eftir því að alþjóðastofnanir væru á varðbergi gagnvart starfsfólki af rússnesku þjóðerni sem mögulega gengi erinda stjórnvalda í dreifingu falsfrétta og tilraunum til að hafa áhrif á þessar stofnanir. Birgir Þórarinsson sagði frá upplifun sinni af því að heimsækja Karkív í september og sjá afleiðingar stríðsins með eigin augum. Árásir Rússa á menningarhús væru tilraun til að þurrka út úkraínska menningu sem ekki mundi skila árangri. Hann hvatti þingheim til að beita áhrifum sínum í þágu úkraínsku þjóðarinnar og sýna að þau óttuðust ekki einræðisherrann í Moskvu.
    Thomas Byrne, undirráðherra í utanríkisráðuneyti Írlands, flutti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins. Hann hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að sameinast um að halda leiðtogafund ráðsins í Reykjavík í maí 2023. Aðspurður um áhrif nýlegs fundar leiðtoga Evrópuríkja, undir merkjum European Political Community, sagði Byrne að sá fundur væri eðlisólíkur leiðtogafundi Evrópuráðsins. Hlutverk Evrópuráðsins væri að vinna að framgangi lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins fyrir alla íbúa aðildarríkja.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður skýrslu um hvernig koma mætti í veg fyrir mismunun á grundvelli bólusetningarstöðu. Í ályktuninni ítrekaði þingið að takmörkunum á ferðafrelsi og notkun bólusetningarskírteina skyldi aðeins beita þegar brýn nauðsyn krefði og í þágu lýðheilsu. Þingið lýsti áhyggjum sínum af því að fólki væri mismunað á grundvelli bólusetningarstöðu. Í ræðu sinni kallaði Þórhildur Sunna eftir því að öll viðurkennd bóluefni gegn kórónuveirunni á lista Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar yrðu viðurkennd af aðildarríkjum Evrópuráðsins. Þá ítrekaði hún að þrátt fyrir að bólusetningar skyldu almennt ekki vera lögbundnar gæti verið nauðsynlegt að krefjast þess að þau sem ættu í miklum samskiptum við viðkvæma hópa væru bólusett.
    Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, ávarpaði þingið og lýsti vonbrigðum sínum með ályktun þingsins um líffærasmygl í Kósovó sem samþykkt var árið 2011 (ályktun nr. 1782). Rama gagnrýndi framsögumann og þingið harðlega og sagði engin sönnunargögn vera fyrir þeim staðhæfingum sem settar hefðu verið fram í skýrslunni. Hann bað þingið að fylgja málinu eftir með nýrri ályktun. Þingmenn lýstu flestir óánægju sinni með framgöngu forsætisráðherrans og töldu vegið að framsögumanninum, Dick Marty, sem þarfnast strangrar öryggisgæslu vegna manndrápstilraunar í kjölfar skýrslunnar.
    Mannréttindaverðlaun Evrópuráðsins, kennd við Václav Havel, voru veitt Vladímír Kara-Múrsa, rússneskum stjórnarandstæðingi sem setið hefur í fangelsi í landi sínu frá því í apríl fyrir ummæli sín í fjölmiðlum um stríðið í Úkraínu. Jevgenía Kara-Múrsa, eiginkona Vladímírs, tók við verðlaununum fyrir hönd hans og greindi frá því að verðlaunafénu yrði varið til stuðnings fjölskyldum pólitískra fanga í Rússlandi. Í ræðu frá Vladímír, sem Jevgenía las, kom fram að 19.000 manns hefðu verið handteknir fyrir mótmæli síðan í febrúar. Alþjóðasamfélagið hefði því þúsundir ástæðna fyrir því að hata ekki rússneskan almenning fyrir stríðið í Úkraínu.
    Í frjálsum umræðum fjallaði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir um málefni pólitískra fanga. Hún minnti á að í ályktun þingsins um pólitíska fanga í Rússlandi fyrr á árinu hefði verið hvatt til þess að 30. október yrði tileinkaður pólitískum föngum á alþjóðavísu. Ekkert lýðræði gæti þrifist þegar fólk væri fangelsað fyrir skoðanir sínar eða trú.
    Þingið samþykkti að halda tvær sérstakar umræður, annars vegar um vopnuð átök milli Armeníu og Aserbaísjans og hins vegar um tilraunir til að banna hinsegin viðburði í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Þá samþykkti þingið ályktanir og tilmæli til ráðherranefndarinnar um vestanverðan Balkanskaga, um baráttu gegn múslimahatri í Evrópu, um misnotkun Schengen-samstarfsins gegn einstaklingum í pólitískum tilgangi, um örugg þriðju lönd fyrir hælisleitendur, um frávísun fólks á faraldsfæti, um áhrif úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu á mannréttindi á Írlandi, um mismunun gagnvart konum í íþróttum, um réttindi starfsfólks á nútímavinnumarkaði og um framfylgd Tyrklands, Ungverjalands og Rúmeníu á skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu. Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, flutti þinginu skýrslu sína og sat fyrir svörum. Einnig ávörpuðu þingið Ignazio Cassis, forseti Sviss, og Michael D. Higgins, forseti Írlands. Í kjölfar ákvörðunar framkvæmdastjórnar í september fékk sendinefnd þjóðþings Kósovó í fyrsta sinn rétt til að taka þátt í umræðum í þingsal, en þó án atkvæðisréttar. Kósovó hefur sótt um formlega aðild að Evrópuráðinu og er umsóknin til umfjöllunar í ráðherranefndinni.
    Samhliða þingfundum var haldinn fundur sameiginlegrar nefndar þingsins og ráðherranefndarinnar, sem Bjarni Jónsson sat fyrir hönd Íslandsdeildar. Bjarni sat einnig fundi framkvæmdastjórnar. Þá fundaði Íslandsdeild með fastafulltrúa Íslands gagnvart Evrópuráðinu.

Fylgiskjal 7.

Ályktanir, tilmæli og álit Evrópuráðsþingsins árið 2022.


    Ályktun er ákvörðun Evrópuráðsþingsins eða yfirlýsing um afstöðu þess í tilteknu máli. Tilmæli eru tillögur sem alla jafna byggjast á ályktunum þingsins og er beint til ráðherranefndarinnar sem tekur þær til umfjöllunar og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða tillögu að lagasetningu í aðildarríkjunum. Álit eru oftast gefin sem umsögn eða svör við spurningum sem ráðherranefndin beinir til þingsins, t.d. varðandi inngöngu nýrra aðildarríkja, en einnig um fjárlög Evrópuráðsins og drög að nýjum Evrópusamningum.
    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2022:

Fyrsti hluti þingfundar 24.–28. janúar:
     *      Tilmæli 2218 um réttinn til að láta í sér heyra – Þátttaka barna: grunnur fyrir lýðræðisleg samfélög.
     *      Tilmæli 2219 um aðgerðarleysi í loftslagsbreytingum – Brot á réttindum barna.
     *      Ályktun 2414 um réttinn til þess að láta í sér heyra.
     *      Ályktun 2415 um aðgerðaleysi í loftslagsbreytingum.
     *      Ályktun 2416 um Sáttmála Evrópusambandsins um fólksflutninga og alþjóðlega vernd: mannréttindasjónarmið.
     *      Tilmæli 2220 um baráttu gegn auknu hatri í garð LGBTI-fólks í Evrópu.
     *      Ályktun 2417 um baráttu gegn auknu hatri í garð LGBTI-fólks í Evrópu.
     *      Ályktun 2418 um meint brot á réttindum LGBTI-fólks í Suður-Kákasus.
     *      Ályktun 2419 um hlutverk fjölmiðla á tímum neyðarástands.
     *      Tilmæli 2221 um stjórnun knattspyrnusamtaka: Viðskipti og gildi.
     *      Ályktun 2420 um sama efni.
     *      Ályktun 2421 um íþróttastefnu á viðsjárverðum tímum.
     *      Ályktun 2422 um áskorun, á efnislegum forsendum, vegna skorts á fullgildingu kjörbréfa rússnesku landsdeildarinnar.
     *      Ályktun 2423 um eitrunartilræðið við Alexei Navalní.
     *      Tilmæli 2222 um að sigrast á heimsfaraldri kórónuveiru með lýðheilsuráðstöfunum.
     *      Tilmæli 2223 um að binda enda á þvinguð mannshvörf innan yfirráðasvæðis Evrópuráðsins.
     *      Tilmæli 2224 um athugunarstöð fyrir sögukennslu í Evrópu.
     *      Ályktun 2424 um að sigrast á heimsfaraldri kórónuveiru með lýðheilsuráðstöfunum.
     *      Ályktun 2425 um að binda enda á þvinguð mannshvörf innan yfirráðasvæðis Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 2426 um athugunarstöð fyrir sögukennslu í Evrópu.
     *      Ályktun 2427 um starfsemi lýðræðisstofnana í Armeníu.
     *      Ályktun 2428 um framvindu eftirlitsferlis þingsins (janúar til desember 2021).

Aukafundur 14.–15. mars:
     *     
Álit 300 um afleiðingar af árásarstríði Rússlands gegn Úkraínu.

Annar hluti þingfundar 24.–28. apríl:
     *      Tilmæli 2225 um mat á aðferðum og ákvæðum til að berjast gegn útsetningu barna fyrir klámi.
     *      Ályktun 2429 um sama efni.
     *      Tilmæli 2226 um Lissabon-sáttmálann: Efling stefnumótandi samstarfs milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins.
     *      Ályktun 2430 um sama efni.
     *      Tilmæli 2227 um afstofnanavæðingu fatlaðs fólks.
     *      Ályktun 2431 um sama efni.
     *      Ályktun 2432 um hvernig takast megi á við mismunun á grundvelli félagslegs uppruna.
     *      Tilmæli 2228 um afleiðingar áframhaldandi árásar Rússa gegn Úkraínu: Hlutverk og viðbrögð Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 2433 um sama efni.
     *      Tilmæli 2229 um hvernig nýta megi þýfi sem gert hefur verið upptækt.
     *      Ályktun 2434 um sama efni.
     *      Tilmæli 2230 um hvernig megi berjast gegn og koma í veg fyrir óhóflega og óréttmæta valdbeitingu af hálfu lögreglu.
     *      Ályktun 2435 um sama efni.
     *      Tilmæli 2231um yfirgang Rússlands gegn Úkraínu: Að tryggja ábyrgð á alvarlegum brotum á alþjóðlegum mannúðarlögum og öðrum alþjóðlegum glæpum.
     *      Ályktun 2436 um sama efni.
     *      Tilmæli 2232 um að standa vörð um og efla raunverulegt lýðræði í Evrópu.
     *      Ályktun 2437 um sama efni.
     *      Ályktun 2438 um að virða skuldbindingar Georgíu.

Fundur framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar 30.−31. maí:
     *      Tilmæli 2233 um fíkn af völdum lyfseðilsskyldra lyfja.
     *      Tilmæli 2234 um útrýmingu sárrar fátæktar barna í Evrópu: Alþjóðleg skuldbinding og siðferðileg skylda.
     *      Ályktun 2439 um aðgengi að meðgöngurofi í Evrópu.
     *      Ályktun 2440 um kynjasamþættingu í stefnum á sviði fólksflutninga.
     *      Ályktun 2441 um fíkn af völdum lyfseðilsskyldra lyfja.
     *      Ályktun 2442 um útrýmingu sárrar fátæktar barna í Evrópu: Alþjóðleg skuldbinding og siðferðileg skylda.

Þriðji hluti þingfundar 20.–24. júní:
     *      Ályktun 2443 um hlutverk stjórnmálaflokka í að hlúa að fjölbreytileika og þátttöku: Nýr sáttmáli fyrir samfélag án kynþáttafordóma.
     *      Tilmæli 2235 um nýlegar áskoranir varðandi öryggi í Evrópu: Hvaða hlutverki gegnir Evrópuráðið?
     *      Ályktun 2444 um sama efni.
     *      Tilmæli 2236 um skráð mál pólitískra fanga í Rússlandi.
     *      Ályktun 2445 um áframhaldandi þörf á að endurreisa réttarríkið og virðingu fyrir mannréttindum á Norður-Kákasus svæðinu.
     *      Ályktun 2446 um skráð mál pólitískra fanga í Rússlandi.
     *      Ályktun 2447 um að koma í veg fyrir og berjast gegn gyðingahatri í Evrópu.
     *      Ályktun 2448 um mannúðarafleiðingar og innri og ytri landflótta í tengslum við árás Rússlands á Úkraínu.
     *      Ályktun 2449 um vernd og önnur úrræði fyrir fylgdarlaus börn farandfólks og flóttamanna.
     *      Ályktun 2450 um réttlæti og öryggi fyrir konur í sáttaumleitunum.
     *      Ályktun 2451 um að Malta standi við aðildarskuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu.
     *      Ályktun 2452 um að tryggð verði ábyrgð á gröndun á flugi MH17.
     *      Ályktun 2453 um endurskoðun á samstarfi í þágu lýðræðis að því er varðar kirgíska þingið.
     *      Ályktun 2454 um eftirlit með samskiptum á netinu: Ógn við fjölhyggju fjölmiðla, upplýsingafrelsi og mannlega reisn.
     *      Ályktun 2455 um baráttu gegn sjúkdómum sem hægt er að bólusetja gegn.

Fjórði hluti þingfundar 10.–14. október:
     *      Tilmæli 2237 um stuðning við evrópska sýn fyrir Vestur-Balkanskaga.
     *      Ályktun 2456 um sama efni.
     *      Ályktun 2457 um að vekja athygli á og vinna gegn íslamófóbíu, eða rasisma gegn múslimum, í Evrópu.
     *      Ályktun 2458 um misnotkun á Schengen-upplýsingakerfinu af aðildarríkjum Evrópuráðsins með pólitískum refsiaðgerðum.
     *      Tilmæli 2238 um örugg þriðju lönd fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
     *      Ályktun 2459 um að Tyrkland standi við eigin skuldbindingar.
     *      Ályktun 2460 um að Ungverjaland standi við aðildarskuldbindingar gagnvart Evrópuráðinu.
     *      Ályktun 2461 um örugg þriðju lönd fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
     *      Ályktun 2462 um bakslag á landi og sjó: Ólöglegar aðgerðir á sviði fólksflutninga.
     *      Ályktun 2463 um frekari stigmögnun í yfirgangi Rússlands gegn Úkraínu.
     *      Ályktun 2464 um áhrif Brexit stöðu mannréttinda á Írlandi.
     *      Ályktun 2465 um baráttuna fyrir jafnari stöðu – Afnám mismununar gegn konum í íþróttaheiminum.
     *      Ályktun 2466 um að Rúmenía uppfylli aðildarskuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu.
     *      Tilmæli 2239 um endurskoðun á réttindum launþega.
     *      Ályktun 2467 um sama efni.
     *      Tilmæli 2240 um að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli bóluefna.
     *      Ályktun 2468 um sama efni.

Stjórnarnefndarfundur 25. nóvember:
     *      Tilmæli 2241 um áhrif takmarkana af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru á rými og starfsemi borgaralegs samfélags.
     *      Tilmæli 2242 um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á fanga í Evrópu.
     *      Tilmæli 2243 um að tryggja öruggar aðfangakeðjur innan heilbrigðiskerfisins.
     *      Ályktun 2469 um mat á lýðræðissamstarfinu í tengslum við þing Jórdaníu.
     *      Ályktun 2470 um að standa vörð um stoðir lýðræðis á tímum neyðarástands á sviði heilbrigðisþjónustu.
     *      Ályktun 2471 um áhrif takmarkana af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru á rými og starfsemi borgaralegs samfélags.
     *      Ályktun 2472 um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á fanga í Evrópu.
     *      Ályktun 2473 um að styrkja hlutverk Evrópuráðsins sem hornstein evrópsks stjórnmálaarkitektúrs.
     *      Ályktun 2474 um að tryggja öruggar aðfangakeðjur innan heilbrigðiskerfisins.